Allt getur gerst í söngleiknum um Mary Poppins – ef þú leyfir því að gerast! Hér er ekkert venjulegt leikverk á ferðinni; sagan er leiftrandi og sjónarspilinu eru engin takmörk sett. Áhorfendur fylgjast með Mary Poppins lífga upp á heimilislífið í Kirsutrjárunni, breyta grárri Lundúnaborg í litríkt ævintýri þar sem sótarar dansa upp um veggi og loft. Tónlistina þekkja allir og hún birtist hér í nýjum heillandi útsetningum. Dansatriðin í Mary Poppins eru stórglæsileg enda gengur Íslenski dansflokkurinn til liðs við listamenn Borgarleikhússins í þessari stórsýningu.