1 minute read

Formáli

Next Article
Heimildir

Heimildir

Erindi með heitinu Viðhald næringarefna í túnrækt flutti ég að fengnum tilmælum á ráðunautafundi 2001. Í riti fundarins birtist ítarleg grein, en hún bar nokkur merki þess að vera flýtisverk. Að ósk þáverandi ritstjóra Freys, Matthíasar Eggertssonar, og í samræmi við ábendingar frá Óttari Geirssyni var greinin stytt til birtingar í Frey. Nokkru var breytt að auki og gert var ráð fyrir myndum til skýringar. Frágangurinn dróst þó, og þegar greinin var send til birtingar um áramótin 2005-6 hafði ritstjórnarstefna Freys breyst, greininni var hafnað, og svo hætti Freyr að koma út. Ég var búinn að leggja það mikið í handritið að ég vildi ekki láta það falla alveg niður, en vettvang skorti. Til greina hafði komið að skipta efninu í tvær greinar. Fyrst og fremst var ætlunin að fjalla ítarlegar um nitur eftir hugmyndinni um niturnýtni. Af því hefur nú orðið, en hinn hlutinn, umfjöllun um fosfór, kalí, kalk, brennistein o.fl., hefur fallið niður. Þegar þarna var komið nálguðust formleg starfslok mín og það hafði forgang að ganga frá virkum rannsóknarverkefnum. Einnig komu til ný viðfangsefni, sum í framhaldi af fyrri verkefnum. Lauk því seinasta haustið 2018. Inn á milli hafði þó gefist færi á að safna efni í áætlað rit um niturnýtni. Hugmyndin var að gera grein fyrir því sem við vitum um nitur í lífríkinu, hvaðan það kemur og hvert það fer, m.a. með tilliti til hlutverks jarðvegs og gróðurs í baráttunni við vaxandi gróðurhúsaáhrif. Í fyrri ritum var fremur lítið um myndræna framsetningu. En myndefni hafði orðið til við undirbúning fyrirlestra á ráðstefnum, fimmtudagserindum Rala og í kennslu á LbhÍ í samvinnu við Ríkharð Brynjólfsson. Stefnan var að þau yrðu kjarninn í nýrri framsetningu, minna færi fyrir formlegri nákvæmni. Raunin varð að lítið var leitað efnis annars staðar frá til að gefa meiri heildarmynd. Ég tók ótrauður upp þráðinn aftur árið 2018 þegar færið gafst. Efnið sem ég hafði safnað reyndist þó heldur óskipulegt. Verra var að ég fékk við veikinda að stríða þegar kom fram á árið 2019. Nú hefur þó verið gengið frá handriti sem ég vona að sé sæmilega heillegt. Í lokaköflunum kom fyrir að ég var búinn að glata þeim heimildum sem efnið var sótt til. Heldur en fella það niður er því haldið, en þess getið að tilvísun í heimild vanti.

This article is from: