4 minute read

Hugleiðing um hinseginleikann

Tess Mavrommati (hún/hennar, hán/háns)

Hvað þýðir orðið „hinsegin“? Það er órjúfanlegur hluti af sjálfsmynd margra okkar, á meðan önnur telja það vera ímyndun. En hvað þýðir það í raun og veru?

Advertisement

Það er það skemmtilega við fyrirbærið hinsegin. Það er sveigjanlegt í skilgreiningu sinni, og er regnhlífarhugtak sem notað hefur verið af LGBTQIA+ samfélaginu í áraraðir, en er rétt farið að skipa sér sess í almennri fréttaumfjöllun og samfélaginu í víðara samhengi. Þess vegna, ef til vill, er hægt að skilgreina orðið á mismunandi hátt. Orðið á ensku lýsti upprunalega einhverju furðulegu, en nútímafyrirbærið hinsegin er eitthvað sem við erum enn að ræða, og rífast um.

Stór hluti okkar hefur fundið frið innan þessa regnhlífarhugtaks. Það meikar sens, er það ekki? Þetta er flæðandi orð; það þarf ekki að skilgreina það til hlítar eða uppfylla ströng skilyrði. Fyrir sum er það ástæða þess að við ættum ekki að nota það; að vegna þess hve flæðandi það er, verði það merkingarlaust.

Mig langar hins vegar að horfa á hugtakið út frá öðru sjónarhorni, og líta til félagsfræðinnar.

Tungumál hefur veigamiklu hlutverki að gegna út frá félagsfræðilegu sjónarmiði. Raunvísindamenn eru meira að segja sammála því að tungumál mótar meðvitund mannfólks; því fleiri orð sem manneskja lærir, því betur getur hún skilgreint heiminn í kringum sig. Mannfræðingar og annað fræðafólk í skyldum greinum skilja vægi tungumálsins hvað varðar þau flóknu félagslegu net sem einkenna mannfólk nútímans. Ef við gætum ekki talað, gætum við ekki gert okkur grein fyrir þeim flóknu fyrirbærum og hugtökum sem samfélag okkar byggist á. Lögin sem við förum eftir í sameiningu, viðskipti og sambönd okkar við annað fólk eru til staðar vegna tungumáls, og framþróun þess. Því flóknara sem málið verður, því framsæknari og þróaðri verðum við í hugsunarhætti okkar.

Og kannski nær það yfir hugtakið „hinsegin“. Nýtt orð sem mætir þörfum nútímans. Reynt hefur verið að finna einhverja líffræðilega tengingu við orðið, ýmist til þess að styrkja það eða hafna því, en ég held að hún sé ekki til staðar. Flestir hlutir í nútímasamfélagi eru ótengdir líffræði eða náttúrunni, en eru samt órjúfanlegir hlutir af raunveruleikanum, og við notum þá til þess að þróa það hvernig við hugsum. Þetta finnst mér líka eiga við hugtakið „hinsegin“.

Hvers vegna þurfum við á þessu orði að halda í dag? Hvaða hlutverki þjónar það í sameiginlegri meðvitund okkar? Mér finnst svarið við þeirri spurningu nokkuð einfalt; við höfum áttað okkur á því að lífið er ekki svarthvítt, og við þurfum orð til þess að gera því betri skil. Þetta kemur kannski einhverjum á óvart, en 20. öldin er liðin. Fólk er hætt að skilgreina sig út frá þeim hlutverkum sem því var úthlutað við fæðingu, og vilja hafa frelsið til þess að velja sitt eigið hlutverk og skilgreina sjálfið og lífið.

Að samþykkja fyrirfram ákveðið hlutverk, eftir allt saman, er ekki eitthvað sem hentar okkur öllum. Ætli fólk sem styður kynjakerfið átti sig ekki á þig hvað þetta er leiðinleg leið til þess að lifa? Að vera fastur í kassa þegar þig langar að kanna innri og ytri flóru lífsins? Kannski upplifði fólk öryggi í svo afgerandi kerfi á tímum þar sem lífið var óreiðukennt. Það er hugsanleg ástæða þess að fólk virðist hverfa aftur til strangari hugmyndafræði þegar óstöðug tímabil gera vart við sig í samfélaginu.

Eins og staðan er í dag, hins vegar, er hluti af heiminum staddur á tímabili þar sem samfélagið er tiltölulega stöðugt, og þá gefst rými til að hugsa lengra en til þess að lifa einfaldlega af. Fleiri og fleiri átta sig á því að þau eru hinsegin - og af hverju ættum við að sætta okkur við tilvist sem einhver annar ákvað að væri rétta leiðin til að lifa? Hvað vitum við nema það fólk hafi einfaldlega verið heimskt?

Burtséð frá lélegum húmor, er mikilvægt að átta sig á því að ef við skilgreinum kynvitund og kynhneigð sem svarthvíta, í stað þess að horfa á það sem róf, veldur það vanlíðan hjá þeim sem passa ekki inn í þessa fyrirfram ákveðnu kassa. Gagnkynhneigðarhyggja og kynjakerfi eru kæfandi fyrir þau okkar sem tengja ekki við hana. En fyrir önnur, veita þessir hlutir kannski einhverja hugarró. Og það er allt í lagi. Það er allt í lagi EF það fólk samþykkir brotthvarf okkar hinna frá tvíhyggjunni og skilur að við viljum vera flæðandi, hinsegin og hýr og halda áfram að þróa sameiginlega meðvitund okkar með hjálp tungumálsins.

This article is from: