3 minute read

Silfurreynir (Sorbus intermedia) Aria-deild

Silfurreynir er harðgert, vind- og saltþolið tré og hefur marga góða eiginleika sem götutré en getur verið nokkuð vangæfur í uppeldi og fyrst eftir útplöntun. Helsti galli hans sem götutré er að hann er nokkuð stofnlágur. Hann myndar fræ með geldæxlun og eru því allir afkomendur eins og móðurtréð. Silfurreynir er langlífastur þeirra reynitegunda sem við ræktum hérlendis, getur orðið 150-200 ára en lifir skemur sem götutré. Hann telst þó ekki langlíft tré samanborið við t.d. garðahlyn. Silfurreynir er fremur hægvaxta. Rótarkerfi er nokkuð djúpstætt. Silfurreynir þolir fremur illa þéttan og blautan súrefnissnauðan jarðveg, þó er hann þolnari heldur en reyniviður, þetta á einnig við um aðrar reynitegundir sem fjallað er um hér.

Silfurreynir þolir klippingu nokkuð vel. Reyniáta er ekki mikið vandamál samanborið við reynivið en erlendis hefur sveppasýking, skyrfi (skurv á dönsku) (Venturia orbiculatum), sem veldur því að blöð visna og falla af, verið til lýta. Eitthvað hefur borið á þessu hérlendis. Upp úr 1980 leiddi þessi sveppasýking til þess í Danmörku að mikið dró úr útplöntun á silfurreyni og var m.a. alpareynir (Sorbus mougeotti) gróðursettur í staðinn þar sem hann er mun heilbrigðari. Þar sem silfurreynir var aðallega fluttur inn frá Danmörku hafði þetta áhrif hér á landi líka og lítið hefur því verið gróðursett af silfurreyni síðan. Alpareynir er hins vegar mun smávaxnari og verður sú arfgerð sem ræktuð hefur verið á Norðurlöndunum ekki nema um 6-8 metra há og stendst því ekki samanburð við silfurreyni.

Í uppeldi á silfurreyni getur reynst erfitt að fá nægjanlega háan stofn hérlendis og því þarf nær skilyrðislaust að flytja inn stórar plöntur erlendis frá. Allur undirbúningur og umhirða þarf einnig að vera góð til að hindra það að nýgróðursettar plöntur fái ekki áfall og „stagneri“ eins og sagt er, þ.e. vaxi lítið sem ekkert í mörg ár og jafnvel koðni niður. Tímasetning útplöntunar skiptir miklu máli í þessu samhengi, ekki ætti að gróðursetja á vaxtartíma. Þetta getur verið vandamál með allar reyniviðartegundir af Aria-deildinni eins og silfurreyni, gráreyni, alpareyni og úlfareyni. Króna silfurreynis er breið og skuggavarp er í meðallagi.

Yrki: Lítið er vitað um mismunandi yrki af silfurreyni hérlendis en í nýlegri danskri bók Trær og busker í by og land eftir Paul Erik Brander (2010) er talað um tvö yrki. ´Browers´ sem er hollenskt með jafna öfugegglaga krónu með uppréttum þéttum greinum og verður 10-12 metrar á 50 árum. Hitt yrkið er ´Annisse Kirke´, nýtt danskt yrki sem eftir 10 ár er 5-6 metrar en 10-12 metrar eftir 50 ár. Krónan er breiðkúpullaga.

Myndir 26 og 27. Silfurreynir t.v. frá 1884 í Víkurgarði/ fógetagarði og t.h. Silfurreynir frá 1930-40 við Hringbraut.

39

Silfurreynir Þol Athugasemdir

Aðlögun að loftslagi B Meðal aðlögunarþol að loftslagi. Haustar sig fremur seint en kelur sjaldan, myndar sjaldan þroskuð fræ. Fær oft áfall við gróðursetningu og vex þá lítið í mörg ár.

Mótstaða gegn sjúkdómum B Meðal mótstaða gegn sjúkdómum.

Aðlögun að umhverfi B Meðal aðlögunarhæfni að umhverfi. Fagurfræðilegir eiginleikar B Fallegt krónuform en litlir eða engir haustlitir og ber þroskast seint og illa. Félagslegir þættir A-B Jákvæð ímynd gagnvart gömlum trjám eins og því í Fógetagarðinum gróðursett 1884. Að öðru leyti engir sérstakir.

Gæði og eiginleikar rótarkerfis

A-B Meðalgott – gott rótarkerfi, nokkuð djúpstætt, þolir blautan og/eða súrefnissnauðan jarðveg mun betur en t.d. reyniviður. Vaxtarlag og form B Meðalgott vaxtarlag og form, stofnhæð full lág.Fjölgar sér með geldæxlun og því allar plöntur eins af fræi.

Vindþol

A Mikið vindþol. Þurrkþol B Meðal þurrkþol, þolir betur salt í jarðvegi en reyniviður. Hætta á greinabroti A Lítil hætta á greinabroti. Þol gegn mengun B Meðal mengunarþol. Saltþol A Mikið saltþol. Þolir illa mikið salt í jarðvegi.

Niðurstaða: Silfurreynir má vel nota hérlendis sem götutré í umhverfi A/B, þar sem nægt rými er og lág króna hans veldur ekki vandræðum. Tímasetning og aðhlynning við og eftir gróðursetningu er afar mikilvæg. Mögulegt að nota í umhverfi A ef plantað er stórum trjám með 1,8-2,5 metra stofnhæð og gætt sérstaklega vel að öllum þáttum og aðstæður eru ekki of erfiðar. Silfurreynir er langlíft og verðmætt götutré.

Myndir 28 og 29. T.v. gamall silfurreynir við Grettisgötu setur mikinn svip. T.h. gamall silfurreynir við Lýðveldisgarðinn við Hverfisgötu, stóð áður í skjóli við hús eins og sjá má af vaxtarlaginu.

40

This article is from: