HANDANHEIMA Sumarsýning Borgarbókasafnsins í Spönginni 23. JÚNÍ – 27. ÁGÚST 2021
Annar heimur, annað líf, önnur veröld, handanheima. Sýningin er innsetning, minning, sambland frá nokkrum tímabilum sem tengjast. Ég færi stofuna mína inní sýningarrýmið með myndröð sem hófst fyrir um 30 árum síðan ásamt tveimur verkum föður míns Jóns Benediktssonar myndhöggvara (2016-2003) og öðru drasli úr lífi listamanns sem er háð tíma og umbreytingum. Verkin eru úr myndröðinni Móðurskautið/Lífsvatnið sem kom fyrst fram á einkasýningu í Norræna Húsinu árið 1993. Eiríkur Þorláksson ritar í Mbl. 5. nóvember 1996: „Myndröðin „Lífsvatnið“ kom fyrst fram á sýningu Margrétar á sama stað fyrir þremur árum, og virkar hér enn sterkari en fyrr. Örsmáar og gríðarstórar myndirnar skapa gott jafnvægi í rýminu, þar sem öryggi og hlýja geisla af grænum sverðinum, sem vatnið sprettur fram úr, ýmist í litlum lækjarsytrum eða kraftmeiri fossum; ... „Móðurskautið djúpa“ er nýr myndaflokkur, sem samsamar þessa hlýju, grænu tilveru náttúrunnar hlutverki konunnar sem móður mannkyns og þar með þess anda, sem með því býr. Í því skauti er að finna bæði upphaf og þungamiðju þeirra hughrifa og hugsana, sem listakonan getur síðan breytt í form sem má raða með ýmsum hætti í kringum sig og þar með eru komin fram þau tengsl sem gera sýninguna að einni heild“.
Konur í menningarheimi karla var málverkasýning í Listasafni ASÍ árið 1997 með verkunum Móðurskautið/Lífsvatnið ásamt birtingu á ritgerðinni Konur í menningarheimi karla. Ritgerðin var unnin út frá könnun sem Samband íslenskra myndlistarmanna lét gera árið 1994 og sýndi mikið misrétti sem myndlistakonur virtust sætta sig við. Fáir gerðu sér hinsvegar grein fyrir tengingunni á málverkunum og ritgerðinni og töldu að þetta væri sitthvor hluturinn því þeir skildu ekki myndmálið enda töldu sömu aðilar að jafnrétti kynjanna væri náð. Jón Proppé ritar í Mbl. 5. mars 1998: „í Gryfjunni í Listasafni alþýðu sýnir Margrét Jónsdóttir. Margrét er auðvitað löngu þekkt fyrir málverk sín og á þessari sýningu er að finna nokkur málverk unnin með olíulitum á striga. En í framsetningu sýningarinnar verða þessi málverk að aukaatriði því um leið setur Margrét fram ritgerð sína sem ber yfirskriftina „Konur í menningarheimi karla“. Ritgerðin byggir á könnun sem SÍM gerði árið 1994 og fjallaði um stöðu kvenna í myndlist á íslandi. Könnunin leiddi í ljós að staða þeirra væri slæm og undir það tekur Margrét og talar þá líka af reynslu. Vangaveltur Margrétar um þessi efni og um stöðu myndlistarinnar í lífi samfélagsins vekja margar spurningar.“
Á sýningunni hér í Spönginni eru einnig nokkur yngri verk, en tengjast forsögunni. Öll verkin hér eru tjáning mín sem kona og þeim fylgir sú barátta sem þurfti til að geta unnið sem listamaður á undangenginni starfsævi. Í dag er staða kvenna ólík, í raun allt aðrar aðstæður, annar heimur því breytingarnar hafa verið svo miklar í þjóðfélaginu. Stéttarmunur er hinsvegar augljósari, það hefur gleymst að berjast fyrir réttindum fjölmennra kvennastétta, hvað þá aldursfordómum og kjörum aldraðra Mín staða sem og listin hafa tilheyrt stétt láglaunakvenna og ég er sammála Germaine Greer þegar hún segir að líf kvenna í dag sé þrældómur. Stöðug listsköpun ásamt fullri vinnu við listkennslu, að sá fræjum í næringasnauðan jarðveg er lýjandi og ávísun á einangrun því tíminn fyrir fjölskyldu og vini er bara ekki til staðar. Ég vinn með upplifanir, umhverfi, tilfinningar og reynslu sem umbreytast í myndmál sem getur haft margar skírskotanir bæði augljósar og faldar sem síðan þróast út í eitthvað allt annað en stóð til í upphafi. Allt fléttast einhvern vegin saman, lag ofaná lag sem mynda munstur og úr skítnum framkallast fegurðin
Margrét er fædd í Reykjavík og hefur starfað óslitið að myndlist í rúm 50 ár með listkennslu í 28 ár bæði við framhaldsskóla, grunnskóla og Myndlistarskóla Kópavogs. Einnig haldið vatnslitanámskeið í Frakklandi, unnið við grafíska hönnun og rekið auglýsingastofu. Menntuð við Myndlista- og Handíðaskóla Íslands, diplóma í frjálsri myndlist 1974. Diplóma í grafískri hönnun árið 1984. Mastersnám við Central Saint Martin's College of Art, London 1974-1976. Diplóma frá Kennaraháskólanum 1998. Mastersnám við Kennaraháskóla Íslands ítölvu og upplýsingatækni 1999-2001. Margrét hefur haldið á fimmta tug einkasýninga og tekið þátt í fjölda samsýninga hér á landi og erlendis.Hún vareinn af stofnendum Gallery Suðurgötu 7 sem var mikilvæg miðstöð í þróun framlínumyndlistar á Íslandi. Einn af stofnendum Hagsmunafélags Myndlistarmanna sem var undanfari Sambands Íslenskra Myndlistarmanna ásamt stofnun SÍM. Verk eftir Margréti eru í eigu helstu listasafna landsins og hún hefur hlotið ferðastyrki og starfslaun listamanna. Meðlimur í FÍM, Íslensk Grafík, SÍM, Nýlistasafninu og heiðursfélagi FÍMK.
Bestu þakkir til Ingu Jónsdóttur, án hennar hefði sýningin aldrei orðið að veruleika því ég er ennþá föst í Frakklandi eftir slysið sem ég lenti í fyrir nær ári síðan.
Nánari upplýsingar: http://mjons.blogspot.com https://www.instagram.com/mjons_artist/ https://www.arkiv.is/art/artist/276 margret_jons@hotmail.com sími: 847 8634