1 minute read

Gráreynir (Sorbus x hybrida) Aria-deild

Gráreynir hefur marga sömu eiginleika og silfurreynir en er þó almennt smávaxnari og skammlífari. Hann er harðgerari en silfurreynir og blómstrar og ber þroskuð aldin bæði fyrr og árvissara en hann. Einnig er hann talinn þolnari gegn sveppasýkingunni skyrfi. Kostur við uppeldi gráreynis og annarra reynitegunda sem fjallað er um hér utan reyniviðs, er að hann myndar fræ með geldæxlun líkt og silfurreynir og eru því allir afkomendur eins og móðurtréð. Erfitt getur hins vegar verið að rækta hann einstofna með nægjanlega háum stofni í uppeldi hérlendis og þarf sérstaklega að huga að því í gróðrarstöð og eftir að tré hefur verið gróðursett. Gráreynir er fremur hægvaxta, hann þolir klippingu nokkuð vel og reyniáta er ekki mikið vandamál. Rótarkerfið er nokkuð djúpstætt. Allur undirbúningur og umhirða þarf einnig að vera góð til að hindra það að nýgróðursettar plöntur fái ekki áfall og „stagneri“ eins og sagt er, þ.e. vaxi lítið sem ekkert í mörg ár og jafnvel koðni niður eins og áður er getið með silfurreyni, þó þetta sé ekki eins mikið vandamál með gráreyni.

Yrki: Gráreynir upprunninn frá Noregi er fremur smávaxinn (4-6 metrar) og hentar ekki sem götutré. Tré upprunin frá Svíþjóð og Finnlandi eru stórvaxnari 6-10 metrar. Yrkið ´Bergur´ upprunnið af Bræðraborgarstíg í Vesturbæ Reykjavíkur er stórvaxnara en flest önnur yrki gráreynis sem hér eru í ræktun, það er líklega af sænskum eða finnskum stofni. Hann er um 8 metra hár og líklega um 70 ára gamall og hefur reynst vel í uppeldi og ræktun hjá Reykjavíkurborg.

Myndir 30 og 31. Gráreynir við Ránargötu í garði við hús á Bræðraborgarstíg. Tréð er líklega um 70 ára gamalt.

41

This article is from: