11 minute read

Barnsskónum slitið

Saga golfíþróttarinnar á Íslandi frá 1942 til 2012

Höfundar: Steinar J. Lúðvíksson, Gullveig Sæmundsdóttir

1942-49 - Barnsskónum slitið

Golfmenn stofnuðu fyrsta sérsamband ÍSÍ. Einnota völlur í Skagafirði. Fyrsta keppnisferðin til útlanda. Glímt við regluverkið.

Golfsambandið stofnað

Föstudaginn 14. ágúst 1942 settust tíu menn við borð í golfskála Golfklúbbs Íslands. Þeir voru þangað komnir sem fulltrúar klúbbanna þriggja til þess að stofna Golfsamband Íslands. Mikil vinna hafði verið lögð í undirbúning fundarins. Samið hafði verið frumvarp að lögum um sambandið og ítarlegar keppnisreglur um mót sem nefndist Landskeppni í golfleik á Íslandi og var þar um að ræða mót þar sem þeir bestu kepptu um titilinn golfmeistari Íslands.Ýmsir mætir menn höfðu lagt hönd á plóginn við undirbúninginn en mest mun hann þó hafa mætt á nokkrum félögum í Golfklúbbi Íslands. Þeir höfðu samið lagafrumvarpið og reglurnar og sent félögum sínum í hinum klúbbunum plöggin til skoðunar og athugasemda.

Mennirnir tíu sem kjörnir höfðu verið til þess að sitja fyrsta golfþingið voru Gunnlaugur Einarsson, læknir, Helgi H. Eiríksson, skólastjóri, Magnús Björnsson, ríkisbókari og Halldór Hansen, læknir frá Golflúbbi Íslands, Gunnar Hallgrímsson, tannlæknir og Sigtryggur Júlíusson rakarameistari frá Golfklúbbi Akureyrar og Hinrik Jónsson, bæjarstjóri og Páll Jónsson, lögfræðingur frá Golfklúbbi Vestmannaeyja. Mættu þeir allir til þingsins nema Magnús Björnsson og tók Sigmundur Halldórsson, byggingameistari sæti hans sem varamaður. Eftir að kjörbréf höfðu verið rannsökuð og samþykkt var komið að setningu þingsins og var vel við hæfi að það kæmi í hlut þess manns sem hvað ötulast hafði unnið að framgangi golfíþróttarinnar á Íslandi, Gunnlaugs Einarssonar, formanns Golfklúbbs Íslands að setja þingið.

“Það er gleðilegt tímanna tákn, á þessum tímum allskonar ástands og margskonar mæðuveiki, að golffélög Íslands skuli hafa bjartsýni til þess, í friði og ró, að tryggja framtíð golfíþróttarinnar á Íslandi. Við skulum allir óska þess og biðja hljóðlátlega, að starf vort í dag marki tímamót í golfsögu Íslands, golfíþróttinni til hagsældar, svo að henni megi aukast ásmegin til að rækja köllun sína landsins börnum til aukinnar heilbrigði, gleði og langlífis, ekki einungis á þeim völlum, sem þegar eru henni helgaðir, heldur einnig á mörgum fleiri, í fegurð og víðsýni íslenskrar náttúru, sem alltaf mun verða mesti andlegi heilsubrunnur Íslendinga og vörn gegn dægurþrasi og þröngsýni. Þetta mót er gleðilegur vottur um þá grósku, sem er í íþróttinni hér á landi, þegar miðað er við önnur lönd og tillit tekið til þess, að það eru aðeins sjö og hálft ár síðan að fyrsti golfklúbburinn var stofnaður hér á landi. Síðar, þá er félögin voru orðin þrjú, hefur það legið í loftinu að þau stofnuðu með sér golfsamband.”

Fundargerðarbók Golfsambands Íslands. 14. ágúst 1942.

Stjórnarmenn GSÍ á rökstólum 1942. Helgi Hermann Eiríksson (fyrir miðju) var kjörinn fyrsti formaður sambandsins.

Ljósmyndari óþekktur/Borgarskjalasafn.

Eftir að Helgi H. Eiríksson hafði verið kjörinn forseti þingsins og Hinrik Jónsson fundarritari var gengið til starfa. Aðalverkefni þingsins var að fara yfir þau frum- varpsdrög að lögum sambandsins og keppnisreglum meistaramótsins sem fyrir lágu og má marka af fundargerð að menn hafa rýnt vandlega í hverja einustu grein. Margar breytingartillögur, einkum um orðalagsbreytingar, komu fram og voru samþykktar en veigamesta breytingin sem samþykkt var fjallaði um skattgreiðslur félaganna til hins fyrirhugaða sambands. Lagt var til að þær yrðu 2,00 kr. á hvern félaga en samþykkt að hækka þá upphæð um meira en helming, eða upp í fimm krónur og ennfremur ákveðið að það sambandfélag sem hefði ekki greitt árgjald sitt á gjalddaga fengi ekki þátttökurétt í mótum á vegum sambandsins.

Í lögum Golfsambandsins voru sett ákvæði um að golfþing skyldi haldið í tengslum við meistarakeppni Íslands sem fram skyldi fara ekki sjaldnar en annaðhvert ár og þá gerðu lögin einnig ráð fyrir því að golfsambandið sem slíkt gerðist aðili að Íþróttasambandi Íslands en fram að stofnun þess höfðu klúbbarnir átt beina aðild að ÍSÍ.

Starfsskyldur stjórnarinnar14. grein laganna fjallaði um starfsskyldur stjórnar hins nýja sambands og sagði að þær skyldu vera eftirtaldar:

a) Að hafa á hendi þær framkvæmdir, sem undir sambandið heyra.

b) Að sjá um að farið sé eftir viðurkenndum golfreglum og lögum sambandsins og fyrirmælum.

c) Að úrskurða deilumál um golf, sem áfrýjað er til sambandsins.

d) Að ákveða stað og stund fyrir næsta meistaramót og golfþing ef þingið felur henni það.

e) Að stuðla að og líta eftir kappleikjum milli klúbba.

f ) Að vera fulltrúi sambandins og golfíþróttarinnar út á við.

Fundagerðarbók Golfsambands Íslands 14. ágúst 1942.

Þegar lögin höfðu verið samþykkt sneru menn sér að viðamiklum reglubálki sem fjallaði um „landskeppni í golfleik á Íslandi“ Þar var í raun um að ræða reglugerð fyrir Íslandsmeitaramót enda gert ráð fyrir því að sigurvegari í mótinu bæri titilinn „golfmeistari Íslands“ og fengi verðlaunagrip þann sem Helgi H. Eiríksson, Sigmundur Halldórsson og Jón Eiríksson höfðu gefið til keppninnar.

Íslandsmeistarabikar karla sem gefinn var Golfsambandinu árið 1942. Enn er keppt um gripinn.

Stóð bikarinn á borði í golfskálanum meðan þingið fór fram og dáðust margir að því hversu veglegur hann var enda slíkir gripir ekki algengir á þessum árum.

Skemmst er frá því að segja að meginreglur Íslandsmótsins sem samþykktar voru á þinginu voru þær að allir kylfingar í viðurkenndum klúbbum hefðu keppnisrétt á mótinu hefðu þeir 12 eða minna í forgjöf og hefðu ekki atvinnutekjur af golfíþróttinni. Keppnisfyrirkomulagið var ákveðið þannig að efna átti til undirbúningskeppni þar sem leikinn var höggleikur en síðan tók við holukeppni. Í fyrstu umferð hennar átti að leika 18 holur en í undanúrslitum 36 holur og í úrslitum 54 holur. Yrðu menn jafnir í úrslitaleiknum áttu þeir að leika níu holur til viðbótar. „Hverja umferð skal leika á einum degi, nema “final“. Þá umferð má leika á tveim dögum og sé ekki dagur á milli.”

Fundargerðarbók Golfsambands Íslands 14. ágúst 1942.

Þegar búið var að fara yfir laga- og regluverkið tóku þingfulltrúar sér stutt hlé og var það m.a. notað til þess að semja og senda Sveini Björnssyni ríkisstjóra svohljóðandi símskeyti: “Fyrsta golfþing Íslands sendir yður hugheilar kveðjur sem hinum fyrsta íslenska kylfingi og þakkar alúð yðar við íþróttina og alla aðstoða við að ryðja henni braut á Íslandi. “ Undir skeytið rituðu allir þingfulltrúar nöfn sín og áður en degi lauk hafði borist svarskeyti frá Sveini: “Alúðar þakkir fyrir kveðjur frá golfþinginu. Heill og framgang fyrir golfíþróttina á Íslandi. Kveðjur til þingsins. Sveinn Björnsson.”Fundargerðarbók Golfssambands Íslands 14. ágúst 1942.

Helgi H. Eiríksson fyrsti forsetinn

Þá kom að stjórnarkjörinu. Kjósa skyldi forseta sambandsins og þrjá menn með honum í stjórn. Nú hefði það ef til vill legið beinast við að Gunnlaugur Einarsson yrði kjörinn fyrsti forseti sambandsins. Hann hafði átt tillöguna um stofnun þess og verið ótvíræður forystumaður í félagsmálum golfsins á Íslandi. En bæði var að Gunnlaugur mun ekki hafa sóst eftir kjöri og að hann var formaður Golfklúbbs Íslands og það þótti varla við hæfi að sami maðurinn gegndi formennsku í klúbbnum og forsetaembætti í Golfsambandinu. Í forsetakosningunni fékk Helgi H. Eiríksson skólastjóri 7 atkvæði, Gunnlaugur Einarsson 1 atkvæði og tveir seðlar voru auðir. Þar með var Helgi réttkjörinn sem fyrsti forseti sambandsins. Með honum í stjórn voru kjörnir þeir Halldór Hansen læknir í Reykjavík, Jóhann Þorkelsson læknir á Akureyri og Georg Gíslason kaupmaður í Vestmannaeyjum. Endurskoðendur voru kosnir þeir Helgi Eiríksson bankafulltrúi og Magnús Andrésson heildsali. Stjórnin skipti síðar með sér verkum og tók Halldór Hansen að sér að vera bæði gjaldkeri og ritari sambandsins.

Fyrsta Íslandsmótið í roki og rigningu

Meðan forystumennirnir sátu á rökstólum í golfskálanum var mikið um að vera utandyra. Þar voru bestu kylfingar landsins að fara síðustu æfingahringina fyrir Íslandsmótið. Alls voru 22 skráðir til keppni, langflestir þeirra sem voru með 12 eða minna í forgjöf. Ellefu þeirra voru úr Golfklúbbi Íslands, þrír frá Golfklúbbi Akureyrar og hvorki fleiri né færri en átta úr Golfklúbbi Vestmannaeyja. Meðal kylfinga var mikið “spáð og spekúlerað” hver myndi hljóta hinn eftirsóknarverða titil. Flestir töldu líklegt að Reykvíkingar væru sigurstranglegir, þeir voru á heimavelli, en lítið hafði sést til sumra kylfinganna sem komu frá Akureyri og Vestmannaeyjum. Það eitt var vitað að þeir kunnu ýmislegt fyrir sér.

Jakob Hafstein (t.v.) og Gísli Ólafsson léku til úrslita í fyrsta Íslandsmótinu árið 1942.

Ekki var hægt að segja að kylfingarnir væru heppnir með veður þegar keppnin hófst að morgni sunnudagsins 16. ágúst. Það var hávaðarok og grenjandi rigning. Var vatnsveðrið slíkt að fresta varð knattspyrnuleikjum sem fram áttu að fara í Reykjavík. En ekki kom til greina að fresta golfmótinu – utanbæjarmennirnir voru komnir langan veg til keppni og það ekki sjálfgefið að þeir gætu komist ef beðið yrði betri tíðar. Menn settu því undir sig hausinn og lögðu í hann. Völlurinn var vitanlega forbrautur, holurnar fullar af vatni og for í kringum sumar flatirnar, einkum þá sjöttu sem var nokkurn veginn á sama stað og síðar reis bygging sem hýsti fyrst Morgunblaðið og síðar Háskóla Reykjavíkur.

Upp úr hádegi fóru fyrstu keppendurnir að koma í hús og þegar allir voru komnir inn kom í ljós að skorið var furðu gott miðað við aðstæðurnar. Enginn lék betur en Gísli Ólafsson sem var á 81 höggi en tveir aðrir kylfingar léku einnig á undir 90 höggum: Jakob Hafstein á 84 og Helgi Eiríksson á 86 höggum. Sá sem varð í 16. sæti lék á 100 höggum en hæsta skor var 109 högg. Gengi utanbæjarmanna var eftir atvikum gott. Akureyringarnir þrír komust áfram og fimm Eyjamenn. Einn þeirra, Guðlaugur Gíslason, síðar alþingismaður, lék svo vel (91 högg) að ljóst þótti að hann ætti góða möguleika á að blanda sér af alvöru í meistarabaráttuna héldi hann uppteknum hætti. Fór líka svo að hann var eini utanbæjarmaðurinn sem komst í gegnum fyrsta einvígið í holukeppninni – og gott betur því hann sigraði einnig andstæðing sinn í annarri umferðinni og var þar með kominn í fjögurra manna úrslit.

Þangað komust, auk Guðlaugs, þeir Gísli Ólafsson, Jakob Hafstein og Helgi Eiríksson. Mættust Jakob og Guðlaugur annars vegar og Gísli og Helgi hins vegar í undanúrslitunum og léku 36 holur. Báðir þeir leikir voru jafnir í fyrstu en síðan skildu leiðir hjá keppendunum. Gísli vann Helga 8:7 og Jakob vann Guðlaug 9:7.

Gísli fyrsti Íslandsmeistarinn

Það kom raunar ekki á óvart að það skyldu verða kapparnir Gísli Ólafsson og Jakob Hafstein sem léku til úrslita. Þeir voru búnir að sýna það á mótum sumarsins að þeir stóðu öðrum kylfingum framar og voru mjög jafnir. Þegar kom að úrslitarimmu þeirra var komið svo gott veður að kapparnir gátu verið léttklæddir og vallarskilyrði höfðu batnað til muna. Eftir fyrstu 18 holurnar var staðan jöfn, en á öðrum hring náði Gísli hins vegar einnar holu forskoti. Mikil spenna var á lokahringnum. Þegar á hann leið náði Gísli þriggja holu forskoti og tókst Jakob ekki að vinna þann mun upp þannig að þegar sextán holur höfðu verið leiknar tókust kapparnir í hendur og lögðu niður vopnin. Gísli Ólafsson var orðinn fyrsti Íslandsmeistarinn í sögu golfíþróttarinnar á Íslandi. Var honum og Jakob ákaft fagnað er þeir gengu í golfskálann að leikslokum en þar hafði fjöldi fólks safnast saman og beðið með óþreytu frétta af gangi mála úti á vellinum. Helgi H. Eiríksson afhenti Gísla hinn virðulega verðlaunagrip sem Íslandmeistaratitlinum fylgdi svo og lítinn bikar til eignar og fékk Jakob annan slíkan. “Í samkvæmislok fór margt viðstaddra með Gísla heim til foreldra hans, Ólafs Gíslasonar og Ágústu Þorsteinsdóttur, og sat þar í góðum fagnaði við veitingar og ræðuhöld um stund.”Kylfingur. 8 árg. 1942, bls. 31.

Stofnun GSÍ hleypti krafti í golfíþróttina

Stofnun Golfsambandsins og keppnin um Íslandsmeistaratitilinn hleypti töluverðum þrótti í golfið á Íslandi og var mikið um að vera hjá öllum klúbbunum sumarið 1942. Það sem þó helst hamlaði meiri starfsemi var að mjög erfitt reyndist að útvega golfkennara. Stríðið var í algleymingi og ungir menn sem höfðu fengist til golfkennslu bæði austan hafs og vestan uppteknir af allt öðru en að sinna íþróttinni. Þótt golfiðkun legðist aldrei alveg af á stríðsárunum var yfirbragðið allt annað en áður. Á sumum stöðum í Bretlandi var t.d. golfvöllum breytt í flugvelli.

Gísli Ólafsson, Íslandsmeistari 1942-44 púttar í mótinu á Völlum í Skagafirði árið 1944.. Leikin var holukeppni með svokallaðri ,,Stymie” aðferð. Bolti keppenda var ekki tekinn upp og merktur nema að hann væri í að minnsta kosti 15 sentimetra fjarlægð.

Ljósmynd: Árni Egilsson

Enginn asi var á nýkjörinni stjórn Golfsambandsins og var það ekki fyrr en 27. janúar 1943 eða tæplega hálfu ári eftir golfþingið að boðað var til fyrsta stjórnarfundarins. Hann var haldinn á heimili Helga H. Eiríkssonar. Þar mætti Halldór Hansen en ekki aðrir stjórnarmenn. Tvö mál voru á dagskrá, næsta golfþing og útvegun kennara. Var ákveðið að halda næsta golfþing í Reykjavík 24. júlí 1943 og halda landsmótið í tengslum við það. Skrifuðu þeir félagar klúbbunum þremur og tilkynntu þessa ákvörðun sína.

Ljóst má vera að þótt ekki færi mikið fyrir Golfsambandi Íslands í fyrstu þá hleypti stofnun þess miklu lífi í golfiðkunina. Á þeirra tíma mælikvarða fékk Íslandsmótið 1942 töluverða umfjöllun í fjölmiðlum sem töluðu um spennandi og tvísýna keppni en lýstu henni ekki að öðru leyti. Mótahald hjá klúbbunum þremur sumarið 1943 var með mesta móti og bryddað upp á nýjungum. Þannig efndi Golfklúbbur Íslands t.d. í annað sinn til sérstaks öldungamóts þar sem þeir einir sem voru orðnir fimmtugir höfðu keppnisrétt og kepptu um bikar sem nokkrir yngri menn í klúbbnum höfðu gefið. Kepptu þeir Magnús Kjaran og Ólafur Gíslason til úrslita. “Var það harður atgangur og eigi líkur því að þar ættust við gamalmenni.”Kylfingur 1943, bls. 6. Þá var það einnig nýjung að í meistaramóti Golfklúbbs Íslands var keppt í þremur flokkum – meistaraflokki, 1. flokki og 2. flokki. Á vegum klúbbsins var efnt til vetraræfinga í húsinu sem stendur á horni Vesturgötu og Garðastrætis og þótti það frásagnarvert að þangað mætti á annan tug ungmenna en allt fram til þessa tíma höfðu fáir af yngri kynslóðinni reynt fyrir sér í golfi. Kennari á þessum innanhússæfingum var enginn annnar en Íslandsmeistarinn Gísli Ólafsson.

This article is from: