
5 minute read
Virðing fyrir leiknum - Siðareglur í golfi
Til eru 10 reglur í golfi er lúta að góðum siðum. Þessi grein kemur inn á þessa golfsiði og yfir höfuð, að bera virðingu fyrir þessari göfugu íþrótt sem golfið er. Golfið á sér tæplega 300 ára sögu og var í raun „heldri manna“ íþrótt hér áður fyrr. Sem betur fer hefur það breyst og allir stunda golf í dag, ungir og aldnir, konur og karlar, börn og fullorðnir - og allir þar á milli. Eftir stendur samt að ákveðnar reglur er gott að halda í heiðri. Þessar 10 siðareglur í golfi eru eftirfarandi:
Vertu stundvís
Já, eða vertu meira en stundvís. Vertu mættur að lágmarki 10 – 15 mínútum áður en þú átt teig. Það er fátt leiðinlegra en að bíða á teig eftir einhverjum sem ber ekki virðingu fyrir þínum tíma. Svo veistu líka að lágmarks upphitun mun að öllum líkindum leiða til betri frammistöðu.
Ekki vera hægasti golfarinn á vellinum
Reyndir golfarar munu segja þér að hægur leikur er það leiðinlegasta sem til er svo gerðu þitt besta til að viðhalda eðlilegum leikhraða. Ef þú sérð að þitt holl er að dragast aftur úr hollinu fyrir framan og hollið á eftir þínu þarf mikið að bíða, leggðu þá til að þitt holl hleypi hollinu að aftan fram úr. Þá slakar þú líka betur á því það er óþægilegt að hafa aðra golfara stígandi nánast á hælana á þér.
Lagaðu jörðina sem þú ert að leika þér á
Þú veist þetta, settu torfur aftur í sárið sem þú bjóst til, það grær strax! Þegar þú hittir flötina af löngu færi, þá eru allar líkur á að hola myndist í flötinni, lagaðu holuna með flatargaffli. Þegar þú lendir í glompu, skildu þá við hana eins og hún var áður en boltinn þinn lenti í henni.
Ekki líta á golfbolta sem gull!
Ef þú týnir golfbolta, þá var þetta bara golfbolti og hann kostar ekki svo mikið. Ekki eyða meira en þremur mínútum að leita. Ef þú slærð þangað sem þig grunar að þú munir lenda í vandræðum með að finna boltann, sláðu þá strax varabolta. Þau eru fá þyngri skrefin, en þurfa að labba aftur á þann stað þaðan sem slegið var. Mundu að taka fram að áfram sé varabolti sleginn ef ennþá á eftir að leita að fyrri bolta.
Slökktu á símanum
Þú ferð í golf til að aftengjast umheiminum, njóttu þess almennilega og slökktu á símanum, hið minnsta slökktu á hringingunni! Ef þú ert svona mikilvæg/ur, athugaðu þá hvort einhver hafi verið að reyna ná í þig og fáðu leyfi meðspilara til að hringja til baka ef þú telur það nauðsynlegt.
Hafðu stjórn á skapi þínu
Það er einfaldlega ekki í boði að blóta, bölva og kasta golfkylfum hingað og þangað á golfvelli! Bæði kemur það meira niður á þínum leik – og þú truflar meðspilara þína. Teldu alla vega upp á 10 áður en þú missir þig.
Ekki trufla meðspilarana þína
Reyndu að vera hljóður á meðan meðspilarar þínir eru að slá. Of mikil læti geta líka truflað golfara á öðrum brautum, teigum eða flötum. Slökktu einfaldlega á útvarpinu þínu. Ekki vaða á undan meðspilurum þínum og ef þú gengur í veg fyrir meðspilara þegar hann/hún er að fara að slá, þá þarftu jafnvel að taka eina róandi og reyna slaka þér aðeins!
Hvernig viljum við meðhöndla flaggstöngina?
Ef meðspilarinn biður þig um að halda í stöngina, passaðu þá að flaggið sé ekki að bærast um í vindinum, haltu því samhliða stönginni. Ef þú ert beðinn um að taka stöngina upp úr, leggðu hana þá fyrir utan flötina, bæði getur hún skemmt flötina og eins truflað meðspilarann. Ekki ganga inn á flötina með golfpokann þinn – og að sjálfsögðu ekki kerruna! Við viljum vernda flötina eins mikið og við getum og aukin þyngsl búa til meiri þrýsting sem geta skemmt flötina. Auðvitað þurfti ekkert að segja þér að fara ekki með golfkerruna inn á flötina…
Vertu snyrtilegur og vel til fara á golfvelli.
Bíddu með bjórinn þar til eftir hring. Golfið er heldri manna íþrótt, berum virðingu fyrir leiknum. Verum flott til fara, gallabuxur eru t.d. kauðalegar. Bjórinn er sjaldan eins góður eins og eftir 18 holu hring, höldum í okkur þangað til inn í skála er komið – þá verður hann líka betri.
Hvað þarf ég til að byrja í golfi? - kylfur og útbúnaður
Rétt val á kylfum hefur góð áhrif á útkomuna hjá kylfingum og þá sérstaklega hjá byrjendum. Ekki er nauðsynlegt að byrja með fullkominn útbúnað hvað varðar fjölda kylfa og slíkt.
Golfkylfur hafa þróast gríðarlega á undanförnum árum og áratugum. Það er alls ekki mælt með því að byrja með „fornar“ blaðkylfur með leðurgripum frá frænda þínum sem hann ætlaði að henda á haugana. Það er leyfilegt að vera með 14 kylfur í pokanum en byrjendur komast af með 3 – 4 kylfur til að byrja með.
Margir sérfræðingar mæla með 6-járni, 8-járni og fleygjárni (PW) ásamt pútter í upphafi. Næst væri hægt að bæta við blendingskylfu (hybrid) sem er 18-21 gráður.
Gráður?
Allar golfkylfur eru með mismunandi gráður á höggfletinum. Hærri gráðutala þýðir að boltinn flýgur hærra. Því hærri sem talan er, því vinalegri er kylfan fyrir byrjendur. Ef þú ert að byrja í golfi og ætlar að kaupa þér dræver, prófaðu að slá með dræver með 10 gráðu halla á höggfletinum eða meira. 3-tréð ætti að vera 17 gráður en ekki 15 gráður og þannig fikrar þú þig áfram í kylfuvalinu. Nýttu þér tæknina sem er í boði en margar kylfur eru hannaðar fyrir byrjendur. Sem dæmi má nefna að kylfur með þykkum botni virka betur fyrir þá sem eru að byrja í golfi en þunnar kylfur eru hannaðar fyrir kylfinga sem eru lengra á veg komnir.
Golfboltar?
Það er ekki nauðsynlegt að byrja golfferilinn með dýrustu boltunum. Reglan er einföld. Ef þú týnir mörgum boltum á hring notaðu þá ódýra bolta. Mestu máli skiptir að boltinn henti sveifluhraða þínum. Atvinnukylfingar slá fastar í boltann en þú og boltinn sem þeir kjósa er harður. Það eru til margar tegundir af boltum og þeir eru mismunandi mjúkir. Fyrir byrjendur er gott að nota mjúka bolta og þegar sveiflan verður hraðari er hægt að fikra sig áfram á þessu sviði.
Fatnaður?
Það er ekki nauðsynlegt að vera í sérstökum golffatnaði til þess að byrja með. Íþróttaskór duga vel í byrjun og hefðbundinn útivistarfatnaður sem er þægilegur þegar allra veðra er von. Golffatnaður er hannaður til þess að kylfingum líði vel þegar þeir eru að slá og hreyfa sig úti á golfvellinum.
Hafðu samband við þinn golfklúbb
Flestir golfklúbbar landsins bjóða upp á námskeið fyrir þá sem eru að byrja í golfi. Það eru allir tilbúnir að hjálpa þér í þeim efnum. Einnig er hægt að leita til þeirra sem eru með PGA kennararéttindi en þeir eru fjölmargir.
Við viljum vernda flötina eins mikið og við getum og aukin þyngsl búa til meiri þrýsting sem geta skemmt flötina. Auðvitað þurfti ekkert að segja þér að fara ekki með golfkerruna inn á flötina…