
3 minute read
Fastur punktur í tilveru grindvískra golfara
Fastur punktur í tilveru grindvískra golfara, er hin geysivinsæla Stigamótaröð en fyrir þá sem ekki til þekkja, þá eru haldin 12 mót yfir sumarið og telja þau til stiga og að lokum eru 8 bestu mót viðkomandi kylfings tekin saman og reiknaður út heildarstigafjöldi.
Fólk skráir sig á frjálsa tíma frá kl. 13 – 19, skila undirrituðu skorkorti og eru þar með orðnir þátttakendur. Undanfarin ár hafa þessi mót verið spiluð á þriðjudögum en með þann möguleika að færa mótið aftur eða fram um dag ef veðurspá gefur tilefni til.
Gefin eru 35 stig fyrir að vinna viðkomandi mót, 30 fyrir annað sætið, 26 fyrir þriðja sætið og koll af kolli alla leið niður í 20. sæti sem gefur eitt stig. Alltaf er verðlaunað líka fyrir besta skor án forgjafar. Undanfarin ár hefur Nettó styrkt Stigamótaröðina þannig að alltaf eru inneignarkort frá Nettó í verðlaun, hentugt fyrir alla.
Oft er talað um golfíþróttina sem einu íþróttina þar sem allir geta keppt við alla. Dustin Johnson gæti mætt á teig, fær u.þ.b. -10 í forgjöf og ég gæti att kappi við hann í punktaleik!
Eitt af því skemmtilegasta við Stigamótaröðina er að allir keppa við alla. Konur á móti körlum, unglingar á móti gömlum golfurum o.s.frv. Það er einfaldlega sá golfari sem flest stig hlýtur í sínum bestu átta mótum, sem stendur uppi sem sigurvegari. Þó svo að konur hafi jafna möguleika á sigri, þá hefur það bara einu sinni gerst að kona hafi borið sigur úr býtum en fyrrum meðlimur GG, Berglind Demusdóttir heitin vann mótaröðina þriðja árið sem hún fór fram, 1986. Konur og stelpur, koma svo!
Þessi stigamótaröð hóf göngu sína þremur árum eftir stofnun klúbbsins 1981, n.tt. 1984 en árið á undan var fyrsta Meistaramót GG haldið. Fyrsti Stigameistari GG var golfari sem hefur verið betur þekktur fyrir körfuboltaiðkun sína, Guðmundur Bragason.
Þrisvar sinnum hefur það gerst að sami kylfingur vinnur Stigamótaröðina og verður klúbbmeistari GG á sama árinu. Sigurgeir Guðjónsson reið á vaðið árið 2002 og árið eftir, 2003 tók Davíð Arthur Friðriksson tvennuna. Það var svo árið 2009 sem Hávarður Gunnarsson endurtók leikinn.
Guðmundur Stefán Jónsson (Gummi píp eins og hann er betur þekktur á meðal Grindvíkinga) hefur unnið flesta Stigamótstitla, eða alls fimm (1994, 1996, 1998, 2000 og 2001)
Ég ákvað að taka Stigamótsmeistara síðasta árs, Jón Halldór Gíslason tali en segja má að hann hafi átt nokkuð stóran þátt í að gera veg Stigamótanna meiri fyrir u.þ.b. átta árum. Þá var Jón í stjórn klúbbsins og tók sig til og fékk nokkur fyrirtæki til að styrkja viðkomandi mót og var þá fána viðkomandi fyrirtækis m.a. flaggað á mótsdegi. Þetta eru fyrirtækin Íslyft, Rubix, Loft og raftæki, Metal og Scanver.
Hvernig stóð á því að Jón fór út í þessa vegferð?
„Mér fannst vanta eitthvað upp á þessi mót, það kostaði ekkert í mótin og þátttaka var lítil. Ég fór út af örkinni og hafði samband við þessi fyrirtæki sem voru öll í viðskiptum við Þorbjörn þar sem ég vann og ég var mikið í samskiptum við. Alls staðar var mér vel tekið og þessi fyrirtæki hafa öll haldið tryggð fram á þennan dag fyrir utan eitt sem lauk leik í fyrra. Ég vona að á þessu afmælisári klúbbsins, verði styrktaraðilum mótsins fjölgað og í mínum draumum verða 12 flott fyrirtæki sem hvert á sitt mót.“
Jón hreppti síðan Stigamótstitilinn í fyrra: „Eftir að ég settist í helgan stein áramótin ´19/´20 þá náði ég að stunda golfið talsvert meira og það leiddi til betri og jafnari spilamennsku. Ég tók þátt í flestum stigamótunum og það get ég Guðsvarið fyrir, að ég lét mig ekki dreyma um að hampa Stigamótstitlinum þegar ég tí-aði upp á fyrstu holunni í lokamótinu. Ég man ekki alveg í hvaða sæti ég var í heildarkeppninni, kannski í kringum áttunda - tíunda sæti en hitti á algeran draumahring, 78 högg sem skilaði mér 45 punktum í keppninni. Þegar leik lauk þá hafði ég nú góða tilfinningu fyrir að hafa unnið þetta tiltekna mót en Helgi sagði mér að hinkra aðeins og í ljós kom að þessir punktar gerðu útslagið, skiluðu mér í efsta sætið og það var óvænt gleði!“
Jón er aldeilis ekki sestur í helgan stein í golfinu: „Það eru orðin ansi mörg ár síðan ríkjandi Stigamótsmeistari varði titilinn og eigum við ekki að segja að það sé kominn tími á það á afmælisári klúbbsins!“