Búfræðingurinn 2015

Page 1

BÚFRÆÐINGURINN

Jón Gíslason bóndi á Lundi í Lundarreykjadal og fyrrum brautarstjóri búfræðibrautar LbhÍ.

Landbúnaðurinn

þarf að lifa í sátt við landið og þjóðina, öðru vísi lifir hann ekki til frambúðar

Á prófi í vetur spurði ég nemendur þeirrar spurningar hvað réttlætti að láta dýr fæðast til þess eins að vera svo fargað á unga aldri og étin, þegar fólk gæti lifað nokkuð bærilegu lífi á grænmeti einu saman. Nemendur tóku þessu nokkuð vel og svöruðu margir hverjir skynsamlega. En fyrir ekki svo löngu síðan hefði þessi spurning þótt svo vitlaus að ég hefði líklega fengið alvarlegt tiltal fyrir að leggja hana fyrir nemendur. En svona breytast tímarnir og viðhorfin, í dag er talsverður hópur fólks ekki tilbúinn til að sætta sig við að dýr séu drepin fólki til matar. Finnst það ekki réttlætanlegt og liggur ekki endilega á þeirri skoðun sinni (hefur líka fullan rétt á að láta hana í ljós), og þá er eins gott að þeir sem ætla að hafa það að lifibrauði að framleiða kjöt séu færir um að réttlæta það siðferðilega. Það er því eðlilegur hluti námsins að velta fyrir sér jafnvel heimskulegum spurningum og skoðunum. Þess er líka hollt að minnast að það sem þykir heimskulegt í dag verður ekki endilega heimskulegt á morgun.

Þessu tengjast líka breytt viðhorf fólks til dýravelferðar og þær kröfur sem það vill gera varðandi hana. Ég var alinn upp við að kýrnar væru bundnar vetrarlangt á básum og fátt var notalegra en sjá þær liggja þar og jórtra, þá virtist geisla frá þeim vellíðanin. Nú styttist í að það verði refsivert athæfi að binda kýr nema kannski rétt á meðan þær bíða þjónustu frjótæknis. Sumt af þeim kröfum sem farið er að gera kann okkur sem alin erum upp við landbúnað að þykja heimskulegt. Ég veit að minnsta kosti að mörgum „róbótakúabændum“ finnst það heimskuleg krafa að kýr séu látnar út að sumrinu, enda hafi þær það miklu betra inni. Vel kann það að vera

Ágæti lesandi

rétt frá sjónarhóli hagkvæms rekstrar eingöngu. En ef stór hluti neytenda trúir því að útivist auki lífsgæði og vellíðan kúnna þá er mjög það í öllu falli tvíbent að skella skolleyrum við þeirri skoðun. Til allrar hamingju er það þó svo að í flestum tilvikum fara skoðanir neytenda og bænda saman um það hvað sé góður aðbúnaður fyrir búféð og jafnframt borga gripirnir fyrir góðan aðbúnað með meiri afurðum.

Því nefni ég það sem að framan er nefnt að nú stendur yfir endurskoðun á námsskrá búfræðinámsins, en námskráin þarf að endurspegla það sem líklegt er að nemendum komi að gagni að námi loknu. Í henni er ósköp auðvelt að telja upp lög og reglur um t.d. aðbúnað. Líka ýmsar staðreyndir um jarðveg, áburð, líffræði búfjárins, hvernig fóður og fóðrun þarf að vera til að gripirnir skili sem mestum arði. Ennfremur hvernig við eigum að meðhöndla blessaða traktorana svo þeir séu hvorki hættulegir né þurftafrekir í viðhaldi. En það er kannski erfiðara að orða í námsskrá eitthvað um hugsanahátt sem þarf að vera kenna heldur en um áþreifanlegri hluti. Það er líka minna um kennsluefni um slíkt en um áþreifanlegri hluti. Stundum finnst mér nemendur minna móttækilegir fyrir slíkan fróðleik en ýmislegt annað. Landbúnaðurinn á óskaplega mikið undir velvild þjóðarinnar. Hann verður því að hlusta á skoðanir hennar og koma til móts við þær en ekki mæta þeim með hroka, sem mér finnst stundum votta fyrir.

Verðandi búfræðingar, munið að landbúnaðurinn þarf að lifa í sátt við landið og þjóðina, öðruvísi lifir hann ekki til frambúðar.

2

Hagstæð tækjafjármögnun

Landsbankinn býður góð kjör við fjármögnun á nýjum og notuðum landbúnaðartækjum. Viðskiptavinir Landsbankans njóta ætíð betri kjara.

410 4000Landsbankinn landsbankinn.is

Arnaldur og Gróa á Hlíðarenda 6

Ný námsskrá í búfræði 8

Hafdís og Matthías Sævar á Húsavík á Ströndum – 11

Niðurstöður skýrsluhalds á Hesti síðustu 10 ára 13

Hilda og Höskuldur á Stóra-Ármóti 17 Haukur Þórðarson kennari LbhÍ 19

Erfðalindasetur LbhÍ 23

Búfjárræktarferð 2015 25

Nemendafélag LbhÍ 29

Auk þess nemendakynningar og áfangakynningar

Ritnefnd 2015:

Arna Silja Jóhannsdóttir

Atli Geir Scheving Berglind Ýr Ingvarsdóttir Jón Marteinn Finnbogason Sigurður Max Jónsson

Forsíðumyndir: Alexander Keil, Halla Ósk Heiðmarsdóttir og Sandra Björk Sigurðardóttir

Prófarkalestur: Þórunn Reykdal og Arna Silja Jóhannsd. Umbrot: Þórunn Edda Bjarnadóttir

4
Efnisyfirlit

ræktum sanna vináttu

Við

Arnaldur og Gróa á Hlíðarenda

Vonum bara að LbhÍ verði áfram sem hingað til öflug menntastofnun

í landbúnaðarfræðum, með öfluga bændadeild

Hvar búið þið og hvernig búskap eru þið með?

Hlíðarenda í Breiðdal, við búum með sauðfé, hross og skógrækt.

Hvenær útskrifuðust þið frá Hvanneyri og hvenær byrjuðuð þið að búa?

Við útskrifuðumst 1985 og byrjuðum að búa 1986, þá með kýr eingöngu þar sem fjárlaust var vegna riðuniðurskurðar. Tókum fé 1991 og vorum með blandaðan búskap til 2001. Höfum verið eingöngu með sauðfé og hross síðan þá, byrjuðum svo með skógrækt 1999.

Hefur búfræðimenntunin gefið gott veganesti inn í ykkar búskap?

Já, og ekki bara verið gott veganesti í búskapinn heldur fyrir lífið sjálft. Námið var það fjölbreytt að það var góður undirbúningur fyrir lífshlaupið.

Hvað er það eftirminnilegasta frá árunum á Hvanneyri?

Það eftirminnilegasta er náttúrulega að hafa kynnst hvort öðru ;) , svo voru margir eftirminnilegir kennarar og starfsmenn við skólann t.d. Magnús Óskarsson, Magnús B. Jónsson, Ríkharð Brynjólfsson, Guðmundur Hallgrímsson, Trausti og Jakobína og margir fleiri.

Sundferðirnar í Hreppslaug sem voru stundum skrautlegar, skemmtilegir útreiðartúrar, frábær félagsskapur og öflugt félagslíf.

Hefur álit ykkar á búskap breyst frá því þið byrjuðu að búa?

Nei, ekki á starfinu sjálfu sem slíku. Og við erum enn sannfærðari um að sjálfbær landbúnaður og þá fjölskyldubú, verði að vera ein af undirstöðum okkar samfélags.

Hvað finnst ykkur hafa verið helstu framfarirnar í landbúnaði í ykkar búskapartíð?

Þegar við vorum að hefja búskap var rúlluvæðingin að hefjast. Hún breytti miklu í öryggi við heyöflun. Þá hefur orðið mikil vélvæðing sem léttir öll störf. Gífurlegar framfarir hafa verið í kynbótum og afurðir margfaldast.

Eitthvað annað sem þið viljið taka sérstaklega fram?

Vonum bara að Landbúnaðarháskóli Íslands verði áfram sem hingað til öflug menntastofnun í landbúnaðarfræðum, með öfluga bændadeild. Því hvernig sem framtíðarskipan skólans verður þarf bændadeildin að vera hornsteinn kennslu búnaðarfræðanna.

6

Kúafóður sem hámarkar fitu, prótein og afurðamagn samtímis

ríkulegt magn af hágæða fiskimjöli

MEGAFAT kalsíumhúðaða fitu (aðallega C:16)

MEGAFAT stuðlar að aukinni fitu í mjólk

MEGAFAT er mjög orkuríkt og dregur úr hættu á súrdoða og lömun

MEGAFAT stuðlar að aukinni frjósemi

er mest selda

kúafóður Bústólpa Bústólpi ehf · fóður og áburður · Oddeyrartanga · 600 Akureyri · bustolpi@bustolpi.is · Sími 460 3350 · Fax 460 3351 inniheldur
www.bustolpi.is
• • •
Inniheldur

Ný námsskrá í búfræði

Ólöf Ósk Guðmundsdóttir, frá Miðdal í Kjós og brautarstjóri búfræðibrautar LbhÍ skrifar.

Allt nám er breytingum háð og mikilvægt er að það þróist í takt við tímann og umhverfið. Búfræðinám við Landbúnaðarháskóla Íslands er þar engin undantekning. Námskrá búfræðibrautar var síðast uppfærð árið 2004 en sökum fjárskorts hefur uppfærsla á námsefni verið af skornum skammti síðustu ár.

Árið 2011 var samþykkt ný aðalnámskrá fyrir framhaldsskóla á Íslandi þar sem nám á framhaldsskólastigi var hugsað alveg upp á nýtt. Framhaldsskólaeiningarnar voru endurskilgreindar eftir mælikvarða á það hvað nemendur eiga að hafa lært eftir hverja lokna einingu, í stað fjölda kennslustunda sem kennari kenndi, eins og var í fyrra kerfi. Með þessari nýju hugsun er brennidepillinn á nemandanum og allar námsbrautir eru skilgreindar út frá því hvað útskrifaður nemandi á að þekkja og geta.

Ég tók við starfi brautarstjóra búfræðibrautar í byrjun þessa árs og eitt af fyrstu verkefnum mínum er vinna við nýja námskrá. Þessi vinna er unnin í samvinnu við þá góðu kennara sem eru starfandi við búfræðibrautina.

Við höfum, í samstarfi við fagnefnd búfræðinnar, búnaðarþingsfulltrúa, unga bændur og marga fleiri, skilgreint hæfniviðmið fyrir búfræðinema og stokkað upp skipulagi búfræðinámsins. Í nýrri námskrá er lögð áhersla á að útskrifa nemendur með breiða þekkingu á landbúnaðarframleiðslu á Íslandi. Þeir eiga að hafa góðan grunn í jarðrækt, búfjárrækt, umhverfisfræði og vélavinnu ásamt því að vera færir í að færa bókhald og skipuleggja og reka bú með góðri afkomu. Þeir eiga að þekkja markaðinn sem þeir ætla að framleiða vörur fyrir sem og annað rekstrarumhverfi greinarinnar.

Það hefur lengi verið vitað að Róm var ekki byggð á einum degi og vissulega er mikil vinna eftir enn í uppfærslu námsbrautarinnar. Fjárskortur er ennþá takmarkandi þáttur og ekki lagaðist það við útleigu á fjárbúi skólans. En að öllu gríni slepptu þá tek ég fagnandi á móti því verkefni að stýra þessari braut og hlakka til þess að vinna áfram með samkennurum mínum að því að bæta námið og hjálpa nemendum að verða fullnuma í búfræði.

8
Nemendur í verklegri æfingu í plægingu.

Sterkir í stálgrindarhúsum

undanförnum árum hefur Landstólpi selt um 80 stálgrindarhús af öllum stærðum og gerðum sem reist hafa verið um allt land. Við höfum sérhæfðan og öflugan tækjakost og afbragðs starfsfólk með mikla reynslu. Stálgrindarhúsin eru framleidd í Hollandi af H.Hardeman sem er rótgróið fjölskyldufyrirtæki. H.Hardeman hannar og framleiðir stálgrindina og allar klæðningar og eykur það mjög öryggi okkar viðskiptavina að hafa framleiðsluna á einni hendi.

Þekking - Reynsla - Öryggi

Fóður Kjarnfóður fyrir kýr Kálfamúslí og framhaldsfóður fyrir ungkálfa Mjólkurduft Saltststeinarsteinefna- og vítamínblokkir Steinefnafötur fyrir nautgripi, sauðfé og hross Varpkögglarungafóður Gunnbjarnarholti 801 Selfoss 480 5600 landstolpi.is
Á
Egilsstöðum Sími: 471 1901 SomiMg Steinefnablanda í heilfóðriðbætiefni í nautaeldið

JÓN

25. janúar 1993, Skipholti III

í Hrunamannahreppi

Verknámsbær og hvað stendur upp úr? Borgarfell, Skaftártungu. Verknámið er mikilvægur þáttur í náminu hér á Hvanneyri, en í verknáminu kynnist maður nýju fólki sem og nýjum búskaparháttum (aðferðirnar heima fyrir eru ekkert endilega alltaf bestar). Það sem stendur upp úr er að skipulag á sauðburði skiptir gríðarlegu máli, þá verður allt svo miklu léttara. Einnig hefur áhugi minn á afurðum beint frá býli aukist eftir dvöl mín á Borgarfelli en þar er búið að setja upp kjötvinnslu sem gengur vel. Svo er vert að minnast á það hversu vel bændurnir á Borgarfelli þekkja sínar kindur með nöfnum en það er trúlega ekki mjög algengt á búum sem telja þúsund fjár.

Hefur viðhorf þitt til landbúnaðar breyst eftir námið? Að sjálfsögðu hefur viðhorf mitt breyst. Það má breyta hlutum til batnaðar. Því er afar mikilvægt fyrir ungt fólk sem ætlar sér í búskap að fara í svona nám ekki síst til að sjá nýjar aðferðir og kynnast fólki hringinn í kringum landið.

Hefur þú hugsað þér að vinna við landbúnað í framtíðinni? Það væri nú svolítið sérstakt að velja nám sem þetta og hugsa sér svo ekki að vinna við landbúnað í framtíðinni.

Skemmtilegustu tímarnir í skólanum? Þetta er erfið spurning, en ætli sauðfjárræktartímarnir standi ekki upp úr en þá lifnar bekkurinn allur við og skemmtilegar umræður skapast. En fleiri tímar er skemmtilegir og erfitt að gera upp á milli, spurningin hefði hinsvegar verið ansi auðveld ef beðið hefði verið um leiðinlegustu tímana í skólanum! Með hvaða bústofn myndirðu vilja búa með? Nautgripi, sauðfé og hross. Hvernig er lífið á Hvanneyri? Lífið er búið að vera vægast sagt afar gott, maður er orðin u.þ.b. 15 kg yfir kjörþyngd sem segir allt sem segja þarf. Hér er félagslífið gott og einnig hefur bekkurinn verið samheldinn. Við eigum líka okkar eigin KVARTett sem PEPPAR allt í gang.

MAGNÚS

KRISTJÁNSSON

3 mars 1994,

Snorrastöðum

í Kolbeinstaðarhreppi

Verknámsbær og hvað stendur upp úr? Ég var í verknámi á Heydalsá á Ströndum og það sem stóð upp úr var að gleyma sér algjörlega í sauðfénu í einn mánuð en það er ekki í boði heima. Auk þess sem Ragnar (verknámsbóndinn) er afburða klár sauðfjárbóndi og ég lærði margt gott sem ég tók með mér heim.

Hefur viðhorf þitt til landbúnaðar breyst eftir námið? Viðhorf mitt til mjaltabúskapar hefur breyst en ég veit ekki hvort það hafi verið námið eða eitthvað annað en maður hefur töluvert betri skilning en þegar maður gekk hérna inn fyrst og er óhætt að segja að maður hafi verið óviti.

Hefur þú hugsað þér að vinna við landbúnað í framtíðinni? Þegar ég hætti í körfu stefni ég á 100% starf í landbúnaði hvernig sem það nú endar. Skemmtilegustu tímarnir í skólanum? Kennarar hafa meira vægi en efni, þegar mæla má hversu skemmtilegur tími er, það er bara þannig. Með hvaða bústofn myndirðu vilja búa með? Ég er mikill áhugamaður um kjötframleiðslu, en kýr hafa verið að sækja á. Mér hefur alltaf fundist geitur áhugaverðar og fékk ég pabba til að kaupa 3 huðnur og 1 hafur og þannig eignaðist ég geitur og ætla að vera partur í að koma geitastofninum á Íslandi úr útrýmingarhættu.

Hvernig er lífið á Hvanneyri? Lífið á Hvanneyri er rólegt en fimmtudagar þá er eyrin eins og maður standi á umferðareyju í miðborg Reykjavíkur á tax free helgi. Ég nýt mín í botn hérna.

10
BJARNASON

Við hugsum

kannski meira

um það núna hvað sjálfbærni er mikilvægur þáttur

í matvælaframleiðslu ...

Hafdís og Matthías Sævará Húsavík á Ströndum

Hvar búið þið og hvernig búskap eru þið með?

Við búum í Húsavík við Steingrímsfjörð á Ströndum. Við erum með sauðfjárbú um 450 vetrarfóðraðar ær. Einnig er æðarvarp á jörðinni.

Hvenær útskrifuðust þið frá Hvanneyri og hvenær byrjuðuð þið að búa?

Við útskrifuðumst vorið 1985 og eigum því 30 ára útskriftarafmæli í vor. Matthías var í raun byrjaður búskap með foreldrum sínum, Lýð og Ragnheiði, áður en við fórum í skólann, svo um leið og skóla lauk byrjuðum við búskap. Reyndar fór Hafdís aftur í skóla á Hvanneyri 2002 og lauk B.Sc og síðar M.Sc. námi í Landnýtingu 2008.

Hefur búfræðimenntunin gefið gott veganesti inn í ykkar búskap?

Það að fara á Hvanneyri og dvelja þar í tvo vetur var mjög skemmtilegt. Við lærðum alveg helling um allskonar tengt búskapnum. Það sem nýttist hvað best var kannski að læra hvernig við áttum að leita að upplýsingum. Það skipti líka miklu máli að með dvölinni kynntist maður líka kennurum sem voru framarlega í rannsóknum á sínu sviði og maður gat leitað til síðar. Annað var að búa í

samfélaginu á heimavistinni. Það var mjög lærdómsríkt og skemmtilegt að kynnast öllum samnemendunum. Við vorum 67 í árgangnum, líklega stærsti árgangur úr bændadeild og heimavistin yfirfull.

Hvað er það eftirminnilegasta frá árunum á Hvanneyri?

Tímarnir hjá Móa (Magnúsi Óskarssyni) sem sagði „Þetta verðið þið að muna strákar“ alveg sama þó þriðjungur nemenda væru stelpur. Einnig mátti bara aka um á miðvikudögum og svo um helgar, þ.e. eftir skóla á laugardögum. En það mátti reykja inn á herbergjum. Annað sem mikið var rætt og rifist um voru heiti á innréttingum í fjárhúsum og litir sauðfjár, en það er líklega ennþá.

Hefur álit ykkar á búskap breyst frá því þið byrjuðu að búa?

Við byrjuðum að búa full bjartsýni eins og ungt fólk er. Við erum enn bjartsýn þó það sé aðeins hófstilltara. Við hugsum kannski meira um það núna hvað sjálfbærni er mikilvægur þáttur í matvælaframleiðslu og hvað það skiptir miklu máli að ganga ekki á auðlindir jarðarinnar þannig að það spilli fyrir möguleikum komandi kynslóða. Ennþá blasa við tækifæri fyrir

11

dugmikið og hugmyndaríkt fólk í sveitum landsins.

Hvað finnst ykkur hafa verið helstu framfarirnar í landbúnaði í ykkar búskapartíð? Meiri tækjavæðing, vinnuhagræðing og betri ræktunarmenning.

Eitthvað annað sem þið viljið taka sérstaklega fram? Árið 2008 komum við upp kjötvinnslu hér heima á bænum. Við höfðum verið á Vaxtarsprotanámskeiði sem haldið var hér á svæðinu og unnið með ákveðna vöru sem við þróuðum svo áfram. Þessi vara er alltaf í framleiðslu hjá okkur og eru aðalbláberjagrafnir og reyktir ærvöðvar sem við köllum Lostalengjur. Undanfarin ár höfum við tekið heim úr sláturhúsi um 20-25% af framleiðslu búsins og unnið og selt. Við höfum aðallega selt til veitingarstaða hér á svæðinu en einnig til einstaklinga. Við erum núverandi rúllupylsumeistarar en það er keppni sem Slow food samtökin á Íslandi standa fyrir.

JÓN ÓSKAR JÓHANNESSON

5. febrúar 1994, Brekku í Biskupstungum

Verknámsbær og hvað stendur upp úr? Syðri-Fljótum. Skemmtilegt fólk og snilldar bú að öllu leyti.

Hefur viðhorf þitt til landbúnaðar breyst eftir námið? Já.

Hefur þú hugsað þér að vinna við landbúnað í framtíðinni? Já.

Skemmtilegustu tímarnir í skólanum? Hrossarækt. Með hvaða bústofn myndirðu vilja búa með? Hross og sauðfé

Hvernig er lífið á Hvanneyri? Gott, gaman að kynnast fólki allsstaðar af landinu.

AXEL ÖRN ÁSBERGSSON

27. október 1995, Hraunholtum í Kolbeinstaðahrepp

Verknámsbær og hvað stendur upp úr? Stóra-Vatnshorn í Haukadal. Það sem stendur upp úr var maturinn, það verður ekki af því skafið að hjónin Valberg og Jóhanna eru meistarakokkar. Einnig voru það kvöldreiðtúrarnir í sólsetrinu í Haukadalnum.

Hefur viðhorf þitt til landbúnaðar breyst eftir námið? Nei, en maður er meðvitaðri um marga þætti tengda landbúnaði.

Hefur þú hugsað þér að vinna við landbúnað í framtíðinni? Það ku vera draumurinn. Skemmtilegustu tímarnir í skólanum? Þeir eru svo margir að það borgar sig ekki að byrja telja þá upp, en það er ofsalega gaman að kynnast svona mörgu skemmtilegu fólki um allt land.

Með hvaða bústofn myndirðu vilja búa með? Helst myndi ég vilja búa með hross og sauðfé.

Hvernig er lífið á Hvanneyri? Andstæðan við lífið á Vogi.

ÁSDÍS RÚN ÓLAFSDÓTTIR

7. desember 1990, Eyjum 2 í Kjós

Verknámsbær og hvað stendur upp úr? Ég var á Stóra-Ármóti. Það er svo margt sem stendur upp úr en það er þó sennilega þegar ég bauðst til að fara út að hjálpa strákunum á bænum að girða. Leið og ég var komin út, skall á þetta þrumuveður með þessum svakalegu eldingum svo ég tali nú ekki um þrumurnar. Hefur viðhorf þitt til landbúnaðar breyst eftir námið? Já, klárlega. Viðhorf mitt er mikið opnara og víðara heldur en áður. Hefur þú hugsað þér að vinna við landbúnað í framtíðinni? Já, annars væri ég nú ekki hér held ég. Skemmtilegustu tímarnir í skólanum? Það voru verklegu tímarnir og verknámið. Með hvaða bústofn myndirðu vilja búa með? Kýr, kindur og hesta. Hvernig er lífið á Hvanneyri? Lífið á Hvanneyri, það er mjög náið. Það vita allir allt um alla. Þetta er svona kannski bara svipað og „Bold and the beautiful“. Allir með öllum og svipuð dramatík.

12

Eyjólfur Kristinn

Örnólfsson bóndi

á Skálpastöðum í

Lundarreykjadal og sérfræðingur í Auðlindadeild LbhÍ.

Niðurstöður skýrsluhalds á

Hesti síðustu 10 ára

Helstu eiginleikar sauðfjár, sem unnið er með í kynbótastarfinu á Íslandi eru frjósemi, mjólkurlagni, gerð og fita. Arfgengi þessara eiginleika er mishátt sem þýðir í raun að það er misjafnlega auðvelt/ erfitt að ná miklum og örum framförum í ræktun. Þegar arfgengi er frekar lágt, eins og er með frjósemiseiginleikann, þá er hægt að segja að umhverfisáhrifa gæti meira en hjá þeim eiginleikum sem hafa hærra arfgengi, eins og gerð lamba (vöðvasöfnun).

Kynbætur eru langhlaup og því er ekki hægt að alhæfa út frá einu ári sem annað hvort er með mjög góðar eða slakar niðurstöður og eins er ekki ráðlegt að alhæfa um gæði hrúta út frá örfáum

gripum. Við verðum hins vegar að vera á varðbergi og skrá sem mest hjá okkur og þekkja hjörðina. Þegar það bætist við upplýsingar kynbótamats (BLUP) þá eru auknar líkur á góðum árangri.

Hér á eftir gefur að líta 10 ára meðaltöl fyrir frjósemi og sláturtölur á Hesti, frá árunum 2005-2014 með vangaveltum um kynbætur og umhverfisþætti.

Frjósemi

Á mynd 1 eru frjósemistölur fyrir annars vegar ær, tveggja vetra og eldri og hins vegar fyrir gemlinga. Frjósemin hefur verið mjög stöðug í kringum 1,9 lömb á vetrarfóðraða fullorðna á og er meðaltal þessara 10 ára 1,897 lömb á vetrarfóðraða á.

Mynd 1. Frjósemi á Hesti 2005-2014.

13

Árið 2014 sker sig hins vegar úr með 1,80 lömb á vetrarfóðraða á. Á því ári voru heyin slök eftir rigningasumar 2013. Það kemur sem sagt strax fram hve mikil áhrif umhverfisþættirnir hafa á frjósemina og því hve mikilvæg góð hey eru á ákveðnum tímum á sauðfjárbúi. Það má samt alls ekki misskilja þetta þannig að það sé hægt að bjarga öllu með góðum heyjum, nauðsyn kynbóta er eftir sem áður augljós. Frjósemi gemlinganna hefur einnig verið frekar stöðug og 10 ára meðaltalið er 1,33 lömb á borinn gemling. Frjósemi gemlinganna árið 2014 var góð þrátt fyrir að ærnar sýndu hið gagnstæða. Þar kemur til að það var til góð há sem gemlingarnir fengu og gátu því sýnt þá frjósemi sem í þeim bjó. Það eru mun meiri sveiflur í frjósemi gemlinga en fullorðinna áa því lambalát var í gemlingunum á Hesti árin 2010 og 2013. Engar skýringar hafa fundist á því á þar frekar en annars staðar.

Afurðir

Á mynd 2 má sjá meðaltöl fallþunga, gerðar og fitu sláturlamba frá Hesti árin 2005-2014. Þar má greina nokkrar sveiflur í fallþunga og sérstaklega eru stökkin niður á við áberandi árin 2007 og 2014, þar sem lömbin eru kílói léttari en árin áður. Þarna koma við sögu rigningarsumur/-haust,

Mynd 2. Sláturtölur á Hesti árin 2005-2014.

slök hey bættust svo við árið 2014 og ýmsir aðrir þættir spila þarna inn í. Það sem er hins vegar áberandi og styður það sem áður sagði um mismunandi arfgengi eiginleika, er að þrátt fyrir minni fallþunga ná lömbin að halda sér nokkuð vel í gerðinni. Lömbin eru holdgóð þrátt fyrir að vera létt sem sýnir að vöðvasöfnun lambanna er greinilega til staðar. Hins vegar má einnig ljóst vera að fitusöfnun lambanna á Hesti er það lítil að þegar lömbin eru eins létt og þau voru síðastliðið haust, þá eru þau með of litla fitu utan á sér og fara alltof mörg í fituflokk 1. Í framhaldi af þessu er svo um að gera að nota samskonar tölur á heimabúi til þess að reikna út mikilvægi frjósemi, vænleika, gerðar og fitu fyrir afkomu sauðfjárbús. Forsendur eru auðvitað mismunandi

milli bæja og því fer ég ekki út í mikla útreikninga hér, en hvet bændur til að skoða sitt bú og reikna. Gróft áætlað er tekjumunurinn á Hesti í góðu ári og ársins 2014, rúmlega ein og hálf milljón (590 ær og 170 gemlingar). Þar skiptir mestu um frjósemi og fallþunga, breyting á gerð og fitu skiptir mun minna máli í heildarútkomunni.

Það er því aldrei nógu oft minnst á mikilvægi þess að halda jöfnum og góðum heyjum milli ára og bregðast við með kjarnfóðurgjöf eða á annan hátt ef vitað er að gæði heysins eru slök. Þannig aukast líkurnar á að ærnar séu frjósamar og í góðum holdum að vori til að mjólka af sér og skila vænum dilkum heim að hausti.

Við óskum Búfræðingum 2015 til hamingju með áfangann:

Búnaðarsamtök

Búnaðarsamband

Búnaðarsamband

Samtök

Búnaðarsamband

14
Landssamband Kúabænda
Vesturlands
Suðurlands
Húnaþings og Stranda
ungra bænda
Eyjafjarðar

HÁKON STURLA UNNSTEINSS.

23. ágúst 1993, Ketilseyri í Dýrafirði

Verknámsbær og hvað stendur upp úr? Höfði I Grýtubakkahreppi. Fríin sem ég fékk og tónleikarnir sem ég fór á.

Hefur viðhorf þitt til landbúnaðar breyst eftir námið? Ekki mikið Hefur þú hugsað þér að vinna við landbúnað í framtíðinni? Já að sjálfsögðu. Skemmtilegustu tímarnir í skólanum? Flest allt annað en beitarfræði og nytjaskógrækt. Með hvaða bústofn myndirðu vilja búa með? Sauðfé. Hvernig er lífið á Hvanneyri? Það er mjög skemmtilegt, nema þegar maður verður svo óheppin að koma akkúrat þegar bekkjasystur manns eru búnar að festa bílana sína og það inná bílaplaninu. Þær eru algjörir snillingar.

ATLI GEIR SCHEVING

21. október 1993, Akureyri Verknámsbær og hvað stendur upp úr? Var í verknámi í Úthlíð í Skaftártungu. Það var góður tími í alla staði hjá frábæru fólki.

Hefur viðhorf þitt til landbúnaðar breyst eftir námið? Já, ef til vill hefur það breyst að einhverju leyti, en öðru ekki.

Hefur þú hugsað þér að vinna við landbúnað í framtíðinni? Já, það er nú eina vitið.

Skemmtilegustu tímarnir í skólanum? Ætli það séu ekki þeir tímar sem að falla niður og tímarnir hjá Hauki Þórðar.

Með hvaða bústofn myndirðu vilja búa með? Fyrst og fremst kindur.

Hvernig er lífið á Hvanneyri? Misjafnlega blautt eftir dögum og einstaklingum.

15

ÁFANGAKYNNING - Sauðfjárrækt

Í grunnáfanga um sauðfjárrækt er farið í gegnum sögu sauðfjárræktar á Íslandi og fjallað stuttlega um sauðfjárkyn og sauðfjárrækt annars staðar í heiminum. Rætt um mörk og merkingar fyrr og nú. Farið í gegnum skráningu og niðurstöður skýrsluhaldsins í sauðfjárrækt og tengsl þess við kynbótastarfið. Fjallað er um fóðrun, hirðingu og aðbúnað sauðfjár og lífeðlisfræðilega áhrifaþætti sauðkindarinnar. Nemendur kynnast ómmælingum og verklegar æfingar eru í sauðfjárdómum og líflambavali. Uppsetning og uppgjör afkvæmarannsóknar á Hesti er rædd.

Í valáfanganum í sauðfjárrækt er kafað dýpra í ýmsa þætti sauðfjárræktarinnar. Farið er yfir alla helstu sauðfjársjúkdóma og forvarnir gegn þeim. Fjallað er um fjárhús og uppbyggingu þeirra með tilliti til vinnuhagræðingar við umhirðu sauðfjár. Farið er dýpra í kynbótafræði sauðfjár með það að leiðarljósi hvernig megi hagnýta sér betur allar þær skráningar sem við stundum í skýrsluhaldinu. Eins er farið í heimsókn á sauðfjárbú og farið yfir efni gæðastýringar í sauðfjárrækt svo nemendur standist undirbúningsnámsskeið gæðastýringar. Verklegt rúningsnámskeið er hluti af valáfanga í sauðfjárrækt.

BRAGI VIÐAR GUNNARSSON

25. júní 1991, Túnsbergi í Hrunamannahreppi

Verknámsbær og hvað stendur upp úr? Syðra-Skörðugil. Eftirminnilegast var þegar allar ærnar á bænum voru sprautaðar (650 stk), og það gekk svo mikið á að við náðum því á rúmum klukkutíma. Elvar bóndi taldi þetta aldrei hafa gengið svo vel. Það er allt gert af fullum krafti á Syðra-Skörðugili :)

Hefur viðhorf þitt til landbúnaðar breyst eftir námið? Já, ber meiri virðingu fyrir fólki sem er tilbúið að leggja fyrir sig þann starfsferil að vera bændur, annars finn ég sterkari tengsl við landbúnað eftir námið.

Hefur þú hugsað þér að vinna við landbúnað í framtíðinni? Það er náttúrulega draumurinn. Skemmtilegustu tímarnir í skólanum? Það hefur brotið daginn mikið upp að vera í verklegri hrossarækt, einnig kemur búsmíði sterk inn. Með hvaða bústofn myndirðu vilja búa með? Hrossin og kýrnar heilla, það þarf eitthvað að borga fyrir hrossin :) Hvernig er lífið á Hvanneyri? Lífið er ljúft, einstök samheldni í nemendum hérna á svæðinu.

SIGURLAUG KJARTANSD.

1. ágúst 1986, Uppalin í Nýjubúð í Eyrarsveit á Snæfellsnesi en bý að Hamraendum í Stafholtstungum í Borgarfirði

Verknámsbær og hvað stendur upp úr? Úthlíð í Skaftártungu. Margt skemmtilegt og fróðlegt sem ég gerði þar en upp úr stendur þegar ég fór með þeim að smala afréttinn sem er gríðarstór með mögnuðu landslagi og mjög djúpum giljum, sem ég held að sé mun brattari þegar maður fer upp heldur en niður. Hefur viðhorf þitt til landbúnaðar breyst eftir námið? Orðin harðari á því hversu mikilvægur hann er og nauðsynlegt sé að halda í þá sérstöðu sem við höfum hér á landi. Hefur þú hugsað þér að vinna við landbúnað í framtíðinni? Já og það væri best ef ég gæti haft landbúnaðarstörf sem aðalstarf. Skemmtilegustu tímarnir í skólanum? Þar sem myndast líflegar umræður. Ætli það sé ekki oftast í sauðfjárræktinni. Með hvaða bústofn myndirðu vilja búa með? Sauðfé og nokkra hesta. Hvernig er lífið á Hvanneyri? Viðburðaríkt.

16

Hilda og Höskuldur á Stóra-Ármóti

Spurning hvað við getum leyft búunum að verða stór, án þess að það komi niður á fjölskyldulífinu

Hvar búið þið og hvernig búskap eru þið með?

Við búum á tilraunabúinu á Stóra-Ármóti í Flóa. Hér er blandað bú, um 50 mjólkurkýr og um 120 kindur. Aðal áherslan er þó á mjólkurframleiðsluna. Svo eigum við nokkur hross svona okkur til gamans og 4 hænur til að skaffa egg (svarar reyndar tæpast kostnaði) einn hund og ketti tvo.

Hvenær útskrifuðust þið frá Hvanneyri og hvenær byrjuðuð þið að búa?

Hilda útskrifaðist sem búfræðingur 1992 og búfræðikandídat 1995 en Höskuldur kláraði búfræðina 1994. Við tókum svo við bústjórastarfi á tilraunabúinu á Möðruvöllum í Hörgárdal haustið 1995, fórum þaðan á Hvanneyri 1998 þar sem Höskuldur var fjósameistari í 3 ár en Hilda vann við skólann og Hagþjónustu landbúnaðarins milli þess sem hún var í fæðingarorlofi. Við komum svo á Stóra-Ármót haustið 2001 og höfum verið hér síðan.

Hefur búfræðimenntunin gefið gott veganesti inn í ykkar búskap? Búfræðimenntunin var ágætis grunnur fyrir búskapinn en ekki síður kandídatsnámið.

Hvað er það eftirminnilegasta frá árunum á Hvanneyri?

Verknámið stendur þar ofarlega, góð leið og nauðsynleg til að kynnast nýjum aðferðum og háttum við búskap. Ekki skemmir fyrir að verknámið stuðlaði að því að maður kynntist nýju fólki og öðrum staðháttum og það var þá og er enn góð leið til að auka víðsýni verðandi búfræðinga.

Hefur álit ykkar á búskap breyst frá því þið byrjuðu að búa? Ekki beint hægt að segja það, þetta er eins og hver önnur vinna sem maður velur sér, mis skemmtileg milli daga en það á nú við alls staðar.

Hvað finnst ykkur hafa verið helstu framfarirnar í landbúnaði í ykkar búskapartíð?

Aukin jarðrækt þá sér í lagi kornræktin sem hefur klárlega skilað okkur betra fóðri, ekki bara korninu sem slíku (það er kannski bónus) heldur hefur það gert það að verkum að endurræktun er tíðari, túngrösin betri og heyin að sama skapi. Betra fóður, meiri mjólk og það er nú það sem við sækjumst eftir.

Svo má segja að stærri vélar og meiri

17

afköst í heyskap og jarðrækt hafi líka átt þátt í þeirri framþróun sem verið hefur.

Eitthvað annað sem þið viljið taka sérstaklega fram?

Það sem hefur kannski helst breyst er að þegar við byrjuðum að búa fyrir 20 árum á Möðruvöllum þá

framleiddum við 150 þúsund lítra af mjólk og þótti nokkuð mikið, núna framleiðum við 300 þúsund lítra með sama mannafla og þykir engin ósköp.

Spurning hvað við getum leyft búunum að verða stór, án þess að það komi niður á fjölskyldulífinu. Það sem kannski er stóri munurinn

nú eða áður, er að mannafli í sveitum er orðinn miklu minni, það býr kannski bara ein kynslóð á hverju búi í stað þriggja áður og því eru samskipti við aðra bændur og nágranna ennþá mikilvægari. Maður er manns gaman í búskap sem öðru.

JÓN MARTEINN FINNBOGASON

17. júlí 1989, Minni-Mástungu í Gnúpverjahreppi

Verknámsbær og hvað stendur upp úr? Torfur í Eyjafjarðarsveit. Það voru nokkrir hlutir sem stóðu upp úr. Norðlenska sumarið, gott fólk og heilbrigt samfélag.

Hefur viðhorf þitt til landbúnaðar breyst eftir námið? Já, talsvert. Nú er ég mjög meðvitaður um hversu mikilvæg sjálfbærni er fyrir okkur sem þjóð og spilar landbúnaður eitt stærsta hlutverkið í því hugtaki. Að mínu mati á byggðarstefna okkar að haldast vel í hendur við landbúnaðarstefnu Íslands og stuðla að nýliðun og betri nýtingu bújarða til framtíðar.

Hefur þú hugsað þér að vinna við landbúnað í framtíðinni? Já, ekki spurning. Íslenskur landbúnaður stendur á krossgötum núna og verður afar fróðlegt að sjá hvaða stefnu stjórnvöld muni setja bændum og neytendum þessa lands.

Skemmtilegustu tímarnir í skólanum? Nautgriparækt, bústjórn, búsmíði og síðast en ekki síst fóðurverkun hjá Unnsteini Snorra. Með hvaða bústofn myndirðu vilja búa með? Nautgripi. Það er að mínu mati nútímalegasti búskapurinn í dag hvað varðar alla þætti er snúa að rekstarumhverfi, andlegu og líkamlegu heilbrigði bænda.

Hvernig er lífið á Hvanneyri? Það er ágætt. Veðrið er þó nokkuð ábótavant.

GLÓDÍS

SIGMUNDSD.

21. janúar 1994, Ekru

í Hjaltastaðaþinghá

Verknámsbær og hvað stendur upp úr? Bessastaðir við Hrútafjörð. Ég verð að segja að hafragrauturinn á bænum var eftirminnilega góður, ég sakna þess að fá hann ekki á morgnana.

Hefur viðhorf þitt til landbúnaðar breyst eftir námið? Já, ég geri mér enn betur grein fyrir hversu mikilvægur landbúnaðurinn á Íslandi er fyrir þjóðina og hvað við erum heppin að eiga okkar sérstöku og lítið snortna náttúru. Það er mikið öryggi fólgið í því að geta framleitt matinn sinn sjálfur að eins miklu leyti og hægt er, sérstaklega þegar mikill fæðuskortur er yfirvofandi í heiminum. Hefur þú hugsað þér að vinna við landbúnað í framtíðinni? Já ég hafði hugsað mér það. Hvort sem það verður beint eða óbeint. Skemmtilegustu tímarnir í skólanum? Sauðfjárrækt og ullariðn. Með hvaða bústofn myndirðu vilja búa með? Sauðfé sem aðalstofn. Svo er nauðsynlegt að hafa nokkra hesta, hænur, hund og annað slíkt til að fegra bæinn. Hvernig er lífið á Hvanneyri? Það er fjörugt og heimilislegt, hér eignast maður marga vini. Verst kann ég við rokið og rigninguna, enda af Austurlandinu þar sem slíkt þekkist varla.

18

Haukur Þórðarson, kennari

Hvaða starfi gegnir þú innan Landbúnaðarháskóla Íslands?

Starf mitt er býsna fjölbreytt. Ég kenni í búfræðináminu og er með námskeið fyrir bændur m.a. í plægingum, áburðardreifingu og málmsuðu. Að auki sinni ég verkefnum tengdum vélum og tækjum og tek þátt í rannsóknarverkefnum, ásamt ýmsu fleiru.

Rekstur véla er stór hluti af búrekstri bænda, eru einhverjar leiðir til að spara í þeim efnum?

Mig langar að benda sérstaklega á eitt atriði. Vélarnar endast ekki nógu lengi, þær bila of mikið og slitna alltof hratt. Með góðri umhirðu og réttu fyrirbyggjandi viðhaldi er hægt að koma í veg fyrir ótímabærar bilanir og lengja líftíma vélanna umtalsvert. Notendahandbókin á ekki að rykfalla í óopnuðu plastinu, hún er okkar besta hjálpartæki bæði hvað varðar umhirðu og viðhald en ekki síður hvað varðar rétta notkun og stillingar.

Eru einfaldar leiðir fyrir bændur að minnka eldsneytiseyðsluna hjá dráttarvélum sínum?

Hér er hægt að nefna fjölmörg atriði sem skipta verulegu máli.

• Passa þarf að dráttarvél og vinnutæki passi vel saman því umfram þungi og hestöfl kalla á meiri eyðslu.

• Keyra í hærri gír og lækka mótorsnúning á móti. Sem dæmi má nefna að við rúllutínslu er hægt að ná undraverðum árangri með því að hámarks mótorsnúningur sé t.d. 1500sn/mín.

• Nýta E stillingar fyrir aflúttak við flest verkefni, nema hugsanlega þau allra erfiðustu.

• Mæla loftþrýsting í hjólbörðum bæði á dráttarvélum og vinnutækjum og fylgja leiðbeiningum þar að lútandi.

• Sinna umhirðu og viðhaldi að kostgæfni.

• Huga vel að stillingum vinnutækja.

• Huga þarf vel að vinnsludýptum við jarðvinnslu, hver 1cm sem unnið er dýpra kallar á umtalsverða orku.

Hversu mikið atriði getur það verið að hafa plóginn rétt stilltan þegar er plægt?

Rétt stilltur plógur er forsenda góðrar plægingar. Það hjálpast í rauninni allt að til að ná árangri, rétt hjólabil á dráttarvél, rétt hlutfall milli breiddar og dýptar strengja, afstaða plógsins gagnvart landinu, rétt stilltir hjólhnífar og ristlar, átakslínur o.fl.

19

Hver er ávinningur þess að búa til áburðaráætlanir fyrir tún og fara eftir þeim? Áburðaráætlun er öflugt tæki sem ég mæli með að unnið sé eftir, hins vegar er gagnið af henni takmarkað ef áburðardreifingin sjálf er ekki í lagi. Notkun jaðardreifibúnaðar er ein af forsendum þess að dreifingin verði jöfn og góð. Án notkunar jaðardreifingarbúnaðar getur farið rétt heildarmagn á spilduna samkvæmt áætlun en enginn hluti hennar fær þó rétt magn. Það dreifist of lítið á jaðrana (sem er oft ótrúlega stór hluti

spildunnar) en of mikið í restina. Þetta leiðir af sér uppskerutap og mikinn breytileika í fóðri.

Er mikilvægt að standa vel að dreifingu búfjáráburðar og hvaða atriði skipta þá máli?

Svarið við þessari spurningu er klárlega já. Þetta getur verið stór áhrifaþáttur varðandi gæði og magn fóðurs. Fjöldi atriða skipta máli til að ná settu marki, þar má nefna:

• Vanda upphræringu svo því sem dreift sé sem líkast að innihaldi.

• Þekkja eins og kostur er

efnainnihald og þurrefnisprósentu.

• Halda tækjabúnaði í góðu ásigkomulagi.

• Dreifa á réttum tíma og við réttar veðurfarslegar aðstæður.

• Nýta upplýsingar frá efnainnihaldsmælingum og þurrefnisprósentu til að dreifa ráðlögðu efnamagni.

• Halda réttum ökuhraða.

• Halda réttu bili milli ferða.

• Dreifa jöfnu magni yfir alla spilduna.

JÓHANNA BRÍET

HELGADÓTTIR

30. mars 1992, Selfossi

Verknámsbær og hvað stendur upp úr? Ég var í Bræðratungu í Biskupstungum. Það er frábært að fá að kynnast búskaparháttum annars staðar, og það kom mér á óvart hversu ágætt það er að fara í fjós daglega. Eftirminnilegast er þó sennilega þegar ég missti næstum gemling ofan í haughúsið fyrsta daginn minn.

Hefur viðhorf þitt til landbúnaðar breyst eftir námið? Já, ég er orðin miklu víðsýnni á mismunandi landbúnað.

Hefur þú hugsað þér að vinna við landbúnað í framtíðinni? Já, stefni á rollubúskap á Hrafnkelsstöðum 1. Skemmtilegustu tímarnir í skólanum? Verklegu tímarnir standa upp úr, svo er alltaf skemmtilegt að fylgjast með umræðum þegar Eyvi Kiddi á að vera að kenna sauðfjárrækt. Með hvaða bústofn myndirðu vilja búa með? Sauðfé er efst á lista.

Hvernig er lífið á Hvanneyri? Hvanneyri kom mér á óvart, þetta er ótrúlega skemmtilegt samfélag. Bekkjarfélagarnir toppfólk sem gera dagana betri, fimmtudagskvöldin eru þó alveg einstaklega góð.

ARNA SILJA JÓHANNSD.

2. maí 1988, Breiðdalsvík, Austfjörðum

Verknámsbær og hvað stendur upp úr? Var á Kirkjulæk í Fljótshlíð. Kynntist frábæru fólki og tók með mér góðar minningar og nytsamlega reynslu þaðan.

Hefur viðhorf þitt til landbúnaðar breyst eftir námið? Já, algjörlega. Námið hefur einnig dýpkað skilning minn á landbúnaði og fengið mig til að hugsa um hversu mikilvæg grein þetta er.

Hefur þú hugsað þér að vinna við landbúnað í framtíðinni? Það er allavegana langtímamarkmiðið að geta unnið að einhverju landbúnaðartengdu (líklega með einhverju öðru).

Skemmtilegustu tímarnir í skólanum? Held að hrossarækt hafi vinninginn, annars er oftast gaman í sauðfjárrækt.

Með hvaða bústofn myndirðu vilja búa með? Sauðfé og nokkur hross. Svo finnst mér alveg ómissandi að eiga hund!

Hvernig er lífið á Hvanneyri? Það er oftast ljúft og kom bara skemmtilega á óvart! Fyrir utan það hvað maður kynnist mikið af góðu fólki, er samfélagið vinalegt og félagslífið öflugt. Ef ég ætti samt að kvarta undan einhverju væri það sennilega veðrið.

20

INGVI ÞÓR BESSASON

18. júní 1991, Hofsstaðaseli í Skagafirði

Verknámsbær og hvað stendur upp úr? Seljavellir í Hornafirði. Það sem stóð upp úr var að Eiríkur og Elín voru svo dugleg að sýna mér og fræða um sveitina í kringum Seljavelli. Ég hef ekki verið mikið á Austurlandi og hef alltaf gaman af því að skoða og fræðast um nýja staði. Hefur viðhorf þitt til landbúnaðar breyst eftir námið? Eflaust eitthvað. Hefur þú hugsað þér að vinna við landbúnað í framtíðinni? Það var nú planið. Skemmtilegustu tímarnir í skólanum? Nautgriparækt, hrossarækt og búsmíði. Með hvaða bústofn myndir þú vilja búa með? Blandað bú með kýr, hross og sauðfé. Hvernig er lífið á Hvanneyri? Frekar vindasamt en annars bara ljúft.

HEKLA KAREN STEINARSD.

15. febrúar 1992, Grund

í Reykhólahreppi

Verknámsbær og hvað stendur upp úr? Fór á

Snæfellsnes, á bæinn Bjarnarhöfn. Hundatamningarnar voru mjög fróðlegar og skemmtilegar, svo bara skemmtilegt fólk sem ég kynntist.

Hefur viðhorf þitt til landbúnaðar breyst eftir námið? Já að einhverju leyti - opnað augun mín mun meira.

Hefur þú hugsað þér að vinna við landbúnað í framtíðinni? Það væri sko draumurinn - hver veit hvað gerist í framtíðinni.

Skemmtilegustu tímarnir í skólanum? Sauðfjárrækt alveg allan daginn - fæ ekki nóg af þessum kindum! Með hvaða bústofn myndirðu vilja búa með? Kindur og fullt af þeim, væri líka alveg gaman að prófa að vera með kúabúskap. Hvernig er lífið á Hvanneyri? Yndislegt, hef kynnst fullt af frábæru fólki.

BERGLIND ÝR INGVARSD.

19. október 1995, Borgarnesi

Verknámsbær og hvað stendur upp úr? Ríp í Skagafirði. Margt skemmtilegt en ég kynntist frábæru fólki og tók með mér góða visku heim :) Hefur viðhorf þitt til landbúnaðar breyst eftir námið? Já það hefur mikið breyst. Námið gaf mér betri innsýn á allan landbúnað. Hefur þú hugsað þér að vinna við landbúnað í framtíðinni? Já, ég ætla að reyna það :) Skemmtilegustu tímarnir í skólanum? Sauðfjárrækt og hrossarækt, klárlega. Með hvaða bústofn myndirðu vilja búa með? Hross og sauðfé.

Hvernig er lífið á Hvanneyri? Mikið félagslíf, sem gefur manni meira tækifæri á að kynnast fólki úr öllum áttum.

ODDUR GUNNARSSON

2. september 1992, Litla-Hofi í Öræfum

Verknámsbær og hvað stendur upp úr? Laxárdalur III í Hrútafirði. Það sem stendur upp úr er að kynnast góðu fólki, nýjum landshluta og verklagi. Hefur viðhorf þitt til landbúnaðar breyst eftir námið? Áhuginn hefur aukist og maður þykist vita eitthvað meira.

Hefur þú hugsað þér að vinna við landbúnað í framtíðinni? Já

Skemmtilegustu tímarnir í skólanum? Sauðfjárrækt, búsmíði og búvélafræði.

Með hvaða bústofn myndirðu vilja búa með? Sauðfé. Hvernig er lífið á Hvanneyri? Það er ágætt og félagslífið er gott.

21

ÁFANGAKYNNING - Bústjórn 2

Áfanginn er framhaldsáfangi af Bústjórn 1 og

snýst um að dýpka skilning nemenda á rekstri og rekstrartengdum þáttum. Í áfanganum er fjallað um markaðsfræði, rekstrarfræði og arðsemi fjárfestinga. Markaðsfræði nýtist nemendum til að átta sig á markaðsumhverfi þeirrar framleiðslu sem þeir stunda. Undirstaða allrar framleiðslu er að hún sé seljist og því er gott fyrir alla framleiðendur að átta sig á því hvaða þættir hafa áhrif á markaðinn. Helstu kenningar markaðsfræðinnar eru því kynntar í áfanganum og reynt er að yfirfæra þær á landbúnaðarvörur. Fjallað er nokkuð um rekstrarhagfræði og reynt er að tengja hana við

stöðu bóndans sem framleiðanda og stjórnanda.

Góður rekstur snýst um að taka ákvarðanir sem borga sig og því er farið yfir það í áfanganum hvernig leggja megi mat á arðsemi rekstrar með hjálp rekstrargreiningar og kennitalna. Einnig læra nemendur að reikna út ýmsa kostnaðarþætti og fjárfestingar af margvíslegum toga t.d. hvort það borgi sig að eiga tæki eða fá verktaka til að vinna verk. Á þann hátt geta nemendur sjálfir aflað sér upplýsinga sem þarf til slíkra ákvarðana og tekið upplýstar ákvarðanir um fjárfestingar út frá tiltækum forsendum.

SIGURÐUR MAX JÓNSSON

3. mars 1989, Glúmsstöðum 1 í Fljótsdal

Verknámsbær og hvað stendur upp úr? Ég var á Selalæk á Rangárvöllum. Það sem stóð upp úr var heyskapurinn, það var algjör snilld að komast í heyskapinn á bænum. Það stendur einnig upp úr að ég var svo heppinn að vera hjá góðu fólki sem vildi allt fyrir mig gera þegar ég var verknemi þeirra. Hefur viðhorf þitt til landbúnaðar breyst eftir námið? Viðhorf mitt til landbúnaðar hefur breyst mjög mikið við námið, til hins góða. Hefur þú hugsað þér að vinna við landbúnað í framtíðinni? Það er klárlega stefnan hjá mér að vinna við landbúnað í framtíðinni.

Skemmtilegustu tímarnir í skólanum? Úff... erfitt að velja. Mér finnst þetta allt skemmtilegt! Með hvaða bústofn myndirðu vilja búa með? Að minnsta kosti kindur og jafnvel með nokkra hesta. Einnig gæti ég vel ímyndað mér að vera með kýr.

Hvernig er lífið á Hvanneyri? Lífið á Hvanneyri er ljúft, það er alltaf nóg um að vera í félagslífinu. Lognið hefur þann leiðinlega ávana að flýta sér svolítið.

HADDA BORG BJÖRNSDÓTTIR

1. júlí 1993, Þorpum í Strandabyggð

Verknámsbær og hvað stendur upp úr? Sölvabakki í

Austur – Húnavatnssýslu og það sem stendur upp úr er Frozen, dagurinn þegar ég datt ofan í gjafagrindina, hettumáfseggjatínslan og margt fleira.

Hefur viðhorf þitt til landbúnaðar breyst eftir námið? Já, það hefur eitthvað breyst eftir námið. Hefur þú hugsað þér að vinna við landbúnað í framtíðinni? Já og hef gert það síðan ég var lítil og uppgötvaði að þetta væri eitthvað sem ég vildi gera í framtíðinni.

Skemmtilegustu tímarnir í skólanum? Tímarnir hjá skemmtilegu kennurunum.

Með hvaða bústofn myndir þú vilja búa með? Dýrið sem dregur bæði fram það besta og versta í manninum (sauðfé) og hross.

Hvernig er lífið á Hvanneyri? Lífið á Hvanneyri er skrautlegt og skemmtilegt, skrautlegust eru fimmtudagsdjömmin og skemmtilegastir eru föstudagsmorgnar.

22

Erfðalindasetur Landbúnaðarháskóla Íslands

Erfðalindasetur var formlega stofnað 8. maí 2009 á vegum Landbúnaðarháskóla Íslands í samstarfi við erfðanefnd landbúnaðarins og Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. Aðsetur setursins er hjá skólanum sem einnig hefur umsjón með rekstri þess og umsýslu. Erfðanefnd landbúnaðarins hefur fastan sess í setrinu og nýtur þjónustu þess. Það er hugsað sem opinn samstarfsvettvangur allra þeirra aðila sem með einum eða öðrum hætti tengjast varðveislu og sjálfbærri nýtingu erfðaauðlinda í landbúnaði. Helstu verkefni setursins snúa að umsjón verkefna á vegum erfðanefndar landbúnaðarins en það er jafnframt hugsað sem staður fyrir ýmiss konar starfsemi sem tengist erfðaauðlindum, s.s. tengsla- og samskiptanet setursaðila þar sem miðla má reynslu og efla starfsemi og samskipti þeirra fjölmörgu aðila sem láta sig varðveislu og sjálfbæra nýtingu erfðaauðlinda varða, út frá hagsmunu landbúnaðar, umhverfis og menningar í víðu samhengi.

Erfðanefnd landbúnaðarins gefur út á fimm ára fresti landsáætlun um erfðaauðlindir í íslenskri náttúru og landbúnaði þar sem stefnumörkun nefndarinnar er sett fram. Samningur Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni, sem Ísland er aðili að, nær til allra tegunda lífríkisins þar á meðal þeirra tegunda sem hafa hagnýtt gildi í landbúnaði og með stefnumörkun sinni vill erfðanefnd mæta þeim skuldbindingum

og benda á leiðir til varðveislu og nýtingu erfðaauðlinda. Í landsáætluninni er einnig samantekt á því sem hefur áunnist og má nálgast landsáætlunina á heimasíðu nefndarinnar www.agrogen.is. Mikilvægt er að varðveita erfðaauðlindir þar sem forsendur landbúnaðarframleiðslu geta breyst hratt vegna breytinga sem geta átt sér stað í umhverfinu, sem geta orðið frá náttúrunnar hendi eða af mannavöldum.

Við breyttar aðstæður getur því verið þörf fyrir aðra eiginleika en nú er og á það bæði við um plöntur og dýr. Auk þess má nefna að kröfur markaðarins eftir landbúnaðarvörum eru sífellt að breytast og síðast en ekki síst er menningarsögulegt gildi erfðaauðlinda mikilvægt þar sem ræktun plantna og búfjár er hluti af menningarsögunni. Það er því vert að hafa í huga að varðveisla erfðaauðlinda er lykilstriði í varðveislu líffræðilegrar fjölbreytni og tapaðar erfðaauðlindir verða ekki endurheimtar.

Á undanförnum árum hefur setrið skipulagt þematengd málþing um mikilvægi erfðaauðlinda og má þar nefna rabarbara, kartöflur, íslenska geitastofninn, ferskvatnsfiska og til sendur að halda málþing um íslenska kúastofninn í júní í Landbúnaðarsafni Íslands á Hvanneyri. Umræða um innflutning á nýju kúakyni vekur upp spurningu um hver staða íslenska kúastofnsins verður ef hann leggst af sem framleiðslustofn. Setrið sinnir samskiptum við Norræna genbankann (NordGen) og hefur umsjón

23
Birna Kristín Baldursdóttir umsjónarmaður setursins. Fræhvelfingin á Svalbarða þar sem fræ af íslenskum nytjaplöntum eru varðveitt.

með íslenskum verkefnum á hans vegum eftir því sem við á. Fræ af íslenskum nytjajurtum eru varðveitt hjá Norræna genbankanum í frægeymslu á Svalbarða, meðal þeirra eru fræ af hálíngresi, skriðlíngresi, snarrót, túnvingli, vallfoxgrasi og vallarsveifgrasi. Matjurtir eru einnig varðveittar hjá genbankanum og má þar nefna kartöflur, melgresi og gulrófur. Sumar nytjajurtir þarf

svo að varðveita í klónasöfnum og hefur verið leitað eftir samstarfi við grasagarða og byggðsöfn til varðveislu á t.d. rabarbara.

Á undanförnum misserum hafa verndaraðgerðir vegna íslenska geitastofnsins verið í brennidepli og hefur erfðalindasetur komið að þeim aðgerðum með ýmsum hætti.

ÁFANGAKYNNING - Hrossarækt

Hestamennska er afar stór og mikilvægur hluti bændamenningarinnar á Íslandi auk þess að vera vinsælt áhugamál í þéttbýli, atvinnugrein og svo ekki sé minnst á sívaxandi straum ferðamanna sem koma hingað til lands til þess að ferðast á hestum og njóta þessarar undraskepnu sem íslenski hesturinn er, í hans heimalandi. Því er það Landbúnaðarháskólanum bæði ljúft og skylt að bjóða nemendum í búfræðinámi upp á víðtæka fræðslu um hestinn, hestahald, tamningar og reiðmennsku.

Í nýrri námsskrá sem tekur gildi haustið 2015 verður boðið upp á fleiri áfanga tengda hrossum en verið hefur. Á fyrstu önnum námsins er boðið upp á áfanga sem nefnist Reiðmennska 1 en þar er byggt á knapamerkjum 1 og 2. Í þeim áfanga er mest áhersla lögð á grunninn í allri reiðmennsku, þ.e. ásetu knapans, jafnvægi og notkun ábendinga og lýkur áfanganum með prófi í fyrrnefndum knapamerkjum. Á vorönn fyrsta árs er boðið upp á kennslu í járningum þar sem nemendur fá bóklega fræðslu um hófa og fætur hestsins, jafnvægi og hvernig má hafa áhrif á hreyfingar hestsins með járningum. Auk þess fá nemendur verklega þjálfun í járningum. Á öðru árinu er boðið upp á áfangann Fortamningar þar sem

nemendur fá bóklega fræðslu um atferli hesta og hvernig þeir læra. Auk þess fá nemendur verklega þjálfun í að umgangast og vinna með ung tryppi, leggja við þau, gera bandvön, lyfta fótum ofl. Öll kennsla í þessum áfanga miðar að því að kenna nemendum að undirbúa tryppin undir hina eiginlegu frumtamningu. Á haustönn annars árs er kenndur áfanginn Hestafræði þar sem farið er yfir fræðilega þætti reiðmennskunar. Nemendur kynnast þeim hugtökum sem bera á góma í reiðmennsku, fimiæfingar, líkamsbeyting hestsins og gangtegundir, hvernig sköpulag hestsins hefur áhrif á hreyfingar hans, kynbótastarfið auk þess sem farið er yfir fóðrun hins almenna reiðhests. Á síðustu önnum námsins er síðan boðið upp á einn umfangsmikinn verklegan áfanga þar sem nemendur þjálfa einn fullorðinn hest og frumtemja annan. Þeim áfanga lýkur með hátíðarhöldum á sumardaginn fyrsta þar sem hin eftirsótta Morgunblaðsskeifa er afhent þeim nemanda sem best hefur staðið sig í áfanganum.

Enginn hestaáhugamaður ætti því að verða fyrir vonbrigðum með það framboð af hestatengdu námi við skólann sem er í boði og eftir námið ættu nemendur að vera vel í stakk búnir til að starfa við hrossaræktarbú við hin ýmsu verk sem þar falla til.

24

LbhÍ skrifar.

Búfjárræktarferð 2015

Búfjárræktarferð 2015 var farin á Suðurlandið í þetta skiptið en tíðkast hefur að fara alltaf til skiptis á Suðurland og Norðurland. Því voru tvö ár síðan nemar frá Hvanneyri voru síðast í búfjárræktarferð um Suðurland. Nefnd var skipuð til að sjá um ferðina og urðu fyrir valinu uppsveitadrengirnir Jón Óskar frá Brekku, Bragi Viðar frá Túnsbergi og Jón frá Skipholti III. Það verður að segjast að sá póll var tekinn að skoða sem mest á sem skemmstum tíma án þess að vera í stresskasti.

Lagt var af stað frá Hvanneyri kl. 10:00 að morgni föstudagsins 20 febrúar. Fyrsta stopp var hjá Líflandi á Grundartanga þar sem Helgi Eyleifur og Ásta, starfsmenn Líflands, tóku á móti okkur og sýndu okkur verksmiðjuna og þeirra starfsemi. Þó sumir hafi orðið lofthræddir við að skoða verksmiðjuna voru allir sáttir með þessa heimsókn. Næsta stopp var hjá Kraftvélum en þeir tóku á móti okkur með miklum glæsibrag og sýndu okkur tæki og tól sem þeir höfðu upp á að bjóða. Gríðarlega gaman var að keyra aðeins um í borg óttans því svo virtist að sumum hafi verið þetta mikil upplifun að sjá Reykjavík í öllu sínu veldi.

Því næst var ferðinni heitið austur fyrir fjall og kíktum við á Stóra-Ármót til Hildu og Höskuldar en þar fengum við smá innsýn í starfsemina. Við skoðuðum aðstöðuna og húsakostinn, en þar var byggt fjárhús sl. haust og virtist sem

meiri áhugi hafi verið fyrir því en hinum húsunum. Dagskráin var þétt skipuð og því var haldið áfram, svo virtist sem það væru ekki allir jafn stressaðir og fararstjórar og eltu því þrír kviðmágar rútuna gangandi eftir afleggjaranum en Guð má vita hvað þeir voru að gera.

Næst var förinni heitið í Skarð í Landsveit en þar var heldur betur mikið að sjá, það er að segja glænýtt fjárhús, þar sem notast var við hugvit hreppamanna og því afar björt og flott hús. Berglind og Elli tóku vel á móti okkur og miklar kræsingar biðu okkar. Það örlaði nú á framsóknarbrag á þessum sjálfsstæðisbæ því kræsingarnar voru frá Kjötbankanum en allir vita hverjir eiga það fyrirtæki.

Næsta stopp var Krókur/Margrétarhof en því miður voru Reynir og Aðalheiður ekki við heldur tóku Anna og Hlynur á móti okkur. Það var nú ekki verra og voru þau hin hressustu. Margir voru agndofa yfir aðstöðunni sem þau hafa uppá að bjóða og ekki var hestakosturinn síðri! Ingvar á Fjalli á Skeiðum tók svo á móti okkur í næsta stoppi, þar var gott að koma og þó sumir hafi verið orðnir þreyttir skemmtu margir sér ágætlega og var Ingvar hinn hressasti og sagði okkur frá staðnum.

Fararstjórar ferðarinnar skömmuðust sín smá þegar þeir gátu varla vísað leiðina í

Fjall enda þeirra heimaslóðir. Eftir þetta stopp beið okkar kvöldmatur á Kaffi-Sel þar sem vel var tekið á móti okkur og fóru allir saddir frá staðnum. Við fórum

25

svo í Félagsheimilið á Flúðum og komu allir sér vel fyrir enda okkar næturstaður. Gleðinni var svo haldið áfram og endað í Skjóli(efst í Bláskógabyggð), en þar er lítil krá og skemmtu flestir sér vel í það minnsta þeir sem gátu.

Laugardagurinn var þétt skipaður eins og öll dagskrá ferðarinnar. Mannskapnum var þó gefið smá svigrúm og því ekki lagt ýkja snemma af stað.

Fyrsta stopp var Hrafnkelsstaðir III, þar tóku Aðalsteinn og Margrét á móti okkur. Það er ekki fyrir alla að taka á móti mannskap svona „snemma“ morguns en Aðalsteinn er öllu vanur og leist bara nokkuð vel á. Hann sýndi okkur fjósið, afar

snyrtilegt að koma þar og ekki var verra þegar menn komust í skófluna á liðléttingnum.

Eftir þetta stopp héldum við á næsta bæ og tók því varla að koma sér fyrir í rútuna því hádegismatur beið okkar í fjárhúsunum á Hrafnkelstöðum l. Þar var í boði Kjötsúpa og veigar frá SS og Eimskip.

Bændurnir Haraldur og Jóhanna sýndu okkur aðstöðuna sem er til fyrirmyndar í alla staði og allt skrúbbað í bak og fyrir. Gaman var að glugga í söguna á vinnumönnum þar á bæ, en þar hafa staldrað við ansi margir. Einnig voru mörg hross sem runnu þarna í gegn, en þarna hefur verið rekin tamningastöð til fjölda áratuga og enn verið að temja.

Næst var farið í Bryðjuholt. Þar var að sjálfssögðu tekið vel á móti okkur og sögðu Samúel og Þórunn frá þeirra störfum. Það er alltaf gott að koma í Bryðjuholt, enda allt hreint og snyrtilegt. Gaman var að þau sögðu okkur frá bókhaldinu og sýndu okkur að það væri vel hægt að reka bú ef rétt væri haldið á spöðum.

Eiríkur Ágústsson beið eftir okkur í næsta stoppi, hann sýndi okkur Flúðasveppi en eins og nafnið gefur til kynna eru þar framleiddir sveppir. Hann sagði okkur frá sögu

fyrirtækisins en allt byrjaði þetta út frá einum MJÖG bjartsýnum manni sem tók mikla sénsa en gekk heldur betur upp og hefur fyrirtækið dafnað vel og er orðið ansi stórt. Þó svo sumum hafi fundist lyktin vond voru flestir ánægðir að sjá hvernig þessi framleiðsla fór fram og þó nokkrir sem smökkuðu sveppi, en þeir gerast nú varla ferskari.

Ferðinni var þá haldið út í Bláskógabyggð. Fyrst var áð í Hrosshaga en svo skemmtilega vildi til að bærinn ber nafn með rentu því þar er starfrækt tamningastöð og hrossaræktun. Sólon og Þórey sögðu okkur frá starfseminni og sýndu okkur hross í reið en óhætt er að segja að þau þurfa ekkert að ríða út í myrkri og ekki annað hægt að segja en að um gæðinga hafi verið að ræða. Veigarnar flæddu um reiðaðstöðuna og gaman var að sjá hvernig breyta má gömlum húsum í flottar hallir, en þau breyttu gömlu gróðurhúsi í fyrirmyndarhesthús.

Við færðum okkur svo ofar í Bláskógabyggð og kíktum við í Gýgjarhólskoti þar sem við skoðuðum nautgripi og sauðfé. Feðgarnir Eiríkur og Jón Hjalti sögðu okkur svo frá bænum, þar er mikil og góð aðstaða, ný vélaskemma var að rísa og hún ekkert í minni kantinum. Eftir að hafa þegið góðar veitingar var haldið á Kjóastaði 3, þar sem starfrækt er hrossarækt. Þar tóku á móti okkur Gunnar og Kristján en gaman var að sjá þegar sumir heilsuðu þeim síðarnefnda en hann var nefnilega dyravörður á kránni kvöldið áður. Kjóastaðir er nýbýli og þar eru byggingar með evrópskri fyrirmynd, virkilega flott aðstaða og veitingar.

Næsta stopp var Efsti-Dalur, þar er ferðamannafjós með veitingastað. Borðuðum við kvöldverð á þessum flotta veitingastað og mega ábúendur vera stoltir af þessari starfsemi.

26
Lífland Grundartanga, þar urðu sumir ansi lofthræddir.

Þegar hér var komið við sögu var „liðið“ orðið ansi hresst, enda langur og góður dagur að kvöldi kominn. Við fórum svo aftur á Flúðir þar sem mannskapurinn pússaði skóna og skellti sér í bingógallann. Alli og Dúna á Hestakránni (Húsatóftum) biðu nefnilega eftir okkur með ball og allir skemmtu sér konunglega langt fram eftir nóttu. Ekki var leiðinlegra að sjá eldri búfræðinga mæta og virtist sem þeir hefðu engu gleymt eftir dvöl sína á Hvanneyri einhverjum árum áður.

Sunnudagsmorguninn var mörgum erfiður, en allt hófst þetta fyrir rest og skiluðu allir sér líkamlega upp í rútu.

Fyrsti áfangastaður var hjá Birnu og Rúnari á Reykjum. Þar var margt að sjá, enda nýlegt fjós með nýjum Lely A4 mjaltaþjóni. Sverrir frá VB-landbúnaði var einnig þarna til að segja okkur frá mjaltaþjóninum og svaraði mörgum spurningum frá verðandi búfræðingum. Birna og Rúnar, ásamt syni sínum Bjarna, sögðu okkur frá þessari mögnuðu og flottu aðstöðu og veittu okkur vel í mat og drykk.

Arnar Bjarni ásamt fjölskyldu og starfsfólki tók svo vel á móti okkur í Landstólpa. Landstólpi hefur upp á margt að bjóða og voru margir áhugasamir og spurðu Arnar spjörunum úr. Arnar fór svo yfir sögu fyrirtækisins og starfsemi. Sagði okkur frá því helsta sem hann hefur upp á að bjóða og sýndi okkur

meðal annars teikningu af nýju fjósi sem hann er að byrja að byggja í Gunnbjarnarholti.

Skemmtileg heimsókn og svo virtist sem smá litur hafi sést á sumum eftir að þeir komust í fljótandi brauðið hjá Landstólpa.

Þá var haldið áfram og í næstu heimsókn fengum við að bera augum einn besta hest heimsins, en þá er verið að tala um Spuna frá Vesturkoti. Þórarinn og Hulda tóku vel á móti okkur, sýndu okkur aðstöðuna og Þórarinn skellti sér á bak og sýndi okkur hross í reið og þurfti hann ekkert að skammast sín á baki. Þórarinn og Hulda vissu greinilega hvernig ætti að ná okkur í gang og margir sem þurftu að halda vel í sér þangað til við stoppuðum í Jötunn-vélum hjá Finnboga og starfsmönnum hans.

Þar beið okkar matur í boði Jötuns og Finnbogi tók okkur í smá kennslustund og sagði okkur frá tækjum og tólum sem hann hafði upp á að bjóða. Þessi kennslustund var hinsvegar ansi stutt því veðrið var með leiðindi og Siggi rútubílstjóri vildi drífa sig af stað. Við vorum því miður örlítið of sein af stað því þegar við vorum undir Ingólfsfjalli lokuðu Hellisheiðin, Þrengslin og Suðurstrandarvegurinn. Urðum við Sunnlendingar að kyngja ansi miklu stolti enda búnir að dásama þennan landsfjórðung í bak og fyrir hvað veður varðar. Okkur til varnaðar vorum við náttúrulega

ekki lengur í uppsveitunum en þetta eru náttúrulega gjörólík svæði. Því urðum við því miður að aflýsa komu okkar í VB-landbúnað.

Við kíktum við í Fákaseli í staðinn, þar sem Guðmar staðarhaldari tók vel á móti okkur. Hann gerði sér lítið fyrir og labbaði með okkur í gegnum staðinn og sagði okkur í stuttu máli frá fyrirkomulaginu. Við enduðum svo á því að borða hjá þeim og allt leit út fyrir að við myndum fara á sýninguna líka en þess má geta að Fákasel er ferðamannastaður sem er með sýningu til heiðurs íslenska hestinum. Við nýttum hinsvegar tækifærið þegar Þrengslin opnuðu og dúndruðumst vestur á Hvanneyri, margir voru orðnir þreyttir eftir langa helgi en þó voru sumir ekkert á þeim skónum að vilja komast heim.

Búfjárræktarferðin 2015 gekk með eindæmum vel, þó svo smá veðurofsi hafi raskað planinu í restina. Við viljum þakka Sigga rútubílstjóra fyrir vægast sagt snilldar þjónustu, en vesen er ekki til í hans orðabók. Ekki má gleyma þeim fjölmörgu sem tóku á móti okkur með glæsibrag en það er alls ekki sjálfgefið að taka á móti 60 manns á einu bretti. Að lokum þökkum við þeim fyrirtækjum sem styrktu ferðina, en án þeirra hefði hún varla verið farin.

TAKK FYRIR OKKUR!

27

3. mars 1992, Víðidal

í Skagafirði

Verknámsbær og hvað stendur upp úr? Skarð í

Landssveit. Það er svo sem margt sem að kemur til greina, en ætli það sé ekki að fá að kynnast svona stóru sauðfjárbúi og að hafa fengið að sjá hvernig lífið í Landssveitinni gengur fyrir sig.

Hefur viðhorf þitt til landbúnaðar breyst eftir námið? Að sumu leyti. Ég til dæmis kom hingað og sá ekkert nema sauðfé en ég sé það núna að það er fleira sem búandi er með.

Hefur þú hugsað þér að vinna við landbúnað í framtíðinni? Það hefur verið planið frá unga aldri og það hefur ekkert breyst. Skemmtilegustu tímarnir í skólanum? Ég hugsa að búsmíði sé með þeim skemmtilegri en einnig sauðfjárrækt.

Með hvaða bústofn myndirðu vilja búa með? Sauðfé og helst nóg af því. Hvernig er lífið á Hvanneyri? Gífurlegur glaumur og gleði þrátt fyrir veður og vinda.

BJARNI ÞÓR GUÐMUNDSS.

28. desember 1992, Svalbarði

á Svalbarðsströnd

Verknámsbær og hvað stendur upp úr? Breiðavað. Margt sem að stendur upp úr eftir þessa skemmtilegu dvöl og erfitt að velja eitthvað eitt, en þó stóð kannski mest upp úr símatíminn hans Jóa og stóru hugmyndirnar frá ónefndum verktaka. En þetta er frábært fólk sem býr þarna og er ég mjög þakklátur fyrir að hafa fengið að vera þarna í verknámi. Hefur viðhorf þitt til landbúnaðar breyst eftir námið? Hefur kannski ekki breyst mikið en þó eitthvað, maður sér meira hvað er vitlaust og hvað ekki.

Hefur þú hugsað þér að vinna við landbúnað í framtíðinni? Bókað mál.

Skemmtilegustu tímarnir í skólanum? Bústjórn, nautgriparækt (1&2), núsmíðin og fóðurverkun Með hvaða bústofn myndirðu vilja búa með? Kýr (annað er bara hobbý og vitleysa)!

Hvernig er lífið á Hvanneyri? Lífið er blautt og hvasst en talsvert blautara fyrir suma en aðra.

SANDRA BJÖRK SIGURÐARD.

20. ágúst 1987 Kópavogi

Verknámsbær og hvað stendur uppúr? Gýgjarhólskot.

Það sem ég myndi halda að stæði helst upp úr er að ég var verknáms sigurvegarinn. Ég náði að vera óheppnasti verknemi ársins, sem lýsir sér þannig að ég náði að verða milli steins og sleggju (grínlaust) og næstum því puttabrjóta mig, tæpri viku seinna náði ég svo að puttabrjóta mig, ég velti liðlétting innandyra, það var því ekki hægt að nota ámoksturstæki til að rétta hann af, og náði að festa sama traktorinn á sama túninu með 2 vikna millibili. Það var þó líka mjög skemmtilegt að

kynnast nýju fólki og hvernig það stundar búskapinn, það voru allir mjög tilbúnir að bjóða mig velkomna. Hefur viðhorf þitt til landbúnaðar breyst eftir námið? Ég myndi halda að ég væri með augun meira opin fyrir nýjungum, bæði tækjum og vinnuaðferðum.

Hefur þú hugsað þér að vinna við landbúnað í framtíðinni? Ég vona það, þetta er ekki beint auðveldasti starfsferillinn til að byrja.

Skemmtulegustu tímarnir í skólanum? Verklegu tímarnir standa uppúr, sama hvaða fagi það var í, þá finnst mér skemmtilegast að sjá í verki það sem við höfum verið að ræða í kennslustofunum. Hugsa að jafnvel mætti minnka bóklega námið og auka verklega fyrir minn smekk.

Með hvaða bústofn myndiru vilja búa með? Ég myndi vilja hafa blandað bú, hvað er betra en að fá sér nýja mjólk á Cocoa Puffsið á leiðinni út í fjárhús á sauðburði. Hvernig er lífið á Hvanneyri? Það er skrautlegt ...

28 ARON PÉTURSSON

Þórdís Þórarinsdóttir, formaður

Bryndís Karen Pálsdóttir, skemmtanastjóri

Frá Nemendafélagi LbhÍ

Sem nemendur í stjórn nemendafélags Landbúnaðarháskóla Íslands viljum við veita þér innsýn inn í síðasta skólaár og helstu viðburði félagslífsins hér á Hvanneyri.

Landbúnaðarháskólinn býður upp á BS-nám í eftirfarandi greinum; búvísindum, hestafræði, náttúru- og umhverfisfræði, skógfræði og landgræðslu og umhverfisskipulagi. Einnig er boðið upp á meistara- og doktorsnám. Hér á Hvanneyri er líka eins og langflestir vita hægt að læra búfræði, starfsmenntanám sem kennt er á framhaldsskólastigi. Annað starfsmenntanám fer fram á starfsstöð skólans á Reykjum í Ölfusi.

Nemendur skólans eru á öllum aldri, alls staðar að af landinu og með mismunandi reynslu og bakgrunn. Þrátt fyrir það virðast nemendur flestir hafa svipuð markmið; að þreyta nám hér á Hvanneyri og skemmta sér konunglega

við það.

Landbúnaðarháskólinn er lítill skóli en hér á Hvanneyri teljum við það vera kost. Umhverfið er notalegt, allir þekkja alla og auðvelt er að eiga samskipti við aðra; hvort sem það eru nemendur, kennarar eða annað starfsfólk skólans.

Skólastofur eru rúmgóðar með góða lýsingu og hægt er að nýta þær og bókasafnið í lærdóm utan skólatíma. Í kjallara aðalbyggingarinnar er einnig líkamsræktaraðstaða sem heldur nemendum og starfsfólki skólans heilbrigðum.

Stjórn nemendafélagsins sér um alls kyns viðburði í gegnum skólaárið. Strax fyrstu vikurnar var hópefli fyrir nýnema svo allir gætu kynnst. Um miðjan september var hið árlega leðjuboltamót haldið í drullunni á Hvanneyrarengjum við Hvítá. Þar söfnuðu deildir skólans í lið og kepptu í fótbolta sín á milli og

29
Viskukýrin 2015 - Starfsmenn LbhÍ unnu. Skeifudagurinn 2015. Nýnemasprell. Nemendur í búfræði II í leðjubolta.

reyndu allir sem best þeir gátu að hlaupa í drullunni. Í framhaldi af því var ball á Kollubar þar sem hljómsveitin Meginstreymi spilaði.

Í nóvember var árshátíðarvika þar sem margt var um að vera. Fjórum mánudögum í röð fyrir árshátíð var kenndur dans fyrir þá sem vildu. Á þriðjudaginn í sömu viku fór fram Djúpa laugin þar sem nemendur á Hvanneyri fóru í heimsókn á Bifröst og fylgdust með ástinni blómstra. Menningarklúbburinn hélt fyrirlestrakvöld á miðvikudeginum og fylgdi á eftir venjulegt fimmtudagskvöld á Kollubar. Á föstudeginum hélt Hrútavinafélagið Hreðjar sitt árlega hrútauppboð. Þar er nemendum boðið að kaupa hlut í hrút sem síðan er grillaður að vori. Árshátíðin sjálf fór fram á laugardeginum. Að þessu sinni var hún haldin í félagsheimilinu Þinghamri í Varmalandi og dýrindis veislumatur frá Hraunsnefi borinn á borð. Nemendur sáu um skemmtiatriði kvöldsins ásamt veislustjóra. Má þar nefna árshátíðarmyndband frá skipaðri árshátíðarnefnd sem sló í gegn. Að dagskrá lokinni spilaði hljómsveitin Stuðlabandið fyrir dansi fram eftir nóttu.

Prófatíðin tók við í desember og senn lauk því

ári. Strax með nýju ári hófst svo ný önn. Í febrúar var spurningakeppnin Viskukýrin haldin í ellefta sinn með tilheyrandi fjöri. Logi Bergmann stýrði keppninni að venju og fengu gestir að njóta viðveru kvígunnar Visku elleftu. Búfræðingar á öðru ári skipulögðu heljarinnar búfjárræktarferð og í þetta sinn var farið um Suðurland. Margs konar bú voru heimsótt og mikið var um glens og gaman. Í apríl var spilaður bjórbolti og sumardaginn fyrsta hélt Hestamannafélagið Grani Skeifudaginn hátíðlegan.

Eins og komið hefur fram er ýmislegt um að vera á Hvanneyri í hverri viku og það er ekki einungis stjórn nemendafélagsins sem heldur viðburði. Við erum svo heppin að hafa með til liðs við okkur Hestamannafélagið Grana, Hrútavinafélagið Hreðjar, búfræðinga sem og aðra sem hjálpa til við að halda fjölbreytta viðburði.

Í lokin viljum við þakka nemendum og starfsfólki skólans fyrir framúrskarandi skólaár og hlökkum til að sjá ykkur að nýju í haust. Einnig hlökkum við til að taka á móti nýnemum. Útskriftarnemar, til hamingju með árangurinn og ekki láta ykkur vanta á viðburði framtíðarinnar.

ÁFANGAKYNNING - Nautgriparækt

Nautgriparækt er stór grein í landbúnaði á Íslandi. Á búfræðibraut við Landbúnaðarháskóla Íslands eru kenndir tveir áfangar í nautgriparækt ásamt því sem fjallað er um hana í almennum búfjárræktaráföngum.

Í nýrri námskrá sem tekin verður í notkun haustið 2015 verður einn nautgriparæktaráfangi gerður að skyldufagi. Allir útskrifaðir búfræðingar munu því hafa einhverja þekkingu á nautgriparækt á Íslandi.

Í áfanganum er fjallað um mismunandi framleiðsluhætti í nautgriparækt á Íslandi; mjólkurframleiðslu og nautakjötsframleiðslu. Rekstrarumhverfi greinarinnar og það félagsog stoðkerfi sem snýr að greininni er kynnt fyrir nemendum. Fjallað er um lífeðlisfræði nautgripa í tengslum við fóðrun eftir tímabilum, uppeldi og mjaltir. Verkleg kennsla verður í greiningu á atferli og heilbrigði nautgripa og farnar ferðir til að skoða býli þar sem er fyrirmyndarrekstur í

mjólkurframleiðslu og/eða nautakjötsframleiðslu. Lögð er áhersla á að nemandi fái yfirsýn yfir framleiðslu í nautgriparækt á Íslandi, þekki búfjárkynið og átti sig á tækifærum innan greinarinnar.

Hafi nemandi mikinn áhuga á nautgriparækt býðst honum að taka valáfanga sem heitir Nautgriparækt 2. Í honum er fjallað um lífeðlisfræði nautgripa hvað varðar sjúkdóma og frjósemi. Einnig er fjallað um hvernig hægt er að hámarka afkomu við mismunandi framleiðsluaðferðir og nemendum kennt að gera kynbótaáætlun, fóðuráætlun og áætlun um hámörkun frjósemi. Fengnir eru sérfræðingar úr greininni til þess að fjalla um einstaka efnisþætti. Farin er ferð til þess að skoða bú eða framleiðslufyrirtæki sem er framúrstefnulegt í nautgriparækt. Lögð er áhersla á að nemandi sem hefur lokið áfanganum hafi þekkingu til að geta rekið bú í framleiðslu í nautgriparækt með framúrskarandi árangri.

26. nóvember 1991, Þverá

í Öxarfirði

Verknámsbær og hvað stendur upp úr? Presthólar

í Núpasveit. Ætli það standi ekki upp úr þegar lömbin duttu ofan í skítakjallarann. Heyrði dauft jarm einhversstaðar og var heillengi að fatta að það kæmi neðan frá. Við vorum einnig mjög lengi að ná lömbunum þaðan upp úr.

Hefur viðhorf þitt til landbúnaðar breyst eftir námið?

Ætli það sé ekki bara hvað þarf að bæta. Hvernig er hægt að hafa hlutina betri en þeir eru.

Hefur þú hugsað þér að vinna við landbúnað í framtíðinni? Já.

Skemmtilegustu tímarnir í skólanum? Sauðfjárrækt

Með hvaða bústofn myndirðu vilja búa með? Kindur. Hvernig er lífið á Hvanneyri? Þegar þetta veður er ekki tekið með í reikninginn, þá er það bara nokkuð gott.

BALDUR INGI HARALDSSON

10. júní 1993, Brautarholti

í Skagafirði

Verknámsbær og hvað stendur upp úr? Tún í Flóahrepp. Frábært fólk á bænum og gaman að læra nýja búskaparsiði og búskaparhætti á öðru landsvæði en maður hefur alist upp við.

Hefur viðhorf þitt til landbúnaðar breyst eftir námið? Að mörgu leyti, fólk gerir sér ekki oft grein fyrir því hve mikilvægur landbúnaður er fyrir samfélagið. Hefur þú hugsað þér að vinna við landbúnað í framtíðinni? Það er stefnan að gera það. Skemmtilegustu tímarnir í skólanum? Þeir voru allir svo skemmtilegir að það er ekki hægt að velja úr, en verklegu tímarnir höfðu aðeins forskot á sæluna. Með hvaða bústofn myndirðu vilja búa með? Ég væri helst til í að fara út í loðdýrarækt og frábært væri að vera með kúabú samhliða loðdýrabúgreininni. Hvernig er lífið á Hvanneyri? Gleði og hamingja fyrir utan skítaveður.

ÞÓRDÍS KARLSDÓTTIR

3. desember 1991, Hólmavík (Smáhamrar)

Verknámsbær og hvað stendur upp úr? Ég var á Svertingsstöðum II í Eyjafjarðarsveit. Það sem stendur helst upp úr í verknáminu er að hafa fengið að kynnast yndislegu fólki og hvernig það er að búa með kýr. Hefur viðhorf þitt til landbúnaðar breyst eftir námið? Já í sumum tilvikum.

Hefur þú hugsað þér að vinna við landbúnað í framtíðinni? Já, það er allavega stefnan í dag. Skemmtilegustu tímarnir í skólanum? Sauðfjárrækt og hrossarækt.

Með hvaða bústofn myndirðu vilja búa með? Sauðfé og nokkur hross til gamans. Hvernig er lífið á Hvanneyri? Skemmtilegt, öflugt félagslíf og allir þekkja alla.

ÁGÚSTA RUT HARALDSD.

5. september 1993, Sauðafelli

í Dölum

Verknámsbær og hvað stendur upp úr? Dalsmynni

í Eyja- og Miklaholtshreppi. Hundatamningarnar standa klárlega upp úr í verknáminu en þetta var allt mjög gaman.

Hefur viðhorf þitt til landbúnaðar breyst eftir námið? Já, ég er mun opnari fyrir öllu.

Hefur þú hugsað þér að vinna við landbúnað í framtíðinni? Já, ég held það. Skemmtilegustu tímarnir í skólanum? Líffærafræðin og hrossarækt standa upp úr.

Með hvaða bústofn myndirðu vilja búa með? Allt opið, allavega hross.

Hvernig er lífið á Hvanneyri? Mjög skemmtilegt og mikið félagslíf.

31 KRISTÍN EVA BENEDIKTSD.

fyrir nemendur. Einnig er góð aðstaða fyrir fjölskyldufólk, má þar nefna nemendagarða, leikskóla og grunnskóla. Félagslíf nemenda er gott.

Kynntu þér spennandi

náttúrufræðitengt nám í háskóla lífs og lands • Náttúru- og umhverfisfræði • Skógfræði og landgræðsla • Umhverfisskipulag • Hestafræði • Búvísindi HÁSKÓLANÁM BS Umsóknafrestur er til 5. júní www.lbhi.is • Búfræði STARFSMENNTANÁM Á Hvanneyri er góð kennslu- og námsaðstaða
Auk fjölbreytts meistaranáms

Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.