5 minute read
2.4 Einarsstaðasel
Óvíst er, hvort rétt er að tala um „ábúð“ í venjulegum skilningi í Einarsstaðaseli, þó þar hafi fólk átt athvarf eða búið um tíma. Líklega voru þar lengi beitarhús frá Einarsstöðum, kann vel að vera að þau hafi hýst fleira fólk en hér er talið, þó ekki finnist um það heimildir í kirkjubókum eða manntölum.
Árni og Guðrún koma 1864 „ , bæði frá Þingey að Einarsstaðaseli“ [Kb. Ein.], og er Árni sagður „við bú“ en Guðrún „móðir hans“ [Kb. Helg.]. Árni flytur 1865 „ , 29, frá búhokri“ frá „Eìnarststs. Kraunast.“, en Guðrún „ , 63, ekkja“, „sömul að Fossseli“ [Kb. Ein.]. Árni var fæddur 19. des. 1835 í Miðhvammi, sonur Kristjáns Stefánssonar, og Guðrúnar Halldórsdóttur [ÆÞ. V, bls. 218]. Kristján og Guðrún voru á ýmsum stöðum og er Árni með þeim þegar þau eru saman, í Miðhvammi við manntalið 1840 og 1845, í Skógarseli 1852-1854 (sjá þar), í Vallakoti við manntalið 1860. Árni flytur 1861 með foreldrum sínum og Kristrúnu systur sinni frá Vallakoti að Þingey [Kb. Helg.], [Kb. Ein.]. Kristján deyr 1862, sjá um hann í kafla um Skógarsel.
Árni kvænist 3. okt. 1866 [Kb. Helg.] Guðbjörgu Guðmundsdóttur, f. 26. júní 1846 á Krákárbakka [ÆÞ. V, bls. 218]. Árni er þá „ungur maður áður ókvæntur í Fosseli 31 ára gamall vinnumaður“. Þau flytja að Litlulaugum 1867 [Kb. Helg.] og eru 1868 „hjón við bú á Ingjaldsstöðum“; 1871 „hjón í lausamennsku í Víðum“; 1875 „hjón á Láfsgerði“ og 1878 „hjón á Litlulaugum“ við fæðingu barna [Kb. Ein.]. Þau flytja 1879 frá Litlulaugum að Miðhvammi, þar sem þau eru á manntali 1880.
Árni deyr á Hólkoti 24. júlí 1890 „ , frá Hólkoti, 55, Lungnabólga.“ [Kb. Ein.], en kona hans fer til Vesturheims frá Efrihólum 1903 ásamt þrem börnum [Vesturf.]. Hún deyr í Vesturheimi 30. ágúst 1916 [ÆÞ. V, bls. 218].
Kristján, faðir Árna, var bróðir Guðrúnar f. k. Jóhannesar í Skógarseli, og kynni það að hafa haft einhver áhrif á þá ákvörðun þeirra mæðgina að setjast að í Einarsstaðaseli.
Þess er getið í [ÆÞ. V, bls. 218], að Árni og Guðbjörg hafi búið um skeið í Kjarnagerði, en ekki sést að nein börn þeirra séu þar fædd. En vera kann að Kjarnagerði hafi þá talist með Litlulaugum.
Guðrún var fædd í Fremstafelli 27. maí 1802, voru foreldrar hennar Halldór Eiríksson og Þorbjörg Jónsdóttir [Kb. Þór.], [ÆÞ. V, bls. 218]. Hún er með foreldrum og systkinum á manntali í Fremstafelli 1816 „ , þeirra barn, 13,“.
Guðrún giftist 7. okt. 1832, þá „vinnukona á Landam 30 ára“, Kristjáni Stefánssyni, sem þá er „vinnumaður á Rauðá 32 ára“ [Kb. Þór.]. Þau koma 1833 „ , frá Landamóti í Ljósavatnssókn að Miðhvammi“ og búa þar til 1847; eru á manntali í Miðhvammi 2. febr. 1835 ásamt tveim börnum, 1840 ásamt þrem börnum, og 1845 ásamt fimm börnum. Kristján kemur þaðan að
Helgastöðum 1847 „ , 48, vmaður,“ ásamt Kristrúnu dóttur sinni, 5 [Kb. Helg.], en þá fer Guðrún með Árna að Litlulaugum [Kb. Grenj.], [Kb. Ein]. Guðrún er 1850 á manntali á Höskuldsstöðum „ 48, G, í húsmennsku,“ með Árna og Kristrúnu og fer hún með þau að Mýlaugsstöðum 1851 [Kb. Helg.]. Þau eru í Skógarseli 1852-1854, sjá þar, og fara þaðan að Höskuldsstöðum og í Ystahvammsgerði 1855 [Kb. Helg.], þar sem þau eru á manntali þ. á. Koma 1859 að Vallakoti [Kb. Ein.], en fara með tveim börnum að Þingey 1861 [Kb. Helg.], [Kb. Ein.].
Guðrún deyr 25. jan. 1872 „H(re)ppskjelling á Breiðumýri, 71 ára,“ „Dáin úr langvinnri kararkröm.“ „Jarðs. á Helgast.“ [Kb. Ein.].
Kristján og Kristjana flytja í Einarsstaðasel frá Hólsgerði í Kinn 1869. [Kb. Þór.], [Kb. Ein.]. Þegar Jón Kristján sonur þeirra, f. þar 30. mars þ. á., er skírður 11. júlí s. á., eru foreldrar hans sögð „hjón í hússmensku í Einarsstaðaseli“ [Kb. Ein.]. Þau flytja þaðan 1872 í Fosssel ásamt tveim sonum sínum. „Þessi hjón leystu upp úr Einarsstaðaseli og sett í Fosssel í húsmennsku.“ [Kb. Helg.], [Kb. Ein.].
Kristján var fæddur 8. mars 1839 á Ingjaldsstöðum, sonur Jens Kristjáns Nikulássonar Buch og konu hans Guðrúnar Finnbogadóttur [Kb. Ein.]. Hann er með foreldrum sínum og sjö systkinum á manntali á Ingjaldsstöðum 1845, þar er hann einnig við manntalið 1850. Við manntalið 1860 er hann „ , 22, Ó, vinnumaður,“ á Arndísarstöðum.
Kristjana var fædd 15. sept. 1844 í Hólsgerði, voru foreldrar hennar „Árni Indriðason í Hólsgerði bóndi og vinnukona þar Helga Ólafsdóttir“ [Kb. Þór.]. Hún er með móður sinni á manntali í Fagranesi 1845, en 1850 í Hólsgerði, þar sem móðir hennar er þá bústýra. Hún er á þar manntali 1855 og 1860, er hún þá „barn þeirra“ foreldra sinna, sem þá eru gengin í hjónaband.
Kristján og Kristjana voru gefin saman 27. sept. 1864, er Kristján þá „ á Hólsgerði 25 ára“ en Kristjana „á Hólsgerði 20 ára“ [Kb. Þór.]. Þau búa í Ystahvammi við fæðingu Árna Frímanns, en eru í Hólsgerði við fæðingu Jóns Kristjáns.
Kristján og Kristjana bjuggu í Fossseli til 1904. Þau eru þar á manntali 1880 og 1890 með fimm börnum (ekki sömu) og 1901 með þrem börnum. Sjá nánar um þau hjón, foreldra þeirra og afkomendur í [ÆÞ. II, bls. 72, bls. 258 og 262-273.].
Krisján deyr á Litlutjörnum 3. des. 1911, en Kristjana í Stærraárskógi 20. sept. 1927.
Kristjana Árnadóttir
Börn Kristjáns og Kristjönu, búsett í Einarsstaðaseli:
Árni Frímann Kristjánsson kemur með foreldrum sínum frá Hólsgerði í Einarsstaðasel 1869 og fer með þeim að Fossseli 1872. Árni var fæddur 21. júní 1866, voru foreldrar hans þá „eginhjón á Yztahvammi“ [Kb. Grenj.]. Hann er með foreldrum og systkinum á manntali í Fossseli 1880 „ , 14, Ó, barn þeirra,“ en ekki er hann þar 1890. Sjá um hann í [ÆÞ. II, bls. 262]. Hann var faðir Þorbjargar í Hellulandi og Kristjönu í Grímshúsum. Dó í Hellulandi 25. des. 1943.
Jón Kristján Kristjánsson Reykdal kemur með foreldrum sínum frá Hólsgerði í Einarsstaðasel 1869 og fer með þeim að Fossseli 1872. Kristján var fæddur 30. maí 1869 í Hólsgerði, skírður 11. júlí s. á., og eru foreldrar hans þá sögð „hjón í hússmensku í Einarsstaðaseli“ [Kb. Ein.]. Kristján er með foreldrum og systkinum á manntali í Fossseli 1880 „ , 12, Ó, barn þeirra,“ en ekki 1890. Hann fór til Vesturheims frá Húsavík 1893 „ , vinnumaður, 23,“ [Vfskrá], þar sem hann deyr 8. des. 1937. Sjá nánar um hann í [ÆÞ. II, bls. 263-264].
Árni Frímann Kristjánsson, Sigurbjörg Þorláksdóttir og Þorbjörg Árnadóttir
Þannig lokið til bráðabirgða 26. nóv. 1998. Endurskoðað og breytt í mars 2006. R. Á. 1. yfirferð lokið 29. mars 2006. R. Á. 2. Þessi prentun gerð 13. júní 2009. R. Á.
Ábúendur í Einarsstaðaseli
Skammstafanir og skýringar:
[Bybú]: Byggðir og bú Suður-Þingeyinga 1985, Rvík 1986.
[Kb.]: Prestþjónustubók í Þjóðskjalasafni Íslands.
[Laxd.]: Hallgrímur Pétursson: Laxdælir. Ábúendatal 1688-1990, Rvík 1991.
[ÆÞ.]: Indriði Indriðason og Brynjar Halldórsson: Ættir Þingeyinga.