3 minute read
Skipsskaðar
Skipsskaðar 2020
| Strönd
Francisca
Þann 8. janúar 2020 slitnuðu landfestar flutningaskipsins Franciscu, sem er hollenskt, þar sem það lá við bryggju í Hafnarfjarðarhöfn. Mikið óveður gekk þá yfir landið og rak skipið upp í grjótgarð milli Hvaleyrarbakka og Suðurbakka. Tókst að ná skipinu aftur að bryggju þremur tímum síðar með aðstoð tveggja dráttarbáta og urðu talsverðar skemmdir á því en enginn leki kom að því.
Hrafn GK 111
Þann 10. janúar 2020 var Hrafn GK á leið úr höfn í Grindavík. Þegar skipið var komið út fyrir varnargarða hafnarinnar missti það ferð og færðist úr leið til vesturs með þeim afleiðingum að skipið tók niðri. Tókst að koma skipinu á frían sjó og því siglt til Njarðvíkur þar sem það var tekið í slipp. Talsverðar skemmdir urðu á skipinu.
Ópal
Þann 6. febrúar 2020 strandaði skoðunarskipið Ópal austur af Lundey á Sundunum utan Reykjavíkur. Tókst að losa skipið fyrir eigin vélarafli 10 mínútum síðar. Var því siglt til hafnar í Reykjavík með aðstoð dráttarbáts sem kom á móts við skipið en engar skemmdir komu í ljós við skoðun.
Steini HU 45
Þann 18. apríl 2020 strandaði Steini HU við innsiglinguna í Kokkálsvíkurhöfn á Drangsnesi þegar verið var að koma úr róðri. Náðist báturinn af strandstað með aðstoð björgunarbátsins Pólstjörnunnar en engar skemmdir komu fram við skoðun.
Auður Vésteins SU 88
Þann 4. október 2020 strandaði Auður Vésteins SU á Flyðruskeri ANA af Papey. Losnaði báturinn strax en talsverðar skemmdir urðu og leki kom að honum.
Þröstur BA 48
Þann 11. nóvember 2020 strandaði Þröstur BA í Tálknafirði. Var hann dreginn á flot klukkutíma síðar og dreginn til hafnar í Tálknafirði.
Jón á Hofi ÁR 42
Þann 11. desember 2020 tók Jón á Hofi ÁR niðri vestan megin í innsiglingarrennunni á útleið frá Grindavík. Skipið festist ekki en allt virtist í lagi og hélt það áfram til veiða.
| Sökk
Sex bátar verða fyrir snjóflóði
Þann 14. janúar 2020 féll snjóflóð úr Skollahvilft fyrir ofan Flateyri og náði flóðið niður í höfnina með þeim afleiðingum að fimm bátar sukku og einn barst á land. Þeir bátar sem sukku í höfninni voru Blossi ÍS 225, Brói KE 69, Eiður ÍS 26, Guðjón Arnar ÍS 708 og Sjávarperlan ÍS 313. Sá sem rak á land var Orri ÍS 180 en hann sökk einnig að hluta. Ekki er vitað til þess að skip eða bátar hafi áður orðið fyrir snjóflóði með þessum afleiðingum.
Jökull SK 16
Þann 17. ágúst 2020 sökk Jökull SK þar sem hann lá við landfestar í Hafnarfjarðarhöfn þar sem báturinn hafði legið um tíma. Tókst að ná honum á flot þremur dögum síðar.
Drangur ÁR 307
Þann 25. október 2020 sökk Drangur ÁR þar sem skipið lá við landfestar á Stöðvarfirði. Skipið var mannlaust en náðist á flot aftur fjórum dögum síðar.
| Eldur í skipum
Júlía SI 62
Þann 18. júní 2020 kom upp eldur í Júlíu SI þar sem báturinn var á siglingu inn Siglufjörð. Eldurinn slökknaði af sjálfum sér en draga þurfti Júlíu til hafnar á Siglufirði.
Indriði Kristins BA 751
Þann 1. október 2020 kom upp eldur í vélarúmi Indriða Kristins BA þar sem báturinn var að veiðum 12 sjómílur norður af Siglunesi. Tókst að ráða niðurlögum eldsins en draga þurfti bátinn til hafnar á Siglufirði.
| Leki
Sigurörn GK 25
Þann 29. júlí 2020 kom leki að vélarúmi Sigurernis GK sem var á strandveiðum á SV miðum. Kallað var eftir aðstoð og kom björgunarskipið Hannes Þ. Hafstein Sigurerni til aðstoðar og sigldi með honum til hafnar í Sandgerði.