3 minute read
STINNINGSKALDI SLÆR Í GEGN
„Þögn er ekki til í okkar orðabók, við erum að allan tímann. Við ætlum að fjölga í sveitinni og fá stelpur inn líka,“ segir Friðrik Sigurðsson sem fer fyrir nýju stuðningsmannasveit Grindvíkinga.
GRINDAVÍK
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson sigurbjorn@vf.is
Friðrik er nokkurs konar fyrirliði hópsins. „Þetta byrjaði má segja í úrslitakeppninni í körfu í vor en þá tókum við okkur nokkrir saman og studdum okkar menn. Þó svo að stuðningurinn hafi ekki skilað sigri í þeirri rimmu, myndaðist góð stemning á meðal okkar, við fundum hvað þetta var gaman. Svo fengum við símtal frá Hermanni Ólafssyni í Stakkavík, hann hafði tekið eftir okkur þegar hann horfði á Grindavík í körfunni og athugaði hvort við værum ekki til í að búa til stemningu í kringum fótboltann. Við ákváðum bara að taka slaginn, við erum ungir og höfum gaman af lífinu og ætlum að hafa góða stemningu í sumar. Þetta hefur verið ótrúlega gaman, við erum að allan tímann og þögn er einfaldlega ekki til í okkar orðabók. Við erum nú þegar búnir að semja nokkra texta fyrir leikmenn, t.d. breyttum við „Suðurlandsins eina von“, í „Suðurnesja eina von, Símon Logi Thasaphon(g)“. Mig grunar að áður en sumarið verður búið, verði kominn texti fyrir alla í liðinu - og þjálfarateymið líka! Við látum líka stuðningsmenn andstæðinganna heyra það með saklausum banter, pössum okkur þó að vera aldrei dónalegir.“
Stelpur velkomnar og kvennaliðið líka stutt
Friðrik fór yfir aldurskiptinguna og það sé endalaust pláss fyrir nýja stuðningsmenn, og -konur. „Við erum mest átján til tuttugu og tveggja. Það hefur verið að bætast í hópinn, við munum endalaust taka við og við viljum sjá hressar og skemmtilegar stelpur bætast í hópinn líka. Ég man ekki eftir að hafa séð eins öfluga stuðningssveit hér á Íslandi, við erum alla vega langflottastir í Lengjudeildinni, líklega bara á öllu Íslandi. Við áttum Valsvöllinn t.d. um daginn í bikarleiknum, stuðningsmenn
Vals áttu ekki roð í okkur, við pökkuðum þeim saman bæði inn á vellinum og í stúkunni. Þetta var þvílík gleði og gaman að sjá hvað bæjarbúar eru ánægðir með okkur, maður getur varla farið í búðina án þess að fólk komi að manni og hrósi.
Við ætlum líka ekki bara að styðja karlaliðið, við munum líka mæta á leikina hjá vinkonum okkar í kvennaliðinu. Það var stíf dagskrá hjá okkur um síðustu helgi, við fórum með karlaliðinu vestur á Ísafjörð og fylgdum svo kvennaliðinu til Vestmannaeyja í bikarleik á móti ÍBV á sunnudag. Þetta voru frábærar ferðir sem við munum lengi geyma í minningarbankanum,“ sagði Friðrik.
Jónas man varla annað eins
Segja má að Jónas Þórhallsson sé lifandi goðsögn í grindvísku knattspyrnulífi. „Þessi stuðningssveit er stórkostleg og ég held að stuðningurinn eigi bara eftir að aukast eftir því sem líður á, sérstaklega ef árangurinn verður góður. Þessir strákar eru mjög frjóir og skemmtilegir og eru að allar 90 mínúturnar. Í gegnum tíðina höfum við oft fengið góðan stuðning, þegar við komumst í Evrópukeppni og þegar gengið var gott í efstu deild. Ég man samt ekki eftir öðru eins, það er sungið og trallað stanslaust frá upphafi til enda, þetta er bara stórkostlegt! Það er auðvelt að hrífast með í stúkunni, ég er nú kannski ekki búinn að læra alla textana en það kemur, auðvitað eiga allir í stúkunni að taka undir, ekki bara sitja og horfa. Leikmenn finna pottþétt fyrir svona stuðningi og spila þá betur. Ég hef góða tilfinningu fyrir þessu tímabili, það liggur í loftinu.“
Tólfti, jafnvel þrettándi maðurinn
Haukur Einarsson, formaður knattspyrnudeildar UMFG er mjög þakklátur fyrir stuðninginn. „Þetta munar bara öllu, þeir eru tólfti maðurinn í liðinu. Við höfum fundið fyrir vaxandi meðbyr, eftir að við byrjuðum að styrkja liðin með öflugum leikmönnum fann maður hvernig stemningin jókst og svo komu þessir strákar inn í þetta með mjög öflugum hætti. Þetta hefur líka áhrif á mætinguna á leiki, sennilega voru um 700 manns í stúkunni í dag, við höfum ekki séð svona fjölda í langan tíma. Ég á ekki von á öðru en Stinningskaldi eigi eftir að stækka enn frekar og stelpurnar bætist í hópinn. Það skiptir líka miklu máli að liðin séu að standa sig, það er erfitt að búa til stemningu nema gengið inni á vellinum sé gott, þetta helst alltaf í hendur. Ég held að bæði kvenna- og karlaliðið okkar eigi eftir að berjast um að komast upp um deild,“ sagði Haukur.
Helgi Sigurðsson er þjálfari Grindavíkur, hann á langan feril að baki og man ekki eftir öðrum eins stuðningi. „Þeir eru búnir að vera frábærir frá fyrsta degi, eru bara okkar tólfti og þrettándi maður. Ég hrósaði þeim mikið á fundinum með stuðningsmönnum fyrir leikinn, þetta gefur strákunum í liðinu svo ofboðslega mikið. Ég er búinn að spila með nokkrum liðum og þjálfa nokkur lið, ég man ekki eftir svona stuðningi. Þeir eru bara jákvæðir og skemmtilegir, syngja flotta söngva og búa til mikla gleði, fótboltinn á jú að snúast um gleði.“ Óskar Örn Hauksson skoraði eitt, ef ekki það fallegasta mark í sögu íslenskrar knattspyrnu í bikarleik á dögunum á móti Val, hann skaut fyrir aftan miðju og boltinn söng hinum megin í netinu. „Það liggur við að ég muni ekki eftir fögnuðinum eftir þetta mark, ég féll í hálfgerðan trans. Þó man ég vel eftir Stinningskalda, þeir eru að gefa okkur rosalega mikið og ég man bara ekki eftir öðru eins. Þeir gefa okkur mikla orku,“ sagði Óskar.
SÝNING Í REYKJANESBÆ 1. JÚNÍ