
6 minute read
Uppbygging nýja golfskálans

Árið 1992 var ákveðið af þáverandi stjórn Golfklúbbs Grindavíkur að kaupa íbúðarhúsið að Húsatóftum II af Landsbankanum sem var þá eigandi hússins. Tilboð klúbbsins hljóðaði upp á 4.5 miljónir og samþykkti Landsbankinn þá upphæð.
Uppbygging nýja golfskálans
Hús þetta var reist á árunum fyrir 1980 af Sigurði Th. Helgasyni sjávarlíffræðingi sem íbúðarhús, en Sigurður hafði árið 1977 stofnað fyrirtækið Eldi h/f á landi Húsatófta og ræktaði þar lax. Þessi rekstur Sigurðar gekk ekki sem skildi og hætti hann starfseminni að mig minnir 1989 og komst húsið þá í eigu Landsbankans.
Eftir að Sigurður flutti úr húsinu og það komst í eigu bankans, höfðu félagar klúbbsins augastað á húsinu. Kom þar tvennt til, húsið stóð þétt við golfvöllinn og því gott fyrir klúbbinn að geta ráðstafað húsinu eftir hentugleika og húsið gat orðið framtíðar golfskálinn því húsið stóð hátt fyrir miðju á framtíðar vallarsvæði. Það sem einkum stóð í félögum var fjármögnunin. Þær litlu tekjur sem klúbburinn hafði (aðallega félagsgjöld) fóru í uppbyggingu vallarins.
En eins og áður hefur verið sagt var skrefið stigið 1992 og húsið keypt. Verðið mátti teljast nokkuð viðunandi og mátti greiða það niður á nokkrum árum. Ákveðið var að reyna að leigja húsið og fá þar með tekjur upp í greiðslur afborgana.

Halldór Ingvason
Grindavíkurbær sem hafði veitt okkur nokkurn styrk til húsakaupanna kom þeim skilaboðum til okkar að æskilegt væri að við leigðum húsið ekki barnafjölskyldum því þá myndi fylgja því verulegur kostnaður fyrir bæinn að aka börnum til og frá skóla.
Ég man eftir að Guðfinnur Bergsson leigði húsið í um ár eða part úr ári. En segja má að það hafi orðið klúbbnum til happs að árið 1994 sóttust sæmdarhjónin Steinþóra og Barði eftir að leigja húsið þá nýlega komin frá Suður-Afríku. Ekki bara það að þau leigðu húsið heldur sáu þau um veitingasölu í golfskálanum (þeim gamla) yfir sumarmánuðina og um tíma rukkuðu þau inn félagsgjöld. Þau leigðu húsið í nokkur ár saman, en eftir að Steinþóra lést dvaldi Barði þar í nokkurn tíma.
Árin 1992 til 1995 voru mjög viðburðarrík í sögu klúbbsins:
Íbúðarhúsið að Húsatóftum II keypt.
Samningur gerður við Varnarmáladeild um leigu á landi undir 18 holu golfvöll og var sá samningur til 50 ára. Hannes Þorsteinsson var fenginn til að teikna 18 holu völl og ýta fengin að láni hjá Aðalverktökum til að ýta fyrir vellinum ásamt æfingarsvæði, aðeins þurfti að borga kaup ýtumanns og borga olíu á vélina.
En þá er komið að máli málanna þ.e. breyting á íbúðarhúsi í golfskála. Ég held að ég muni það rétt að það hafi verið haustið 2009 að við nokkrir eldri kylfingar, flestir hættir að vinna, vorum að spila golf á vellinum og barst talið þá að Húsatóftarhúsinu sem stóð autt. Ekki man ég hver það var sem orðaði það að nú væri kominn tími til að fara að breyta húsinu í framtíðar golfskála.
Í þessum hópi sem oftast hittist eftir hádegi voru: Steinþór Þorvaldsson, Gísli Jónsson, Jón Ragnarsson, Halldór Ingvason, Sveinn Ísaksson og Jón Guðmundsson píp. Þess má geta að bæði Sveinn og Jón voru enn í vinnu, Sveinn að hluta en Jón með eigið fyrirtæki. Rætt var um að við gætum þegar ekki viðraði til að spila golf, byrjað að rífa niður milliveggi í húsinu og gera það að einum geim.
Á þessum tíma var Páll Erlingsson formaður klúbbsins og var þessi hugmynd borin undir hann og stjórn klúbbsins. Fannst mönnum hugmyndin góð og ef við værum tilbúnir mættum við hefjast handa.
Hittumst við oftast eftir hádegi og þá fyrst til að byrja með á vetrarmánuðum. Fljótlega tók Jón Guðmundsson forystuna enda eini iðnaðarmaðurinn í hópnum. Þeir sem þekktu Jón Guðmundsson vita að fáir voru meiri áhlaupamenn til verka og segja má að hann hafi rekið okkur áfram með harðri hendi. Seinnipart vetrar 2010 var búið að rífa niður alla milliveggi og húsið orðið einn geimur. Fleiri komu við sögu en fyrrtaldir og man ég t.d. eftir Willard Ólasyni, Eðvarði Júlíussyni og syni Jóns, Guðmundi sem oft kom með pabba sínum.

Ekki var nú aftur snúið, Jón sagðist þekkja arkitekt sem væri tilbúinn að teikna fyrir okkur golfskála fyrir lítinn pening. Var það samþykkt af stjórn og fljótlega birtist Jón með teikningu af golfskála, skála í núverandi mynd. Eins og við þekkjum þurfti að bæta við íbúðarhúsið til að koma fyrir anddyri, skrifstofu og salernum og var það nokkur framkvæmd, m.a. að gera grunn undir viðbygginguna. Ekkert af þessu vafðist fyrir Jóni og dró hann okkur áfram í frekari framkvæmdir.
Stjórn klúbbsins fór nú að ókyrrast því reikningar fóru að berast vegna efniskaupa og klúbburinn að vanda auralítill. Man ég eftir því að Páll formaður kom til mín og bað mig að reyna að halda aftur af Jóni og fylgjast með því að hann setti ekki of miklar kvaðir á klúbbinn. Rétt er þó að geta þess að margt fékk klúbburinn fyrir lítinn pening, t.d. fékk Jón mest allt lagnarefni gefins. Eina vinnan sem keypt var út í byrjun var uppsláttur að grunni viðbyggingar.
Þegar haldið var upp á 30 ára afmæli klúbbsins árið 2011 var það gert í rúmlega fokheldum golfskála. Að byggingin var komin það langt á rúmlega einu og hálfu ári má auk Jóns og okkur körlunum, þakka Magnúsi Guðmundssyni í Grindinni, sem eftir vinnu kom ásamt Ólafi Má og fleiri smiðum fyrirtækisins og unnu þeir kauplaust við að koma upp viðbyggingunni og tengja hana við íbúðarhúsið. Ef klúbburinn hefði þurft að kaupa þá vinnu út held ég að húsið hefði komist seint og illa upp.

Nú tók við vinna við að ganga frá húsinu að innan. Áfram héldu Grindarmenn að vinna kauplaust við uppbygginguna. Vinnan gekk yfirleitt þannig fyrir sig að þeir lausnegldu plötur og aðra innviði og við karlarnir gengum svo frá þ.e. þéttnegldum. Þannig var gengið frá gifsplötum á veggjum og í lofti. Jón píp sá um alla lagnavinnu og voru synir hans Eiður og Guðmundur oft með honum og tókst Jóni á einhvern undraverðan hátt að fá efni að stórum hluta gefins eða með góðum afslætti. Tómas Guðmundsson sá um raflagnir og þó við þyrftum að borga fyrir þá vinnu var það aðeins brot af því sem við hefðum þurft að borga ef tekið hefði verið fullt verð. Guðmundur Jónsson og Rúnar Sigurjónsson máluðu allt að innan og var það að hluta gert í sjálfboðavinnu.
Það gefur auga leið að ekki fékkst þó allt gefins en flest með góðum afslætti. Klæðning á húsið kostaði sitt. Einnig gifsplötur á veggi og í loft og efni í raflagnir svo eitthvað sé talið. Einhvern veginn tókst klúbbnum að kljúfa þann kostnað og þegar upp var staðið voru skuldir vegna byggingar skálans hverfandi.
Skálinn eins og hann stendur í dag er gott dæmi þess hve langt er hægt að komast með sjálfboðavinnu og lögðust þar margir hendur á plóginn. Ég held að ekki sé á neinn hallað þó ég nefni sérstaklega okkur karlanna sem unnum allan tímann við bygginguna meðan á henni stóð og þá Magnús í Grindinni og hans menn. Þá er þáttur Jóns Guðmundssonar píp kafli út af fyrir sig. Allan tímann meðan á byggingunni stóð var hann í fararbroddi, fékk iðnaðarmenn sem og aðra til að leggja lið sækjandi afslætti eða gefins efni þar sem það var að hafa. Er ég viss um að oft á tíðum sleppti hann eigin vinnu til að geta unnið við skálann.
Undir það síðasta var Jón oft sár lasinn, þá haldinn þeim sjúkdómi sem dró hann til dauða 2014, sama ár og golfskálinn var fullgerður að mestu.
Ekki er ég með töluna yfir kostnaðinn við skálann upp kominn, en ég er nokkuð viss um að það er innan við helmingur af þeirri upphæð sem hefði þurft að greiða fyrir slíka bygginu ef allt hefði verið unnið og keypt á fullu verði.
Halldór Ingvason