10 minute read
Slysavarnir
Slysavarnir 2020
Það er óhætt að segja að árið 2020 í heimsfaraldri hafi verið okkur lærdómsríkt og er málaflokkur slysavarna þar engin undantekning. Margt fór öðruvísi en áætlað var og má segja að starf þeirra eininga sem sinna slysavörnum hafi legið að mestu leyti niðri meginhluta ársins vegna samkomutakmarkana. En þó tókst félögum að aðlaga sig og vinna nokkur frábær verkefni og skilaboð okkar um slysavarnir til samfélagsins voru einnig mjög sýnileg á samfélagsmiðlum.
Slysaskrá Íslands
Í janúar 2019 skipaði Landlæknir vinnuhóp að frumkvæði Slysavarnafélagsins Landsbjargar til að vinna að þarfagreiningu vegna skráningar slysa. Vinnan var unnin af starfsmanni embættisins, með fulltingi fulltrúa frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg, Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu og bráðamóttöku Landspítalans. Hópnum var ætlað að kortleggja núverandi stöðu og setja fram þarfagreiningu hvað varðar skráningu slysa í heilbrigðiskerfinu og framsetningu tölfræði þar um. Á haustdögum 2020 hófust svo óformlegar viðræður á milli Landspítala og Miðstöðvar rafrænna heilbrigðislausna hjá embætti landlæknis (MRH) um tilraunaverkefni um slysaskráningu á bráðamóttöku. Vegna mikils álags á MRH í tengslum við viðbrögð við covid-19 heimsfaraldrinum komst sú vinna ekki almennilega af stað. Þrátt fyrir mikið álag á heilbrigðisþjónustu skilar vinnuhópurinn tillögum sínum til Landlæknis á næstu vikum og vonandi verður unnið áfram með uppfærslu á skráningarkerfum heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa.
Samgöngustofa
Samkvæmt tölfræði frá Samgöngustofu létust átta einstaklingar í sjö slysum á árinu 2020. Enginn erlendur ferðamaður lést og er það í fyrsta sinn sem það gerist frá árinu 2014. Sjö karlmenn og ein kona létust en þeir 15 ökumenn sem komu við sögu í banaslysum voru allt karlmenn. Þrír létust á bifhjóli og fjórir létust vegna aksturs undir áhrifum áfengis eða vímuefna. Sá yngsti sem lést var 28 ára og sá elsti 92ja ára.
Samstarfsverkefni með Samgöngustofu gengu vel á árinu og má segja að fjarfundakerfi og samfélagsmiðlar hafi verið nýtt til hins ýtrasta til að koma skipuleggja verkefni og koma skilaboðum til almennings. Eftirtalin umferðartengd verkefni voru unnin á árinu.
Reiðhjól og hjálmar
Vegna samkomutakmarkana féllu flestir reiðhjóladagar eininganna niður þetta árið og plaköt félagsins um öryggisatriði á hjólinu og hjálmi fóru minna í dreifingu en áður. Þá var brugðið á það ráð á vordögum í samvinnu við Samgöngustofu sem lagði til fjármagn í verkefnið að taka upp stutt myndbönd með leikkonunni Sögu Garðars og atvinnuhjólreiðamanninum Ingvari Ómarssyni þar sem þau fóru á skemmtilegan hátt yfir öryggisatriði og grundvallarreglur. Myndirnar fengu mikla athygli á samfélagsmiðlum og voru sýndar reglulega á RÚV allt sumarið.
Rafhlaupahjól
Í upphafi sumars stóð Slysavarnafélagið Landsbjörg fyrir leikjum á samfélagsmiðlum þar sem áhersla var lögð á reglur um rafhlaupahjól. Fólk var hvatt til að nota hjálm, bent á að aðeins einn ætti að vera á hverju hjóli og að rafhlaupahjól ættu ekki heima á götunni. Um 165.000 manns sáu öflug forvarnaskilaboð og rúmlega 5.000 tóku þátt í leikjunum. Í kjölfarið var hringt í þátttakendur og þeim boðið að gerast bakverðir. Verkefnið skilaði rúmlega 500 nýjum bakvörðum.
Árleg umferðarkönnun
Samgöngustofa og einingar Slysavarnafélagsins Landsbjargar framkvæmdu umferðarkönnun annað árið í röð. Var reynt eftir fremsta megni að hafa framkvæmdina eins bæði árin enda er ætlunin að framkvæma könnunina með sama hætti næstu árin til þess að geta fengið sem besta mynd af þróun hegðunar í umferð á Íslandi. Valdir voru 42 staðir víðsvegar um landið og var ætlunin að fylgjast með á hverjum þeirra hvort ökumenn notuðu belti, voru í símanum án handfrjáls búnaðar og hvort ökuljósin væru kveikt. Fleiri atriði voru skoðuð, s.s. kyn, aldur og hjálmanotkun bifhjóla- og hjólreiðamanna.
Niðurstöðurnar í þessari könnun gefa til kynna að tækifæri eru víða til að gera betur en ýmislegt er þegar komið á góðan stað. Beltanotkun er víða í Evrópu betri en á Íslandi og ljóst að ef við ætlum að vera í hópi þeirra bestu þurfum við að gera betur. 3,4% ökumanna voru í símanum við akstur. Það hljómar e.t.v. ekki há tala en þetta er aðeins farsímanotkunin á þeirri sekúndu sem könnunin var framkvæmd – og gefur þessi niðurstaða því til kynna að á hverjum tímapunkti séu 3,4% ökumanna í símanum við akstur, án handfrjáls búnaðar.
Alls tóku 26 einingar félagsins þátt í þessu verkefni.
Alþjóðlegur minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa
Að þessu sinni var minningardagurinn sniðinn að sérstökum aðstæðum í samfélaginu. Vegna samkomubanns var horfið frá hinni rótgrónu minningarstund við þyrlupallinn við Landspítalann. Í staðinn var árvekniátak í samfélaginu um umferðaröryggi dagana 13.-15. nóvember. Félagar úr Slysavarnafélaginu Landsbjörg stóðu fyrir fámennari minningarviðburðum í samstarfi við aðra viðbragðsaðila um land allt og var þeim streymt beint í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Einkennislag dagsins var When I think of angels í flutningi KK og Ellenar Kristjáns sem flutt var samtímis á öllum útvarpsstöðvum landsins. Forseti Íslands og samgönguráðherra ávörpuðu þjóðina í sérstökum myndböndum sem dreift var á samfélagsmiðlum.
Endurskinsmerki
Á 112 daginn þann 11. febrúar tóku björgunarsveitir og slysavarnadeildir virkan þátt í skipulagningu. Tæki félagsins stóðu við fjölfarin gatnamót ásamt tækjum annarra viðbragðsaðila og félagar um land allt fóru á fjölmenna staði og gáfu fólki endurskinsmerki. Alls voru gefin 18.000 endurskinsmerki þennan dag. Endurskinsmerkin voru fjármögnuð af einingum félagsins, Neyðarlínunni og Samgöngustofu.
Á haustdögum fengum við Samgöngustofu og Sjóvá í lið með okkur og ákveðið var að framleiða og gefa 70.000 endurskinsmerki samhliða sölu á neyðarkalli. Vegna sóttvarna var sölunni á neyðarkalli frestað en endurskinsmerkjunum var dreift um land allt eins og best þótti henta á hverjum stað vegna sóttvarna, oftast í gegnum leikskóla og skóla. Á sama tíma var auglýst á fjöl- og samfélagsmiðlum: „Verum sýnileg í skammdeginu.“
Á árinu 2020 tóku 111 einingar félagsins þátt í að gefa 88.000 endurskinsmerki til samfélagsins.
Göngum í skólann
Árlega taka milljónir barna þátt í Göngum í skólann verkefninu í yfir fjörutíu löndum víðsvegar um heim. Slysavarnafélagið Landsbjörg styður verkefnið í samstarfi við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Embætti landlæknis, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Ríkislögreglustjóra, Samgöngustofu og Heimili og skóla. Alls skráðu 75 skólar sig til leiks þetta árið sem er metþátttaka.
Meginmarkmið verkefnisins eru að hvetja börn til að tileinka sér virkan ferðamáta í og úr skóla og auka færni þeirra til að ferðast á öruggan hátt í umferðinni. Fræða þau um ávinning reglulegrar hreyfingar og að draga úr umferðarþunga, mengun og hraðakstri nálægt skólum.
Unga fólkið og umferðin
Í febrúar var heimsþing samgönguráðherra um umferðaröryggi haldið í Stokkhólmi. Samhliða því var haldið heimsþing unga fólksins um umferðaröryggi undir yfirskriftinni „Hingað og ekki lengra“ (Enough is enough). Fjögur íslensk ungmenni sátu ráðstefnuna, öll félagar í Slysavarnafélaginu Landsbjörg. Atli Þór Jónsson og Fannar Freyr Atlason, félagar í unglingadeildinni Árnýju í Reykjavík. Með þeim var Helena Dögg Magnúsdóttir, verkefnisstjóri unglingamála. Samgöngustofa kostaði svo tvö ungmenni á ráðstefnuna, þær Emblu Líf Hallsdóttur, björgunarsveitarkonu og starfsmann ungmennaráðs Mosfellsbæjar, og Karín Ólu Eiríksdóttur, björgunarsveitarkonu í Þorbirni í Grindavík. Eftir heimkomuna skall á heimsfaraldur og var tekin sameiginleg ákvörðun með Samgöngustofu og Samfés að fresta verkefninu. Félagið mun vinna áfram að þessu verkefni og er markmiðið að stofna hóp jafningjafræðara úr hópi unglingadeilda SL og frá Samfés. Verkefnið er samstarfsverkefni félagsins og Samgöngustofu.
Eldvarnir
Sex létust í eldsvoðum á árinu og hafa dauðsföll vegna eldsvoða á einu ári ekki verið fleiri í yfir fjörutíu ár. Mikið hefur mætt á slökkviliðum en útköll vegna eldsvoða voru á þriðja hundrað og 43 þeirra alvarleg og eignatjón mikið. Slysavarnafélagið Landsbjörg er aðili að Eldvarnabandalaginu ásamt Brunabótafélagi Íslands, Félag slökkviliðsstjóra, Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Mannvirkjastofnun, Sjóvá-Almennum, Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, TM, VÍS og Verði tryggingum. Verkefnisstjóri slysavarna situr í stjórn bandalagsins fyrir hönd félagsins. Stjórn EB fundar mánaðarlega allt árið. Þegar ljóst var að eldsvoðar voru að ná nýjum hæðum á árinu var ákveðið að bregðast við og um mánaðamótin nóvember/desember fór félagið af stað með forvarnir á samfélagsmiðlum. Við fengum Securitas til liðs við okkur og höfðum leik þar sem þátttakendur gátu unnið inneign hjá Securitas fyrir slökkvitæki, reykskynjurum og eldvarnateppi. Á annað hundrað þúsund manns sáu forvarnaskilaboð og rúmlega 5.000 tóku þátt í leikjunum. Verkefnið skilaði rúmlega 600 nýjum bakvörðum.
Slysavarnadeildir félagsins dreifðu Eldvarnarhandbók heimilisins með ungbarnagjöfum, með reykskynjurum til fermingabarna og til eldri borgara.
Öryggi barna (Mynd)
Verkefnið „Hættuleg leikföng“ var endurtekið á haustmánuðum á samfélagsmiðlum. Efnið stenst vel tímans tönn og má því gera ráð fyrir að við munum nýta það áfram. Nýr uppfærður bæklingur „Er öryggi barnanna tryggt á þínu heimili?“ var prentaður á árinu og er kominn í dreifingu hjá heilsugæslustöðvum og slysavarnadeildum. Með honum er dreift einblöðungi frá Samgöngustofu „Öryggi barna í bíl“ þar sem fjallað er um notkun bílstóla og hvaða búnað skal nota eftir aldri barns.
Landssamband eldri borgara
Slys á heimilum eða í frístundum hjá 74ra ára og eldri eru mjög algeng og má nefna að hjá Slysaskrá Íslands eru skráð að meðaltali 2.000 slys og óhöpp á heimili eða í frístundum á ári í þessum aldurshópi. Til samanburðar er sami aldurshópur með 120 skráð slys í umferðinni.
Bæklingur félagsins „Örugg efri ár“, sem dreift er fyrir milligöngu heilsugæslustöðva og félagsmiðstöðva eldri borgara, hefur verið í endurmati og ljóst að hann mun taka breytingum í næstu prentun. Í samvinnu við formann LEB og Slysavarnafélagið Landsbjörg gaf Samgöngustofa út nýjan bráðabirgðabækling um akstur á efri árum en hugmyndin er að setja þessa tvo saman í einn þegar kemur að næstu prentun. Bæklingana er hægt að nálgast á skrifstofu félagsins og vonandi geta einingarnar haldið áfram að heimsækja félagsmiðstöðvar eldri borgara og ræða um slysahættur á heimilinu á komandi ári.
Flugeldaforvarnir
Í samstarfi við Blindrafélagið, Sjóvá, Prentmet Odda og Póstinn sendi félagið gjafabréf fyrir flugeldagleraugum til allra barna á aldrinum 10-15 ára sautjánda árið í röð. Gjafabréfið var hægt að innleysa á öllum flugeldamörkuðum björgunarsveita. Félagið birti forvarnaefni í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum í nafni öryggisakademíunnar.
Vertu viss um að allir noti flugeldagleraugu -líka fullorðnir
GJAFABRÉF
á flugeldagleraugu 2020
Blindrafélagið og Slysavarnafélagið Landsbjörg hafa undanfarin áramót gefið öllum10 til 15 ára krökkum flugeldagleraugu sem hefur m.a. leitt til þess að augnslysum hjá þessum aldurshópi hefur fækkað mikið. Handhafi þessa gjafabréfs getur framvísað því á öllum flugeldamörkuðum björgunarsveitanna og fengið flugeldagleraugu að gjöf.
• Alvarlegustu slysin verða þegar flugeldar eru teknir í sundur og púðrið notað í heimagerðar sprengjur • Algengustu slysin verða á höndum, andliti og augum • Notkun ullar- og skinnhanska dregur úr líkum á áverkum á höndum • Áverkar á andliti verða oftast þegar viðkomandi hallar sér yfir vöruna eftir að eldur hefur verið borinn að henni • Flest slysin verða vegna vankunnáttu eða óvarkárni • Notkun flugeldagleraugna hefur stórlega dregið úr augnskaða
Með ósk um slysalaus og ánægjuleg áramót!
Þátttaka eininga félagsins í verkefnum og samskipti
Eins og fram kom í upphafi þurftu einingar félagsins að bregðast við heimsfaraldri og tilheyrandi samkomutakmörkunum og sóttvörnum. Starfið á árinu tók að sjálfsögðu mið af því. Margir árlegir viðburðir voru felldir niður og til að koma skilaboðum til samfélagsins þurfti að fara nýjar leiðir. Þrátt fyrir erfiðar aðstæður í samfélaginu tóku 111 einingar félagsins að einhverju leyti þátt í landsdekkandi slysavarnaverkefnum og hlýtur það að teljast frábær árangur.