10 minute read

„La det swinge“

Skagamaðurinn Birgir Leifur Hafþórsson, er sigursælasti karlkylfingur í sögu íslensks golfs en hann hefur hampað þeim eftirsóttasta alls sjö sinnum, síðast árið 2016. Birgir er sá íslenski karlkylfingur sem hefur náð hvað lengst sem atvinnumaður en alls spilaði hann sem atvinnumaður í 20 ár. Ferill Birgis Leifs er í raun ótrúlegur og var gaman að rifja hann upp með honum en um það leyti sem atvinnumannadraumurinn var að deyja, þá kviknaði á öðrum draumi. Hugur Birgis Leifs hafði lengi leitað á viðskiptalegar lendur og úr varð að hann fékk inngöngu í MBA nám í viðskiptafræði (Master of Business Administration) í Háskólanum í Reykjavík. Fjölskyldan tók ákvörðun, atvinnuferlinum í golfi var lokið og nýr kafli hófst á gamla góða skerinu. Birgir Leifur sem er einmitt að útskrifast á afmælisdegi GG þann 14. maí, er kominn með vinnu og byrjaður, hjá Íslenskum fjárfestum þar sem m.a. ræður ríkjum Sigurður Jónsson, sem varð klúbbmeistari GG árið 1992. Stundum er talað um að slá tvær flugur „í sama höfuðið“ og renndu félagarnir í golfskálann í Grindavík þar sem ég rakti úr þeim garnirnar.

Hvernig, hvar og hvenær hófst golfferillinn?

„Já það er rétt, Helgi Dan Steinsson dró mig í golfið og mun ég alltaf verða honum þakklátur fyrir það. Ég hef verið u.þ.b. 11 ára þegar ég byrjaði. Það má segja að þetta hafi verið frumstætt hjá okkur á Skaganum á þessum tíma og engin bein þjálfun. Við lærðum íþróttina einfaldlega sjálfir og meira að segja hélt ég vitlaust á kylfunni fyrstu árin og var kominn með 16 í forgjöf þannig [Birgir var með vinstri höndina fyrir neð- an þá hægri! Innskot blaðamanns]. Sem betur fer vorum við margir að koma upp á þessum tíma, við Helgi Dan, Þórður Emil, Kristinn Bjarna og fleiri og alltaf var keppt og þá meina ég KEPPT, alltaf lagt eitthvað undir, pulsu & kók eða eitthvað álíka! Ég er sannfærður um að þessi keppni í byrjun nýttist mér síðar meir þegar ég var farinn að keppa á atvinnumannamótaröðinni, minn styrkleiki í golfi var alltaf andlegi þátturinn. „Eftir að hafa tapað fyrir honum Sigga [Fyrrnefndur ´92 klúbbmeistari GG, Sig- urður Jónsson. Innskot blaðamanns] á Íslandsmóti unglinga 14 ára og yngri var ekkert annað að gera en að spýta í lófana og æfa meira, því mér finnst ekkert mjög gaman að tapa“.

„Þegar ég var 16 ára varð ég Íslandsmeistari í flokki 16 – 18 ára og sama ár varð ég Íslandsmeistari fullorðinna í holukeppni. Ég tók miklum framförum á þessum árum og náði svo fyrsta Íslandsmeistaratitlinum í meistaraflokki tvítugur, árið 1996 eftir að hafa endað í öðru sæti tvö árin þar á undan“.

Á þessum tíma var Birgir Leifur kominn með inngöngu í Louisiana háskólann í Bandaríkjunum en fékk þá óvænt tilboð: „Eftir Íslandsmeistaratitilinn sem ég vann í Vestmannaeyjum, þá var ég á leið í háskólagolfið í Bandaríkjunum en bauðst þá óvænt að gerast atvinnumaður en hópur áhugasamra fjárfesta, alls 30 aðilar höfðu greinilega það mikla trú á mér að þeir stofnuðu hlutafélag, ÍSL hf. Þeir vildu gera við mig samning til þriggja ára og sjá um allan kostnaðinn. Þetta var of gott tilboð að hafna svo þarna hófst atvinnumannaferillinn, ég verð þeim ævinlega þakklátur fyrir þetta einstaka tækifæri. Ég byrjaði á sænsku mótaröðinni sumarið 1997, náði góðum árangri þar, náði að sigra í einu móti og náði nokkrum sinnum topp 10. Ég tók svo þátt í úrtökumóti fyrir Evrópumótaröðina haustið 1997, gekk mjög vel í fyrstu tilraun og tryggði ég mér hlutakort á European tour og um leið fullan keppnisrétt í 2. deildinni (Challenge tour).“

Eftir að hafa verið stór fiskur í íslensku golftjörninni sá Birgir Leifur að hann var ansi lítill í stóru Evróputjörninni og það sá hann í raun best þegar hann spilaði með hinum eina sanna Bernard Langer: „Það var ótrúlegt að fylgjast með Langer, hann var eins og vélmenni! Hann gerði alla hluti eins, alltaf sama rútínan og ef hann sló lélegt högg á sinn mælikvarða þá var lélega höggið hans samt ekki það lélegt að það setti hann í vandræði. Eftir það setti ég mér það markmið að gera leikinn minn stöðugari, var hjá ýmsum þjálfurum en það var ekki fyrr en sænski golfþjálfarinn Staffan Johansson kom til Íslands til að þjálfa landsliðið, að ég fór að taka framförum og skilja leikinn minn enn betur. Ég flutti með fjölskylduna til Svíþjóðar og fór að vinna mjög mikið með honum. Ég þurfti svo sem að taka eitt skref aftur á bak á meðan við unnum í breytingum á sveiflunni minni og öðru en um leið og ég náði tökum á því þá fór ég að sjá miklar framfarir hvað varðar stöðugleikann. Ég fann líka hvað leikurinn minn breyttist mikið sem tók tíma að venjast en hafði það á tilfinningunni að ég ætti mikið inni, sem átti eftir að koma í ljós síðar“.

Svona gengu fyrstu árin í atvinnumennskunni fyrir sig, Birgir var studdur af ÍSL hf. og nældi sér í eitthvað verðlaunafé en um aldamótin þurfti hann aðeins að breyta um leikskipulag. Hann fór að vinna með golfinu en fann að hann vantaði ekki svo mikið til að ná alla leið á toppinn. Því flutti hann alfarið út og helgaði sig golfinu. „Árið 2006 gerði ég samning við Kaupþing banka og fluttist fjölskyldan til Luxemburg. Þetta breytti gríðarlega miklu fyrir okkur því þarna gat ég einbeitt mér að fullu að golfinu. Ég tryggði mér strax um haustið fullan keppnisrétt á European tour og hélt ég honum næstu árin en meiddist svo árið 2008 lítillega en svo illa um mitt ár 2009, fékk slæmt brjósklos. Í kjölfarið kom í ljós ýmislegt annað sem var að í bakinu, ég vann mig hægt og rólega út úr meiðslunum með hjálp góðra sérfræðinga hér heima, en ég snerti ekki kylfu í eitt ár eða ekki fyrr en um mitt ár 2010. Eftir svo langan tíma er úthaldið orðið minna og ég gat ekki keppt í eins mörgum mótum og oft áður, t.d. spilaði ég bara á átta mótum árið 2011 en spilaði samt mjög vel í þeim mótum, hélt keppnisréttinum og gat því byggt ofan á það áfram. Árin 2016 – 2018 voru svo frábær kafli á mínum ferli, ég sló metið í fjölda Íslandsmeistaratitla (7 samtals) árið 2016, vann svo stærsta og sterkasta mótið mitt árið 2017 á Challenge tour og svo kláraði ég atvinnumannaferilinn með því að spila á European tour árið 2018 og fram á mitt ár 2019.“

Undir það síðasta voru gömlu bakmeiðslin farin að láta á sér kræla og þarna var hann farinn að nálgast krossgötur, átti hann að halda áfram þessu harki með bakið eins og það var orðið eða átti kannski að venda sínu kvæði í kross. Fyrrnefndur Siggi kemur þá til sögunnar: „Ég var búinn að kynnast Sigga í gegnum unglinga golfið okkar og svo þegar synir okkar æfðu saman í GKG. Sumarið 2019 var ég í móti á Spáni með fjölskylduna með mér og sá á snappinu að Siggi var rétt hjá okkur í fríi með fjölskyldunni. Við kíktum til þeirra og það varð ákveðinn vendipunktur má segja. Á þessum tíma var ég farinn að huga að næstu skrefum í mínu lífi, var farinn að íhuga nám og hafði farið á kynningarfund vegna MBA náms í Háskólanum í Reykjavík. Ég var mjög áhugasamur um þetta nám en ég sótti samt ekki um, ákvað að taka eitt ár í viðbót í golfinu en samt með hausinn alltaf við þá ákvörðun um að fara í þetta nám.

Siggi: „Við Birgir Leifur þekktumst vel og ég sá að hann var að spila á þessu móti sem var nærri þeim stað sem við fjölskyldan vorum í sumarfríi. Hann kom, alveg sótsvartur yfir að hafa klúðrað mótinu með einu höggi og við ræddum framtíðina. Í því samtali heyrði á honum að hann langaði til að fara huga að öðru í lífinu. Ég sagði Birgi að ég teldi að hann gæti verið stoltur af því sem hann hefði afrekað en kannski væri kominn tími á nýja áskorun. Ég vissi um áhuga hans á viðskiptum, vissi að hann hefði verið að spá í MBA námið í HR en hann var hræddur um að hafa misst af lestinni því hann sótti ekki um. Ég sagði honum að það sakaði ekkert að athuga málið og Birgir hringdi við fyrsta tækifæri.“

Það losnaði pláss í MBA náminu í byrjun ágúst og fékk Birgir Leifur þá tækifæri til að róa á önnur mið: „Eins einföld ákvörðun og þetta var þegar kallið kom, þá var þetta samt í leiðinni svolítið erfitt því áður en það kom þá hafði ég hugleitt hvernig næstu skref yrðu. Þarna var ég að fara gera eitthvað nýtt eftir 20 ár í golfinu. Hvað var ég að fara gera? Hvernig ætlaði ég að ná þangað o.s.frv. En þetta reyndist hárrétt ákvörðun og ég var sestur á skólabekk í HR nokkrum dögum eftir að ég lauk leik í síðasta mótinu mínu á Challenge tour.

Það má segja að Birgir Leifur hafi ómeðvitað verið farinn að leggja drög að nýjum starfsferli á meðan golfferlinum stóð. Eins og áður kom fram þá vann hann hálfa vinnu samhliða atvinnuferlinum, fyrir hin og þessi fyrirtæki og öðlaðist þannig góða reynslu og segja má að hann sé einn af hugmyndasmiðunum á bak við Forskot, sem er afrekssjóður kylfinga. Birgir Leifur sem þá hafði verið í samstarfi með Icelandair, skaut sínum pælingum að forsvarsmönnum fyrirtækisins og spratt þá upp þessi hugmynd, að stofna styrktarsjóð fyrir kylfinga sem eru að stíga sín fyrstu skref í atvinnumennsku.

Hugmyndin var gripin á lofti og önnur stór fyrirtæki stukku á vagninn og í dag nýtur íþróttafólk, þó aðallega golfarar stuðnings Forskots. Á meðan hann vann með golfinu þá tengdust mörg störfin golfinu, t.d. verkefnum tengd viðskiptalífinu og það kveikti alltaf meira og meira í Birgi:

„Áhugi minn á viðskiptum einfaldlega jókst mikið þegar ég eyddi tíma með öllu því flotta viðskiptafólki sem ég hef hlotið heiður að spila og vinna með í gegnum minn feril. Ég sá að ég þurfti að setja mig inn í hlutina, fór að lesa viðskiptasíður dagblaðanna og yfir höfuð, að fylgjast betur með. Fann þarna hvert hugur minn leitaði og sé ég ekki eftir því að hafa stokkið á tækifærið þegar það gafst að fara í nám sem styrkir mig í að ná mínum næstu markmiðum“. „Við Siggi héldum alltaf góðu sambandi á meðan ég var í náminu, svo fékk ég frábært tækifæri að hefja nýjan feril hjá Íslenskum fjárfestum hf. í janúar sl. Ákvörðunin var mér ekki erfið, því tækifæri eins og þessi eru ekki á hverju strái. Strákarnir hafa tekið mér mjög vel, þeir eru með mikla reynslu á sínu sviði sem gefur mér aukið sjálfstraust að ná þeim markmiðum sem ég ætla mér að ná. Íslenskir fjárfestar hf. er spennandi fyrirtæki sem sérhæfir sig í miðlun á skulda- og hlutabréfamarkaði, auk þess að sinna fjárfestingarráðgjöf fyrir einstaklinga og fyrirtæki, en ég er hluti af teyminu sem sinnir fjárfestingaráðgjöfinni. Hópurinn er samheldinn og með skýra framtíðarsýn“.

Hvernig mun ganga að tvinna golfið og nýju vinnuna saman og munum við sjá Birgi aftur á Íslandsmótinu?

„Eins og ég sagði þá þarf ég alltaf að hafa að einhverju að keppa, ef það á ekki við þá held ég að ég sé ekkert svo góður í golfi. Öll mín einbeiting fer núna í nýja starfsframann og fjölskylduna, golfið verður bara áhugamál núna en það verður samt gaman að spila það samhliða vinnunni. Þegar ég náði að slá metið yfir flesta Íslandsmeistaratitla, þá datt hungrið niður en ég sé alveg fyrir mér að búa mér til nýjar keppnir. Ég hef orðið Íslandsmeistari 20, 30 og 40 ára og kannski væri verðugt markmið að ná að verða Íslandsmeistari þegar ég verð fimmtugur – eftir 5 ár. Ef hungrið kemur og mig langar til að keppa við þá bestu hér heima, þá geri ég það og hver veit nema að ég geti strítt þeim. Svo væri líka rosalega gaman að mæta á Íslandsmót með það hugarfar að spila bara sóknargolf, eins og maður gerir í holukeppni.

Íslandsmótið í höggleik er ekki beint skemmtilegt golfmót sem slíkt að mínu mati, það gengur út á að gera sem minnst af mistökum og taka takmarkaðar áhættur. Maður er því kannski að spila svolítið varnarsinnað leikskipulag, en það væri gaman að mæta til leiks, pæla ekki í neinu nema bara „La det swinge“ og negla á alla pinna!“

This article is from: