6 minute read
Unglingastarfið
Unglingastarfið 2020
750
unglingar í starfi
48
unglingadeildir
175
umsjónarmenn
Unglingastarfið
Árið 2020 var mjög óvenjulegt ár og hefur það komið töluvert niður á unglingastarfi félagsins. Vegna allra þeirra fjöldatakmarkana sem settar voru vegna covid-19 faraldursins var lítið um staðfundi og unglingadeildir þurftu líkt og aðrir að bregðast við. Þá kom í ljós hvers megnugir okkar umsjónarmenn eru þar sem verulega reyndi á hugmyndaflugið og lausnamiðuð hugsun var allsráðandi. Unglingadeildafundir voru færðir yfir í rafrænt form, Zoom eða önnur forrit notuð til þess að funda með unglingunum og kennt alls kyns námsefni í gegnum rafrænt form, Kahoot leikir, ratleikir, einstaklingskeppni til þess að fá unglingana til þess að fara út og hreyfa sig, keppni í snjóhúsa- og snjókallagerð. Það er ekki auðvelt að halda úti félagsstarfi í gegnum rafrænt form en umsjónarmenn unglingadeildanna gerðu sitt besta í því og eiga mikið hrós skilið fyrir þeirra vinnu.
Unglingastarf félagsins er öflugt og eru skráðar 48 unglingadeildir á landinu, en eru nú 42 virkar með 750 unglinga á aldrinum 13-18 ára og 175 umsjónarmenn.
Umsjónarmannanámskeið
Námskeið umsjónarmanna er 16 klst. helgarnámskeið með það að markmiði að efla starf umsjónarmanna, efla samstarf og í leiðinni fræðast um unglingastarfið. Þá er námskeiðið sett upp fyrir alla umsjónarmenn, nýja og gamla, unga sem og hundgamla. Eitt námskeið fór fram í byrjun ársins og var það haldið á Suðurlandi, nánara tiltekið í Myrkholti, og var það námskeið fullsetið.
Landshlutamót unglingadeilda
Landshlutamót unglingadeilda var haldið á Úlfljótsvatni dagana 26.-30. júní. Þátttaka í mótinu var góð, voru þar saman komnir 183 unglingar og umsjónarmenn úr 12 unglingadeildum hvaðanæva af landinu. Mótið hófst á föstudagskvöldi og stóð fram á sunnudag. Það var mikið lagt upp úr hópefli til þess að hrista hópinn saman. Svæðið hefur upp á margt að bjóða og var það nýtt til hins ýtrasta. Það var farið í fótboltagolf, klifurturninn, vatnasafaríið, bátana, farið í gönguferð, gerð þrautabraut og fleira. Um laugardagskvöldið var grillveisla og kvöldvaka þar sem setið var við varðeld og skemmt sér. Skipulagning mótsins var í höndum umsjónarmanna unglingadeilda á höfuðborgarsvæðinu og eru þeim færðar kærar þakkir fyrir þá frábæru vinnu sem þau lögðu á sig.
Viðburðum aflýst
Sökum aðstæðna í samfélaginu vegna covid-19 faraldursins þurfti að aflýsa viðburðum í unglingastarfinu. Landsfundur umsjónarmanna unglingadeilda og Miðnæturíþróttamótið voru hluti af þeim viðburðum sem var aflýst.
Samstarf við erlend björgunarsamtök
Undanfarin ár hefur samstarf við erlend björgunarsamtök verið mjög gott. Félagið hefur þó verið í mestu samstarfi við þýsku björgunarsamtökin THW og norsku samtökin Norsk Folkehjelp.
Unglingadeildin Árný hefur verið í samstarfi við unglingadeild THW í Bocholt síðan 2016. Í ár átti að taka á móti hópi frá Þýskalandi en því miður gekk það ekki eftir vegna heimsfar-
aldursins en til stendur að fara af stað með verkefnið um leið og tækifæri gefst. Það voru þó haldnir nokkrir fjarfundir og er planið að vinna að frekara samstarfi milli þessara deilda í framtíðinni.
Samstarf félagsins við erlend björgunarsamtök geta skipt miklu máli fyrir félaga okkar og ekki síður unglingana eins og björgunarsveitarfólk. Það eykur þekkingu unglinganna sem og veitir þeim meiri víðsýni og reynslu í reynslubankann sinn.
Nefnd um unglingamál
Nefnd um unglingamál er faghópur sem fer með unglingamál félagsins fyrir hönd SL, án ákvörðunarréttar. Stjórn felur nefndinni þau verkefni sem hún telur þarfnast umsagnar, framkvæmda eða lokameðferðar. Nefnd um unglingamál er valin/kosin til tveggja ára í senn. Haldnir voru fimm fundir á árinu en þó einungis fjarfundir vegna aðstæðna í þjóðfélaginu.
Í nefndinni sitja:
Bragi Jónsson frá Unglingadeildinni Bruna, Hveragerði Halldóra Hjörleifsdóttir frá Unglingadeildinni Vindi, Flúðum Jens Olsen frá Unglingadeildinni Brandi, Höfn í Hornafirði Jón Sigmar Ævarsson frá Unglingadeildinni Árnýju, Reykjavík Þór Hinriksson frá Unglingadeildinni Uglu, Kópavogi Frá stjórn kemur Otti Rafn Sigmarsson og Borghildur Fjóla Kristjánsdóttir og starfsmaður nefndarinnar er Helena Dögg Magnúsdóttir.
Ungmennaráð
Í unglingadeildum Slysavarnafélagsins Landsbjargar starfa kraftmiklir unglingar sem vilja hafa áhrif á það starf sem er í boði fyrir þau. Í ungmennaráðinu er verið að skapa vettvang og leiðir til þess að gera unglingunum kleift að koma skoðunum sínum og tillögum á framfæri við viðeigandi aðila. Einnig að veita þátttakendum fræðslu og þjálfun í lýðræðislegum vinnubrögðum og vettvang til að þjálfa sig í þeim.
Haldnir voru tveir fundir á árinu og voru þeir fundir haldnir með fjarfundabúnaði líkt og aðrir fundir félagsins. Ungmennaráðið sat ráðstefnuna Ungt fólk og lýðræði sem haldin var september í Silfurbergi í Hörpu. Yfirskrift ráðstefnunnar var Lýðræðisleg áhrif - Hvar, hvenær og hvernig getur ungt fólk haft áhrif? Ráðstefnan var samræðuvettvangur ungmennaráða á landinu.
Ungmennaráðið fékk einnig tækifæri til að sitja fulltrúaráðsfund félagsins sem var einnig haldinn í fjarfundi. Það var mjög lærdómsríkt fyrir unglingana að sjá hvað fer fram á slíkum fundum hjá félaginu.
Í ungmennaráðinu 2020 starfa:
Atli Þór Jónsson, Unglingadeildinni Árnýju, Reykjavík Iðunn Ósk Jónsdóttir, Unglingadeildinni Vindi, Flúðum Soffía Meldal Kristjánsdóttir, Unglingadeildinni Óskari, Búðardal Hrefna Dís Pálsdóttir, Unglingadeildinni Hafstjörnunni, Ísafirði Axel Guðmundsson, Unglingadeildinni Björgúlfi, Hafnarfirði Jóakim Ragnar Óskarsson, Unglingadeildinni Hafbjörg, Grindavík Ungmennaráð SL eru mjög mikilvægur hlekkur í að halda uppi unglingastarfi félagsins þar sem þar verða til framtíðarleiðtogar þessa félags.
YOURS verkefnið
Upphaf verkefnisins
Á ráðstefnunni Slysavarnir sem haldin var í október 2019 var haldinn fyrirlestur um umferðaröryggi og ungmenni og var það Manpreet Darroch frá samtökunum YOURS (Youth for Road Safety) sem hélt þann fyrirlestur. Eftir ráðstefnuna var haldin vinnusmiðja fyrir unglinga úr unglingadeildum félagsins og umsjónarmenn þeirra um umferðaröryggi. Í lok vinnusmiðjunnar kynnti Manpreet alþjóðlega ungmennaráðstefnu um umferðaröryggi sem halda átti í Svíþjóð í febrúar 2020 og voru allir mjög spenntir fyrir þeirri ráðstefnu. Í kjölfar vinnusmiðjunnar sóttist Samgöngustofa eftir því við okkur að við fengjum unglinga til þess að kynna vinnusmiðjuna á ráðstefnunni Börn og samgöngur sem haldin var í nóvember 2019 og voru það Fannar Freyr Atlason og Atli Þór Jónsson úr unglingadeildinni Árnýju sem voru fengnir í það verkefni. Þeir kynntu bæði vinnusmiðjuna og sögðu einnig frá ungmennaráðstefnunni sem yrði út í Svíþjóð í febrúar og stóðu sig mjög vel.
Í febrúar 2020, rétt áður en heimsfaraldur skall á, var haldið heimsþing samgönguráðherra um umferðaröryggi í Stokkhólmi og samhliða því var haldin ungmennaráðstefna um umferðaröryggi undir yfirskriftinni „Hingað og ekki lengra“ (Enough is enough). Slysavarnafélagið Landsbjörg og Samgöngustofa kostuðu í samstarfi fjögur ungmenni frá Íslandi á ungmennaráðstefnuna sem fengu í leiðinni tækifæri til þess að sitja heimsþingið. Atli Þór Jónsson og Fannar Freyr Atlason, félagar í unglingadeildinni Árnýju í Reykjavík,
Embla Líf Hallsdóttir, félagi í Björgunarsveitinni Kyndli Mosfellsbæ, og Karín Óla Eiríksdóttir, félagi í Björgunarsveitinni Þorbirni í Grindavík, voru þau ungmenni sem fengu það frábæra tækifæri á að fara í þessa ferð og með þeim var Helena Dögg Magnúsdóttir verkefnisstjóri unglingamála.
Verkefnið var sett á ís í miðjum heimsfaraldri og verður sett af stað um leið og tækifæri gefst og þá er markmiðið að stofna hóp jafningjafræðara úr hópi unglingadeilda félagsins. Verkefnið er samstarfsverkefni félagsins og Samgöngustofu.
Æskulýðsvettvangurinn
Slysavarnafélagið Landsbjörg gerðist aðili að Æskulýðsvettvangnum, sem er samstarfsvettvangur Bandalags íslenskra skáta, KFUM og KFUK á Íslandi, Slysavarnafélagsins Landsbjargar og Ungmennafélags Íslands, í lok ársins 2011 og hafði það í för með sér miklar framfarir í unglingastarfi Slysavarnafélagsins. Markmið Æskulýðsvettvangsins er að stuðla að samræðu og samstarfi aðildarfélaganna á sviði leiðtogaþjálfunar, fræðslumála, útbreiðslu, kynninga og á öðrum sviðum eftir því sem þurfa þykir. Til er sameiginleg viðbragðsáætlun með verkferlum sem félög geta fylgt þegar upp koma atvik eða áföll sem kunna að hafa áhrif á starf félags. Þróun í fræðslumálum félagsins er stöðug og nýverið fór af stað Netnámskeið í barnavernd, en námskeiðið er sniðið fyrir starfsfólk og sjálfboðaliða í íþrótta- og æskulýðsstarfi sem starfa með og bera ábyrgð á börnum og ungmennum. Einnig fór af stað í nóvember vitundarvakning um neteinelti á meðal barna og ungmenna hjá Æskulýðsvettvanginum. Hluti af vitundarvakningunni er ný fræðslu- og forvarnarsíða samtakanna með mikilvægum upplýsingum um neteinelti.