1 minute read

Tíðarfar 2014

Tíðarfar 2014 Nokkurn snjó setti niður víða um land í desember 2013. Frá ársbyrjun 2014 einkenndi veðrið austan- og norðaustanátt. Veturinn varð með eindæmum þurr sunnanlands og -vestan. Hitinn þar var langtímum saman yfir frostmarki. Samt gekk lítið og seint á svellin, sem safnast höfðu fyrri hluta vetrar. Aldrei hafa til dæmis sést jafnmiklar kalskemmdir á íþróttavöllum á höfuðborgarsvæðinu og þetta ár. Snjór lá á sumum tilraunaspildum á Korpu í meira en 100 daga – frá desemberbyrjun og fram yfir miðjan mars – án þess þó að skemmd hlytist af. Norðanlands og austan var hins vegar úrkomusamt eins og við er að búast í þessum áttum. En hitastig var nógu hátt til þess að við sjávarmál féll úrkoma að mestu sem regn, en snjór til landsins. Snjólaust var á útnesjum og láglendi, en snjóalög á heiðum á austanverðu Norðurlandi voru hins vegar meiri en frést hefur af til þessa. Kalskemmdir á túnum voru nokkrar í snjóasveitum, en ekki að marki í öðrum landshlutum. Fréttist þó af þeim í Flóanum. Klaki í jörðu var sáralítill og enginn sums staðar. Hvarf að minnsta kosti allur í hlýindum í apríl. Kornsáning hófst á venjulegum tíma eða í síðustu viku apríl. Vætusamur maí sá til þess að vel kom upp og akrar litu út í mánaðarlok eins og best gerist. Vorið var mjög hlýtt og sumarið reyndar líka. Sunnanlands og vestan var úrkoma óvenjulega mikil, allra mest í júní, en mikil í maí og júlí einnig. Sú rigningatíð náði allt í Skagafjörð. Ágúst var hins vegar nokkuð þurr hvarvetna, en með september hófst mikil rigningatíð syðra og vestra. Á Norðurlandi austanverðu og Austurlandi var sumarið það besta, sem menn muna, hlýtt og þurrt án þess þó að þurrkar yrðu til vandræða. Nýting korns og heyja með besta móti og ekki um að ræða áföll af veðrum. Syðra hafði tíðin aftur mikil áhrif á nýtingu heyja og það til hins verra. Korn hirtist líka mjög illa í þeim héruðum, naumast nokkur skurðartíð allan september og víða náðist korn ekki fyrr en í október og þá með miklum afföllum af fugli og slagviðrum. Uppskera korns úr tilraunum var góð í heildina tekið og mun betri norðanlands en sunnan. Samt mældist ekki sú metuppskera, sem ef til vill hefði mátt búast við. Sumrinu fylgdi svo einmunablíður nóvember, en sæmilega snjóugur og nokkuð veðrasamur desember.

This article is from: