LEI KLI S T O G LIST Á Þ I NGE YRI ELFAR LOGI HANNESSON
1
LEI KLI ST OG LI S T Á Þ I NG EY R I
2
3
LEI KLI ST OG LI S T Á Þ I NG EY R I
Rit þetta tileinka ég tengdaforeldrum mínum, Öldu og Kidda á Þingeyri.
HÖFUNDUR
Elfar Logi Hannesson
2020 4
5
Kápumynd forsíða: Leikarar hneigja sig eftir sýningu á Háttvirtur herra þjónn, 1959. Frá vinstri: Þórunn Einarsdóttir, Ólafur Jón Þórðarson, Guðrún Sigurðardóttir, Gunnar Friðfinnsson, Ebba Gunnarsdóttir , Bjarni Dagbjartsson. Kápumynd baksíða: Þingeyri í lit. Myndir fengnar víða að Elfar Logi Hannesson Leiklist og list á Þingeyri Prófarkalestur: Jónína Hrönn Símonardóttir Umbrot og hönnun: Leiry Seron Prentun: Leturprent Kómedíuleikhúsið 2019 www.komedia.is ISBN 978-9935-9432-1-7
EFNISYFIRLIT Innleikur Leiklist Frá landnámi til félagsheimilis Leikið í sveitum Frá ´39 til nútímans Leiksýningaskrá Listin Ljós- og myndlist Ritlist Tónlist og söngur Lokaleikur en þó rétt að byrja
Öll réttindi áskilin.
Þingeyri, Reykjavík, Nauteyri, Þingeyri Útgáfan er styrkt af Hagþenkir Orkubú Vestfjarða 6
7
INNLEIKUR
Dýrafjarðarlist Í þessu ritverki verður ekki rakin saga Þingeyrar né Dýrafjarðar. Það verður að bíða betri tíma og merkilegri sagnaritara en hér párar. Þó mun þetta rit vera liður í því stórverki að segja alla sögu svæðisins sem vonandi mun einhvern tímann rata á bókverk. Því hér verður rakin listasaga Þingeyrar og Dýrafjarðar með sérstakri áherslu á leiklistina. Víst væri dapurt að lifa ef engin væri listin og því er kannski vel við hæfi að hefja sögu þessa merka svæðis á einmitt listasögu þess. Það bíður svo annarra hugsjónamanna og kvenna að skrá hina söguna. Hvað er svo list og hvað ekki? Og hvenær taka Dýrfirðingar upp listiðkun svona almennt? Tvær risastórar spurningar í upphafi bókverks. Hinni fyrri er best að sleppa að svara í svo litlu riti sem þessu, enda líklega einhver umdeildasta spurning allra tíma allavega í listsögulegu tilliti. Sitt sýnist hverjum. Það sem aðrir telja list segja aðrir vera krot, krass eða bara einfaldlega fíflagang. Bæta svo við að viðkomandi ætti nú frekar að reyna að gera gagn í samfélaginu eða svo við einföldum þetta ennfrekar; viðkomandi fái sér barasta alvöru vinnu. Áður en við gleymum okkur í þessari pælingu og um leið annarri spurningunni sem kastað var fram í upphafi þá er best að svara henni sem snöggvast. Listsköpunin hefst bara strax við landnámið í Dýrafirði. Það er ekkert flóknara en það. Því svo margt er list; allt frá því að reisa sér hús fyrir sig sjálfan og eða búpeninginn, þar sem hvort tveggja kemur við sögu arkitektúr og handverk. Fyrir svo utan það snilldar fólk sem fer það betur að leika og listast en vinna. Já, strax í upphafi hafði einhver á hverjum bæ það hlutverk að segja sögur að dagsverki loknu, á kvöldvökunni. Sumir lifðu sig svo inn í hlutverkin að þeir ekki 8
9
bara sögðu sögur heldur léku, sungu og dönsuðu jafnvel þegar mest var fjörið. Sumir kroppuðu jafnvel á eitthvert framandi hljóðfæri svona til að auka á áhrifin, snemma kemur músíkin inn í leikhúsið. Þannig má segja að strax á tímum Dýra er nam Dýrafjörð hefjist listasagan hér í firði. Listin eflist svo og mótast næstu aldir en vitanlega helst þróunin við íbúatöluna. Nú væri freistandi að vinda okkur beint í íbúaþróun og sögu Dýrafjarðar en einsog áður var getið er það ekki hlutverk þessa rits. Við getum þó ekki stillt okkur um að geta þess helsta. Enda helst það sannlega í hendur íbúafjöldi og listsköpun og ekki síður aðstaða til slíkra verka. Einsog annars staðar er dreifbýlið málið fyrstu aldirnar. Sveitirnar blómstruðu um allan Dýrafjörð sama hvar borið var niður í Keldudal, Haukadal og allt yfir að höfuðbólinu Núpi og meira að segja nokk lengra. Árið 1866 byrjar svo fjörið á eyrinni þegar hinn danski Niels Christian Gram keypti Þingeyri. Uppbygging þorps tók þó allnokkurn tíma enda alfarsælast hverjum að hafa hina sígandi lukku að leiðarljósi frekar en að allt gerist strax og um leið of hratt. Það gerist ekki einu sinni í ævintýrunum. Það var fiskurinn sem gaf að vanda og var gert m.a. út á hákarl og vitanlega þennan gula, þorskinn. Ein tegund fiskjar varð þó til þess að mikið líf skapaðist í Dýrafirði sem hafði gífurleg áhrif á uppbyggingu eyrarinnar. Við erum að tala um lúðuna og í beinu framhaldi Kanann sem fiskinn breiða veiddi. Þegar Kanarnir komu Undir lok þar síðustu aldar eða árin 1884 – 1897 voru í firðinum ár hvert hópur amerískra sjómanna. Það var lúðan sem dró þá hingað enda fengsæl þau mið á þeim tíma við Dýrafjörð og víða um Vestfirði. Lúðan lengi verið smekkvís á dvalarstaði. Skip Kananna, einsog þeir voru jafnan nefndir á eyrinni, voru 10
tvímastraðar skonnortur jafnvel 160 tonna. Mest voru 13 Kana skonnortur eina vertíðina. Voru þá um 200 Kanar á Þingeyrinni og þá hefur nú heldur betur verið stuð og líf í húsunum. Einnig voru í áhöfn bátanna heimamenn bæði úr þorpinu og firðinum. Ástæðan fyrir því hve fjölmennir þeir voru á Þingeyri var líklega sú að Niels Christian Gram, Þingeyrar kaupmaður, var konsúll Bandaríkjanna hér á landi. Það kom sér nú heldur betur vel fyrir hans verslun að fá Kanana í þorpið því margt vantaði þessa erlendu sjómenn. Gram átti ávallt það sem þá vanhagaði um og ef ekki þá reddaði hann því bara, alvöru kaupmaður þar á ferð. Sumt seldist meira en annað og má þar nefna ölið áfenga. Ölið var talið í pottum og fyrir komu Kananna hafði ölsalan sjaldan komist yfir þúsundið en við komu þeirra var hvert ölpottametið af öðru slegið og salan taldi þá nokkur þúsundin. Vitanlega jókst einnig fjörið á Vertshúsinu eða Hótel Niagra einsog það var jafnan nefnt. Þar var ekki bara gist og etið heldur og skemmt sér. Bæði dansað og settar upp leiksýningar einsog koma mun fram í sögu okkar. Ritin Mannlíf og saga fyrir vestan, geyma margan gullmolann í sögu Dýrafjarðar og víst væri þetta rit mun þynnra ef ekki væri fyrir sagnasjóður þessara merku rita. Sem og annarra rita frá hugsjóna bókafirmanu dýrfirska, Vestfirska forlaginu, sem hefur sínar höfuðstöðvar á Þingeyri. Geta skal þess sem vel er gjört. Ef eitthvað ættum við að hrósa mun oftar en við gerum því það kostar ekkert. 11
Í einu rita Mannlífs og sögu, er brot úr viðtali við Sigurð Johannsson, er hinn kunni útvarpsmaður Stefán Jónsson tók við kappann. Á þessum tíma rak faðir Sigurðar einmitt Hótel Niagra. Þar segir hann m.a. frá því þegar Kaninn kom í Dýrafjörð: „Ég man vel þá tíð þegar Ameríkanarnir voru við völd hér á Þingeyri, ef svo mætti segja. Það var oft gaman þegar þessir Ameríkanar voru hér. Það var eiginlega sérstakt lið. Faðir minn hélt hér hótel. Á því var stórt og mikið skilti og á því stóð Hótel Niagra, náttúrlega til þess að þóknast Ameríkönunum. Mætti ímynda sér þess vegna að ég væri þessu manna kunnugastur, þar sem það mátti eiginlega kalla nokkurs konar félagsheimili fyrir Ameríkananna. Þar var alltaf haldið til þegar þeir voru inni. Þar var bæði skemmt sér með því að dansa og drekka, auðvitað! Alltaf drukkinn bjór, eingöngu bjór. Og einhvern tímann heyrði ég getið þess, að bjór væri ekki hægt að drekka svo mikið, að menn yrðu óréttgáðir.“ Sögumaður heldur svo áfram og vill meina að þetta hafi í raun verið Ástandsárin á eyrinni. Já, margt hefst fyrir vestan meira að segja ástandið, löngu seinna kom það til borgarinnar einsog menn og konur vita: „Þá varð til nokkurs konar „ástand“ hér, en aðrir Íslendingar þekktu það ekki fyrr en í stríðinu. Við vorum þetta langt á undan! Og aldrei varð ég hissa á því þótt kvenþjóðin yrði spennt yfir þessum Ameríkönum, því þetta voru svoddan flottheita menn. Allir upp á fín föt, með harða hatta meira að segja. Þessir menn gengu svo á Hótelið og drukku þar, þar til þeir urðu vel samkvæmishæfir. Síðan var farið að halda dansleik um kvöldið og þið getið nú ímyndað ykkur hvort kvenfólkið vildi ekki koma og vera með þessum drengjum. Og þegar ég hugsa út í það, þá var mikill munur að sjá þessa menn, hvað þeir voru flott upp á alla vegu, heldur en blessaðir Íslendingarnir, þó ungir væru, því auðvitað voru ungir menn þarna innan um. Það var dálítill munur. Þarna var dansað fram eftir kvöldum, 12
en alltaf endaði það upp á sama veg, með slagsmálum. Það var líka skemmtilegt að horfa á slagsmálin. Það er að segja þegar maður var innan dyra og pabbi og mamma voru ekki langt frá svo manni var alveg óhætt.“ Ris og fall eyrarinnar
Víst hafði vera Ameríkananna gífurleg áhrif á uppbyggingu Þingeyrar. Einsog svo víðast hvar annars staðar þá tók allt að gjörast á síðasta áratugi 19. aldar. Þá tók bæði íbúum sem húsum á eyrinni að fjölga. Hinum megin fjarðar nánar tiltekið á Framnesi var einnig allt á milljón um tíma. Þar var hvalurinn dreginn að landi einsog enginn væri morgundagurinn enda þar hin veglegasta hvalveiðistöð rekin af Norðmönnum í ein 13 ár, 1890 – 1903. Eigi færri en 4 hvalveiðibátar voru þegar mest var. Árið 1898 féll Gram kaupmaður á Þingeyri frá. Þá tóku þýsk ættaðir bræður við keflinu nefnilega Proppé bræðurnir Carl, Anton og Ólafur. Sá fyrst nefndi hafði verið verslunarstjóri hjá Gram. Þeir keyptu þó ekki verslunina fyrr en 1914. Sex árum síðar varð til risi á eyrinni þegar Kaupfélag 13
Dýrfirðinga var stofnað, 1920. Sígandi lukka var þeirra aðals merki því fyrstu árin átti verslunin erfitt uppdráttar en smátt og smátt jókst veldi þeirra og stóð næstu 5 áratugi. Á tímabili má segja að Kaupfélagið hafi bara drottnað yfir eyrinni. Reksturinn var fjölbreyttur, útgerð uppistaðan en einnig verslun, verkstæði, salthús, sláturhús og þannig mætti áfram upp telja. Eftir því sem kaupfélagið efldist því meira líf var í þorpinu með tilheyrandi fólksfjölgun þegar mest var náði íbúatalan nærri hálfu þúsundi. Allt hefur sinn tíma og áhrif kaupfélagins minnkuðu smátt og smátt þar til það varð gjaldþrota. Fækkunin var geysimikil eftir það, en árið 2003 voru íbúar 330 talsins. Hafa ber í huga að allar tölur eru stórar á landsbyggðinni. Bara það ef ein fjölskylda flytur á brott eða einu stykki banka er lokað hvar störfuðu 4 starfsmenn, telur fljótt þegar íbúatalan er aðeins í nokkrum hundruðum. Í dag hyllir þó undir betri tíma og enn er það með hinni sígandi lukku að leiðarljósi. Þetta sést best á því að ungt fólk er aftur farið að setjast að á eyrinni. Enda er þar gott að vera bæði til lífs og lista. Hring eftir hring Víst er saga Dýrafjarðar einsog hringur sem snýst endalaust en breytist þó og endurnýjast eftir fólkinu sem þar býr hverju sinni. Það segir sig þó sjálft að eftir því sem fólki svæðisins fjölgar þeim mun meir eflist listin og í raun allt annað; verslun sem atvinna og allt þar í millum og kring. Þetta á þó sérstaklega við eitt listformið. Leiklistina. Aðstæður til leiklistar og þá sérstaklega uppsetningu leikverka skapast við þann fjölda sem býr á viðkomandi svæði. Það segir sig sjálft að þeim mun færri sem þar búa því minna er hægt að gera til leiklistar. Það þarf nefnilega fólk á báðum stöðum. Á senu sem í áhorfendasal. Þarna þarf líka að gæta hófs og útsjónarsemi. Setja ekki upp einhverja Óliver Twist 14
söngleiki sem krefjast tugi leikara og jafnvel enn fleiri utan sviðs til leikmynda-búningagerðar og alls þess sem uppsetning leikverks krefst. Væri í raun svo umfangsmikið að engir væru til að horfa á leikinn. Íbúafjöldinn hefur því talsvert að segja þegar litið er til verkefnavals í leikhúsinu. Sem betur fer hafa leikskáld heimsins séð til þess að búa til leikverk sem höfða til fjölmennra og fámennra héraða. Það þarf nefnilega að gæta þess að hafa verkin ekki það stór og viðamikil að engin verði til að horfa á þau. Allt kostar jú, þó að af áhuga sé gert og auk þess er ekki mjög hvetjandi að sýna leiksýningu er kostað hefur blóð svita tár og andvökunætur, fyrir hálf tómum sal. Peningar eru nefnilega alls ekki allt í þessari deild listarinnar frekar en annarri. Næring sálar og uppörvun er þar mun verðmætari. Að ógleymdum öllum samfélagslegu áhrifunum sem eru svo vinsæl í skjölum og skýrslum nútímans. Að öllu þessu sögðu er okkur því ekkert að vanbúnaði en að hefja vora sögu. Leiklistar og listasögu Dýrafjarðar. Einsog svo oft þegar efnið er viðamikið og jafnvel skortur á heimildum enda vill sérstaklega listasagan fara halloka í geymslum og falla frekar í gleymsku. Ritari mun þó gera sitt allra besta til að rekja listasöguna sem ítarlegasta og honum er framast unnt og heimildir gefa. Það sem utanblaðs lendir verður bara að rata í aðrar sögur enda endalaust hægt að bæta við söguna. Heldur ekkert í það varið ef allt er sagt því þá verður ekkert heldur eftir. Talandi um heimildir þá er best að hefja söguna á list augnabliksins, leiklistinni.
15
Gísli Súrsson fyrsti leikari Dýrafjarðar
LEIKLIST
16
Hvað er leiklist og hvað er ekki leiklist? Það er ekki bara spurningin heldur og efinn einsog skáldið sagði. Sitt sýnist hverjum enda smekkurinn fjölbreyttur. Í þessu riti munum við þó ekki fara neinar smekkleiðir heldur mun allt það er flokkast undir leiklist og listina að leika rata í rit þetta. Lífið hefur bara ekki verið þessi endalausi saltfiskur og streð því þörfin fyrir að næra sálina og andann hefur fylgt manninum jafn lengi og hann sjálfur hefur dregið andann. Það er einhver einstök stund að geta tekið sér frí frá streðinu og notið lista. Listin göfgar og gefur. Það eru engar ýkjur að segja að leiklistin og listin hafi einfaldlega fylgt landnámi Dýrafjarðar sem og annarra landnema, ekki bara hér á landi heldur og um allan heim. Að dagsverki loknu var ávallt safnast saman í skálanum hvar tekið var hraustlega til matar. Svo tóku inniverkin við allt fram á næðistíma. Það er marg sannað að listin léttir vinnuna af hvaða formi sem það er allt frá því að hlusta á tónlist eða á sögu. Í nútímanum hefur þó ýmiss konar skjáskoðun tekið við auðveldun inniverkanna en eigi skal vera þessi sem fannst allt betra í gamla daga. Því bíðum nú við margt af því sem á skjám nútímans er, er einmitt list allt frá myndböndum til hljóðbóka. En spólum aftur um þúsund ár að nýju. Það var líklega svo að í hverjum skála á landnámsog sögutímanum var einn sem þótti betri í því að skemmta og gamna fólki en vinna hefðbundin störf einsog flestir hinna. Já, pælið bara í því strax í landnámi er farið að tala um það að leikur og list sé ekki vinna. Nóg af því. Þessi eini, stundum voru þeir nú fleiri á hverjum bæ sem höfðu þessa ríku sköpunarþörf, steig á stokk á kveldvökunni og sagði fólkinu sögur. Efnisskráin fjölbreytt allt frá hinum norrænu goðum til nútímahetjusagna sem svo síðar urðu að okkar einstöku Íslendingasögum. Segið svo að það sé ekki tilgangur með listinni. Með þessum einstöku leikurum og sagnamönnum varðveittust okkar Íslendingasögur 17
í aldir þar til einhver, sem enginn veit hvað hét, tók sig til með sitt kálfskinn og ritaði sögurnar af Gretti, Gísla og öllum þeim. Talandi um Gísla. Okkar Gísla Súrsson sem tók sér land í Haukadal í Dýrafirði eftir ófriðartíma í sínum Súrnadal í Noregi. Hér komumst við sannlega í feitt í okkar leiksögu. Því hér er staðfastlega kominn fyrsti eiginlegi leikari Dýrafjarðar. Víst er kappinn Gísli Súrsson ekki bara hetja heldur ofurhetja. Hann getur bókstaflega allt. Er afburða búmaður, listasmiður (enn ein listin), íþróttamaður hinn besti og síðast en ekki síst leikari góður. Leikari já. Það lesum við bókstaflega og nokkrum sinnum í Gísla sögu t.d. þegar hann leikur á Þórð hinn huglausa og gefur honum kápu sína. Er svo sannfærandi að hinn huglausi fattar bara alls ekki að með þessari kápugjöf halda allir að hann sé Gísli sjálfur enda er hann dauður skömmu síðar. Víst var þetta soldið lúalegt hjá Gísla en hvað allar hetjur hafa nú einhverja skuggahlið. Við strendur og sker Hergilseyjar sýndi Gísli svo leikhæfileika sína enn og aftur þegar hann brá sér í hlutverk Ingjaldsfíflsins. Þannig má lesa í gegnum sögurnar hve leiklistin er strax snar þáttur í lífi þjóðarinnar. Þetta er nefnilega einsog hjá Tryggingafélögunum svo margt í smáletrinu. Sögurnar dýrfirsku geyma margan leikarann og leiklistarsöguna og bera okkur áfram næstu aldir. Svonefndir flækingar eru stór partur í Íslandssögunni og þar var að finna margan leikarann. Bæði hér í Dýrafirði og um allt land. Einsog nafnið gefur okkur þá voru þeir víðförulir enda oft ekki aufúsugestir. Enda voru þessir flækingar, sem oft voru innst inni listamenn og skemmtu fólki hvort sem gónendur vildu það eða ekki, lágt skrifaðir af sínu samtíðarfólki. Saga margra þeirra hefur því ekki varðveist heldur horfið í gleymskunnar dá. Það má hins vegar þakka þjóðsögunum og sögnunum að tilvera nokkurra hefur varðveist. Má þar nefna Hjálmar Þorsteinsson úr Arnarfirði en frá honum er sagt í Vestfirskum sögnum. Svo við förum ekki að endurtaka okkur hér þá er best að benda þér lesandi góður á þær mætu sagnir 18
19
og bók þess er hér ritar, Leiklist á Bíldudal, 2005, hvar sagt er frá Hjálmari er auknefndur var goggur. Stundum var hann kallaður pilsa Hjálmar enda vildi hann gjarnan sofa með kvenmannspils yfir sér. Að lokum má svo benda á að Hjálmar þessi ku vera fyrirmyndin af nafna sínum tudda í hinni vestfirsku skáldsögu, Maður og kona, eftir Jón Thoroddsen. Við ætlum því að ljúka þessu flækingstali hér þó forvitnilegt sé en nema þó staðar við enn forvitnilegra efni í leiksögu Þingeyrar. Nefnilega leiktónskáldarfréttir . Já, fólk hér hefur ekki bara verið að leika heldur og semja tónlist við heilu leikverkin. Steinbach og Dragedukken Eftir því sem fámennið er meira því meir er hver einstaklingur mikilvægur. Oft skolar upp á eyrina fólki sem nýtur sín í kyrrðinni og fámenninu. Fólki sem hefur þessa sköpunarþrá og þörf og einmitt á eyrinni gefast einstök tækifæri til að efla og iðka sína sköpun. Einn þessara skapandi einstaklinga er kaupmaðurinn og tónskáldið Andreas Steinbach. Árið 1788 kaupir norski verslunarmaðurinn Henrik Henkel Þingeyrarverslun. Var hann sannlega alvöru kaupsýslumaður því fyrir átti hann aðra eyri nefnilega Flateyri. Henkel fékk bræður tvo frá Kóngsbergi í Noregi til að sjá um þessar verslanir sínar. Það voru þeir Steinbach bræður, Andreas og Daniel. Voru þeir sitt á hvað á eyrunum tveimur uns Andreas settist loks að á Þingeyri og Daniel á Flateyri. Henkel féll frá 1817 og tveimur árum síðar kaupa þeir bræður Steinbach í samfloti við annan verslanirnar tvær. Sem þeir svo reka í samfloti næstu árin eða allt til 1823 þegar Daniel andast. Ári síðar er svo Andreas allur. Eftir það tók sonur hans, Niels M. Steinbach, við og rak verslunina allt til 1830. Andreas var sannlega syngjandi glaður kaupmaður því hann hafði mikla músík í sér. Gaf sér líka tíma til að sinna áhugamálunum inn á milli verslunarstarfa og líklega hafa veturnir verið 20
Frá uppsetningu Höfrungs leikdeildar á Dragedukken.
drjúgir til tónsmíða. Því á þeim tíma var yfirleitt rólegt yfir versluninni. Gerði hann sér lítið fyrir og samdi tónlist við norska leikritið Dragedukken. En leikur þessi hafði verið frumsýndur 1812 í Noregi. Margir vilja meina að Andreas hafi verið fyrstur hér á landi til að semja tónverk sérstaklega fyrir fiðlu og um leið einna fyrstur til að semja tónlist sérstaklega fyrir leikverk. Dragedukken hefur þó ekki verið flutt hér á landi með þessari tónlist sem kaupmaðurinn Andreas á Þingeyri duddaði sér við að semja. Enda hefur það ekki einu sinni verið þýtt á íslenska tungu. En röð tilviljana réði því að þessar nótur frá sýningunni 1812 varðveittust. Dómkirkjuorganistinn Pjetur Guðjonsen var með nótur Andreasar við Dragedukken í fórum sínum sem svo afhenti tengdasyni sínum Halldóri Jónssyni þær sem svo aftur kom þeim til Landsbókasafnsins árið1903. Það var svo rúmri öld síðar sem þessi tónlist var loks flutt þar sem hún var samin. Á Þingeyri árið 2009. Þá sýndi Höfrungur leikdeild sögulegt 21
leikverk að nafni Dragedukken eftir og í leikstjórn Elfars Loga Hannessonar. Þar fáum við að skyggnast inn í líf verslunar- tónskáldsins með sérstakri áherslu á tónsmíðar hans við Dragedukken. Það var Krista Sildoja er útsetti og stjórnaði hljómsveitinni í sýningunni. Sjálf lék hún þar á fiðlu ásamt Agnesi Sólmundsdóttur og Raivo Sildoja sem einnig lék á gítar og blokkflautu. Aðrir í hljómsveitinni voru Jóhanna Jörgensen Steinsdóttir, blokkflauta, Arnar Logi Hákonarson, gítar, Elínborg Snorradóttir, Bergsveinn Gíslason og Kristján Gunnarsson öll á harmonikku. 12 leikarar voru á sviðinu. Í hlutverki Andreas var Benedikt Birkir Hauksson, bróður hans Daniel lék Jón Sigurðsson og Henkel kaupmaður var túlkaður af Hólmgeiri Pálmasyni sem einnig brá sér í hlutverk annars kaupmanns, Friðriks Svendsen. Aðrir leikarar voru Birgir Knútur Birgisson, Þórður Sigmundur Ragnarsson, Guðrún Snæbjörg Sigþórsdóttir, Gunnhildur Björk Elíasdóttir, Sigþór Gunnarsson, Bjarney Málfríður Einarsdóttir, Berglind Hrönn Hlynsdóttir, Jóhanna Jörgensen Steinsdóttir og Ævar Höskuldsson.
22
Leikhús verður til
Segja má að listin og þá einkum leiklistin hafi fylgt hverju þorpi landsbyggðarinnar nánast frá upphafi. Víða á landinu hefst leikstarfsemi og uppsetning leikrita nánast jafnóðum og viðkomandi þorp myndast. Einsog sannlega má segja um Þingeyri því í annál Skírnis 1893 er þess getið að leiksýning hafi farið fram á Þingeyri við Dýrafjörð. Því miður er ekki vitað hvaða leikrit það var en hér hefst formlega leiksýningahald á eyrinni sem hefur staðið svo gott sem óslitið síðan. Sömu sögu er að segja af nágrannabyggðum okkar því vitað er um leiksýningu á Bíldudal ári eftir fyrstu uppfærsluna sem vitað er um á Þingeyri. Einnig er á þessum lokaáratugi 19. aldar leikið í Bolungarvík og svo á Ísafirði en þar hófst leikstarfsemin þó enn og miklu fyrr. Nokkru fyrir aldamótin 1900 er svo sett upp á Þingeyri eitt vinsælasta leikrit þess tíma, Ævintýri á gönguför, eftir Jens Christian Hostrup. Sýnt var í Vertshúsinu en þar var þá rekið hið virðulega Hótel Niagra. Fleiri sýningar voru svo sýndar þar 23
næstu árin. Því er vel við hæfi að geta hér að nokkru fyrsta eiginlega leikhúss Þingeyrar. Vertshúsið Árið 1881 tóku þau sig til Björn Magnússon og Guðrún Sveinsdóttir og reistu veglegt hús í hjarta þorpsins. Fékk það fljótlega heitið Vertshúsið enda þar stunduð greiðasala og gisting. Síðar fékk húsið mun virðulegra nafn eða Hótel Niagra, enda voru þá hér í firðinum Kanar útum allt einsog áður hefur verið getið, og því við hæfi að vera svolítið alþjóðleg í nafnagjöfinni. Auk þess að stunda greiðasölu sem gistingu þá varð húsið fljótlega samkomustaður gesta sem íbúa. Dansiböll sem leiksýningar. Árið 1890 tóku Jóhannes Ólafsson, hreppstjóri, og kona hans Helga Samsonardóttir, við húsinu og stækkuðu það talsvert enda var húsbóndinn smiður hinn besti. Heimildir eru fyrir því, að mörg leikrit hafi verið sýnd þar á tíma þeirra hjóna Jóhannesar og Helgu. Nathanael Mósesson tekur svo við Vertshúsinu 1902 og býr þar allt til 1963. Var hann skósmiður og því bættist skósmíðaverkstæði við sögu þessa merkilega húss. Næsti íbúi er svo fósturdóttir skósmiðsins sem dvelur þar til 1995 og þá kaupir kvenfélagið Von húsið. Það selur það svo núverandi eigendum, Guðbjörgu Lind Jónsdóttur, myndlistarkonu, og manni hennar Hirti Marteinssyni, skáldi. Þau hjón hafa heldur betur byggt Vertshúsið veglega upp og þar hefur listin sannlega fengið að skína skært. Að þessu sinni hefur það verið myndlistin sem hefur verið í aðalhlutverki enda húsfreyjan núverandi einstakur myndlistarmaður. Listakona sem hefur farið sínar eigin leiðir enda vakið óskipta athygli fyrir list sína. Fyrir þá sem til þekkja þá er salurinn í Vertshúsinu ekki ýkja stór en til frekari glöggvunar má segja að lengd salarins sé varla meira en sex metrar og breiddin tæpur helmingur af því. Samt voru þarna settir á svið stórir sjónleikir á borð við Ævintýri á gönguför. Það má líka geta þess að áhorfendur 24
kunnu sig, mættu ekki bara í sínu fínasta pússi heldur og kom einn gónandinn með sérstakan leikhúskíki. Engum sögum fer þó af því hvort fékk meiri athygli leikararnir eða sá með kíkinn. Brellurnar sýndar um jól Þó eigi sé vitað um nöfn leikverkanna sem settar voru á senu í upphafi leikhúsvakningarinnar á eyrinni þá er vitað að leiksýningar urðu fljótlega partur af lífinu á Þingeyri. Það er þó næsta víst að án efa hafa erlendir einþáttungar verið vinsælir til uppsetningar á Þingeyri sem og annars staðar á landsbyggð á upphafsárum leiksýningavakningarinnar. Mest var um danska og norræna leikþætti. Grín í aðalhlutverki frekar en of mikill alvarleiki og ósjaldan brustu leikarar í söng. Svo virðist sem það séu sett árlega upp bæði einþáttungar og leikverk í upphafi leiksýningahalds á Þingeyri. Um jól 1899 er það leikurinn Brellurnar. Ritara hefur þó ekki tekist að finna neinar heimildir um leik þennan, gæti jafnvel verið að um sé að ræða leikþátt, einþáttung, sem nutu vinsælda á þessum upphafsárum einsog að ofan gat. Enda einþáttungarnir þægilegir til æfinga sökum lengdar og jafnvel umgjörðar allrar. Einsog þegar hefur komið í ljós og mun bara aukast þegar á líður er hve leiklistarsagan vill oft hverfa úr minni. Margir muna þó eftir því að sýnd hafi verið leikrit og já bara oft á ári. En hvaða leikrit það voru eða hver lék eða jafnvel hvaða ár. Það er nú stóra vangaveltan. En svona er þetta bara í tilfelli leiksögunnar og svo sem engu við þar að bæta. Leiklistin er í öllum skilningi list augnabliksins. Það er bréfaskrifum tveggja manna fyrir að þakka að leikritið og eða einþáttungurinn, Brellurnar, rekur á vora leiksögu. Guðmundur nokkur Kristjánsson ritar vini sínum Sigurði Sigurðssyni búfræðingi bréf fyrir jólin 1899. Sigurður þessi kom í Dýrafjörðinn níu árum áður og þá sem starfsmaður hjá nýstofnuðu búnaðarfélagi hér í firði. Dvaldi hann hér í 25
nokkur ár og á vetrum starfaði hann sem barnakennari. Hann var einnig viðloðandi Haukadalinn var m.a. í félaginu Huld er gaf út handskrifað blað, Kveldúlfur, 1897. Margt markvert var þar ritað bæði um bú- og framfaramál hins fagra Haukadals. Bindindisfélagið Framsókn ritaði beitta pistla í ritið um mein og böl vínsins. Lestrafélagið í dalnum gaf sína skýrslu í Huld og svo voru meira að segja auglýsingar í ritinu. Svo þetta var alvöru. Í eitt skiptið auglýsir einn hagleiksmaður sveitarinnar að hann taki að sér saumavélaviðgerðir. En aftur að 1899 og bréfi Gvendar til Sigurðar er þá var fluttur úr firðinum. Í bréfinu ritar hann nefnilega að sjónleikir séu þar í blóma og á annan dag jóla verði frumsýning á leiknum Brellurnar. Bætir reyndar við að þetta séu heldur rýr leikstykki sem sýnd hafi verið. Einn leikara nefnir hann sérstaklega en það er Bjarni nokkur er starfaði sem barnakennari í Dýrafirði. Þá vitum við það, það er ekki bara eitt leikstykki sett upp þennan leikvetur heldur eru þau nokkur. Leikið á nýrri öld Leikstarfið hélt velli við aldamótin 1900 á eyrinni og gott betur en það því einnig varð mikil vakning í sveitum landsins í leiksýningahaldi. Sveitir Dýrafjarðar voru sannlega ekki þar undanskyldar. Má segja að leikið hafi verið út um allar sveitir sem og í þorpinu sjálfu Þingeyri einsog saga þessi mun frágreina. Leikhúsið hefur allt frá upphafi átt sérstakan stað í hjarta íbúa á Þingeyri. Lengi vel bar Kvenfélagið Von uppi leikstarfsemina á staðnum og voru leiksýningar á vegum þess meðal annars í svokölluðu Þinghúsi, sem var áfast við gamla barnaskólann, en síðan í Félagsheimilinu eftir að það kom til sögunnar. Einnig voru leiksýningar á vegum íþróttafélagsins Höfrungs og mikið var leikið á vegum templara í Templarahúsinu. Þá starfaði Leikfélag Þingeyrar af miklum krafti um skeið. Við skulum nú bregða upp fjölbreyttri mynd af 26
leiklistarlífinu á Þingeyri frá aldamótum 1900 og fyrstu fjóra áratugi þeirrar aldar. Förum einsog kötturinn okkar eigin leiðir og dveljum þar sem heimildir og forvitni gefur. Fyrst nemum við staðar við sögu eins af fyrstu stórleikurum eyrarinnar í öllum merkingum þess orðs. Skugga – Sveinn Þingeyrar Einn af stórleikurum Þingeyrar er án efa sjósóknarinn sérstæði Ingibjartur Valdimar Sigurðsson. Fæddur 22. október 1876 að Arnarnúpi. Líklega fyrstur manna á Þingeyri til að túlka eitt þekktasta karl hlutverk íslenskra leikrita. Við erum vitanlega að tala um sjálfan Skugga – Svein í samnefndu verki hins vestfirska Matthíasar Jochumssonar, en upphaflega nafn leiksins var reyndar Útilegumennirnir. Svo vinsæl varð aðalpersóna leiksins að nafni leikritsins var síðar snarað upp á hann og hefur borið hans nafn allar götur síðan. Hafið heillaði Ingibjart snemma og innan við fermingu hefur hann sinn sjóaraferil. Sækir hann sjóinn stíft bæði á þorsk og hákarl. Aldamótaárið siglir hann ásamt þremur öðrum Dýrfirðingum til Danmerkur til að nema siglingafræði. Nam þar í eitt ár en kom svo aftur heim í fjörðinn sinn fagra. Tveimur árum síðar gekk hann að eiga Sesselju Magnúsdóttur. Börn þeirra eru Magnús Amlín er gjörðist verslunarmaður í þorpinu, Kristín og Halldóra Sigríður en hún andaðist 1936. Ingibjartur var ekki lengi að færa sig frá háseta yfir í sjálfan skipstjórann og gegndi því vandasama hlutverki allt til enda. Skugga – Svein lék hann víst oftar en elstu menn muna í þorpinu. Víst var hann einsog klæðskerasniðinn í rulluna einsog lesa má í mannlýsingu Karvels Ögmundssonar er var með honum á sjó: „Aldrei hafði ég séð mann er var líkari þeirri mynd er ég hafði hugsað mér af hinum fornnorrænu víkingum, en Ingibjart Sigurðsson. Hann var stór maður vexti. Herðabreiður, 27
andlitið mikilúðlegt, sviphreinn, stundum róleg gamansemi í svipbrigðum, augun mild og róleg. En ef mikið lá við harka í hverjum andlitsdrætti, hin mildu augu urðu hörð, skutu gneistum og hver hreyfing snögg og ákveðin. Þannig kom þessi vestfirski sægarpur mér fyrir sjónir.“ Það er ekki nokkur vafi að höfundur Skugga, þjóðskáldið sjálft hafði einmitt svona mann í huga er hann ritaði leikinn um Skugga – Svein. Víst hafði Ingibjartur unun af því að túlka hlutverkið og því greip hann tækifærið er hann var eitt sinn staddur í landlegu í Hafnarfirði. Þar var einmitt verið að sýna Skugga og auðvitað skundaði hinn dýrfirski Skuggi í Hafnarfjarðarleikhús. Það hefur örugglega slegið þögn á gesti er sátu spenntir í sætum sínum er Ingibjartur skundaði í gegnum salinn um leið og hann sagði: „Jæja, hvernig skyldi Sveinka nú takast?“ Maður sér fyrir sér skelfda gónendur, bíddu er þetta Skuggi eða?
Von og Höfrungur leiða leiklífið
Það er sannlega mikil von og góð sigling á leiklistarlífinu á Þingeyri í upphafi 20. aldarinnar. Það eru einkum tvö félög sem eru leiðandi í uppsetningu leikverka á eyrinni. Íþróttafélagið Höfrungur og Kvenfélagið Von. Setja þau á svið hverja stórsýninguna á fætur annarri svo gott sem öldina út. Einnig koma hingað gestir með leiksýningar einsog koma mun fram hér í vorri leiksögu. Bæði áhugaleikfélög sem atvinnuleikhús. Sumir ferðast langar leiðir en aðrir skottast bara yfir fjörðinn einsog t.d. stúkan Gyða á Núpi handan fjarðar sem sýnir á Þingeyri leikritið Búrfellsbiðillinn 1909 og svo aftur árið 1911. Leikrit þetta er leikgerð af hinni vestfirsku skáldsögu Piltur og stúlka eftir Jón Thoroddsen. En leikgerðina páraði síra Sveinbjörn Hallgrímsson. Þeir bræður Kristinn og Sigtryggur Gunnlaugssynir á Núpi voru í þessu verki meðan þeir bjuggu fyrir norðan. Þegar þeir voru svo komnir vestur og eru byrjaðir að punta upp á menningarlífið. Þá er leikur þessi þeim 28
29
í svo fersku minni að þeir rituðu upp leikgerðina eftir minni því ekkert höfðu þeir prentað handritið. Á þessum tíma var mikill kraftur í leikstarfinu á Núpi og var stúkan Gyða þar í forystuhlutverki einsog rekið verður í næsta kafla, Leikið í sveitum. Heimamenn á Þingeyri áttu seinna eftir að setja Búrfellsbiðilinn á svið svo hér hefur greinlega verið vinælt efni á ferð. Til gamans má geta þess að Piltur og stúlka er jafnan talin vera fyrsta eiginlega skáldsaga rituð á íslensku. Sagan hefur verið algeng á náttborðum landans í gegnum áratugina en hefur þó aðeins færst neðar í staflann á því vinsæla lesborði upp á síðkastið. Ritari las Pilt og stúlku, í þriðja sinn, fyrir ekki svo alllöngu og enn er hún hin dægilegasta skemmtun, ekta sveitaróman með öllu sem til þarf. Fátt toppaði hins vegar vinsældir leikverksins vestfirska Skugga – Sveinn sem var nánast sýnt í hverju þorpi um land allt næstu áratugina. Skuggi var sannlega leikinn í upphafi aldar á Þingeyri og það oftar en einu sinni. Leikritið var án efa eitt af svonefndum kassastykkjum þess tíma líkt og Ævintýri á gönguför. Leikur sá var settur reglulega á senu á eyrinni og um 1920 með dýrfirskum viðbótum. Guðmundur Einarsson, auknefndur hvellur, lék ekki bara í sýningunni heldur og orti nýja vísu í Ævintýrið sem var fléttuð saman við hinn vinsæla leik. Kvæðið vakti mikla athygli og þeim mun meiri hneykslan líkt og oft áður hjá Gvendi enda ekki að ástæðulausu nefndur, hvellur. Nánar verður fjallað um alþýðuskáldið Gvend í ritlistaþætti þessa rits. Ævintýrið var sýnt í gamla fiskþurrkunarhúsinu á Þingeyrarodda sem nú er horfið. Stór leikverk sem leikþættir voru sett á svið á eyrinni á þessum tíma. Einsog komið hefur fram vantar oft ártalið á uppsetningar leikverkanna en þó er vitað að verkin voru sannlega sett hér á svið. Til að nefna hve úrvalið var fjölbreytt á leiksviði eyrarinnar má nefna hér nokkra leiki: Háa Cið eftir Sophus Neamann, Emma, Ráðskona bakkabræðra eftir Oskar Braaten, Haninn galar, Herra Amor Teits, Stína, Fólkið í húsinu 30
eftir P. Strange, Happið eftir Pál Árdal, Þáttur úr Gíslasögu Súrssonar (ætli hér hafi verið um að ræða leikgerð heimahöfundar?) og loks leikinn Vekjaraklukkan. Um og eftir 1920 er mest leikið í Þinghúsinu en það hús var áfast við gamla barnaskólann. Einn leikara þess tíma, Ingunn Angantýsdóttir, segir svo frá um leiklíf eyrarinnar: „Það má segja, að aðstaðan til leiksýninga var ekki upp á marga fiska hér á Þingeyri á þessum árum. Leiksviðið voru vagnplötur, sem trékössum var raðað undir og teppi breytt yfir og fóru sýningar fram í Þinghúsinu. Þarna voru sýnd mörg leikrit, sem oft vöktu ánægju áhorfenda og einnig skrautsýningar, TABLO. Íþróttasýningar og kennsla fóru fram í Þinghúsinu svo og allir dansleikir. Minningarnar frá þessu skemmtanahaldi í Þinghúsinu eru yndislegar enda var maður ungur þá og rómantíkin mikil. Þinghúsið hefur alltaf verið og er mjög skemmtilegt, svo langt sem það nær. Það voru miklir erfiðleikar að koma upp leiksýningum vegna þrengsla, en alltaf hafðist það nú einhvern veginn með góðri samvinnu. Þarna voru færð upp smærri leikrit, sem oft vöktu mikla ánægju áhorfenda. Enn fremur voru fimleikasýningar fólks á öllum aldri og einnig söngskemmtanir kóranna, bæði blandaðs kórs og karlakórs staðarins, sem oft voru talsvert fjölmennir, milli 30 og 40 manns.“ Þinghúsið var sum sé aðal leikhúsið á þessum árum en einnig var leikið í Templarahúsinu sem var fyrir innan barnaskólann gamla. Nú tekur annar sögumaður við er einnig kom að leiklistarmálum á Þingeyri á nefndu tímabili. Sá er Böðvar J. Guðmundsson er var verslunarstjóri hjá Verslunarfélagi Dýrafjarðar um tíma: „Í þá daga var leikið í Rauða húsinu, sem kallað var, fyrir innan Barnaskólann, sem líka var kallað Stúkuhúsið. Eftir að maður var rúmlega fermdur, man ég ekki eftir öðru en maður væri að leika í einu til tveimur leikritum á hverjum vetri. Það var mikið fjör í leikstarfseminni. 31
Það var eftirminnilegt þegar við lékum Ráðskonu Bakkabræðra. Guðrún Böðvarsdóttir, sem lék ráðskonuna, var alveg einsdæmi. Það stykki var einnig leikið á Ísafirði og svo komu Ísfirðingar einnig til okkar með sama verk og þeir sögðu að það hefði verið miklu betur leikið af Þingeyringum en þeirra leikurum. Þeir voru alveg sérstakir, Jón Sigurðsson, faðir þeirra Skjólvíkursystkina, Valur Kristinsson og Guðjón Jónsson, en þeir léku Bakkabræður. Ég lék hreppstjórann og það var nú allt í lagi, út af fyrir sig. Ella nafna var fengin til að vera hvíslari. Við fengum lánaða meisa hjá Antoni Proppé. Á einum stað í leikritinu var flautað og þá átti Gísli að segja: „Þar flautaði nú Súðin, bræður.“ En um leið brotnaði meisinn undan Jóni Sigurðssyni og þá sagði hann: „Þar brotnaði nú meisinn, bræður.“ Þá fóru þeir að skellihlæja og man ég að þá varð Ella nafna reið við Val, son sinn. Það voru auðvitað allir hlæjandi frammi í sal. En við drógum bara fyrir og svo var byrjað aftur, þannig að þetta endaði allt í góðu.“ Og áfram halda leikminningar Böðvars á Þingeyri. „Það var mest leikið á vegum kvenfélagsins, en einnig Höfrungs. Þær voru alltaf með leikrit á hverjum jólum. Einu sinni vorum við að æfa Frænku Charleys á vegum kvenfélagsins. Ég var frænkan og Birgir Steinþórsson elskhuginn. Svo var það kvöld nokkurt, að við Biggi vorum að koma utan úr kaupfélagi af leikæfingu. Þá sáum við að búið var að hengja upp stóra auglýsingu á staurinn við Hallhúsið. Þá var þar aðal auglýsingastaurinn fyrir götuauglýsingar. Og við fórum að lesa: Kvenfélagið Von hefur ákveðið, að félagskonum sínum skuli haldið saumanámskeið, ef næg þátttaka fæst. Kennari verður Hanna Proppé. Kennt verður í barnaskólanum á kvöldin. Nánari upplýsingar gefur stjórnin. Við fórum svo út í kaupfélag, maður, og sóttum rakvélarblað skófum út úr endalínu á auglýsingunni. Þegar fólkið fór að lesa auglýsinguna daginn eftir, þá hljóðaði hún svona:
32
Kvenfélagið Von hefur ákveðið, að félagskonum sínum skuli haldið, ef næg þátttaka fæst o.s.frv. Þær urðu alveg brjálaðar og kærðu okkur fyrir Þorbergi hreppstjóra, en hann hafði nú gaman af. En við sögðum bara við vinkonu okkar í kvenfélaginu: Jæja, ef þið ætlið að bera þetta á okkur, saklausa, þá leikum við bara ekkert fyrir ykkur á jólunum. Nei, nei, nei, nei, við skulum hætta þessu, sögðu þær þá. Þá hló Þórbergur. Svo eitthvað tveim, þrem árum seinna, þá sögðum við: Það vorum nú við sem skófum þetta út. Við vissum það nú alltaf, sögðu þær, en þá voru þær búnar að jafna sig á þessu. En hálfpartinn held ég að þær hafi nú haft gaman af þessu sjálfar! Jens Guðmundsson, Jenni heitinn „red“, sem kallaður var, sagði svo stundum þegar hann mætti kvenfélagskonum á götu: Á að halda þér í dag eða á morgun? Menn höfðu gaman af þessu. Jenni var svolítið stríðinn, en alveg ljómandi náungi. Úr því ég nefni hann hér, má ég til að segja frá því hvað henni fóstru minni þótti vænt um hann. Hann var í siglingum á honum Sæhrímni og hann var að færa okkur hitt og þetta þegar hann kom úr túrunum og hann var okkur hjálplegur á ýmsan hátt. Góðir vinir eru mikils virði í lífinu.“
33
greinir frá í blaði sínu 30. desember 1933. „Tengdamömmu, leikrit Kristínar Sigfúsdóttur, lék kvenfél. Von á Þingeyri á 2. jóladag við mikla aðsókn. Tókst leikurinn vel, en húsrúm skortir þar til leiksýninga og stærri mannfagnaðar. Er fyrir nokkru hafin fjársöfnun á Þingeyri til byggingar nýs samkomuhúss.“ Áfram var haldið við byggingu samkomuhússins og var það loks vígt með pompi og prakt árið 1939. Hefur það síðan verið aðalleikhús og samkomustaður Þingeyringa. Nú ber svo vel í veiði að varðveist hefur auglýsing frá vígslu samkomuhússins, leikhússins á Þingeyri sem gefur frábæra mynd af þessum merka degi í leiksögu Þingeyrar sem bar uppá 9. desember einsog lesa má í nefndri auglýsingu. „Samkomuhúsið vígt Loksins alvöru leikhús
Vígsluhátíð
Eftir því sem leikstarfsemin varð meiri jókst umræðan um nauðsyn þess að byggja alvöru leikhús, samkomuhús. Aftur tekur sögukona okkar, Ingunn Angantýsdóttir, við sögukeflinu. „Það var í kringum 1927-1928, sem farið var í alvöru að tala um byggingu nýs samkomuhúss. Boðað var til almenns fundar af því tilefni. Var þar tekin sú ákvörðun að félög staðarins stæðu að byggingunni. Kosin þriggja manna nefnd frá hverju félagi, kusu þau svo framkvæmdanefnd og þar átti hvert félag sína fulltrúa, en félögin voru þessi. Íþróttafélagið Höfrungur, Fortúna, Kvenfélagið Von, Kristilegt ungmennafélag og Verkalýðsfélagið Brynja. Það var þegar hafist handa um fjáröflun af miklum krafti. Þrátt fyrir mikinn áhuga gekk söfnunin fremur hægt, því kreppa var í landinu á þessum árum og fólk hafði litla peninga, en með dugnaði miðaði alltaf í áttina.“ Konurnar eru ekki vanar að gefast upp og á öðrum degi jóla árið 1933 frumsýnir kvenfélagið Von gamanleikinn Tengdamamma til fjáröflunar leikhúsbyggingunni. Eða einsog Vesturland
Laugardaginn 9. des. 1939 fer fram vígsla á Samkomuhúsi Þingeyrar og hefst stundvíslega kl. 8 ½ e.h.
34
Til skemmtunar verður: 1. Hátíðin sett (Magnús Amlín) 2. Karlakórsöngur (Karlakór Þingeyrar) 3. Vígsluræða (Ólafur Ólafsson) 4. Einsöngur (Bjarni Andrésson, Óskar Jóhannesson) 5. Vígslukvæði (síra Sigurður Z. Gíslason) 6. Tvísöngur (Hanna og Camilla Proppé) 35
7. Gamanþáttur
Dýrfirskir listamenn
8. Einsöngvar (Magnús Amlín, Gunnlaugur Þorsteinsson, læknir) 9. Frjáls ræðuhöld (í hálfa klukkustund) 10. Dans (Tvö dragspil, dansað meðan fjörið endist) Húsið opnað kl. 8 Aðgangur fyrir fullorðna kr. 1.00. Börn kr. 0,50 Nefndin. „ Áður en við kveðjum leiksögu eyrarinnar í bili og höldum í sveitirnar í Dýrafirði hvar sannlega var einnig leikið. Þá er viðeigandi að birta hér fyrsta en alls ekki síðasta Dýrafjarðar listamannaþátt þessa rits. Ófáir listamennirnir hafa fæðst hér í firði og má þar nefna eina dáðustu leikkonu síðustu aldar í leikhúsinu. Við erum að tala um sjálfa Emilíu Jónasdóttur. Hina einu og sönnu Soffíu frænku hins íslenska leiksviðs. Hér sleit hún barnsskónum og fékk leikhúsbakteríuna beint í æð einmitt á þeim tíma sem hefur verið hér til umfjöllunar.
Soffía frænka fæddist á Þingeyri Emilía Jónasdóttir F. 19. maí 1901 á Þingeyri. D. 26. febrúar 1984 í Hafnarfirði Öndvegisverk: Tannhvöss tengdamanna í samnefndum leik, Soffía frænka í Kardemommubænum, Nilla í Jeppa á fjalli.
36
37
Þó Emilía Jónasdóttir sé ein vinsælasta gamanleikkona síðustu aldar hér á landi hefur alltof lítið verið um hana ritað og vitað. Ef ekki væri fyrir tvær ómetanlegar upptökur af list hennar væri enn meira fennt yfir nafn hennar. Eða hver kannast ekki við hina einu sönnu Soffíu frænku í frumuppfærslu Kardemommubæjarins eftir Thorbjörn Egner. Sem kom fyrst út á hljómplötu og síðar á geisladiski og æska síðustu nú rúmlega hálfrar aldar hefur notið. Hún túlkaði einnig bangsamömmu í Dýrunum í Hálsaskógi eftir Egner. Bæði þessi hlutverk túlkaði Emilía með slíkum bravúr að erfitt hefur reynst að leika þær á annan hátt. Það má líka bæta við að bæði leikritin hafa reynst hinar bestu barnfóstrur. Emilía var fædd og uppalin á Þingeyri. Foreldrar hennar, Jónas Jónasson og Ingibjörg Bergsdóttir, voru á kafi í leikstarfinu og urðu því að taka Emilíu litlu með sér á æfingar. „Ég andaði þessu að mér frá fæðingu“, sagði hún í sjónvarpsviðtali löngu síðar og það var einmitt í leikhúsinu á Þingeyri sem hún tók hina stóru ákvörðun. Það var þegar hún sá föður sinn leika í Sigríði Eyjafjarðarsól og þegar hann fór að gráta í sýningunni þá snerti það dótturina svo djúpt að daginn eftir sagði hún við krakkana í skólanum: „Þegar ég verð orðin stór þá ætla ég að verða leikkona og láta fólkið gráta.“ Það gekk sannarlega eftir þó oftar hafi gónendur frekar grátið af hlátri af leik hennar. Emilía flytur síðan á Akureyri og þar hefst leikferillinn. Strax árið 1922 leikur hún í leikverkinu Dalbæjarprestssetrið sem var í leikstjórn Haraldar Björnssonar, fyrsta lærða leikara þjóðarinnar. Fjórum árum síðar er hún komin á senuna hjá Leikfélagi Akureyrar og leikur greifafrú í Ambrosíus eftir Christian Molbeck, einnig í leikstjórn Haraldar. Þegar hún flytur til borgarinnar byrjar hún að starfa með Leikfélagi Reykjavíkur hvar hún lék næstu áratugina. Hún var einnig í revíum- og kabarett sýningum Bláu stjörnunnar sem var í Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll. Ekki má gleyma revíufélaginu Fjalakettinum sem setti upp hvern smellinn á fætur öðrum um miðja liðna öld. 38
Þrjár vinsælar gamanleikkonur; Emilía, Aróra Halldórsdóttir, sem einnig er að vestan, og Nína Sveinsdóttir ásamt undirleikaranum Sigfúsi Halldórssyni mynduðu síðan skemmtihópinn Frúrnar þrjár og Fúsi. Ferðuðust um landið og fylltu öll félagsheimili með gríni og söng. Það hlutverk sem gerði Emilíu að stjörnu hér á landi var tannhvöss tengdamanna í samnefndum gamanleik eftir Falkland Carry og Philip King. Þar fór hún sannarlega á kostum því meira að segja hinn einstaki gamanleikari Brynjólfur Jóhannesson féll í skuggann. Enda kannski vel við hæfi því hann túlkaði bældan eiginmann hinnar tannhvössu. Þessi leikur var frumsýndur 1957 og gekk þrjú leikár í röð. Sýnt var í Iðnó og víða um landsbyggðina en alls urðu sýningar 130. Leikhópurinn var sannarlega vel skipaður. Þar var m.a. ungur og efnilegur leikari að nafni Árni Tryggvason. Í ævisögu sinni, Lífróður, talar hann um leikkonuna: „Emilía var með þessa fínu, innbyggðu tímasetningu; hún hafði meðfædda „tæmingu“, sem small akkúrat á réttum tíma og fékk fólk til að hlæja.“ Hann bætir svo við skemmtilegri lýsingu á hinni sérstöku hjátrú hennar: „Emilía kom alltaf fyrir litlum borðum eða stólum bak við dyrnar. Á þeim hafði hún sítrónusafa, appelsín, brjóstsykur og hálstöflur. Í hvert skipti sem hún gekk af sviði, hvort sem það var hægra megin eða vinstra megin, gæddi hún sér á sælgætisnestinu. Það skipti hana engu, þótt hún væri stutta stund af sviði. Hún skellti ávallt í sig sælgætinu og sturtaði niður með gosi. Ég hef ekki þekkt neinn annan leikara sem hagaði sér á þennan hátt. Hún var ekki sísvöng eða þyrst; ég hygg að þetta hafi stafað af því að hún var svo taugastrekkt við tilhugsunina um að þorna í kverkunum. Það er það hryllilegasta sem kemur fyrir leikara.“ Hún lék í tveimur af fyrstu sýningum Þjóðleikhússins árið 1950, Fjalla-Eyvindi og Íslandsklukkunni. Næstu tæpa þrjá áratugi lék hún til skiptist þar og hjá Leikfélagi Reykjavíkur. Hún lék auk þess lítið hlutverk í kvikmyndinni 79 á stöðinni. 39
Klemenz Jónsson, leikari, ritar grein í Morgunblaðið í tilefni af 75 ára afmæli Emilíu, 1976, en sama ár fagnaði hún einnig hálfrar aldar leikafmæli sínu. Þar ritar hinn ágæti leikhúsmaður m.a. um listakonuna sem verða um leið okkar lokaorð: „Það sem hefur einkennt Emilíu Jónasdóttur sem leikkonu, er hressileg og fjörleg framkoma á leiksviðinu og rík skopgáfa. En umfram allt er það hjartahlýja hennar. Margir telja að best hafi henni tekist að túlka hina látlausu og hrjáðu alþýðukonu.“
LEIKIÐ Í SVEITUM
40
41
Leikið millum mjalta Oft finnst manni sem verkin í sveitinni séu svo mörg að varla gefist tími til annarra verka hvað þá einhvers frítíma. Tíma til að létta lundina taka þátt í félagsstarfi. Brjóta upp hversdaginn og einmitt þá kemur listin oft sterk inn. Þegar hversdagurinn verður að nýdegi hvar nýir hlutir opnast sem gefa manni um leið aukinn kraft til að fást aftur við hversdaginn sem getur oft verið svo körfuharður ef ekki leiðigjarn og langdreginn ef engin er tilbreytingin. Auðvitað hefur fólkið í sveitunum gjört sér dagamun þrátt fyrir öll sveitaverkin sem eru stundum óteljandi. Svo mikil að manni geta fórnast hendur yfir verkinu. Það er einmitt þá sem er svo gott að breyta til. Hvíla sig frá verki, gera eitthvað allt annað t.d. syngja, lesa í bók, fara til messu, teikna mynd, rita kannski ljóð, dagbók eða bara jafnvel skella öllu í kæruleysi og fara bara á leikæfingu. Um allt land er að finna frásagnir af leiklistar og listastarfi í sveitum. Nærtækast er að vippa sögunni yfir í næsta fjörð, Arnarfjörð. Þar var nú heldur betur leikið til sveita og þá sérlega í Selárdal. Meðan þar var mikill byggð sem náði hæst 100 manns voru leiksýningar reglulega settar á svið í þessum mikla sögudal sem Selárdalurinn er. Þar voru m.a. sýndar heimatilbúnar leikgerðir upp úr sögum hins vestfirska Jóns Thoroddsens; Piltur og stúlka og Maður og kona. Svo merkilega vill til að hið sama var einnig gjört í okkar Dýrafirði. Enda voru þessar fyrstu skáldsögur þjóðarinnar í miklu uppáhaldi landans og eru jafnvel enn. Í Bakkadal í Arnarfirði var einnig um tíma ígildi þorps með kaupfélagi og öllu. Þar var líka samkomuhús og leikstarfsemi mikil. Þar þreytti eitt af okkar bestu leikskáldum frumraun sína á leikritvellinum, nefnilega Guðmundur Jónsson betur þekktur sem Guðmundur Kamban. Þar var á ferðinni gamansöm sveitasaga sem átti sér víst fyrirmynd í sveitinni enda varð allt vitlaust við frumsýningu leiksins. Svona getur
42
leiklistin verið öflug. Sérlega beittust þegar við sjáum eigin tilveru og líf í spéspegli. Leiklistin var sannarlega stór og snar þáttur í sveitum Dýrafjarðar allt frá landnámi. Enda var það nú svo að lengi vel var þar fjölmennara en á Þingeyri. Árið 1880 bjuggu 57 í Haukadal í Dýrafirði en 34 á Þingeyri. Það var einmitt í Haukadal sem við fundum fyrsta leikara fjarðarins einsog áður var rakið sjálfan Gísla Súrsson. Það er því við hæfi að hefja leiksögu sveitarinnar í þessum fagra dal.
43
Leiklist í Haukadal
Haukadalur er ægifagur staður sem skartar mikilli náttúrufegurð og fyrir miðju dalsins drottnar hæsta fjall Vestfjarða, Kaldbakur, 998 metrar á hæðina. Einmuna veðurblíða er í Haukadal enda er einsog innlögnin sem mætir daglega á Þingeyri sneiði bara frá hinum fagra Haukadal. Byggð hefur verið í Haukadal svo gott sem frá landnámi enda kostir margir og kyrrðin engri lík. Það er svo undir lok 19. aldar sem verulega fer að fjölga í dalnum og er um tíma fjölmennara þar en á Þingeyri einsog áður var ritað. Þarna er uppistaðan landbúnaður en einnig sóttu menn sjóinn og á tímabili var þarna rekin öflug útgerð. Fljótlega var komið á fót skóla fyrir æsku dalsins og þangað komu einnig krakkar úr nærliggjandi sveitum. Það var meira að segja heimavist í Haukadalsskólanum á tímabili. Þarna var líka verslun svo fátt þurfti að sækja í aðra dali eða eyrar. Segja má að gullöld hafi verið í Haukadal árin 1935 – 1939 44
en þá rak Jóhann nokkur Jónsson útgerð í dalnum. Gerði hann út eina þrjá báta og var með um 20 manns í vinnu. Byggði meira að segja eigin bryggju sem stóð í um tvo áratugi áður en hún var niður tekin. Hann lagði járnbraut um 200 metra frá bryggju að fiskreitunum. Það er löngu sannað að eftir því sem fjölmennið eykst vaknar félagsandinn. Maður er manns gaman og allt það. Í Haukadal líkt og á Þingeyri var það kvenfélagið sem var í fararbroddi félagsstarfseminnar. Kvenfélagið hét Hugrún og meðal fjölmargra verka þess félags var að setja upp leikrit. Mjög skortir hins vegar á heimildir um þessa leikstarfsemi félagsins. Þó náði ritari að finna að svo snemma sem árið 1910 er sett upp leikrit í Haukadal. Eigi er vitað nafn leiksins en hins vegar rann ágóði uppfærslunnar, 51, 90 aurar til aðstandenda þeirra 20 er fórust í hinu mannskæða snjóflóði í Hnífsdal 18. febrúar sama ár. Hér er komið aðeins eitt af fjölmörgum dæmum um hve oft leiklistin og listir almennt leggja sitt af mörkum á erfiðum stundum. Árið 1936 byggði kvenfélagið sérstakt samkomuhús í Haukadal. Reyndar tók allt samfélagið þátt í byggingu hússins en lóð undir það var gjöf frá einum stórbænda sveitarinnar. Meðal þeirra sem báru og börðu timbur og settu upp veggi voru félagar í Ungmennafélaginu Gísli Súrsson. Jú, þarna var sérstakt íþróttafélag starfandi og vitanlega var því gefið nafn mesta íþróttakappa dalsins. Margir áttu eftir að hefja sportferil sinn með ungmennafélaginu; þeirra frægastur líklega Hermann Gunnarsson, eða Hemmi Gunn einsog við þekkjum hann best. Einhver fremsti knattspyrnumaður allra tíma hér á landi. Hemmi sótti allt frá æskuárunum í Haukadal enda sagðist hann hafa verið Gísli Súrsson í fyrra lífi. Dvaldi hann jafnan hjá fóstru sinni, Unni Hjörleifsdóttur í Haukadal, er var síðasti íbúi dalsins með ársbúsetu. Það þarf ekkert að efast um það að bygging samkomuhússins hafi haft mikil áhrif á leikstarfsemina í Haukadal. Enda 45
var það svo að þegar ritari festi kaup á þessu fornfræga leikhúsi Dýrafjarðar árið 2005 var þar að finna betrekkjaða veggi í flekastærðum einsog lengi voru algeng í leikhúsum. Sumir höfðu hurðir, aðrir glugga og sumir veggirnir bara venjulegir og sléttir. Á senunni voru einnig eins konar rennur báðum megin á hliðum og í sviðsenda þar sem hægt var að renna þessum veggjum í. Þarna var meira að segja lítil lúga fyrir hvíslara einsog tíðkaðist í stórleikhúsum heimsins hér áður og fyrrum. Í dag hefur nú hlutverk hvíslarans nánast horfið úr leikhúsinu. Enda var það nú svo að oft þurfti hvíslarinn ekkert að hvísla til að koma réttu orðunum í hinn stamandi leikara. Þurfti jafnvel að tala hærra en sjálfir leikarar leiksins. Það er líka svo að þegar leikari man ekki textann er oft einsog hann stirni bara upp, frjósi einsog stundum er sagt á erlendum málum. Týni stað og stund. Hver svo sem ástæðan er þá er hvíslarinn sjaldséður í leikhúsinu nema þá kannski helst á æfingum. Það er því alveg ljóst að í Haukadal var mikið leikið eftir að þar var komið upp sérstakt samkomuhús með leiksviði. Einsog svo oft áður í leiksögunni er hins vegar lítið skráð né vitað um þessa starfsemi annað en það að það var mikið leikið og stundum oft á ári. Líklega hafa ratað á svið vinsælustu verk þess tíma. Nægir þar að nefna Ævintýri á gönguför og Skugga – Svein. Jafnvel hefur Búrfellsbiðillinn ratað þarna upp á senu enda búið að leika hann bæði á eyrinni sem og hinum megin fjarðar í Mýrarhreppi. Ætla má að leikhandrit hafi einmitt flakkað á millum þessa félaga í Dýrafirði sem sinntu leiklistargyðjunni. Því hafi sömu verkin jafnvel verið sýnd sama árið eða með stuttu millibili á millum. Jafnvel hafa menn haft víðtækara samstarf, fengið lánað búninga og jafnvel leikmuni úr sömu uppfærslum. Leikþættir hafa líklega oft ratað á senu í Haukadal einsog víðar í Dýrafirði. Ekki má svo gleyma skrautsýningunum er stundum voru nefndar Tablo. Einn heimildarmaður ritara 46
mundi eftir einni slíkri sýningu í samkomuhúsinu í Haukadal. Þar lék móðir, heimildagjafa okkar, og var í hlutverki næturinnar. Hlutverk sem voru einmitt algeng í skrautsýningum þess tíma hvar nótt, dagur, vetur, sumar, fortíð sem framtíð gátu verið í aðalhlutverki. Svo tók fólkinu að fækka. Sú þróun var í Haukadalnum sem og í öðrum sveitarkjörnum þessa lands að um miðja 20. öldina vildi fólk sækja í meira fjölmenni, meira fjör. Þá var gjarnan farið í næsta þorp þó sumir hafi farið enn lengra, alla leið suður þó margir hafi aldrei farið suður. Árið 1940 búa 78 í Haukadal á móti 378 á Þingeyri. Eftir það lækkaði Haukadals íbúalínuritið með hverju árinu. Í dag hefur engin þar heilsársbúsetu en mjög blómleg sumarhúsabyggð er í þessum fagra dal í Dýrafirði. Það er þó enn mikið líf í samkomuhúsinu sem hefur nú fengið virðulegt nafn og við hæfi nefnilega, Gíslastaðir. Þar er reglulega sýnt verðlaunaleikritið um frægasta son dalsins Gísla Súrsson. Eitt mest sýnda leikrit leiksögunnar hefur verið sýnt um 360 sinnum þegar þetta er ritað og enn í sýningu. Einnig eru á Gíslastöðum fjölbreyttir viðburðir og námskeið sem tengjast landnáminu og söguöldinni. Þannig að enn er leikið í Haukadal og síst minna nú en áður. Vindum okkur nú yfir fjörðinn. Förum á norðurströnd Dýrafjarðar þar sem leiklistin var í hávegum höfð í áraraðir. Leikið í Mýrarhreppi Vel væri hægt að byrja þennan þátt í leiksögu sveitarinnar í Dýrafirði með því að notast við heiti vinsæls útvarpsþáttar, Árið er. Og árið í okkar sögu er 1906. Þá gjörist tvennt í hinum blómlega Mýrarhreppi sem tengist leiksögunni. Í fyrsta lagi er Núpsskóli stofnaður árið 1906 hvar nærri út öldina voru sett upp leikrit árlega, stundum fleiri en eitt. Þetta sama ár, 1906, er einnig stofnuð í hreppnum dýrfirska templarastúkan Gyða. 47
Víst lét sú góða stúka mun fleira en bindindismál sig varða og var ötul við að sinna leiklistargyðjunni næstu áratugina. Aðeins þremur árum síðar 1909 er annað mikilvægt félag í vorri leiksögu stofnað þar norðan fjarðar nefnilega Ungmennafélag Mýrarhrepps. Var það sannlega einsog mörg ungmennafélög með fjölbreytta starfsemi, ekki bara sport heldur og uppsetning leikrita. Það hefur og sitthvað að segja hve fjörugt leiklífið var í Mýrarhreppi í upphafi 20. aldar og nærri öldina út að þar voru nokkrir ofvirkir. Fólk sem hefur í sér þörfina fyrir að skapa og lyfta svolítið upp hversdeginum. Eða einsog maðurinn sagði að lyfta huganum yfir hversdagsleikann. Það er því við hæfi að kynna þessa þrenningu til sögunnar já hér var ekki bara einn af einum einsog oft er, heldur voru smitberarnir þrír. Bræðurnir Sigtryggur og Kristinn Gunnlaugssynir og mennta- og fjöllistamaðurinn Björn Guðmundsson.
Af Gunnlaugssonum Margt er vitað og meira að segja sannað í leiksögunni þó oft vanti ártöl, leikrit og upplýsingar um þátttakendur. Það er t.d. vitað að fyrir áður nefnt ár 1906 er þegar byrjað að leika í Mýrarhreppi. Þó heimildir skorti um viðfangsefnin og ártöl í þeim efnum. En nú tekur að birta til og leikverkasagan í hreppnum opnast upp á gátt.
Horft heim að Núpi.
Bræður eru nefndir Kristinn og Sigtryggur Gunnlaugssynir. Ólu þeir fyrst manninn fyrir norðan , einsog lengi var títt að tala um það sem norðan er, hvar þeir tóku m.a. þátt í leikstarfi. Má þar nefna uppsetningu á leikgerð á sögu Jóns Thoroddsen Piltur og stúlka er nefnd var Búrfellsbiðillinn. Einnig er sagt að annar þeirra, Sigtryggur, hafi þar snarað sjálfur í eitt stykki leikrit. Ritara skortir þó nánari heimildir um það t.d. heiti þess 48
49
leiks. Vorið 1892 flytur hinn bróðirinn, Kristinn, úr Eyjafirði og alla leið í Dýrafjörð. Kært var á millum þeirra bræðra og fljótlega byrjar Kristinn að rita bróður sínum bréf. Auk almennra kurteisra frétta leggur hann þó meiri áherslu á hve blómlegt sé í Dýrafirði, búkostir þar góðir og land gott. Með hverju bréfi aukast og fegrast þessar lýsingar um kosti sveitarinnar í firði Dýra. Að lokum lætur Sigtryggur tilleiðast pakkar niður og heldur í Dýrafjörð hvar hann bjó allar götur síðan. Ýmislegt tóku þeir bræður með sér að norðan m.a. leikáhugann. Árið leikmikilvæga 1906 rennur upp. Árið sem stúkan Gyða, sem var nr. 120, var stofnuð og sjálfur Núpsskóli. Hér voru komnir tveir turnar í leiklistinni í Mýrarhreppi og í þeim báðum störfuðu bræðurnir Gunnlaugssynir af óeigingjörnum krafti. Unnur dóttir Kristins rifjar þetta skemmtilega upp löngu síðar. „Stúkan og ungmennafélagið héldu jafnan skemmtanir á veturna, og æfði faðir minn allan söng fyrir þær. Breyttu þeir bræður sögum í leikrit. Man ég bæði eftir Pilti og stúlku og Manni og konu, eftir Jón Thoroddsen, Sögum Rannveigar eftir Einar Kvaran, leikriti eftir Tómas Jónasson móðurbróður þeirra, og mörgum fleiri. Foreldrar mínir léku oftast með. Björn Guðmundsson, hinn ágæti kennari við skólann, var góður upplesari og fæddur leikari.“ Þarna er margt leiksögulegt nefnt og best að vinda sér fyrst að Pilti og stúlku. Einsog áður var getið tóku þeir bræður þátt í uppfærslu á Búrfellsbiðlinum sem var leikgerð upp úr þessari vinsælu sveitarróman sögu Jóns Thoroddsen. Ekkert höfðu þeir þó handritið með sér vestur en svo lifandi var það þeim í huga að þeir dudduðu sér við það í kveldsólinni í Dýrafirði að rita Búrfellsbiðilinn upp eftir minni. Segja má að þessi leikur hafi eiginlega verið Skugga – Sveinn Mýrarhrepps hvað vinsældir varðar því hann var settur á svið ár eftir ár.
Gyðu. Árið 1911 er Búrfellsbiðillinn aftur komin á fjalirnar í hreppnum og svo síðar settur upp af íbúum þorpsins á eyrinni og jafnvel í Haukadal. Frostaveturinn mikla, 1918, er leikurinn enn settur á svið á Núpi. Guðmundur Bernharðsson þá nemi á Núpi minnist leiksins og eigi síður kuldans. „Stúkan Gyða, sem lengi var starfandi á Núpi, efndi til skemmtunar og sýndi þar þátt úr Pilti og stúlku, Búrfellsbiðilinn. Hann var sýndur í skólanum, þó kuldinn væri mikill. Veggir og loft leikfimisalarins, þar sem dansa átti, voru alþakin hrímhellu, sem þídd var með olíuofnum og logandi prímusum. Hrímhellan datt á gólfið, var síðan mokað í fötur og borin út. Þessi hitatæki voru höfð lifandi heilan sólarhring fyrir skemmtunina og vaktmaður yfir þeim.“ Einsog kom fram í minningum dóttur Kristins þá snéru bræðurnir nokkrum sögum í leikritsform. Árið eftir að Búrfellsbiðillinn er sýndur eftir minnishandriti þeirra bræðra er önnur saga sama skálds sýnd á Núps senu. Nú eru bræðurnir höfundar leikgerðarinnar og nefna Egill ætlaður Sigrúnu í Hlíð upp úr Manni og konu Jóns Thoroddssens. Leikurinn var frumsýndur á Núpi 1910 og var örugglega tekinn upp aftur og jafnvel aftur líkt og Búrfellsbiðillinn og önnur vinsæl verk þess tíma. Borgir saga Jóns Trausta í leikgerð heimamanna var einnig sett á svið sem og leikritið Tengdamamma eftir Kristínu Sigfúsdóttur. Leikstarfsemin á Núpi var gífurlega mikil á þessum árum, jafnvel meiri en í þorpinu hinum megin fjarðar. Sigtryggur var jafnan potturinn og pannan í öllum verkum að undanskildu einu. Hann steig ekki sjálfur á svið. Þar dró hann mörkin.
Búrfellsbiðillinn er fyrst sýndur í þessari útgáfu bræðranna Gunnlaugssona á Núpi árið 1909 í uppsetningu stúkunnar 50
51
Vildi ekki vera klerkur í klípu Þrátt fyrir að Sigtryggur Gunnlaugsson hafi greinlega haft mikinn áhuga á leiklist þá vekur það athygli að sjálfur var hann sjaldan á senunni. Heldur miklu frekar að tjaldabaki leikstýrði t.d. oft auk þess að þýða og semja heilu leikritin. Ástæðan? Jú, hann var einnig prestur hreppsins og vildi eigi setja sig í einhverja klípu með einhverjum látalátum og fíflagangi á leiksviðinu. Einsog margir kölluðu leiklistina þá og jafnvel enn, fíflagang og sprell. Halldór Kristjánsson rekur ástæðurnar vel í ævisögu klerksins. „Að vissu leyti mun séra Sigtryggi hafa fundizt að prestsstarfið væri sér þvingun. Honum fannst, að presti væri ósamboðið ýmislegt af því, sem óvígðir menn gætu leyft sér. Hann var áhugamaður um leikstarfsemi, þýddi leikrit og studdi á ýmsan hátt að sýningum og sagði frá því á gamals aldri, að sig hefði alltaf langað til að leika sjálfur, en það taldi hann útilokað vegna embættis síns. Þannig mun hann oft hafa lagt hemil á gáska sinn vegna embættis síns, þegar hann var í glöðum hóp. Þó kom einstöku sinnum fyrir, að hann sagðist ætla að leggja prestinn til hliðar um stund. Þegar hann lét það eftir sér, var hann allra manna skemmtilegastur, kunni margar skrýtlur og sagði þær ágætlega með ótvíræðum leikbrögðum.“ Leiksýningarnar á Núpi voru jafnan sýndar í einni kennslustofunni á Núpi en sviðið sjálft var lítið herbergi sem var í miðri stofunni. Víst gerðu menn mun minni kröfur til aðstöðunnar en nú á dögum enda vissu Mýrarmenn það líkt og fleira leikhúsáhugafólk að leikhús er ekki bara hús. Heldur og miklu frekar fólkið sem þar starfar. Það var eitthvað einstakt í loftinu í Mýrarhreppi á þessum tíma og þegar svo vel gengur þá leitar fólk þangað sem fjörið er. En hér áður var nefnt að þriðja hjólið í þessu leikhúsævintýri var Björn skólamaður Guðmundsson. Rétt er að víkja sögunni að þeim fjölhæfa manni með því að enda hér á dulítilli samantekt 52
nemenda á Núpi á þessum upphafsárum leiklistarinnar í Mýrarhreppi og þátt Sigtryggs í ævintýrinu. Jóhannes Davíðsson nemandi á Núpi 1908 – 1910, tekur við sögukeflinu. „Það var fleira en bindindismálin sem st. Gyða hafði á prjónum á sínum duggarabandsárum, og reyndar má með réttu eigna sr. Sigtryggi meir en bróðurpartinn í því margþætta menningarlífi sem þá blómgaðist á Núpi. Voru leiknir sjónleikir vetur eftir vetur og leikfarir gerðar til nærliggjandi kauptúna. Man ég eftir þessum leikritum sem sýnd voru: Maður og kona og Piltur og stúlka eftir Jón Thoroddsen, Borgir eftir Jón Trausta og síðar Tengdamamma Kristínar Sigfúsdóttur, Sögur Rannveigar eftir Einar H. Kvaran o.fl., o.fl. Leikrit sniðu þeir Núpverjar sjálfir upp úr nefndum skáldsögum og tókst vel. Sr. Sigtryggur lék ekki sjálfur, enda prestvígður maður, en hann mun hafa verið aðalhvatamaðurinn og leiðbeinandi.“ Björn hinn fjölhæfi Margt er freistandi í sagnaritun m.a. það að halda áfram þar sem frá var horfið. Og þar sem lífið er svo dásamlegt þá látum við það eftir okkur og leyfum síðasta sögumanni að halda áfram með sína frásögu af leiklífinu á Núpi. Jóhannes Davíðsson tekur við. „Björn Guðmundsson frá Næfranesi var fæddur leikari, enda margt frábærlega vel til lista lagt og allra fjölhæfasti maður sem ég hef kynnzt. Hann lék oft höfuðhlutverk, málaði leiktjöld og leiðbeindi. Þá var Kristinn Guðlaugsson ágætur leikari, sömuleiðis Rakel Jónasdóttir kona hans, Sigtryggur sonur þeirra, Kristbjörg Kristjánsdóttir, ráðskona skólans, Ágúst Pálsson, síðar bóndi á Laugabóli í Arnarfirði, þá tómthúsmaður á Núpi (Sléttu). Var hann prýðilega gefinn maður og frábær leikari. Guðný Gilsdóttir á Arnarnesi, Ingimar Jóhannesson síðar kennari og fulltrúi, er var nemandi á Núpi og síðar starfsmaður þar, Hjaltlína Guðjónsdóttir, síðar 53
eiginkona sr. Sigtryggs, Guðný Hagalín, þá búsett í Ytrihúsum, Torfi Hermannsson frá Fremstuhúsum, Hallmundur Jónsson í Meira – Garði, er líklega hefur sýnt Hjálmar tudda af mestri list, Árni Brynjólfsson á Kotnúpi o.fl. Af þessum fáum orðum sést, að það var sannarlega líf og fjör á Núpi á þessum árum. Það var hugsað um að lyfta huganum yfir hversdagsleikann, auka víðsýni og þekkingu og skilning á mannlegu lífi og mannlegri tilveru.“ Björn Guðmundsson var sannlega einn af burðarásunum í leiklistarlífinu á þessum tíma á Núpi bæði innan sviðs sem utan. Því auk þess að leika átti hann það til að leikstýra svona þegar Sigtyggur komst ekki í verkið. Leikari þótti hann góður og var nánast í öllum uppfærslunum næstu árin. Lék hann t.d. séra Sigvalda í Manni og konu, í Borgum lék hann tvö hlutverk og talaði bókstaflega tungum. Því önnur persónan talaði íslensku meðan hin talaði norsku. Björn fór víst létt með þetta enda mikill hæfileikamaður á mörgum sviðum. Hann þótti afburða upplesari hvort heldur var í sögu eða ljóðalestri. Söngmaður góður og var bestur í bassanum, lék auk þess á fiðlu. Síðast en ekki síst var hann drátthagur mjög. Myndefnið sótti hann oftar en ekki í hið rómaða landslag Dýrafjarðar. Gaf hann ungmennafélagi Mýrarhrepps eina af sínum Dýrafjarðarmyndum á 25 ára afmæli félagsins. Gróandi Eitt af því sem einkenndi skólalífið á Núpi var hve listir voru þar í hávegum hafðar allt frá upphafi. Enda voru þetta engir vitleysingar sem að skólanum stóðu og vissu það sem er löngu sannað hve listin getur gert kraftaverk í skólastarfi. Væri nú gaman ef listin mundi komast að einhverju viti inn í skólastarfið hér á landi og þá sérlega grunnskólann. Sem er einmitt það skólastig sem er hvað mikilvægast en þar er einsog enginn viti hvert eigi að stefna né hvað eigi að gera almennt. Mikið 54
Vestfirska þjóðskáldið Matthías Jochumsson. 55
mundi það nú verða til bóta ef listinni yrði hleypt almennilega inní grunnskólakerfið sem og skólakerfið almennt. En nóg af skólapólitík. Leiklist, sögur, söngur og listir almennt eru nánast daglegur þáttur í skólalífinu á Núpi nánast frá upphafi. Þannig var t.d. hátturinn á eftir kveldmat árið 1921 í Núpsskóla. Einn les fyrir alla sögur, kvæði eða leikrit, piltar hafa glímuæfingar, stúlkur sauma o.s.frv. Enn eitt félagið rekur nú á vora sögu og varð þetta til í skólanum sjálfum. Þar er stofnað félagið, reyndar stafsett fjelagið, í lagaskrá sinni einsog móðins var þá, Gróandi og voru nemendur skólans félagar. Í 4 grein stendur: Tilgangur fjelagsins er að efla men(n)taþrá og þroska fjelagsmanna. Skal í hvívetna lögð stund á að hreinsa móðurmálið. Liður í því var að setja m.a. upp leikrit sem þeir og gjöra og frumsýna 15. mars 1930 gamanþáttinn Háa C-ið. Þann 1. desember sama ár frumsýnir svo hitt félagið, Gyða, gamanleikinn Tengdamamma. Nú koma leiksýningarnar á færibandi og svo við gerum þetta ekki að einhverri þurri upptalningu skulu hér aðeins nokkrar þeirra nefndar. Á 1. des. skemmtun 1932 sýnir Gróandi Manntalið, og á sömu skemmtun er víkivakasýning er Helgi Valtýsson stýrði. Skugga-Sveinn ratar á svið upp á Núpi sem annars staðar líklega oftar en einu sinni. Minnisstæð sýning á þeim alþýðusjónleik er á Núpi veturinn 1944-1945. Þar var Örnólfur Örnólfsson í hlutverki Skugga og sló í gegn. Örnólfur varð síðar kennari við skólann. Aðrir leikarar í þessari Skugga sýningu voru m.a. Baldur Sveinsson frá Flateyri en leikmynd gerði margnefndur Björn Guðmundsson. 1946 eða 1947 er gamanþátturinn Neiið, sýnt á Núpi. Í aðalhlutverki var Þröstur Sigtryggsson og á móti honum lék Gréta Jóhannsdóttir. Þröstur rifjaði þetta upp löngu síðar í viðtali og sagði þá að það hafi nú verið mikið um æfingar. Samt mundi hann nú ekki til þess að hann hafi leikið vel. Enda 56
fannst honum þetta hálf kjánalegt. Eftir miðja öldina fara að koma leikstjórar að sunnan til að setja upp með nemendum Núpsskóla. Þannig kemur Eiríkur Eiríksson veturinn 1960 – 1961 og setur á svið Útibúið í Árósum. Ekki var bara sýnt í skólanum því einnig var farið í leikferð yfir fjörð og sýnt í þorpinu. Þessar leikferðir áttu eftir að halda áfram næstu áratugi í skólanum. Vestfirski leikhúslistamaðurinn Erlingur E. Halldórsson setur árið 1963 upp leikinn vinsæla Ráðskonu Bakkabræðra eftir Wännersten í þýðingu Skúla Skúlasonar. 13. mars 1966 frumsýna nemendur gamanleikinn Eruð þér frímúrari? eftir Franz Arnold og Ernst Bach í leikstjórn Einars Freys. Nú var ekki bara farið yfir fjörð og sýnt heldur og fjörðu því einnig var leikið í Súgandafirði. Gaman er að geta þess að í einu aðalhlutverkanna var einmitt Jóhanna Guðmundsdóttir frá Súgandafirði. Aðrir leikendur voru m.a. Hildigunnur Högnadóttir, Ísafirði, Geir Waage, Reykjavík, og Sturla Kristjánsson, sem jafnframt var kennari við skólann. Já, það vekur sannlega athygli að þarna léku kennarar með nemendum. Freistandi er að halda áfram leiksýningasögu æskunnar á Núpi sem er sannarlega rík og snar þáttur í lífinu í þessari merku menntastofnun vestra sem enn er sárt saknað. Eitthvað að segja að lokum? Jú, höfum það eitthvað. Því árið er nú 1989 í vorri sögu þegar sérstakur leikhópur er stofnaður í Núpsskóla er einmitt fékk heitið Eitthvað.
57
Eitthvað
konfektkassa ásamt mörgum öðrum plöggum sem eru kannski ekki jafn birtingar hæf. Svona sáu Eitthvað bræðurnir dæmið fyrir sér. LÖG LEIKHÓPSINS „EITTHVAГ 1. gr: Félagið heitir „Leikhópurinn Eitthvað“. Heimili félagsins og varnarþing er í Mýrarhreppi, V-Ísafjarðarsýslu. Leikhópurinn er sjálfstætt félag innan Mýrarhrepps og eigi tengt neinni stofnun. 2. gr: Tilgangur félagsins er að efla og iðka leiklist í Mýrarhreppi. 3. gr:
Haustið 1989 stofna nokkrir ofurhugar sérstakan leikhóp í Núpsskóla. Forsprakkar þessir voru ritari þessarar bókar og Jóhannes Kr. Kristjánsson einn duglegasti fjölmiðlamaður landsins í dag. Báðir með ofvirka genið í öllum ættum sem æðum og á þessum tíma ætluðu þeir að gera einsog skáldið. Sigra heiminn. Enda skildi hér ekki tjalda til einnar nætur heldur byggja upp einstakan leikhóp einsog lög félagsins gefa glöggt merki um. Já, þeir voru ekkert að grínast með þennan leikhóp þó nafn hans væri Eitthvað. Svo skemmtilega vill til að lög leikhópsins hafa varðsveist. Fundust í fornum Nóa 58
Tilgangi sínum hyggst félagið m.a. ná með því að æfa og sýna leikrit, standa fyrir kvöldvökum, námskeiðum og hvers kyns listkynningum fyrir íbúa jafnt innan sem utan Mýrarhrepps, ef aðstæður leyfa. Jafnframt mun félagið vera vettvangur hvers kyns hópvinnu í leiklist. Frumkvæði til að æfa leikrit, kvöldvöku eða hvernig listkynningar skulu skipulagðar, geta komið frá einum eða fleiri félagsmönnum. Félagið leyfir takmarkaðan aðgang að munum félagsins, þó geta félagsmenn haft aðgang að þeim að fengnu leyfi formanns. Munir skulu höndlaðir vel. Verði verkefni sýnt í nafni félagsins, ber félagið allan kostnað af sýningunni, enda skal hugsanlegur hagnaður renna í sjóð félagsins. Ákvörðun um sýningu og sýningarstaði skal félagið ákveða í samráði við stjórn félagsins. Félagið mun verja öllum 59
sínum tekjum til uppbyggingar og öflugs leiklistarstarfs innan sveitarfélagsins. 4. gr: Inntökubeiðni skal berast stjórninni skriflega fyrir félagsfund. Inngöngu í félagið getur hver sá fengið sem samþykkir þessi lög. 5. gr: Félagsgjald skulu félagar greiða tvisvar á ári og skal sú upphæð nema verði tveggja aðgöngumiða á sýningu. Skuldi félagsmaður félagsgjöld fyrir eitt ár skoðast það sem úrsögn úr félaginu ef ekki kemur til þess að viðkomandi félagsmaður greiði félagsgjöld sem hann skuldar á fyrsta aðalfundi félagsins á nýju leikári. Úrsögn úr félaginu skal berast skriflega til stjórnar, einnig skal berast greinargerð frá viðkomandi félagsmanni um ástæður úrsagnarinnar. Stjórn félagsins er þá skylt að ræða hugsanlegar úrbætur vegna úrsagnarinnar innan félagsins, og skulu þær þá birtar á félagsfundi. 6. gr: Aðalfundur fer með æðsta vald í félaginu. Aðalfund skal halda tvisvar á leikári. Þ.e.a.s. að hausti og að vori. Afl atkvæða ræður úrslitum mála á fundum. Dagskrá aðalfundar: 1. Kosning fundarstjóra. 2. Inntaka nýrra félaga. 60
3. Skýrsla formanns. 4. Skýrsla gjaldkera. 5. Ýmis erindi sem borist hafa félaginu. 6. Kosning stjórnar. 7. Önnur mál. Aðalfund skal boða bréflega til félagsmanna. 7. gr: Á aðalfundi skal kjósa fimm manns í stjórn. Félagsmenn eru skyldir til að taka kosningu í stjórn, þó geta félagsmenn boðið fram heila stjórn ef að meira en ¾ félagsmanna kjósa svo. Ekki má endurkjósa stjórnarmann oftar en þrisvar sinnum. 8. gr: Stjórnin fer með framkvæmdavald milli aðalfunda, og getur stjórnin kosið í nefndir sér til aðstoðar við æfingar, smíðar og annað nauðsynlegt sem viðkemur leiksýningum, kvöldvökum eða öðru slíku. Gjaldkeri félagsins skal leggja reikninga og bókhald félagsins endurskoðaða fyrir aðalfundi. Reikningsár félagsins mun vera frá og með 1. okt. til 1. maí. 9. gr: Fé það sem mun koma til að reiknast sem hagnaður af leiksýningum, eftir að búið er að borga allan kostnað sem kann að hljótast, skal lagður inná tromp-reikning í Sparisjóði Mýrhreppinga. 61
Félagsmenn geta komið með tillögur um það við stjórn, hvernig fénu skuli ráðstafað, þó getur félagsfundur ákveðið slíkt. Stjórninni er hins vegar leyfilegt að ráðstafa ¼ af fénu án samþykkis félagsmanna. 10. gr: Hætti félagið starfsemi sinni skulu eignir þess afhentar Hreppsnefnd Mýrarhrepps til varðveislu, uns annað leikfélag hefur verið myndað og skal það erfa eignirnar. 11. gr: Lögum má aðeins breyta á aðalfundi, og öðlast ný lög aðeins kosningu ef að ¾ fundarmanna samþykkja lagabreytinguna. Lög þessi taka gildi þegar aðalfundur hefur samþykkt þau.
hefði verið gerð svo smá leikskrá. En nú klikkuðu félagarnir bjartsýnu þeir áttu að senda eintak til umboðsmannsins til að fá þetta staðfest. Sem mundi svo birtast á prenti í næstu metabók Guinnes. Kannski áttu þeir ekki fyrir frímerkinu eða bara voru farnir að huxa eitthvað annað enda alveg rítalín lausir báðir tveir. Eftir áramót urðu breytingar því annar stofnfélaginn Elfar Logi hætti í skólanum. Fór til síns heima enda orðin ástfanginn upp fyrir haus og vildi bara komast út í lífsstritið strax eignast börn og buru og allt það. En Jóhannes tók við keflinu og á árshátíð um vorið var settur á svið ítalski farsinn Betri er þjófur í húsi en snuðra á þræði eftir Dario Fo. Þar á eftir var sýndur leikurinn Í öldunum og síðan ekki söguna meir enda var skólinn lagður niður fljótlega þar á eftir þó ekki út af leikhópnum Eitthvað heldur einhverju allt öðru sem verður ekki rakið hér.
Smámyndir Fyrsta uppsetning Eitthvað er á unglingaleikstykkinu Smámyndir eftir Helga Má Barðason. Frumsýnt var 1. desember 1989 í íþróttahúsi Núpsskóla enda var þar einnig leiksvið. Sem utan leikhústíma þjónaði hlutverki félagsmiðstöðvar og diskóteks. Leikstjóri var Elfar Logi sem einnig lék aðalhlutverkið ekki skorti dirfskuna í pilti. Auk hans voru á senunni m.a. hinn stofnandinn Jóhannes Kr. Kristjánsson, einnig Marsibil G. Kristjánsdóttir og Benedikt Páll Jónsson svo nokkrir séu nefndir. Senuþjófur þessarar frumuppfærslu Eitthvað var þó leikskráin. Enda var hún um margt merkileg því hún er líklega minnsta leikskrá sem nokkurn tíma hefur verið gerð á landi voru ef ekki bara í heiminum. Er þá talað um í ummáli en hún var aðeins 1,5 cm X 1,5 cm. Forsprakkar leikhópsins höfðu meira að segja samband við umboðsmann heimsmetabókar Guinnes á Íslandi og hann taldi næsta víst að aldrei 62
63
Ungmennafélags leikir
Leikritið Græna lyftan sem UMFM sýndi 1964. Frá vinstri: Valdimar Gíslason, Bergur Torfason, Þyri Jensdóttir og Álfheiður Gísladóttir.
Víkur nú sögunni að enn einu ofurduglega félaginu á norðurströnd Dýrafjarðar á síðustu öld nefnilega Ungmennafélaginu í Mýrarhreppi. Leikstarfsemi var þar talsverð sérlega um og eftir miðja öldina. Valgerður Kristjánsdóttir frá Neðri Hjarðardal rifjar það upp í viðtali að hún hafi leikið í leikritinu, Syndir annarra, hjá Ungmennafélaginu Mýrarhreppi. Hafi það verið 1947 eða ári síðar. Allt gekk þetta ágætlega að hennar sögn nema það að hún eða öllu heldur persónan sem hún túlkaði var reykingamanneskja. Sem var nú heldur verra því sjálf hafði hún aldrei reykt. En hvað gerir maður ekki fyrir listina og þarna reykti hún í fyrsta og jafnframt eina sinn. Til gamans má geta þess að sérstök tóbaksvarnadeild var innan ungmennafélagins 64
hún lét þó þessar reykingar afskiptalausar. Enda reykt þarna í listrænum tilgangi. Á næstu árum eru fleiri leikverk sett upp á vegum félagins. Þannig er sagt frá því þegar félagið frumsýnir Hjónabandsmiðlunarskrifstofuna Amor 3. janúar 1962 og sé það jafnframt fjórða uppfærsla félagsins á þremur árum. Árið eftir varð félagið reyndar að fresta uppfærslu á leikverki sem átti að vera þá um haustið þar sem leikstjórinn sem átti að koma gat ekki komið. Leiknefndin með formanninn Álfheiði Gísladóttur fremsta í flokki sat þó ekki aðgerðalaus heldur notaði tímann til að vinna að leikritavali sem og margs konar undirbúningi fyrir komandi uppfærslur. Félagið nýtti gjarnan leikstjórana sem komu í Núpsskóla hverju sinni. Byrjaði viðkomandi stjóri þá gjarnan á því að setja fyrst upp með ungmennafélaginu. Þetta kom sér vitanlega sérlega vel fyrir félagið því þá höfðu þeir leikstjórann hjá sér allan tímann líka á öllum sýningunum og jafnvel einnig á leikferðunum. Líkt og áður munum við reyna að forðast of miklar upptalningar heldur frekar staldra við einstakar sýningar og þá sérlega Grænu lyftuna sem ungmennafélagið setti á svið 1965 í leikstjórn Ingu Þórðardóttur. Eftir aðeins 4 vikna æfingatímabil í Þinghúsinu svonefnda, en rétt er að geta þess að í dag miðast æfingatímabil á leikverki í fullri lengd jafnan við 6 vikur, var frumsýnt 7. mars í Núpsskóla. Græna lyftan var gífurlega vinsælt verk á þessum tíma og má því til sönnunar nefna að leikurinn var sýndur á minnst þremur öðrum stöðum á landinu þennan leikvetur. Einsog nafnið gefur til kynna kemur liturinn grænn talsvert við sögu. Þá sérlega grænn vínandi. Eigi var þó notaður alvöru vínandi í uppfærslu Mýrarmanna heldur var hið vestfirska vatn blandað grænum matarlit. Einu sinni gleymdist reyndar að blanda og leikarinn sem saup á var nærri grænn í framan sjálfur þegar hann þambaði grænan matarlitinn óblandaðan. Græna lyftan er einn hinna svonefndu stofuleikja í 65
leiklistarsögunni. Gerist meira að segja í tveimur stofum sem voru útbúnar m.a. með því að smíða veggjagrindur sem voru betrekkjaðar með striga. Þeir Bergur Torfason og Sigurður Guðmundsson frá Hjarðardal voru m.a. í leikmyndasmíðinni. Mikið af þessari leikmynd var brúkuð í fleiri leikjum næstu árin svo hér hefur verið vel og haganlega smíðað. Frumsýningarpartýið hefur líklega verið í styttri kantinum því strax daginn eftir er leikhópurinn mættur í Súgandafjörð. Rétt er að geta þess að þetta er fyrir göng og því samgöngur allar mun erfiðari en þær eru í dag. En það aftraði ekki Mýrarmönnum sem vippuðu leikmyndinni á vörupall upp og léku í hinu rómaða félagsheimili Súgandafjarðar. Eigi var látið þar við sitja heldur stefnan einnig sett á Patreksfjörð. Á þessum tíma þjónuðu varðskipin ekki bara björgunarhlutverki heldur og leikflokka flutningi. Reglan var sú að ef skipið var ekki í hlutverki, að bjarga einhverjum eða verndan fiskveiðilögsöguna, þá tók hún gjarnan að sér að flytja leikhópa Vestfjarða millum svæða. Mýrarmenn höfðu haft samband við skipstjóra varðskipsins sem hafði verið að dóla á miðum Vestfjarða um flutning tiltekinn dag og svarið var einsog ávallt. Ekki málið svo framarlega sem við verðum ekki í útkalli. Einmitt það gjörðist áætlaðan leikfarardag og því seinkaði fararskjótanum nokkuð en kom loks að ströndum Dýrafjarðar. Sem betur fer var leikstýra leiksins, Inga Þórðardóttir, með í för. Ýmsu vön úr leikhúsinu og sagði leikhópnum að þetta væri ekki vandamál. Þau mundu ná þessu á ferðinni. Spurnarsvipur kom á leikhópinn. Á ferðinni. Já, áður en skipið kæmi að landi á Patreksfirði skyldu allir leikarar vera búnir að farða sig og dressa. Svo ættu allir að hjálpast að við að koma leikmyndinni á land upp og á senu í Skjaldborgarbíói á Patreksfirði. Gætið þess bara að svitna ekki of mikið svo farðinn leki ekki af ykkur og þið verðið einsog útgrátinn Óskarsverðlaunahafi. Samtakamátturinn er einmitt einn af lyklum leikhússins. Allt gekk þetta upp og Græna lyftan var sýnd tvívegis í 66
Skjaldborgarbíói á Patreksfirði við mikinn fögnuð viðstaddra. Eitt af því skemmtilega við list augnabliksins er að það getur allt gerst. Leiksagan inniheldur fjölmargar sögur er stundum eru nefndar atvikssögur. Við skulum hér láta eina sögu fljóta með þegar ungmennafélagið sýndi Grænu lyftuna á Þingeyri. Í verkinu kemur við sögu kampavínsflaska sem þurfti að hafa miða á svo hún liti raunverulega út. Einhverra hluta vegna gleymdist flaskan sem notuð hafði verið í sýningunni á Núpi þegar komið var í stóra leikhúsið í Dýrafirði, á Þingeyri. Einn leikaranna bindindismaðurinn Bergur Torfason var gerður út af örkinni til að redda nýrri flösku. Gekk hús úr hús á Þingeyri þar til hann loks fékk eina vel og rétt merkta. Mýrarleikhópurinn fór einnig til Flateyrar með Grænu lyftuna en engum sögum fer hins vegar af því hvort bindindismaðurinn hafi þurft að fara eftir leikmuni um þorpið. En líklega hefur eitthvað annað skemmtilegt gjörst í þeirri ferð. Meðal leikenda auk Bergs í sýningunni má nefna þau Þyrí Jensdóttur og systkinin Valdimar og Álfheiði Gíslabörn. Einsog áður gat leikstýrðu Núpsskóla leikstjórarnir gjarnan einnig hjá ungmennafélaginu. Bæði Eiríkur Eiríksson og Einar Freyr voru í þeim leikstjórahópi. Af öðrum sýningum ungmennafélagsins má nefna Dollaraprinsinn eftir Benjamín Einarsson og Happið eftir Pál J. Árdal er sýnt var undir lok sjöunda áratugarins en meðal leikara í þeirri uppfærslu voru áður nefndur Bergur og hjónin Elínbjörg Snorradóttir og Bergsveinn Gíslason á Mýrum. Áður en við höldum aftur í kaupstaðinn og höldum áfram með leiksögu Þingeyrar skulum við ljúka leiksögu sveitarinnar með jólasveinaþætti. Því víst er það list að hjálpa okkar vinsælu bræðrum í fjöllunum. Það hlutverk er nú ekki gert á brjóstahaldinu einu einsog söngvarinn sagði.
67
Kveðandi jólasveinn sem spilaði á munnhörpu Líkt og í líklega flestum sveitum landsins komu jólasveinar á skemmtanir í Mýrarhreppi. Vel má ímynda sér hve spennan hafi verið mikil í hugum lítilla hjarta þegar hin árlega jólatrésskemmtun kvenfélagins var haldin. Hápunkturinn var alla jafna koma jólasveinsins á skemmtunina. Fjölmargir brugðu sér í hlutverk þess rauðklædda sem gladdi börn á öllum aldri í hreppnum. Til að galdurinn virki þarf leikara til og þá var vissulega að finna í sveitinni. Einn þeirra var bóndinn og skáldið Oddur Jónsson á Gili. Þar nýtti hann skáldgáfuna til fulls því jólasveinninn fór með frumsamdar vísur eftir hann sjálfan og flutti við mikinn fögnuð á jólatrésskemmtunum á Núpi. Ekki nóg með það heldur spilaði hann einnig á munnhörpu. Þar sem bóndinn á Gili hafði nokk myndarlegt nef þá var það alla jafna Gáttaþefur sem mætti á jólatrésskemmtunina. Á hverju ári flutti hann frumsamda vísu eftir sjálfan sig einsog einn snillingurinn sagði. Þar sagði sá Gáttaði frá ævintýrunum sem hann hafði ratað í sem víst voru allt í senn háskaleg, kómísk og allt þar í millum. Það er annars alveg stórmerkilegt hve einmitt kvæðin hafa fylgt jólasveininum Gáttaþefi. Sá er hefur brugðið sér mest í hlutverk hans fyrir sunnan er sjálfur Ómar Ragnarsson. Sá einstaki hugsjóna- og listamaður sem hefur svo sannarlega látið verkin tala eða öllu heldur kveða og syngja. Það gerði hann einmitt í hlutverki Gáttaþefs og gaf út nokkrar hljómplötur sem æska landsins hefur hlustað á árlega síðustu áratugi. Gáttaþefur gægist sannlega víða inn á bæina um land allt. Hinn vestfirski Gáttaþefur hefði án efa getað sungið inná nokkrar hljómplötur líka einsog jólasveinanafni sinn fyrir sunnan. Best þykir lesandanum oft kvæðin þegar hann getur séð fyrir sér það sem kveðið er um. Lesturinn leiðir mann einsog inní sjálft leikhús hugans hvar gaman er að dvelja og
68
njóta. Þetta gerist einmitt við lestur þessa jólakvæðis hér svo maður verður bara alveg gáttaður. Jólasveinavísur Í fjöllunum háu þar bjó ég mér ból og bærinn er klettur á gili. Þó fýsir mig alltaf að ferðast um jól og finna ykkur krakkar í bili. Ég náði í gæru og gerði mér skó svo gekk ég um dali og tinda. Af gleði ég brosti og hugur minn hló þá heyrðist til norðanvinda. Þá dimmdi í lofti, og drungalegt él dundi á heiðum og fjöllum. Vinur minn góði, mér varð ekki um sel að vera svo langt burt frá öllum. Mér fannst að ég þyrfti að finna mér skjól ég fjarska var kaldur og loppinn. Ég skreið inn í stein sem að stóð undir hól úr stórhríðinni var ég sloppinn.
69
Ég sofnaði þarna, mér svefninn var kær
Nú þarf ég að hraða mér, héðan ég fer
og samstundis fór mér að hlýna.
ég hitta þarf fleiri krakka.
En þegar ég vaknaði, það var í gær
Því börnin í hópunum, leiða eftir mér
þráði ég krakkana mína.
bros ykkar og söng vil ég þakka. Viðlag:
Áfram ég fagnandi götuna gekk
Segðu okkur sveinn, söguna þína
svo glaður og léttur á fæti.
alltaf hjá börnunum lundin svo létt
Þungan á bakinu bar ég minn sekk
þegar ljósin á jólunum skína.
með bögglunum, sem veita mun kæti. Og nú er ég kominn, og nú stend ég hér og nú finnst mér gaman að lifa. Jólatréð fallega, bjöllurnar ber og börnin í kringum það tifa.
Það hlýtur að hafa verið mikil eftirvænting eftir komu jólasveinsins í Mýrarhreppi og þá ekki síst hjá hinum fullorðnu. Enda segja heimildarmenn að jólasveinn þessi hafi verið fádæma vinsæll hjá börnum á öllum aldri. Víst er endurtekningin vinsæl hjá ungum hjörtum og sálum en tilbreyting er líka nauðsynleg. Þó jólasveinninn héti öðru nafni þá flutti hann samt sína ævintýravísu. Eitt sinn kom Hurðaskellir sem skellti sér í smá landafræði með krökkunum.
Og Siggi er í buxum, og Kristín í kjól og krakkarnir allir svo fínir. Og gleymið því aldrei að gleðjast um jól þið gerið það krakkarnir mínir. Við skráargöt hurðanna oftast ég er því ilmurinn lokkar og tefur. Af nefinu fallega nafnið ég ber og nefndur er Gáttaþefur.
70
71
Hurðaskellir jólasveinn Kominn er ég eitt sinn enn ykkur til að finna. Fljótlega þó fer ég senn fjallanna til minna. Farið hef ég, fljótt um land fjarska er ég lúinn. Yfir kaldan eyðisand illa frekar búinn. Klungrast hef ég kletta stig kappi var ég forðum, þá ég kannski mildi mig mjög með þessum orðum. Aldurinn er orðinn hár að mér hrollur setur. Tólf hundruð og tíu ár og tuttugu eflaust betur. Fjarska læti fylgja mér furðulegir hvellir. Nú á vörum ykkar er orðið, Hurðaskellir.
72
Labbað hef ég landið þitt lamist sandi og skara. Enda er skeggið skrýtna mitt til skammar orðið bara. Segið mér nú sveinn og mey „soldil“ landafræði. Heyrið hvar er Hergilsey? Hugsið bara í næði. Minni ykkar eflaust er afar mikils virði. Siggi Guðmunds sagði mér hana suður á Breiðafirði. Ykkur spyrja máske má mikið er það gaman. Hvað er Kleifaheiði há? Hugsið allir saman. Fjögurhundruð fyrst má tjá og fjóra eflaust betur. Um Kleifaheiði leið mín lá lengi í fyrravetur.
73
Þá er rétt ég þakki hér
Ég með trega ykkur kveð
þessa hlýju vöku.
ei því má ég leyna.
Getið þið ekki gefið mér
Börnin alltaf gleðja geð
góða jólaköku?
gamla jólasveina.
Þið eruð bara beztu skinn Bósi fjarska hljóður. Bragð kemur í munninn minn mér finnst rjómi góður. Er hér vinir, veisla í kvöld? Var ég svona heppinn?
Gaman væri að birta fleiri jólasveinavísur frá leikaranum, skáldinu og bóndanum Oddi Jónssyni frá Gili en segjum hér gott. Mikið væri það nú samt gaman ef jólasveinar Dýrafjarðar og bara þessa lands tækju upp þann góða sið að segja okkur frá ævintýrum sínum í vísu að hætti Gáttaþefatvíeykis þjóðarinnar Odds og Ómars. Eftir það má svo dansa í kringum einiberjarunn og syngja um Adam, Gunnu á nýju skónum og alla hina líka.
Þökk mín flýgur þúsundföld sem þyrla um Mýrahreppinn. Nú arka verð ég ykkur frá er það mikil byrgði. Því ég ætla nú að ná nótt í Grundarfirði. Já öll við hættum okkar söng ei má lengur doka. Ykkar bið er orðin löng eftir mínum poka.
74
75
Einstakur þrettándasiður
FRÁ ´39 TIL NÚTÍMANS
76
Þar sem lesendur eru líklega enn í jólaskapi eftir jólasveinalesturinn hér á undan er við hæfi að halda áfram í þeirri deild. Síðasti dagur jóla hefur löngum verið hátíðisdagur víða um land. Lengi vel tíðkaðist að kveðja jólin með sérstakri þrettándagleði þar sem fólk klæddi sig upp sem álfa, jólasveina og þá helst þá gömlu íslensku, tröll og aðra vætti. Jafnan voru fremst í flokki þessarar hersingar álfakóngur og drottning. Sem leiddu sérstakan álfadans, stundum var farið í skrúðgöngu um viðkomandi þéttbýli eða sveit. Gangan endaði svo jafnan hvar komið hefði verið fyrir myndarlegum bálkesti, brennu. Þar sem álfarnir og vættir allir slá gjarnan hring um köstinn og dansa í kring. Oftar en ekki er skotið upp flugeldum þeim sem orðið hafa eftir er nýárinu var fagnað. Þessi þjóðlega þrettándagleði var lengi vel haldin um land allt. Síðustu ár hefur þó eitthvað dregið úr þessu og sums staðar hefur þessi skemmtun bara horfið af prógrammi þorpa og bæja. Þó er víða enn haldið í brennurnar en eiginleg þrettándaskemmtun er á undanhaldi. Í Vestmannaeyjum er þrettándinn hins vegar stórskemmtun sem stendur jafnvel yfir heila helgi, já það er alltaf hægt að færa daga til, sérlega ef gera skal sér dagamun. Hér í næsta nágrenni hafa nágrannabæirnir Ísafjörður og Bolungarvík skipst á að halda þrettándaskemmtun. En hvað með okkar eyri? Þrettándagleðin er sannlega haldin með pompi og prakt á Þingeyri. Gott betur en það því að þrettándagleði lokinni tekur við önnur skemmtan. Þá dubba börn þorpsins sig upp í grímubúninga. Para sig gjarnan saman eða eru jafnvel í stærri hópum. Svo er arkað af stað flestir gjarnan vopnaðir tómum taupoka, körfu eða einhverju sem tekur við óvæntum glaðningi. Svo áir hópurinn við fyrsta áfangastað eitthvert heimili í þorpinu. Bankar á dyrnar og þegar íbúinn opnar þá skiptir bara engum togum að hann fær óvæntan söng. Að söng 77
loknum tekur við spennuþrungið augnablik hjá hinum síglöðu söngvurum. Var þetta nógu gott hjá okkur? Skyldum við fá eitthvað að launum? Þau spyrja sig einfaldlega einsog margur listamaðurinn, skyldi ég fá útborgað? Og vittu bara til lesandi góður hlustandinn fálmar sig eftir einhverju góðgæti og laumar í alla poka söngvaranna. Stundum epli, stundum karamellur, stundum smákökur sumir eru svo rausnarlegir að gefa kók og prins, Prins póló. Þetta gefur hinum grímuklæddu byr og bjartsýni í huga og það skiptir engum togum að bankað er uppá á hverjum bæ þorpsins. Í lok söngvertíðar er afraksturinn jafnvel nokkur kíló af góðgæti. Þessi einstaki siður sem tíðkast víða um land á öskudegi einsog lesendum er kunnugt. Nema á Ísafirði þar sem maskað er, einsog þeir kalla það þar, á bolludegi. Þrettándinn er því stórhátíðisdagur á Þingeyri og var þessi siður með að arka grímuklæddur millum húsa og bjóða upp á einstaka söngtónleika hafin svo snemma sem eitthvað fyrir 1940. Vilborg Davíðsdóttir, skáldkona frá Þingeyri, stúderaði þennan sið sérstaklega á sínum tíma. Ræddi hún m.a. við Sigurgeir Bjarnason, frá Þingeyri, sem tók þátt í þrettánda söngferðalaginu um leið og hann hafði aldur til, 7 – 8 ára. Ferlið var ávallt það sama. Fyrst var að finna sér grímubúning og eitthvert sinnið hafði hann fundið þessar fínu ullarbuxur en þær voru einmitt vinsæll grunnur í búninga þrettándans löngum sinni. Svo var einhver peysugarmur fundinn og pottlok. Gervin voru þó oft fjölbreytt og von var að sjá allra handa verur á sveimi á þrettándanum á Þingeyri. Enda er þetta vinsæll dagur í álfaheimi því stundum flytja þeir víst búferlum þennan dag auk þess sem dýr geta öðlast mannamál og ég veit ekki hvað. Þegar í búning var komið var að mála sig en nánast allir voru farðaðir og svo gengið í hús vopnaður poka og sungið við hvern dyrastaf. Ekki virðast eiginlegar grímur hafa verið algengar í þessu búninga gallerýi. En Sigurgeir mundi þó eftir því að hafa eitt sinn verið með grímu en það hafi ekki verið 78
í þrettánda söngsiðagöngunni. Heldur miklu frekar hafi það verið við þrettándagleðina sjálfa. Þar hafi flestir verið með grímur, nema álfakóngurinn og drottningin. Þetta var reyndar jólasveinagríma sem hann bar enda var þá í því hlutverki við brennuna. Sveinninn var hins vegar eineygur því gríman var svo stór að hann sá bara út um annað augað á grímunni. Hann minnist þess einnig hve það hafi verið áhrifaríkt við brennuna þegar álfa og trölla hersingin hafi skundrað ofan úr fjörunni á Odda hvar hátíðin var haldin á þeim tíma. Í dag er þrettándagleðin jafnan haldin við björgunarsveitarhúsið. Auðvitað er marserað fyrst í gegnum hluta þorpsins og sungið. Ávallt er áð við dvalarheimilið Tjörn og sungið þar fyrir heimilisfólkið. Á tímum lista- og mannlífshátíða sem verða sífellt algengari og vinsælli í dag. Hafa enda ótal samfélag- og efnahagsleg áhrif á hverjum stað fyrir sig einsog okkar helstu excel snillingar hafa sýnt í skjölum sínum og fyrirlestrum. Má vel fullyrða að þessi þrettándagleði á Þingeyri sem hefur verið haldin í yfir 80 ár með álfaskemmtun, brennu og söngferðum millum húsa, geti vel orðið að stórhátíð. Stórskemmtun sem mun draga að sér fólk frá öllu landinu ef ekki víðar því hátíðin á engan sinn líkan. Það er einmitt þar sem tækifærin liggja í hinu einstaka. Áður en við rotum jólin og þessa grímuumræðu að fullu, er rétt að geta þess grímuböll voru lengi stór þáttur í skemmtanahaldi skammdegisins á Þingeyri. Stúkan Fortúna stóð gjarnan fyrir grímudansleik í janúar eða febrúar ár hvert og það alveg frá fjórða áratug síðustu aldar. Skemmtun var jafnan haldin í Þinghúsinu og þú þurftir ekkert að hafa áhyggjur af grímugerðinni því þú gast ávallt keypt þér eina slíka við innganginn. Svo þegar inn var komið var þar harmonikkuspilari sem taldi í og dró ekki aftur af sér við dragspilið heldur spilaði fram á rauða nóttina. Þó eigi launalaust, stundum fá listamenn borgað, fékk 5 krónur að launum en seinna var kaupið víst hækkað um helming. Fortúna stóð fyrir þessum grímudansleikjum allt fram á sjötta áratuginn. Þá tók skátafélagið 79
Útherjar við grímudansleikjahaldinu og þá í félagsheimilinu núverandi þegar það var risið. Það má segja það sama um grímudansleikina og þrettándagleðina. Hvoru tveggja hefur verið að hverfa úr skemmtiprógrammi þorpa og bæja síðustu ár. Vel mætti nú prjóna við þrettándagleðina á Þingeyri sem langar að verða að stórhátíð. Væri ekki upplagt að teygja enn úr gleðinni og bjóða einnig upp á alvöru grímuball? Allavega hugmynd sem er vert að fá sér göngutúr útá- og við, já svona til að huxa málið meðan maður gengur niður götuna einsog sagði í leikritinu.
LEIKIÐ Í NÝJU LEIKHÚSI
80
81
Leikið í nýju leikhúsi
sá virðist vera hátturinn á þessum tíma að frumsýna um jól og áramót. Kvenfélagið Von er enn í framvarðarsveit leiklistarmála í þorpinu og setur á svið árið 1951 leikinn Hanagalið. Sýningin kemst í blöðin því sagt er frá henni í Tímanum 19. apríl. „Leiksýning kvenfélagsins á Þingeyri
Úr leikritinu Frænka Charleys: Frá vinstri Tómas Jónsson, Ingi S. Jónsson, Ólafur Jón Þórðarson, Steinþór Steinþórsson, Guðrún Sigurðardóttir, Gunnar Friðfinnsson.
Kvenfélagið Von á Þingeyri sýndi s.1. laugardagskvöld leikritið Hanagalið. Voru konur í öllum hlutverkum og önnuðust einnig leikstjórn. Þótti það takast vel. Ágóðinn af sýningunni rann í sjóð Estífu Björnsdóttur, sem ætlaður er til styrktar stúlkum við húsmæðranám. Gaf Guðmundur Sigurðsson vélsmiður upphaflega stofnfé þessa sjóðs til minningar um konu sína.“ Leiklistin sannar hér sannlega gildi sitt sem mikilvægan hlekk í samfélaginu. En gaman er að geta þess að þessi sjóður sem kenndur er við Estífu er enn til og er úthlutað úr honum þegar við á.
Þegar við skyldum við leiksöguna á Þingeyri voru þar stórtíðindi. Vígsla samkomuhússins. Loksins eftir margra ára baráttu var komið stórt samkomuhús með alvöru leiksviði. Þá kættust nú heldur betur leikarar sem unnendur leikhússins á Þingeyri. Næstu áratugina eru sett á svið fjölda mörg leikverk svo mörg að of langt mál er að telja þau öll upp. Nægir að nefna hér nokkra leiki; Lotterísseðillinn No. 101, Ævintýrið í Rósenborgargarðinum, Valbæjarvalsinn, Frænka Charleys, Apakötturinn, Upp til selja, Jeppi á fjalli, Happið, Þvaðrið og loks tveir vinsælir leikir eftir gamanleiksáldin Arnold og Bach, Spanskflugan og Hnefaleikameistarinn. Síðastnefndi leikurinn var frumsýndur á gamlársdag 1945. Árið eftir er svo Happið eftir Pál J. Árdal frumsýnt og það á annan í jólum. Það vekur nokkra athygli að 82
83
Kraftajötunn, töframaður og tannhvöss tengdamamma
Hálsatog að hætti Gunnars Salomonssonar.
Sama ár og Hanagalið var sýnt af kvenfélaginu bar að garði kraftmikinn gest á eyrina. Engan annan en Gunnar Salomonsson er kallaði sig Úrsus Íslands. Hann ferðaðist um landið og reyndar heiminn með aflraunasýningar. Árið 1951 var röðin komin að Þingeyri. Úrsusinn bauð upp á sannkallaða aflraunasýningu þar sem ýmsu var lyft í loft upp. Bar þar þyngst bifreið er kappinn lyfti frá jörðu. Eigi nóg með það því það voru einir fjórir farþegar um borð. Um var að ræða Willys jeppa í eigu Gunnars alþýðulistamanns frá Hofi sem sagt er frá hér í myndlistarkafla þessa verks. Úrsusinn þreytti þó ýmsar aðrar aflraunir og þrautir. Við undirbúning sýningarinnar hafði hann leitað aðstoðar pilta úr þorpinu. Víst mætti kannski kalla þá frekar púka eða allavega prakkara. Einn þessara hrekkjalóma var Böðvar J. Guðmundsson er síðar varð verslunarstjóri hjá Verslunarfélagi Dýrafjarðar. Hann rifjaði þetta upp löngu síðar í viðtali í Mannlíf og sögu Vestfirska forlagsins. „Hann bað okkur að útvega sér viðskiptaskrá, þessa þykku, þú veist. Hann reif þær í sundur. Við fórum niður í smiðju og 84
fengum þar litla stálplötu og settum hana inn í viðskiptaskrána og límdum hana þar. Gunnar hamaðist og hamaðist á skránni á sýningunni og ekkert gekk, þangað til hann sá í endann á plötunni. Þá sagði hann: Helvískir prakkararnir. Reif plötuna út og þá var hann nú ekki lengi að rífa viðskiptaskrána í sundur, maður. Hann var sterkur, karlinn.“ Fleiri sérstæðir skemmtikraftar mættu á eyrina. Einn þeirra var Valur Norðfjörð, töframaður. Sýndi hann spilagaldra og dró jafnvel kvennærbuxur upp úr hálsmáli einhvers áhorfenda, karlkyns þá. Enn rifjar sögumaður okkar Böðvar upp í áðurnefndu viðtali. „Hann (Valur) var til dæmis með spil og hann minnkaði þau niður í sama og ekki neitt. Svo tók hann Sigga Jóh. og dró kvenmannsnærbuxur upp úr hálsmálinu á honum og allt eftir þessu.“ Það voru ekki bara aflrauna og töfrandi gestir sem komu á eyrina því einnig komu heilu leikhóparnir. Árið 1957 kom til að mynda leiksýning alla leið að sunnan. Frá hinu fornfræga leikfélagi sem þá var við tjörnina í Reykjavík. Við erum að tala um Leikfélag Reykjavíkur sem brá sér oft í leikferð út á land á sumrin á þessum árum. Nú var stefnan sett á Vestfirðina hvar boðið var upp á eina vinsælustu sýningu félagins í langan tíma. Nefnilega Tannhvöss tengdamamma eftir Philip King og Falkland Carry. Í leikstjórn Jóns Sigurbjörnssonar en í hlutverki þeirrar tannhvössu var engin önnur en heimamaðurinn Emilía Jónasdóttir. Má vel ímynda sér að bæði hún og ekki síður áhorfendur hafi notið stundarinnar í leikhúsinu á Þingeyri. Tveir aðrir vestfirskir leikarar voru í þessum glæsta leikhópi leikfélagsins þau Guðmundur Pálsson, frá Bolungarvík, og stórleikkonan, sem var þó reyndar smávaxin, revíustjarnan Áróra Halldórsdóttir, frá Ísafirði. Það er því ekki að undra að það var einmitt sýnt á þessum þremur heimastöðum vestfirsku leikaranna. Byrjað í Víkinni þaðan féllu vötn öll til Dýrafjarðar og loks endað í fæðingarbæ Áróru, á Ísafirði. Til að kóróna hið vestfirska mont má svo bæta við að fjórði leikarinn í þessum 85
hópi er átti tengingu vestur var Brynjólfur Jóhannesson. En hann hóf einmitt leikferilinn á Ísafirði einsog frægt er og hann rakti svo skemmtilega í ævisögu sinni Karlar einsog ég. Blóðeitrun Verkefnavalið í leikhúsinu á Þingeyri var jafnan erlendir leikir en svo inn á millum skottuðust íslensk verk sem notið höfðu vinsælda. Það var og þannig á þessum tíma og jafnvel enn að það eru ekkert svo mörg skáldin sem hafa fengist við leikritaskrif að einhverju ráði né magni. Hins vegar er það oft svo að þau íslensku leikverk sem hafa slegið í gegn hjá gónendum hafa svo jafnan fyllt öll leikhús landsins næstu áratugi hjá leikfélögum um land allt. Svo koma inn á milli snillingar úr heimahéraði sem hafa leikskáldið í sér. Láta til leiðast að sýna það næsta manni og jafnvel leikfélaginu. Þeir áræðnu koma svo króanum á svið upp.
komandi bókverki í Vertshúsinu á Dýrafjarðardögum 2019 var eimitt leiklesið brot úr Blóðeitrun. Skemmst er að geta þess að lesturinn hélt gestum helteknum sem vildu ekki bara heyra leikinn allan heldur og sjá hann á leiksviðinu. Vel væri nú við hæfi að Höfrungur leikdeild, er hefur verið í framvarðarsveit leikhússins á eyrinni síðasta rúma áratug, mundi nú setja á verkefnaskrá sína að setja Blóðeitrun á svið á nýjan leik á Þingeyri. Það gæti meira að segja verið að ónefndur leikstjóri bíði bara eftir símtalinu. Eftir því sem heimildir gefa þá segir stjórinn sá víst aldrei nei. Fleiri leikverk og leikþættir heimamanna hafa verið settir upp á Þingeyri í gegnum tíðina. Má þar nefna Vald ástarinnar eftir Kristján Sig. Kristjánsson.
Árið 1953 gerist einmitt þetta þegar leikritið Blóðeitrun er frumsýnt í félagsheimilinu. Höfundurinn vill þó eigi koma fram undir nafni eða kannast einhver við Refinn Skottlausa? Svo var skáldið nefnt við frumsýningu. Síðar kom hið rétta nafn í ljós. Höfundur leikritsins Blóðeitrun er enginn annar en skáldið Elías Mikael Vagn Þórarinsson og lék hann meira að segja sjálfur í þessari frumuppfærslu á verkinu. Blóðeitrun er sérdeilis beitt verk þar sem ást og afbrýði eru í aðalhlutverki einsog svo oft er í lífinu. Þegar á líður leikinn kemur þó margt óvænt í ljós sem á svo bara eftir að aukast þegar að endalokum dregur. En allt fer þó vel að lokum. Þessi dýrfirski leikur hefur aðeins einu sinni ratað á svið á Þingeyri og er það miður. Því hér er á ferðinni verk sem hefur alla burði til að höfða enn vel til gónenda. Gaman er að geta þess að þegar haldin var sérstök kynning á þessu þá 86
87
Ævintýri og frænka
Ingi Jónsson og Davíð H. Kristjánsson í Ævintýri á gönguför.
Einsog oft hefur komið fram í þessu riti þá vilja heimildir leiksögunnar oft vera gloppóttar. Einkum og sér í lagi ártöl. Hvenær leiksýningar voru settar á svið upp. Höfundur hefur hér mjög langan lista sem hann ætlar þó ekki að birta nema að hluta til, yfir leiksýningar sem voru sannlega sýndar á Þingeyri en heimildir skortir með ártalið. Af löngum lista í þessari deild má nefna einþáttungana: Háa Cið eftir Sophus Neamann, Emma, Stína, Herra Amor Teits og Skraddarþankar frú Smith. Af leikritum má nefna: Seðlaskipti og ástir eftir Loft Guðmundsson og Eruð þér frímúrari? eftir þá Arnold og Bach. Stundum má þó glöggva sig betur á tíma þegar minnið og heimildir gefa einnig hverjir léku. Þannig er vitað að þau Helga Friðriksdóttir, Davíð H. Kristjánsson og Ólöf Oddsdóttir léku í Fólkið í húsinu eftir P. Strange. Ingunn Angantýsdóttir, Svafa Proppé 88
og Ólafur Gunnarsson voru meðal leikenda í Landabrugg og ást, eftir Riemann og Schwarts. Við höfum það hinsvegar alveg staðfest að árið 1956 var Skyggna vinnukonan eftir Pierre Barillet og Jean Grédy sett upp á Þingeyri. Og meðal leikara var Guðrún Nanna Sigurðardóttir, prestsfrú. Á þessum árum hafði Leikfélag Þingeyrar verið starfandi en þó stopult en er svo heldur betur endurvakið með uppsetningu á Ævintýri á gönguför. Leikstjóri var læknir þorpsins Þorgeir Jónsson. Já, á þessum tíma var læknir á eyrinni, öllu fer nú aftur segir líklega sá neikvæði nú. En við erum í birtunni og höldum áfram, enda svartsýni eigi gott veganesti í leikhússtarfinu ekki einu sinni í myrkvuninni, eða blakkátinu, einsog það er kallað á leikhúsmáli en á þó ekkert skylt við blakkátið sem menn fá við drykkju. Meðal leikara í Ævintýrinu voru Þórunn Einarsdóttir, Elísabet Proppé, Tómas Jónsson, Ingunn Angantýsdóttir, Bjarni Dagbjartsson, Davíð H. Kristjánsson, Sverrir Jónsson, Bjarni Georg Einarsson. Hanna Proppé saumaði búninga. Ævintýrið var greinilega enn vinsælt enda fylltist leikhúsið trekk í trekk á Þingeyri og svo var farið í leikferð. Farið yfir á Núp, á Patreksfjörð og á Flateyri. Fréttaritari Alþýðublaðsins á Flateyri sagði frá komu leikaranna úr næsta firði í blaðinu 3. apríl 1959: Leikfélag Þingeyrar kom hingað á skírdag og sýndi hér leikritið „Ævintýri á gönguför”, Undirtektir áhorfenda voru með ágætum og aðsókn prýðileg. Þegar vel gengur á hvaða sviði sem er fer allt á fleygiferð. Sérstaklega ef sviðið hefur verið stækkað en sú var einmitt raunin á Þingeyri. Því árið 1959 var byggt við samkomuhúsið og senan þar með stækkuð. Aðstaða þar öll til fyrirmyndar og svo hátt til lofts að hægt væri að hífa uppí loft heilu leikmyndirnar. Doktorinn leikglaði settist því strax aftur við leikstjórnaborðið og setti nú á svið annan vinsælan gamanleik nefnilega Frænka Charleys eftir Brandon Thomas. Sannlega eigi illa valið því mikilvægt er í upphafi meðbyrs að vanda vel til verkefnavals og þá er um að gera að notast við rjómatertur, eitthvað sem virkar. 89
Létt og skemmtileg verk sem hafa fallið í kramið hjá landanum. Oft hefur nú verið litið niður til þess hátta leikja sem þykja nú ekki ýkja merkilegir. En þá má spyrja sig af hverju mætir þá fólk á einmitt þessa leiki. Leikfélag Þingeyrar frumsýndi þennan þá vinsæla gamanleik hið leiksögulega ár 1959. Meðal leikara voru Steinþór Steinþórsson, Tómas Jónsson, Ólafur Jón Þórðarson, Þórunn Einarsdóttir, Guðrún Nanna Sigurðardóttir, Gunnar Friðfinnsson og Bjarni Dagbjartsson. Enn var það Hanna Proppé sem saumaði búninga. Ljósa og sviðsmenn voru þeir Kristján Gunnarsson og Jónas Pálsson. Sá fyrr nefndi starfaði einnig á bakvið tjöldin í Ævintýrinu. Það er segin saga að ef húsum er sinnt þá verður þar meiri starfsemi og þetta sama ár kemur í endurbætta leikhúsið á Þingeyri sending að sunnan. Þar var á ferð Leikflokkur Lárusar Pálssonar, leikara, er sýndi leikritið Haltu mér, slepptu mér eftir Claude Magnier. Auk Lárusar léku þau Helga Valtýsdóttir og Rúrik Haraldsson í sýningunni. Allt voru þetta vinsælir leikarar á þessum tíma og í fremstu röð og því sérlega ánægjulegt að fá svona stjörnur alla leið í sitt eigið leikhús. Þarna er leikhúsið í sinni skærustu mynd sterkast.
Háttvirtur herra þjónn og brúðkaup
Háttvirtur herra þjónn. Jón Pálsson, Guðjón Jónsson, Pétur Baldursson, Ingunn Angantýnsdóttir, María Tómasdóttir, Tómas Jónsson.
Leikfélag Þingeyrar var í essinu sínu á þessum tíma enda leikaðstaða öll til fyrirmyndar og með því besta á Vestfjörðum á þessum tíma. Árið 1962 kom svo einn af efnilegustu leikstjórum þess tíma Eyvindur nokkur Erlendsson. Setti hann á svið leikinn Háttvirtur herra þjónn eftir Ladislaus-Bus Tekete. Meðal leikenda voru þau Gunnar Friðfinnsson, María Tómasdóttir, Pétur Baldursson og Ingunn Angantýsdóttir. Farið var í leikferð í maí til Patreksfjarðar hvar þjónninn háttvirti var sýndur tvívegis fyrir smekkfullu húsi. „Við mikla 90
91
hrifningu áheyrenda“ einsog fréttaritari Vísis á Patreksfirði greindi frá í blaðinu 1. júní 1962. Þess ber svo að geta að þetta sama ár fékk leikfélagið 8000.- krónur á fjárlögum.Annar efnilegur leikstjóri, Sævar Helgason frá Keflavík, kom til félagsins 1965 til að setja á svið Brúðkaup og bótulismi eftir Kenneth nokkurn Horne. Fréttaritari Þjóðviljans á Þingeyri sendir frá sér frétt 1. apríl sem var þó ekkert gabb: „Leikfélag Þingeyrar hefur ráðið Sævar Helgason leikara til að setja á svið gamanleik eftir Kenneth Horne og er ætlunin að frumsýna laugardaginn 3. apríl.“ Stundum berast sumar fréttir hægar en aðrar því þessi frétt var birt 7. apríl en þá var þegar búið að frumsýna. En hvað, próarkalesarar gera feila sem aðrir. Og áfram í blöðunum sem sannlega sýndu leikfélaginu á Þingeyri áhuga á þessum tíma. Vesturland ritar um frumsýninguna. „Leikfélag Þingeyrar frumsýndi s.l. laugardag gamanleikinn „Brúðkaup og bótúlismi” eftir Kenneth Horne í Félagsheimilinu. Leikstjóri er Sævar Helgason frá Keflavík, en með aðalhlutverkin fara Nína Þórðardóttir, Tómas Jónsson og Gunnar Friðfinnsson. Mikil aðsókn var að frumsýningunni og leiknum forkunnar vel tekið. Leikrit þetta verður sýnt á Suðureyri um helgina.“ Við þetta má svo bæta að aðrir leikarar í sýningunni voru Alda Veiga Sigurðardóttir, Ágúst Ágústsson, Guðrún Böðvarsdóttir og Arnfríður Sigurðardóttir. Lýsingu annaðist sem fyrr Kristján Gunnarsson. Æft var á kveldin einsog jafnan í áhugaleikhúsinu enda leikararnir og aðrir þátttakendur uppteknir í vinnu. Leikstjórinn nýtti daginn einnig vel og vann ötullega að leikmyndasmíðinni meðan blessaðir leikarnir voru í dagvinnunni. Talandi um leikmyndina þá getur oft verið vandi þegar fara skal í leikferðir með leikverk er þegar hafa verið bæði æfð og frumsýnd í sama leikhúsinu. Fyrir það fyrsta er ekkert samkomuhús eins og þá sér í lagi og það sem mestu skiptir í þessu samhengi sjálft leiksviðið. Leikhópurinn þurfti því oft 92
að vera fljótur að huxa sérstaklega þegar sviðið var minna en heima. Þetta gerðist einmitt þegar leikfélagið fór með téðan leik á Suðurfirðina. Sýndu bæði á Bíldudal og Patreksfirði hvar varð að minnka leikmyndina allverulega. Ekki nóg með það heldur var sófinn sem notaður hafði verið í sýningunni alltof pláss frekur á senu Skjaldborgarbíós. Þá var bara eitt að gjöra, banka upp á í næsta húsi. Þó tíminn væri knappur varð sendiboðinn að vera kurteis bjóða góðan dag. Svo spyrja eins og ekkert sé eðlilegra hvort hann gæti kikkað á sófann í húsinu. Bæta snöggt við, sko ekki til að leggja mig, hlæja kannski smá til að létta stemmarann og hurðinni verði ekki skellt á þennan dóna. Segja heldur, sko við erum frá Þingeyri. Já, í leikfélaginu sko og erum að sýna í Skjaldborg á eftir en sófinn sem við komum með með okkur kemst ekki fyrir á senunni. Þannig að okkur vantar annan en hann verður að vera minni en sá sem við höfum. Líklega hefur íbúinn verið snöggur að opna hurðina upp á gátt við þessi orð og segja snöggt, taktu litla sófann í stofunni en vertu snöggur því ég er nefnilega að fara á leiksýningu. Spurningin er því hvort hefur komið á undan í leikhúsið áhorfandinn eða sófinn og leikararnir. Sem hafa vonandi ekki svitnað of mikið við burðinn þannig að farðinn læki af þeim. Ritara finnst rétt að koma þökkum til þeirra fjölmörgu greiðviknu áhorfenda um land allt sem hafa einmitt leyst úr ýmsum vandamálum leikfélaga á leikferð þeirra um landið. Aldrei hefur maður komið að tómum kofanum sama hvursu snúið vandamálið er. Það er því óhætt að mæla með og leggja til að leikfélög og leikhús fari sem oftast með verkin sín um landsbyggðina. Þar verður þeim ávallt vel tekið hvort heldur í leysingu vandamála eða mætingu í leikhúsið. Aftur að þessari suður leikferð sem var einmitt farin á varðskipi einsog svo oft áður. En eftir sýninguna á Bíldudal kom babb í bátinn því í hann var kallað og þá þurfti ekkert að ræða það frekar. Þannig var þessi einstaki samningur millum 93
varðskipanna og leikfélaganna vestra. Þá var símað heim á eyrina og skömmu síðar var fiskibátur frá Þingeyri mættur við höfnina á Bíldudal. Þegar þetta er ritað hillir undir opnun Dýrafjarðarganga. Sem mun tryggja samgöngur millum þessara tveggja fjarða árið um kring og ekki bara það heldur loksins tengja Vestfirðina alla. Þá verður nú gaman og ástæða fyrir leikfélögin til að taka upp leikferðir um fjórðunginn á nýjan leik. Og fjarða á milli því Leikfélag Flateyrar setti þetta sama ár upp leikritið Biederman og brennuvargarnir eftir Max Frisch. Fóru í leikferð og sýndu m.a. á Núpi í apríl. Morgunblaðið gerir svo frétt um þessar tvær sýningar eyranna.
Hvíslari leikhússins
„Leiksýningar á Vestfjörðum Ísafirði, 9. apríl. Leikfélag Flateyrar hefur tvær sýningar á Ísafirði um helgina á leikritinu „Biedermann og brennuvargarnir” eftir Max Frish. Félagið hefur sýnt þetta leikrit um alla Vestfirði, og hefur það hvarvetna vakið mikla athygli. Leikfélag Þingeyrar frumsýndi nýlega gamanleikinn „Brúðkaup og bótúlismi” eftir Kennetih Horme, höfund að „Elsku Rut”. Leikstjóri er Sævar Helgason frá Keflavík. Frumsýningin var mjög vel sótt og leiknum vel tekið. Á morgun, laugardag, verða tvær sýningar á þessum gamanleik á Suðureyri, og um kvöldið verður sýning í félagsheimilinu í Bolungarvík.“ Hvort hvíslara gamansagan gamla hafi gerst í þessari sömu leikferð til Súgandafjarðar og hér er getið, vitum við ekkert um en látum þó söguna flakka einsog alþýðulistamaðurinn Hafliði Magnússon frá Bíldudal skráði hana í bókaritröð Vestfirska forlagsins, Frá Bjargtöngum að Djúpi.
94
Leikflokkur frá Þingeyri kom til Súgandafjarðar fyrr á árum til að hafa þar leiksýningu. Hluti hópsins heimsótti konu er Lúlla var kölluð og var því fólkið boðið í góðar veitingar. Dóttir Lúllu er Gunna var kölluð og Eva Þórarinsdóttir voru vinstúlkur og var sú síðarnefnda í heimsókn hjá þessari vinkonu sinni, en þær voru þá báðar litlar hnátur. Þeim lék nokkur forvitni á að heyra hvað rætt væri í slíku samkvæmi og settust í stigann sem næst hurðinni að stofunni og hleruðu samræðurnar þar eftir getu. Ein konan var svo hávær, að því var líkast sem hún kallaði milli fjarða og heyrðu þær stöllur því greinilega hvert orð sem hún sagði. Þær heyrðu Lúllu spyrja konuna: 95
Ert þú byrjuð að leika? Konan svaraði með miklum hávaða: Nei, nei, ég er hvíslari. Leiksmiðjan á Þingeyri Árið 1962 leikstýrði hann leikfélaginu á Þingeyri og nú, 1968, var hann mættur aftur í þorpið með sinn eigin leikhóp. Nefndist hann Leiksmiðjan og var hópur leikhúslistamanna með mikla drauma. Leikstjórinn sem um ræðir og er jafnframt stjóri Leiksmiðjunnar er Eyvindur Erlendsson. Vestur er hann kominn til að frumsýna ekki bara eitt leikrit heldur tvö. Sjálfan Galdra – Loft eftir Jóhann Sigurjónsson og leikgerð hópsins á hinni vinsælu barnasögu Litli prinsinn eftir Antoine de Saint-Exupery. Æfingar höfðu staðið yfir í borginni um einhvern tíma en í október byrjun er Leiksmiðjan mætt á Þingeyri og æfir þar í nokkra daga áður en það svo frumsýnir áðurnefnda leiki. Skyldi svo halda áfram leikför um Vestfirði, þaðan austur, svo norður, suður og loks sýna í sjálfri höfuðborginni. Þessi leikför Leiksmiðjunnar er að tvennu lagi mjög merkileg. Í fyrsta lagi var þetta í fyrsta sinni sem atvinnuleikhópur fór í leikferð um landið að vetrarlagi. Í öðru lagi í fyrsta sinn sem atvinnuleikhópur ferðaðist með tvær leiksýningar í einni og sömu leikferðinni. Og þau voru ekkert að grínast með þetta allt áhöfn Leiksmiðjunnar. Leikferðin skyldi standa yfir í jafnvel tvo mánuði. Stefnt var að því að hefja sýningar á hverjum stað ávallt kl.9. En þó sleginn varnagli ef veðurguðirnir tefðu för. Ótrúlegt nokk gekk þetta nánast alltaf samkvæmt áætlun því aðeins einu sinni þurfti að fresta sýningum og í heildina var Galdra – Loftur sýndur 40 sinnum. Einnig voru sérstakar skólasýningar. Glæstur hópur listamanna kom að þessum fyrstu 96
verkefnum Leiksmiðjunnar. Auk foringjans Eyvindar má nefna að Una Collins og Magnús Pálsson gerðu leikmyndina við Galdra – Loft. Vitanlega með það í huga að hún væri hentug til ferðalaga. Magnús Blöndal Jóhannsson samdi tónlist sérstaklega fyrir leikinn og í hlutverki Lofts var sjálfur Arnar Jónsson. Atli Heimir Sveinsson samdi aftur tónlistina við Litla prinsinn. Í leikhópnum voru auk Arnars m.a. Bjarni Steingrímsson, Karl Guðmundsson, Margrét Helga Jóhannesdóttir, Sólveig Hauksdóttir og Þórhildur Þorleifsdóttir. Léku mörg þeirra í báðum verkunum. Þegar hópurinn er loks kominn suður þá er ein leikkona hópsins, Sólveig Hauksdóttir, tekin tali af blaðamanni Þjóðviljans. Í viðtalinu dregur hún upp skemmtilega mynd af þessu sögulega leikævintýri sem hófst á Þingeyri. „Leikförin hófst 6. október og stóð í sex vikur, sagði Sólveig. Við komum fyrst á Þingeyri og dvöldum þar í 5 daga áður en við frumsýndum. Fór þessi tími í að leggja síðustu hönd á verkið: æfa, ljúka við búninga og leikmyndir og þess háttar. Sýndum við síðan bæði Galdra-Loft og Litla prinsinn. Frá Þingeyri héldum við til Ísafjarðar og höfðum þar fjórar sýningar. Næsti viðkomustaður var Suðureyri, en sýning varð aðeins ein þar. Mikið atvinnuleysi ríkir á Suðureyri, þar sjást ekki seðlar, svo ekki er að undra þótt aðsókn að leiksýningum sé þar dræm. Við sýndum síðan í Bolungarvík, á Flateyri og Bíldudal. Héldum þaðan í Dalina og síðan norður á land, þar sem við sýndum í stærstu bæjunum. Leiðin lá síðan til Austfjarða og sýndum við á nokkrum fjörðum. Þótti okkur tíðindum sæta að við fengum ekki inni í Valaskjálf á Egilsstöðum. Ástæðan var víst sú að leikfélag staðarins var með leikrit í gangi, enda þótt engin sýning væri fyrirhuguð það kvöld sem við báðum um húsið. Aðstaða til leiksýninga var æði misjöfn. Á mörgum stöðum eru nýleg félagsheimili. T.d. á Raufarhöfn, þar er mikill 97
glæsibragur á félagsheimilinu ýmist parketgólf eða rauð teppi sem fólk sekkur í upp að ökkla. Á Vestfjörðum er aðstaða hinsvegar víða léleg. Við hættum fljótlega sýningum á Litla prinsinum. Það sýndi sig að þegar saman fer þröngur fjárhagur og takmarkaður áhugi á leiklist, kemur fólk ekki á tvær sýningar í röð. Í litlum plássum var stundum einn maður sem kom á báðar sýningarnar.“ Þegar það er sagt víkur blaðamaður einmitt að þessum monningum sem koma sannlega við sögu í leiksögunni hvar sem er í heiminum og oftar en ekki er stærsti sigurinn að vera á núlli. Þá eru samt yfirleitt laun listamannanna eftir einsog í dæmi Leiksmiðjunnar. Þau komust aldrei á neinn spena en hva‘ þurfa þessir listamenn nokkuð laun hvort eð er? Sólveig fer í gegnum stöðuna. „Ferðin hefur ekki verið gerð upp, en allar líkur benda til að við komum nánast kauplaus út úr þessu. Við héldum ekki af stað í leikförina með digran sjóð og kostnaður við svona ferð er mikill, þrátt fyrir það að við útbjuggum sviðið sjálf og reyndum að gera þetta eins ódýrt og hægt var, t.d. með því að elda ofan í okkur sjálf þar sem því varð við komið. En ferðin var í alla staði skemmtileg og lærdómsrík, það er út af fyrir sig mikil upplifun að fara um allt landið og hitta svo margt fólk.“ Hér talar listamaður með hugsjón sem á líklega við flesta er fást við leikhúsið og listir almennt. Enda er það stundin sem telur frekar en sjóðir þó víst sé gott að fá útborgað svona af og til. Saga Leiksmiðjunnar varð þó ekki mikið lengri því þau settu aðeins upp eina sýningu til viðbótar.
98
Kabarett Haustið 1978 kemur nýr læknir á Þingeyri Kristján Víkingsson. Kona hans Elfa Gísladóttir var nýútskrifuð úr leiklistarskóla í Reykjavíkinni. Hún átti eftir að hrista upp í leikstarfinu árið sem þau dvöldu á Þingeyri. Um veturinn setti hún á svið hvorki fleiri né færri en 4 kabarett sýningar í Félagsheimilinu. Heimamenn tóku uppátækinu vel, fjölmargir tóku þátt í sýningunum meira að segja bankastjórinn og fleiri stjórar í þorpinu sem vöktu sérstaka athygli í tískusýningu. Þar klæddust kapparnir kvenmannsfötum og gengu að hætti sýningarstúlkna einsog gert er í útlandinu. Fengu þeir góða skólun hjá leikstjóranum Elfu og gáfu sig alla í verkið enda uppskáru þeir hlátrasköll er heyrðust nærri yfir í Bakkaþorp hinum megin fjarðar. Á þessum tíma var góður hópur verkafólks frá Ástralíu er starfaði í fiskvinnslunni. Þau létu heldur ekki sitt eftir liggja og sýndu m.a. dans á þessum kabarettsýningum. Að sjálfsögðu var síðan dansiball að kabarett loknum. Eftir þetta verður aðeins breyting á leiklífinu á Þingeyri. Víst var áfram leikið en þá meira í tengslum við skemmtanir s.s. þorrablót og hjónaballið árlega. Voru það yfirleitt stuttir leikþættir, gamanvísur og fleira sem oft var samið af heimamönnum. Ekki miklar heimildir er að finna um einstaka þætti nema á þessum árum er m.a. sýndur leikurinn Minkurinn eftir Heiðar heimska, sem var vitanlega dulnefni. Meðal leikenda voru Ragnar Gunnarsson, Kristján Gunnarsson, Ólafía Sigurjónsdóttir og Alda Veiga Sigurðardóttir. Staðurinn var þó ekki leiksýningalaus því áfram komu leikfélög og leikhús með sýningar í þetta eitt flottasta leikhús Vestfjarða, Félagsheimili Þingeyrar. Árið 1978 kom t.d. Leikfélagið Baldur á Bíldudal með Skjaldhamra eftir Jónas Árnason og árið 1993 kom Leikfélag Flateyrar með Stundarfrið eftir Guðmund Steinsson. 99
Leikhúsið vaknar á ný Eftir alllanga þurrð í uppsetningu leikverka rís eitt elsta félag eyrarinnar upp og setur á svið ekki bara eitthvað leikrit heldur nýtt íslenskt leikverk. Við erum að tala um sportfélagið Höfrung og uppsetningu þeirra á leikverkinu Dragedukken árið 2009 er getið var all snemma í vorri leiksögu. Svo vel lukkaðist uppsetningin að sérstök leikdeild varð til innan Höfrungs og þegar þetta er ritað er Höfrungur leikdeild að undirbúa sína 10. leikuppsetningu. Alltaf gaman að gera eitthvað sérstakt þegar tugi er náð í hvaða sögu sem er. Því ætlar leikdeildin að frumsýna sem sitt tíunda verk nýjan íslenskan söngleik er gerður er við söguna sívinsælu um Dísu ljósálf. Enn sem komið er hefur lesendum alveg verið hlíft við leikdómum en nú verður breyting á. Því svo skemmtilega vill til að leikrýnir mætti á fyrstu uppfærslu Höfrungs leikdeildar, Dragedukken. Það er við hæfi að birta hann í heild sinni hér um leið og við hefjum sögu þessa núverandi leikdeildar eyrarinnar. Ævintýri á vesturslóð: Dragedukken slær í gegn á Þingeyri Sögulegt leikverk um Þingeyri í denn Höfundur og leikstjóri: Elfar Logi Hannesson Tónlist: Andreas Steinbach Útsetningar: Krista Sildoja Elfa Gísla í syngjandi sveiflu.
Hljómsveit tónlistarskólans: Krista Sildoja 1. fiðla Agnes Sólmundsdóttir 1. fiðla
100
101
Raivo Sildoja 2. fiðla, gítar blokkflauta Jóhanna Jörgensen Steinsdóttir blokkflauta Arnar Logi Hákonarson gítar Elínbjörg Snorradóttir harmonika Bergsveinn Gíslason harmonika Kristján Gunnarsson harmonika. Stjórnandi Krista Sildoja Leikmynd: Alda Veiga Sigurðardóttir, Kristján Fannar Ragnarsson, Sigmundur F. Þórðarson, Steinn Ólason og Sveinbjörn Halldórsson Ljósameistari: Róbert Daníel Kristjánsson Leikskrá: Rakel Brynjólfsdóttir Íþróttafélagið Höfrungur stendur að sýningunni - Félagsheimilið Þingeyri apríl 2009. Leiklist í Dýrafirði í tímans rás Leiklist hefur í tímans rás átt mikinn hljómgrunn í hjörtum Dýrfirðinga. Fyrsta uppfærsla á leikriti í fullri lengd sem vitað er um á Þingeyri, var Ævintýri á gönguför. Sá atburður átti sér stað á árunum rétt fyrir aldamótin 1900 í Vertshúsinu. Þá réði þar ríkjum Jóhannes Ólafsson, síðar hreppstjóri og mikill forystumaður í sveitarfélaginu um áratuga skeið. Jóhannes rak 102
greiðasölu í húsinu sem nefnd var því virðulega nafni Hótel Niagara. Heimildir eru fyrir því, að mörg leikrit hafi verið sýnd þar á tíma Jóhannesar. Lengi vel bar Kvenfélagið Von uppi leikstarfsemina á staðnum og voru leiksýningar á vegum þess meðal annars í svokölluðu Þinghúsi, sem er áfast við gamla barnaskólann, en síðan í Félagsheimilinu eftir að það kom til sögunnar 1939. Einnig voru leiksýningar á vegum Íþróttafélagsins Höfrungs, sem er eitt elsta íþróttafélag landsins, og mikið var leikið á vegum templara í Templarahúsinu, eða Rauða húsinu sem stóð fyrir innan barnaskólann. Þá starfaði Leikfélag Þingeyrar af miklum krafti um skeið. Sjónleikur í einum þætti Og nú hefur Höfrungur gamli sett á fjalirnar sjónleik í einum þætti, Dragedukken, um klukkustundar langan og sýnt nokkrum sinnum fyrir fullu húsi. Eins og ekkert sé sjálfsagðara. Segir þar frá bræðrunum Daniel M. Steinbach og Andreas M. Steinbach, en þeir stýrðu verslununum á Þingeyri og Flateyri fyrir og eftir 1800, í umboði Henriks Henkel kaupmanns. Allir voru þessir heiðursmenn frá Noregi. Persónur og leikendur eru 12 talsins og hljómsveit skipa 8 manns. Skemmst er frá því að segja að sýning þessi kemur á óvart. Þar er leikgleði og sérstakur sjarmi í fyrirrúmi, fáir veikir hlekkir og tempóið í verkinu mjög gott. Replikkur komast yfirleitt vel til skila og yfir sýningunni er þessi sérstaki blær sem oft er annars háttar en hjá atvinnumönnum. Sögumenn tveir sem opna verkið, strákarnir Birgir Knútur Birgisson og Þórður Sigmundur Ragnarsson, eru nokkuð kostulegir og vita alveg hvað þeir eru að gera, bæði uppi á sviði og niðri í sal. Gestaleikarinn Benedikt Birkir Hauksson frá Ísafirði leikur Andreas Steinbach, eina höfuðpersónu verksins og ferst það vel úr hendi. Greinilega vanur maður. Elenu 103
Kristine, konu hans, leikur Guðrún Snæbjörg Sigþórsdóttir og má bara teljast fæddur leikari, eins og fleiri sem troða upp í Dragedukken. Einnig leikur Guðrún Sigurð nokkurn sem við sögu kemur. Jón Sigurðsson leikur Daniel Steinbach, bróður Andreasar, myndar maður í sjón og reynd og þarf ekki annað en láta sjá sig, þá fer kvenfólkið að kikna í hnjáliðunum. Þessu kemur Jón vel til skila. Lisbet Hansdóttir, ráðskona, er leikin af Gunnhildi Björk Elíasdóttur. Hún skenkir ótt og títt í glösin hjá liðinu og flögrar um á sinn ísmeygilega hátt. Persónusköpun Gunnhildar er með því betra sem gerist í verkinu. Næst skal frægan telja Hólmgeir Pálmason, sem hefur tvö hlutverk með höndum, Henrik Henkel og Friðrik Svendsen. Í höndum Hólmgeirs brestur ekkert á, maður sem er öllu vanur og er sviðið eins og heimavöllur hans og persónurnar ljóslifandi. Bjarney Málfríður Einarsdóttir hefur með höndum tvö hlutverk eins og sumir aðrir, stúlkuna Kristínu og biblíumanninn Ebenezer Henderson. Skilar hún þeim óaðfinnanlega, ekki síst Henderson, sem er þekkt persóna úr Íslandssögunni. Berglind Hrönn Hlynsdóttir leikur frænku sína, Þórdísi Jónsdóttur, móður Jóns forseta Sigurðssonar, þá ung heimasæta á prestssetrinu Söndum, en í leiknum gestkomandi í kaupmannshúsum á Þingeyri. Er ekki annað að sjá en Berglind Hrönn ætti að geta átt framtíð fyrir sér sem leikkona, eins og reyndar fleiri leikendur í Dragedukken. Unga stúlku, Margréti, leikur Jóhanna Jörgensen Steinsdóttir og má segja að þar falli eplið ekki langt frá eikinni, en hún er dóttir Guðrúnar Snæbjargar, sem fyrr er nefnd. Jóhanna leikur einnig á blokkflautu í hljómsveitinni hjá þeim Sildoja hjónum og verður ekki skotaskuld úr því. Bóndi og Jón eru svo leiknir af Ævari Höskuldssyni, sem er á ungum aldri eins og Jóhanna og á framtíðina fyrir sér. Af þeim fríða hópi leikara, sem lætur ljós sitt skína á sviðinu, 104
skal svo að lokum nefndur Sigþór Gunnarsson, sem kemur, sér og sigrar í hlutverki Peders N. Terslews, sem er nokkuð óræð persóna. Það var sagt um gamanleikarann ástsæla, Alfreð Andrésson, hjá Leikfélagi Reykjavíkur forðum, að hann þyrfti ekki annað en sýna sig á sviðinu, þá færu allir að hlæja. Svipað má segja um Sigþór. Hann klikkar aldrei, hvort sem er í því daglega eða á sviði. Slíkir leikarar eiga það að vísu til að ofleika, en það gerir ekkert til, þannig er húmorinn. Sigþór er faðir Guðrúnar Snæbjargar, móður Jóhönnu Jörgensen Steinsdóttur. Þrjár kynslóðir í sama verkinu! Ekki amalegt. Leikmynd Dragedukken er býsna góð og ljósum hagrætt af smekkvísi. Dugnaður Elfars Loga Leikstjóri verksins og höfundur, Elfar Logi Hannesson, er greinilega ekki einhamur maður. Dugnaður hans á leiklistarsviðinu hér fyrir vestan verður að teljast mjög sérstakur. Uppbygging Kómedíuleikhússins, sem unnið hefur sér fastan sess, er til dæmis algjörlega hans verk. Þannig mætti lengi telja. Og nú hefur Elfar Logi unnið nokkurn leikstjórnarlegan sigur með Dragedukken. Það er mikil vinna á bak við eina slíka sýningu áhugaleikara. Margir sem við sögu koma, en leikstjórinn er sá sem stillir saman strengina. Þar hefur vel tekist til sem áður segir. Dragedukken er sagt sögulegt leikverk og er það að vissu leyti. Þar er nokkuð byggt á stórvirki Kjartans Ólafssonar, Firðir og fólk 900-1900. Svo er alltaf spurningin hvað á að taka með og hverju sleppa. Elfari Loga hefur tekist nokkuð vel að sigla þar milli skers og báru, þó deila megi um persónugerðir og slíka hluti endalaust. Svo var það spurningin hvort ekki megi finna eitthvað sem betur mætti fara í þessari leiksýningu áhugamanna á Þingeyri. Vissulega. Annað væri óeðlilegt. Það verður þó ekki tínt til hér, 105
nema það, að látbragðsleikur margra leikaranna, varahreyfingar í tíma og ótíma, mætti missa sín að nokkru leyti.
Hannesar Sigurðssonar, sem hann nefnir Síðasti valsinn. Var það góður endir á skemmtilegu kvöldi.
Hoffinsleikir
Hallgrímur Sveinsson, thingeyri.is
Því skal skotið inn hér til gamans, að Kjartan Ólafsson segir frá því í hinni stórmerku bók sinni, Firðir og fólk 900-1900, að Þórdís Jónsdóttir hafi á æskuárum verið viðstödd svokallaðan Hoffinsleik hjá Andreasi Steinbach á Þingeyri um 1790. Hoffinsleikur var einn hinna gömlu gleðileikja sem verslegir og geistlegir valdsmenn kepptust við að bannfæra á landi hér á árunum upp úr 1700, enda var sagt að 19 börn hefðu komið undir á síðustu Jörfagleðinni í Haukadal í Dalasýslu, en þar var einmitt venja að fara í Hoffinsleik. Þetta voru jólaleikir, en þá gladdi fólkið sig við söng og dans en síðan gengu karlmennirnir í kvennahópinn og völdu sér konu til fylgilags. Hoffinsleikurinn á Þingeyri, sem Þórdís segir frá, er sá síðasti á landi hér sem Kjartan getur rakið. Tónlistin í verkinu, sem er eftir Andreas Steinbach, samin um 1800, er alveg sér á parti og setur mikinn svip á sýninguna undir öruggri handleiðslu þeirra Sildoja hjóna, Raivo og Kristu. Andreas hefur verið með allra fyrstu mönnum á Íslandi sem skrifuðu tónverk fyrir fiðlu. Þetta er alþýðutónlist af bestu gerð og er heilmikil saga á bak við hana, sem ekki er hægt að fara nánar út í hér. Með konu sinni, Elene Kristine, eignaðist Andreas níu börn, sem öll fæddust á Þingeyri á árunum 1803-1816. Má telja víst að einhverjir af þeim sem við sögu koma í leiksýningunni Dragedukken séu afkomendur þeirra hjóna. Og það var einmitt einn af afkomendum þeirra, Guðmundur K. Steinbach, sem átti heiðurinn af því að koma tónlistinni á framfæri við Dýrfirðingana. Þess skal getið, að í sýningarlok sungu allir viðstaddir grípandi lag eftir Andreas Steinbach, við ágætt ljóð Lína
Eikin ættar minnar
106
Eftir gott nýtt upphaf er tvennt í stöðunni. Hætta á toppnum eða halda áfram. Sem betur fer valdi Höfrungur leikdeild seinni kostinn. Ekki nóg með það heldur var ákveðið að halda áfram í frumsköpuninni og vinna með eigin sagnaarf. Enda alls ekki vitlaust að marka sér einhverja stefnu þó ávallt sé síðan hægt að fara í ýmsar áttir. Miklu betra en að vera fastur í lokuðum kassa. Var nú farið enn aftar í eigin sögu frá frumverkinu, Dragedukken, eða til upphafs 17. aldar. Enda var þá búandi í Dýrafirði eitthvert fremsta sálma og kvæðaskáld þess tíma. Ólafur nokkur Jónsson betur þekktur sem Ólafur á Söndum. Séra var hann Ólafur þessi reyndar frá Tálknafirði hvar hann kom í heiminn árið 1560. Hafði fyrir komuna í okkar fjörð þjónað sem klerkur bæði á Rauðasandi og í Sauðlauksdal. 1596 fær hann hið þá eftirsótta brauð á Söndum í Dýrafirði hvar hann þjónaði allt til æviloka eða í rétt rúma þrjá áratugi. Leikurinn sem Höfrungur setti nú á svið og nefndi Eikin ættar minnar, eftir einu kvæða klerks, fjallaði einmitt um þennan tíma Ólafs á Söndum. Rakin var saga þessa listaklerks í stuttu máli með áherslu á verk hans sem mörg hver voru fléttuð inn í leikinn sjálfan. Þótti þetta sérlega vel við hæfi að gera þessu höfuðskáldi skil á heimaslóðum. Enda tóku gónendur verkinu sérlega fagnandi og mættu vel því alls urðu sýningar 6 talsins sem hlýtur að teljast nokkuð gott í þorpi sem nær ekki þriðja hundraði. Í leikhúsi sem tekur 120 manns í sæti. Sömu liststjórnendur og í frumverkinu voru í Eikinni. Höfundur leiksins og leikstjóri var Elfar Logi Hannesson en Krista Sildoja tónlistarstjóri. Leikarar voru alls 20 en í heildina 107
tóku um 50 manns þátt í uppfærslunni. Já, það er ekki nóg að hafa einhverja sprellandi á sviði eða í hljómsveit það eru heldur betur mun fleiri hlutverkin í leikhúsinu þegar setja skal á svið eitt stykki leikverk. Það þarf að gera leikmynd og hana þurfa einhverjir að smíða og svo mála. Búninga þarf að gera og í þessu tilviki þurfti að sérsauma búninga enda tíska 17. aldar löngu orðin hallærisleg eða allavega dottin úr tísku okkar nútímafólks. Svo þarf að farða leikarana, selja miðana og já hlutverkin eru endalaus innan sviðs sem utan. Það þarf í raun heilt leiksamfélag til að setja á svið leiksýningu. Einn af mörgum kostum við leiklistina er einmitt sú að hlutverkin eru svo fjölbreytt og er þá eigi átt aðeins við eiginleg leikhlutverk. Nei, heldur og öll hin sem eru unnin að tjaldabaki. Það má því segja að það séu margir kostir sem fylgja því að áhugaleikfélag sé starfandi í hverju þorpi og þéttbýli. Fátt betra til tengingar og eflingar og svo er þetta bara svo gaman og gefandi starf.
108
Höfrungur á leiksviði Birgir Knútur Birgisson, Patrekur Ísak Steinarsson, Jóhanna Jörgensen Steinsdóttir, Ragnhildur Anna Ólafsdóttir, Anton Proppé Hjaltason, Birna Filippía Steinarsdóttir, Lísbet Óla Jørgensen Steinsdóttir og Ævar Höskuldsson.
Allt er þegar þrennt er. Þriðja árið í röð setti Höfrungur leikdeild upp leikverk byggt á eigin sögu og þá bókstaflega. Nú var sannlega farið í allt aðra sálma ef þannig má að orði komast því leiksöguefnið var sótt í eigin sögu. Höfundur fyrri verka og leikstjóri var nú fenginn til að setja upp sögulegt verk um Íþróttafélagið Höfrung. Króinn fékk nafnið Höfrungur á leiksviði og er líklega eitt fárra íslenskra íþróttasöguleikrita ef ekki bara það eina. Leikritið Höfrungur á leiksviði er sportlegt og bráðfjörugt leikrit fyrir alla fjölskylduna. Íþróttalíf hefur löngum verið mjög blómlegt á Þingeyri en fyrstu eiginlegu heimildir um skipulagða íþróttaiðkun í þorpinu eru frá árinu 1885 þegar danskur beykir stjórnaði þar íþróttaæfingum. Árið 1904 var svo íþróttafélagið Höfrungur stofnað og er meðal elstu sportfélaga landsins sem enn starfa. Í þessu óvenjulega og íþróttalega leikriti er fjallað um fyrstu árin í íþróttalífinu á Þingeyri. Víða er borið niður í þeirri sögu, sagt frá framandi æfingahúsnæði, íþróttasýningum félagsins um Vestfirði, innrás kvenna í félagið, baráttu fyrir sérstöku baðhúsi og leikfimi fyrir yngri sem eldri borgara. 109
Alls tóku fjórtán leikarar þátt í sýningunni og alveg jafn fjölmennur hópur starfaði að tjaldabaki við leikmyndagerð, búninga, ljós og annað er tengist ferli leikuppsetninga. Frumsýnt var 4. nóvember í hinu glæsta leikhúsi Þingeyrar, sjálfu Félagsheimilinu. Stundin sú var um margt merkileg einsog ávallt þegar frumsýnt er, en nú varð ljósið enn skærara ef þannig má að orði komast. Því Höfrungur leikdeild hafði nú fjárfest í nýju ljósaborði og nokkrum ljóskösturum og var allt þetta notað nú í fyrsta sinn í leikhúsi Þingeyrar. Svo vel höfðu fyrri sýningar félagsins gengið að hægt var að fara í þessi tímabæru og mikilvægu kaup. Allar götur síðan hefur margt fleira verið keypt fyrir ágóðann af leiksýningum félagsins, má þar nefna myndarlegt hljóðkerfi. Skipt um leikgír Oft getur verið ágætt að staldra aðeins við og huxa. Það gerðist einmitt hjá hinum síunga Höfrungi. Svo sem ekki skrítið, það að setja upp þrjú frumsamin verk á jafn mörgum árum er stórátak. Auk þess að hafa á sama tíma byggt upp tæknilega leikhúsið á Þingeyri sem var orðið mjög fátæklegt í tæknilegu deildinni eftir mörg mögur leikhúsár. En þegar Dragedukken var sýnd var fátt um Ásrós Helga Guðmundsdóttir var Lína. 110
ljós í leikhúsinu enda ekki verið settar þar upp leiksýningar í langan tíma. Það var því ekki aðeins verið að endurvekja leikhúsið í þorpinu heldur og endurnýja leikhúsið tæknilega um leið. En þegar komin er upp svona fín aðstaða til leiksýninga í þorpinu þá er náttúrulega ekkert vit í öðru en að nota hana. Það gerist best með uppsetningu heimamanna. Enda var leikhvíld þessi ekki löng því árið 2014 mætir Höfrungur leikdeild aftur upp á svið og setur upp líklega sína vinsælustu sýningu til þessa. Enda voru meðlimir deildarinnar vel hvíldir og höfðu nú breytt um leikstíl. Færðu sig úr frumsömdu verkunum yfir í barnaleikritadeildina. Það hefði ekki verið hægt að byrja betur en að einmitt setja upp eitt vinsælasta barnaleikrit allra tíma. Línu Langsokk eftir meistara barnabókmenntanna Astrid Lindgren. Engar ýkjur er að segja að öll met Höfrungs hafi verið slegin í þessari uppfærslu. Allt frá umfangi til aðsóknar. Fjörið var sannlega að hætti söguhetjunnar. Til að fanga þetta allt er rétt að gefa Hallgrími Sveinssyni leikdómara thingeyri.is orðið en hann ritaði m.a. í rýni sinni. „Og nú er frá því að segja að Leikdeild Íþróttafélagsins Höfrungs á Þingeyri er enn komin á stúfana. Nú með ótrúlega góða uppfærslu af Línu Langsokk eða Sigurlínu Rúllugardínu Langsokk eftir hina stórkostlegu Astrid Lindgren. Óhætt er að segja að það er spriklandi kátína í Félagsheimili staðarins þessa dagana. Elfar Logi Hannesson ber ábyrgð á öllu heila gillinu og bætir við einni rós í leikstjórahnappagat sitt. Það er ótrúlegt hvað sá maður kemur miklu í verk á sínu sviði hér fyrir vestan. Persónur og leikendur eru 18 talsins, börn á öllum aldri, sum komin á efri ár. Þar er hver leikarinn öðrum betri og allir kunna vel rulluna sína. Pottþétt rennsli og stígandi. Leikgleði og fjör. Allir eru með á nótunum, meira að segja Herra Níels api. Ekki hár í loftinu. Fylgist með öllu. Sama er að segja um Hestinn. Að ekki sé nú talað um verði laganna, Hæng og 111
Klæng. Frú Prússólina, karlinn á kassanum, kennslukonan, Glámur og Glúmur, sirkusstjórinn, nemendurnir, sjóræningjarnir, Tommi og Anna og Adolf sterki. Allir standa sína pligt. Og ekki skal gleyma öllu aðstoðarfólkinu baksviðs og þeim sem gera þetta allt mögulegt. Valinn maður í hverju rúmi. Burðarásinn í leikverkinu sem allt hverfist um, Lína Langsokkur, er í höndum Ásrósar Helgu Guðmundsdóttur frá Núpi. Þar er sko ekki komið að tómum kofunum. Hún hefur alla þræði í hendi sér og skilur sitt hlutverk mæta vel. Efnilegur leikari sem lofar mjög góðu upp á framtíðina. Astrid Lindgren, sem farin er til feðra sinna, hefði ábyggilega verið ánægð með þessa sýningu á verki sínu hjá Leikdeild Höfrungs á Þingeyri.“ Frá Sjónarhóli til Kansas Þegar vel gengur þá er mikilvægt að halda áfram og helst að reyna að toppa sig hverju sinni. Segja má að þetta hafi verið leiðarljósið hjá Höfrungi leikdeild frá upphafi. Það er í raun stórsigur í svo litlu samfélagi einsog Þingeyri sem telur færri en 300 íbúa sé hægt að setja upp svo stórar sýningar, sem raunin hefur verið í sögu leikdeildarinnar. Pældu bara í því lesandi góður það eru stundum yfir 50 manns sem koma að hverri sýningu. Þá er fljótt spurt bíddu eru þá einhverjir til að horfa. Einhverjar tekjur verður jú apparatið að hafa. Því er fljót svarað. Aðsókn á sýningar leikdeildar hefur verið margföld íbúatala þorpsins hverju sinni. Það borgar sig oft ávallt að setja sér markmið, marka sér stefnu og búa til umgjörð utan um dæmið. Það hefur leikdeildin náð að gera á marga vegu. Í fyrsta lagi að einbeita sér að sýningum fyrir fjölskylduna alla. Það er jú hún sem skiptir okkur mestu máli og hvað er betra en að fara í leikhúsið og eiga góða stund saman öll stórfjölskyldan. Margar kynslóðir. Dásamlegt alveg. Einnig hefur leikdeildin haft það fyrir reglu að sýna verk sín ávallt á páskum. Hefur það 112
Signý Þöll Kristinsdóttir, ljónið, Brynjar Proppé Hjaltason, tinkarlinn, Guðrún Snæbjörg Sigþórsdóttir, fuglahræðan, Gréta Proppré Hjaltadóttir, Dóróthea, Andrea Líf Helgadóttir, Totó.
113
haft mikið að segja með þann metfjölda sýninga sem verið hafa á hverju verki. Páskarnir eru einmitt mikil fjölskylduhátíð á Vestfjörðum sem annars staðar. Allt þetta á líklega stóran þátt í einstöku gengi Höfrungs leikdeildar síðustu árin. En það getur verið erfitt að toppa sig árlega sérlega eftir hittara, einsog stundum er sagt í dægurbransanum, einsog Línu Langsokk. Það var samt sem áður uppleggið hjá leikstjóranum, Elfari Loga, og leikdeildinni. Nú var stefnan tekin á Kansas og þaðan alla leið í Oz. Já, auðvitað hefur þú löngu áttað þig á verkefninu kæri vin. Við erum vitanlega að tala um Galdrakarlin í Oz. Einhverja vinsælustu barnabók og kvikmyndaræmu allra tíma. Miðaldra og enn eldri muna enn hina hæfileikaríku leikkonu Judy Garland og söng hennar Ofar regnbogans litum. Viðfangsefnið var sannarlega krefjandi fyrir hina drífandi og dirfsku leikdeild. Einsog jafnan þegar áhugaleikfélög ákveða að setja upp verk hafa þau samband við hina mjög mikilvægu skrifstofu Bandalags íslenskra leikfélaga. Stofan sú hefur ekki bara stærsta leikbókmenntasafn þjóðarinnar heldur er og ötull þjónn áhugaleikhússins. Eitt verkefna þess er að útvega bæði handrit sem höfundarétt fyrir sín félög. Höfundarétt já, það þarf að borga skáldunum sem öðrum listamönnum. Yfirleitt gengur þetta mjög greiðlega fyrir sig. Greiðslur eru þó mjög misjafnar eftir verkum og í raun kröfum höfunda eða höfundaréttar. Hvert skáld eða höfundarréttarapparat getur í raun stjórnað sinni eigin verðskrá. Stundum er nú einsog afkomendur skáldanna séu heldur fúsari til fjárins en skáldin sjálf. Sú varð einmitt raunin í tilviki Galdrakarlsins í Oz. Þar var bara einhver kaupsýsluskrifstofa í útlöndum sem samdi um kaup og kjör. Þar sem ritari er innsti koppur í búri hjá leikdeildinni, þá getur hann frætt ykkur um það að þessar tölur voru ekki á færi neins áhugaleikfélags. Þetta var í raun einsog söngvarinn sagði Valaskjálfsverð. Enda lék allt á reiðiskjálfi í herbúðum leikdeildarinnar sem hafði þegar tilkynnt að Oz færi á svið í leikhúsi þorpsins. Í stað þess að ganga upp í næsta fjall einsog 114
einn leikstjórinn gerði. Var bara dokað við og huxað. Nú virkaði galdurinn einsog í verkinu. Nokkrum árum áður hafði nefnilega hinn frábæri og vinsæli Leikhópurinn Lotta leyst Oz vandan með því að búa bara til sína eigin leikgerð. Með tónlist og allt. Til þessa hafði þessi leikgerð aðeins verið sýnd af Lottu og það náttúrulega úti en nú varð Oz fært inní leikhúsið og það á Þingeyri. Höfundur Lottu leikgerðarinnar er Ármann Guðmundsson, einn aðal gæinn í Ljótu hálfvitunum, og það var einmitt sú spræka sveit sem samdi tónlistina. Höfrungur bætti svo um betur og fékk Guðmund Hjaltason tónséní frá Ísafirði til að semja nokkur lög sérstaklega fyrir uppfærsluna. Að vanda var fjölmennt á sviðinu alls 16 leikarar en aðalhlutverkið, Dórótheu litlu stúlkuna frá Kansas, lék Gréta Proppé Hjaltadóttir nemandi við Grunnskólann á Þingeyri. Gaman er að geta þess að grunnskólanemar hafa tekið virkan þátt í leiksýningum Höfrungs og meira að segja leikskólanemendur líka bæði á sviði sem utan þess. Galdrakarlinn í Oz var frumsýndur 14. mars 2015 í Félagsheimilinu á Þingeyri og við tóku svo fjölmargar sýningar, margar þeirra uppseldar.
115
Egner tekur sviðið
Auður Alma Viktorsdóttir, Kamilla, Gunnhildur Björk Elíasdóttir, Soffía frænka, Elfar Logi Hannesson, Tóbías, og Ástvaldur Mateusz, sem Tommi.
Úrval barnaleikrita er sannlega fjölbreytt og sem betur fer eigum við skáld sem sífellt bæta í þann væna sagnasjóð. Vissulega eru rjómatertur í þessari deild sem öllum öðrum deildum. Verk sem njóta meiri vinsælda en önnur og ekki síður ákveðnir höfundar vinsælli en aðrir. Í barnahöfundaleikritadeildinni á Íslandi má segja að það séu tveir turnar. Astrid Lindgren og Thorbjörn Egner. Leikdeildin hafði þegar sett upp eitt verk frá þeirri fyrrnefndu en ekkert frá hinum síðarnefnda. Nú var röðin komin að Egner og hvað var betra en að byrja á Kardemommubænum. Að vanda hófst ferlið með sérstökum kynningarfundi í húsnæði Dýra björgunarsveitarinnar á Þingeyri sem hefur oft 116
og mörgum sinnum hýst leikdeildina. Geta skal þess sem vel er gjört. Met fjöldi sótti kynningar fundinn enda hafði góður gangur verið síðustu ár og mikill meðbyr með leikstarfinu í þorpinu. Sem er líka eins gott því það þarf heilt þorp til að setja upp leikrit og hvað þá þegar um er að ræða sjálfan Kardemommubæ. Æfingar stóðu yfir í sex vikur. Fyrst í húsnæði björgunarsveitarinnar en svo í sjálfu leikhúsinu síðustu rúmu tvær vikurnar. Loks rann síðan upp frumsýningardagur 19. mars 2016. Bjartur og fagur, allavega í hugum leikenda og aðstandenda enda búin að strita og starfa í sex vikur. Og vitiði bara hvað? Það var uppselt. Að vanda mætti Hallgrímur leikdómari thingeyri.is á staðinn og tekur kappinn sá nú við sögukeflinu.: Kardemommubærinn á Þingeyri: Mikil leikgleði og fjör upp um alla veggi hjá ungu fólki á öllum aldri! Sá góðkunni útvarpsmaður, Jónas Jónasson, segir svo í bók sinni Lífsháskinn: “Fólkið í Reykjavík virðist oft ekki vita af því að austan Elliðaánna er líka til fólk sem býr yfir geysimiklum hæfileikum, frásagnarkúnst og lífsgleði. Fólkið í sveitum Íslands kann að skemmta sér, flytja menningu sína, leiklist og söng, og okkur kemur það öllum við. Ég hef stundum verið ásakaður um að vera sveitalegur í þáttagerð minni og ég tek því sem kærkomnu hrósi.” (Svanhildur Konráðsdóttir, Forlagið Rvk. 1991). Þessi orð Jónasar geta verið einskonar mottó fyrir það sem fer fram í menningunni á Þingeyri í Dýrafirði þessa dagana. Leikdeild Íþróttafélagsins Höfrungs hefur nú sett upp rétt eina stórsýninguna. Að þessu sinni er það hinn heimsfrægi Kardemommubær eftir Norðmanninn Thorbjörn Egner sem er á fjölunum í Félagsheimilinu. Barnaleikrit, sem ekki er síður fyrir hina svokölluðu fullorðnu! Elfar Logi Hannesson leikstýrir. Nema hvað? Í leikskrá eru taldar upp 20 persónur og leikendur auk 117
fjölda rótara og annarra hjálparmanna. Allir leikararnir eru ungt fólk á öllum aldri. Eru þeir allir meira og minna fæddir leikarar og þarf ekki fleiri orð um það. Nöfn verða engin nefnd. Umfram allt er leikgleði í fyrirrúmi og leiftrandi fjör upp um alla veggi. Allir kunna replikkurnar sínar og allt streymir fram á áreynslulausan hátt. Svo má ekki gleyma róturunum baksviðs og í kringum sýninguna. Þar er valinn maður í hverju rúmi og allt sjálfboðaliðar. Hvað annað! Auðvitað er sýningin ekki hnökralaus. Það er engin leiksýning, hvorki á hjara veraldar né í Þjóðleikhúsinu. Heildarsvipurinn er þó slíkur að undrum sætir. Verður það auðvitað að skrifast á reikning leikstjórans eða Tóbíasar gamla í Turninum! Ævintýraleikritið Kardimommubærinn stendur yfir hátt í tvo tíma. Það má vera til marks um þessa sýningu Leikdeildar Höfrungs, að yngstu sýningargestirnir, ekki háir í loftinu, eru alveg með á nótunum allan tímann. Loks skal þess getið að mikil aðsókn hefur verið á allar leiksýningarnar. Dýrin í Dýrafirði Það má sannlega segja að Höfrungur leikdeild hafði verið einsog í draumahöll líkt og Lilli söng um fyrir sinn Mikka í leikritinu. Þangað lá einmitt leiðin næst úr Kardemommubæ í Hálsaskóg. Þessi leikur Egners hefur ekki síður notið vinsælda sem Kardóið. Til gamans má geta þess að sama dag og Höfrungur leikdeild frumsýndi Dýrin í Hálsaskógi, 7. apríl 2017, var í ónefndu kvikmyndahúsi frumsýnd teiknimynd byggð á sama leikverki. Verkið hefur líka elst vel, sem á nú kannski ekki alveg við öll leikverk frekar en önnur listaverk. Enn gildir hin gullna regla að öll dýrin, og bætum við manndýrinu, eiga að vera vinir í skóginum, samfélaginu á jarðarkringlunni allri. Svo er líka gott að borða gulrótina, grófa brauðið, steinseljuna og allt það holla góðgæti. 118
Guðrún Snæbjörg Sigþórsdóttir og Kristján EðvaldHákonarson sem Lilli og Mikki. 119
Það var Þjóðleikhúsið sem frumflutti höfuðverk Egners hér á landi. Svo vænt þótti skáldinu um það að hann gaf leikhúsi þjóðarinnar höfundarréttargreiðslurnar á verkum sínum hér á landi. Sá sem fyrstur brá sér í hlutverk refsins Mikka á Íslandi var Bessi Bjarnason og síðan þá hafa fjölmargir brugðið sér í hlutverk melrakkans. Á Þingeyri var það Kristján Eðvald Hákonarson sem mætti sá og sigraði í þessari eftirsóttu barnaleikritarullu. Eigi er hlutverk Lilla, er Árni Tryggvason túlkaði fyrstur músa nei meina manna, síður vinsælla bæði hjá leikurum sem gónendum. Lilli leikhússins á Þingeyri var Guðrún Snæbjörg Sigþórsdóttir einn af prímusmótorum leiksviðsins á Þingeyri í dag. Svo komu þau dýrin hvert á fætur öðru túlkuð af leikurum eyrarinnar. Monika Janina Kristjánsdóttir var besti vinur Lilla Marteinn skógarmús, Ástvaldur Mateusz Kristjánsson lék bæði Kráku-Pétur og hundinn Habbakúk og fór létt með það, Kristín Björk Jóhannesdóttir var Hérastubbur og bakaradrenginn lék Árós Helga Guðmundsdóttir, bangsamömmu túlkaði Hjördís María Karlsdóttir, bangsa hennar lék Signý Þöll Kristindóttur og króa þeirra lék Andrea Líf Helgadóttir. Einn af reyndari leikurum eyrarinnar Gunnhildur Björk Elíasdóttir lék bæði ömmu skógarmús og hlutverk konunnar, mann hennar og jafnframt hlutverk Patta broddgölts lék Jóhanna Jörgensen Steinsdóttir, Una Proppé lék Lísu íkorna, Auður Alma Viktorsdóttir Pétur íkorna og Katrín Júlía Helgadóttir var Tumi íkorni. Loks lék Lára Ósk Pétursdóttir ugluna og elginn túlkaði Unnur Cornette Bjarnadóttir. Þessi uppfærsla á Dýrunum í Hálsaskógi fékk einstaklega góðar viðtökur og var aðsóknin á sýninguna engu lík. Svo gott sem uppselt var á allar sýningar leiksins. Þetta var einsog í ævintýraheimi alveg ævintýralegt allt saman.
120
Aftur í Lindgrendeildina
Katrín Júlía Helgadóttir í hlutverki Ronju.
Áfram var haldið í skóginum en skipt yfir í hinn leikskáldaturninn Astrid Lindgren. Stefnan var sett á hinn ævintýralega Matthíasarskóg hvar stúlkan Ronja auknefnd ræningjadóttir bjó. Ronju lék ung og efnileg leikkona Katrín Júlía Helgadóttir sem hafði þó áður leikið með leikdeildinni þrátt fyrir að vera aðeins átta vetra. Í hinu aðalhlutverkinu var annar leikari með reynslu þó aðeins 11 vetra væri pilturinn Ástvaldur Mateusz Kristjánsson. Leikdeildin hefur verið sérlega heppin með það hve æskan hefur sótt í að starfa þar. Það veit bara á eitt, leikandi góða og bjarta framtíð. Enda má segja að meðalaldur leikdeildarinnar sé með þeim lægri í áhugaleikhópadeildinni hér á landi. Enn ein sérstæðan sem gerir Höfrung leikdeild að því sem það einmitt er. Einstakt í sinni röð enda oft betra að vera einn af einum en fleirum einsog sögur sanna. Sérlega í dreifbýlinu þar sem hver og einn er svo einstakur og um leið 121
mikilvægur. Margir eru kostir fámennis og stundum svo miklir að halda mætti að þar búi þúsundir frekar en fá hundruð. Stór hópur, eigum við ekki bara að segja kraftaverkafólks, kom að sýningunni bæði á sviði sem utan þess. Í leikhópnum voru auk Katrínar og Ástvaldar þau Arnar Sigurðsson, Hjördís María Karlsdóttir, Gunnhildur Björk Elíasdóttir, Jovina Maríanna Lárudóttir, Auður Alma Viktorsdóttir, Signý Þöll Kristinsdóttir, Simas Slatkevicius, Lára Ósk Pétursdóttir, Andrea Líf Helgadóttir, Margrét Embla Viktorsdóttir, Fríða Katla Kristensen, Nanna Björg Halldórsdóttir, Kristjana Rögn Andersen og Hrafnhildur Diljá Lárudóttir. Halldór Gíslason var að vanda hljóðmaður sýningarinnar og sama má segja um ljósameistarann Róbert Daníel Kristjánsson er lýst hefur leikdeildina upp allt frá upphafi. Fjölmargir komu svo að leikmyndasmíði, búningagerð og öðrum handlögnum verkum. Má þar nefna mæðgurnar Marsibil G. Kristjánsdóttur og Öldu Veigu Sigurðardóttur að ógleymdum þúsundþjalasmiðnum Sigmundi Fríðari Þórðarsyni sem jafnframt hefur verið formaður leikdeildarinnar frá upphafi.
Bræður og Dimmalimm
Elfar Logi Hannesson, Guðrún Snæbjörg Sigþórsdóttir, Signý Þöll Kristinsdóttir, Arnar Sigurðsson og Jóngunnar Biering Margeirsson gíra sig upp fyrir sýningu.
Ætli megi ekki segja að Lindgren hafi vinninginn yfir Egner í fjölda vinsælla verka. Reyndar rétt að taka fram að Lindgren ritaði bara sínar bækur það voru svo aðrir snillingar sem snéru þeim fyrir leiksvið. Egner hins vegar samdi öll sín leikrit alveg sjálfur. Þau eru reyndar fjögur Egner verkin sem þýdd hafa verið og eru aðgengileg á íslensku. Meira að segja öll til einsog útvarpsleikrit, fyrst á hljómplötu síðan á geisladiski og í dag á hlustunarþjónustuvefum. Öll fjögur já fjögur. Ha, bíddu hvert er þetta fjórða? Það eru Kardemommubærinn, Dýrin í Hálsaskógi, Karíus og Baktus og hvert var svo það fjórða. Von að flestir spyrji því ólíkt töldum leikritum þá sló þetta bara eiginlega í gegnum trommuna, hitti aldrei í mark. Stundum 122
123
veit maður bara ekki hvað það er, en það er bara eitthvað við leikritið Síglaðir söngvarar sem nær manni ekki. Öll hin verkin voru til á æskuheimili ritara og spiluð þar aftur og aftur svona einsog æskan vill hafa það, endurtekningin er vinsæl á því aldursskeiði. Síglaðir söngvarar rötuðu þó aldrei undir nálina á þeim bænum enda var hún þar ekki til. Það var ekki fyrr en á unglingsárunum sem ritari rakst loks á Síglaða söngvara. Setti verkið strax undir nálina en aldrei var bé hlið plötunnar spiluð. Svona er þetta bara í leikhúsinu annað hvort virkar þetta eða ekki og það er í raun ekkert þar á millum, sérstaklega ekki í barnaleikhúsdeildinni. En nóg af leikhúsheimspeki áfram með leiksögu Þingeyrar. Eftir að hafa sett upp fimm stórsýningar á jafnmörgum árum var ákveðið að gefa aðeins tíma til öndunar og afslöppunar. Þó ekki algjörar það er mikilvægt í þessari deild að missa ekki dampinn, það verði samfella, detti ekki úr ár því þá geta þau svo auðveldlega orðið fleiri. Enn verra væri að einhver annar gæti séð þar tækifæri og stolið senunni og bara einfaldlega tekið þar yfir. Því var ákveðið að setja upp tvíleikinn sívinsæla Karíus og Baktus eftir títt nefndan Thorbjörn Egner. Leikurinn sá hefur nú heldur betur haft áhrif á tannheilsu sem og skemmtiheilsu landans allt frá því hljómplatan kom út árið 1965. Einsog miðaldra og eldri er kunnugt, er leikritið bara önnur hlið hljómplötunnar á hinni hliðinni er ævintýrið um Litlu ljót eftir Hauk Ágústsson sem er nú sjaldan leikið í dag. Þannig að leikurinn er í styttri kantinum, um og rétt yfir hálftímann. Svo skemmtilega vildi til að á þessum tíma hafði önnur leikdeild meira að segja atvinnuleikhús flutt búferlum á Þingeyri. Við erum að tala um Kómedíuleikhúsið fyrsta og eina atvinnuleikhús Vestfjarða sem hafði fram að þessu haft sínar bækistöðvar á Ísafirði en hafði nú flutt sig í fjörð Dýra. Þetta sama vor, 2019, hafði Kómedíuleikhúsið nýlega frumsýnt barnaleikritið Dimmalimm í Þjóðleikhúsinu. Nú var stefnan tekin heim með Dimmalimm en þar sem sýningin er rétt rúmlega 124
sama lengd og þeir munnbræður Egners þá þótti öllum tilvalið að sýna verkin saman. Sem var og gjört og frumsýnt 19. apríl 2019. Ekki nóg með það heldur var einnig farið í leikferð þá fyrstu sem leikdeildin hefur farið. Sýnt var á þremur stöðum; Patreksfirði, Bíldudal og Hólmavík. Í hlutverkum þeirra bræðra voru tveir af reyndustu leikurum leikdeildarinnar þær Guðrún Snæbjörg Sigþórsdóttir og Signý Þöll Kristinsdóttir. Sögumaður var Arnar Sigurðsson og Jóngunnar Biering Margeirsson skipaði eins manns hljómsveit sýningarinnar. Töfraði þar fram tónlist, áhrifamikil högg hljóð sem og önnur hljóð úr munni hins þjáða Jens. Leikstjóri var einsog áður Elfar Logi Hannesson. Atvinnuleikhús Hver er svo staðan í leikhúsmálum á Þingeyri þegar þetta er ritað, 2019. Jú, hér höfum við ekki bara eitt starfandi félag heldur tvö. Höfrung leikdeild sem hefur starfað svo eftir hafi verið tekið síðan 2009 og heldur betur puntað upp á listalíf eyrarinnar. Svo hið nýflutta Kómedíuleikhús, atvinnuleikhús Vestfjarða. Bækistöðvar þess eru sannlega í miðju eyrarinnar nánar tiltekið þar sem áður voru bæjarskrifstofur Þingeyrarhrepps sem og bókasafn. Það rými hefur svo gott sem staðið autt síðan Þingeyri varð partur af Ísafjarðarbæ árið 1996. Nú er þar komið líf á ný, öll ljós kveikt og leikið nótt sem nýtan dag. Segja má að Kómedíuleikhús húsið nýja sé eins konar leiksamfélag þar sem fram mun fara sköpun leikverka sem æfingar, námskeið og í raun allt nema eiginlegar leiksýningar enda er hér fyrir Félagsheimilið sem er hið sanna leikhús eyrarinnar. Kómedíuleikhúsið hefur verið atvinnuleikhús Vestfjarða allt frá aldamótum síðustu. Hefur það einsog Höfrungur leikdeild markað sér sérstöðu í hinum íslenska leikhúsheimi. Því Kómedían hefur sérhæft sig í því að vinna verk upp úr eigin sagnaarfi þ.e. sögu Vestfjarða. Ekki nóg með það heldur hefur 125
leikhúsið einbeitt sér að uppsetningu einleikja. Enda er aðeins einn leikari starfandi við Kómedíuleikhúsið árið um kring sem hefur og lengstum einkum verið eini búandi atvinnuleikarinn á Vestfjörðum. Kómedíuleikhúsið hefur verið sérlega iðið við sköpunina því það hefur sett á svið á fimmta tug leikverka, langflest þeirra alvestfirsk og einleikir. Að öllu þessu sögðu má segja að leiklistin á leikhúseyrinni standi sérlega sterkum fótum í dag. Í raun getur allt gerst einsog í ævintýrunum og það er einmitt svo dásamlegt enda er leikhúsið ekki list augnabliksins fyrir ekki neitt. En lengra komumst við ekki í vorri leiksögu enda komið bara nokkuð gott og mál til komið að snúa sér að öðrum listum í þessum breiða og skapandi Dýrafirði.
Leppalúði heilsar. 126
127
LEIKSÝNINGASKRÁ
1933. Tengdamamma. Kristín Sigfúsdóttir. 26. desember. 1945. Valbæjarvalsinn. Erik Bögh. 1945. Hnefaleikameistarinn. Franz Arnold og Ernst Bach. 31. desember. 1946. Happið. Páll J. Árdal. 26. desember. 1947. Lotterísseðillinn No. 101. Höfundur ókunnur. 1947. Spanskflugan. Franz Arnold og Ernst Bach. 1951. Hanagalið. Höfundur ókunnur. 1952. Apakötturinn. Johanne Luise Heiberg. 1953. Blóðeitrun. Refur Skottlausi, sem var dulnefni, hinn raunverulegi höfundur var Elías Mikael Vagn Þórarinsson. 1956. Skyggna vinnukonan. Pierre Barillet, Jean Grédy. Hér vantar ártal á eftirtalda leiki:
Nafn verks, höfundur, leikstjóri, frumsýning, uppsetningaraðili 1899 Brellurnar frumsýnt 2. í jólum. Uppfærslur kvenfélagsins Vonar Um 1920. Ævintýri á gönguför. Jens Christian Hostrup. Frumsamdar vísur eftir Guðmund Hvell. 128
Háa Cið. Sophus Neamann. Emma. Stína (leikþáttur). Herra Amor Teits (leikþáttur). Skraddarþankar frú Smith (leikþáttur). Höfundur ókunnur. Seðlaskipti og ástir. Loftur Guðmundsson. 129
Ráðskona Bakkabræðra. Oskar Braaten. Haninn galar. Fólkið í húsinu. P. Strange. Brellur. Happadrætti og hjónaband eða Annar hvor á að giftast. Vald ástarinnar. Kristján Sig. Kristjánsson. Rósa Fanney kemur til höfuðstaðarins. Gunnar M. Magnúss. Lási trúlofast. James R. Gregson. Ragnar Gunnarsson. Landabrugg og ást. Riemann og Schwarts. Eruð þér frímúrari? Franz Arnold og Ernst Bach. Dollaraprinsinn. Benjamín Einarsson. Dalbæjarprestsetrið. Óvænt heimsókn (leikþáttur). Karlsefni. Tengdamamma. Kristín Sigfúsdóttir. Brúðargjöfin (leikþáttur). Haraldur Á. Sigurðsson. Jólagjöf Péturs. Minkurinn. Heiðar heimski. Hrekkjabrögð Scapins. Moliére. 130
1958. Ævintýri á gönguför. Jens Christian Hostrup. Kvenfélagið Von. 1959. Frænka Charleys. Brandon Thomas. Kvenfélagið Von. 1960 – 1961. Útibúið í Árósum. Eiríkur Eiríksson. Gróandi Núpsskóla. 1962. Hjónabandsmiðlunarskrifstofan Amor. 3. janúar. Ungmennafélag Mýrarhrepps. 1962. Háttvirti herra þjónn. Ladislaus-Bus Tekete. Eyvindur Erlendsson. Leikfélag Þingeyrar. 1963. Ráðskona Bakkabræðra. Oskar Braaten. Erlingur E. Halldórsson. Leikfélag Núpsskóla. 1965. Brúðkaup og bótúlismi. Kenneth Horne. Sævar Helgason. Leikfélag Þingeyrar. 1966. Eruð þér frímúrari? Franz Arnold og Ernst Bach. Einar Freyr. 13. mars. Leikfélag Núpsskóla. 1966 – 1967. Húrra krakki. Franz Arnold og Ernst Bach. Eiríkur Eiríksson. Leikfélag Núpsskóla. 1968. Klækjavefur. Eiríkur Eiríksson. 16. mars. Leikfélag Þingeyrar. Höfrungur leikdeild 2009. Dragedukken. Elfar Logi Hannesson. 28. mars. 2010. Eikin ættar minnar. Elfar Logi Hannesson. 12. mars. 131
2011. Höfrungur á leiksviði. Elfar Logi Hannesson. 4. nóvember. 2014. Lína Langsokkur. Astrid Lindgren. Elfar Logi Hannesson. 8. mars. 2015. Galdrakarlinn í Oz. Ármann Guðmundsson. Elfar Logi Hannesson. 14. mars. 2016. Kardemommubærinn. Thorbjörn Egner. Elfar Logi Hannesson. 19. mars. 2017. Dýrin í Hálsaskógi. Thorbjörn Egner. Elfar Logi Hannesson. 7. apríl. 2018. Ronja ræningjadóttir. Astrid Lindgren. Elfar Logi Hannesson. 24. mars. 2019. Karíus og Baktus. Thorbjörn Egner. Elfar Logi Hannesson. 19. apríl.
132
LISTIN
133
Mynd- og ljósmyndalist Það vekur athygli ritara hve handverk stendur tryggum og sterkum fótum á Þingeyri. Einsog handlagnin komi með móðurmjólkinni. Hefur það kannski sitt að segja um hina einstöku eldsmiðju á eyrinni hvar mörg listaverkin hafa verið unnin allt frá stofnun, 1913, og enn er þar smíðað. Það þarf því ekki að koma á óvart að margir drátthagir hafa í Dýrafirði búið. Svo er það hitt að hingað hafa einnig komið drátthagir gestir og dvalið í lengri eða skemmri tíma. Má þar nefna listakonuna Nínu Tryggvadóttur sem kom í Dýrafjörðin um 1940 og málaði nokkrar myndir meðan á dvölinni stóð. Já, og svo kom Engilberts. Jón Engilberts. Engilberts málar í Dýrafirði Allt frá því þorp byggðust á Íslandi hefur ungt fólk sótt á landsbyggð í atvinnuleit þá einkum á sumrin. Var þetta mjög algengt og móðins á síðustu öld og jókst frekar en hitt þegar á leið þó eitthvað hafi nú dregið úr þessu á vorum tímum. Víst skolaði þá mörgum snillingnum á þorp upp og sumum líkaði svo vel að þeir fóru ekkert aftur. Meira að segja hafa margir ungir erlendir verkamenn svo vel fílað sig í þorpinu að farandverkafólk þetta hefur bara fundið sér lífsförunaut sem hafa svo gefið af sér ávexti. Allt þetta á við um okkar Þingeyri. Nú tökum við smá hliðarspor í leiksögunni en list kemur þar sannlega við sögu. Í lok annars áratugarins kom einn ungur og spengilegur maður í Dýrafjörðinn. Sumir héldu meira að segja að hann klæddist lífstykki svo spengilegur var hann. Útlendingslegur þótti kauði þó Íslendingur væri, en hann kom nú beint frá kóngsins Kaupmannahöfn hvar hann kunni hafa verið við listnám. Það var nú til að kóróna allt, listamaður. Mæður þorpsins létu það vera sitt fyrsta verk er þær fréttu af komu þessa 134
Engilberts skapar. 135
listútlendingsskíprents til þorpsins að tjá sínum dætrum að þennan létu þær sko alveg vera. Þessi ungi Íslendingur sem þótti svona útlendingslegur var Jón Sigurjónsson. Betur þekktur sem Jón Engilberts og er án efa einn af okkar mætustu myndlistarmönnum. Frídvöl á Þingeyri gegn því að mála Haukadal Í upphafi síðustu aldar sigldu ófáir Íslendingar til útlanda til að mennta sig. Sannlega átti þetta við um þá er höfðu ríka sköpun í blóði og hjarta. Þá er vildu ganga listaveginn. Voru fáir möguleikar til að mennta sig til lista og því varð að sigla. Danmörk var oftar en ekki staðurinn og þá helst höfuðborgin, Kaupmannahöfn. Þar hafði ungur piltur úr næsta firði við okkur, Arnarfirði, farið í myndlistarnám. Guðmundur nokkur Thorsteinsson betur þekktur undir gælunafninu Muggur. Þekktur fyrir fjölbreytt verk allt frá ævintýrinu um Dimmalimm til hans einstöku þjóðsagna- og klippimynda. Heim kominn kenndi Muggur síðan ungum Íslendingum undirstöðu í myndlist, bjó þá undir frekara myndlistarnám. Margir þeirra fylgdu í spor kennarans, einn af þeim var Jón Engilberts. Fór hann síðan til Köben til að nema myndlist við konunglegu akademíuna. Eftir nokkur ár ytra var orðin þunn og rýr pyngjan hjá hinum unga og upprennandi listamanni. Einhvern daginn var hann að kvarta yfir ástandi sínu í góðra vina hópi. Sumarið framundan og hann peningalaus og því útséð með listmenntun sína hér ytra. Hann ætti ekki einu sinni fyrir fargjaldinu heim með næsta skipi. Einn hlustenda var Jón nokkur Matthíasson, loftskeytamaður á farþegaskipinu Gullfossi, og kenndi í brjósti um Jóninn. Reyndar var svo sagt um loftskeyta Jón að listamenn hafi haft mikið dálæti á kalli enda hafi hann verið húmoristi og hrókur alls fagnaðar. Hann hafði einnig þann sjaldgæfa mannkost að vera bón- og ráðagóður. Í stað þess að sjá aðeins svart og blindgötu í hverri stöðu sá Jón aðeins 136
skæra liti og beinan veg ef ekki bara hraðbraut. Jón sagði einfaldlega við sinn yngri Jón. Þetta er ekki vandamálið vinur minn. Þú ferð bara í Dýrafjörð. Líklega hefur drukkurinn staðið í yngri Jóni, já auðvitað hefur þessi raunasaga farið fram á öldurhúsi. Kannski á hinum sögufræga stað Hvít, hvar Jónas Hallgríms og allir hinir höfðu tryggt langlífi þess staðar sem enn stendur. Í stað þess að bíða eftir svari unga listamannsins bætir loftskeytamaðurinn við. Gullfoss siglir á morgun heim til Íslands. Skáþrábeint í Dýrafjörð og á Þingeyri. Þar ferð þú í land og verður í einhvern tíma, segjum tvo mánuði. Yngri Jón álpaðist til að fá sér sopa en varð enn svo um að nú frussaðist Carlsberg hoffinn yfir alla hans sessunauta. Enginn tók því vel nema loftskeyta Jón, hlær og neglir dæmið. Ha, ha, það er bara einsog við séum þegar komnir um borð í Gullfoss. Jóhannes frændi á Þingeyri hýsir þig allt frá gengið. Bingó. Loks nær Jón yngri að stynja upp einni setningu. Nafni, þetta er fallega hugsað og allt það en einsog ég sagði þá á ég enga peninga. Nafni greip strax framm í. Þú þarft enga peninga ég borga. Nú fer þetta samtal næstum að vera einsog í einhverjum hanaslag, setningar ganga stutt á milli. Jón yngri mælir. Enga vitleysu, bíddu hvað ert þú búinn að drekka marga. Ég borga og þú borgar mér, sagði Jón eldri. Stuttur slagur þetta. Nú er alveg runnið af Jóni enda skilur hann ekkert í 137
sínum nafna. Sem loks kemur með svarið. Já, þú borgar mér í myndum. Ég er ættaður úr Haukadal sem er skammt frá þorpinu Þingeyri. Þú málar fyrir mig mína ættarparadís og það er fullnaðargreiðslan fyrir þessa tvo mánuði þína á Þingeyri. Ekkert en. Ég hef gengið frá öllu, hér er farmiði í Gullfoss. Drekkum bara einn til því það er mæting niðrá kæja sex í fyrramál. Vert ekki seinn. Skál í boðinu. Þannig fór það að unglistamaðurinn Jón Engilberts fór ókeypis til Þingeyrar hvar hann dvaldi í tvo mánuði og borgaði fyrir sig með því að mála mynd af paradísinni Haukadal. Ávextir og menn vökvaðir Jónarnir sigldu nú sinn sjó með Gullfossi frá Kóngsinshöfn til Íslands og þaðan svo alla leið í Dýrafjörð. Skemmst er frá því að segja að það var hið erfiðasta sjóveður í raun bara skítabræla, einsog einhver alvöru sjómaðurinn mundi kalla það. Loftskeytamanninum fannst þetta nú ekki mikið allavega næðu þeir landi. Huggaði sinn nafna inn á milli sjógusanna en mundi svo allt í einu eftir kössum í sínum klefa. Jæja, það eru bara ávextir í þeim ekki verra þó þeir vökni smá, það heldur þeim bara ferskum. Öll hríð dettur niður sem og sjóir og þegar betur sjóaði og yngri Jón hafði aftur fengið sinn eðlilega lit í andlitið, röltu þeir sér niður í reyksalinn þar sat nú einn snillingurinn til, nefnilega skáldið Einar Benediktsson. Nú hresstust allir enda skáluðu nú Jónarnir við skáldið örugglega langt fram á næsta dag. Maðurinn sem var langt á undan sinni samtíð með sína fáránlegu hugdettu um að selja norðurljósin. Norðurljósin er ekki lagi, heima hjá þér, mundi einhver sveinninn segja. Þessi forsjáli maður veifaði nú þeim nöfnum bless við komu Gullfoss til Reykjavíkur. En nafnarnir tóku stefnuna á Dýrafjörð. Segir 138
fátt af þeirri för nema þegar þangað er komið fer yngri Jón í land á Þingeyri en loftskeytamaðurinn siglir áfram en hlakkar mikið til að fá í hendurnar málverk af æskustöðvum sínum, Haukadal. „Stal lömbum og kleip kvenfólk“ Jón segir frá þessum tveimur ævintýramánuðum á listilegan hátt í sögu sinni Hús málarans er Jóhannes Helgi skráði. Stuðið hafi sannarlega verið í þorpinu Þingeyri og áttu hinir frönsku sjóarar er sóttu stíft inní Dýrafjörðinn þar sitt að segja eða einsog Jón orðaði svo listilega í sögu sinni. „Fransarinn lífgaði uppá þorpið, stal lömbum og kleip kvenfólk bak við hóla, bauð uppá biskví og rauðvín um borð í duggunum.“ Einsog áður gat var hinum unga listamanni komið í hús hjá Jóhannesi Ólafssyni, frænda góðgerðamannsins úr Haukadal. Frændi bjó á pósthúsinu svonefnda fyrir ofan spítalann. Hans kona var Helga Samsonardóttir og samkvæmt okkar manni vissi hún allt um alla í þorpinu. Enda var víst oft fjölmennt í sál hússins, í eldhúsinu, hvar vinkonur hennar á öllum aldri söfnuðust saman til fréttastunda. Vissulega skapaði nú hinn nýi íbúi hússins ferskt umræðuefni. Eitt sinn er húsmóðirin hafði fullt eldhús hlustenda og margar þeirra voru í yngri kantinum. Kannski frekar komnar í húsið til að sjá hinn unga spengilega listamann. Eftir aðeins örfáar sögur arkar einmitt sá ungi framhjá dyrunum og húsmóðirin spyr án nokkurs formála hvort hann gangi í lífstykki. Bætti samt snögglega við, stúlkurnar vilja vita það, ekki ég. Listamaðurinn lét ekki á svari standa og sagði lymskulega. „Nei, ég er bara svona spengilega vaxinn, góða mín.“ Það var einsog þakið dytti af húsinu svo djúp var þögnin í sögueldhúsinu. Svo sprakk húsmóðirin. Úr hlátri. Samkvæmt hinum spengilega munaði minnstu að hún hefði hóstað úr sér lungun sökum hláturs. 139
Sonur þeirra hjóna hét Óskar og var hann einhentur. Höndina hafði hann misst er hann þá lítill púki var að bjástra við að skjóta úr fallbyssu er var í þorpinu. Líklega er hann sá eini sem hefur náð þessari lagni. Þrátt fyrir einhendina vann hann jafnvel meir en þeir er báðar hendur höfðu. En svo þótti honum víst sopinn svolítið góður en hvers manns hugljúfi var hann. Útlendingurinn Jón Brölluðu Óskar og Jón margt saman á Þingeyrinni. Einu sinni skelltu þeir sér á nikkuball. Jón var náttúrulega sérlega spenntur enda kvenfólk Dýrafjarðar með því fegursta á landi hér. Svo hann hefur sig nú aldeilis til fyrir ballið fer þó ekki í lífstykki. Svo mæta þeir félagar á ballið en nema hvað stúlkurnar vilja bara dansa við þann einhenta. Sama hversu oft hann reynir að bjóða dömunum upp eða bara til að segja við þær, hæ kemur þú oft hingað. Þá einsog stirðnuðu þær upp og hlupu svo frá honum hið snarasta. Jón skildi ekkert í þessu rölti sér loks út fyrir hús og ætlar bara heim. Þar hittir hann eitt fljóðið og reynir nú í síðasta sinn að segja, hæ kemur þú oft hingað. Sama gerist og áður einsog hún frjósi í sömu sporunum en tekur svo á sig rögg og hleypur fyrir horn á danshúsinu. Jóni er nú öllum lokið en þá allt í einu sést í hönd stúlkunnar gægjast útfyrir horn hússins, reyndar bara fingur sem bendir honum að koma. Nú er það Jón sem frýs í sporunum en svo allt að því hleypur hann að hinum kallandi putta. Þegar hann er að nálgast hornið kemur hönd stúlkunnar öll fram og kippir í hálsmál hans og endakastar honum fyrir hornið. Já, þær eru sannlega sterkar kvinnurnar hér. Kraftakvendið sussar á hann og biður hann vinsamlegast að tala lágt. En hún skuli svara hans spurningu sem hún telur sig strax vita hver er. Af hverju hún og stelpur þorpsins stífni og frá honum hverfi. Já, einmitt það sem ég ætlaði að spyrja þig að. Ég meina er ég virkilega svona ljótur. Stúlkan er fljót að segja nei, þú ert frekar fallega 140
ljótur. Nei, grín, bætir hún strax við og segir svo. Móðir mín og allar mæður þorpsins hafa varað dætur sínar við þér því þú værir útlendingur. En ég er ekki útlendingur ég heiti meira að segja Jón, get ekki verið meiri Íslendingur. Það er sama, held þetta sé bara þrjóska ef að það er búið að segja eitthvað þá er það svo. En þú ert samt sætur, útlendingur. Og svo var stúlkan gamansama rokin aftur á ballið en Jón rölti bara einn til sængur kveldið það. Einhvern annan daginn gerðust þeir Jón og Óskar, sem skal þó ekki rugla við skartgripaverslunina í Reykjavík, eða þó. Því þeir fóru að höndla. Söfnuðu saman alls konar alíslenskum varningi einsog smjöri, harðfisk, ull, sjóvettlingum o.fl. Allt þetta báru þeir í fangi sínu alla leið niður í fjöru og settu í bátkænu eina. Já, nú átti að höndla við fransmennina, á sjó úti, svo alveg tollfrjálst allt saman. Spegilsléttur fjörðurinn, já, þetta var svo snemma dags fyrir innlögnina sem ávallt kemur á sínum fasta tíma upp úr klukkan ellefu að morgni. Öruggari en nokkur skeiðklukka blessuð innlögnin. Fransmennirnir tóku hinum íslensku kaupmönnum vel. Þeir fóru í hverja skútuna á fætur annarri og íslenski varningurinn minnkaði við hverja höndlun en í staðinn komu aðrar vörur. Einkum fljótandi, já, maður minn, bæði konnjak og rauðvín. Svo þetta harðbrauð eða kex þeirra fransmanna, biskví. Það getur komið sér vel að búa í þorpi hvar ekkert pólití er. Svo áhyggjulausir komu þeir félagar að landi með kænuna fulla af víni og biskví. Líklega hafa aldrei komið jafn kátir kaupmenn að landi í Dýrafirði og þeir Óskar og Jón. Sá síðarnefndi stingur upp á því að nú sé ekkert annað að gjöra en að fagna. Sá fyrrnefndi gat ekki verið meira sammála tók upp tvær rauðvínsbokkur, já, eina á mann það tók því ekki að byrja á neinu minna. Nú var teygað stórum og eftir því sem drukkið var jókst kátínan og hlátrasköllin sem heyrðust alla leið á Proppéplan hvar karlar og konur voru í hörkuvinnu. En kátínan heillar hvað þá ef vín er 141
í boði. Áður en langt um leið voru aðeins konur eftir á planinu því allir karlarnir voru komnir í fjöruna enda var nóg fyrir alla. Eigi þarf að taka það fram að þetta var nú ekki til að bæta álit mæðra þorpsins á útlendingnum Jóni. Nú yrðu dætur þorpsins bara læstar inni eftir klukkan átta á kveldin til að vernda þær fyrir þessu útlenda stýri. Jón jólasveinn Barnið fer ekki í manngreininga álit, skiptir þá engu hverrar þjóðar né hvers kyns fólk er. Þau sjá það sanna og í raun þá hópuðust krakkar að Jóni. Frá þessu segir Jón á sinn húmoríska hátt og meira til því enn er hann fenginn til að mála mynd og nú fyrir doktor staðarins. Við bætist að hann verður ástfanginn af heimasætu einni sem á óstýrilátan bróður svo kúnstnerinn á erfitt með að athafna sig og tjá hug sinn til þeirra fögru í firði og nú er þetta allt að verða svo flókið en um leið spennandi svo við skulum bara fá söguna alla beint frá sögupersónunni Jóni. „Ég málaði einar þrjátíu myndir meðan ég dvaldi í Dýrafirði. Hvar sem ég fór var krakkaskari á eftir mér, því að ég kunni hrafnamál. Ég krunkaði og hrafnarnir svöruðu. Svo þýddi ég svörin á krakkamál og varð af þessu vinsælli hjá krökkunum en nokkur jólasveinn. Eina mynd málaði ég fyrir lækninn við botn fjarðarins og dvaldi á meðan hjá bóndanum þar. Á bænum voru, auk bónda og konu hans, dóttir þeirra um tvítugt og strákskömm ellefu ára. Hinar dæturnar voru þá farnar að heiman, giftar mótoristum hér og þar. Mótoristar gengu þá með kaskeiti og höfðu svipað aðdráttarafl fyrir konur og bílstjórar síðar og flugmenn í dag, og kaskeitin voru þá sem nú hlægilega stór – og fara stækkandi. Heimasætunni hundleiddist auðvitað í þessu fásinni, og ég var henni tilbreytni af himni send og hún sótti mjög í mig meðan ég var að mála, en aldrei gat ég talað einslega við hana um eitt eða neitt. Bróðir hennar, strákskömmin, fylgdi henni eins og skuggi og yggldi 142
sig bara, ef ég reyndi að stugga honum burt. Draugsandlitið á honum var orðið hluti af landslaginu, á þessum hól í dag, á hinum á morgun. Ég hafði hann grunaðan um að vera þarna fyrir tilstilli móðurinnar, og grunur minn varð að vissu þegar ég ámálgaði að senda strákhvolpinn inn til Þingeyrar eftir litum og bauð krónu fyrir. Þá hallaði kerlingin undir flatt og horfði fast á mig, lét alveg eins og hálfviti þótt hún væri óvitlaus, og læddi út úr sér; Það er ekki hægt. Hann hefur svo gaman af að sjá manninn mála.“ Sirkusinn kom og Jón fór Kúnstnerinn heldur nú inn á Þingeyri enda myndin læknisins tilbúin og enginn friður til ástarleika sökum púkans á bænum. Helst hefði Jón viljað fara heim í rúm upp og breiða uppfyrir haus. En það er enginn friður því nú mætir sirkusinn í þorpið og gjörir allt vitlaust. Þetta er reyndar ekki hefðbundinn sirkus heldur þingmenn. Já, bæði þá og síðar nefndi hann pólitíkina aldrei neitt annað en sirkus. Ætli það séu ekki einhverjir honum sammála? Víst gátu hinir pólitísku fundir á Þingeyri orðið fjörugir svo af bar og frægt er orðið. Það voru heldur engir smápólitíkusar mættir í þorpið þetta annars sólríka sumar á Þingeyri. Þrenningin Thor Thors, Ásgeir Ásgeirsson og Sigurður Einarsson frá Holti. Þrír komu þá einn fór. Og það var Jón sem skundaði ekki bara út úr þorpinu með sitt málerídót heldur alla leið upp á fjall hvar hann settist við og málaði. Daginn eftir lá Jón í sínu rúmi sæll og kátur með mynd er hann málaði á fjallinu meðan þorpsbúar sátu í sirkusnum. En nú var sirkusinn farinn og afslappelsi og sæla framundan. Eða hvað? Ekki aldeilis, húsfreyjan Helga bankar á dyrnar hjá Jóni og tilkynnir að hér sé kominn gestur. Bíður ekki boðanna heldur opnar hurðina og Jón hálfnakinn en sem betur fer undir 143
sæng. En hver stendur þá ekki þarna í dyragættinni? Nema heimasætan, já, þessi úr botni fjarðarins. Margir hefðu nú haldið að nú mundi Jón stífna fyrir alvöru á ákveðnum stað. Nei, ekki aldeilis enda ekki viðbúandi í þessu litla ævintýri hans á Þingeyri. Hann guggnaði. Byrjaði strax að hósta, auðvelt að leika það. Milli hósta sagðist hann vera með einhverja farsótt og bætti svo við að það væri, „brjálæði í ættinni“. Hefði Jón kannski átt að fara heldur í leiklistina? Alla vega gjörði hann þetta svo raunalega að stúlkan hrökklaðist í burtu og gott ef húsmóðirin hafði ekki náð í brennivínspelann undir stólsæti sínu til að hressa pilt og ekki síður sjálfa sig. Svona áður en hún skellti í pönnsur til að geta boðið kjaftavinkonum sínum eitthvað bitastætt því nú hefði hún sannlega þeim sögu að segja. Svo heimasætan hélt á brott og það gerði Jón einnig. Með borgunina listaverk af Haukadal fyrir nafna sinn loftskeytamanninn sem og vel yfir annan tug listaverka. Víst eru sumrin löng og drjúg í Dýrafirði nú sem þá. Sumarævintýrin þar eru engu lík. Breiðfjörð Víkur nú sögunni að heimalistinni, listin unnin af þeim sem í þorpinu búa. Einn þeirra fjölmörgu er Sigurður Eiríksson Breiðfjörð Júlíusson eða Sigurður E. Breiðfjörð, f. 1904, d. 1957. Sannlega fjölhæfur maður sem vissi að það væri ekki nóg að sinna daglegum störfum til að þorp dafni og blómgist. Félagsmálatröll má vel segja hann vera og það eru einmitt þeir aðilar sem eru svo mikilvægir hverju þorpi. Nam hann trésmíði við Iðnskóla Reykjavíkur og framtíðin virtist björt en þá kom áfallið. Hann veiktist af berklum og lá inni á Vífilstaðahæli sökum þessa. Kom loks aftur heim til Þingeyrar hvar íbúum var nokk brugðið við að sjá hinn hávaxna mann sem var nú orðinn einsog minni allur og veikari. 144
Næstu árin starfaði hann við fjölbreytt störf, var kennari og húsasmiður en þá iðn hafði hann einnig stúderað og var því svonefndur húsameistari. Fyrsti bílstjórinn var hann á eyrinni en árið 1929 tók hann vörubílstjórapróf. Reyndar ekki mikið að gera enda fáir vegir komnir. Hann gerði þó sitt í að bæta úr því. Hann byggði nefnilega brýr og var jafnframt verkstjóri við þá vinnu alla. Hin nú vinsæla samfélagslega ábyrgð var Sigurði vissulega hugleikin. Starfaði hann í öllum félögum nema þá kvenfélaginu og þó því hann málaði einmitt leikmyndir fyrir leiksýningarnar í þorpinu. Einnig var hann liðtækur við vgrímugerð fyrir hina annáluðu þrettándagleði á Þingeyri. Sigurður var jafnan í trúnaðar og stjórnarstörfum félaga. Til að draga upp mynd af því hve fjölbreytt félögin voru á Þingeyri á þessum tíma og um leið á dugnað einstaklings, má nefna að Sigurður var einn af stofnendum Verkalýðsfélagsins Brynju, ritari í Stúkunni Fortúnu og í sama starfi í Slysavarnarfélaginu Vörn. Svo eru það hin opinberu störf. Hann sat í hreppsnefnd Þingeyrarhrepps, skattanefnd, skólanefnd og bygginganefnd svo nokkrar nefndir séu nefndar. Það er nefnilega oft vanmetið hve mikils virði hver og einn einstaklingurinn er í hverju þorpi. Þar gildir sannlega að þar er oft betra að vera einn af einum en einn af mörgum. Því er það svo að hvert starf þorpsins er gífurlega mikilvægt. Bara það að kannski þrjú störf séu lögð niður t.d. með því að loka einu stykki banka þá er það í raun gífurleg blóðtaka fyrir þorpið. Einsog opið sár sem seint eða aldrei grær. Breiðfjörð var sannlega einn af þeim mönnum sem virtist hafa fleiri tíma í sólarhringnum en við hin. Allt hið ofannefnda væri nú þokkalegt ævistarf og hvað þá á svo stuttri ævi sem manninum var fengin. Enn á eftir að telja hans skapandi hendur sem brutust út í fjölbreyttum handverkum Sigurðs. Einsog áður gat var hann einn aðal leiktjaldamaður þorpsins meðan hans naut við. Einnig teiknaði hann og málaði myndir. Segja má að hann hafi verið hirðskrifari og skrautari þorpsins. 145
Ef senda átti heillaóskaskeyti var jafnan leitað til Breiðfjörðs sem töfraði fram á pappírnum heillandi kveðju skrautritaða og skreytta með handbragði sanns listamanns. Það mátti oft sjá að eitthvað hátíðlegt væri framundan ef mikil traffík var við hús Breiðfjörðs. Oftar en ekki voru blessuð börnin send til listamannsins að falast eftir heillaóskaskeyti fyrir kannski afa sinn. Fyrir voru jafnan margir aðrir í sömu erindum er stóðu við stöflum hlaðið vinnuborð listamannsins hvar öllu grúfði saman; bókum sem pappírum, rissum og skissum. Stundum er sagt að þar sem óreiða er á borði listamanns þar fari mesta sköpunin fram. Og einnig afköstin. Börnin sem stóðu þarna í röðum hvert með sitt erindi stóðu sem heilluð við borð listamannsins. Þarna má alveg segja að börnin læri það sem fyrir þeim er haft og því ekki að undra hve margir handverks og listamenn hafa í Dýrafirði búið. Þegar Breiðfjörð hafði lokið einu verkinu rétti hann það jafnóðum til sendiboðans og sagði um leið: Hver er næstur? Við sjáum fyrir okkur sendiboðann haldandi á þessu listaverki, nánast einsog heilögum kaleik. Verki sem var aðeins einfaldur texti á blaði í upphafi kannski eitthvað á þessa vegu. Elsku afi til hamingju með 90 árin, þínir ættarlaukar í Aðalstræti 23. Eða eitthvað álíka. En er nú eftir töfra Breiðfjörðs einsog listaverk þar sem sjá má afann á ýmsum æviskeiðum alveg frá því hann kyssti sinn lífsförunaut fyrsta kossinn þar til hann situr með sendiboðann í fangi sínu og segir honum sögur. Svona er galdur listarinnar skærastur. Maður hefði nú haldið að sendiboðinn, eftir að hafa fengið slíkan fjársjóð í hendur, skyldi flýta sér heim að sýna listaverkið. En nei, það var nefnilega eitt eftir. Að borga fyrir verkið. Móðir sendiboðans hafði sagt honum að hann yrði að borga Breiðfjörð fyrir. Í vasa sínum hefur hann peningaseðil, nokkuð sem hann hefur aldrei átt sjálfur líklega nema þá í sendiferðum. Margur prakkarinn hefði nú bara látið kyrrt liggja en ekki þessi. 146
Hann tekur upp seðilinn og réttir að listamanninum um leið og hann spyr? Mamma á ekki meira en hún vonar að þetta sé nóg. Það er einsog þakið detti af húsinu svo snögg verður þögnin og þá einna mest hjá listamanninum og það er ekki laust við að tár trylli niður aðra kinnina. Hann þarf meira að segja að ræskja sig áður en hann segir snöggt: Hvaða vitleysa. Settu peninginn aftur í vasann drengur. Ég var bara að leika mér og dunda. Svo tók þetta heldur engan tíma. Farðu nú heim með skeytið og það áður en afi þinn verður árinu eldri. En mamma, segir guttinn snöggt. Já, já ég veit, mamma þín er góð kona. Berðu henni kveðju mína og skundaðu til hennar. Hver er næstur? Bisnesinn átti ekkert erindi við Breiðfjörð. Það vill reyndar oft henda bestu listamenn. Hann gaf og gaf og samferðafólk hans naut listagjafanna allra. Þó erfitt væri að koma borgun í hans vasa þá vissu íbúar að starf hans var ekki sjálfsagt. Það var metið að verðleikum allt til enda og á hans brottfarardegi var það Verkalýðsfélagið Brynja sem kostaði athöfnina í góðu samstarfi við önnur félög staðarins. Það þarf fólk einsog þig má vel segja um fólk einsog Sigurð E. Breiðfjörð.
147
Listahjónin á Hofi
Hjartans vinan er mín eina ung og fögur, rjóð og blíð. Eigi má því alltaf leyna ung þú sért í blómatíð. Nei, lesandi kær við erum ekki komin í ritlistakaflann erum enn í myndheimum Dýrafjarðar. Það var bara eiginlega ekki hægt að byrja þennan þátt öðruvísi. Því hér þarf að tala um tvo listamenn í einu og sama vetfangi. Annað hæfir ekki enda er hér um að ræða einstök og samrýnd hjón sem voru sannkölluð listahjón. Kvæðið hér í upphafi orti hann til hennar og er einsog 148
rýna má upphaf bónorðs. Já, hér í firði eru menn flottir á því er á skeljarnar fara enda mikilvægt að gera stundina einstaka. Sá er orti hét Gunnar Guðmundsson til síns komandi lífsförunautar Guðmundu Jónu Jónsdóttur. Bæði voru þau alþýðulistamenn sem hófu þó ekki listferilinn fyrr en lífsstriti þeirra lauk. Gunnar var af fátæku fólki kominn og var sendur ungur í fóstur aðeins mánaðargamalt kríli. Víst hefur það áhrif, að alast ekki upp með sínum eiginlegu foreldrum. Enda sagði hann í viðtali löngu síðar að hann hafi verið hagfæringur, en svo voru fráfærulömbin nefnd í þá tíð og jafnvel enn. Þegar Gunnar var 12 vetra kynntist hann loks móður sinni og fimm árum síðar hitti hann föður sinn fyrsta sinni. Réðst þá vestur til pabba síns sem vinnumaður í Önundarfirði. Guðmundsson er piltur og sá Gvendur er enginn annar en Guðmundur auknefndur refaskytta. Sá er sagði sögu sína í bókinni, Nú brosir nóttin. Þarna vestra kynnist Gunnar stúlkunni Mundu og þau verða hjón, já hún sagði já við bónorðskvæðinu sem var birt hér í upphafi. Gaman er að geta þess að löngu seinna semur Gylfi Ægisson lag við þessar bónorðsvísur og gefur út á hljómplötu. Gunnar og Munda flytja síðan yfir í Dýrafjörð hvar þau búa allar götur síðan. Fyrst á Hofi í Kirkjubólsdal hvar þau byggðu upp öll hús fyrir manninn sem blessaðan búpeninginn. Auk þess sem bóndinn ungi var mjög framfarasinna og í raun uppfinningamaður. Leiðarljós hans var ávallt að auðvelda manninum vinnuna. Hann bjó til þvottavél, lagði járnbraut frá fjósi og dálitla leið þar frá, til að koma mykjunni burt. Hann kom sér upp rakstrarvél og hestasláttuvél er þá aðeins lítið eitt nefnt af þeim tækninýjungum sem bóndinn á Hofi skapaði. Hann saumaði söðla sem hnakka og smíðaði skeifur í smiðju sinni. Alls eignuðust þau 9 börn sem höfðu flest ef ekki öll þessa ríku þörf til að skapa. Listin gengur nefnilega oft í erfðir svo er bara spurning hvort og hvernig viðkomandi vill með það hafa og vinna. Því aldrei er gott að neyða neinn til neins sértaklega ekki til lista. 149
Sjálfur hafði Gunnar ríka þörf til að skapa og snemma kom í ljós að pilturinn var drátthagur. Best er að söguhetjan segi söguna sjálfur einsog hann gerði í viðtali 1984 við hið fróðlega og allt of lítið um talaða Heima er bezt. „Ég varð efstur í teikningu yfir skólann og Ásgeir (Magnússon) vildi að ég legði myndlistina fyrir mig. En ég lét mér ekki detta í hug að leggja stund á myndlist og reyna að vinna fyrir mér sem listamaður. Systir Ásgríms Jónssonar málara bjó nefnilega í Njarðvík og ég kynntist henni vel því ég gaf kúnni hennar kvölds og morgna. Ásgrímur kom þarna oft og mér duldist ekki að hann var fátækur.“ Einhverjum árum seinna hitti hann svo meistara Kjarval á götu í borginni. Fékk að skoða hans vinnustofu og heillaðist enda var hann einn af hans uppáhalds listamönnum. Það varð þó ekki til þess að breyta hans skoðun á hve strit listamannsins væri seigt og í raun lífsins ómögulegt. Hvað þá þegar þú átt heilli fjölskyldu fyrir að sjá. Svo listin varð því geymd en alls ekki gleymd. Enda sleppa menn oft ekkert undan listinni ef þeir hafa ástríðu fyrir henni og í raun þessa þörf, knýjandi þörf til að skapa. Þó má segja að uppfinningastarfið hafi komið í þess stað sem og ótal margt annað sem víst var list í sínum skilningi. Hann eignaðist ungur myndavél og tók óhemju magn ljósmynda er fanga sögu svæðisins. Myndir af fólki, mannfögnuði, úr atvinnulífinu og bara alls staðar sem eitthvað var um að vera, þar var Gunnar mættur með myndavélina að fanga augnablikið. Síðar fékk hann sér vél til að taka upp lifandi myndir og svo var hann sýningarmaður á eyrinni, já á þessum tíma var félagsheimilið einnig kvikmyndahús. Öllu fer nú aftur segir líklega sá sem fannst allt betra fyrir hundrað árum. Gunnar segir um sínar lifandi myndir í áðurnefndu viðtali við Heima er bezt. „Ég hef alltaf verið sinnaður fyrir kvikmyndir, var sýningarmaður í bíóinu, tók sjálfur 8 mm kvikmyndir og síðan 16 mm fréttamyndir fyrir sjónvarpið um skeið.“ Síðar í viðtalinu bætti hann við um kvikmyndaverk sín. „Ég á u.þ.b. 3 klst. 150
kvikmyndaefni um sögu kaupfélagins og þróun fiskiðnaðarins, allt á 8 mm filmu.“ Stundum er einsog sumir hafi bara fleiri klukkutíma í sínum sólarhring en aðrir. Það má sannlega segja um Gunnar því auk alls þessa orti hann einnig vísur, já svona í frítímanum. Bónorðskvæðið margnefnda en svo einnig vísur um samferðafólk sitt sem og ýmsa viðburði. Einnig tjáði hann oft skoðun sína í ljóði. Listahjónin Gunnar og Munda voru miklir listunnendur. Sérlega var tónlistin í metum og þar áttu þau sín uppáhöld. Má þar nefna Vilhjálm Vilhjálmsson, Edith Piaf, Gunnar Pálsson, Stefán er nefndi sig eftir landi voru og Guðrúnu Á Símonardóttur svo nokkrir söngfuglar séu nefndir. Svo var það María Markan. Ávallt þegar söngur hennar heyrðist í viðtækinu var einsog þakið dytti af Hofi og þá var líka hækkað í botn og enginn sagði neitt. Stundin var heilög. Listahjónin voru miklir mannvinir og sárnaði þegar gert var á hlut einhvers. Það má kannski segja að ekkert hafi verið að marka stjórn listamannalauna síðustu árin þarna um árið. Því ár eftir ár fékk María Markan því miður svar frá hinni umdeildu listamannalaunanefnd. Þetta sárnaði listahjónunum á Hofi. Þá er tvennt í stöðunni. Vera einsog fúll á móti, tauta bara og röfla, en gera samt ekki neitt. Eða gera eitthvað í málinu. Þau völdu vitanlega seinni kostinn. Munda settist niður og ritaði bréf um málið sem hún sendi síðan til Morgunblaðsins sem bréfið birti. Gunnar hins vegar orti ljóð um stóra Markan málið og sendi til listamannalaunaefndar. Hér úti ríkir enn þá harkan og ykkar sjóður smár, góðir munið Maríu Markan er metið list í ár. 151
Og hvað haldiði? Hið háa listaráð tók mark á báðum þessum ábendingum og veitti Maríu Markan listamannalaun það árið. Listin vaknar Guðmunda eða Munda einsog hún var oftast nefnd fór á undan í myndlistina. Var þá komin vel yfir miðjan aldur þegar sá galdur greip hana. Vel má segja að Munda hafi verið náttúrulistamaður í öllum merkingum þess orðs. Hún vann með efni náttúrunnar í verkum sínum sem og túlkaði hana í list sinni. Í fjöruna sótti hún jafnan sinn efnivið í formi skelja, sands, kalkþörunga og margs konar gersema er fjaran sífellt veitir og um leið endurnýjar. Á vinnustofunni á Hofi var svo tekið til við að listast með efniviðinn. Ferlið fólst oft í því að vinna efni fjörunnar og náttúrunnar til. Þá var gott að hafa mortel til að mylja skeljar sem önnur fjörugersemi. Barnabörn hennar muna mörg eftir því að hafa hjálpað ömmu sinni við þessa iðju. Það læra börnin sem fyrir þeim er haft því mörg þeirra hafa einmitt fetað listaveginn. Nægir þar að nefna Vilborgu Davíðsdóttur, skáldkonu, og Marsibil G. Kristjánsdóttur, fjöllistakonu. Þegar búið var að mylja efnið og flokka var það sett í einhver ílát og þá var bara notast við mjólkurfernur er höfðu verið styttar að ofan um rúman helming. Næst var fundinn einhver hlutur til að búa til listaverkið. Næsta krossviðsplata til að mynda var hentug þurfti alls ekkert að vera í eðlilegri lögun. Ekkert verra að hún hefði smá karakter í sér og væri kannski aðeins styttri á aðra hliðina. Stundum var skrautað á pappadiska og jafnvel glerflöskur. Á myndflötinn var svo settur vænn skammtur af trélími og svo var mulda efniviðnum stráð yfir svo úr urðu alls konar listaverk. Stundum bóndabær, bátur í verstöð, tilbúið landslag, dýr, skjaldarmerkið var einnig vinsælt myndefni að ógleymdu fólkinu og sögupersónum. Þar var gallerýið sannlega
152
fjölbreytt allt frá Jesús Kristus til Edith Piaff og Gylfa Ægissonar og allt þar í millum og kring. Margt fleira mætti nefna af fjölbreyttum verkum Mundu einsog litlar kistur skreyttar kuðungum, skeljum og öðrum fjörukonfektum. Það verður að viðurkennast að ritari varð ástfanginn af þessum verkum er hann sá þau fyrst. Bæði verkum Mundu og Gunnars. Hann var þó ekki aðeins ástfanginn af verkum listahjónanna heldur og þeirra barnabarni og nú eru þau hjón. Svona er listin. Listin tengdi sannlega þau Mundu og Gunnar. Loks árið 1970 þegar hann varð 72 ára gaf hann sér tíma til að mála. Gaman er að geta þess að fyrsta mynd hans hefur varðveist þó engu hafi munað að hún hafi orðið ruslinu að mat. Verkið fannst nefnilega á ruslahaugunum á Þingeyri meðan enn voru ruslahaugar þar. Sem betur fór kom glöggur listunnandi á undan ruslaföngurunum. Viðkomandi var að fara með rusl á haugana einsog þá tíðkaðist. Þegar þangað var komið greip hangandi listaverk strax athyglina. Listaverkið hékk utan á ruslagámum. Einhverra hluta vegna vildi hendarinn ekki alveg henda því alla leið. Þó honum hafi fundist verkið ekkert merkilegt þá væri nú kannski einhver sem mundi fíla þetta. Smekkur manna er jú misjafn og allt það. Nema hvað sá sem að kom var einmitt sá rétti sem kom verkinu í hendur barnabarns listahjónanna og þess sem hér ritar. Þetta verk er sannlega fyrsta málverk Gunnars því aftan á það hafði hann ritað: Firsta (já með einföldu breytum því ekkert hér) málverkið sem ég málaði. 1970. Þetta frumlistaverk er nú til sýnis á Grásteins gallerýi Aðalstræti 23 á Þingeyri ásamt yfir 100 öðrum verkum listahjónanna á Hofi. Gunnar var ólíkt konu sinni allur í málverkinu. Víst var hann sérlega iðinn við verkið því hann málaði um 400 verk. Seldi mörg og gaf mörg. Alla vega 60 einstaklingar fengu ekki að borga þrátt fyrir viljann til þess. Verkin voru sannlega alveg hans, meira að segja smíðaði Gunnar ramma utan um mörg 153
listaverka sinna. Myndefnið sótti hann út um allt, þannig er til að mynda hin áður nefnda fyrsta mynd, málverk af því sem var að sjá fyrir utan hans glugga á Hofi á Þingeyri. Allt þó með sínum einstaka stíl bæði í litum og hlutföllum einsog einstökum listamönnum er háttur. Hús sem hlutir kannski færðir aðeins til. Ljósmyndir og póstkort gáfu einnig myndefnið. Einnig lét hann hugann reika og mótaði eftir eigin höfði. Svo var það hulduheimurinn sem sannlega átti hug hans allan. Víða í verkum Gunnars má finna álfa og huldufólk enda sagði hann að verk sínu væru oft: Hugsað landslag með þjóðtrúarverum af ýmsu tagi. Gunnar og Munda áttu sannlega sinn þátt í því að koma listinni til fólksins og það í bókstaflegri merkingu. Þau voru líkt og þrösturinn, því leið og sumraði fylltu þau bifreið sína af listaverkum og yfir í næsta þorp. Svo var bara bankað á dyrnar og listaverk boðin heimilisfólki oftar en ekki á svokölluðu tombóluverði. Margir fengu ekki einu sinni að borga, nema þá kannski í kaffi og með því. Svo var skundað í næsta þorp og alþýðulist þar boðin blessuðu fólkinu. Enda er það svo að verk listahjónanna á Hofi er að finna á mörgu vestfirsku heimilinu og víðar um landið. Því þau héldu einnig fjölmargar sýningar bæði saman og einnig sýndi Munda ein. Hið fornfræga kaffihús Mokka var vinsæll sýningarstaður og sýndi Munda þar fjöldaoft og seldi ávallt vel. Það er við hæfi að enda þennan pistil um listahjónin Gunnar Guðmundsson og Guðmundu Jónu Jónsdóttur á sömu nótum og við byrjuðum. Á lokaerindi bónorðsbréfsins er Gunnar ritaði sinni Mundu.
154
Ég vil spyrja eikin bjarta er það bara spaug hjá þér eða kærleiks ást og hjarta sem ætlar þú að gefa mér. Aðallinn á Þingeyri Er list kennd eða getur maðurinn yfirleitt lært að verða listamaður. Eða ef við tökum þetta lengra er hægt að kenna manninum eitthvað svona yfirleitt. Og enn lengra er einhver munur á þessu millum landshluta. Hvað með Norðlendinga er hægt að kenna þeim eitthvað eða Austfirðinga. Stórt er spurt og líklega ekkert svar. En næsti Þingeyrar listamaður sem hér verður um rætt var hins vegar ekkert í vafa um þetta mál hvað Vestfirðinga varðar. Í viðtali í Morgunblaðinu 1969 sagði hann m.a. um málið. „Nei, það er ekkert hægt að kenna Vestfirðingum. Þeir hafa allt meðfætt og geta ekkert lært, meira að segja vafasamt að þeir þurfi nokkuð að læra.“ Þessi mælski og þó listmenntaði maður var Kári Eiríksson Kaupfélagssonur frá Þingeyri. Kaupfélagssonur? Já, því faðir hans var sjálfur kaupfélagsstjórinn á Þingeyri Eiríkur Þorsteinsson sem einnig sat á þingi. Hans betri helmingur var Anna Guðmundsdóttir, húsfreyja. Stundum er sagt að menn geti þurft að lýða fyrir forfeður sína bæði á góðan og miður góðan hátt. Það átti sannlega við Kára því ávallt var verið að bendla hann við kaupfélagið og ekki síst Framsóknarflokkinn. Hann væri undir verndarvæng hvoru tveggja sem margir vilja nú segja að hafi verið eitt og hið sama. Ef þú varst kaupfélagsmaður þá varstu jafnframt framsóknarmaður. Eitt sinn er Kári hafði selt allt á einni myndlistarsýningu, sem gjörðist reyndar á flestum 155
hans sýninga, sögðu gárungarnir að það hafi nú bara verið sett á senu. Því ónefndur kaupfélagsstjóri úti á landi hafi keypt upp alla sýninguna. Þegar Kári var eitt sinn spurður um allt þetta framsóknartal og tengingar sagði hann. „Framsóknarmenn fara bara eitthvað utan og koma auðugri heim. En þeir fá ekki listamannalaun.“ Gaman er að geta þess að þegar þessi orð voru sögð hafði hann verið í myndlistinni af atvinnu í 12 ár og hafði aðeins fengið listamannalaun einu sinni. En Kári hafði ávallt húmorinn að vopni sem getur oft fleygt manni langt. Alla vega betra en að fara í bitru deildina sem fer engum listamanni vel. Enn bætti Kári við um styrkjamál sem framsóknarmál. „Annars vegar er talað um, að hið opinbera þurfi að styðja og styrkja listina. Það er úthlutað fé í eins konar ellistyrki, sem heita listamannalaun, en efnið sem við vinnum með er tollað svo hátt, að fátækir listamenn hafa varla efni á að nota það. Ég segi það enn, að maður verður að fara utan til að græða peningana og svo kemur maður heim og eyðir þeim. Ég held að framsóknarmenn geti ekki lifað á Íslandi.“ Kári náði eftirtektarverðum árangri í hinum íslenska myndlistarheimi. Enda var hann leitandi listamaður sem sótti einna mest myndefnið og andann í náttúru hins fjölbreytta Íslands. Einn menningaritari sagði að verk Kára, „gátu talist listrænar útlagningar um náttúru Íslands.“ Nokk vel orðað og lýst um list hins listræna kaupfélagsstjórasonar. Kári nam fyrst við Mynd- og hand (Myndlistar- og handíðaskóla þjóðarinnar) 1953 – 1954. Svo var haldið út í heim að stúdera meira. Hann var í Listaháskólanum í Kaupmannahöfn, þaðan fór hann í akademíuna í Flórens og loks til Rómar 1960 – 1961. Það var einmitt í Flórens sem Kári hélt sína fyrstu málverkasýningu, árið 1958 og ári síðar sýndi hann í fyrsta sinni á Íslandi. Það var í hinum fornfræga Listamannaskála í Reykjavík sem stóð við Kirkjustræti. Eftir það hélt hann fjölmarar sýningar bæði hér heima og erlendis. Hann var t.d. fyrstur listamanna til að leigja Kjarvalsstaði undir listsýningu það var 156
157
árið 1973. Einsog áður gat seldist oftast allt upp á sýningum Kára. Afhverju salan gengi ávallt svona vel hafði listamaðurinn fátt um það að segja því þetta bara, „gerist af sjálfu sér“ einsog hann orðaði það best. Sömu sölusögur er að segja af sýningum Kára á erlendri grundu. Enda var hann þekktur víða um heim fyrir verk sín. Árið 1967 tók hann sig upp og flutti alla leið til Mexíkó. Afhverju fór hann alla leið þangað spyrja líklega flestir. Best að listamaðurinn svari því sjálfur. „... til að græða. Ég fékk stórt verkefni, veggskreytingu í stórmagasíni, það var meira en 7 metra langt og 2 metrar á hæð.“ Hann flutti síðan aftur heim hvar hann starfaði allar götur síðan og einsog títt er um manninn þá eru æskustöðvarnar ávallt kærar í minni. Eða einsog vestfirska skáldið orti svo réttilega, þorpið fer með þér alla leið. Svo var og með okkar Kára og best að enda þennan þátt heima með orðum söguhetjunnar. „Það voru popmenn á Þingeyri og þar var íslenzkur aðall meiri og betri en þekkzt hefur á Íslandi fyrr og síðar. Ég held alltaf tryggð við Þingeyri; ég á Þingeyri. Veizlurnar á Þingeyri, maður, þær voru ekkert slor. Dýrlegri veizlur hafa ekki verið haldnar. Bara aðallinn boðinn. Þingeyri er aðalspláss. Ég er þaðan.“
158
Ljósmyndalist
Wendelshúsið á Þingeyri.
Víst lifum við á breyttum tíma en er það ekki hver kynslóð sem þetta getur sagt? Sem betur fer fleytir okkur áfram frekar en aftur á bak þó ekkert sé verra en að standa í stað of lengi. Það þarf alltaf að vera framför og breytingar eru bara til þess að fá okkur til að upplifa eitthvað nýtt. Sjá ný tækifæri. Listin er sannlega partur af framþróun jarðlífs mannanna. Enda snertir hver framþróun listina einsog hjá píparanum sem er alltaf að fá betri og betri rör og verkfæri til sinnar vinnu. Segja má að skjáir hafi svolítið yfirtekið okkar tilveru. Hvað ætli við njótum nú margra klukkutíma á vökunni fyrir framan skjáinn? Þá er ekki átt við skjáinn í merkingunni gluggi einsog lengi var þess merking. Heldur tríó skjái nútímans, sjónvarpið, tölvuna og 159
símann. Víst fer það eftir vinnu og frítíma hve langur skjátími okkar er í hinu daglega lífi. En hjá mörgum einsog þess er hér ritar er það oft lungann úr vökunni. Hvað hefur svo þetta skjáæði með listina að gera. Á mjög fjölbreyttan hátt og þá ekki síst á kvik- og ljósmyndalist. Oftar en ekki eru myndir í aðalhlutverki frekar en ritaður eða talaður texti. Tökum sem dæmi Andlistbókina þar sem myndir segja oft meira en mörg orð. Það má því segja að það sé gott að vera myndari í listinni í dag. Fullt af tækifærum og þá er bara það mikilvægasta, að hefjast handa. Það eru hins vegar ekki margir ljósmyndarar eyrarinnar sem hér koma við sögu en það á nú líklega eftir að breytast einsog tískan er í dag. Aðeins einn listamaður í ljósmyndadeildinni kemur við okkar sögu hér og er hann jafnframt talinn vera fyrsti myndari eyrarinnar. Hóf hann að mynda svo snemma sem 1895 og starfaði við það hér á Þingeyri í ein 15 ár ásamt vitanlega mörgu öðru verki. Þá einsog nú þurfti listamaðurinn víða að starfa til að eiga til hnífs og skeiðar. Ljósmyndarinn sem hér um ræðir kom frá fæðingarbæ sínum Slésvík í Þýskalandi árið 1893 alla leið til Þingeyrar. Líklega hefur það eitthvað með hans komu að gera að bróðir hans var hér fyrir, Friðrik Wendel, og starfaði sem verslunarstjóri hjá Gram kaupmanni. Hann var greinilega góður sölumaður því hingað flutti hans kæri bróðir Herman Wendel og fékk strax starf við verslun Grams, nema hvað. Herman hafði augljóslega list í sér og þegar svo er þá annað hvort gerir þú eitthvað í því eða bælir þrána niður. Sem betur fer gjörði hann eitthvað í málunum því fljótlega fór hann að vinna við húsa- og skrautmálun. Bætti svo við enn fleiri listverkum er hann tók að sér úra- og klukkuviðgerðir. Enn ein fjöðrin bættist svo í hans handverka og listahatt þegar hann byrjaði að taka ljósmyndir árið 1895. Heima í Þýskalandi átti Wendel systur sem var víst mjög efnuð enda var það hún sem sendi bróður sínum allar græjur 160
sem til þurfti til ljósmynda. Kom hann sér upp lítilli ljósmyndastofu í dulitlum skúr er var áfastur við íbúðarhús hans. Víst var þetta allt mjög frumstætt og flókið viðfangs hjá þessum fyrsta ljósmyndara eyrarinnar. En þannig er það bara betra, að byrja hægt og bæta svo við heldur en byrja á toppnum enda kemstu þá eigi hærra. Wendel tók einkum myndir af fólki en einnig af skútum og áhöfnum þeirra. Því miður eru myndverk þessa frumherja að stórum hluta glatað en sem betur fer hefur eitthvað varðveist. Má í því samhengi benda á 7 bindi Mannlífs og sögu, hvar birtar eru nokkrar myndir þessa hugsjónamanns. Dýrfirskur listamannaþáttur Kristinn Pétursson F. 17. nóvember 1896 Bakka Hjarðardal Dýrafirði. D. 1. september 1981. Öndvegisverk: Brjóstmyndir af Sigtryggi Gunnlaugssyni og Einari Benediktssyni, Seyðtún íbúðarhús með vinnustofu í Hveragerði. Saga Dýrfirðingsins Kristins Péturssonar er einsog ein af sögum Charles Dickens þar sem hinir fátæku ná ekki bara að lifa heldur og brjótast til mennta og frama. Allt þetta á við um Kristin þó árin hafi fennt allt of mikið yfir hans merku listaverk. Hann var án efa einn af áhrifamestu listamönnum síðustu aldar enda ávallt leitandi og rannsakandi í list sinni.
161
Kvalist upp Einsog einhver Óliver Twist er Kristinn orðinn munaðarlaus 6 ára snáði. Er þá komið í fóstur á Næfranesi, hvar hann sagðist frekar hafa kvalist en alist upp. Til að bæta á harminn hófst hrina veikinda, fyrst kirtlaveiki, þar á eftir berklar sem hann fékk í bakið og var hann bakveikur upp frá því. Huggun sína sótti hann í bækur sem hann hafði frjáls afnot af hjá góðum nágranna, nefnilega Sighvati Grímssyni á Höfða. Gott ef Hvati átti ekki einnig þátt í því að koma pilti í skóla hjá Sigtryggi Gunnlaugssyni á Núpi 1914. Seinna átti hann eftir að gera brjóstmynd af lærimeistaranum á Núpi sem nemendur færðu skólamanninum á 70 ára afmæli hans. Þrátt fyrir allt mótlætið og fátæktina brýst hann áfram til mennta og útskrifast úr Kennaraskólanum í borginni árið 1919. En listin er farin að brjótast í honum og loks skráir hann sig í teiknitíma hjá hinum vestfirska Guðmundi Thorsteinssyni, Muggi, og eftir það hjá Þórarni B. Þorlákssyni. Listin hafði tekið yfir og hann sigldi til Noregs til frekari myndmennta. Stúderaði m.a. við Listaakademíuna í Osló og eftir það bæði í Kaupmannahöfn og París. Það er sannað að fátt skipti ungan listamann meira en að sjá sem mest af list og það alls konar list. Næstu árin ferðast Kristinn víða til að nema og sjá heimslistina. Hann var einsog hans fyrsti kennari, Muggur, leitandi í listinni og margt heillaði, þeir voru báðir út um allt og leitandi alla tíð. Fyrst var það höggmyndin, svo greip málverkið hann og þaðan lá leiðin í flest form myndlistarinnar. Seyðtún Árið 1933 er Kristinn alkominn til Íslands uppfullur af hugmyndum og lætur nú sannlega verkin tala eða öllu heldur sjást. Heldur fjölda sýninga bæði í Reykjavík og víðar m.a. á Ísafirði 1938. Sýndi þar í húsi Kaupfélags Ísfirðinga og víst var þar 162
163
margt að sjá. Má þar nefna einar 60 raderingar sóttar í hinn gjöfula goð- og þjóðsagnaheim. Raderingu eða svartlist, hafði Kristinn numið sérstaklega í Svartlistaskóla í Vínarborg. Blaðið Vesturland fjallar vel um sýninguna og hvetur sveitunga sína til að ekki bara sjá verk þessa unga Vestfirðings heldur og kaupa, enda séu þau ekki dýr. Á þessum tíma var svartlistin, grafíkin, lítt kunn hér á landi og átti Kristinn sannlega þátt í að kynna þetta skemmtilega myndmál fyrir landanum. Vann hann fjölmargar grafík myndir bæði af verbúðum sem gömlum byggingum, torfbæjum og kirkjum landsins. Kristinn fór þó mun víðar í myndstílum og formum, málaði sem teiknaði en strax árið 1937 er farið að tala um að hann fari sínar eigin leiðir í listinni. Höggmyndir gerði hann margar. Nægir þar að nefna brjóstlíkön af Sveini forseta Björnssyni og af skáldunum Einari Benediktssyni og Davíð Stefánssyni. Af öðrum kunnum höggmyndum Kristins má nefna verkin Madonna í íslenskum skautbúning og Sláttumaður. Árið 1940 flytur hann í þá listamannabæinn Hveragerði. Vel má gerast svo stórtækur og segja að þarna hafði orðið til sannkölluð listamannnýlenda hvar bjuggu m.a. Ríkharður Jónsson, Kristmann Guðmundsson og Jóhannes úr Kötlum svo aðeins nokkrir séu nefndir. Í þessum blómlega bæ reisti Kristinn sér hús með vinnustofu og nefndi Seyðtún. Árið 1954 heldur hann þar veglega listsýningu sem er jafnframt hans síðasta. Eftir það má segja að listamaðurinn hafi lokað sig frá umheiminum en þó haldið áfram að þróa sig í listinni. Hafði hann glímt við heilsuleysi alla tíð og hefur það líklega haft eitthvað að segja. Kristinn var líka einn af þeim listamönnum sem vildi að verkin sýndu listamanninn frekar en vera í eilífri síbylju að gorta sig af eigin ágæti í fjölmiðlum. Stundum virðist það vera aðalmálið að vera í endalausum gorttölum og ef ekki þá kunna á excel til að geta framfleytt sér af listinni. Kristinn sat þó eigi aðgerðalaus því þegar hann andaðist 164
tæpum þremur áratugum síðar arfleiddi hann Listasafn alþýðu af verkum sínum sem voru alls 1367 talsins. Listin átti hug hans allan allt til enda. Hann ritaði sögu sína og listhugleiðingar í einum þremur veglegum handritum sem hafa því miður aldrei komið út. Húsið Seyðtún var einnig í stöðugri þróun og óhætt er að segja að sé hans mesta verk eða einsog hann sagði sjálfur. „Sennilega er ég og vinnustofa mín næstum orðið eitt í vissum skilningi, ég get ekki hugsað mér að vinna list annars staðar.“ Ritlist Víst væri hægt að nefna hér Gísla Súrsson í þessum þætti um ritlistina á eyrinni og firðinum. Kappinn sá fór heldur betur með vísurnar hvort heldur það var eftir sögulegan ísknattleik á Seftjörninni í Haukadal eða áður en hann gaf upp andann. Það gat hann vitanlega ekki gjört nema fara með vísu fyrst. Vel hygg ég þó eggjar.... Skáld fjarðar dýranna eru fjöldamörg. Sum eru fædd þar og uppalin meðan önnur koma eitthvað seinna á æviskeiðinu. Þar með talin fyrst nefndur Gísli Súrsson og einnig má hér geta Tálknfirðingsins Ólafs Jónssonar. Sálma og kvæðasmiðs klerkinn er settist að á Söndum í Dýrafirði hvar hann þjónaði í áratugi og orti svona milli mjalta og messu. Áður hefur verið fjallað um þann listræna klerk í þessu riti og því segjum við bara amen á eftir efninu hér. Höldum heldur yfir fjörðu og alla leið á Höfða hvar merkur Borgfirðingur bjó og var sannlega einn af þeim sem hafði fleiri klukkutíma í sólarhringnum en við hin.
165
Hvati á Höfða
Kúltíverað kaffiboð á Höfða
Eitthvað gott er í vatninu á Höfða eða bara lífsskilyrðum þar á bæ. Því þar bjó og ritaði fræðimaðurinn og skáldið Sighvatur Grímsson auknefndur Borgfirðingur. Var þó lítið menntaður í skóla, sannlega alþýðufræði- og listamaður. Fæddur á Nýjabæ Akranesi 20. desember 1840 en andaðist á fræðibóli sínu Höfða Dýrafirði 14. janúar 1930. Hann flytur sig fljótlega vestur á bóginn og fer í nokkrum áföngum, meira í vestur hverju sinni, uns hans tekur sér endanlegan bústað á Höfða. Fyrst var hann í Breiðafirði hvar hann kynntist fræðimanninum Gísla Konráðssyni. Tókust með þeim góð kynni, lánaði fræðimaðurinn aldni honum lesefni mikið og sá greinilega efni í arftaka í fræðideildinni. Sighvatur kveður talsvert á þessum tíma m.a. Fornmannavísur, sem og rímur um Skáld-Helga. Árið 1864 er hann kominn á vertíð í Bolungarvík og er næstu árin sitt og hvað í Víkinni eða í Flatey á Breiðafirði. Millum róðra yrkir hann og afritar bækur af miklum móð. 166
Árið 1865 kvænist hann Ragnhildi Brynjólfsdóttur. Eignuðust þau alls 12 börn. Búa m.a. á þeim göldrótta stað Klúku í Bjarnarfirði. Framfleytir hann sér þar mest við skrif fyrir hina og þessa. Það var svo vorið 1873 sem þau komu að Höfða í Dýrafirði hvar þau settust að. Hvati var sannlega ástríðubókamaður því strax árið 1892 telur safn hans eitt þúsund bindi. En rétt er að geta þess að við ævilok gaf hann safn sitt sýslubókasafni Vestur Ísafjarðarsýslu. Þekktasta verk Sighvats og það viðamesta er án efa Prestaævir, 22 bindi alls 14.250 blaðsíður og það þétt ritaðar. Dagbækur hans voru 5.556 blaðsíður. Allt hans ritverk taldi þó 180 bindi auk áðurnefnds, frumsamin kvæði og rímur 1900 blaðsíður, ættarbókaritverk sem og mikið af uppskriftum á verkum annnarra. Einsog svo oft áður í vorri listasögu naut hann ekki viðurkenningar fyrir verk sín fyrr en hann var haldinn á önnur svið. Enn er sú saga að endurtaka sig. Sighvati líkaði svo vel veran á Höfða að hann lét gera sér heimagrafreit hvar hann var síðan lagður til hinstu hvílu. Skáldið sem orti Dýrafjörð Kristján Sig(urður) Kristjánsson fæddist árið 1875 á Skálará í Keldudal. Gjörðist hann kennari góður og menntaði Dýrfirðinga marga sem og á Flateyri og jafnvel í Reykjavík eftir að hann flutti þangað búferlum. Það er ekki alltaf sagan, aldrei fór ég suður, einsog í rokkerindinu. Kristján Sig. einsog hann ritaði sig ávallt í skáldverkum sínum var fjölhæfur í ritverkinu. Ritaði leikrit, skáldsögur, kvæði og smásögur. Margt kvæðanna birtist í blöðum og tímaritum má þar nefna höfuðkvæði hans Dýrafjörður er birtist m.a. í Lögbergi 15. janúar 1931. Algengust voru þau þó á síðum tímarits Guðspekifélags Íslands, Ganglera. Kannski hefur það eitthvað haft að segja um hve oft þau voru þar á síðum að skáldið var þar félagi. Gott betur en það því hann var meira að segja gjaldkeri þess um tíma. Þó skal efa það að nokkur greiðsla hafi fylgt þessum birtingum á 167
verkum gjaldkerans enda þessi útgáfa sem önnur tímarita og blaðaútgáfa gjörð af hugsjón. Hin sígilda listasaga að ná núllinu þykir gott í hverri útgáfu sem list. Fyrsta bók Kristjáns Sig. kom út árið 1930. Þrjár þulur, nefndist frumbókakróinn og innihélt þulurnar; Jólaþula, Mamma er í ráðum og Gekk jeg upp á hamarinn. Strax ári síðar tekur hann upp samstarf við annan Vestfirðing. Listateiknarann úr Steingrímsfirði, Tryggva Magnússon. Útkoman, barnabókin Má ég detta? 10 ævintýri. Eigi þarf að taka fram hver gerði myndirnar og hver samdi ævintýrin. Fimm árum síðar sendir Kristján frá sér sína fyrstu skáldsögu Sólveigu og hin síðasta var Eins og maðurinn sáir, er kom út árið 1951. Einnig er rétt að geta tveggja leikrita eða eftir Kristján. Árið 1925 eða ári seinna er verk hans Dísadans sýnt á útiskemmtun á Þingeyrarodda á vegum Kvennfélagsins. Hinn leikurinn heitir Vald ástarinnar og var að sjálfsögðu leikinn heima í héraði. Það vill oft fenna í spor of margra skálda, víst er Kristján Sig. í þeim hópi. Það er því við hæfi að birta hér í heild sinni höfuðkvæði skáldsins.
Dýrafjörður Sólroða glæsta sé ég tinda, fjallahlíðar og fagrar eyrar. Blíðdreyminn faðmar fjörður skyggður myndir hárra himinsala, fagurra sveita og fjallahrings. Situr við höfðagafl Sjónfríð, drottninig fjalla vestfirzkra, fönnum skautuð. En til fóta, fullur þrótti, breiðleitur Barði brúnaþungur hamrasjónum að hafi stefnir. Blasir við leiksvið lífs og dauða.
168
169
Í fjallahring sé ég,
sé ég morgna.
á fjallaþingi,
Æskan heillast
Kaldbak háan
af árdagsljóma.
og herða þrekinn.
Hleypur kapp í kinn
Næða oft á vöngum
komandi tíma
nepjuhríðar.
og til fremda fram
Systraleg sitja,
fast mun sækja.
sitt hvoru megin,
En ofar öllu
fellin fríðu
vaka augu guðs,
og faðma bjóða.
yfir draumum og vonum
Halda þau vörð
daglegs lífs,
hjá helgum kirkjum
bernsku brekum
og látinna gröfum
og barnaleikjum,
langar aldir.
ástum og þrám
Kynslóðir koma,
og öllum vilja,
kynslóðir fara.
í sorg og gleði,
Sé ég sókn og vörn
meðan gengin er
á sviði lífs.
vegferð ö11,
Vaka þær enn
frá vöggu að gröf.
við vonarelda
Situr á kletti
afkomenda
Sandakerling.
og ástríkt hlúa
Hönd á síðu
að arin-glóðum.
hún setta hefur.
Horfi ég mót sólu,
Grjótstorku augum
170
171
gáir um byggðir. En við fjarðarbotn, í friði dala, Dýri á bein sín í Draugahvilftum. Gullkistu hefur hann grjóti hulda, en lyklar hanga á háum tindi og aldrei nást, nema upp sé klifið. Fjárhirzlum engum, anda né efnis, um æfidaga
Afi forsetans setti í gamanvísur Á Þingeyri hefur nánast allt frá upphafi þorps verið skáld, stundum fleiri en eitt á hverjum tíma, sem hafa ort vísur við hin ýmsustu tækifæri. Einn þeirra er Ólafur Ragnar Hjartar f. 24. maí 1892, nafni og afi fyrrum forseta vors, orti hann gamanvísur fyrir hin ýmsu mannamót Dýrafjarðar. Fjölmargir fluttu kveðskapinn má þar nefna Gunnlaug Þorsteinsson er var lengi læknir eyrarinnar og þótti gera það með sérstökum bravúr, svo gripið sé til óperumáls. Kvæðamaðurinn Ólafur bjó á Þingeyri lengst af ævinnar og var einn af hinum mörgu völundarsmiðum Vélsmiðju Guðmundar J. Sigurðssonar. Því miður hefur margt af þessum kvæðum Ólafs glatast. Ástæðan mest sú að skáldið orti beint á blaðið og það sjaldan fjölritað. Þannig fór margt kvæðið í glatkistuna. Ekki þó allt því hér birtum við gamanvísuna Bónorðið sem var sett í dulítinn leikbúning við frumflutning þess árið 1958. Flytjendur voru Þórunn Einarsdóttir og Tómas Jónsson. Bónorðið
upplokið fáum, nema ofan af tindum ótal þrauta lyklum með djarfri lund vér náum. Hugfast hafi það halir og meyjar.
172
(Sviðið er stofa, húsgögn eftir geðþótta. Lína kemur inn, stígur dansspor og syngur.:) Dinga linga la, nú létt er lundin dinga linga la, senn kemur hann. Upp nú rennur þráða ævistundin að ég fæ að kyssa elskhugann.
173
Hann sagði mér í gær að‘ í kvöld hann kæmi
Lítið held þig varði um líðan mína
hvernig sem ég annars tæki því.
og litla muntu á henni ráða bót.
Ég sem rakka ekki út hann flæmi
Feginn vildi ég lækna líðan þína
ein er ég nú líka húsinu í.
en líklega er ég ekki til þess fær. En ekkert mundi betur bæta mína
Ég veit að hann mun upp nú bónorð bera
bresti, en ef ég sé þig, fagra mær.
beggja okkar fylla hjartans þrá. Stríðin svona í fyrstu ég verð að vera
Ég held þú ættir þá í konu að krækja
og vita hvernig honum bregður þá.
svo kostir þínir fengju að njóta sín. Mér líst þú þurfir hana‘ ei langt að sækja
Með honum vil ég lífsins byrði bera
það líta ei svo fáar upp til þín.
betri get ég engan fengið mann. Að ljúfum skal ég draumi dag hvern gera
Þó þær vilji mér í tylftum taka
dinga linga la, nú kemur hann.
ég treystist ei með neinni að reisa bú. Með einni vil ég stundir allar vaka
(Mundi bankar á dyrnar og kemur inn.)
ævi minnar–vina, það er þú.
Góða kvöldið Lína. – Gott kvöld Mundi.
Þannig muntu við svo margar mæla
Gott er blessað veðrið. – Einmitt það.
mjúkt er löngun ungra sveina hjal.
Hvar er fólkið nú? – Á félagsfundi.
Mig í þessa snöru ei tekst að tæla
Finna þig ég vildi. – Svo sem hvað?
ég trúi ekki hverju sem vera skal.
Ertu nokkuð stúrin, ljúfa Lína?
Ekkert meira við þig vil ég tala
Leyf mér þig að gleðja, fagra snót.
veginn minnar ævi ei lengra mæl.
174
175
Í ástum munt þú öðrum, svanni svala
Alltaf skaltu hvíla í örmum mínum
þú sérð mig ekki framar, vertu sæl.
elsku hjartans góða, fagra mær. (Bæði)
Heyrðu Mundi, heyrðu, það var mín vissa
Dinga linga la, nú létt er lundin
að við mig ei þú hættir svona fljótt.
dinga linga la, þú ert mitt hnoss.
Komdu, ég vil ekki af þér missa
Dinga linga la, þú ert mér bundin.
ég skal þína harma lækna skjótt.
Dinga linga la, nú fæ ég koss.
Ég var bara þér með þessu að stríða þinn ég vildi reyna ástar þrótt. Þér í mínu hjarta er búin blíða sem bregðast mun þér hvorki dag né nótt. Þú skalt öðrum blíðu þína veita þinn ég ekki girnist lyga vef. Ei mér skaltu nema eitt sinn neita eftir þér ég geng ei hænu skref. Fyrirgefðu besti breytni mína brjóttu ei sundur öll mín vona lönd. Ekkert þrái ég heitt sem elsku þína uppá það ég gef þér mína hönd.
Gvendur Hvellur Guðmundur nokkur Einarsson, f. 23. desember, auknefndur Hvellur kom á eyrina 1916. Var hann m.a. verkstjóri hjá Proppé bræðrum en starfaði lengst af sem símstöðvarstjóri við Landsímann á Þingeyri. Svo hafði hann þá list í sér að geta sett í kvæði og var víst nokkuð grófur til orðs í þeim mörgum. Einnig má geta þess að sopinn var honum vel að skapi og hefur það kannski haft eitthvað að segja allavega þegar ort er. Gvendur tók einnig þátt í leikhúslífinu og lék m.a. í Ævintýri á gönguför. Þar gerði hann sér lítið fyrir og samdi eina vísu sérstaklega fyrir uppfærsluna sem var bætt við þennan þá sívinsæla leik hér á Þingeyri. Kvæðið vakti mikla athygli og þeim mun meiri hneykslan líkt og oft áður hjá Gvendi enda ekki að ástæðulausu nefndur, Hvellur. Ævintýrið var sýnt í gamla fiskþurrkunarhúsinu á Þingeyrarodda sem nú er horfið. Eitt ljóð samdi hann og nefndi Saknaðarljóð. Var það samið til hans unnustu sem varð síðar hans ektakvinna. Ljóðið var samið við ónefnt amerískt lag og var það meira að segja tekið upp og flutt í útvarpi allra landsmanna á sínum tíma. Góð ástæða er því til að birta það hér í heild sinni.
Á eg nú að trúa orðum þínum? Ei þau máttu rengja, vinur kær. 176
177
Saknaðarljóð
Þegar lífs míns fleygu fjaðrir fljúga ei lengur bundið svið.
Tryggðareiðinn tókstu frá mér
Fæ eg sjálfsagt eins og aðrir
týndir mínum gæfu sjóð.
eitthvað til að glíma við.
Aðeins skildir eftir hjá mér örlaganna brunna glóð. Allar hjartans undir þrotnar ástin köld sem hrímað gler. Vona minna borgir brotnar sem byggðar voru handa þér. Fyrir handan fjöllin háu finn ég liggja sporin þín. Yndisfögru augun bláu aftur birtast minni sýn. Ljúft er þá að lifa og dreyma líta yfir farinn veg. Minningarnar mun ég geyma meðan lífs ég anda dreg. Guðmundur auknefndur Hvellur setti í fjölmargar vísur er enn lifa á vörum elstu íbúa eyrarinnar. Hvellurinn flutti frá Þingeyri árið 1936. Hann andaðist í Reykjavík árið 1958 þann 25. ágúst. Á náttborði hans fannst þessi vísa er má segja að sé hans hinstakveðja. 178
Hirðskáldið Elías Elías Mikael Vagn Þórarinsson á Sveinseyri var alþýðuskáld og eru ljóð hans stór partur af skemmtanahaldi í mörg ár í Dýrafirði. Fæddur 2. maí 1926 á Hrauni í Keldudal Dýrafirði. Var bóndi á Hrauni er hann tók við búi foreldra sinna. Síðar á Arnarnúpi og loks á Sveinseyri frá 1967 og allt þar til Elías andaðist 6. júlí 1988. Auk bústarfanna var hann bátasmiður hinn besti og eltist við melrakkann um hlíðar fjarðarins. Kona hans Kristjana Sigríður Vagnsdóttir og saman áttu þau 8 börn. Mörg er búmannsraunin og hvað þá þegar mannmargt er í heimili. En einhvern veginn milli bústarfa og daglegra iðju náði Elías að setja sig í skáldagírinn og yrkja. Og það ekkert smá einsog sjá má á ritsafni hans er kom út að honum látnum. Er safn það hið veglegasta ein fjögur bindi sérlega vönduð útgáfa í alla staði er kona hans, Kristjana, börn og barnabörn stóðu að. Ritsafnið ber heitið Andbyr, kom út árið 2007 og er óhætt að mæla með því. Enda gefur safnið góða mynd af skáldskap Elísar sem sannlega spannaði vítt svið. Hann var þó fyrst og fremst ljóðskáld enda eru ljóð uppistaða safnsins. Víst mundi margt skáldið huxa með sjálfu sér þegar horft er yfir ljóðaverk bóndans Elíasar hvernig hafði hann tíma til að gjöra eitthvað annað en skálda? Sjálfur sagðist hann hafa byrjað að yrkja um 10 – 12 ára aldurinn. Víst eru ljóðin fjölbreytt og víða hefur andagiftin blásið skáldinu í brjóst. Einsog hjá svo mörgum skáldum er nærumhverfið honum gjöfult til yrkinga. Þá sérlega æskudalurinn, 179
Keldudalur, sem og fjörðurinn allur, þorpið og sveitungarnir. Við ýmis tímamót er sest við yrkingu hvort heldur það er þegar einhver giftir sig, á stórafmæli eða einfaldlega kveður þessa jarðvist. Þjóðlegar sagnir eru einnig í uppáhaldi þá sérílagi draugarnir. Sögurnar kveikja einnig neista svo úr verða kvæði um Galdra-Loft, Bjarna á Sjöundá, um þau Agnesi og Friðrik auk hins alræmda Axla-Bjarnar. Árlegar skemmtanir nutu skáldgáfu Elísar bæði Hjónaballið, sem hefur verið haldið á eyrinni í nærri eina öld, og Þorrablótin fá sína bragi. Hann yrkir einnig Sjómannadagsvísur ár eftir ár sem og svo kallaðar Frystihúsvísur. Þegar svo eitthvert félagið í samfélaginu á afmæli mætir skáldið í veisluna með frumort afmæliskvæði. Síðasta kvæðið er hann orti samkvæmt ritsafni hans er, Ættarmót 1988 að Núpi Dýrafirði. Þó kvæðin væru nú miklu meira en gott ævistarf bónda er orti í hjáverkum þá ritaði hann einnig nokkrar smásögur og allavega eitt leikrit. Leikur sá heitir Blóðeitrun og var flutt á Þingeyri 1953. Reyndar er það eignað Ref skottlausa sem var vitanlega dulnefni hins sanna höfundar Elísar. Elías var mikill Dýrfirðingur einsog þeir sjá er skoða hans glæsta ritsafn Andbyr. Það er því við hæfi að enda á orðum hans sjálfs er hann sagði í viðtali við Árna Johnsen. „Mitt ról er hér um slóðir.“
180
Dýrfirskur listamannaþáttur Lilja Björnsdóttir F. 9. apríl 1894 á Kirkjubóli á Bæjarnesi. D. 20. september 1971 Hrafnistu Reykjavík. Öndvegisverk: Augnabliksmyndir, 1935, Vökudraumar, 1948, Liljublöð, 1952. Til lesarans. Segja vil ég sinnisglöð systur við og bróður: Líttu á þessi Liljublöð - lífsins reynzlugróður. Þannig hljómar upphaf Liljuljóða. Þriðja og síðasta ljóðabók hinnar vestfirsku Lilju Björnsdóttur. Eða Lilju skáldkonu einsog hún var jafnan kölluð. Sjálf ritaði hún sig ávallt frá Þingeyri í ljóðabókum sínum þó fædd væri í Austur-Barðastrandasýslu. Ástæðan líklega sú að strax á fyrsta ári kemur hún í Dýrafjörð og dvelur þar næstu áratugi en heldur loks suður einsog mörg konan og maðurinn. Lilja er fædd sama dag og Ólöf á Hlöðum er einnig lagði skáldskapinn fyrir sig og því má segja að 9. apríl sé skálddagur góður. Hún kom þó eigi alveg velkomin í heiminn því faðir hennar hafði tekið feilspor og skroppið upp í rúm hjá vinnukonunni svo úr varð barn. Fátt hefur stúlkan að segja af móður sinni því hún kynntist henni ekki fyrr en hún sjálf var orðin 181
fullorðin. Fóstra hennar Ingibjörg Þorsteinsdóttir tók Liljunni einsog hún væri hennar eigin. Svo kært var á millum þeirra að Lilja tileinkaði fyrstu ljóðabók sína fóstru sinni. Af föðurnum er það að segja að Lilju fannst hún ávallt vera í öðru sæti á heimilinu. Þegar hún tjáði honum að draumur hennar væri að mennta sig kvað pabbinn við að það væri alveg óþarfa peningaeyðsla og vesen. Hún ætti bara að læra karlmannssaum og starfa við það. Kannski hefur þetta haft eitthvað með það að gjöra að Lilja þótti snemma frökk og frjálsleg, lét engan vaða yfir sig og ef einhver það reyndi svaraði hún fyrir sig. Þá yfirleitt með beittri stöku. Hvort allt hafi orðið vitlaust á heimilinu eftir hliðarspor bóndans eða hvað þá allavega pakka þau saman búslóð sinni og eins árs Liljunni er pakkað í heylaup. Búslóð og Lilju er svo komið á hesta og skundað yfir firði, fjöll og loks yfir sjálfa Glámuna og eigi numið staðar fyrr en í Keldudal í Dýrafirði. Þar settist fjölskyldan að á bænum Hrauni hvar Liljan ólst upp. Nokk fjölmennt var þá í Keldudal þó erfitt aðgengi væri millum dala og staða. Þrátt fyrir að finnast hún vera í baksætinu í huga föður síns var hún að honum hænd, sérlega á kveldvökunum á bænum. Þá byrjaði húsbóndinn að kveða og fara með rímur, Numarímur sem Andrarímur. Allt þetta drakk dóttirin í sig enda sagði hún á efri árum að mikil ljóðelska hafi verið í ættinni. Þarna má sannlega til sanns vegar færa að börnin læri það sem fyrir þeim er haft. Henni fannst nú samt ekki eins gaman á föstunni. Því þá voru þuldir blessaðir Passíusálmarnir og var víst ekki ein um það því þá áttu margir í baðstofunni á Hrauni það til að dotta. Menntunarþrá Lilju var strax mikil en einsog margur veit var nám æskunnar í upphafi síðustu aldar talið í dögum frekar en mánuðum. Farkennarar komu í Keldudalinn og þá fannst Liljunni gaman. Einu sinni kom skemmtileg kennslukona sem lék á munnhörpu fyrir krakkana og þá var nú dansað í baðstofunni. Að dansi loknum voru nemendur alveg til í að læra, 182
hvort heldur það var lestur eða landafræði enda allir búnir að fá sína útrás. Á unglingsárunum voru skemmtanir sóttar og þá var mesta fjörið í Haukadal. Að sögn skáldkonunnar var þetta þannig að gestir mættu á dansinn klukkan átta að kveldi. Þá var jafnan byrjað að segja nokkrar hressilegar sögur. Eftir það tók dansinn við og hljómsveitin jafnan einn maður á dragspil nema hvað. Aldrei minnist hún þess að hafa séð vín á nokkrum manni né einhverja vangadansa. Samt lauk nikkarinn ekki spili sínu fyrr en átta að morgni og þá fóru bara allir heim að vinna. Hugurinn ávallt í ljóðinu Árið 1917 ræður Lilja sig sem vinnukonu að Hólum í Dýrafirði. Þar kynnist hún mannsefni sínu, Jóni Erlendssyni, og ári síðar 9. nóvember ganga þau upp að altarinu. Svo vel vildi til að Jón hafði þá þegar eignast jörðina Bakka og þar byrjuðu hin ungu hjón að búa. Þá fæddust börnin en eigi gekk þar allt vel, misstu tvö en sex lifðu. Eftir 10 ár á Bakka fluttu þau á Þingeyri. Lilja var alla tíð mjög félagslynd og hvar sem hún kom tók hún þátt í hvers konar starfi félaga hvort heldur það var á Þingeyri eða í Reykjavík hvar hún bjó síðast. Það sýna líka ljóðin hennar því víða yrkir hún um ýmis tilefni félaga á þessum tveimur stöðum. Í þorpum er jafnan margt rætt sérlega í húsasundum og kaffistofum. Gróa á Leiti verður líklega aldrei atvinnulaus. Ein var sú sagan að Lilja væri ekki bara félagslynd heldur og fjöllynd. Guðmundur auknefndur Hvellur sagði þetta nú bara einfaldlega við hana uppúr þurru. Víst var það mikill hvellur en í stað þess að senda hvellinn beint í Gvendinn dró skáldkonan nett andann og kastaði svo fram vísu.
183
Í það renna ættir grun, þótt eitthvað sértu kenndur. Svo lágt ég aldrei lúta mun, að líta við þér Gvendur. Þarna fékk Gvendur sannlega beittan hvell og skundaði af ballinu við hlátrahvell viðstaddra. Þrátt fyrir mikið annríki gaf Lilja sér ávallt tíma til að yrkja þó stundum hafi skort mjög á næðið. Ekki bætti úr skák að hún sagðist hafa haft dapra rithönd. Mikið var leitað til hennar með að semja erfiljóð einsog voru svo móðins á þessum tíma. Fyrsta eftirmælið setti hún saman aðeins 17 ára og síðan þá hafði hún snarað þeim ófáum. Þegar þau fluttu suður hlakkaði hún mikið til þess að vera nú laus við erfiljóðin. Eigi var því nú að heilsa, það hafði frést suður að hún væri lipur í þess háttar kveðskap og hún var einsog margur vestanmaðurinn. Kunni ekki að segja nei. Lilja er sannlega ein af mætustu alþýðulistamönnum landsins og óskandi væri að einhver tæki sig til og gæfi út hennar einstaka ljóðasafn. Þannig lifa ljóðin best að þau fáist á bókverki. Tónlist og dans Tónlist og dans frábær saman og án efa ein af vinsælli tvennum listarinnar. Það er því við hæfi að enda rit þetta um leiklist og list á Þingeyri með umfjöllun um þessar tvær listgreinar. Fljótt sagt má segja að hvoru tveggja hefur örugglega verið iðkað líkt og leiklistin allt frá landnámi Dýrafjarðar. Tengjum okkur þar saman í sögunni hvar sögumaðurinn, þessi sem kunni ekki að vinna, bara leika, brestur út í söng svo kröftugan að fólkið í skálanum fer að tjútta enda oft kalt á kveldvökunni. Enda er oft sagt að dans sé ekki síður íþrótt. Sem má nú vel segja um fleiri listir en tökum eigi þau hliðarspor hér heldur lítum á 184
Árið 1918 verður svo til vísir að kór er síðar varð kirkjukór. Geta má eins stjórnanda þar sérstaklega er var áðurnefndur Baldur Sigurjónsson sem var í því starfi í tæpa fjóra áratugi. Klerkarnir komu og fóru einsog gengur en á þessu tímabili þjónuðu 4 klerkar.
185
músíksöguna fyrst áður en við stígum dans hér á pappírnum. Hvar skal hefja hverja sögu er oft stóra vangaveltan. Við skulum byrja á söngnum á eyrinni sem hefur ómað mörgum stundum. Það þarf oft þennan eina til að koma hlutunum í verk. Einhvern sem hefur svo mikla ástríðu að hann drífur aðra með sér. Á eyrinni hafa ávallt verið margir þannig sem betur fer og er þar nú komin ein ástæða þess hve listin er stór þáttur í þorpslífinu. Einn þessara ofurhuga var Bjarni Pétursson, kennari og skólastjóri. Árið 1906 stofnaði hann sérstakt karlsöngfélag sem var gefið hið fljúgandi fagra nafn Svanur. Víst náðu þeir miklu flugi meðan þeir störfuðu, fóru meira að segja í söngferðalag alla leið til Ísafjarðar. Hvar þeir héldu heljarinnar söngkonsert í Góðtemplarahúsinu í Skutulsfirði. Efnisskrá tónleikanna var vegleg hvar þeir fluttu ein 17 lög og söng listhneigði doktorinn Gunnlaugur Þorsteinsson einsöng í tveimur þeirra. Svo merkir þóttu þessir tónleikar að blaðamaður Vestra ritaði um þá í blaðið vestfirska og sagði m.a.. „Samsöngurinn þótti takast yfirleitt mjög vel og tvímælalaust njóta Þingeyringar virðingar af förinni.“ Um doktorinn söngelska má svo við bæta að hann þótti mikill söngmaður. Kom hann til Þingeyrar og ólíklegt er að nokkur hafi verið hræddur við að fara til læknisins á eyrinni sem vill nú stundum fylgja slíkum heimsóknum. Því svo rík var söngþörf læknisins að hann átti það til að halda konsert fyrir sjúklinga sína. Þá hóaði hann gjarnan í vin sinn klerkinn Þorstein Björnsson til að syngja með sér en um undirleikinn sá jafnan Baldur Sigurjónsson, organisti. Það var vel skipað í söng og músíkmálum á eyrinni öldina út ef svo má segja. Ofan er nefndur Baldur Sigurjónsson en einnig má bæta við stjórnendum og músíksmitberunum Ólafi Ólafssyni, skólastjóra, Sigurði Þórðarsyni, tónskáldi, Bjarna Guðmundssyni, bónda og skólastjóra, og síðast en ekki síst Tómasi Jónssyni er sagt er frá nánar hér síðar.
186
Lúðraflokkur Þingeyrar Árið 1910 er stofnaður sérstakur lúðraflokkur á Þingeyri. Frá honum segir í bók Atla Magnússonar, Skært lúðrar hljóma. „Lúðraflokkurinn á Þingeyri er stofnaður 1910 og var Bjarni Pétursson, kennari, stjórnandi hans framan af, en þá Árni Magnússon, skósmiður. Fyrstu hljóðfærin fékk hópurinn árið 1911 að láni frá Reykjavík og voru þau mjög léleg. Voru því keypt ný hljóðfæri á sama árin og telur Leifur Jóhannesson, fiskmatsmaður, sem vel man eftir flokknum, að hreppsfélagið hafi borið kostnað af þeim kaupum, því félagarnir voru ekki loðnir um lófana. Þeir voru þessir: Guðni Bjarnason, járnsmíðanemi, Þorsteinn Einarsson, sjómaður og iðnaðarmaður, Snæbjörn Siggeirsson, bakari, Páll Guðnason, skósmiður, Sigurður Jóhannesson, verkstjóri, Óskar Jóhannesson, málari, Ólafur Hjartar, járnsmiður, Árni Magnússon, skósmiður og verkstjóri. Minnist Leifur þess að Páll Guðnason lék á piccolotrompet, Óskar Jóhannesson á trompet, Árni Magnússon á bassa og Ólafur Hjartar á sleðabásúnu . Hefur Ólafur þá verið einn allra fyrstu sleðabásúnuleikara hér, því Guðmundur Kr. Guðmundsson í Hörpu er fyrstur talinn hafa leikið á það hljóðfæri hér á landi. Kennara fengu þessir ungu Dýrfirðingar um skeið sunnan úr Hafnarfirði og minnir Leif að hann hafi heitið Þórhallur eða Hafliði. Mun hann þó ekki hafa dvalið vestra nema um mánaðartíma. Kennaraskortinn bættu menn upp með áhuganum og er að sjá sem strangar æfingar allan veturinn og vorið 1911 hafi verið undirbúningur undir einn stórviðburð: Hundrað ára afmæli Jóns Sigurðssonar, sem hátíðlegt var haldið á Hrafnseyri við Arnarfjörð þann 17. júní 1911. Þetta var mikil hátíð og sóttu hana allir Vestfirðingar sem vettlingi gátu valdið. Sem áður segir varð þessi flokkur ekki gamall. Leifur Jóhannesson minnist þó þess, að hann lék á skemmtunum á 187
Þingeyri, en þar sem víðar hérlendis á þeim tíma voru skemmtanir fólgnar í sýningu stuttra leikþátta, söng, upplestri og slíku og lék þá lúðraflokkur á milli atriða, væri honum á annað borð til að dreifa. Eftir að flokkurinn hætti störfum voru horn hans lánuð til Ísafjarðar og heimtust þaðan nokkrum árum síðar, mjög löskuð og af sér gengin. Stofnun og starf lúðraflokksins á Þingeyri verður að teljast afar merkilegt framtak á svo fámennum og afskekktum stað sem Þingeyri var og sambærileg við stofnun lúðraflokksins á Eyrarbakka um aldamót og flokksins í Vík í Mýrdal 1910.“ Dragspilið dregið Eitt er það hljóðfæri sem hefur sannlega dregið fólk að, bæði notendur sem njótendur. Það er dragspilið eða harmonikkan. Meðal nikkuspilara eyrarinnar í upphafi síðustu aldar var Sigurður Jóhannesson, f. 1884, sonur Sigurlaugar Helgu Samsonardóttur og Jóhannesar Ólafssonar, hreppstjóra. Að sögn ömmu hans var hann byrjaður að draga dragspilið fimm ára gamall. Sextán ára var hann svo farinn að spila á böllum þó ekki frítt. Nei, hann fékk heilar 5 krónur fyrir. Seinna hækkaði kaupið um helming og þótti það okur í þeim er fátt vissu um vinnuna sem fylgir spilamennsku og hvað þá þegar Bakkus er um hönd þ.e. gesta. Fjölmarga fleiri nikkara eyrarinnar mætti nefna en talandi um dragspil og að draga vagninn í listinni er ekki hægt annað en að nefna til sögunnar Tómas Jónsson. Hann lét sannlega ekki sitt eftir liggja í leik- og sönglífi þorpsins hann Tómas Jónsson og var í raun lykilmaður í að drífa áfram ekki síst músíkstarfsemina. Hann var skólastjóri Barnaskóla Þingeyrar í yfir tvo áratugi, þaðan lá svo leiðin í Sparisjóðinn hvar hann gegndi einnig stjórnarstarfi og svo aftur í skólann hvar hann kenndi í önnur 3 ár. Einsog svo margir aktívir menn sat hann í fjölmörgum nefndum og ráðum bæði 188
hjá hreppnum og í ýmsum félögum. Frumherji á mörgum sviðum. Hann var t.d. upphafsmaðurinn að hinni svonefndu nikkusveit, Harmonikkukarlanir. Víst eru þeir margir karlanir er nikkurnar þenja en líka konur enda heitir þessi vaska sveit í dag, er enn starfar og auðgar músík líf fjarðarins, Harmonikkukarlarnir, Lóa og Edda. Tómas fattaði uppá fleiru músíklegu svo sem, Syngjandi páskum, er haldnir voru árlega í þorpinu um og eftir 1980. Svo var farið í landvinninga og skundað í næsta fjörð, á Bíldudal, til að syngja og spila. Hin áðurnefnda dragspilsveit var með í för og gaman að láta hér létta sögu fylgja með. En þegar dragspilsveitin byrjaði að streyma inn og virtist sveitin fjölmennari en knattspyrnulið með varamönnum og djúsbera þá gall í einum gónandanum. „Nei, nei, nei, nei, eru svona margar harmonikkur til á Þingeyri.“ Tómas tók einnig virkan þátt í leiklistinni enda úrvals sögumaður og um tíma einn helsti og vinsælasti ræðumaður þorpsins. Hann fellur því létti- og réttilega undir heitið menningarfrömuður enda voru sjaldan haldnar skemmtanir um hans tíma án hans aðkomu. Víst ganga duglegheitin og listin oft í ættir því hinum megin fjarðar, nánar tiltekið á Gili, bjó hans hagmælti bróðir, Oddur. Sá hinn sami er brá sér oft í hlutverk Gáttaþefs er sagt var frá hér áður.
189
Svo er líka dansað
Haukadal um og eftir miðja síðustu öld. Til að gefa smá mynd af böllunum á eyrinni hér áður og fyrrum er hér að endingu dansþáttur birtur, brot úr viðtali. Viðmælandi er Leifur Jóhannesson er segir Jónínu Leósdóttur frá Gemlufalli, er viðtalið tók, frá dansiböllunum í denn. „Höfrungsböllin á Þingeyri voru alltaf talin bestu böllin sem haldin voru yfir veturinn. Við strákarnir gerðum okkur að skyldu, þegar við héldum dans, sem venjulega var á gamlársköld, að dansa við allar jafnt. En þegar við fórum á ball hjá kvenfólkinu, dönsuðum við bara við þær sem lakastar voru í dansinum. Þetta voru bestu böllin sem haldin voru og allir voru ánægðir.“
Grímuböll voru lengi haldin á Þingeyri og vel mætti nú endurvekja þau.
Þó engar eiginlegar danssýningar hafi rekið á fjörur ritara þá hefur vitanlega verið dansað þar í gegnum tíðina. Þá hver með sínum takti og danstöktum. Það var reyndar um tíma starfandi línudans hópur sem steig reglulega kántrýsporin á mannamótum á eyrinni. Svo vel hafa spor þessi varðveist að ef eitthvert kántrýlag er spilað á samkomu á eyrinni þá fyllist dansgólfið um leið. Síðan stígur hópurinn línudansinn einsog um sýningu væri að ræða. Svo er það ballmenningin sem hefur sannlega verið á eyrinni allt frá upphafi byggðar. Sum böllin fjörugri en önnur einsog gengur. Ritari heyrði t.d. ófáar sögur frá okkar sárt saknaða Hermanni Gunnarssyni, frá böllum í samkomuhúsinu í 190
191
Það er framtíð ef þú mætir
Gunnhildur Björk Elíasdóttir, sem Soffía Frænka, og Sigþór Gunnarsson, sem Bastían bæjarfógeti.
Svo löng er vor saga að það væri hægt að halda endalaust áfram að garfa í leiklistar- og listasögu Þingeyrar og hvað þá alls Dýrafjarðar. En einhvern tímann verður að fylgja gefinni nálínu um verklok og nú er sú lína komin. Það er næsta víst, einsog íþróttaþulurinn sagði, að það vantar ýmislegt í þessa sögu. Bæði af leiksýningum, listamönnum og listviðburðum. En pældu þá bara aðeins í því kæri lesandi hve í raun og veru listin er gjöful hér í firði. Ritari fékk að heyra það í upphafi úr fúla í móti hornum að þetta efni næði nú varla í bók heldur yrði í mesta lagi einhver fárra síðna blöðungur. En stundum borgar sig bara að vera þrjóskur sérlega þegar vitað er hve listin er í raun stór þáttur í hverju samfélagi ekki bara hér á landi heldur og um allan heim. Listasagan vill samt sem áður oft enda á fáeinum opnum í söguritum hvers samfélags og í raun sögurita almennt. Hvað veldur? Er góð spurning. Kannski 192
erum við bara svona hógvær sem listina stundum. Þá er bara eitt í stöðunni hætta að síta og slíta og draga aðra niður með listsöguleysi. Fara bara sjálfur í málið og garfa í listasögunni og það er vel hægt að mæla með því áhugamáli og sögugrúski. Dropinn holar steininn og kannski fylgja fleiri íslensk leiksögu og listasögurit landsbyggðarinnar í kjölfarið. Ritari er alla vega ekki hættur, í raun rétt að byrja enda sett sér það markmið að segja leiksögu hvers þéttbýlisstaðar Vestfjarða. Eins gott hann fari að herða sig þar sem þetta er nú bara annað ritið í þessari vestfirsku leiksöguritröð. Næsta leiksöguviðfangsefni Vestfjarða hefur þegar verið ákveðið og nú er bara spurning hversu mörg árin líða millum þessa verks og þess næsta. En hver skyldi nú vera staða og framtíð leiklistar og listar á Þingeyri? Stórt er spurt. Sitthvað er nú hér á eyri og í firði er til lista má telja. Hér er mjög virkt áhugaleikfélag, Höfrungur leikdeild, sem hefur síðustu ár sett upp veglegar sýningar sem hafa dregið að sér þúsundir áhorfenda. Nýflutt á eyrina er svo atvinnuleikhús Vestfjarða, Kómedíuleikhúsið, sem hefur vakið athygli fyrir að fara sínar eigin leiðir. Hér er bókaútgáfa, Vestfirska forlagið, sem hefur einnig sérhæft sig líkt og Kómedían enda eiga þau það sameiginlegt að hafa unnið með sagnaarf eigin landsfjórðungs. Hér er kirkjukór, handverksfélag að ógleymdum fjölda einyrkja sem hér starfa að myndlist sem annarri list. Hér er meira að segja bókbindari. En lengi má við bæta enda er það ljóst eftir lestur þessa rits að hér eru hinar bestu aðstæður til að skapa. Þeim fjölgar líka ört listamönnum sem hingað koma til að vinna að verkum sínum og þeim er farið að fjölga sem vilja bara verða eftir. Setjast að í listaþorpinu Þingeyri. Listin hefur gífurleg áhrif á vort líf svona þegar grannt er skoðað. Það eru ómetanleg lífsgæði að geta notið lista og hvað þá heima í héraði. Þessi atriði eru farin að tikka enn meira í boxið þegar fólk velur sér búsetu. Framboð lista í héraði. Því ættu sveitarfélög sem og hið opinbera að veðja meira á listina 193
og sköpunina. Láta sig listina varða með því að styðja íbúa við uppbyggingu hennar og það er ekki allt bara peningar. Allavega ekki á landsbyggð. Það eru margar aðrar leiðir færar, má þar nefna aðkomu vegna húsnæðis, vegna kynningarstarfs sem er orðinn stór þáttur í listinni í dag enda samkeppnin við skjáinn mikil en mikilvægast af öllu er þó að mæta. Að helst fjölmenna á alla listviðburði í eigin héraði. Þannig eflum við eigin list best. Tökum okkur til fyrirmyndar ónefndan Skagstrending sem hefur þá reglu að mæta á alla listviðburði í eigin þorpi, þó hann hafi engan áhuga á kórsöng eða ballet. Samt mætir þessi mæti Skagstrendingur á alla listviðburði á Skagaströnd. Af hverju? Jú, ef hann kæmi ekki þá mundi listinni verða sjálfhætt og allri flórunni. Leikfélagið legði upp laupana og líka kórinn, sem hann fílar ekki en mætir þó, og aðkomna listin, tónleikar sem leiksýningar mundu falla um sjálft sig ef engir væru gónendurnir. Eflum eigin list með því að mæta svo einföld er framtíðin. Því má segja að þú lesandi góður sért framtíðin. Hún er í þínum höndum. Góða skemmtan.
194
195
HEIMILDIR Aðalsteinn Eiríksson. Núpsskóli í Dýrafirði. Ungmenna- og héraðsskóli 1907 – 1992. Hollvinir Núpsskóla 2017.
Heima er bezt, sept-okt 1984. Jóhannes Helgi. Hús málarans. Setberg, 1961. Lögberg 15. janúar 1931 Mannlíf og saga fyrir vestan. 1. hefti. Vestfirska forlagið, 1996
Aðalsteinn Ingólfsson. Einfarar í íslenskri myndlist. Almenna bókafélagið / Iceland Review, 1990.
Mannlíf og saga fyrir vestan. 2. hefti. Vestfirska forlagið, 1996
Alþýðublaðið 3 apríl 1959, 12 ágúst 1961.
Mannlíf og saga fyrir vestan. 3. hefti. Vestfirska forlagið, 1997
Anna Ólafsdóttir Björnsson. Elfa. Elfa Gísla og hinar sögurnar. Salka 2009.
Mannlíf og saga fyrir vestan. 4. hefti. Vestfirska forlagið, 1997. Mannlíf og saga fyrir vestan. 7. hefti. Vestfirska forlagið, 2000.
Ársrit Sögufélags Ísfirðinga 1980. Um sönglíf í Dýrafirði. Sigtryggur Gunnlaugsson.
Mannlíf og saga fyrir vestan. 9. hefti. Vestfirska forlagið, 2001.
Ársrit Sögufélags Ísfirðinga 1980. Aldamótamaður – umbótamaður. Jóhannes Davíðsson.
Mannlíf og saga fyrir vestan. 13. hefti. Vestfirska forlagið, 2003.
Atli Magnússon. Skært lúðrar hljóma. Sambandi íslenskra lúðrasveita, 1984.
Mannlíf og saga fyrir vestan. 16. hefti. Vestfirska forlagið, 2005.
Dagur 28. apríl 1998.
Mannlíf og saga fyrir vestan. 19. hefti. Vestfirska forlagið.
Elfar Logi Hannesson. Leiklist á Bíldudal. Kómedíuleikhúsið, 2015.
Mannlíf og saga fyrir vestan. Nýr flokkur. 1. hefti. Vestfirska forlagið, 2012.
Frá Bjargtöngum að Djúpi. Mannlíf og saga fyrir vestan. Nýr flokkur 2. bindi, 2009, Hafliði Magnússon skráði söguna.
Morgunblaðið 9. apríl 1965, 20. apríl 1969, 26. maí 1979.
Halldór Kristjánsson. Sigtryggur Guðlaugsson prófastur og skólastjóri á Núpi. Bókaútgáfa menningarsjóðs, 1964. 196
Oddur Jónsson. Já elskan mín. Kristín Berglind og Valgerður Jóna Oddsdætur, 2015. Ottó Þorvaldsson. Svalvogar. Minningar Ottós Þorvaldssonar 197
frá Svalvogum. Gefið út á kostnað höfundar1980. Ottó Þorvaldsson. Atburðir og samtíðarfólk. Minningar Ottós Þorvaldssonar frá Svalvogum. Gefið út á kostnað höfundar 1984. Sveinn Einarsson. A People‘s Theatre Comes to Age. University of Iceland press 2007. Sveinn Einarsson. Íslensk leiklist 1. Bókaútgáfa Menningarsjóðs 1991. Sveinn Einarsson. Skírnir. Leikið í hlöðum og pakkhúsum. 1998. Tíminn. 19. apríl 1951, 1. sept. 1957, 17. okt. 1968. Vesturland. 47.- 48. tbl. 1933, 11. – 12. tbl. 1965, 6-7 tbl. 1966
Nanna Magnúsdóttir Viðtöl á netinu https://www.ismus.is/i/interview/uid-b11bcc7d-8d68-43eb9c6a-73cdd05e6280 https://www.ismus.is/i/interview/uid-1e73e617-1e3c-418eaa4b-7cab12701dc3 https://www.ismus.is/i/person/uid-8c5c733b-4469-4a75accd-af3ecc83eb9c https://www.ismus.is/i/person/uid-8c5c733b-4469-4a75accd-af3ecc83eb9c Hallfreður Örn Eiríksson viðtal við Lilju skáldkonu, Hrafnistu 11. október 1966.
Vilborg Davíðsdóttir. ,,Þrettánda í jólum þá fer allt af stað“ Rannsókn á þrettándasiðnum á Þingeyri og áþekkum grímu- og heimsóknasiðum á Íslandi. 2005. Viljinn. Blað ungmennafélags Mýrahrepps. 1962 – 1965. Vísir. 1. júní 1962, 3. maí 2016. Þjóðviljinn. 28. des. 1968. Munnlegar heimildir – viðtöl er bókarhöfundur tók: Bergur Torfason Bjarni Guðmundsson Kristín Berglind Oddsdóttir 198
199
200
201
Ný alvestfirsk leiklistar og listabók eftir Elfar Loga Hannesson, leikara. Hér rekur hann á fróðlegan og ferskan hátt hina einstöku leiklistar og lista sögu Þingeyrar. Fer reyndar víðar því allur Dýrafjörðurinn er undir enda fall vötn öll þangað hvort heldur það er í listinni eða lífinu. Leiklistarsagan er sögð allt frá landnámi Dýrafjarðar og til nútímans. Víða er leitað fanga í listasögu svæðisins enda stendur listin á gömlum merg á öllum sviðum listanna. Elfar Logi hefur áður ritað leiklistarsögu Bíldudals enda hefur hann að markmiði að skrá leiklistarsögu allra þorpa og bæja á Vestfjörðum. Í þessu riti bætir hann um betur með því að rekja einnig listasögu Þingeyrar. Leiklist og list á Þingeyri er önnur bókin í þessari vestfirsku leiklistarbókaröð Kómedíuleikhússins.
202