8 minute read
Slysavarnir útivistarfólks og ferðamanna
Slysavarnir útivistarfólks og ferðamanna 2020
Ekki þarf að verja mörgum orðum í útskýra að árið 2020 var með óvenjulegu sniði vegna covid heimsfaraldursins. Í þessum kafla er fjallað um helstu verkefni sem falla undir þennan málaflokk en ákveðið var snemma að halda fullum krafti, breyta frekar áherslum og vinna að þróun og undirbúningi auk þess að sinna enn betur þeim fjölda Íslendinga sem ferðaðist um landið og stundaði útivist svo og þeim ferðamönnum sem hingað komu.
Slysavarnir snúast um samstarf, við hagaðila, samstarfsaðila en síðast en ekki síst við notandann sjálfan, þann sem slysavarnirnar beinast að. Þetta samstarf tókst vel á árinu 2020 en sem fyrr eru það atvinnnu- og nýsköpunarráðuneyti, Samtök ferðaþjónustunnar, Samgöngustofa, Vegagerð, Sjóvá, Vatnajökulsþjóðgarður, lögregla, bílaleigur og aðrir ferðaþjónar sem og fleiri sem byggja undir þennan flokk slysavarna.
Fljótlega eftir að heimsfaraldurinn tók sér sterka stöðu hér á landi beindist sjónarhorn málaflokksins að innlendu ferða- og útivistarfólki. Kom nokkuð á óvart hversu mikið sá hópur sótti í þau verkefni sem haldið er á lofti og er það góð þróun.
Safetravel.is
Vefsíðan safetravel.is er eitt af stærri líffærum verkefnisins og á árinu var unnið að endurbótum á efni hennar og má meðal annars nefna efni varðandi akstur á hálendinu og hjólreiðar. Auk þess var sett upp þjónusta sem gerir notendum kleift að setja inn farsímanúmer sitt, ferðatímabil og fá í framhaldinu viðvaranir í sms formi á þeim tíma sem ferðalagið eða útivistin varir. Hefur þetta verið allnokkuð notað.
Leiga á neyðarsendum sem boðið er upp á á vefsíðunni var minni en fyrri ár en afar jákvætt er þó að sjá að innlent útivistarfólk er í auknum mæli að taka með sér neyðarsenda af einhverju tagi í sínar ferðir. Má reikna með að þetta aukist enn meira þegar núverandi neyðarsendar verða endurnýjaðir í senda sem bjóða upp á ferilvöktun og aukna samskiptamöguleika.
Gríðarleg aukning var í innsendum ferðaáætlunum frá innlendu útivistar- og ferðafólki svo og var nokkur fjölgun í fyrirspurnum frá sömu aðilum.
Skjáupplýsingakerfið
Á árinu var unnið að þróun skjáupplýsingakerfisins en fáir nýir skjáir voru settir upp. Stefnt er að breytingum á núverandi virkni kerfisins svo og að hafa á völdum stöðum snertiskjái sem gerir notendum kleift að sækja sér efni að eigin vali og dýpka um leið upplýsingaöflunina.
Öryggisupplýsingastöð
Er leið á árið var upplýsingamiðstöð þeirri sem við höfum aðstöðu í á Laugavegi lokað og fljótlega eftir það var fastri viðveru okkar þar hætt. Starfsfólk vann því heima eins og títt var í því ástandi sem ríkti. Fram eftir ári var mikið um fyrirspurnir er tengdust covid, það er sóttkví, hverjir máttu koma og hverjir ekki og svo framvegis. Oft lágu tugir fyrirspurna fyrir þegar starfsfólk kom til vinnu á daginn. Með liðsinni frá Almannavörnum og Landlækni var reynt að svara öllum fyrirspurnum eða vísa þeim annað í þeim fáu tilfellum sem það átti við.
Allnokkuð var um innsendar ferðaáætlanir frá innlendu útivistar- og ferðafólki og er það virkilega ánægjuleg þróun, svo og fjölgaði umtalsvert fyrirspurnum um hálendi, gönguferðir og annað frá þessum sama hóp yfir sumartímann. Það fór því ekki svo að sumarið yrði sá rólegi tími sem leit út fyrir í miðri covid bylgju eitt snemma á vordögum.
42 103
ÞÚSUND
UPPLÝSINGASKJÁIR
GESTIR Á EINUM DEGI Á SAFETRAVEL.IS UM ALLT LAND
5
TUNGUMÁL
Á VEFSÍÐUNNI SAFETRAVEL
ÍSLENSKA, ENSKA, ÞÝSKA, FRANSKA OG KÍNVERSKA
Safetravel dagurinn
Safetravel dagurinn var haldinn með pompi og pragt en aðeins öðru sniði þetta árið, en Samgöngustofa kom afar sterkt inn í það samstarfsverkefni. Útbúið var efni sem dreift var á samfélagsmiðlum og keyrt í útvarpi. Sjálfboðaliðar slysavarnadeilda og björgunarsveita voru á um fimmtíu stöðum um allt land, hittu á ökumenn og aðstoðarmenn þeirra og afhentu þeim nýtt fræðsluefni sem var í takti við það efni sem notað var í útvarpi og á samfélagsmiðlum. Mikil ánægja var með daginn en nokkur þúsund aðilar þáðu efnið og gáfu sér tíma til að ræða um aksturshegðun og öryggi á vegum úti.
Fræðslumyndbönd
Fyrri hluta árs voru framleidd nokkur fræðslumyndbönd og nýtt í fræðsluskyni og miðlum félagsins og samstarfsaðila. Um var að ræða myndband um öryggi í fjallahjólreiðum þar sem Halla Jónsdóttir leiðbeinir um helstu atriði er það varðar. Eitt myndband var um þrjú lög fatnaðar, annað um akstur yfir ár, hið þriðja um ferðaáætlanir og að lokum var í upphafi rjúpnaveiðitímabils frumsýnt myndband um nokkur atriði er varða notkun á GPS tækjum. Í góðri samvinnu við Samgöngustofu voru svo gefin út fjögur myndbönd er varða akstur í upphafi sumars.
Hálendisvaktin
Að venju hófst vinna að hálendisvakt með því að björgunarsveitir sóttu um þau svæði og tímabil sem þeirra hugur stóð til. Tímabilið hófst um miðjan júní eða um tveimur vikum fyrr að Fjallabaki auk þess sem viðbragðsvaktin í Skaftafelli var með. Alls voru því tuttugu og fimm vikur í boði þetta sumarið.
Í júnímánuði fóru fram námskeið fyrir þátttakendur hálendisvaktar þar sem farið er yfir vinnulag, aðstöðumál og eðlilega var sérstaklega farið í vinnulag er tengdist covid 19 faraldrinum. Afar góð þátttaka var á námskeiðunum sem voru eingöngu á fjarfundaformi en nokkuð yfir 200 manns tóku þátt.
Þann 19. júní hélt fyrsti hópur af stað á Fjallabak með viðkomu hjá Olís í Norðlingaholti sem var einn af fjölmörgum stöðum þar sem sjálfboðaliðar félagsins stóðu vaktina á svokölluðum Safetravel degi. Nokkur óvissa var hjá þessum hóp eins og flestum með hvað vikan bæri í skauti sér. Ekki var vitað um fjölda ferðamanna og óvíst var hversu margir Íslendingar myndu leggja leið sína á hálendið. Áhugavert væri því að sjá fjölda aðstoðarbeiðna næstu vikurnar og mánuðina.
Almennt má segja að oftar hafi verið leitað liðsinnis björgunarsveita á hálendisvakt og viðbragðsvakt en margir gerðu ráð fyrir. Verkefni voru vissulega færri en í meðalsumri en aðdáunarvert var að sjá hvað þátttakendur voru duglegir við að skipuleggja rólegri tíma með vettvangsferðum um svæðin sín og æfingum af ýmsum toga. Oftar en ekki nutu skála- og landverðir góðs af viðveru hópanna og var til dæmis lagst í brúarsmíði svo minnst sé á eitthvað.
Þegar fjöldi ferðamanna sem liðsinnt var er skoðaður sést að þeir voru um 1.400 sem er rúmlega 400 færri en í fyrra.
Þegar horft er á fjölda verkefna eru þau tæplega 1.500 talsins eða rúmlega 30% færri en sumarið 2019.
Eins og fyrr var minnst á eru þetta líklega fleiri verkefni en margir áttu von á eftir mikla fækkun ferðamanna hingað til lands í kjölfar fyrstu bylgju kórónuveirunnar á vetrar- og vormánuðum.
Það er því áhugavert að skoða hlutfall innlendra og erlendra ferðamanna og þegar rýnt er í þær tölur má sjá að af þeim ferðamönnum sem nutu aðstoðar hálendis- og viðbragðsvaktar sumarið 2020 voru 35% þeirra innlendir ferðamenn.
Sé horft til sumarsins 2019 má sjá að hlutfall innlendra ferðamanna er 22% eða um 13% minna en sumarið 2020.
Áhugavert er þó að sjá að bæði sumrin eru innlendir ferðamenn stærsti hópur þeirra sem þarfnast liðsinnis hálendisvaktar en það á reyndar einnig við um árið 2018.
Ef við rýnum í fjölda útkalla og er hér einungis átt við forgangsútköll (F1, F2, F3), það er útköll þar sem björgunarsveit úr byggð hefði líklega verið kölluð út nyti hálendisvaktar ekki við, má sjá að þau eru um sextíu talsins eða hartnær eitt á dag á þeim tíma sem björgunarsveitir eru með viðveru á hálendinu.
Er þetta um 40% minna en sumarið 2019 og sé horft á að fjöldi verkefna var rúmlega 30% minni má leiða líkur að því að hlutfall alvarlegri verkefna hafi minnkað.
Sé horft til útkalla eftir svæðum og hér er búið að bæta við F4 útköllum, það er minniháttar óhöppum og atvikum sem hálendisvaktin sinnir af því að hún er á svæðinu, má sjá að eins og fyrri ár eru flest að Fjallabaki.
Næstflest eru í Skaftafelli en þar er ætíð nokkuð um minniháttar brot og slys sem viðbragðsvaktin sinnir enda nokkuð langt í heilsugæslu eða álíka þjónustu.
Áhugavert er að lítil sem engin minnkun er á Sprengisandi þrátt fyrir fækkun verkefna og ferðamanna almennt þetta sumarið. Hið sama gildir einnig um Skaftafell.
Ef við horfum á eðli útkalla, það er hvers vegna er kallað út má sjá að sem fyrr eru slys og veikindi rúmlega þriðjungur atvika eða 37% þetta sumarið. Stærsti einstaki flokkurinn er þó bílatengd aðstoð.
Ef við horfum á tegund ferðamanna sem þarfnast liðsinnis björgunarsveita á hálendisvakt má sjá að göngufólk er sem fyrri stærsti hópurinn, næstum þriðjungur sumarið 2020.
Ferðamenn á jeppum og jepplingum í einkaeigu eru stærra hlutfall en sumarið 2019 og fer það saman við stærra hlutfall innlendra ferðamanna. Þessir tveir hópur telja um fjórðung af þeim ferðamönnum sem nutu liðsinnis hálendisvaktar.
Eins og ætíð er áhugavert að rýna í þessar tölur og ljóst er að síðan nýr aðgerðagrunnur var tekinn í gagnið hefur aðgengi að tölfræði og gæðum hennar stórbatnað. Enn mætti þó setja vinnu í að þróa þann hlut lengra og þannig geta enn betur séð hvar skórinn kreppir í slysavörnum hvað þetta varðar og auðvitað um leið öll önnur atvik allan ársins hring.
Þegar horft er á þessa tölfræði er kannski fátt sem kemur á óvart. Nú sem fyrr eru innlendir ferðamenn stærsti einstaki hópurinn sem nýtur aðstoðar björgunarsveita á hálendisvakt þó vissulega séu þeir stærra hlutfall þetta sumarið eða rúmlega þriðjungur. Bílatengd aðstoð er stærsti einstaki hópur þegar horft er til eðlis útkalla en sem fyrr eru slys og veikindi þriðjungur allra útkalla og sé leit bætt við hátt í helmingur þeirra útkalla sem kom inn á borð sjálfboðaliða á hálendisvakt þetta sumarið. Það þarf ekki að hafa fleiri orð um mikilvægi verkefna eins og hálendisvaktar.