Önnur sæti
ÖNNUR SÆTI Sýning í höfuðstöðvum Arion banka, Borgartúni 19 13. mars – 4. maí 2018
Sýningarstjórar: Anna Dröfn Ágústsdóttir, Guðni Valberg og Íris Stefánsdóttir. Höfundur texta: Anna Dröfn Ágústsdóttir Teikningar: Viktoria Buzukina hjá Hvíta húsinu Hönnun: Hvíta húsið Þakkir: Ásmundur Hrafn Sturluson arkitekt, Haraldur Helgason arkitekt, Pétur H. Ármannsson arkitekt, Sigurður Ágúst Sigurðsson, Arkitektafélag Íslands, Listaháskóli Íslands, höfundar sem lánuðu tillögur og stofnanir og fyrirtæki sem aðstoðuðu við að finna teikningar.
Á sýningunni Önnur sæti er að finna verðlaunatillögur að 19 þekktum byggingum á Íslandi, hugmyndir sem hlutu viðurkenningu í arkitektasamkeppnum en ekki var byggt eftir. Sýningunni er ætlað að varpa ljósi á arkitektúr, ólíka valmöguleika og öðruvísi framtíðarsýn, hvernig hlutirnir hefðu mögulega getað orðið. Elsta tillagan á sýningunni er frá 1930 úr samkeppni um Akureyrarkirkju. Nýjasta teikningin er úr samkeppni um viðbyggingu við Sundhöll Reykjavíkur. Eingöngu eru sýndar teikningar sem hlutu annað eða þriðja sæti í samkeppnum eða vinningstillögur sem voru ekki notaðar af verkkaupa. Ein innkaup eru sýnd en þau eru úr samkeppni um skrifstofubyggingu Alþingis frá 1986, en höfundar þeirrar tillögu unnu samkeppni um skrifstofur Alþingis á sama reit, árið 2016. Margar samkeppnir hafa verið haldnar um hönnun bygginga og skipulag síðustu 90 ár en fyrstu áratugina hafði aðeins fámennur hópur rétt til þátttöku. Fyrsti fullmenntaði íslenski arkitektinn kom heim úr námi 1919 en tuttugu árum síðar voru þeir orðnir 11 talsins. Stífar reglur eru um samkeppnir meðal arkitekta og ólík samkeppnisform eru í boði. Umræða um samkeppnir, árangur af þeim, kostnað og vinnuframlag hönnuða er lifandi innan fagsamfélagsins. Skiptar skoðanir eru um samkeppnir og framkvæmd þeirra en viðhorf til þeirra er almennt jákvætt. Þær eru taldar geta verið „drifkraftur í framþróun byggingarlistar“ og geta verið leið fyrir unga arkitekta til að koma verkum sínum á framfæri. Í grein í tímaritinu Byggingarlistin sem félag Arkitekta gaf út um tíma var fullyrt árið 1956 að „flestar framfarir húsagerðar tæknilegar og listrænar“ ættu „rætur sínar að rekja til samkeppni“. Dæmi hver fyrir sig en það er staðreynd að margar af þekktustu byggingum Íslendinga eru byggðar samkvæmt tillögum úr samkeppni. Þessar byggingar eru þó ekki í sviðsljósinu á þessari sýningu heldur aðrar tillögur, að þessum sömu byggingum, sem vöktu líka athygli en ákveðið var að útfæra ekki frekar og byggja eftir.
AKUREYRAKIRKJA
AKUREYRARKIRKJA Samkeppnisár: 1930 Byggingarár: Ekki byggt eftir samkeppnistillögu / 1940 Tillögur: 5 Vinningssæti: 1. Arne Finsen 2. Sigurður Guðmundsson* 3. Guðmundur Þorláksson Dómnefndarfulltrúar: Jón biskup Helgason, Matthías Þórðarson þjóðminjavörður, Einar Finnsson byggingameistari og Ragnar Ásgeirsson garðyrkjumaður. Um keppnina: Sóknarnefnd Akureyrarsóknar óskaði eftir því í bréfi til biskups, 13. febrúar 1930, að hann auglýsti útboð á teikningum fyrir hina „væntanlegu nýju Akureyrarkirkju“. Sóknarnefndin hafði komið sér saman um að ný kirkja ætti að taka allt að 800 í sæti á gólfi en ekkert kom fram um hvort að svalir væru í kirkjunni eða í hvaða byggingarstíl hún skyldi vera. Tekið var fram að sitjandi og standandi gætu gestir verið allt að 1400. Fimm teikningar bárust og voru þrjár af þeim verðlaunaðar. Dómnefndarmenn voru allir úr Reykjavík. Fyrstu verðlaun hlaut Arne Finsen, danskættaður arkitekt sem bjó á Íslandi á þessum tíma. Talsverðar efasemdir voru hjá sóknarnefndinni um að byggja eftir tillögum Arne og drógust umræður um að hefja framkvæmdir í nokkur ár. Umræða um hina nýju kirkju var tekin upp aftur 1934 en á fundi bæjarstjórnar það ár kom fram mikil óánægja með vinningsuppdrátt Arne. Kirkjan þótti of stór og ákveðnir gallar á uppdrættinum vera þess eðlis að lítill áhugi var fyrir því að byggja eftir honum. Málinu var því aftur slegið á frest. Í bréfi sem séra Friðrik J. Rafnar sendi til húsameistara ríkisins árið 1937 segir hann Guðjóni Samúelssyni frá því að engin af verðlaunateikningunum falli í kramið. Kirkjan væri allt of stór og gerði ráð fyrir sætum fyrir 800 manns en svo stór kirkja yrði of dýr í rekstri. Ákveðið var að leggja allar tillögurnar frá 1930 til hliðar og fá Guðjón, húsameistara ríkisins, í verkið. Akureyrarkirkja var vígð árið 1940. * Tillaga er sýnd
ODDFELLOWHÚSIÐ
ODDFELLOW HÚSIÐ Samkeppnisár: 1931 Byggingarár: 1931 Tillögur: 11 Vinningssæti: 1.-2. Arne Finsen* 1.-2. Þorleifur Eyjólfsson Dómnefndarfulltrúar: Eggert Claessen, Helgi H. Eiríksson, Valgeir Björnsson, Guðmundur Ásbjörnsson og Jón Brynjólfsson. Um keppnina: Árið 1931 ákvað hússtjórn Oddfellow reglunnar að efna til teiknisamkeppni um nýtt regluheimili. Eftir að búið var að lista upp kröfur um fyrirkomulag, herbergjafjölda og fleira var leitað til Byggingameistarafélagsins. Félagið neitaði að taka þátt í samkeppninni nema að hússtjórnin myndi skuldbinda sig til að fela þeim sem hlyti fyrstu verðlaun framkvæmd verksins. Talsverð umræða hafði verið meðal arkitekta um þessi mál en félagið sniðgekk líka samkeppni um kirkju efst á Skólavörðuholti 1929 þar sem ekki kom fram í samkeppnislýsingu að sigurvegari fengi að gera endanlega uppdrætti að kirkjunni og í þeim stíl sem hann kysi. Arne Finsen og Þorleifur Eyjólfsson deildu með sér fyrsta og öðru sæti en ákveðið var að semja við Þorleif um útfærslu á endanlegum uppdrætti fyrir nýja byggingu. Velta má fyrir sér hvort að það hafi ráðist af því að Þorleifur var meðlimur í Oddfellow en Arne ekki. * Tillaga er sýnd
PERLAN
SAMKEPPNI UM FYRIRKOMULAG Á HITAVEITUGEYMUM Í ÖSKJUHLÍÐ Samkeppnisár: 1938 Byggingarár: 1940 /1991 Vinningssæti: 1. Engin tillaga valin 2. Sigurður Guðmundsson og Eiríkur Einarsson* 3. Gústaf Pálsson Dómnefndarfulltrúar: Bæjarverkfræðingur, fulltrúi frá hinu akademíska arkitektafélagi, Ásmundur Sveinsson myndhöggvari og Einar B. Pálsson verkfræðingur. Um keppnina: Vorið 1938 var boðað til samkeppni um fyrirkomulag á vatnsgeymum efst á Öskjuhlíð. Í útboðsgögnum kom fram að til að tryggja ört vatnsrennsli myndu geymarnir standa tíu metrum yfir hæsta punkti á hæðinni. Miklir möguleikar voru því til að nýta rými undir geymunum í margvíslegum tilgangi. Dómnefnd taldi enga samkeppnistillögu vera nothæfa en Sigurður Guðmundsson og Eiríkur Einarsson voru með bestu tillöguna að mati nefndarinnar. Þeir gerðu ráð fyrir tíu hitavatnsgeymum og þar af níu í þremur álmum sem mynduðu 120 gráðu horn sín á milli. Í miðju var rými, að nokkru leyti opið, og þaðan átti að vera inngangur inn í byggingar undir geymunum. Í miðjunni var tíunda geyminum fundinn staður en ofan á honum var gert ráð fyrir veitingastað. Sigurður þróaði tillögur áfram en teikningar frá 1940 og 1948 hafa varðveist. Í þessum nýrri tillögum útfærðu þeir tankana annars vegar með útsýnisturni og hins vegar með veitingarými ofan á. Tillagan að 30-40 metra útsýnisturni er frá 1940 en Sigurður sagði frá því í viðtali í dagblaðinu Vísi 1951 að af turninum hefði ekki getað orðið út af flugvellinum en mögulegt væri að reisa lægra veitinga- og samkomuhús. Til umræðu var í bæjarstjórn 1956 að reisa byggingu ofan á geymunum til að fólk gæti notið útsýnis þaðan. Ekkert varð úr því þá en árið 1985 þegar gömlu geymarnir voru rifnir og aðrir reistir í þeirra stað voru þessar áætlanir teknar fram aftur. Ingimundur Sveinsson arkitekt hannaði nýja byggingu með veitingastað og kaffihúsi ofan á tönkunum og fjölnota aðstöðu á jarðhæð. Hið nýja hús, Perlan, var opnað almenningi árið 1991. * Tillaga er sýnd
SJÓMANNASKÓLI
SJÓMANNASKÓLI Samkeppnisár: 1941-42 Byggingarár: 1945 Tillögur: 8 Vinningssæti: 1. Sigurður Guðmundsson og Eiríkur Einarsson 2. Bárður Ísleifsson, Gunnlaugur Halldórsson og Hörður Bjarnason 3. Ágúst Pálsson* Dómnefndarfulltrúar: Friðrik Ólafsson skólastjóri, M.E. Jessen skólastjóri, Hafsteinn Bergþórsson skipstjóri, Sigurjón A. Ólafsson alþingismaður, Ásgeir Sigurðsson skipstjóri, Þorsteinn Árnason vélstjóri, Friðrik Halldórsson loftskeytamaður, Einar Erlendsson húsameistari og Einar Sveinsson húsameistari. Um keppnina: Veturinn 1941 var boðað til hugmyndasamkeppni um sjómannaskóla í Reykjavík. Nýtt húsnæði fyrir sjómannaskóla átti að rúma stýrimannaskólann, vélskólann og lofskeytamannaskólann en auk þess átti bóklegt nám matsveina að fara fram í byggingunni. Í lýsingu kom m.a. fram að stýrimannaskólanum ætti að fylgja „athugunarstofa“ sem væri þannig sett að hún veitti útsýni í allar áttir en þetta skilyrði setur svip sinn á allar samkeppnistillögurnar. Í samkeppnislýsingu er tekið fram að ef dómnefnd álíti engan uppdrátt fyrstu verðlauna verðan, megi hún breyta verðlaununum „þó svo að öll verðlaunaupphæðin komi til greiðslu á þrjá hæstu uppdrættina,“ en það varð niðurstaðan. Verðlaunatillaga Sigurðar Guðmundssonar og Eiríks Einarssonar fékk lægri upphæð í verðlaun en lagt hafði verið upp með en annað og þriðja sætið aðeins meira en auglýst var í upphafi. * Tillaga er sýnd
NESKIRKJA Samkeppnisár: 1943 Byggingarár: 1953 Tillögur: 8
NESKIRKJA
Vinningssæti: 1. Ágúst Pálsson 2. Bárður Ísleifsson 3. Sigurður Guðmundsson og Eiríkur Einarsson* Dómnefndarfulltrúar: Alexander Jóhannesson, séra Jón Thorarensen sóknarprestur, Sigurjón Pjetursson fulltrúi Sigurðar Jónssonar skólastjóra, Björn Ólafs í Mýrarhúsum, Halldór Jónsson arkitekt og Gunnlaugur Halldórsson arkitekt. Um keppnina: Sóknarnefnd Neskirkju ákvað að efna til „verðlaunasamkeppni“ um teikningu handa söfnuðinum sem hafði verið fundinn staður á „Melunum skammt fyrir vestan Íþróttavöllinn“. Samkeppnisútboðið og vinningsféð þótti metnaðarfullt og til þess fallið að „færustu menn byggingarlistarinnar“ leggðu fram „hugkvæmni sína og snilli“. Neskirkju var ætlað að sýna „byggingarlist nútímans á hæsta og fullkomnasta stigi“ en kjörorð nefndarinnar var sagt vera „til þess skal vel vanda, sem lengi á að standa“. Átta tillögur voru sendar inn og var talsvert fjallað um niðurstöðu dómnefndar í dagblöðum eftir að dómnefndin skilaði áliti sínu. Skiptar skoðanir voru um niðurstöðuna. Vinningstillagan þótti framúrstefnuleg og töldu einhverjir tillögu Sigurðar Guðmundssonar og Eiríks Einarssonar sem lenti í þriðja sæti „kirkjulegri“. Athyglisvert er að í dómnefndaráliti og í umfjöllun um verðlaunatillögurnar kom fram að ekki væri búið að ákveða eftir hvaða tillögu yrði byggt. Allar tillögurnar gerðu ráð fyrir sérstakri kapellu og samkomusal, líkgeymsluklefa, fatageymslu og „öðru sem nauðsynlegt er fólki, sem á langan veg til kirkju.” Byggt var eftir vinningstillögu Ágústs Pálssonar, en hönnun Neskirkju markaði ákveðin kaflaskil í hönnun kirkjubygginga á Íslandi. Pétur Ármannsson arkitekt hefur fjallað um að fram að þessu höfðu „steinsteypukirkjur verið reistar með hefðbundnu langkirkjuformi, ýmist í nýrómönskum eða nýgotneskum stíl, með eða án forkirkjuturns“. Ágúst Pálsson sagði í viðtali um Neskirkju: „Ný vísindi skapa ný efni en þetta hlýtur aftur að leiða til þess, að ný form verði til. Því fyrr sem vér lærum að þekkja og viðurkenna þann sannleika, þeim mun örari verður framþróunin á sviði byggingarlistarinnar, sem er einn hinn mikilsverðasti þátturinn í framþróun menningarinnar.“ * Tillaga er sýnd
MOSFELLSKIRKJA
KIRKJA Á MOSFELLI Í MOSFELLSSVEIT Samkeppnisár: 1961 Byggingarár: 1981 Tillögur: 26 Vinningssæti: 1. Ormar Þór Guðmundsson og Birgir Breiðdal 2. Guðmundur Kr. Kristinsson og Manfreð Vilhjálmsson* 3. Hörður Björnsson Dómnefndarfulltrúar: Sigurbjörn Einarsson biskup, séra Bjarni Sigurðsson á Mosfelli, Einar Erlendsson arkitekt, Gunnlaugur Pálsson arkitekt og Hannes Davíðsson arkitekt. Um keppnina: Árið 1960 var ákveðið að efna til samkeppni um kirkju að Mosfelli í Mosfellssveit. Aðdraganda og eftirmálum keppninnar er ágætlega lýst í fundargerðum byggingarnefndar kirkjunnar en þar kemur m.a. fram að „kirkjan ætti að vera í hreinum stíl og beinum“. Alls 26 tillögur bárust og lá niðurstaða dómnefndar fyrir í apríl 1961. Fyrstu verðlaun hlutu Ormar Þór Guðmundsson og Birgir Breiðdal sem báðir voru við nám í arkitektúr erlendis en byggingarnefndin taldi að ekki væri hægt að byggja eftir neinni samkeppnistillögu án mikilla breytinga. Þeir Ormar og Birgir sem unnu samkeppnina voru ekki tilbúnir til að gera allar þær breytingar sem óskað var eftir og sneri byggingarnefndin sér því annað. Samkeppnistillaga sem hlaut ekki náð fyrir augum dómnefndar virtist höfða betur til stórs hóps í sókninni en höfundur hennar var Ragnar Emilsson arkitekt. Ragnar gekk að skilmálum byggingarnefndar um breytingar á nokkrum atriðum og úr varð að byggt var eftir hans teikningum. Verðlaunauppdrættir Ormars og Birgis hafa ekki varðveist. * Tillaga er sýnd
ÁSKIRKJA
ÁSKIRKJA Samkeppnisár: 1966 Byggingarár: 1981 Tillögur: 17 Vinningssæti: 1. Skarphéðinn Jóhannsson og Guðmundur Kr. Guðmundsson* 2. Vilhjálmur Hjálmarsson, Helgi Hjálmarsson og Haraldur V. Haraldsson 3. Guðmundur Kr. Kristinsson og Hörður Björnsson Dómnefndarfulltrúar: Henry Hálfdánarson ritari safnaðarnefndar, Hjörtur Hjartarson framkvæmdastjóri, Þór Sandholt arkitekt, Geirharður Þorsteinsson arkitekt og Guðmundur Þór Pálsson arkitekt. Um keppnina: Efnt var til hugmyndasamkeppni um „gerð og útlit kirkju og safnaðarheimilis“ í Laugaráss-prestakalli árið 1966. Reykjavíkurborg hafði gefið vilyrði fyrir lóð en í álitsgerð dómnefndar segir um hana: „Lóðin er staðsett suðvestan til á Laugarásnum í Reykjavík milli Laugarásvegar og Vesturbrúnar. Í kringum lóðina eru að mestu einbýlishús, en hin háu hús efst á Laugarásnum gnæfa yfir allt svæðið. Íþróttasvæðið og mannvirkin í Laugardal hefur áhrif á svæðið þar sem það sést einnig mjög vel að og er beinlínis í tengslum við lóðina.“ Því er lýst að erfitt sé að samræma kirkjubyggingu þessu umhverfi en kirkja sé í „uppbyggingu sinni mjög ólík þessu öllu og er því erfitt að samræma hana umhverfinu svo vel sé.“ Svæðið var á þessum tíma vinsæll útsýnisstaður og unnu margir tillöguhöfunda með það en dómnefndin lýsir yfir vonbrigðum með hversu fáir nýttu lóðarhallann í lausnum sínum. Arkitektarnir Skarphéðinn Jóhannsson og Guðmundur Kr. Guðmundsson fengu fyrstu verðlaun í samkeppninni og hefðu átt að fá verkið. Talsverð ólga varð innan sóknarinnar um tillögurnar en ákveðið var að semja við höfunda tillögunnar sem lenti í öðru sæti. Þetta var hitamál innan samfélags arkitekta á þessum tíma. * Tillaga er sýnd
BREIÐHOLTSKIRKJA
BREIÐHOLTSKIRKJA Samkeppnisár: 1976 Byggingarár: 1985 Tillögur: 19 Vinningssæti: 1. Guðmundur Kr. Kristinsson, Ferdinand Alfreðsson og Hörður Björnsson 2. Birgir Breiðdal 3. Benjamín Magnússon * Dómnefndarfulltrúar: Björn Bjarnason prófessor, Helgi Hafliðason arkitekt, Hilmar Ólafsson arkitekt, Kristinn Sveinsson byggingameistari og Sigurður E. Guðmundsson framkvæmdastjóri. Um keppnina: Árið 1976 ákvað sóknarnefnd Breiðholtssafnaðar að efna til hugmyndasamkeppni meðal arkitekta um væntanlega kirkjubyggingu í neðra Breiðholti en ári áður hafði fengist lóð fyrir kirkjuna í „svokallaðri Mjódd“ sem átti að verða þjónustuhverfi allrar Breiðholtsbyggðarinnar. Á sama tíma hófst peningasöfnun fyrir byggingunni en hún var meðal annars fjármögnuð með „happdrætti Breiðholtskirkju“ en í verðlaun var Volvo-bifreið. * Tillaga er sýnd
SELTJARNARNESKIRKJA
SELTJARNARNESKIRKJA Samkeppnisár: 1979 Byggingarár: 1989 Tillögur: 19 Vinningssæti: 1. Hörður Björnsson og Hörður Harðarson 2.-3. Hilmar Ólafsson arkitekt og Hrafnkell Thorlacius 2.-3. Jes Einar Þorsteinsson* Dómnefndarfulltrúar: Kristín Friðbjarnardóttir félagsmálafulltrúi, Þórður Búason verkfræðingur, séra Ólafur Skúlason, Guðmundur Kr. Kristinsson arkitekt og Haukur A. Viktorsson arkitekt. Um keppnina: Í ræðu Kristínar Friðbjarnardóttur, félagsmálafulltrúa á Seltjarnarnesi, við afhendingu verðlauna í samkeppni um nýja kirkju sagði hún að kirkja hefði ekki staðið á Seltjarnarnesi frá því að kirkjan í Nesi fauk af grunni sínum árið 1799. Seltirningar urðu þá sóknarbörn Dómkirkjunnar í Reykjavík þar til Nesprestakall hið nýja var stofnað árið 1941. Það náði yfir hluta af vesturbænum í Reykjavík og Seltjarnarnes. Sjálfstæður söfnuður var stofnaður á Seltjarnarnesi 1974. Fljótlega var farið að huga að kirkjubyggingu fyrir söfnuðinn og í lok ársins 1978 var sóknarnefndinni úthlutað lóð fyrir kirkjubyggingu norðvestan Mýrarhúsaskóla með þeirri kröfu að samkeppni færi fram um hönnun kirkjunnar. Alls bárust 19 tillögur og ákveðið var að byggja eftir teikningum byggingartæknifræðinganna Harðar Björnssonar og Harðar Harðarsonar, sem hrepptu fyrsta sæti. Framkvæmdir drógust aðeins vegna afhendingar á lóðinni vegna samningaviðræðna bæjarins við lóðareiganda en það hafðist og var ný kirkja vígð á Seltjarnarnesi árið 1989. * Tillaga er sýnd
SKRIFSTOFUR ALÞINGIS Samkeppnisár: 1986 Byggingarár: Ekki byggt eftir neinni tillögu Tillögur: 25 Vinningssæti: 1. Sigurður Einarsson 2. Manfreð Vilhjálmsson 3. Hróbjartur Hróbjartsson, Richard Ólafur Briem, Sigríður Sigþórsdóttir og Sigurður Björgúlfsson * Fimm tillögur voru keyptar til viðbótar en í hópi þeirra var tillaga Margrétar Harðardóttur og Steve Christer. Þegar samkeppni var haldin á ný um skrifstofubyggingu Alþingis árið 2016, þrjátíu árum síðar, unnu þau og til stendur að reisa bygginguna eftir þeirra tillögu á hinum svokallaða Alþingisreit. Dómnefndarfulltrúar: Þorvaldur Garðar Kristjánsson forseti sameinaðs Alþingis, Ingvar Gíslason forseti neðri deildar Alþingis, Salome Þorkelsdóttir forseti efri deildar Alþingis, Þorvaldur S. Þorvaldsson arkitekt og forstöðumaður Borgarskipulags, Helgi Hjálmarsson arkitekt, Hilmar Þór Björnsson arkitekt og Stefán Benediktsson arkitekt. Um keppnina: Í tilefni af hundrað ára afmæli Alþingishússins samþykkti Alþingi að efna til samkeppni um gerð og skipulag nýbyggingar fyrir starfsemi þingsins en Alþingishúsið, sem byggt var 1881, var orðið of lítið fyrir starfsemina. Ráðgert var að nýbyggingin yrði í tveimur áföngum. Fyrri áfangi byggingarinnar átti að rúma aðstöðu fyrir þingnefndir, þingflokka, skrifstofu Alþingis, bókasafn, skjalasafn og mötuneyti. Sérhanna átti húsrými fyrir ræðuritun og tölvuvinnslu og sjónvarpsupptöku og hafa aðstöðu fyrir útgáfu, prentun og afgreiðslu Alþingistíðinda. Í síðari áfanga átti að koma fyrir skrifstofum þingmanna en ekki þurfti að útfæra það rými nákvæmlega. Tengja átti nýbyggingu við Alþingishúsið með jarðgöngum. Sigurður Einarsson hlaut fyrstu verðlaun og sagði hann „varla hægt að hugsa sér betri byrjun fyrir mann, sem er nýskriðinn úr skóla” í viðtali vegna keppninnar. Þegar til kom þótti í of mikið ráðist í einu og ákveðið var að reisa nýja aðstöðu í áföngum. Í nýju skipulagi var ákveðið að byggja þjónustumiðstöð í tengslum við Alþingishúsið og endurgera flest gömlu húsin á reitnum en reisa hús fyrir skrifstofur og nefndir meðfram Tjarnargötu. Sigurður hannaði viðbyggingu við Alþingi, þingskála, sem byggður var 2002 en efnt var til nýrrar samkeppni um skrifstofubyggingu Alþingis árið 2016. Sigurvegarar í þeirri samkeppni voru Studio Granda en eigendur þeirrar stofu, Margrét Harðardóttir og Steve Christer, fengu innkaup í samkeppninni 1986. * Tillaga er sýnd
RÁÐHÚSIÐ Í REYKJAVÍK Samkeppnisár: 1986-1987 Byggingarár: 1994 Tillögur: 38
RAÐHÚS
Vinningssæti: 1. Studio Granda 2. Guðmundur Jónsson* 3. Hróbjartur Hróbjartsson, Richard Ólafur Briem, Sigríður Sigþórsdóttir og Sigurður Björgúlfsson 3. Hörður Harðarson Dómnefndarfulltrúar: Davíð Oddsson borgarstjóri, Sigrún Magnúsdóttir borgarfulltrúi, Þorvaldur S. Þorvaldsson forstöðumaður borgarskipulags Reykjavíkur, Guðni Pálsson arkitekt og Þorsteinn Gunnarsson arkitekt. Um keppnina: Borgarstjórn Reykjavíkur efndi til samkeppni um hönnun ráðhúss Reykjavíkur árið 1986. Ráðhúsi hafði verið fundinn staður í norðvesturhorni Tjarnarinnar en í marga áratugi hafði verið deilt um staðarval og útlit nýrrar ráðhúsbyggingar. Reynt var t.d. að halda samkeppni um miðja 20. öld meðal arkitekta en ekki náðust samningar um samkeppnisútboðið. Í kjölfarið var settur saman hópur arkitekta sem saman hönnuðu byggingu fyrir miðjum norðurenda tjarnarinnar. Tillögur nefndarinnar voru kynntar árið 1964 en ekkert varð úr þeim áformum. Samkeppninni 1986-87 var ætlað að „leiða fram bestu lausn hvað varðar notagildi, form og fegurð“ ráðhússins og „auðga með byggingunni umhverfi Tjarnarinnar og miðbæjarbyggðina í Kvosinni.“ Í húsinu áttu keppendur m.a. að koma fyrir fundarsölum borgarstjórnar og borgarráðs, forsal, ferðamannaþjónustu og móttökuaðstöðu, ennfremur skrifstofum borgarstjóra, borgarritara, starfsmannastjóra, borgarbókara og borgarendurskoðanda. Þá var einnig gert ráð fyrir þremur fundarherbergjum til almennrar notkunar, eldhúsi og mötuneyti, auk húsrýmis fyrir heilsurækt, húsvörslu, símavörslu o.fl. Í kjallara átti að koma fyrir bílageymslu fyrir starfsfólk og gesti ráðhússins og hugsanlegri viðbótarbílageymslu fyrir suðurhluta Kvosarinnar. Á jarðhæð var talað um að keppendur ættu að reikna með ferðamannaþjónustu og að rýmið með anddyri gæti nýst til sýninga og við stórar móttökur. Í samkeppnislýsingu var tekið fram að þar yrði komið fyrir stóru líkani af Íslandi. Ungir arkitektar, Margrét Harðardóttir og Steve Christer, voru hlutskarpastir í samkeppninni en bygging ráðhússins var fyrsta stóra verkefni stofunnar Studio Granda sem var stofnuð í kjölfarið. * Tillaga er sýnd
HÆSTIRÉTTUR
HÆSTIRETTUR
Samkeppnisár: 1993 Byggingarár: 1996 Tillögur : 40 Vinningssæti: 1. Studio Granda 2. Kanon Arkitektar* 3. Hornsteinar Arkitektar* Dómnefndarfulltrúar: Dagný Leifsdóttir deildarstjóri í dómsmálaráðuneytinu, Hrafn Bragason hæstaréttardómari, Steindór Guðmundsson forstöðumaður framkvæmdadeildar Innkaupastofnunar ríkisins, Garðar Halldórsson húsameistari ríkisins og Tryggvi Tryggvason arkitekt. Um keppnina: Að ósk Hæstaréttar Íslands samþykkti ríkisstjórnin að reist skyldi nýbygging fyrir starfsemi réttarins og efnt var til opinnar samkeppni meðal arkitekta 1993. Hæstiréttur sem var stofnaður árið 1920 hafði aðsetur í Dómhúsinu við Lindargötu og þótti byggingin frá 1948 vera löngu úrelt og há starfseminni verulega. Málafjölda hafði fjölgað og dómurum þar af leiðandi og starfstækni öll tekið miklum breytingum. Mikil umræða var um lóðarvalið en mörgum þótti nýbygging á horni Ingólfsstrætis og Lindargötu geta þrengt að Safnahúsinu og skyggt á Arnarhvol en bílastæði var á horninu. Alls bárust 40 tillögur og gerðu um helmingur ráð fyrir því að byggingin yrði staðsett við Lindargötu, aðrar gerðu ráð fyrir staðsetningu á miðjum reitnum, þríhyrningslaga form staðsett í jaðri byggingarsvæðisins og enn aðrar voru staðsettar við Ingólfsstræti. Í niðurstöðu dómnefndar kemur fram að leitað hafi verið að „hugmynd að sjálfstæðri og hagkvæmri byggingu“ sem hæfði æðsta dómstól landsins. Mikil áhersla var lögð á að hönnun hússins fylgdi kostnaðarmarkmiðum og að „í virðuleika sínum, en eðlilegu látleysi“ ætti byggingin að vera „sjálfstæð, án þess að skerða á nokkurn hátt eða hafa neikvæð áhrif“ á þær byggingar sem fyrir voru í næsta nágrenni. Eftir nákvæma athugun voru 14 tillögur teknar til nánari skoðunar en niðurstaða dómnefndar var að tillaga Studio Granda næði best þeim markmiðum sem sett voru fram í samkeppnislýsingu og mælti hún því með útfærslu hennar. * Tillaga er sýnd
RAUÐI KROSSINN
RAUÐI KROSSINN Samkeppnisár: 1996 Byggingarár: 1997 Tillögur: 5 stofur valdar úr hópi 22 umsækjenda Vinningssæti: 1. Gláma / Kím 2. Studio Granda* Dómnefndarfulltrúar: Sigrún Árnadóttir framkvæmdastjóri RKÍ, Lovísa Christiansen innanhúsarkitekt, Steindór Guðmundsson forstöðumaður Framkvæmdasýslu ríkisins, Halldóra Bragadóttir arkitekt og Tryggvi Tryggvason arkitekt. Um keppnina: Í mars 1996 var efnt til lokaðrar boðskeppni meðal arkitekta um hönnun nýbyggingar fyrir Rauða Kross Íslands. Forvalsnefnd valdi fimm teiknistofur úr hópi 22 umsækjenda. Talsverð tímapressa var á samkeppninni og í niðurstöðu dómnefndar var arkitektunum sem tóku þátt sérstaklega þakkað fyrir að hafa „gengist inn á skamman samkeppnistíma í miðjum sumarleyfum“. Eitt af markmiðum Rauða krossins með samkeppninni var að „reisa byggingu sem hefði látlaust en traust yfirbragð með vönduðu efnisvali án íburðar og sem entist vel“ og að „reisa byggingu sem væri hagkvæm í byggingu, rekstri og viðhaldi og gæfi möguleika til stækkunar.“ Dómnefnd valdi tvær tillögur til nánari skoðunar en það voru tillögur Glámu/Kím og Studio Granda. Tillaga Glámu/Kím var valin til útfærslu. * Tillaga er sýnd
BARNASPÍTALI HRINGSINS BARNASPÍTALI HRINGSINS Samkeppnisár: 1997 Byggingarár: 2002 Tillögur: 21 Vinningssæti: 1. Teiknistofan Tröð 2. Guðni Pálsson* 3. Verkstæði 3 arkitektar og AT4 arkitektar Dómnefndarfulltrúar: Siv Friðleifsdóttir alþingismaður, Ingólfur Þórisson aðstoðarforstjóri Ríkisspítalanna, Ásgeir Haraldsson forstöðulæknir Barnaspítala Hringsins, Jóhannes Þórðarson arkitekt og Þorsteinn Geirharðsson arkitekt. Um keppnina: Árið 1997 var ákveðið að efna til tveggja þrepa opinnar samkeppni um hönnun og skipulag fyrir Barnaspítala Hringsins á Landspítalalóð en samkvæmt samkeppnisgögnum var það gert til að „mæta öllum skilyrðum og þá sérstaklega þörfum barna, aðstandenda og starfsfólks“. Barnadeild hafði verið opnuð árið 1957 en fram til þess höfðu börn sem þurftu á sjúkrahúsvist að halda að vera á hinum ýmsu deildum. Árið 1965 var stofnuð sérstök deild innan gamla spítalans en rýmið var ekki hannað sérstaklega með þarfir barna í huga. Hinum nýja barnaspítala var valinn staður innan samþykkts skipulagsreits sunnan kvennadeildar en nálægðin við fæðingargang var talin mikilvæg einkum með tilliti til starfstengsla við vökudeild þar sem vökudeildin yrði staðsett í nýja spítalanum. Í fyrra þrepi átti að koma fram með hugmyndir um staðsetningu nýbyggingar innan skilgreinds samkeppnisreits og kynna hugmyndir um innra fyrirkomulag og ytra útlit. Jafnframt átti að gera grein fyrir möguleikum á stækkun. Alls bárust 23 tillögur og þar af var 21 dómtæk. Þrjár tillögur voru valdar til frekari útfærslu en Teiknistofan Tröð bar sigur úr býtum. * Tillaga er sýnd
ORKUVEITAN
HÖFUÐSTÖÐVAR ORKUVEITU REYKJAVÍKUR Samkeppnisár: 2000 Byggingarár: 2002 Tillögur: 7 stofur valdar úr hópi 23 umsækjanda Vinningssæti: 1. Hornsteinar arkitektar og Teiknistofa Ingimundar Sveinssonar 2. Teiknistofan Víðihlíð 45 (Albína Thordarson og Ævar Harðarson)* 3. T.ark Teiknistofan og AT4 arkitektar Dómnefndarfulltrúar: Alfreð Þorsteinsson borgarfulltrúi og formaður Stjórnar veitustofnana, Guðmundur Þóroddsson forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, Hólmsteinn Sigurðsson aðstoðarforstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, Egill Guðmundsson arkitekt og Magnús Skúlason arkitekt. Um keppnina: Árið 1999 höfðu Hitaveitan, Rafmagnsveitan og Vatnsveitan sameinast í nýtt fyrirtæki, Orkuveitu Reykjavíkur, og vantaði nýjar höfuðstöðvar fyrir sameinaða starfsemi. Ákveðið var árið 2000 að þær skyldu rísa við Réttarháls og að hönnun þeirra yrði boðin út í samkeppni í samstarfi við Arkitektafélag Íslands. Um var að ræða boðskeppni (framkvæmdakeppni). Umsækjendur um þátttöku voru 23 talsins en forvalsnefnd bauð 7 þátttöku, af þeim skiluðu 6 inn tillögu. Í keppnislýsingu var m.a. lögð áhersla á heildarlausn verkefnisins sem sameinaði „sjónarmið fyrirtækis á sviði orku og tækni, byggingarlistar og góðs skipulags bygginga og umhverfis.“ Einnig var farið fram á hagkvæmni í „byggingar-, viðhalds- og rekstrarkostnaði.“ Allar sex tillögurnar uppfylltu í aðalatriðum þau skilyrði sem höfðu verið sett fram að mati dómnefndar en í áliti hennar kemur fram að „sjónarmið byggingarlistar“ ætti að vera í hávegum haft og að byggingar og umhverfi ætti að sóma sér vel á nýrri öld. Einróma álit dómnefndar var að velja tillögu Hornsteina Arkitekta og Teiknistofu Ingimundar Sveinssonar til nánari útfærslu. * Tillaga er sýnd
HOF – MENNINGARHÚS Á AKUREYRI
HOF
Samkeppnisár: 2004 Byggingarár: 2009 Tillögur: 33 Vinningssæti: 1. Engin tillaga valin 2. Arkþing og Arkitema 3. Andersen & Sigurðsson* 3. HAUSS – Architectur + Graphik Dómnefndarfulltrúar: Guðmundur Árnason ráðuneytisstjóri í menntamálaráðuneytinu, Oddur Helgi Halldórsson bæjarfulltrúi, Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarfulltrúi, Guðrún Ingvarsdóttir arkitekt, Þorvaldur S. Þorvaldsson arkitekt. Um keppnina: Menningarhúsið Hof er staðsett í miðbæ Akureyrar og er eitt af helstu kennileitum bæjarins. Árið 2004 var haldin opin samkeppni um hönnun hússins. Markmið verkkaupa með byggingu menningarhúss á Akureyri var að efla enn frekar fjölbreytt menningarlíf á Norðurlandi. Í menningarhúsinu var ráðgert að hvers konar tónlistarflutningur yrði í öndvegi og að þar væri aðstaða fyrir fjölþætta starfsemi eins og ráðstefnuhald, fundi, listdans, dans, leiklist, sýningarhald o.fl. Húsinu var fundinn staður á landfyllingu á höfninni í miðbæ Akureyrar og var tekið fram í samkeppnislýsingu að húsið gæti orðið að kennileiti. Tilgangur samkeppninnar var sagður vera að fá „snjallar og raunhæfar tillögur að fallegri byggingu sem fellur vel að umhverfi sínu.“ Húsið átti að taka tillit til „sterkrar og viðkvæmrar bæjarmyndar en vera jafnframt sjálfstætt og mótandi í þeirri viðleitni.“ Strangar kröfur voru um áætlaðan framkvæmdakostnað og var tekið fram að þær tillögur sem færu 25% yfir gefið viðmið kæmu ekki til greina til útfærslu. Allar þær tillögur sem voru kostnaðarreiknaðar stóðust ekki þetta síðasta atriði og var það því niðurstaða dómnefndar að engin tillaga fengi fyrstu verðlaun enda fæli sú viðurkenning í sér skuldbindingu um framkvæmd viðkomandi tillögu. Þremur bestu tillögunum var því raðað í 2. og 3. sæti. Akureyrarbær gekk til samninga við Arkþing og Arkitema sem voru efst eða í 2. sæti og fengu þau verkið. Hof var opnað 2009 en haldin var samkeppni um heiti á menningarhúsið. * Tillaga er sýnd
HARPA Samkeppnisár: 2004-2005 Byggingarár: 2011 Tillögur: 3 af 4 skiluðu tillögu
HARPA
Vinningssæti: 1. Henning Larsens Tegnestue og Batteríið Arkitektar 2. Schmidt Hammer & Lassen Architects og THG Arkitektar* 3. Ateliers Jean Nouvel og T.ark Teiknistofan* Dómnefndarfulltrúar: Stefán Baldursson, Kristrún Heimisdóttir og Orri Hauksson ásamt undirnefndum, ráðgjöfum og sérfræðingum. Um keppnina: Umræða um tónlistarhús í Reykjavík er ekki ný af nálinni. Um miðja síðustu öld var rætt um að reisa „tónleikahöll“ í Hljómskálagarðinum en aðrar lóðir komu einnig til greina. Sinfóníuhljómsveit Íslands fékk inni í nýju Háskólabíó 1961 en barátta fyrir sérstöku tónlistarhúsi hélt áfram. Efnt var til norrænnar samkeppni um hönnun tónlistarhúss í Laugardal og bárust 75 tillögur í keppnina. Guðmundur Jónsson arkitekt í Ósló bar sigur úr býtum. Ýmsar ástæður voru fyrir því að umræða um framkvæmdir dróst en líklega vó fjárskortur þyngst. Árið 1992 var Guðmundur fenginn til að útfæra tillögu sína við Ingólfsgarð í miðbæ Reykjavíkur og stækka bygginguna til að koma mætti þar fyrir ráðstefnuaðstöðu en ekkert varð úr framkvæmdum. Málið var þó komið á dagskrá borgaryfirvalda og var hluti af umræðu um framtíðarþróun á svæðinu við höfnina. Fulltrúar ríkis og borgar undirrituðu samning um byggingu tónlistar- og ráðstefnuhúss á Austurbakkanum 2002 og tveimur árum síðar voru útboðslýsingar afhentar fulltrúum fjögurra hópa sem tóku þátt í samkeppni um réttinn til að hanna, byggja, fjármagna og reka tónlistarhús í Reykjavík. Hóparnir voru valdir í sérstöku forvali og áttu frumhugmyndir þeirra að liggja fyrir eftir mánuð og síðan fyrstu tilboð í byrjun maí. Hóparnir sem tóku þátt voru upphaflega fjórir, Fasteign, Multiplex, Portus Group og Viðhöfn en Multiplex (Foster & Partners) ákvað að hætta við þátttöku. Gert var ráð fyrir að samningsaðilinn fjármagnaði, hannaði, byggði, ætti bygginguna og ræki starfsemi hennar en fengi styrki frá yfirvöldum. Afar litlu munaði á heildareinkunn efstu tveggja tillagna en talsverður verðmunur var á þeim en annað sætið var áætlað mun ódýrara í byggingu. Portus-hópurinn sem sigraði hlaut hæstu einkunn í fimm af átta matsflokkum, þ.e. byggingarlist, lausn á rekstri bílastæða, viðskiptaáætlun, fjárhagslegan og stjórnunarlegan styrk og fyrir metnaðarfulla dagskrá og starfsemisáætlun. * Tillaga er sýnd
VERÖLD
VERÖLD - HÚS VIGDÍSAR Samkeppnisár: 2011-2012 Byggingarár: 2016 Tillögur: 43 Vinningssæti: 1. Arkitektur.is 2. T.ark Teiknistofan* 3. Arkiteó Dómnefndarfulltrúar: Inga Jóna Þórðardóttir, Auður Hauksdóttir dósent og forstöðumaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, Ingjaldur Hannibalsson prófessor, Halldór Gíslason arkitekt og prófessor við Listaháskólann í Ósló og Helgi Mar Hallgrímsson arkitekt. Um keppnina: Ákveðið var að halda samkeppni um nýbyggingu fyrir Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur árið 2011 en úrslit voru tilkynnt í maí 2012. Meginmarkmiðið með byggingunni var að koma á fót alþjóðlegri tungumálamiðstöð á Íslandi með það að leiðarljósi að stórefla rannsóknir á tungumálum og menningarlæsi. Í samkeppnislýsingu kom fram að hönnun byggingarinnar ætti að „endurspegla þau gildi sem Vigdís stendur fyrir og þjóðin þekkir um víðsýni, menningu, jákvæð viðhorf og samskipti við aðrar þjóðir og virðingu fyrir náttúru og umhverfi. Haldin var samkeppni um nafn fyrir nýbygginguna og var nafnið Veröld – hús Vigdísar valið. Húsið var opnað á sumardaginn fyrsta 2017 og setur svip á háskólasvæðið við Suðurgötu og er nú aðstaða nemenda og kennara til rannsókna og kennslu í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands stórbætt. * Tillaga er sýnd
SUNDHALLARVIÐBYGGING
SUNDHÖLLIN - VIÐBYGGING Samkeppnisár: 2013 Byggingarár: 2017 Tillögur: 21 Vinningssæti: 1. VA Arkitektar 2. Agnes Nilsson, Andrea Tryggvadóttir og Guðný Arna Eggertsdóttir 3. Kurt og pí og T.ark Teiknistofan* Dómnefndarfulltrúar: Nikulás Úlfar Másson skrifstofustjóri USK, Sólveig Valgeirsdóttir forstöðumaður ÍTR, Guðrún Arna Gylfadóttir forstöðumaður ÍTR, Guðmundur Kr. Guðmundsson arkitekt og Birgir Teitsson arkitekt. Um keppnina: Boðað var til opinnar samkeppni um hönnun á viðbyggingu og útilaugasvæði við Sundhöllina í Reykjavík árið 2013. Sundhöllin, sem er eftir Guðjón Samúelsson, var opnuð 1937 og er með þekktari byggingum í Reykjavík. Samkeppnin markaði viss tímamót, en með henni var í fyrsta skipti haldin hönnunarsamkeppni um viðbyggingu og breytingar á friðlýstu húsi. Eitt af markmiðum Reykjavíkurborgar með keppninni var að fá fram vandaðar tillögur þar sem hið gamla styrkti hið nýja og hið nýja það gamla, en sérstök áhersla var á að byggingarlist hússins innan sem utan yrði gert hátt undir höfði. Mikill áhugi var á samkeppninni en 64 sóttu gögn en aðeins 23 tillögur voru sendar inn og af þeim var 21 dómtæk. VA Arkitektar hlutu fyrstu verðlaun og byggt var eftir þeirra tillögu. Endurbætt sundhöll með útiaðstöðu var opnuð almenningi undir lok árs 2017. * Tillaga er sýnd
HEIMILDIR Texti um tillögur er að mestu unninn upp úr samkeppnislýsingum og dómnefndarálitum. Einnig var stuðst við dagblaðaumfjöllun og einstaka bækur sem fjalla um arkitektúr á Íslandi. A.J. Johnson, „Merkileg ákvörðun Nessóknar“, Vísir 3. mars 1943. Alexander Jóhannesson, „Um kirkjubyggingar síðustu áratuga og fyrirhugaða Neskirkju.“ Morgunblaðið 1. apríl 1944, bls. 5 og 8. Anna Dröfn Ágústsdóttir og Guðni Valberg, Reykjavík sem ekki varð. Crymogea: Reykjavík 2014. Arkitektúr. Tímarit um umhverfishönnun. 1.tbl. 2013. „Fréttir“, Byggingarlistin 1. jan 1956, bls. 4. Gráskeggur, „Hannes á horninu“, Alþýðublaðið 7. mars 1944, bls. 5. Haraldur Helgason, „Upphaf samkeppna á Íslandi“, Arkitektúr. Tímarit um umhverfishönnun. 1.tbl. 2013. „Hitaveitugeymarnir á Öskjuhlíð“, Morgunblaðið 30. júlí 1938, bls. 3. Hörður Bjarnason, „Samkeppni húsameistara.“ Byggingarlistin 29. desember 1942, bls. 45-64. „Kirkjubygging á Akureyri“, Alþýðublaðið 19. júlí 1930, bls. 4. [Mosfellskirkja], Morgunblaðið 23. apríl 1961, bls. 4. „Nýja kirkjan“, Morgunblaðið 23. mars 1930, bls. 8. „Samkeppni um byggingu Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur“, Arkitektafélag Íslands vefsíða. http://ai.is/?p=3586 „Samkeppni um gerð og útlit Laugarásskirkju er nú lokið“, Tíminn 26. júlí 1966, bls. 2 og 14. „Samkeppni um kirkjubyggingu á Seltjarnarnesi“, Morgunblaðið 18. desember 1979, bls. 20. „Samkeppni um Neskirkju“, Fálkinn 3. mars 1944, bls. 3. „Seltjarnarnes: Samkeppni um hönnun kirkjubyggingar lokið“ Tíminn 18. desember 1979, bls. 3.
„Seltjarnarneskirkja vígð á sunnudaginn: Nýja kirkjan gjörbreytir starfsaðstöðu“, Morgunblaðið 16. febrúar 1989. „Snarl með snúningi eftir 53 ár. Hugmyndin um veitingastað á Öskjuhlíð er eldri en menn halda.”, Morgunblaðið 4. mars 1990, bls. C6-C7. Sverrir Pálsson, Saga Akureyrarkirkju, Akureyri: Sóknarnefnd Akureyrarsóknar 1990. „Teikningin af Mosfellskirkju“, Erindi flutt af Pétri H. Ármannssyni 15. mars. 2015. https://www.lagafellskirkja.is/kerfi/wp-content/uploads/2015/04/Mosfellskirkja.pdf „Tillögur um menningarhús á Akureyri“, Akureyrarbær vefsíða. https://www.akureyri.is/is/frettir/tillogur-um-menningarhus-a-akureyri „Tónlistar- og ráðstefnumiðstöð - Austurhöfn“, Klasi vefsíða. http://www.klasihf.is/?pageid=86 „Úrslit í samkeppni um kirkjusmíði“, Morgunblaðið, 17. júní 1977, bls. 13. „Úrslit í samkeppni um kirkju í Breiðholti“, Tíminn 17. júní 1977. „Úrslit tilkynnt í samkeppni um nýjan Barnaspítala Hringsins. Íslensk-norsk hjón hlutu fyrstu verðlaun.“ Morgunblaðið 13. desember 1997, bls. 6. Valþór Hlöðversson, „Miðbærinn sprengdur“, Þjóðviljinn 29. ágúst 1986, bls. 5-6. „Verðlaun afhent í arkitektasamkeppni um nýjar höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur. Tveggja milljarða bygging í notkun 2002“, Morgunblaðið 30. september 2000, bls. 20. „Verðlaun fyrir teikningu Mosfellskirkju“, Morgunblaðið 14. apríl 1961, bls. 2. „Verðlaunaafhending í samkeppni um nýbyggingu Alþingis“, Morgunblaðið 14. ágúst 1986, bls. 4-5. - Samkeppnislýsingar og dómnefndarálit úr samkeppnum um: Áskirkju, Barnaspítala Hringsins, Hæstarétt Íslands, Orkuveitu Reykjavíkur, Sundhöll - viðbygging, Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, Rauða krossinn og Ráðhús Reykjavíkur. - Skjöl frá hússtjórn Oddfellow.