fimmtudagur 2. apríl 2020 // 14. tbl. // 41. árg.
4 // VÍKURFRÉTTIR Á SUÐURNESJUM Í 40 ÁR
Páll Ketilsson pket@vf.is
Höfum fengið frábærar mótttökur, segir Gunnhildur Brynjólfsdóttir, verslunarstjóri í SPORT24
Brjálað að gera í nýrri búð í Keflavík „Við höfum fengið fljúgandi start og það á tímum Covid-19. Það er búið að vera brjálað að gera,“ segir Gunnhildur Brynjólfsdóttir, verslunarstjóri í SPORT24 en það er ný íþróttavöruverslun sem opnaði nýlega í sama húsnæði og K-sport var í. Gunnhildur sagði að það væri breitt úrval af íþróttavörum á alla aldurshópa. „Ég var spurð hvort við ætluðum ekki að hafa skertan opnunartíma en það er bara búið að vera svo mikið að gera að við höfum haft opið til kl.18 virka daga og til 16 á laugardögum. Þetta er bara mjög skemmtilegt. Það er gaman að fá svona móttökur,“ sagði Gunnhildur. Hún sagði að íþróttafatnaður væri mjög vinsæll núna þegar margir væru heima við og ekki á vinnustöðunum í sama mæli og fyrir Covid-19. „Þá býr þessi verslun við það að eigendurnir eru með fleiri verslanir og stóran lager. Ef ég sé að sumt er ekki að virka þá skipti ég því út og fæ annað í staðinn. Sama er ef það er ekki til stærð eða gerð sem viðskiptavinurinn er að biðja um. Þá erum við fljót að útvega vöruna frá Reykjavík. Við erum mjög bjartsýn á framtíðina og ætlum að sinna Suðurnesjamönnum vel,“ sagði þessi hressa Keflavíkurmær.
Rólegt en til þjónustu reiðubúin í Optical „Það er búið að vera mjög rólegt hjá okkur en þó er alltaf eitthvað sem þarf græja og laga. Við þurfum að þjónusta fólkið og erum hér til þess,“ sagði Linda Ólafsdóttir, verslunarstjori í Optical Studio við Hafnargötu í Keflavík. Linda sagði að þetta væri mest lagfæringar og þjónusta með gleraugu. En svo væri verslunin að auglýsa linsur í heimsendingu og hún sagðist eiga von á að einhverjir myndu nýta sér það. Optical verslun í Flugstöð Leifs Eiríkssonar hefur verið lokað tímabundið á tímum Covid-19 en aðrar verslanir fyrirtækisins í Keflavík, Smáralind og Hafnartorgi opnar. „Þetta eru skrýtnir tímar, mjög skrýtnir,“ sagði Linda að lokum í stuttu spjalli við blaðamann Víkurfrétta í dyragættinni í versluninni.
Skessan komin á Feisbúkk Skessan í hellinum er nýbúin að stofna þessa Facebook-síðu þar sem hún ætlar að koma með hugmyndir að daglegri afþreyingu fyrir yngstu kynslóðina á meðan á þessum óvenjulegu tímum stendur. Hjálpið Skessunni endilega að fjölga fylgjendum á síðunni með því að líka við hana og deila henni.
Fjarfundað í bæjarstjórn og nefndum Sveitarfélagsins Voga Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga hefur samþykkt samhljóða að heimilt verði að nota fjarfundabúnað á fundum bæjarstjórnar og fundum nefnda og ráða Sveitarfélagsins Voga. Auk þess voru leiðbeiningar um framkvæmd fjarfunda samþykktar á síðasta bæjarstjórnarfundi í Vogum. Einnig felur bæjarstjórn bæjarráði að útbúa reglur fyrir sveitarfélagið um heimild til fjarfunda.