1 minute read

949-14. Mat á norrænu rauðsmárasafni, Korpu ÁH

Nokkrum tilraunum með smára eru gerð skil undir kaflanum um túnrækt.

Smárayrki eru í borin saman í tilraunum 925-09, 925-12 og 925-14.

Í tilraun 946-11 eru bornar saman sáðblöndur með vallarfoxgrasi bæði með og án smára.

Tilraun nr. 949-14. Mat á norrænu rauðsmárasafni (Arctic Clover), Korpu. Sáð var í gróðurhúsi fræi af 48 línum og 3 viðmiðunaryrkjum af rauðsmára úr Norræna genbankanum. Plönturnar voru síðan gróðursettar í tilraunareiti skv. tilraunaplani 11. og 14. júlí, 5 plöntur af hverri línu í fjórar endurtekningar, alls 1020 plöntur. Þann 8. júlí hafði verið sáð í tilraunalandið blöndu af vallarfoxgrasi (Snorra) og vallarsveifgrasi (Kupol) og borið á 57N – 25P – 46K kg/ha. Landið var mjög blautt, þegar smáranum var plantað út vegna mikilla rigninga dagana á undan. Þrátt fyrir það hafa rauðsmáraplönturnar dafnað vel. Þann 29. júlí og 8. ágúst, voru endurnýjaðar 12 og 6 plöntur, í sömu röð, í stað dauðra plantna. Öllum plöntum var gefin einkunn fyrir vöxt á kvarðanum 0–9 þann 29. september. Hver einstaklingur fékk einkunn og síðan tekið meðaltal þeirra 5 plantna, sem voru í hverri endurtekningu. Vaxtareinkunnin spannaði frá 2,0 til 6,4 og meðaltal endurtekninganna fjögurra var 3,80; 3,32; 3,97 og 3,25. Niðurstöður verða sendar til NordGen sem sjá mun um uppgjör og kynningu niðurstaðna í samvinnu við þátttakendur verkefnisins. Til hausts 2016 verða metnir eftirfarandi eiginleikar: Uppskeruhæfni, blaðstærð, stöngullengd, vaxtarform, blómgunartími, vetrarþol og sjúkdómsþol. Þessir eiginleikar endurspegla allir mikilvæga þætti sem taka þarf tillit til við kynbætur og aðlögun rauðsmára á norðurslóð. Á þriðja ári (2016) verða bestu stofnarnir valdir úr og þeim fjölgað. Verður það gert hjá Graminor í Noregi og hjá Lantmännen í Lännäs í Svíþjóð. Markmiðið er að kynbótafyrirtækin geti fengið nægan efnivið að moða úr svo hægt sé að fara af stað með forkynbótaverkefni.

This article is from: