3 minute read

4.4 N-áburður á kartöflur

Next Article
Heimildir

Heimildir

Víða er þó tilhneiging til sérhæfingar í landbúnaði og er þá sömu tegundinni sáð árum eða jafnvel áratugum saman. Í sáðskiptum skiptir verulegu máli í hvaða röð tegundirnar koma, m.a. vegna baráttunnar við illgresi og plöntusjúkdóma. Einnig er talað um forræktunargildi tegundar. Það er mismunandi, m.a. vegna þess að jarðvegurinn er misgjöfull á nitur eftir því hvað var ræktað árið á undan. Akuryrkja er enn takmörkuð hér á landi og þar með sáðskipti (Guðni Þorvaldsson og Þóroddur Sveinsson 2003). Vorið 2000 var fimm tegundum sáð í stóra reiti, tvo af hverri, til að mæla gildi þeirra í forræktun fyrir bygg sem var sáð árið eftir (Jónatan Hermannson og Hólmgeir Björnsson 2002). Borið var á hverja tegund eins og álitið var eiga best við hana, frá 0 kg N/ha á einæra lúpínu til 180 kg N/ha á repju. Uppskera var mæld um haustið og öll uppskera ofanjarðar fjarlægð. Vorið eftir var öllum reitum, sem voru 10 alls, skipt í fjóra smáreiti, byggi sáð í alla, en N-áburður 0, 30, 60, 90 kg N/ha á smáreitum. Niðurstöður urðu þær að ekki var marktækur munur á forræktun með lúpínu, líni, repju og rýgresi, en minni uppskera fékkst þegar bygg kom á eftir byggi. Þegar bygg þroskast fer meginhluti alls niturs úr hálmi og rótum í kornið og eftir verða N-snauðar plöntuleifar, ólíkt hinum tegundunum þar sem falla til plöntuleifar með lágu hlutfalli C/N og nitur losnar árið eftir. Uppgjörið sýndi að eftir forræktun með bygg var upptaka niturs 27 kg N/ha minni að meðaltali en eftir hinar tegundirnar. Miðað við 67% nýtni svarar það til 40 kg N/ha af áburði. Samkvæmt þessari túlkun á niðurstöðum hefði mátt vænta sömu uppskeru eftir bygg og aðra forræktun í þessari tilraun ef áburður á bygg hefði verið aukinn um 10 kg N/ha.

4.4 N-áburður á kartöflur

Allmargar tilraunir með áburð á kartöflur voru gerðar 1950 – 2004. Flestar voru þær með vaxandi skammta af blönduðum áburði, oft 600, 1200, 1800, 2400, 3000 kg/ha. Með 1200 kg/ha af þeim áburði, sem oftast var notaður, var magn áburðarefna 120 kg N/ha, 63 kg P/ha og 125 kg K/ha. Einnig voru gerðar nokkrar tilraunir til að finna áhrif einstakra áburðarefna. Algeng uppskera af kartöflum var um 20 t/ha ef áburður var ríflegur. Þá gat fosfór í uppskerunni verið 6 –9 kg P/ha (niðurstöður eru takmarkaðar). Í tilraunum 2003 –2004 fékkst þó marktækur uppskeruauki af P-áburði umfram 32 kg P/ha í þremur af fjórum görðum þar sem það var prófað. Reikna má með að í hverju tonni af kartöflum séu um 5 kg af kalíi. Í 20 tonnum eru því um 100 kg kalí. Augljóst er að fosfór er að jafnaði borinn á langt umfram það sem fer með uppskerunni, jafnvel þó að magni áburðar sé stillt í hóf. Það á einnig við nitur (18. og 19. mynd.) og oft einnig kalí. Áhugavert rannsóknarverkefni væri að athuga hvað verður um næringarefnin ef borið er á umfram þarfir og hver áhrifin verða á jarðveginn og áburðarþörf til framtíðar. Reglan ætti að vera að forðast notkun áburðar umfram þarfir.

18. mynd. Uppskera kartaflna við vaxandi áburð

Á 0N-reitum var enginn áburður, hvorki N, K né P. T.v. eru tilraunir með blandaðan áburð, meðaltal 23 tilrauna 1953-61, 60–300 kg N/ha, og 3 tilrauna í Þykkvabæ 1988–90, 0–210 kg N/ha). T.h. eru einstakar tilraunir með vaxandi N 2003–4.

T.v. er uppskera án smælkis, t.h. smælki meðtalið. Smælkið hefur þó oftast óveruleg áhrif á mismun tilraunaliða. Í tilraunum 2003-4 voru N-áhrif 22,2 kg kartöflur á kg N. Eru það um 5 kg af þurrefni, en í því voru 1,5 – 1,8% N. M.v. 1,7% N eru 85g N í 5 kg af þurrefni. Það eru því aðeins um 8,5% áborins niturs sem eru flutt burt með þeirri aukningu uppskeru sem fékkst. Mætti með sáðskiptum nýta það nitur sem eftir verður?

19. mynd. Áburðaráhrif á kartöflur móti meðaluppskeru, kg af kartöflum/kg N (Hólmgeir Björnsson 2008)

Uppskeruauki kartaflna af áburði var oftast reiknaður á bilinu frá 60-80 til 170-180 kg N/ha. Sleppt var tilraunaliðum með < 60 kg N/ha og ≥ 200 kg N/ha. Sleppt var tilraunum, sem spönnuðu minna en 60 kg N/ha, og ef ekki voru a.m.k. tveir liðir innan gefinna marka. Í flestum eða öllum tilraunum, nema 2003–4, var notaður blandaður áburður (Græðir 1 eða líkur áburður). Því má vænta þess að í mörgum tilraunum hafi áhrif af áburði umfram 60 kg N/ha ekki verið hrein N-áhrif, en að einhverju leyti áhrif af P eða K, sjá 18. mynd.

This article is from: