2 minute read

Um val á tegundum og yrkjum götu- og torgtrjáa

Samkvæmt könnun sem gerð var á vegum Evrópuverkefnisins COST Action E12 (Pauleit o.fl., 2002) og m.a. Íslendingar tóku þátt í, er fábreytni í tegundavali eitt helsta áhyggjuefni í borgarskógrækt. Fjórar tegundir bera uppi um 70 - 80% allra götutrjáa í NV-Evrópu (Sæbø, 2003). Í London eru um 50% götutrjáa platantré (Platanus x acerifolia) og í Osló eru 80% allra götutrjáa linditré (Tilia sp.) og flest þeirra af einu ákveðnu yrki (Pauleit o.fl., 2002). Sama könnun sýnir að 90% allra götutrjáa í Reykjavík er alaskaösp. Menn eru minnugir þess að hollenska álmsýkin drap á síðustu öld nær öll álmtré, sem voru með algengari götutrjám bæði í Norður-Ameríku og Norður-Evrópu. Hætta er á að mikil aukning veði á útbreiðslu sjúkdóma vegna hnattrænna breytinga eins og aukinnar þéttbýlismyndunar og loftslagbreytinga (Pautasso o.fl., 2010). Nýjasta dæmið er sveppasjúkdómur af völdum Hymenoscyphus fraxineus (syn. Chalara fraxinea) sem hefur dreifst mjög hratt um Norður- og Austur-Evrópu. Meiri hluti (um 90%) allra aska í Danmörku hefur drepist af hans völdum og hefur hann nú einnig fundist á Bretlandseyjum (Pautasso o.fl., 2012 og Vidal, 2015). Til að koma í veg fyrir svona mikinn skaða af völdum sjúkdóma er nú talið forgangsmál að auka fjölbreytni í tegundavali (Santamour, 1990). Vandinn er þó sá að það eru ótrúlega fáar tegundir sem þola það að vera götutré, við þau skilyrði sem eru til staðar víðast hvar (Sjöman og Nielsen, 2010). Þá þarf bæði að taka tillit til landræðilegra skilyrða (t.d. stutt vaxtartímabil á norðurslóðum sem einkennir Ísland) og því erfiða götuumhverfi sem einkennir borgir í auknum mæli. Áður fyrr voru öfgarnar í borgarumhverfi ekki svona miklar og því eru flest eldri götutré uppruninn frá nálægum skógum og hefur tegundaval lítið breytst þrátt fyrir miklar breytingar í umhverfi götutrjáa (Sjöman og Richnau, 2009). Samkvæmt áðurnefndri rannsókn (Pauleit o.fl., 2002) eru eftirtaldar tegundir þær sem mest eru notaðar í NorðurEvrópu:

Mikið notuð tré

Broddhlynur (Acer platanoides) Garðahlynur (Acer pseudoplatanus) Hrossakastanía (Aesculus hippocastanum) Hengibjörk (Betula pendula) Ilmbjörk (Betula pubescens) Alaskaösp (Populus trichocarpa) Reynir (Sorbus spp.) Garðalind (Tilia x europaea) (syn. T. x vulgaris)

Tré notuð í einhverju mæli

Hlynur (Acer spp.) Þyrnir (Crataegus spp.) Eplatré (Malus spp.) Platantré (Platanus x acerifolia) Kirsuberjatré (Prunus avium) Heggur og kirsuber (Prunus padus) Sumareik (Quercus robur) Vetrareik (Quercus petraea) Róbínía (Robinia pseudoacacia) Lind (Tilia spp.) Álmur (Ulmus spp.)

Þær miklu kröfur sem gera þarf til götutrjáa takmarka möguleika okkar á að finna trjátegundir og yrki sem henta og geta komið í stað alaskaasparinnar hérlendis. Í kaflanum Umfjöllun um einstaka tegundir er lagt mat á nokkrar tegundir sem hugsanlega mætti reyna. Það er afar mikilvægt að finna allar mögulegar tegundir sem nothæfar eru sem götutré.

Við val á tegundum er hægt að styðjast við módel Millers (2015). Samkvæmt því eru þrír meginþættir sem þarf að huga að, staðar þættir (site factors), hagrænir þættir (economic factors) og félagslegir þættir (social factors) (mynd 6).

13

This article is from: