Tvíflautan 1. kafli

Page 1


1

BÍÓ Allir alvöru harmleikir hefjast í allsnægtum, rétt eins og þessi kómíska tragedía sem byrjaði í Eden og enn sér ekki fyrir endann á. Aðalpersónan verður líka að vera svo margslungin að ekkert fær henni grandað nema eigin yfirsjón. Hún verður líka að hafa skopskyn, því allt er þetta gert til að hafa ofan af fyrir alvaldinu og síðan mannkyninu þótt það fari ekki að hlæja fyrr en löngu eftir að atburðirnir eru liðnir. Vegna alls þessa er Grikkland kjörlendi tragedíunnar. Þar er andleg auðlegð meiri en annars staðar. Og þar er svo margt undursamlegt fólk sem yfirsést ýmislegt og alvaldið hefur mikinn húmor fyrir. Útkoman getur ekki orðið önnur en hlægilegur hell­ enskur harmleikur. Þannig er Grikkland og þannig er saga Tví­ flautunnar sem lauk í gær. „Varstu ekki búinn að átta þig á því að við Grikkir erum hálf­ vitar?“ æpti Kristos í farsímann þegar hann greindi mér frá þessum tragísku endalokum. Hann sem alla jafna var svo vær, þegar hann sat með öðrum fastagestum Tví­flautunnar og saup kaffi, er nú svo æstur og óðamála að ég kannast varla við hann fyrir sama mann. „Jú, ég bjó þarna í fimm ár svo að það hefur ekki farið fram 5

Tvíflautan Demy.indd 5

7.9.2017 10:28


hjá mér,“ svaraði ég en honum var svo mikið niðri fyrir að hann tók ekki eftir ertni minni. „Það var aðeins til eitt menningarsetur sem hélt grískri menn­ ingu á lofti en nú er búið að koma því fyrir kattarnef og hvað setja þeir ekki í staðinn? Jú, jú, bankaútibú og við erum í miðri kreppu, það á ekki nokkur maður bót fyrir boruna á sér. Hvað höfum við að gera með fleiri bankaútibú? Helvítis Ameríkanarnir.“ „Ameríkanarnir?“ spurði ég. „Já, þetta er allt Ameríkönum að kenna og andskotans öfuguggunum sem vilja selja landið. Og við eigum að heita vagga vestrænnar menningar. Þú hefðir átt að sjá þessa hrægamma þegar þeir komu í gær að taka yfir húsið.“ „Voru það Ameríkanar?“ „Nei, en það voru ekki heilir Grikkir, pseftó ellínes. Þeir tóku allt. Hljóðverið, græjurnar, öll píanóin, eldhúsið; allt. Glezos er gjaldþrota. Hann er heppinn ef hann heldur nærbuxunum.“ „Og hvar býr hann þá núna?“ spyr ég. „Hann leigir einhverja kytru í Kipseli eins og hver annar sígauni.“ „Nú, og hvernig tekur hann þessu?“ „Glezos er nú eins og hann er,“ segir Kristos. „Hann lætur ekki á neinu bera. Nú segist hann vera frjáls. Æi, þú veist nú hvernig þessir listamenn eru, það er engin leið að skilja þá.“ „Já, þetta eru ljótu tíðindin,“ segi ég. „En hann bað mig um að hringja í þig og segja þér frá þessu og eins því að hann og Despina fengu tíu mínútur til að ná í það sem þau vildu eftir að bankinn var búinn að taka það sem eitt­ hvað verðmæti var í. Þau gátu ekki bjargað bókunum þínum og Glezos fann heldur ekki spólurnar þínar með upptökunum. Bankinn fær það því líka.“ 6

Tvíflautan Demy.indd 6

7.9.2017 10:28


Ég get ekki sagt að mér hafi brugðið við fréttirnar. Alls ekki, ég tók þeim af stóískri ró og fór bara að sofa. En nóttin virðist hafa magnað þær innra með mér. Ég hrökk upp með andfælum fyrir allar aldir og get engan veginn sofnað aftur. Mér er innanbrjósts líkt og ég hafi heyrt af andláti náins vinar. Það sækir að mér söknuður. Hugur minn er svo tær í aftureldingunni að ég kemst ekki hjá því að endurupplifa þá stund þegar fundum okkar bar fyrst saman. Það er á funheitu sumarkvöldi sem ég kem fyrst á Tví­flautuna. Erfiður vetur að baki við eldhúspúl á mexíkóskum veitingastað í útjaðri Aþenu við ljótan orðstír. Veitingastaðnum var síðan lokað í júníbyrjun enda vilja Grikkir þá borða undir berum himni en upp á slíkt var ekki hægt að bjóða á þessum veitingastað. Ég var því leystur út með nokkuð veglegri greiðslu í júníbyrjun sem átti að duga þar til að ég hæfi störf aftur í september. En nú hef ég lifað nokkuð hátt eftir þessa feitu útborgun svo að við blasa blankheit áður en sá mexíkóski opnar aftur. Því brá ég á það ráð að hringja í þrjá veitingastaði sem auglýst höfðu eftir sendli og ætla nú að sjá hvort einhver þeirra vilji ráða mig til að snúast fyrir sig í sumarönnunum. Á sumarkvöldum sem þessum er göngugatan hálf óraunveruleg í augum Íslendings. Laufin bærast ekki á trjánum í kvöldkyrrðinni. Það er engu líkara en trén séu leikmunir í Þjóðleikhúsinu. Svo þröngt er um fólkið að það er í raun ótrúlegt til þess að hugsa að það láti setja sig á svo þéttskipaðan bás af fúsum og frjálsum vilja. Grikkir virðast auk þess svo framandi, með allt sitt látbragð og látalæti. Þeir koma mér frekar fyrir sjónir sem leikarar sem reyna að skila sínu hlutverki með sæmd heldur en fólk sem er einfaldlega að lifa sínu lífi. Oft læðist 7

Tvíflautan Demy.indd 7

7.9.2017 10:28


að mér sá grunur að það hlýði skipunum kröfuharðs leikstjóra sem líti á sviðið ofan af himnum og geti hvað úr hverju hrópað: „cut!“ Ég ákveð að hafa vespuna ekki í augsýn vinnuveitenda og legg henni í hæfilegri fjarlægð. Ég er nefnilega nýkominn úr viðtali á pítsustað einum og þar tók ég eftir því að heldur dró úr áhuga á sendlinum eftir að menn komu auga á þessa litlu Yamaha Jog. Við Drakú standa skyndibitastaðir, kaffihús, krár og veitingastaðir hlið við hlið. Hvarvetna er búið að setja stóla og borð út á þessa snotru göngugötu eins og vant er á þessum árstíma. Alls staðar er þröngt setið svo að það er eins konar hátíðarstemning í loftinu jafnvel þótt hvorki sé hátíð né helgi. Há tré standa um miðja göngugötuna. Þar dvelja engisprettur og láta vel í sér heyra í hitanum. Sá seiðandi söngur ljær þessu kvöldi enn óraunverulegri blæ í huga Íslendingsins. Eftir stutta göngu sé ég stórt, tignarlegt hús og fyrir framan það er ljósaskilti sem á stendur: „Jannis Glezos & Maríza Koch. Tví­ flautan: grænmetisveitingastaður, tónlistarhús og menningarmiðstöð. Grísk tónlist leikin af fingrum fram.“ Noh, það munar ekki um það. Sendlar fá greinilega að láta til sín taka í hreysum og höllum hér í Aþenu, hugsa ég með mér. Þessi höll er svo ólík pítsustaðnum að mér þykir það lyginni líkast að sama erindið reki mig á báða þessa staði. Klukkan er tæplega níu og ég á að mæta til viðtalsins klukkan hálf tíu svo að ég gef mér tíma til að virða fyrir mér bygginguna á meðan ég fel mig í mannþrönginni. Þetta er gult, tveggja hæða steinsteypt hús. Gluggar stórir með grænum gluggahlerum úr timbri. Við miðja bygginguna er stór og há tréhurð. Dyrnar 8

Tvíflautan Demy.indd 8

7.9.2017 10:28


standa opnar uppá gátt en fyrir framan þær eru tröppur með þremur þrepum. Þessi inngangur er svo tignarlegur að það er engu líkara en sjálft gullna hliðið sé komið við göngugötuna þótt ekki sjái ég Pétur í fljótu bragði. Vinstra megin við tröppurnar er lítil tréhurð sem greinilega vísar niður í kjallarann. Á efri hæðinni eru litlar svalir. Horn hússins sem og efsta rönd þess er skreytt í hinum svokallaða jóníska stíl. Þessi bygging myndi sóma sér vel sem sendiráð einhverrar stórþjóðarinnar, hugsa ég með mér. Fyrir utan eru tvær borðaraðir en á milli þeirra fara þeir sem leið eiga um göngugötuna og eins léttklæddar þernur með fulla bakka af veitingum. Ég er farinn að fyllast kvíða við að horfa á öll herlegheitin og ákveð að láta nú slag standa og gera grein fyrir mér. Ég tek því á rás og stefni að himinháu hurðinni. Það fer um mig fiðringur enda liggur jafnan mikið við þegar komið er með sálina hans Jóns að gullna hliðinu. Skyldi ég fá inngöngu? Ekki virðist svo ætla að verða því að þegar ég er kominn í annað þrep heyri ég kallað: „Hvert er þú að fara, góði?“ Ég lít niður og sé að fyrir framan tröppurnar situr síðhærður og svarthærður maður með svo drungalegt augnaráð að mér finnst ég hafa verið gripinn í landhelgi. Brún augun minna mig á fálka sem horfir á dúfu. Hann er svo mjósleginn að víð fötin hanga utan á honum. Svona hafði ég ekki ímyndað mér hann Lykla-Pétur. „Ég á að mæta í viðtal hérna,“ svara ég án þess að láta nokkurn bilbug á mér finna og ætla að halda leið minni áfram. „Heyrðu, hvaða viðtal?“ segir maðurinn þá nokkuð hastarlega. 9

Tvíflautan Demy.indd 9

7.9.2017 10:28


„Atvinnuviðtal,“ svara ég. „Það er ekki fyrr en klukkan hálf tíu.“ Mér er þá ljóst að þarna er yfirmaðurinn sjálfur. Viðkynningin er orðin hin vandræðalegasta. „Já, en ég átti leið hérna hjá og ákvað bara að koma aðeins fyrr. Hentar það ekki ágætlega?“ spyr ég og læt af öllum fyrirgangi. „Sestu,“ segir hann og bendir á sætið hinum megin við litla hringlaga borðið sem hann situr við. Á meðan ég er að koma mér fyrir í sætinu kallar hann; „Jota, komdu með blað og penna.“ Ung kona sem greinilega er með litað ljóst hár en hrafnsvört augu kemur gangandi í áttina að okkur með blað og penna. Hún er í þröngri skyrtu og pilsi svo að sjá má að hún er afar vel vaxin. Brjóstin stinn og mjaðmirnar víðar. Göngulagið myndi hæfa hvaða fyrirsætu sem er á tískusýningu í París en þá bregður svo við að hún spyrnir óvart í mishæð eina á gangstéttinni og dettur næstum því um koll. „Í guðs bænum, reyndu að standa í lappirnar,“ hreytir maðurinn út úr sér. „Gjörðu svo vel, herra Glezos,“ segir þernan með vandræðalegt bros á vör meðan hún réttir honum blaðið og pennann. Rödd hennar er kynþokkafull og gamaldags. Mér líst satt að segja ekkert á viðmót þessa manns. Það er á honum einhvers konar vandlætingarsvipur rétt eins og að hann telji sig umvafinn fólki sem ekki sé verðugt nærveru hans. Hann minnir mig líka einna helst á mafíósa eins og þeir koma fyrir í bandarískum bíómyndum. Þó stingur klæðaburður hans í stúf við þá ímynd en hann er í hvítum og víðum bol, sem Al Capone hefði aldrei látið sjá sig í á meðan hann gekk laus. Hvað þá þessum víðu og gráu joggingbuxum eða hvítu reimalausu 10

Tvíflautan Demy.indd 10

7.9.2017 10:28


strigaskónum. Eins hefði mafíósi frekar gætt sér á viskíi í klaka en ekki vatni úr stóru bjórglasi sem þessi viðmótskaldi maður hefur á borðinu fyrir framan sig. Hann tekur við blaðinu og pennanum án þess að líta á þernuna en horfir nokkuð hvasst á mig og spyr: „Og hvað heitir þú?“ „Jannis,“ svara ég. „Jannis? Ég heiti Jannis; Jannis Glezos. Þú lítur nú ekki út fyrir að heita Jannis,“ segir hann eins og hann sé hneykslaður á þessari grískuvæðingu minni. „Nei, satt er það,“ svara ég. „Ég heiti reyndar Jón sem er íslenskt nafn og útfærist sem Jannis á grísku.“ „Nú, þá heitir þú Jón,“ segir hann og párar nafnið á blaðið. „Áttu vespu eða mótorhjól?“ „Já, ég á vespu.“ „Ertu með próf á hana?“ „Já,“ svara ég án þess að blikna enda hef ég oft þurft að hagræða sannleikanum þetta eina ár í Aþenu. „Þekkir þú hverfið hérna?“ „Já,“ svara ég svo sannfærandi að ég trúi lyginni næstum því sjálfur. Hann fær sér vatnssopa úr stóru bjórkrúsinni líkt og hann vilji gefa til kynna að fyrsta hluta þessa viðtals sé nú lokið. Ekki ólíkt spyrli í sjónvarpssal sem vill gefa þátttakendum færi á að varpa öndinni áður en lengra er haldið. „Tví­flautan er grænmetisveitingahús,“ segir hann. „Og við bjóðum upp á heimsendingar hér í grenndinni en fólk er ekki að nýta sér það of mikið þannig að þú yrðir að gera sitthvað fleira en að sendast með mat. Kanntu eitthvað fyrir þér við eldamennsku?“ 11

Tvíflautan Demy.indd 11

7.9.2017 10:28


„Já, ég hef einmitt unnið við eldhússtörf síðastliðinn vetur á mexíkóskum veitingastað,“ svara ég, sannleikanum samkvæmt að þessu sinni. „Þú myndir þurfa að gera ýmislegt fleira,“ heldur hann áfram. „Þetta er stórt hús og hér starfa samanlagt um 30 manns. Á veturna höldum við tónleika fyrir fullorðna á kvöldin og skólakrakka á morgnana svo að það er í mörg horn að líta. Þó að við störfum bara sem veitingahús á sumrin þá er þetta eitt mesta menningasetur Aþenu þegar dagskráin byrjar í haust.“ Mér líst mun betur á þetta tal um tónleikahald heldur en kröfurnar um kokkakunnáttu og ég færist allur í aukana. „Já, það er bara gaman að því. Sjálfur er ég tónlistarmaður, ég gæti þess vegna leikið á píanóið eða gítar ef með þarf.“ Það er engu líkara en honum þyki þetta óþarfa uppivöðslusemi. „Við erum nú ekki vön að láta sendisveina um spilamennskuna. Til þess höfum við atvinnumenn.“ Hann greinir mér frá því að launin séu sex þúsund drökmur á dag sem mér þykir ásættanlegt. Því næst sammælumst við um að ég skuli hefja störf til reynslu. „Þú mætir þá á morgun klukkan fimm. Jota tekur á móti þér.“ Ég horfi á Jotu eða réttara sagt á afturendann á henni þar sem hann fer dillandi í áttina að viðskiptavinum sem vilja gera upp. Ég lít á Glezos, tek í hönd hans og segi: „Ég verð mættur klukkan fimm.“ Þannig vildi það til að ég hóf störf á Tví­f lautunni. Þar sem ég ligg í rúminu reyni ég að leiða þessar grísku endur­ minningar hjá mér. Ég opna bók og byrja að lesa en hugurinn vill 12

Tvíflautan Demy.indd 12

7.9.2017 10:28


ekki segja skilið við þetta sumarkvöld á Drakú. Ég legg bókina á náttborðið. Endurminningarnar hafa sigrað. Ég halla aftur augum og finn hvernig vitundin raðar liðnum atburðum á sögu­ þráð. Síðan rennur hann fyrir innri augum mínum rétt eins og filma fyrir ljósopi. Og ég svíf úr spænskri aftureldingu á vit þessa aþenska sumarkvölds. Ég heyri söng engisprettunnar og sé háu trén sem tróna um miðja göngugötuna. Ég finn fyrir tilhlökkuninni og spennunni sem hríslast innra með mér meðan ég vitja vespu minnar þessa óraunverulegu kvöldstund við Drakú. Það er þó einhver beygur í mér líka. Innst inni veit ég að þessi tilfinningakokteill á eftir að verða að miklum ævintýrum innan veggja þessa tignarlega húss. Ég ákveð því að fara ekki á þriðja veitingastaðinn þótt ég hafi párað nafn hans á krumpaðan miðann. Miðann sem ég krem í hendi mér og fleygi í göturæsið. Teningunum er kastað.

13

Tvíflautan Demy.indd 13

7.9.2017 10:28


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.