
5 minute read
Öryggi og ábyrgð
Stjórn Q–félags hinsegin stúdenta
Qvað eru öruggari rými?
Advertisement
Öruggari rými eru rými sem búin eru til fyrir jaðarsett fólk, þar sem þau geta verið þau sjálf án þess að mæta öráreiti, áreiti eða fordómum. Í öruggum rýmum er þeim mætt af virðingu og alúð og þess vegna eru rýmin öruggari en flest önnur rými í samfélaginu. Samfélagið okkar byggir í grunninn á félagslegum reglum sem upphefja heteronormatív gildi sem leiða til þess að flest rými passa aðallega upp á öryggi þeirra sem eru í forréttindastöðu. Talað er um öruggari en ekki örugg rými vegna þess að öryggi er afstætt og fer eftir því hverjum rýmið á að þjóna. Notendur rýmisins skilgreina sjálf hvernig rýmið á að virka þannig að það mæti öryggisþörfum hvers og eins einstaklings í rýminu. Fólk þarf að huga sérstaklega að trúnaði, stunda virka hlustun og sýna virðingu fyrir því hvað öll innan rýmisins eru ólík, með tilliti til samtvinnun mismunabreyta, áfalla, upplifana og fleiri þátta. Mikilvægt er að taka mark á orðum fólks, trúa þeim, gefa tilfinningum rými, mæta þeim með ást og styðja þau sem deila þeim með hópnum. Öruggari rými eru til þess að vera glöð og leið saman, vera reið og sár, deila upplifunum og sögum, eða einfaldlega bara til að vera.
Af Qverju þau eru góð?
Öruggari rými fyrir hinsegin fólk skipta máli bæði persónulega og í stærra samhengi, þar sem hinsegin fólk þarf oft bæði að svara fyrir eigin tilvist og vera málsvari alls hinsegin samfélagsins á sama tíma. Hinsegin rými geta verið velkomin pása frá þessum raunveruleika. Rými eins og húsnæði Samtakanna ‘78 á Suðurgötu 3 skipta hinsegin fólk ofboðslega miklu máli, sem tilgreint öruggara rými fyrir hinsegin fólk. Þar finnur hinsegin fólk það sem oft er kallað valin fjölskylda eða chosen family. Öruggari rými skapa samfélag fyrir jaðarsett fólk og gera þeim kleift að kynnast, skiptast á reynslu, sögum og þekkingu. Borinn er þunginn af því að kljást við mótbárur frá samfélaginu saman. Margt jaðarsett fólk setur upp grímu (e. masking) í óöruggari rýmum til þess að takast á við öráreiti, fordóma og ofbeldi, sem öruggari rými veita skjól fyrir.
Af Qverju er þörf á þeim?
Það er mikilvægt að fólk geti haft aðgang að öruggara rými þar sem fólk getur verið það sjálft og því mætt á eigin forsendum. Fyrir margt hinsegin fólk þá eru staðir þar sem við verjum mikið af okkar tíma, svo sem vinnustaðir, skólar og heimili, ekki örugg rými. Við verðum að standa vörð um að þegar við bjóðum upp á öruggara rými að við séum að fylgja því loforði eftir. Á tímum sem þessum, þar sem við sjáum hatur í garð hinsegin fólks grassera og lagaleg bakslög eiga sér stað erlendis, er mikilvægast að standa vörð um það öryggi og þau réttindi sem hinsegin fólk hefur.
Aukið pláss á samfélagsmiðlum fyrir hatursfulla umræðu hefur alvarlegar afleiðingar. Að sjá fleiri og fleiri hinsegin unglinga og börn koma út þegar þau eru enn í grunnskóla yljar okkur, sem gátum og þorðum ekki að koma út fyrr en við vorum eldri, um hjartarætur. Þau verða þó í dag fyrir miklu aðkasti frá óhinsegin ungmennum fyrir það að þora að koma út og vera þau sjálf. Ekki aðeins ungmenni verða fyrir aðkasti, en við sjáum stofnaða hópa sem vinna gegn réttindabaráttu hinsegin fólks víðar, jafnvel á þingi, þar sem standa ætti vörð um hagsmuni allrar þjóðarinnar. Þess vegna eru hinsegin rými fyrir ungt fólk, eins og hinsegin félagsmiðstöðin, afar mikilvæg. Við hvetjum öll til að kynna sér hvernig örugg rými geta stuðlað að heilbrigðara samfélagi og nýti sér eftirfarandi punkta í daglegu lífi til að gera heiminn aðeins öruggari.
Qvað gerir örugg rými að öruggum rýmum?
Það er þörf á skýrum reglum í öruggari rýmum. Það felst mikil ábyrgð í því að viðhalda þeim, minna stöðugt á þær og stuðla að öryggi allra í rýminu.
- Leiðrétta fólk og sjálf sig
Hvert og eitt verður að vera óhrætt við að leiðrétta sig og aðra einstaklinga ef eitthvað fer á mis og tala af virðingu við og um hvert annað. Ef fólki er annt um þann sem mismælist um þá tekur fólk vel í leiðréttinguna.
- Vísa fólki út
Ef einstaklingar í rýminu sýna öðrum viðstöddum ekki virðingu má vísa þeim burt þar sem öryggi annarra er sett í forgang.
- Stuðningur
Öruggari rými eru staður fyrir fólk til að hlúa að sér og öðrum í kringum sig. Það er engin krafa gerð um að vera hress eða koma með lausnir á vandamálunum, heldur hlusta á og vera til staðar fyrir þau sem segja frá.
- Trúnaður
Skapaðu rými fyrir aðra til að tala eða deila skoðunum. Nauðsynlegt er að halda trúnaði um hver mæta, hvað er sagt, um hverja og hvað er talað.
- Mörk
Að virða mörk annarra og fá rými til að setja þau mörk sem við viljum hafa sjálf, bæði líkamleg og tilfinningaleg.
- Opinn hugur
Ekki áætla eða dæma kynvitund, kynhneigð, trúarbrögð, heilsufar, fjárhag, skoðanir eða annað sem viðkemur bakgrunn annarra.