12 minute read

Lög Slysavarnafélagsins Landsbjargar

Lög félagsins

1. gr. Heiti félagsins

Félagið heitir Slysavarnafélagið Landsbjörg. Lögheimili og varnarþing þess er í Reykjavík.

2. gr. Hlutverk

Hlutverk félagsins er að reka öflugt björgunar- og slysavarnastarf.

3. gr. Einkenni

Merki félagsins er gulur kross og björgunarhringur umhverfis hann. Undir tákninu er nafn félagsins ritað. Stjórn setur reglugerð um nánari útfærslur og notkun á merki félagsins.1

1. Reglugerð nr. 2/2017

4. gr. Orðskýringar

4.1 Félagið: Slysavarnarfélagið Landsbjörg.

4.2 Félagseining: Björgunarsveit eða slysavarnadeild sem þegar hefur hlotið aðild að félaginu og hefur eigin kennitölu.

4.3 Fullgildur félagi: er sá sem er skráður í félagatal félagseiningar í gagnagrunni félagsins.

4.4 Fulltrúaráðsfundur: Æðsta ákvörðunarvald félagsins á milli landsþinga og er haldinn í nóvember ár hvert.

4.5 Landsþing: Æðsta ákvörðunarvald félagsins og kemur það saman í maí annað hvert ár.

4.6 Sakamál: mál sem eru til meðferðar hjá lögreglu og ákæruvaldi og, eftir atvikum, fyrir dómi vegna ætlaðrar refsiverðrar háttsemi.

5. gr. Skipulag

5.1 Samstarf

Félagið starfar í tengslum við önnur félagasamtök og stofnanir sem starfa að björgunar- og slysavarnamálum.

5.2 Stjórnun félagsins

Ákvörðunar- og framkvæmdavald félagsins er í höndum landsþings, fulltrúaráðsfundar og stjórnar, samkvæmt því sem nánar segir í lögum og reglugerðum félagsins.

6. gr. Aðild

6.1 Réttur til aðildar

Allar einingar sem hafa björgunar og/eða slysavarnarmál á stefnuskrá sinni geta sótt um aðild að félaginu.

6.2 Umsókn um aðild

Eining sendir inn umsókn til stjórnar félagsins ásamt lögum hinnar nýju einingar, félagatali, kennitölu og rökstuðningi fyrir aðild. Lög einingarinnar þurfa að vera í samræmi við lög og reglugerðir félagsins. Ef eining uppfyllir þessar kröfur vísar stjórn umsókn um inngöngu til landsþings.1

6.3 Brottvikning

Gerist félagseining eða stjórn hennar sek um brot á lögum þessum er landsþingi félagins heimilt að víkja henni úr félaginu, að því tilskildu að 2/3 hlutar þingfulltrúa greiði því atkvæði.

6.4 Úrsögn

Úrsögn félagseiningar úr félaginu er því aðeins gild að hún hafi verið samþykkt á lögmætum aðalfundi hennar og að stjórn félagsins hafi verið tilkynnt með 2ja mánaða fyrirvara að tillaga um úrsögn komi til afgreiðslu á fundinum.

Úrsögn tekur gildi frá lokum þess reikningsárs félagsins er hún hlýtur samþykki. Félagseining, sem vikið hefur verið úr félaginu eða hefur sagt sig úr því, á ekki tilkall til sjóða þess eða annarra eigna, en veita má henni aðild að nýju.

1. Reglugerð nr. 1/ 2017.

7. gr. Réttindi og skyldur félagseininga

7.1 Sjálfstæði

Hver félagseining félagsins er sjálfstæð gagnvart félaginu, bæði hvað varðar störf sín og fjármál.

7.2 Réttindi

Allar félagseiningar eiga jafnan rétt á þeirri þjónustu sem félagið getur látið í té.

7.3 Skyldur

Félagseiningar skulu árlega halda aðalfund. Þar leggi stjórnir þeirra fram skýrslu um störf liðins árs og ársreikninga áritaða af stjórn.

Félagseiningar skulu árlega senda starfsskýrslu og ársreikninga til skrifstofu félagsins.

Að uppfylltum þessum skilyrðum öðlast félagseining rétt til úthlutunar úr sameiginlegum sjóðum félagsins og atkvæðisrétt á fulltrúaráðsfundi og landsþingi, ella teljast félagseiningar óvirkar.¹

7.4 Virkni

Verði félagseining óvirk um lengri eða skemmri tíma skal stjórn félagsins ráðstafa eigum hennar samkvæmt lögum félagseiningarinnar og í samráði við heimamenn.

7.5 Unglingastarf

Velji félagseining að starfrækja unglingadeild innan sinna vébanda, verður hún að tryggja börnum sem taka þátt í starfinu þá vernd sem velferð þeirra krefst. 2.

1. Rgl nr. 1/ 2019. 2 Rgl nr. 1/ 2020.

8. gr. Fjármál

8.1 Fjáröflun

Félagið aflar fjár á þann hátt sem fulltrúaráðsfundur í nóvember ákveður. Breytingar sem samþykktar eru á fundinum taka gildi um næstu áramót.

8.2 Ársreikningur

Ársreikningur félagsins skal afgreiddur á fulltrúaráðsfundinum.

8.3 Fjárhagsáætlun

Fjárhagsáætlun félagsins fyrir næsta ár skal lögð fyrir fulltrúaráðsfund til afgreiðslu.

8.4 Reikningsár

Reikningsár félagsins er almanaksárið. Fyrir lok apríl ár hvert sendir stjórnin félagseiningunum endurskoðaða reikninga félagsins með rafrænum hætti.

8.5 Sameining eininga

Sameinist félagseiningar, tvær eða fleiri, halda þær óbreyttri fjárúthlutun úr sameiginlegum fjáröflunum í tvö almanaksár frá sameiningu.

9. gr. Landsþing

9.1 Valdheimildir

Landsþing félagsins fer með æðsta vald í málefnum félagsins og skal það haldið fyrir lok maímánaðar, annað hvert ár.

9.2 Boðun

Til landsþings skal boða bréflega með rafrænum hætti, með sjö vikna fyrirvara.

Eigi síðar en þrem vikum fyrir landsþing skal stjórnin senda félagseiningunum dagskrá þingsins, tillögur um lagabreytingar, niðurstöður fjárveitinganefndar og tillögur uppstillingarnefndar.

9.3 Skráning

Félagseiningar skulu skrá þingfulltrúa eigi síðar en fimm virkum dögum fyrir þing.

9.4 Aukalandsþing

Stjórn félagsins getur boðað til aukaþings með sama hætti og boðað er til landsþings.

Einnig skal boða til aukalandsþings ef ¾ virkra félagseininga óska þess og skal stjórn félagsins boða til aukalandsþings eigi síðar en fjórum vikum frá því beiðnin um aukalandsþing kom fram.1

Á aukalandsþingi skal einungis taka fyrir mál samkvæmt útsendri dagskrá en að öðru leyti gilda almenn þingsköp.2

9.5 Dagskrá

Eftirfarandi mál skulu tekin fyrir á landsþingi:

9.5.1 Formaður setur þingið og stýrir kjöri þingforseta, varaþingforseta og regluvarðar.

9.5.2 Þingforseti skipar tvo fundarritara og stýrir kjöri kjörnefndar, sem skal skipuð þremur þingfulltrúum, og allsherjarnefndar, sem skal skipuð fimm þingfulltrúum.

9.5.3 Starfsskýrsla stjórnar og fjármál

9.5.4 Inntaka nýrra félagseininga

9.5.5 Niðurstöður milliþinganefnda

9.5.6 Ýmis þingmál

9.5.7 Lagabreytingar

9.5.8 Kosning:

9.5.8.1 formanns félagsins, gjaldkera og formanna milliþinganefnda

9.5.8.2 sjö meðstjórnenda til stjórnar

9.5.8.3 tveggja skoðunarmanna reikninga og eins til vara

9.5.8.4 nefndarmanna fjárveitinganefndar, laganefndar og uppstillingarnefndar

9.5.8.5 annarra nefnda

9.5.9 Önnur mál

9.6 Kjörnefnd

Kjörnefnd skal hafa eftirlit með undirbúningi og framkvæmd kosninga, skera úr um kjörgengi og kosningarétt, hafa yfirumsjón með talningu atkvæða og skera úr um gildi vafaatkvæða. Ef ágreiningur er innan þingnefndar við ákvarðanatöku ræður meirihluti nefndarmanna og er ákvörðun þingnefndar endanleg.

9.7 Allsherjarnefnd

Allsherjarnefnd skal vinna úr og samræma álitamál sem upp kunna að koma á þinginu og fundarstjóri vísar málum til. Ef ágreiningur er innan þingnefndar við ákvarðanatöku ræður meirihluti nefndarmanna og er ákvörðun þingnefndar endanleg. Kosið er skv. gr. 9.5.8. í þeirri röð sem þar er ákveðin.

9.8 Kosningar

Kosning skal ávallt vera rafræn. Kjörseðill er því aðeins gildur að kosnir séu jafnmargir og kjósa

skal hverju sinni. Falli atkvæði jafnt skal varpa hlutkesti til að skera úr um hver frambjóðenda hefur náð kjöri. Séu framboð jafnmörg og fjöldi þeirra sem kjósa skal teljast sjálfkjörið og kosning fer ekki fram. Þeir sem ekki ná kjöri samkvæmt gr. 9.5.8.1. verða sjálfkrafa í kjöri samkvæmt gr. 9.5.8.2. og 9.5.8.4. eftir því sem við á, nema frambjóðandi óski annars.

9.9 Kjörgengi

Kjörnir fulltrúar skulu vera lögráða einstaklingar sem eru fullgildir félagar og sem uppfylla skilyrði 1. mgr. 4. gr. laga nr. 24/2000 um kosningar til Alþingis.

Gjaldkeri félagsins skal hafa reynslu og þekkingu af fjármálum.

1. Rgl. Nr. 1/ 2009. 2. Þingsköp félagsins.

10. gr. Réttindi á landsþingi

10.1 Þingfulltrúi

Rétt til setu á landsþingi félagsins eiga allir fullgildir félagar félagseininga.

10.2 Atkvæðisréttur

Hver félagseining fer með tvö atkvæði á þingi að uppfylltum skilyrðum ákvæðis 10.3. Enginn þingfulltrúa fer nema með eitt atkvæði. Þingfulltrúi skal vera lögráða.

10.3 Kjörbréf

Kjörbréf, undirritað af formanni eða stjórnarmanni hverrar félagseiningar, skal hafa borist skrifstofu félagins eigi síðar en fimm virkum dögum fyrir landsþing.

Kjörnefnd tekur afstöðu til breytinga á framkomnum kjörbréfum og úrskurðar um gildi þeirra.

Allir fullgildir félagar félagseininga á landsþingi hafa kosningarétt samkvæmt gr. 9.5.1 og gr. 9.5.2.

11. gr.

Stjórn

11.1 Kjörtímabil

Landsþing kýs félaginu stjórn til tveggja ára í senn.

11.2 Starfsemi stjórnar

Í stjórn félagsins sitja formaður, varaformaður, gjaldkeri, ritari og fimm meðstjórnendur.

Stjórn félagsins fylgir eftir samþykktum landsþings og fulltrúaráðs. Stjórnin er í fyrirsvari fyrir félagið og ber ábyrgð á fjárreiðum þess.

Afl atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum. Séu atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns.

11.3 Vinnulag

Formaður boðar stjórn til fundar. Stjórnarfundur er löglegur ef meirihluti stjórnarmanna sækir

fund. Stjórn kemur að jafnaði saman mánaðarlega.

Fundargerðir skulu ritaðar. Stjórn boðar til landsþings og annarra funda, þar á meðal funda fulltrúaráðs og formanna. Hún undirbýr fundarmálefni, framfylgir fundaráætlunum og annast störf milli funda.

11.4 Skyldur stjórnar

Á fyrsta fundi stjórnar skiptir stjórn með sér verkum og skal gera verklagsreglur, fyrir lok þess árs sem hún er kosin, sem vera skulu félagsmönnum aðgengilegar.

Stjórn félagsins er í fyrirsvari fyrir félagið gagnvart einstaklingum, lögaðilum eða ríkisvaldi í sameiginlegum málefnum félagsins.

Stjórnin ræður framkvæmdastjóra félagsins.

11.5 Stjórnskipaðar nefndir

Stjórn er heimilt að skipa nefndir sér til aðstoðar og ákveður verksvið þeirra.

Í upphafi starfstímabils stjórnar skal skipa ráðgjafanefnd vegna undirbúnings fyrir landsþing. Í ráðgjafanefndinni sitji formenn milliþinganefnda ásamt framkvæmdastjóra.

Nefndarmaður skal uppfylla skilyrði gr. 11.7. þessara laga.

11.6 Fjármál

Stjórnin ber ábyrgð á að starfsemi félagsins sé innan ramma fjárhagsáætlunar, samþykkta landsþings og fulltrúaráðsfunda.

11.7 Hæfi

Stjórnarmaður skal uppfylla skilyrði gr. 9.9. þessara laga á meðan kjörtímabili hans stendur.

Nú sætir stjórnarmaður rannsóknar vegna sakamáls og ber honum þá að víkja sæti á meðan rannsókn stendur eða ef ákæra hefur verið gefin út á hendur honum.

12. gr. Skýrsla stjórnar

12.1 Stjórn félagsins skal á hverju ári fyrir lok maí gefa út ársskýrslu um starfsemi félagsins.

13. gr. Milliþinganefndir

13.1 Kosning

Í fjárveitinganefnd skal kjósa formann, auk fjögurra fulltrúa.

Í laganefnd skal kjósa formann, auk tveggja fulltrúa.

Í uppstillingarnefnd skal kjósa formann, auk tveggja fulltrúa.

13.2 Hlutverk og skyldur

Milliþinganefndir skulu gera verklagsreglur, fyrir lok þess árs sem hún er kosin, sem vera skulu félagsmönnum aðgengilegar.

13.2.1 Fjárveitinganefnd skal sjá um endurskoðun á úthlutunarkerfi félagsins og leggja fram tillögu til fulltrúaráðsfundar til samþykktar haustið fyrir landsþing. Tillögur skal senda með fundarboði fyrir fulltrúaráðsfundinn. Nefndin skilar niðurstöðu um skiptingu fjármagns til félagseininga á landsþingi.

13.2.2 Laganefnd skal annast endurskoðun á lögum félagsins, hafa eftirlit með því að þau standist rétt íslenskt málfar, brjóti ekki í bága við landslög og vera öðrum nefndum og stjórn til ráðgjafar um lög og reglugerðir félagsins. Laganefnd tekur afstöðu til breytinga á framkomnum kjörbréfum á fulltrúaráðsfundi og úrskurðar um gildi þeirra.

13.2.3 Uppstillingarnefnd skal tryggja að fram komi að minnsta kosti eitt framboð til hvers embættis innan stjórnar og þeirra nefnda sem getið er í gr. 9.5.8. Komi fram tvö eða fleiri framboð til embættis skal uppstillingarnefnd raða frambjóðendum eftir stafrófsröð. Uppstillingarnefnd skal leitast við að stjórn endurspegli breidd félagsins og skal jafnræðis gætt við kynningu á frambjóðendum.

13.3 Aðrar nefndir

Ef landsþing skipar aðrar milliþinganefndir en að framan greinir skal það vera ákvörðun landsþings hver fjöldi og hvernig uppbygging nefndarinnar skuli vera hverju sinni.

Nefndirnar skulu skila tillögum sínum til stjórnar eigi síðar en fjórum vikum fyrir landsþing.

13.4 Starfstími

Milliþinganefndir skulu taka til starfa að þingi loknu og starfa fram til loka þess næsta.

13.5 Hæfi

Nefndarmaður skal uppfylla skilyrði gr. 11.7. þessara laga.

14. gr. Siðanefnd

14.1 Hlutverk

Hlutverk siðanefndar er að taka til skoðunar ábendingar um brot á siðareglum félagsins, að taka afstöðu til þess hvort um brot á siðareglum er að ræða og hver grófleiki brotsins er. 14.2 Skipan

Stjórn skipar fimm aðila í nefndina, þrjá lögráða fullgilda félaga ásamt tveimur sérfræðingum sem standa utan félagsins og veita nefndinni formennsku. Nefndin er skipuð til 2ja ára í senn. 14.3 Hæfi

Félagi skal uppfylla skilyrði gr. 11.7. þessara laga. Sérfræðingarnir skulu hafa menntun og reynslu sem nýtist við úrlausn mála sem nefndin tekur fyrir.

Nefndin skal gera verklagsreglur, fyrir lok þess árs sem hún er kosin, sem vera skulu félagsmönnum aðgengilegar.1

1. Vinnureglur siðanefndar félagsins

15. gr. Varasjóður

15.1 Tilgangur

Félagið skal eiga varasjóð. Varasjóði félagsins er ætlað:

a) að vera tryggingarsjóður vegna áfalla sem félagið kann að verða fyrir.

b) að fjármagna önnur verkefni sem fulltrúaráðsfundir eða landsþing ákveða.

15.2 Fjármögnun

Stjórn félagins skal árlega leggja fyrir fulltrúaráðsfund tillögu að upphæð varasjóðs.

15.3 Ráðstöfun

Ráðstöfun fjár úr varasjóði er aðeins heimil með samþykki fulltrúaráðsfunda eða landsþinga.

Veðsetning varasjóðs, eða lántaka úr honum til skemmri eða lengri tíma, er óheimil nema með samþykki fulltrúaráðsfundar eða landsþings.

Allt að 50% varasjóðs má að tryggja með veðböndum í fasteign en ekki minna en 50% skal varðveita í banka eða hjá löggiltu verðbréfafyrirtæki. Meginstefna við vörslu skal vera öryggi frekar en há ávöxtun.

16. gr. Fulltrúaráð

16.1 Fundir

Fulltrúaráðsfundir fara með æðsta vald félagsins milli landsþinga og þar sitja fulltrúar hverrar félagseiningar, ásamt stjórn félagsins.

Fulltrúaráð kemur saman til fundar í nóvember ár hvert, svo og þegar tíu félagseiningar óska þess eða stjórn félagsins ákveður. Ársreikningur félagsins skal tekinn til afgreiðslu á fundinum.

16.2 Boðun

Stjórn félagsins boðar fundi rafrænt og skal það gert með minnst tíu daga fyrirvara. Með fundarboðum skal fylgja dagskrá fundarins, ásamt ársreikningi félagsins og öllum öðrum tillögum sem leggja á fyrir fundinn.

Ef tíu félagseiningar hafa óskað eftir fulltrúaráðsfundi skal stjórn félagsins boða til fundarins eigi síðar en fjórum vikum frá því fundarbeiðnin kom fram.

16.3 Skráning

Einingar skulu skrá þátttöku eigi síðar en einum virkum degi fyrir fund.

16.4 Atkvæði

Hver félagseining fer með eitt atkvæði á fulltrúaráðsfundi að uppfylltum skilyrðum ákvæðis 16.5.

Fulltrúi skal vera lögráða.

16.5 Kjörbréf

Kjörbréf, undirritað af formanni eða stjórnarmanni hverrar félagseiningar, skal hafa borist skrifstofu félagins eigi síðar en þrem virkum dögum fyrir fulltrúaráðsfund.

Laganefnd tekur afstöðu til breytinga á framkomnum kjörbréfum og úrskurðar um gildi þeirra.

16.6 Fundarsköp

Formaður félagsins setur fundi fulltrúaráðs og stýrir kjöri fundarstjóra. Meirihluti atkvæða ræður úrslitum mála, nema annars sé getið í lögum félagsins.

16.7 Endurskoðun úthlutnarkerfis

Fjárveitinganefnd leggur fram tillögu af endurskoðun á úthlutunarkerfi á fundinum. Sé breytingatillögu hafnað þá haldast fyrri úthlutunarreglur óbreyttar.

17. gr. Formannafundir

17.1 Boðun

Stjórn félagsins skal boða til fundar með formönnum félagseininga það ár sem landsþing er ekki haldið.

Stjórn félagsins boðar fundi rafrænt og skal það gert með minnst tíu daga fyrirvara. Með fundarboðun skal fylgja dagskrá fundarins, ásamt öllum gögnum.

17.2 Skráning

Einingar skulu skrá þátttöku eigi síðar en einum virkum degi fyrir fund.

17.3 Efni fundarins

Formannafundur er vettvangur umræðna um þau mál sem snerta starf félagseininga. Í stað eins sameiginlegs formannafundar allra félagseininga má boða til funda eftir starfsvettvangi þeirra.

Ætli fjárveitinganefnd að leggja til breytingar á úthlutunarkerfi félagsins þá skal hún kynna þær á formannafundi til umræðu.

Formannafundir hafa ekki ákvörðunarvald í málefnum félagsins.

18. gr. Endurskoðun

18.1 Skoðun reikninga

Reikningar félagsins skulu skoðaðir ár hvert af löggiltum endurskoðanda.

18.2 Félagslegir skoðunarmenn

Félagsleg endurskoðun reikninga er í höndum tveggja manna sem landsþing félagsins kýs til tveggja ára í senn.

Skoðunarmenn reikninga mega ekki sinna öðrum störfum fyrir félagið sem snerta fjármál.

Þeir bera ábyrgð fyrir fulltrúaráðsfund, þeir skulu eiga greiðan aðgang að öllu bókhaldi félagsins og er stjórninni skylt að veita þeim allar nauðsynlegar upplýsingar um fjármál og reikningshald þess.

18.3 Yfirskoðun

Felli fulltrúaráðsfundir reikninga félagsins fer fram yfirskoðun óháðs aðila sem er löggiltur endurskoðandi. Að þeirri yfirskoðun lokinni skal boðað til framhalds fulltrúaráðsfundar sem tekur nánari ákvörðun um reikninga.

19. gr. Reglur – reglugerðir

19.1 Setning

Stjórn setur reglur og reglugerðir er varða starfsemi félagsins, að undangenginni umsögn laganefndar og endurskoðar þær eftir því sem þurfa þykir.

19.2 Hlutverk

Hlutverk reglna og reglugerða er að kveða nánar á um skipulag einstakra þátta í starfsemi félagsins og þær verða ávallt að eiga sér stoð í lögum félagsins

20. gr. Lagabreytingar og framboðsfrestur

20.1 Lagabreytingar

Lögum þessum verður ekki breytt nema á landsþingi og þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða til að breyting nái fram að ganga.

20.2 Framboðsfrestur

Tillögum til lagabreytinga og yfirlýsingu um framboð til embættis innan stjórnar eða nefnda sem greinir í gr. 9.5.8. skal beint til skrifstofu félagsins eigi síðar en sex vikum fyrir landsþing.

19. gr. Gildistaka

Lög þessi öðlast gildi þegar að loknu þingi. Lög þessi voru samþykkt á landsþingi félagsins á Egilsstöðum þann 18. maí 2019.

This article is from: