
4 minute read
Hipp, hipp, húrra fyrir kváradeginum!
Sindri Snær Jónsson (hann/hans)
Við Íslendingar þekkjum vel hefðina í kringum bóndadaginn og konudaginn og eru þessir dagar haldnir hátíðlegir með svipuðu móti og Valentínusardagurinn, nema þá dekrar annað hvort bóndinn við konuna eða þá konan við bóndann (samkynhneigð pör geta vissulega tekið þátt í þessari hefð, þó að ég og samkynhneigðu vinir mínir tengjum lítið sem ekkert við hana). Nýverið sáum við sem samfélag svo ástæðu til þess að taka upp Valentínusardaginn til viðbótar, og má sjá allar auglýsingar skipta um tón í byrjun febrúar. Þessar hefðir eiga sér ennþá stað í samfélagi gegnsýrðu af gagnkynhneigðum viðmiðum (e. heteronormativity) og skiljanlega mun samkynhneigt fólk sem ólst upp við að horfa á gagnkynhneigt fólk halda upp á gagnkynhneigð sína á þessum dögum ekki finna þörf að halda í þessa hefð eða líða eins og það tilheyri henni. Þrátt fyrir það eru þessir dagar tilefni sem allt sískynja fólk getur tekið þátt í, vegna þess að í grunninn þarf bara að minnsta kosti eina konu eða einn bónda. En hvað þá með kynsegin fólk?
Advertisement
Þann 22. mars á þessu ári var kváradagurinn haldinn í fyrsta sinn á Íslandi, en sá dagur er tileinkaður þeim sem passa ekki inn í kynjatvíhyggjuna (e. gender binary), en vilja líka dekra við makann sinn eins og gert er á bóndadeginum og konudeginum. Orðið kvár (sem beygist eins og ár) er tiltölulega nýtt orð sem lýsir fullorðinni manneskju sem finnur sig ekki innan kynjatvíhyggjunnar, en nýyrðasmiður þess orðs var Hrafnsunna Ross, sem fékk hugmyndina í aðdraganda hýryrðakeppnarinnar árið 2020. Regn Sólmundur Evu er 24 ára listakvár og er einnig stofnandi kváradagsins á Íslandi.
,,Sem barn hafði ég engin hugtök til að grípa í,“ segir hán. ,,Ég fann á mér að ég væri eitthvað öðruvísi, en mig skorti fyrirmyndir, fordæmi og orð til að útskýra hvernig mér leið. Það var svolítið einmanalegt, ef ég á að vera hreinskilið. Að lokum, um tvítugt, sætti ég mig við það að ég væri kynsegin og ég fann svo mikið frelsi í því. Að fá bara að vera ég. Ég syrgi stundum innra barnið mitt sem leið svo oft illa því það kunni ekki að segja frá því sem það upplifði.“
Á þessum tímum virðist vandamálið stigmagnast ört varðandi hvar kynsegin fólk passar inn í myndina sem mótuð er eftir gagnkynhneigðum viðmiðum og kynjatvíhyggju. Regni fannst alltaf vandkveðið að dýpka þekkingu sína á ýmsum þjóðarhefðum og menningarheimum í vestrænu samfélagi akkúrat vegna þess að það er gegnsýrt af hugmyndafræði feðraveldisins, sem við könnumst flest vel við.
,,Mér fannst kjörið tækifæri að búa bara til hátíðisdag, þar sem allar hefðir þurfa að byrja einhversstaðar, og ákveða bara dagsetningu.“ Kváradagurinn í ár var haldinn á fyrsta degi einmánaðar, en ástæðan fyrir því að sá dagur varð fyrir valinu er sú að bæði bóndadagurinn og konudagurinn eru dagsett eftir gamla norræna dagatalinu, þar sem bóndadagurinn er alltaf haldinn á fyrsta degi Þorra og konudagurinn haldinn á fyrsta degi Góu.
Regn nefnir einnig að Trans Ísland hafi reynt að koma í hefð svipuðum degi fyrir kynsegin fólk á síðasta degi einmánaðar, en vegna skorts á orðum og sýnileika hvað varðar kynsegin fólk var hátíðin ekki haldin aftur fyrr en Regn stofnaði kváradaginn. Enn áhugaverðara er að hán hefur fengið ábendingar um að fyrsti dagur einmánaðar sé einnig yngissveinadagurinn svokallaði, en háni finnst allt í lagi að báðar hátíðir eigi sama dag þar sem hán hefur aldrei séð neinn halda upp á yngissveinadaginn. ,,Svo mega vera tvö eða fleiri hátíðleg tilefni á sama degi. Til dæmis á pabbi minn afmæli á aðfangadag og mér finnst bæði afmælið hans og jólin jafn hátíðlegt tilefni,“. Regn segir það hafa glatt sig mjög mikið hvað það var tekið vel í þessa hugmynd og vonar hán að það skapist hefð í kringum þennan dag.

Regn Sólmundur Evu (hán/háns)
Næst verður kváradagurinn haldinn þann 21. mars 2023 og Stúdentablaðið hvetur öll til þess að sýna kynsegin vinum sínum stuðning og halda daginn hátíðlegan.