4 minute read

Björgvinstímabilið

Björgvinstímabilið

Á fyrsta drengjameistaramót Íslands í golfi (juniora) sem haldið var í Vestmannaeyjum sumarið 1964 mættu sjö keppendur. Þrír þeirra voru ungir piltar frá Akureyri sem höfðu fengið far með kylfingum þaðan sem héldu til keppni á Íslandsmótinu sem fram fór sömu dagana. Ekið var á jeppum til Reykjavíkur, gist þar hjá Hjálpræðishernum og síðan flogið til Eyja þar sem Norðanmenn bjuggu í verbúð Ársæls Sveinssonar. Þetta var mikil ævintýraferð í augum Norðanstrákanna og framundan var svo keppnin, 9 holur leiknar á dag í fjóra daga. Yngsti Akureyringurinn var nýlega orðinn 11 ára og var þá þegar farinn að vekja athygli fyrir áhuga sinn og árangur í golfi. Fór svo í Eyjum að hann hafnaði í öðru sæti á eftir Eyjólfi Jóhannssyni Reykvíkingi. Þarna var á ferðinni piltur sem menn sögðu að vert væri að taka eftir, Björgvin Þorsteinsson.

Æskuheimili Björgvins var ekki langt frá golfvellinum við Þórunnarstræti og hann var barnungur þegar hann fór að fylgjast með því sem var að gerast á vellinum. Og hann vildi gjarnan taka þátt í leiknum. Gerðist hann burðarsveinn þeirra eldri, horfði á tilburði þeirra og lærði af því sem hann sá. Fleiri strákar voru í hópnum og einn þeirra bjó svo vel að eiga kylfu sem var með tréskafti. “Við kölluðum þessa kylfu alltaf tréjárnið,” sagði Björgvin í viðtali um feril sinn sem birtist í tímaritinu Golf á Íslandi en þar sagði hann ennfremur frá því að strákarnir hafi útbúið sér tveggja holu völl á túninu við Menntaskólann og spilað þar fram og til baka. “Holurnar sem við gerðum voru frekar vinalegar, í stærri kantinum enda notuðum við Macintosh dollur fyrir holur,”sagði Björgvin í viðtalinu. Golf á Íslandi 6. tbl. 2009.

Þegar Björgvin var níu ára fór hann í kennslu í golfi. Og kennarinn var ekki af verri endanum, sjálfur Magnús Guðmundsson sem var yfirburðakylfingur á Íslandi á þessum tíma. Hjá honum lærði Björgvin réttu tökin, áhuginn jókst og þegar hann var aðeins tíu ára vann hann sitt fyrsta mót nyrðra.

Árið 1970 vann Björgvin sinn fyrsta titil er hann varð unglingameistari Íslands og árið á eftir rann upp stóra stundin er hann var orðinn það gamall að verða gjaldgengur í meistaraflokk. Þá fór Íslandsmótið fram á Akureyri og eftir æsilegilega baráttu við Björgvin Hólm stóð Björgvin Þorsteinsson uppi sem sigurvegari. Ekki var spenningurinn minni árið eftir en þá snerist taflið við. Björgvin var með pálmann í höndunum en Loftur Ólafsson sneri á hann í lokin og rændi sigrinum.

En síðan hófst sá tími í íslenskri golfsögu sem kenna má við Björgvin Þorsteinsson. Hann varð Íslandsmeistari fimm ár í röð, 1973-1977 og er það afrek sem enginn hefur enn leikið eftir. Oftast bar hann höfuð og herðar yfir keppinauta sína og það var nánast sama á hvaða móti hann keppti. Ef hann sigraði ekki var hann í fremstu röð. Árið 1977 lék hann Jaðarsvöllinn (fyrir breytingu) á 65 höggum og það met var aldrei slegið. Annað vallarmet á Björgvin sem sennilega verður seint slegið. Það setti hann á golfvellinum á Höfn í Hornafirði sem hann lék á 59 höggum.

Á þeim tíma sem afreksferill Björgvins Þorsteinssonar var að hefjast fóru Íslendingar í auknum mæli að taka þátt í mótum erlendis og þá einkum í Norðurlandamótum og Evrópumótum áhugamanna. Vegna árangurs síns var Björgvin nánast sjálfskipaður í íslenska landsliðið og keppnisferill hans með því stóð í um þrjátíu ár, þó með nokkrum hléum. Oftar en ekki stóð Björgvin sig best landa sinna í slíkum mótum og má nefna að á Evrópumótinu 1973 varð hann í 11. sæti en svo framarlega hafði þá enginn Íslendingur orðið.

Eftir að Björgvin náði 55 ára aldri hóf hann svo keppni með öldungalandsliði Íslands með góðum árangri og árið 2003 varð hann fyrstur Íslendinga til þess að reyna fyrir sér í úrtökumótum fyrir Evrópumótaröð eldri kylfinga.

Lengst af ferli sínum lék Björgvin undir merkjum Golfklúbbs Akureyrar og klúbbmeistari hans varð hann alls 7 sinnum auk þess sem hann varð Íslandsmeistari í sveitakeppni með klúbbnum. Björgvin lék einnig fyrir Golfklúbb Hornafjarðar þar sem hann varð tvívegis klúbbmeistari og Golfklúbb Reykjavíkur þar sem hann varð einnig tvívegis meistari. Þá hefur Björgvin einnig keppt með Golfklúbbi Vestmannaeyja.

Afrekaskrá Björgvins í golfíþróttinni er bæði löng og fjölbreytt. Á tveimur sviðum hefur hann skorið sig algjörlega úr. Enginn Íslendingur hefur jafnoft farið holu í höggi eða sjö sinnum og enginn hefur keppt jafnt oft á Íslandsmótum. Frá því að hann varð fyrst gjaldgengur í meistaraflokki árið 1971 hefur hann alltaf verið meðal keppenda, eða um fjóra áratugi og þótt aldurinn hafi færst yfir og æfingar ekki verið sem áður hefur Björgvin oftsinnis verið framarlega í flokki á Íslandsmótum síðasta áratugar.

Auk afreka sinna á golfvellinum hefur Björgvin komið að félagslegum málefnum golfhreyfingarinnar. Hann átti um tíma sæti í stjórn GA og var kjörinn heiðursfélagi klúbbsins árið 1977 og varð þar með yngstur allra þeirra sem orðið hafa heiðursfélagar í golfklúbbi á Íslandi. Í stjórn GSÍ sat hann eitt kjörtímabil og landsliðseinvaldur sambandsins var hann árið 1987. Þá lagði hann mikla áherslu á að fenginn yrði erlendur landsliðsþjálfari og átti hlut að máli að John Garner var ráðinn í það verkefni árið 1988.

Í viðtalinu við Björgvin sem áður er vitnað til var hann spurður að því hvort hann hefði aldrei hugsað um að fara í atvinnumennsku. Spurningunni svaraði hann: “Nei, aðstæður buðu ekki upp á það í þá daga. Það var ekki til að kylfingar færu til dæmis á skólastyrk til Bandaríkjanna eða þess háttar á þeim tíma. Ef aðstæður þá hefðu verið eins og núna hefði ég örugglega reynt að fara í atvinnumennsku.”

This article is from: