6 minute read

Ef Erla og drengirnir þora að leggja undir, þá er ég til!

- Loser-inn eldar kvöldmatinn og gengur frá eftir mat!

Vísir hf. í Grindavík er rótgróið og öflugt sjávarútvegsfyrirtæki, stofnað árið 1965 af Páli Hreini Pálssyni og eiginkonu hans, Margréti Sighvatsdóttur. Segja má að Vísir sé fjölskyldufyrirtæki en margir af afkomendum Palla og Möggu í Vísi eins og þau voru jafnan kölluð, koma að rekstrinum en framkvæmdastjóri er annar sonanna, Pétur Hafsteinn Pálsson. Systkinin eru sex talsins og barna- og barnabarnabörn eru orðin 67.

Vísir hf. hefur alltaf stutt mjög vel við grindvískar íþróttir og endurnýjaði nýverið samning sinn við Golfklúbb Grindavíkur. Fyrirtækið er komið í hóp stærstu styrktaraðila GG en svona stuðningur treystir auðvitað stoðirnar hjá GG til lengri tíma og fyrir það eru þau sem stýra málum golfklúbbsins að sjálfsögðu mjög þakklát fyrir.

Ekki nóg með að Vísir sé öflugur fjárhagslegur styrktaraðili GG, þá leynast ansi margir golfarar innan veggja fyrirtækisins og ákvað ég að setjast niður með dóttur Péturs framkvæmdastjóra, Erlu og manni hennar, Andrew Wissler sem er frá Bandaríkjunum en þau vinna bæði hjá Vísi. Ég byrjaði á að spyrja Andrew út í hans golf þegar hann bjó í Bandaríkjunum: „Ég byrjaði að slá golfbolta þegar við fjölskyldan kíktum í heimsókn til ömmu og afa í Minnesota en afar mínir spiluðu mikið saman, bjuggu í 10 mínútna akstursfjarlægð frá hvorum öðrum. Á þessum tíma bjó ég í Norður-Karólínu en ég flutti nokkuð reglulega því faðir minn vann hjá bandaríska hernum. Ég reyndi að spila nokkuð reglulega með félögunum þegar ég var í high school en svo minnkaði spilamennskan mjög mikið á háskólaárunum í Minneapolis og eins þegar ég

byrjaði að vinna. Það var í raun ekki fyrr en ég flutti til Íslands sem ég gat farið að spila meira.“

Væntanlega ansi mikill munur á að iðka golf í Minneapolis og Grindavík? „Það er mjög mikill munur, kannski helst birtuskilyrðin en þú ert ekkert að fara í golf eftir vinnu úti, það er farið að dimma um klukkan átta en eins og við vitum hvernig þetta er hér á Íslandi, það er hægt að fara þess vegna um miðnætti á bjartasta tímanum! Þess vegna reynir fólk úti að fara um helgar og helst snemma því hitinn um hádegisbil er nánast óbærilegur. Á morgnana eru vellirnir auðvitað umsetnir og erfitt að komast að svo það er mjög mikill munur á að iðka golf á Íslandi og hvað þá í Grindavík, eða í Bandaríkjunum þar sem ég var. Fyrst eftir að ég flutti til Íslands þá var ég að spila á völlunum á höfuðborgarsvæðinu, oft eftir vinnu og þetta tók oft ansi mikinn tíma og það hentaði ekki á sama tíma og við Erla fórum að eignast börn. En þá var líka auðveldara að geta komist á okkar frábæra völl hér í Grindavík, spila bara nánast hvenær sem er.

Svo er líka annað sem er ansi mikill munur á milli Íslands og Bandaríkjanna varðandi golf en úti var maður nánast eingöngu að spila við góðar aðstæður. Ef veðrið var slæmt þá var bara einfaldlega ekki spilað. Þrumur og eldingar fylgja rigningum úti og þegar rignir, þá RIGNIR svo þá er bara ekkert spilað. Hér á Íslandi er farið nánast í öllum veðrum, t.d. eins og í meistaramótinu í fyrra en líklega hefði manni áður fyrr aldrei dottið í hug að fara í golf við slíkar aðstæður en svona er þetta bara á Íslandi, ég vandist þessu og mér líkar vel við það.“

Hvenær byrjaði svo Erla í golfi? „Ég byrjaði í fyrra en hafði farið með Andrew á æfingasvæðið þegar við bjuggum úti og ég vissi í raun þá að ég myndi fara í golf en vildi fyrst stofna fjölskyldu og einbeita mér að börnunum. Það er erfitt að vera í golfi með lítil börn því golfið er svo tímafrekt og því ákvað ég að bíða aðeins. En nú er yngsti strákurinn að verða sex ára, orðinn mikill áhugamaður um golf svo þetta er góður tímapunktur núna. Ég hef alltaf kunnað vel við mig úti í náttúrunni og golfið sameinar svo margt, útiveru, hreyfingu, félagsskap og keppni þess vegna, svo þetta hentar mér fullkomlega. Eldri strákarnir tveir eru byrjaðir og það verður frábært fyrir fjölskylduna að geta átt golfið sem sameiginlegt áhugamál í framtíðinni. Golfið er líka svo skemmtilegt upp á félagsskapinn en ég hef endurnýjað kynnin betur við gamlar vinkonur á golfvellinum, þá gefst meiri tími í gott spjall í rólegheitum úti í náttúrunni.“

Erla er hrifin af uppganginum í GG og andanum sem þar ríkir: „Ég tók þá ákvörðun þegar ég byrjaði, að vera ekki keppnishrædd en margir eru eflaust smeykir til að byrja með, telja sig svo lélega og eru hálf spéhræddir. Það kom mér skemmtilega á óvart eins og í meistaramótinu í fyrra, að það var öllum slétt sama um hvernig mér gekk, allir voru bara að spá í sinni spilamennsku og voru ekkert að gera grín af mínum sprengjum, allir lenda jú í því þegar þeir byrja.

Ég er kannski að koma inn í klúbbinn á hárréttum tímapunkti en það var mikil fjölgun í fyrra og sérstaklega byrjuðu margar konur. Andinn er ofboðslega góður og allir eru tilbúnir að hjálpa manni, sama hversu vitlausar spurningar maður kemur með.“

Það er nokkuð mikil golfmenning innan veggja Vísis og stjórnendur vilja breiða boðskapinn meira út: Andrew: „Þaðan sem ég kem þá veit ég að aðgengið að golfklúbbum er ekki alltaf auðvelt. Sumir halda að þetta séu bara lokaðir snobbklúbbar en það á alls ekki við hér á Íslandi. Hér eru allir velkomnir og kannski veit erlenda vinnuaflið ekki af þessu en stór meirihluti starfsfólks á gólfinu eru útlendingar, þeir koma frá 14 þjóðum. Við viljum gera okkar til að kynna þessa æðislegu íþrótt fyrir okkar starfsfólki en allir hafa kost á líkamsræktarstyrk og að sjálfsögðu er hægt að nýta það í golfið.“

Erla: „Við höfum undanfarin ár reynt að búa til starfsmannagolfmót og eftir að við gerðum þennan nýja samning við GG þá munum við reyna ennþá betur að fá sem flesta starfsmenn til að prófa. Við stefnum á að halda Texasmót og vonandi verður góð mæting, hver veit nema einhverjir munu svo skila sér í klúbbinn og það yrði frábært, bæði fyrir klúbbinn en ekki síst fyrir viðkomandi starfsmenn.“

Eins og áður kom fram var Vísir að endurnýja samninginn við GG og bætti í frá fyrri samningi og það er frábært fyrir GG. Er einhver sérstök ástæða fyrir þessum aukna stuðningi við golfið í Grindavík?

Erla: „Við hjá Vísi erum stolt af því að styðja íþróttir í Grindavík og fannst við hæfi að auka styrkinn enda mikil aukning iðkenda síðustu ár. Okkur finnst golfið einnig henta frábærlega fyrir almenna hreyfingu og útiveru en góð heilsa og vellíðan okkar starfsfólks er okkur mikilvæg, það er hluti af okkar mannauðsstefnu. Golfið hentar líka fjölskyldulífi fullkomlega – þ.e.a.s. þegar hjónin eru bæði í golfi og draga börnin með sér.“

Andrew bætti við: „Eflaust geta margir karlmenn sem hafa verið í golfi án þess að makinn hafi verið með, upplifað stundir á golfvellinum þar sem þeim leið eins og verið væri að stela dýrmætum tíma frá fjölskyldunni, kannski með nagandi samviskubit því vissulega getur golfið verið tímafrekt. En að geta stundað þessa æðislegu íþrótt saman sem fjölskylda, er einfaldlega frábært! Það skemmtilega við golfið er líka að allir geta keppt við alla. Þó svo að ég sé betri en Erla í dag þá býr forgjöfin til sanngjarnan punktaleik á milli okkar. Ég sé í hyllingum í framtíðinni þegar við fjölskyldan búum til holl, setjum upp game og keppum, megi sá/sú besta vinna! Yngsti skottast með og úr verður æðisleg fjölskyldustund. Ef Erla og drengirnir þora að leggja undir, þá er ég til! Loser-inn eldar kvöldmatinn og gengur frá eftir matinn!“

This article is from: