4 minute read

Fyrsta Íslandsmótið í golfi fór fram í roki og rigningu

Fyrsta Íslandsmótið í golfi fór fram árið 1942. Hér er úrdráttur úr bókinni Golf á Íslandi sem kom út árið 2012.

Alls voru 22 skráðir til keppni, langflestir þeirra sem voru með 12 eða minna í forgjöf.

Ellefu þeirra voru úr Golfklúbbi Íslands, þrír frá Golfklúbbi Akureyrar og hvorki fleiri né færri en átta úr Golfklúbbi Vestmannaeyja.

Meðal kylfinga var mikið “spáð og spekúlerað” hver myndi hljóta hinn eftirsóknarverða titil. Flestir töldu líklegt að Reykvíkingar væru sigurstranglegir, þeir voru á heimavelli, en lítið hafði sést til sumra kylfinganna sem komu frá Akureyri og Vestmannaeyjum. Það eitt var vitað að þeir kunnu ýmislegt fyrir sér.

Íslandsmeistarabikar karla sem gefinn var Golfsambandinu árið 1942. Enn er keppt um gripinn.

Ekki var hægt að segja að kylfingarnir væru heppnir með veður þegar keppnin hófst að morgni sunnudagsins 16. ágúst. Það var hávaðarok og grenjandi rigning.

Var vatnsveðrið slíkt að fresta varð knattspyrnuleikjum sem fram áttu að fara í Reykjavík. En ekki kom til greina að fresta golfmótinu – utanbæjarmennirnir voru komnir langan veg til keppni og það ekki sjálfgefið að þeir gætu komist ef beðið yrði betri tíðar. Menn settu því undir sig hausinn og lögðu í hann. Völlurinn var vitanlega forbrautur, holurnar fullar af vatni og for í kringum sumar flatirnar, einkum þá sjöttu sem var nokkurn veginn á sama stað og síðar reis bygging sem hýsti fyrst Morgunblaðið og síðar Háskóla Reykjavíkur.

Jakob Hafstein (t.v.) og Gísli Ólafsson léku til úrslita í fyrsta Íslandsmótinu árið 1942.

Upp úr hádegi fóru fyrstu keppendurnir að koma í hús og þegar allir voru komnir inn kom í ljós að skorið var furðu gott miðað við aðstæðurnar.

Enginn lék betur en Gísli Ólafsson sem var á 81 höggi en tveir aðrir kylfingar léku einnig á undir 90 höggum: Jakob Hafstein á 84 og Helgi Eiríksson á 86 höggum. Sá sem varð í 16. sæti lék á 100 höggum en hæsta skor var 109 högg.

Gengi utanbæjarmanna var eftir atvikum gott. Akureyringarnir þrír komust áfram og fimm Eyjamenn. Einn þeirra, Guðlaugur Gíslason, síðar alþingismaður, lék svo vel (91 högg) að ljóst þótti að hann ætti góða möguleika á að blanda sér af alvöru í meistarabaráttuna héldi hann uppteknum hætti. Fór líka svo að hann var eini utanbæjarmaðurinn sem komst í gegnum fyrsta einvígið í holukeppninni – og gott betur því hann sigraði einnig andstæðing sinn í annarri umferðinni og var þar með kominn í fjögurra manna úrslit.

Þangað komust, auk Guðlaugs, þeir Gísli Ólafsson, Jakob Hafstein og Helgi Eiríksson. Mættust Jakob og Guðlaugur annars vegar og Gísli og Helgi hins vegar í undanúrslitunum og léku 36 holur. Báðir þeir leikir voru jafnir í fyrstu en síðan skildu leiðir hjá keppendunum. Gísli vann Helga 8:7 og Jakob vann Guðlaug 9:7.

Gísli fyrsti Íslandsmeistarinn

Það kom raunar ekki á óvart að það skyldu verða kapparnir Gísli Ólafsson og Jakob Hafstein sem léku til úrslita. Þeir voru búnir að sýna það á mótum sumarsins að þeir stóðu öðrum kylfingum framar og voru mjög jafnir. Þegar kom að úrslitarimmu þeirra var komið svo gott veður að kapparnir gátu verið léttklæddir og vallarskilyrði höfðu batnað til muna.

Eftir fyrstu 18 holurnar var staðan jöfn, en á öðrum hring náði Gísli hins vegar einnar holu forskoti. Mikil spenna var á lokahringnum. Þegar á hann leið náði Gísli þriggja holu forskoti og tókst Jakob ekki að vinna þann mun upp þannig að þegar sextán holur höfðu verið leiknar tókust kapparnir í hendur og lögðu niður vopnin.

Gísli Ólafsson var orðinn fyrsti Íslandsmeistarinn í sögu golfíþróttarinnar á Íslandi. Var honum og Jakob ákaft fagnað er þeir gengu í golfskálann að leikslokum en þar hafði fjöldi fólks safnast saman og beðið með óþreytu frétta af gangi mála úti á vellinum. Helgi H. Eiríksson afhenti Gísla hinn virðulega verðlaunagrip sem Íslandmeistaratitlinum fylgdi svo og lítinn bikar til eignar og fékk Jakob annan slíkan.

“Í samkvæmislok fór margt viðstaddra með Gísla heim til foreldra hans, Ólafs Gíslasonar og Ágústu Þorsteinsdóttur, og sat þar í góðum fagnaði við veitingar og ræðuhöld um stund.”Kylfingur. 8 árg. 1942, bls. 31.

Skemmst er frá því að segja að meginreglur Íslandsmótsins sem samþykktar voru á þinginu voru þær að allir kylfingar í viðurkenndum klúbbum hefðu keppnisrétt á mótinu hefðu þeir 12 eða minna í forgjöf og hefðu ekki atvinnutekjur af golfíþróttinni. Keppnisfyrirkomulagið var ákveðið þannig að efna átti til undirbúningskeppni þar sem leikinn var höggleikur en síðan tók við holukeppni. Í fyrstu umferð hennar átti að leika 18 holur en í undanúrslitum 36 holur og í úrslitum 54 holur. Yrðu menn jafnir í úrslitaleiknum áttu þeir að leika níu holur til viðbótar. “Hverja umferð skal leika á einum degi, nema “final”. Þá umferð má leika á tveim dögum og sé ekki dagur á milli.”Fundargerðarbók Golfsambands Íslands 14. ágúst 1942.

This article is from: