6 minute read

Ólafía Þórunn: „Ég hlakka til að spila allan völlinn ykkar“

Ekki er fast að orði kveðið og á neina hallað, ef því er haldið fram að Ólafía Þórunn Kristinsdóttir sé besti kylfingurinn í sögu íslensks kvennagolfs. Með ákveðnum rökum mætti segja að hún sé besti kylfingur Íslandssögunnar án tillits til kyns því engum kylfingi hafði hlotnast sá heiður að vera kjörinn „Íþróttamaður ársins“, þegar Ólafía varð fyrir valinu árið 2017. Alltaf erfitt að bera kynin saman í íþróttum svo látum þann samanburð liggja á milli hluta.

Ólafía hefur notið góðs stuðnings fyrirtækjanna KPMG og Bláa lónsins í nokkur ár og hugmyndin að þessu viðtali kviknaði þegar ég sá frétt um næsta skrefið á ferli Ólafíu en það tengist golfi ekkert - hún gengur um kona eigi einsömul, ber sem sagt barn undir belti og er von á frumburðinum í júlí. Keppnisgolf víkur því um stundarsakir og nýtt hlutverk tekur við. Það var gaman að setjast niður með þessari geðþekku ungu konu í húsakynnum GKG í Garðabæ og fræðast um hana, ferilinn hingað til og framtíðarplönin:

Ólafía með grindvískum heldri kylfingum á kvennamóti Bláa lónsins

„Ég ólst upp í Mosfellsbæ og tók fyrstu golfsveifluna þar, væntanlega með bræðrum mínum sem voru að passa mig en öll fjölskyldan var í golfi og ég hafði ekki val um annað – sem betur fer. Ég byrjaði að æfa golf 10 ára og svo fluttum við í Grafarholtið þegar ég var 12 ára. Sem betur fer bjuggum við hjá golfvellinum, bæði í Mosfellsbæ og Grafarholti svo það var stutt fyrir mig að fara. Ég byrjaði fljótlega að keppa og man hvað ég var stolt yfir fyrsta 18 holu hringnum, spilaði á 116 höggum og var alsæl! Ég vann ekki mörg mót á GSÍ unglingamótaröðinni fyrst, var oftast í 4. sæti. En bætti mig mikið og var svo 14 ára þegar ég vann fyrsta íslandsmeistaratitilinn minn í unglingaflokki og u.þ.b. 15 til 16 ára þegar ég var komin í kvennalandsliðið. Ég get ekki þakkað það neinu öðru en þrotlausum æfingum og stuðningi frá foreldrum mínum að vera með mér í þessu og t.d. skutla mér út um allt á golfmót og æfingar en um þetta leyti byrjaði ég að æfa mig mikið aukalega fyrir utan reglubundnar æfingar hjá þjálfara í GR. Ef maður vill ná einhverju fram þarf maður að leggja á sig vinnuna. Það er mikil vinna unnin á bakvið tjöldin þó stundum líti hlutirnir út fyrir að koma að sjálfu sér.“

Ólafía landaði nokkrum unglingameistaratitlum áður en hún hélt á vit ævintýranna í Bandaríkjunum en hún komst á námstyrk út á golfið í hinum virta háskóla, Wake Forest í Norður- -Karólínu á austurströndinni:

„Flest íþróttafólk í kringum mig á háskólaárunum, valdi sér tiltölulega auðvelt nám til að geta einbeitt sér sem mest að íþróttinni en ég vildi líka nýta mér þetta tækifæri og hljóta góða menntun. Ég valdi hagfræði og frumkvöðlafræði og sé ekki eftir því en vissulega var álagið oft á tíðum mjög mikið en ég kláraði fjögur ár og útskrifaðist. Menntunin hefur nýst mér vel og mun gera það meira í framtíðinni. Þetta var frábært tækifæri og ég bætti mig mikið sem kylfingur á þessum tíma því það má segja að þetta hafi verið eins og atvinnumennska, mikið æft og ekki bara golf heldur líkamsrækt líka. Álagið var líka mikið í skólanum en þetta var frábær tími og undirbjó mig vel fyrir það sem kom síðar.“

Atvinnumennskan byrjaði ekki strax eftir skólaárin:

„Ég vildi keppa á HM í áhugamannagolfi sem haldið var í Japan í september árið 2014 en ég útskrifaðist um vorið sama ár. Fljótlega á eftir fór ég á mitt fyrsta atvinnumannamót, í Frakklandi. Árið eftir komst ég á LET Access mótaröðina og þaðan á Evróputúrinn þar sem ég keppti þar til ég komst í gegnum þrjú úrtökumót fyrir LPGA. Það ferli var rússíbani, ég náði að standa mig mjög vel á réttum tímapunktum og mesta spennan var líklegast í lokamótinu. Þá voru u.þ.b. 40 Íslendingar komnir til að styðja við bakið á mér og fylgjast með mér spila í Florida, á sama tíma að vonast var til að ég næði að skrifa nýjan kafla í golfsöguna. Ég var að keppa um sigurinn og endaði að lokum í öðru sæti, sem ég var mjög ánægð með því stærsta markmiðið var að komast inn á LPGA, sem tókst.

Ólafía er í samstarfi við KPMG og Bláa Lónið á Íslandi og er mjög þakklát fyrir að tengjast svona sterkum og góðum fyrirtækjum.

Bestu niðurstöðurnar komu fyrsta árið en það er svo stutt stórra högga á milli í þessu. Árið 2017 var meðalskorið mitt 72,40 og árið 2018 var það 72,76. Eini munurinn var að árið 2018 datt ég vitlausu megin við línuna allt of oft og missti af niðurskurðum með einu höggi. Þar af leiðandi endaði ég líka vitlausu megin við línuna á stigalistanum og hélt ekki fullum keppnisrétti fyrir árið 2019. Þá er maður kominn í erfiða stöðu, það er erfitt eitt og sér að halda keppnisréttinum þegar maður keppir á öllum mótunum en að gera það með færri mót í boði er stór áskorun. Ef ég lendi í þessari stöðu aftur myndi ég einbeita mér einungis að LPGA, en þetta ár var ég að fylla í dagskrána mína með mótum frá Symetra mótaröðinni. Það tók aðeins meiri orku frá mér en ég átti von á. En ég læri af þessu og nú veit ég hvað hentar mér. Árið 2020 ætlaði ég síðan að keppa á Symetra mótaröðinni, en svo kom COVID. Ég náði að spila á einu móti, var nýflogin heim þegar Trump lokaði Ameríku og ég vissi ekkert hvað ég átti að gera, hvort ég ætti að fljúga strax aftur út eða hvað. Var þá í góðu sambandi við LPGA og fljótlega kom í ljós að tímabilinu yrði öðruvísi háttað þetta árið og stigalistinn myndi frjósa eins og hann er þangað til 2021.“

Ólafía er í samstarfi við KPMG og Bláa Lónið á Íslandi og er mjög þakklát fyrir að tengjast svona sterkum og góðum fyrirtækjum.

Það er ennþá mikill munur þegar kemur að högum leikmanna og fjármunum í kvennagolfi og karlagolfi. LPGA er að vinna að því að brúa það bil. KPMG hefur verið stór hluti af þeirri jafnréttisstefnu og haldið flottasta stórmót ársins ár eftir ár með því hliðarmarkmiði að hækka verðlaunafé og nálgast þar með verðlaunafé í karlamótum.

Ólafía er í samstarfi við KPMG og Bláa Lónið á Íslandi og er mjög þakklát fyrir að tengjast svona sterkum og góðum fyrirtækjum.

„LPGA styður mjög vel við mæður en í gegnum tíðina hafa þekktir íþróttaframleiðendur sagt upp samningum við konur vegna barneigna. Keppnisréttur minn er einfaldlega frystur og ég get sinnt mæðrahlutverkinu að fullu í tvö ár frá fæðingu barnsins, get því snúið til baka á mótaröðina árið 2023 í síðasta lagi. Ég er ekki farin að hugsa svo langt, tek bara á því þegar að því kemur. Þess vegna er frábært fyrir mig að hafa svo góða samstarfsaðila sem KPMG og Bláa lónið eru, það kom aldrei til greina hjá þessum frábæru fyrirtækjum að snúa við mér bakinu, við horfum á samstarfið til langs tíma og það veitir mér ákveðið öryggi og ég er þessum fyrirtækjum mjög þakklát!“

Í hverju er samstarfið fólgið? „Ég hóf samstarf við þessi fyrirtæki þegar ég komst inn á LPGA árið 2017. Ég ber derhúfu með lógóinu þeirra og er líka merkt á bolnum. Það hefur verið gaman að sjá fólk minnast á Blue Lagoon sem það tengir auðvitað við Ísland. KPMG er risastórt fyrirtæki á heimsvísu og er gaman að vera í félagsskap Phil Mickelson, Stacy Lewis o.fl. frábærra kylfinga.

Samstarfið er mest golftengt, ég tek þátt í alls kyns golfviðburðum og við reynum að láta gott af okkur leiða. Ég hef m.a. komið á ykkar frábæra völl í Grindavík á kvennamót Bláa lónsins. Ég hef reyndar bara spilað fyrri 9 holurnar og þá 12. margoft því mitt hlutverk fólst í að spila þá holu með öllum keppendum, mjög skemmtilegt! Ég hlakka til að spila allan völlinn ykkar einhvern daginn.“

This article is from: