dagur eitt
Næturvaktin fór í að þrífa allan dallinn fyrir landsetningu, en Snæi hataði skúringar meira en allt annað. Hann skildi ekki af hverju það væri ekki hægt að ráða einhvers konar erlent vinnuafl í þetta en mundi eftir orðum móður sinnar sem þurfti að taka að sér skúringastarf á kvöldin eftir að allt fór til fjandans heima. Honum að óvörum sagði hún að það gerði mann hógværan og þakklátan að skúra annarra manna gólf. Hann skildi það ekki. Sá bara skömmina í því. En hann huggaði sig við það að allir á sjónum þyrftu að gera þetta og enginn nema karlarnir hér myndu sjá til hans. Þegar hann gekk inn í káetu til að leggja sig áður en þeir kæmu að landi sá hann káetufélaga sinn rumska í kojunni og ákvað að ýta við honum til að gera honum viðvart um að hann væri að verða of seinn á vaktina. – Það er RÆS. Félaginn var fjölskyldufaðir um fimmtugt sem klæddist alltaf sömu köflóttu skyrtunni og sagði alltaf sömu sjö sögurnar (eða voru þær sex?) við matarborðið. Með nokkrum áherslubreytingum – eins og maður gerir. Hann stundi hátt við kröftuglegt kallið, drattaðist svo loksins á fætur og gekk út. Hann hafði greinilega sofið í 5
Ólyfjan - kilja.indd 5
17/09/2019 12:17
öllum fötunum. Snæi dró djúpt inn andann þegar hann var farinn. Það var þungt loft inni og mollulegt. Hann tók upp handklæði sem hafði dottið af hankanum á gólfið og nuddaði því við framtennurnar. Eitthvað sem hann gerði oft í staðinn fyrir að bursta þær. Skvetti síðan vatni í andlitið á sér og bar á sig rakakrem. Vandaði sig í strokunum, skoðaði baugana og sló létt á andlitið á sér. Hann fór úr buxunum, henti þeim út í horn og hlammaði sér í kojuna. Hann átti erfitt með að festa svefn og ákvað því að rúnka sér. Klámblöð geymdi hann undir rúmdýnunni. Hann sofnaði svo loks með vininn slappan í höndinni. Eftir fimm tíma svefn gekk Snæi út, vinkaði strákunum á kontórnum og kveikti sér í sígarettu á meðan hann horfði á landið nálgast. Hann fór inn í messann, fékk sér kaffibolla og hlustaði í stutta stund á venjulega morgunskrafið hjá vaktinni sinni um daginn og veðrið og aðra tilgangslausa hluti. Þeir voru tilbúnir fyrir huggulega helgi með fjölskyldum sínum, enda flestir ráðsettir menn. Hann kinkaði vinsamlega kolli en langaði helst að æla vegna væmninnar í þessum köllum. Hann heyrði í þeim fyrir utan henda fyrirskipunum fram og til baka sem gaf til kynna að þeir væru að landfesta. Hann ákvað að fara út og stríða lokavaktinni og kallaði til þeirra hvort þeir gætu ekki gert allt aðeins betur eða hraðar. Hann reykti meira og hugsaði um frídagana framundan. Á leið sinni niður landganginn mætti hann Ragnari, strák á hans aldri sem var tiltölulega nýbyrjaður svo Snæi þekkti ekki mikið til hans. Hann virtist vinalegur en hafði verið 6
Ólyfjan - kilja.indd 6
17/09/2019 12:17
einrænn allan túrinn. Hávaxinn og grannur með þykkt ljóst hár sem bylgjaðist í smá krullum á endunum. Það eina sem Snæi vissi fyrir víst varðandi kauða var að hann væri eitthvað tengdur inn í útgerðina. Sem var líklegast ástæðan fyrir því að hann hafði ekki verið rekinn frá borði strax fyrsta daginn sinn, þrátt fyrir að hafa mætt svo drullumígandi fullur að það þurfti að nota kranann til að lyfta honum um borð. Það fyrsta sem allir sáu þegar þeir mættu til vinnu var hann, liggjandi áfengisdauður á höfninni rétt við togarann. Með sjópoka fullan af nærbuxum og tóma viskíflösku sér við hlið. Sagan hafði haldið mönnum kátum í skapi allan túrinn, enda ekki á hverjum degi sem það þarf að nota kranann á menn til að koma þeim um borð á vaktina sína. Hann hafði þó verið tekinn á teppið hjá Kallinum um leið og hann hafði sofið það mesta úr sér, en samt sem áður hafði hann ekki misst starfið. Slúðrið hélt lífi í svo marga daga að Snæi ætlaði að verða vitlaus á þessu saumaklúbbsástandi. Ragnar fór að gera grín að þessu sjálfur eftir þriðja daginn svo hann var fljótt tekinn í sátt meðal áhafnarinnar. Kallinum líkaði hins vegar ekkert við hann eftir þetta, þrátt fyrir að Ragnar hagaði sér prúðmannlega restina af túrnum og hefði ekki mætt mínútu of seint á neinar vaktir. Snæi hugsaði með sér að fyrst að hann hefði getað gefið skít í Kallinn á þennan hátt þá hlyti hann að vera ákjósanlegur djammfélagi yfir fríhelgina sem hann ætlaði svo aldeilis ekki að láta fara til spillis. Hann stoppaði því Ragnar af með því að spyrja hann léttilega út í veðrið, sem virtist vera eina málefnið sem var samþykkt í slíku kynningarspjalli, en færði sig varlega út í það að 7
Ólyfjan - kilja.indd 7
17/09/2019 12:17
tala um plönin fyrir fríið. Ragnar virtist vera opinn fyrir öllu, sagðist ekki hafa neitt sérstakt planað og tók því vel í allt sem Snæi lagði til. Hann var meira en til í að detta í nokkra kalda með honum í bænum um kvöldið og þeir ákváðu að hittast, fá sér að borða og láta svo kylfu ráða höggi. Eða láta slag standa, hann kunni ekki málshættina nógu vel. – Kallaðu mig bara Ragnar, ekki Ragga, sagði hann svo ákveðinn og tók þéttingsfast í höndina á honum. Snæi sat á sér að spyrja hvort hann mætti kalla hann Kranann með hlátur í brjósti. Eftir að Snæi hafði skilað af sér pokanum heim og farið í langa og kærkomna sturtu til að skola af sér viðbjóðinn sem fylgdi sjómennskunni og mánaðargamlan klístursvitann, ákvað hann að fara beint upp í bíl og niður í bæ. Næsta stopp, Sævar Karl. Hann leit í baksýnisspegilinn áður en hann lagði af stað og sleikti tvo fingur til að bleyta niður hárið sem átti það oft til að fara á flakk þrátt fyrir að hann væri mjög rausnarlegur á gelið. Þegar hann var kominn í Sævar Karl labbaði hann hratt og örugglega í átt að afgreiðsluborðinu. – Sæll, ég vil fá að sjá öll þín dýrustu og fínustu jakkaföt, takk fyrir, sagði hann hálf hranalega. Hann bar sig þó meðvitað herramannslega um leið og hann lagði þykkt og veglegt peningabúnt á afgreiðsluborðið, með þeim afleiðingum að afgreiðslumaðurinn starði á hann með svip sem var blanda af hneykslun og undrun. Í fyrstu virtust mennirnir í búðinni ekki ætla að hreyfa sig en þegar hann hélt áfram að horfa á þá grafalvarlega og í 8
Ólyfjan - kilja.indd 8
17/09/2019 12:17
algjörri þögn þá loks virtist sem þeir áttuðu sig á því að hann væri ekki að grínast. Þeir hentust af stað að leita að sínu fínasta pússi. Í næstum klukkutíma stjönuðu þeir við hann og hringsóluðu í kringum hann eins og skopparakringlur, sýndu honum ýmsar klassískar gerðir af jakkafötum og hrósuðu honum í bak og fyrir í hvert skipti sem hann mátaði. Hversu hávaxinn þau létu hann líta út fyrir að vera og myndarlegri og fleira í þeim dúrnum. Eitthvað sem honum líkaði vel í fyrstu og lét honum finnast hann valdsmannlegri, en þegar leið á fór honum að finnast þeir þreytandi og skjall þeirra og almennilegheit voru farin að missa ljómann og hljóma gervileg og þvingandi. Hann sættist loks á einföld Armaniföt án þess að líta á verðmiðann og Gucci-belti við. Svellkaldur og flottur, íklæddur glænýjum jakkafötunum, flýtti hann sér út án þess að þakka fyrir sig. Með fötin sem hann hafði verið í áður í plastpoka merktum Sævari Karli, tók rok og rigning á móti honum svo hann hálf hljóp út í bíl sem hann hafði lagt í stæði stutt frá. Á framrúðunni blasti við honum stöðumælasekt sem ríghélt sér í rúðuþurrkuna. Hann var fljótur að krumpa sektina saman og henda í aftursætið með öðru rusli. Hereford steikhús var eini staðurinn sem kom til greina. Þeir ætluðu að hittast fyrir utan. Ragnar var frekar seinn en Snæi eyddi tímanum í að keðjureykja fyrir framan dyrnar á sama tíma og hann fylgdist með mannlífinu í miðbænum. Barnavagnamömmur á leið heim með Bónuspoka fulla af glútenlausri vellu og miðbæjarrotturnar að koma af kaffihúsum þar sem þær skrifuðu 9
Ólyfjan - kilja.indd 9
17/09/2019 12:17
hundruðustu skáldsöguna sem yrði aldrei gefin út. Rónar og einstaklingar sem reyndu að finna sig í þessari veröld með því að lita hárið á sér blátt. Eftir um það bil hálftíma bið, hálfan sígarettupakka og létt smáskilaboð á nokkrar mögulegar dömur kvöldsins, mætti Ragnar. Hann var nýstrokinn og fínn í stífpressuðum jakka, hvítum bol og rifnum gallabuxum. Snæja varð litið niður á sig til að ganga úr skugga um að hann liti einnig vel út. Skildi samt ekki í sér því hann þurfti ekki að hafa neinar áhyggjur. Þeir fengu borð við gluggann og Snæi valdi sætið sem vísaði að dyrunum, svo hann gæti séð hverjir væru að koma og fara. Öðruvísi leið honum óþægilega. Þjónninn kom með matseðlana en Snæi var fljótur að ýta þeim vinsamlegast frá og sagði svo að þeir myndu báðir fá bestu og stærstu steikurnar og fínasta og dýrasta vínið. Hann vonaði að Ragnari myndi finnast þetta vel spilað hjá honum. – Hva, erum við að fagna einhverju eða? spurði Ragnar og glotti lítillega þegar þjónninn var farinn. – Það er enginn tittlingaskítur í kvöld, kallinn minn. Snæi tók upp dollu af President og bauð þessum nýja vini sínum eftir að hafa fengið sér sjálfur í nefið. – All in og ekkert rugl, bætti hann við og um leið kom þjónninn til baka með drykkina þeirra. – Skál fyrir lífinu. Hann lyfti glasinu mót Ragnari. – Og fyrir áfengi, svaraði Ragnar þá og bætti um betur. Snæi hló og sammæltist um leið og þeir létu glösin klingja saman. Þeir spjölluðu um lífið á sjónum og liðið á togaranum. Hlógu að Kallinum og gerðu grín að eldamennsku kokksins, en þrátt fyrir þvílíka nostursemi að 10
Ólyfjan - kilja.indd 10
17/09/2019 12:17
móðir hans myndi fara hjá sér, var hún ekki upp á marga fiska. Ragnar talaði um að vera nýfluttur aftur til landsins, eitthvað varðandi fyrrverandi samband eða álíka sem breytti plönunum um heimsborgarnæs. – Þegar þessar konur detta í einhvern heljarinnar ástar- og sambandspakka sem maður er engan veginn tilbúinn í þá fer allt til helvítis, sagði Snæi þá og hló, feginn þvi að hafa algjörlega náð að forðast þennan pakka hingað til. Það var eitthvað sem hann ætlaði sér að viðhalda, þó það hefði oft ekki verið honum auðvelt í gegnum tíðina, enda allnokkrar dömurnar sem hann hafði tekið með sér heim og margar strax farnar að spjalla um áframhaldandi þreifingar. Fáar, eða nánast engar, fengu hins vegar hringingu frá honum aftur. – Af hverju vilja konur alltaf tjóðra mann niður? Hann gleypti í sig steikarbita. – Ekki vil ég vera fastur í einhverju fyrirframgefnu hlutverki, bætti hann við og lyfti glasinu til að skála aftur. Hann var orðinn nokkuð hífaður og rödd hans hafði hækkað um nokkur desíbel. – Sammála því. Ragnar skálaði við hann og þeir hlógu. Þar sem það var alltof snemma kvölds til að djammið gæti á nokkurn hátt verið byrjað ákváðu þeir að taka fyrst leigubíl í sjálft mekka Reykjavíkur. Skeifuna. Snæi hafði heyrt frá félaga sínum að þar væri góður ólöglegur pókerstaður í leyni innan um iðnaðarhúsnæðin sem bæri það skemmtilega nafn Póker and Play. Því miður var víst ekkert mikið um „play“ þar en Snæi hafði spurt vin sinn að því í gríni, en þó nokkuð von11
Ólyfjan - kilja.indd 11
17/09/2019 12:17
góður. Hann hafði haldið að þetta væri kannski eitthvað eftir austur-evrópskri fyrirmynd. En þar átti allavega að vera nóg af rúllettum og barnungum vitleysingum sem hægt væri að mokgræða á. Þeir borguðu leigubílinn og sögðu bílstjóranum að koma aftur eftir þrjá tíma. Staðurinn var bara ósköp venjulegt yfirgefið lagerhúsnæði að utan. Svört tjöld voru fyrir gluggunum. Snæi hringdi hvítri, ómerktri dyrabjöllunni. Þrekinn maður af erlendum uppruna opnaði og bað þá um nafn. Snæi nefndi vin sinn sem hafði mælt með staðnum og þeim var hleypt inn á sekúndunni. Gæinn lokaði snögglega á eftir þeim og spurði þá hvort þeir ætluðu að vera með í borðinu. Nikkaði síðan í átt að nokkrum mönnum sem sátu við pókerborð og voru að gíra sig upp fyrir nýtt spil. Snæi neitaði, sagði að þeir hefðu komið fyrir rúlletturnar í þetta skiptið. Hann ákvað þá að kynna sig og spurði manninn um nafn. Vissi að best væri að mynda tengsl strax frá upphafi, ef hann myndi ákveða að koma hingað aftur. Þeir gengu að rúllettunni og annar maður kom upp að þeim og bauð upp á bjór, í boði hússins, – fyrir spilara, sagði hann síðan til útskýringar. Snæi var fljótur að segja já við því. – Og veistu bara keep them coming. Hann gaf honum kumpánlegt klapp á öxlina áður en hann settist niður við rúllettuborðið. Ragnar settist þögull við hlið hans. Við borðið sat einungis einn annar einstaklingur, eldri maður með frekar fáránlegan kúrekahatt úr leðri. Hann heilsaði þeim líka á þann stereótýpíska hátt að setja fingur á hattbrúnina. Snæja fannst það skondið og spurði hann um nafn. Hann sagðist heita Brósi. Brósi þessi var kom12
Ólyfjan - kilja.indd 12
17/09/2019 12:17
inn með góðan stafla af spilapeningum. Snæi ákvað að biðja um skipti fyrir tíu þúsund til að byrja með. Bjórarnir voru bornir fram til þeirra á þar til gerðu háborði sem var lagt á milli stólanna þeirra. Eftir stuttan tíma á hjólinu var hann kominn í gróða og var glaður. Ragnar fór sér hægar og spilaði öruggan leik, sötraði hægt á bjórnum. Fór svo afsíðis og talaði í símann heillengi. Þeir voru lengi einungis þrír við rúllettuborðið. Dílerinn var miðaldra kona sem talaði ensku með slavneskum hreim og hélt sér vel, með hárlengingar og mögulega varafyllingar að auki. Dílerajobbið greinilega að borga ágætlega. Skyndilega var friðnum raskað. Inn á staðinn komu fjögur ungmenni, nokkuð drukkin, sem töluðu hvert ofan í annað og hrópuðu hátt að þau væru mætt. Eins og það væri tilkynningarvert. Tveir strákar og tvær stelpur. Ein dökkhærð, önnur ljóshærð. Einhvers konar undarlegt double deit. Strákarnir settust við rúllettuborðið og annar þeirra heilsaði dílernum. Það var frekar augljóst að hann var þessi óþolandi hressa og athyglissjúka týpa. Nikkaði til Snæja og Brósa og bauð góða kvöldið, kynnti sig með mjög skrítnu nafni sem Snæi gleymdi um leið og hann hafði nefnt það. Stelpurnar heimtuðu bjór og settust þétt við hliðina á strákunum. Snæi tók eftir að dökkhærða stelpan var klædd einhvers konar kufli, eins og úr Harry Potter. Hin þrjú virtust öllu hefðbundnari í fatavali. Hann spurði hvað væri málið með dresskódið. Hún leit niður á sig eins og hún væri búin að gleyma hvernig hún væri klædd og fór að skellihlæja. Síðan byrjaði hún að útskýra hálf þvoglumælt að þau væru á leið í búningapartýi. Hún setti upp svip. 13
Ólyfjan - kilja.indd 13
17/09/2019 12:17