Refurinn eftir Sólveigu Pálsdóttur 1. kafli

Page 1


1. KAFLI 27. febrúar Ferðalagið til Hafnar, mánuði fyrr

Við hlið hennar sat geðþekkur ljóshærður maður í hvítri skyrtu og smámynstruðum jakka. Hann hafði ræktarlegt, vel snyrt skegg og hélt á pappaglasi með kaffi. Maðurinn horfði ýmist út um glugga flugvélarinnar eða mændi á sætis­ bakið fyrir framan sig. Reyndi að stara ferðina af sér líkt og hún. Ókyrrðin hafði byrjað korteri eftir flugtak. Fyrst með smá­hristingi sem stóð nokkra stund þar til vélin tók allt í einu djúpa dýfu. Sajee greip ósjálfrátt í manninn og heitt kaff­ið sullaðist yfir hann. – Fyrirgefðu, hljóðaði hún. Sleppti takinu en greip dauða­ haldi í kalda stálarma í staðinn. Hann tók servíettur úr sætis­ vasanum og þurrkaði mestu bleytuna af sér. – Brenndirðu þig? spurði hún skömmustuleg. – Ég skal þvo skyrtuna þína. – Ég á þvottavél, sagði hann og brosti mildu, fallegu brosi. Þetta var laglegur maður en sviplítill. Hárið var snöggklippt upp með vöngum en þykkt á kollinum og stuttur toppur lið­ aðist fram á ennið. Hann horfði áhugasamur á hana. – Þú talar íslensku ...?

9


– Bara lítið, stundi hún. Það var ekki rétt því hún hafði ágæt tök á tungumálinu. Samt kom oft fyrir að fólk skildi hana ekki út af munninum. Núna treysti hún sér ekki til að tala, ekki fyrr en hún hefði aftur fast land undir fótum. – Ertu ein á ferð? spurði hann og hallaði sér að henni. Hún kinkaði varlega kolli. Lagði ekki í að hreyfa sig, sama hversu lítið það væri. – Hvaða erindi áttu austur á þessum árstíma? spurði maður­inn kurteislega, án allrar hnýsni. – Að vinna, stundi hún upp. – Hvar? spurði hann. – Á snyrtistofu. – Nú, sagði hann með undrun í röddinni. – Á Höfn? – Já. Hann brosti hlýlega. – Þetta fer að verða búið. Reyndu að anda djúpt og slaka á. Hann klappaði laust á handarbak hennar. – Gefðu eftir og láttu líkamann fylgja hreyfingunum í stað þess að spenna þig upp og streitast á móti, sagði hann skilningsríkur. Hún reyndi þar til vélin tók að hristast á ný. Sajee hafði ekki mikla reynslu af flugferðum eða ferðalögum yfirleitt því þetta var annað ferðalagið á ævi hennar. Hið fyrra var ógnarlangt, alla leið frá Sri Lanka til Íslands. Nú nötr­aði stálskrokkurinn og ljósin fyrir ofan sætin blikkuðu, fólkið tók andköf og smábörn grétu hvert í kapp við annað. Í gegn­ um grátkórinn heyrði hún að flugmaðurinn sagði eitthvað í há­talar­ann. Hún greindi ekki hvað það var en fann spennuna allt í kringum sig. Vélin lækkaði snarlega flugið, tók stóra sveigju og kleif brattann svo hratt upp aftur að skrokkurinn nötr­aði. Hún ríghélt sér í sætisarminn með annarri hendinni en reif með hinni ælupoka upp úr vasanum fyrir framan sig.

10


Slímugur vökvi með leifum af samlokunni sem hún hafði borð­að í Reykjavík fyrir rúmum klukkutíma gusaðist upp úr henni. Hún fann að sessunauturinn tók báðum höndum um hár hennar og hélt því frá andlitinu meðan hún kúgaðist yfir pok­anum. Svo mundi hún varla meira fyrr en vélin lenti með dynki á Hornafjarðarflugvelli. Inni í vélinni heyrðist ekki minnsta hljóð fyrir utan lágt vélarsuð og ískur í dekkjum. Börnin voru hætt að gráta og aðrir farþegar sátu stjarfir í sæt­um sínum. Flugvélin ók löturhægt upp að flugstöðinni áður en hún stoppaði alveg. Ofsafengið klapp brast á. Nokkru síðar stóð hún úrvinda með fölleitu samferðafólki og beið eftir töskunni sinni. Maðurinn úr flugvélinni gekk til hennar. Hann var kominn í úlpu sem hann hafði rennt upp til hálfs. Stór dökkbrúnn blettur lá yfir hjartasvæðið og snart hana illa. – Má bjóða þér far? spurði hann. Sajee var svo eftir sig að hún afþakkaði óvart á móðurmálinu en áttaði sig svo. – Nei takk. Ég verð sótt, sagði hún á íslensku. – Leitt þetta með kaffið. Maðurinn hló og ætlaði að segja eitthvað en áður en hann gat sagt fleira var dökkhærð eldri kona komi­n þétt upp að þeim. – Þetta var hryllingur, sagði hún reiðilega. – Vélin hefði aldrei átt að fara frá Reykjavík! Fleiri sem virtust á sama máli bættust í hópinn. Fólkið ræddi hástöfum um að farþegar ættu rétt á áfallahjálp eftir þessa flugferð. Maðurinn dró nafnspjald upp úr vasa sínum og stakk í lófa Sajee. – Takk, sagði hún og virti fyrir sér teiknaða mynd af húsi við bláan sjó. Yfir dyrunum var myndarlegt skyggni og vegleg ker með fallegum blómum til hvorrar hliðar. Hann horfði rannsakandi á hana. – Áttu erfitt með að lesa þetta?

11


Hún kinkaði kolli. – Ég rek gistingu hérna á Höfn, Hostel by the Sea. Ef þú lendir í einhverjum vandræðum þá kemurðu bara til mín, sagði hann lágmæltur. – Ég heiti Þormóður. – Takk, sagði Sajee og færði sig fjær. Henni leið illa og það hlaut að vera vond lykt af henni. Það var gubb bæði fram­an á peysunni hennar og á marglita klútnum sem hún hafði um hálsinn. Þegar stóra, svarta taskan hennar birtist loks­ins, rennblaut af snjó, dröslaði hún henni beint inn á klósett, fegin því að enginn frá nýja vinnustaðnum skyldi sjá hana svona útlítandi. Hún tók af sér skrautlegan klútinn, reif sig úr blettóttri peysunni og laut yfir vaskinn á hlýrabolnum einum og reyndi eftir bestu getu að þvo sér. Síðan burstaði hún hrafnsvart sítt hárið og fann hreina peysu úr töskunni. Þegar hún loksins gat látið sjá sig var orðið fámennt í mót­ töku­salnum. Út um gluggann sá hún hvar sessunautur hennar úr flugvélinni stóð við hliðina á stórum Land Rover jeppa. Reiða dökk­hærða konan var enn að tala og maðurinn horfði með upp­gjafarsvip á hana. Svo fór hann inn í bílinn og ók á brott. Innan skamms var aðeins einn bíll eftir á planinu.

12


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.