5 minute read

„Takið þátt“ - Viðtal við Kristmund Pétursson

Hallberg Brynjar Guðmundsson (hann/hans)

Kristmundur Pétursson er 25 ára gamall trans maður og stúdent við félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands. Til gamans má geta að Kristmundur er Hrútur í stjörnumerki, er einnig ritari Röskvu og hefur verið áberandi í mannréttindabaráttu hinsegin fólks á Íslandi. Blaðamaður Stúdentablaðsins settist niður með honum og ræddi málefni hinsegin fólks innan Háskóla Íslands, en stjórn háskólans hefur sætt nokkurri gagnrýni hvað varðar hæg viðbrögð við kröfu stúdenta um að fjölga ókyngreindum salernum á háskólasvæðinu.

Advertisement

Kristmundur Pétursson (hann/hans)

Aðspurður því hvernig honum þætti háskólinn koma til móts við réttindi trans nemenda við skólann segir Kristmundur að margt hafi breyst, en að skólinn geti gert betur.

,,Sem stofnun hefur háskólinn gert margt, þau eru með verklög og lausnir fyrir margs konar aðstæður en mér finnst þær ekki nógu aðgengilegar nemendum. Til dæmis var mjög gott fyrir mig að geta breytt nafninu mínu í kerfum háskólans (Uglu og Canvas) þrátt fyrir að ég væri ekki búinn að gera það í þjóðskrá. Það var eitthvað sem ég komst að í gegnum félaga mína sem hefðu gert það sama, þetta voru ekki upplýsingar sem komu frá háskólanum. Það er þannig með háskólann, maður þarf að finna þetta út sjálfur.“

Kristmundur segir að auðvelt væri að betrumbæta upplýsingaflæðið frá háskólanum, og nefnir ýmsar lausnir:

,,Það væri geggjað að fá upplýsingabækling frá skólanum sem væri sérsniðinn að hinsegin nemendum, eða að vera með hinsegin nýnemadaga.“

Annað sem háskólinn mætti gera betur fyrir nemendur sem eru trans væri að taka niður kynjamerkingar af salernum innan skólans. Sem trans maður segist Kristmundur hafa lent í óþægilegum aðstæðum þegar kemur að salernisferðum.

„Kynjamerkingarnar trufluðu mig sérstaklega þegar ég var að byrja í skólanum.Þá var ég óöruggur við það að fara inn á salerni merkt karlmönnum, sérstaklega þegar það er einn bás og skálar. Mér leið þegar óþægilega að vera þar inni, sérstaklega þegar maður þarf að bíða eftir básnum. Ég vil bara fara inn og út.“

Annað sem Kristmundur hefur neyðst til að gera er að þurfa að ganga á milli bygginga til þess að finna viðeigandi salerni;

„Ég hef hoppað á milli bygginga vegna þess að ég treysti mér ekki að nota salernið í Háskólabíói t.d. en þá fer ég í Veröld.“ (Veröld er ein fárra bygginga á háskólasvæðinu sem er með ókyngreind salerni).

Til þess að bæta aðgengi trans fólks að salernum á háskólasvæðinu stingur Kristmundur upp á lausn sem virðist vera auðveld í framkvæmd; ,,Bara taka niður kynjamerkingarnar.“

Þegar Kristmundur er spurður um fleira sem háskólinn mætti gera betur stingur hann upp á hinsegin fræðslu fyrir kennara.

,,Það er slatti af kennurum sem eiga að kunna orðaforðann sem þarf þegar verið er að tala um hinsegin og trans fólk, kennarar þurfa að hætta að tala um kynin tvö. Það mætti líka bjóða öllum kennurum upp á hinsegin fræðslu, því að koma fram við hinsegin og trans fólk af virðingu er eitthvað sem þau mættu taka til sín.“

Hins vegar, þegar kemur að félagslífinu í Háskóla Íslands lýsir Kristmundur jákvæðri reynslu af viðbrögðum og hegðun samnemenda sinna gagnvart trans og hinsegin fólki.

,,Það er mjög mikilvægt að það sé í boði bæði hinsegin viðburðir, eins og Q–félagið er að halda, ásamt því að hinsegin fólk sé velkomið á almenna viðburði. Sem ritari Röskvu get ég sagt að hinsegin fólk er klárlega velkomið innan Röskvu og meðal annarra nemenda í skólanum. Ég hef ekki upplifað að það að ég sé trans maður sé vesen og ég finn fyrir miklum stuðningi hjá opnum og fjölbreyttum hópi samnemenda. Ég hef ekki lent í fordómum frá jafningjum en ég hef orðið fyrir öráreitni, oftast út frá misskilningi eða vanþekkingu einstaklinga á hinsegin málefnum, það kemur meira frá kennurum.“

Á undanförnum mánuðum hafa fordómar gegn hinsegin fólki ítrekað gert vart við sig á Íslandi. Pride fánar hafa verið skornir niður, hatursumræða hefur orðið meira áberandi á netinu og því er mikilvægt að bregðast við þessari þróun, sama hversu smávægileg hún kann að virðast vera. Þegar Kristmundur er spurður að því hvað fólk geti gert til að berjast gegn fordómum segir hann að mikilvægt sé að sporna gegn aðgerðaleysi.

,,Ekki vera hlutlaus, ekki hunsa þetta. Þó að þetta sé smá fyrirséð, því þegar framfarir eru komnar þá má alltaf búast við bakslögum, en þótt að bakslögin séu nú að birtast í vægari mynd þá er þetta alltaf jafn skaðlegt. Mér finnst mjög sorglegt að sjá að fordómar eru notaðir gegn ungu fólki og trans konum sérstaklega. Þau eru að taka skellinn af þessu núna og hjarta mitt er hjá þeim. Ef fólk er að lenda í áreiti í háskólanum þá mæli ég með því að það hafi samband við Q–félagið, þau ættu að geta aðstoðað einstaklinga. Annað sem ég vil segja er að öll vitundarvakning er mikilvæg þegar kemur að baráttunni gegn fordómum, samfélagsmiðlar hafa hjálpað mikið með það. Ekki vera þögul þegar kemur að fordómum og dreifið orðinu svo að hægt sé að stíga upp gegn þeim.“

Að lokum, eftir þetta upplýsandi og áhugaverða viðtal við Kristmund kveður hann með hvatningu til nemenda að stunda félagslífið af krafti. Það sé sérstaklega mikilvægt í ljósi þess að við erum að skríða undan heimsfaraldri sem hefur lamað félagslíf nemenda síðastliðin ár.

„Ég hvet fólk til þess að nálgast og taka þátt í félagslífi skólans í stað þess að einangra sig. Það eru alls konar félög í boði svo að öll ættu að finna sína fjöl. Mér finnst það mikilvæg skilaboð, sérstaklega eftir þessi 2 Covid-ár. Takið þátt, þið sjáið ekki eftir því.“

This article is from: