2 minute read
Tíðarfar 2015
Tíðarfar 2015
Veturinn 2014 – 2015 byrjaði með einstaklega hlýjum nóvembermánuði. Lengi var þá austræningur sem bar með sér blámóðu úr gosinu í Holuhrauni og súrt var að bragða á vindinum. Með jólaföstu byrjaði að snjóa og setti niður talsverðan snjó á Suður- og Vesturlandi í desember. Frá jólum tóku við umhleypingar og var áttin oft suðlæg eða á vestan. Það veðurlag hélst allt fram á síðasta vetrardag. Eins og venja er þegar svo viðrar var úrkoma mikil syðra og vestra oft með illviðrum, snjóalög óstöðug á láglendi en nokkuð mikil þegar dró til heiða og fjalla í þeim landshlutum. Norðanlands og austan mátti vetur heita góður og mun hlýrri í samanburði við meðaltal en var á vesturhelmingi landsins. Lítið fréttist af svellalögum á túnum og kalskemmdir urðu ekki að marki. Frosthörkur voru heldur ekki miklar og ekki samfelldar. Klaki í jörðu varð því aldrei mikill og hvarf að mestu í lágsveitum um miðjan apríl. Akurjörð var sögð tilbúin til vinnslu í Eyjafirði síðasta vetrardag, svo að dæmi sé tekið. Sumardaginn fyrsta snöggbreytti um veður og hann gekk í ákveðna norðanátt, stórhríð fyrsta sólarhringinn á Norðurlandi, einkum austanverðu, og setti þar niður snjó sem ekki tók upp næstu þrjár vikur. Frost var um allt land næstu þrjár vikur og þótt nokkuð skánaði veður upp úr miðjum maí þá hélst norðanáttin í stórum dráttum fram um höfuðdag. Á Suður- og Vesturlandi og vestanverðu Norðurlandi var því þurrkur frá sumarmálum og hélst fram í miðjan ágúst. Sá þurrkur tafði sprettu bæði í korni og á túnum, sá meira að segja á kartöflum í móajörð en það er fátítt. Norðanlands og austan var það skýjaþykknið og kuldinn sem einkenndi sumarið. Grasspretta varð þó furðugóð en korn þroskaðist afarseint. Í lok ágúst litu kornakrar í þeim héruðum vel út en voru að minnsta kosti þremur vikum seinni á ferðinni en búast mátti við í meðalári. Aðfaranótt 30. september gekk norðanáttin niður og þá var bjartviðri um austanvert Norðurland og Austurland allt. Þá nótt var í þeim landshlutum allt að 5 stiga frost í 2 metra hæð og stóð dægur fullt. Korn var þar enn nánast óþroska og eyðilagðist allt í þeim héruðum þessa nótt. Um aðra hluta landsins var skýjað þessa nótt og fraus ekki svo að yrði að tjóni. Í september voru hlýindi og komu þá þrír heitustu dagar sumars. Votviðri voru sunnanlands og vestan allan mánuðinn fyrir utan vikutíma um hann miðjan. Þessi vika virðist ekki hafa verið notuð til kornskurðar að marki í þeim landshlutum, frekar í heyskap á hinu síðbúna sumri. Á vestanverðu Norðurlandi tók korn þá furðugóðum framförum. Eftir miðjan september var stöðugur óþurrkur í tvo mánuði og kornskurður gekk ekki syðra og vestra. Gerði loks viku þurrk í frosti milli regns og snjóa um miðjan nóvember og náðist þá talsvert af korni í þeim héruðum en fjarri því allt. Fugl hafði þá unnið mikið tjón á ökrum enda hafði hann haft tímann til þess. Einu héruðin þar sem korn náðist nokkurn veginn óskemmt en þó ekki fyrr en í septemberlok voru vestanvert Norðurland og Hornafjörður. Akrar á Suðurlandi fóru margir í fugl og undir snjó, reynt var að skera korn í Landeyjum í frosti 9. janúar á nýju ári. Árið endaði á snjóugum og umhleypingasömum desember með tvö eftirminnileg illviðri og hita undir meðallagi.