2 minute read
4.6 Forræktun fyrir kartöflur
20. mynd. Nítrat-N í blöðum kartaflna (Hólmgeir Björnsson 2004a)
Blaðvökvi var pressaður úr miðtaug ungra blaða til að mæla nítrat. Skorts var farið að gæta við 60N í byrjun ágúst. Hann varð meira áberandi eftir því sem P-áburður var meiri (græn og blá lína), e.t.v. vegna örari afoxunar þegar fosfór er nægur. Nitur í kartöfluuppskerunni var 55 kg N/ha ef áburður var 60 kg N/ha og það varð 0,36 kg N meira á hvert kg N sem áburður var aukinn. Í kartöflugrösum voru 16 kg N/ha við 60 kg N/ha í áburði og jókst um 0,27 kg N á hvert kg N í auknum áburði.
4.6 Forræktun fyrir kartöflur
Niðurstöður um forræktun með gulrófum fyrir kartöflur fengust í tilraunum 2004 án þess að það hefði verið skipulagt í þeim tilgangi (21. mynd). Tilraunir með kartöflur voru gerðar á sama landi og árið áður, en bætt var við landi þar sem gulrófur voru ræktaðar til frætöku árið áður (Hólmgeir Björnsson 2008). Þegar kartöflur komu upp var vöxtur áberandi meiri þar sem gulrófur höfðu verið (sjá ljósmynd á 23. bls. í sömu heimild). Þessi skil lágu á reitaskilum milli blokka í gegn um tvær tilraunir af fjórum. Áhrif tilraunameðferða mátti telja jöfn í blokkum báðum megin skilanna og því spillti þessi landmunur ekki árangri af upphaflegum tilgangi tilraunanna. Uppskera kartaflna var á bilinu 21 – 27 t/ha, en meiri sem nemur +4,5±0,8 af kartöflum t/ha eftir forræktun með gulrófum en kartöflum. Voru ekki jafn mikil áhrif á uppskeru af nokkurri tilraunameðferð í þessum tilraunum. Kartöflur >55 mm urðu fleiri eftir gulrófur en kartöflur. Hlutfall sterkju og þe% var einnig marktækt hærra eftir gulrófur, en hlutfall N (prótíns) marktækt lægra. Upptekið N og P varð marktækt meira eftir gulrófur. Á N munar 13,6±3,7 kg N ha-1. Miðað við allt að 67% nýtingu svarar það til 20 kg N ha-1 í áburði og meira ef nýtingin er lakari. N-áburður umfram 60 kg N ha-1 hafði þó ekki marktæk áhrif á uppskeru kartaflna. Uppskeran var breytileg, en 80 kg N ha1 eru á því bili sem upptaka á N var þar sem kartöflur höfðu verið árið áður.
21. mynd. Kartöflur á Korpu 2004, mism. eftir forræktun með gulrófum og kartöflum
Á línuritum eru sýnd áhrif forræktunar með gulrófum á uppskeru af kartöflum og samsetningu hennar. Tölur á lóðréttum ás sýna forræktunaráhrifin (uppskera eftir gulrófur að frádreginni uppskeru eftir kartöflur). Samanburður við staðalskekkju sýnir marktæk áhrif á alla þætti nema á styrk K. Styrkur efna á við ferskar kartöflur.
Án áburðar fær gróðurinn aðeins það nitur sem losnar í jarðvegi. Gera má ráð fyrir að losun eigi sér stað allt sumarið, m.a. úr plöntuleifum frá fyrra ári. Áður kom fram að áhrif áburðar á uppskeru af grasi og kartöflum í tilraunum hafa verið óháð því hver meðaluppskeran var (sjá 5. og 19. mynd). Á 21. mynd sést að sterkja og þe.% voru hærri en N% lægri í kartöflum eftir gulrófur en eftir kartöflur þrátt fyrir meiri N-upptöku, en vænta má lægri gilda á sterkju og þe.% ef N-áburður er aukinn. Er þetta önnur túlkun en í upphaflegri grein. Þess ber að geta að árið áður var notaður illgresiseyðirinn Afalon (Linuron virkt efni), leiðbeiningum fylgt. Ekki var veitt athygli skemmdum á grösum, en ekki er hægt að útiloka áhrif árið eftir.