Heimsljós leikskrá

Page 1

HEIMSLJÓS

eftir Halldór Laxness í leikgerð Kjartans Ragnarssonar



Heimsljós

eftir Halldór Laxness í leikgerð Kjartans Ragnarssonar

Leikstjórn: Kjartan Ragnarsson Leikmynd: Gretar Reynisson Búningar: Helga I. Stefánsdóttir Tónlist: Kjartan Sveinsson Lýsing: Halldór Örn Óskarsson Sýningarstjórn: María Dís Cilia Aðstoðarmaður leikstjóra: Ævar Þór Benediktsson Hljóðstjórn: Halldór Snær Bjarnason Leikmunir, yfirumsjón: Högni Sigurþórsson Förðun, yfirumsjón: Ingibjörg G. Huldarsdóttir, Valdís Karen Smáradóttir Hárgreiðsla, yfirumsjón: Guðrún Erla Sigurbjarnadóttir, Þóra Benediktsdóttir Búningar, yfirumsjón: Leila Arge Stóra sviðið, yfirumsjón og leikmyndarmálun: Viðar Jónsson Leikmyndarsmíði: Ingvar Guðni Brynjólfsson Þjóðleikhúsið 2011–2012, 63. leikár, 17. viðfangsefni Frumsýning á Stóra sviðinu 26. desember 2011



Persónur og leikendur

Ólafur Kárason: Hilmir Snær Guðnason Ljósvíkíngurinn: Björn Thors Jarþrúður: Ólafía Hrönn Jónsdóttir Þórunn í Kömbum: Vigdís Hrefna Pálsdóttir Vegmey: Þórunn Arna Kristjánsdóttir Jóa í Veghúsum: Svandís Dóra Einarsdóttir Kamarilla: Guðrún Snæfríður Gísladóttir Jana: Lára Sveinsdóttir Gömul kona: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir Örn Úlfar: Ólafur Egill Egilsson Pétur Þríhross: Pálmi Gestsson Jens Færeyíngur: Jóhannes Haukur Jóhannesson Just / oddviti : Stefán Hallur Stefánsson Nasi / prestur: Þorsteinn Bachmann Gamall maður: Arnar Jónsson Sigurður Breiðfjörð: Ævar Þór Benediktsson Magga litla: Úlfhildur Ragna Arnardóttir / Nína Ísafold Daðadóttir Leikhópurinn fer með ýmis önnur hlutverk.



Kjartan Ragnarsson Kjartan Ragnarsson hefur leikstýrt fjölda sýninga í Þjóðleikhúsinu í gegnum tíðina og kemur nú aftur til starfa eftir sjö ára hlé. Undanfarin ár hefur Kjartan stýrt Landnámssetrinu í Borgarfirði, en ýmsar sýningar hafa verið settar upp þar á Söguloftinu.

Kjartan tekst nú í annað sinn á við Heimsljós Halldórs Laxness sem leikgerðarhöfundur og leikstjóri, en hann samdi tvær leikgerðir byggðar á verkinu sem sýndar voru við opnun Borgarleikhússins árið 1989, Ljós heimsins og Höll sumarlandsins. Leikgerðirnar voru byggðar á fyrstu tveimur hlutum Heimsljóss. Kjartan leikstýrði sjálfur Ljósi heimsins á litla sviðinu og Gretar Reynisson, sem nú gerir leikmynd, sá um leikmynd og búninga í sýningunni. Stefán Baldursson leikstýrði Höll sumarlandsins á stóra sviðinu. Í sýningu Þjóðleikhússins á Heimsljósi nú liggur hinsvegar verkið í heild sinni til grundvallar uppfærslunni. Mörgum eru einnig minnisstæðar sýningar Kjartans byggðar á Sjálfstæðu fólki eftir Halldór Laxness, Ásta Sóllilja – Lífsblómið og Bjartur – Landnámsmaður Íslands, sem frumsýndar voru í Þjóðleikhúsinu árið 1999 og var boðið á EXPO 2000 í Þýskalandi. Kjartan leikstýrði báðum sýningunum og gerði leikgerð í samvinnu við Sigríði Margréti Guðmundsdóttur. Kjartan lauk námi frá Leiklistarskóla Leikfélags Reykjavíkur árið 1966 og lék í mörgum sýningum á vegum LR en fór brátt einnig að leikstýra og skrifa leikrit. Kjartan hefur sjálfur leikstýrt flestum verkum sínum. Meðal þeirra má nefna Saumastofuna, Blessað barna­lán, Jóa, Skilnað, Land míns föður og Íslensku

mafíuna (í samvinnu við Einar Kárason) sem sett voru á svið hjá Leikfélagi Reykjavíkur, Týndu teskeiðina, Snjó, Gleðispilið, Nönnu systur (í samvinnu við Einar Kárason) og Rauða spjaldið í Þjóðleikhúsinu og Peysufatadaginn og Dampskipið Ísland hjá Nem­ endaleikhúsi Leiklistarskóla Íslands. Meðal verka sem Kjartan hefur gert leikgerðir af eru Ofvitinn eftir Þórberg Þórðarson, Þar sem djöflaeyjan rís eftir Einar Kárason og Eva Luna eftir Isabell Allende fyrir Leikfélag Reykjavíkur og Grandavegur 7 (í samvinnu við Sigríði Margréti Guðmundsdóttur) eftir Vigdísi Grímsdóttur fyrir Þjóðleikhúsið. Meðal annarra leikstjórnarverkefna Kjartans má nefna Antígónu, Hver er hræddur við Virginíu Woolf?, Önnu Kareninu, Jón Gabríel Borkmann og Svarta mjólk í Þjóðleikhúsinu, Hamlet, Vanja frænda, Platonov, Þrúgur reiðinnar og Kontrabassann hjá Leikfélagi Reykjavíkur, Kirsuberjagarðinn, Stræti, Mávinn og Þrjár systur hjá nemendaleikhúsi Leiklistarskólans í Malmö, Platonov hjá Borgarleikhúsinu í Malmö, Grandaveg 7 hjá Borgarleikhúsinu í Gautaborg, Ég er meistarinn í Gdansk í Póllandi og Pétur Gaut hjá Borås Statsteater.


Halldór Laxness og ritunartími Heimsljóss 1935 Halldór Laxness les dagbækur Magnúsar Hjalta­ sonar Magnússonar (1873–1916). Ólafur Kárason Ljósvíkíngur, aðalpersóna Heimsljóss, líkist um margt þessu sískrifandi, fátæka skáldi, og Halldór nýtir sér oft orðalag úr dagbókunum við skrif Heimsljóss. 1936 Undir lok marsmánaðar heldur Halldór í ferð vestur á land, heimsækir Stapa á Snæfellsnesi, Hamraenda við Breiðuvík og móður Jóhanns Jónssonar í Ólafsvík. Honum þykir ástandið í Ólafsvík aumlegt og þorpið verður fyrirmynd Sviðinsvíkur í Heimsljósi. 1936 Halldór birtir kvæðið Seinasta apríl (sem síðar verður þekkt undir heitinu Maístjarnan) í Rauða fánanum, málgagni ungra kommúnista. 1936 Halldór leggur í ferð undir lok maímánaðar um slóðir Magnúsar Hjaltasonar á Vestfjörðum ásamt Vilmundi Jónssyni landlækni. Hann skrifar síðar um ferðina kaflann Einn dag í senn í Dagleið á fjöllum. Þeir koma meðal annars til Skálavíkur þar sem Magnús var kennari um hríð, og staðurinn verður fyrirmynd Bervíkur í Heimsljósi. 1936 Í júlí heldur Halldór til Danmerkur. Hann fer svo til Þýskalands til að herja út ritlaun sem hann á inni fyrir fyrri hluta Sjálfstæðs fólks. Hann fer fyrst til Leipzig og þá til Berlínar, þar sem hann er viðstaddur Ólympíuleikana. 1936 Halldór og Inga eiginkona hans sigla í ágúst frá London til Buenos Aires á heimsþing PEN-klúbbsins. Skipið hefur viðkomu á Kanaríeyjum, mánuði eftir að spænska borgarastyrjöldin brýst út, og einn farþeganna er handtekinn af her Francos. Í ferðinni vinnur Halldór að Ljósi heimsins (sem hann nefnir síðar Kraftbirtíngarhljóm guðdómsins), fyrsta bindi Heimsljóss.

1936 Halldór og Inga koma til London í byrjun október. Þýskt forlag sem hefur haft í hyggju að gefa út Sölku Völku óskar eftir því að Halldór gefi út yfirlýsingu um pólitískt hlutleysi sitt, í kjölfar þess að þýska ritskoð­ unin hefur gert athugasemdir við fyrirhugaða útgáfu á þeim forsendum að höfundurinn sé kommúnisti. Halldór neitar. Hann heldur til Hollands og þaðan til Berlínar, til að reyna að tala um fyrir ritskoðurum nasista, en hefur ekki erindi sem erfiði. Hann fer til Kaupmannahafnar og vinnur að Ljósi heimsins en tekst ekki að koma handritinu heim nógu snemma til að útgáfa bókarinnar náist fyrir jólin. 1936 Halldór yrkir síðustu kvæðin fyrir Ljós heimsins í byrjun desember og sendir handritið heim. Fer til enska smábæjarins Dewsbury til að vinna með þýðanda Sjálfstæðs fólks. Er í London um jólin hjá Eggerti Stefánssyni söngvara. 1936 Kemur til Berlínar skömmu fyrir áramót og heimsóknin eykur enn frekar andúð hans á nasismanum. 1936–1937 Þennan vetur leggur Halldór fyrstu drög að Íslandsklukkunni. 1937 Heldur til Danmerkur og siglir heim um miðjan janúar, eftir nær sex mánaða ferðalag. 1937 Í febrúar kemur út fyrsta bindi Heimsljóss, Ljós heimsins. Upplagið, 2.500 eintök, selst upp á árinu og er bókin endurútgefin árið eftir. Þetta telst gott, í fámennu landi þar sem bækur eru dýrar. 1937 Halldór skrifar greinar og heldur ræður á útifundum til stuðnings kommúnistaflokknum. Hið pólitíska starf tekur tíma frá skáldskapnum og hann skrifar í bréfi til Martins Andersen Nexø eftir kosningar í júní að sennilega þyrfti hann að fara til


útlanda til að skrifa nýja skáldsögu. 1937 Halldór er einn af stofnendum Bókmenntafélagsins Máls og menningar en stofn­dagur þess er 17. júní. Mál og menning hefur í upphafi þau markmið að stuðla að lægra bókaverði og aukinni útbreiðslu bókmennta eftir róttæka höfunda. 1937 Vinnur um sumarið að greinasafninu Dagleið á fjöllum, sem kemur út síðar á árinu. Ferðast um Norðurland. 1937 Fer í september á Laugarvatn til að hefjast handa við framhaldið af Ljósi heimsins. Heldur í október til Kaupmannahafnar og síðar Uppsala og vinnur áfram að verkinu. 1937 Í desemberbyrjun heldur Halldór í aðra langferð sína til Sovétríkjanna og er þar í nær fjóra mánuði. Ógnarstjórn Stalíns er í sögulegu hámarki. Halldór dvelur einkum í Moskvu en fer meðal annars á rithöfundaþing í Georgíu og ferðast um suðurhluta Sovétríkjanna. Hann vinnur að öðru bindi Heimsljóss, sem þá heitir Fólk til sölu en síðar Höll sumarlandsins. Einnig undirbýr hann bók um ferðina, Gerska ævintýrið. 1938 Sölku Völku er hafnað af sovéskum útgefendum í Moskvu, skáldsagan þykir gagn­byltinga­rsinnuð og Arnaldur vondur fulltrúi sósíalismans. 1938 Skrifar frá Krím í febrúar til Jóns Helgasonar: „Ég er að verða búinn með rómaninn, sem heitir nú Höll sumarlandsins. Er bókin skrifuð í heldur órólegum kríngumstæðum, aðallega á mjög mismunandi hótelum, sumt krotað í járnbrautarvögnum.“ 1938 Í mars er Halldór viðstaddur réttarhöldin í Moskvu yfir Búkarín og félögum hans, en Búkharín hafði verið einn helsti leiðtogi sovéskra kommúnista. Þessi sýndarréttarhöld eru liður í hreinsunum Stalíns meðal fyrrum samherja. Halldór ver réttarhöldin þegar heim er komið, en á eftir að lýsa þeim á annan veg í Skáldatíma (1963). Í Gerska ævintýrinu segir Halldór: „síðustu kapítularnir í Höll sumarlandsins urðu til í hléum réttarhaldanna í máli Búkharín og trotskistanna.“

Halldór Laxness í Hljómskálagarðinum síðla sumars 1934. Ljósmyndasafn Reykjavíkur / Eggert P. Briem.

1938 Halldór skrifar undir samninga við tvö forlög í Rússlandi um að gefa út Sjálfstætt fólk. 1938 Halldór er staddur á heimili Veru Hertzsch, þýskrar barnsmóður Benjamíns Eiríkssonar sem hafði verið við nám í Moskvu, kvöld eitt í mars þegar hún er leidd á brott af fulltrúum sovéskra yfirvalda. 1938 Í marslok er Halldór kominn til Stokkhólms og heldur síðan til Kaupmannahafnar. 1938 Upp úr miðjum apríl er Halldór kominn til Íslands og Þjóðviljinn birtir við hann langt viðtal, meðal annars um réttarhöldin og menningarmál í Sovétríkjunum. 1938 Halldór hvetur til samfylkingar gegn afturhaldi og fasisma á sameiginlegum útifundi Fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna, Alþýðuflokksins og Kommúnista­­­­ flokksins 1. maí. 1938 Höll sumarlandsins kemur út 10. júní. Ein af persónum bókarinnar, verkalýðsforinginn Örn Úlfar, telur að skáld eigi öðru fremur að leggja verkalýðnum lið og segir meðal annars við fagurkerann Ólaf: „Fegurðin og mannlífið eru tveir elskendur sem fá ekki að mætast.“ Pólitískir samherjar Halldórs taka bókinni vel en andstæðingar hans eru hatrammir og


Guðmundur Friðjónsson skáld segir meðal annars um tvö fyrstu bindi Heimsljóss að þau séu „frá upphafi til enda mælgi og illkvittni, sem svívirðir þjóðina, innanlands og utan.“ 1938 Halldór semur ferðasögu sína Gerska ævintýrið frá vori fram á sumar á Laugarvatni og í Reykholti og hún kemur út í október. Í bókinni ver hann Sovétríkin. Verkið var umdeilt, en hafði djúpstæð áhrif á marga sem voru hallir undir kommúnisma. Halldór fjallar

þar jafnframt um bókmenntir og menningu og segir meðal annars: „Sú fegurðarþrá sem hefur ekki gert samníng við skynsemi og veruleika hlýtur að leiða yfir takmörk hins sorglega, alla leið út í hið skelfilega.“ 1938 Um hvítasunnuna gengur Halldór á Eyjafjallajökul ásamt Guðmundi frá Miðdal. Seinna átti hann eftir að ganga á Snæfellsjökul. Gönguna á Eyjafjallajökul nýtir hann í jökulgönguna í lok Heimsljóss. 1938 Halldór heldur í byrjun október til Norðurlanda, og


síðar til Parísar og London til að vinna í útgáfumálum. Tilkynnt er í hófi PEN-klúbbsins, sem haldið er í nóvember til heiðurs Halldóri í París, að forlag Gallimards, La Nouvelle Revue Française, hyggist gefa út Sölku Völku. 1938 Sameiningarflokkur alþýðu – Sósíalistaflokkurinn er stofnaður í október, myndaður af vinstri armi Alþýðuflokksins og kommúnistum. Halldór hefur aldrei verið skráður í Kommúnistaflokkinn, en sem einn af baráttumönnum fyrir samfylkingu gengur hann í hinn nýja flokk. 1938 Í desember er Halldór í Kaupmannahöfn með hugann við framhaldið af Heimsljósi, sem hann sér þá fyrir sér að verði í einu bindi, en þau áttu eftir að verða tvö. Hann heldur heim í janúarlok. 1939 Um sumarið og haustið er Halldór meira og minna á Laugarvatni að vinna að Húsi skáldsins, þriðja bindi Heimsljóss. Í ágústlok verður Halldór ástfanginn af Auði Sveinsdóttur sem átti eftir að verða eiginkona hans. 1939 Þann 1. september 1939, er heimsstyrjöldin síðari brýst út, er Halldór staddur á Laugarvatni. Halldór hefur um langa hríð verið hatrammur andstæðingur fasismans, en þegar Hitler og Stalín gera með sér griðasáttmála 23. ágúst styður hann sovéska utanríkisstefnu. Hann stillir Bretum og Þjóðverjum upp sem fulltrúum heimsvaldastefnunnar, sem er samkvæmt honum: „í eðli sínu alþjóðlegt samsæri ræníngja, sem æfinlega eru reiðubúnir að berjast og bítast út af því hver eigi að hafa forgangsréttinn til að ræna og rupla heiminn, undiroka saklausar þjóðir, sölsa undir sig verðmæti þjóðanna, þrælka þær í sína þágu; og aðferð þeirra við að gera út um þessi fögru áhugamál sín er sú að drekkja þjóðunum í blóði.“ Stríðsárin eru lengsti samfelldi tíminn sem Halldór dvelur á Íslandi frá 17 ára aldri til áttræðs. 1939 Halldór sendir frá sér þriðja bindi Heimsljóss, Hús skáldsins, í desember. Í aðalpersónunni, Ólafi Kárasyni, takast á skáldskaparástríðan og stéttabaráttan, ástin og meðaumkunin. Í bókinni segir

Ólafur Kárason meðal annars: „Það er nú einu sinni svo, að það er miklu erfiðara að vera skáld og yrkja um heiminn en vera maður og lifa í heiminum. [...] skáldið er tilfinníng heimsins, og það er í skáldinu sem allir aðrir menn eiga bágt.“ 1940 Halldór dvelst framan af árinu einkum í Reykjahlíð í Mosfellsdal við að skrifa lokabindið um Ólaf Kárason. 1940 Halldór hefur um nokkurra ára skeið fengið 5.000 króna skáldastyrk frá Alþingi, sem samsvarar árslaunum skrifstofumanns. Hinn gallharði and­ kommú­nisti Jónas frá Hriflu er formaður Mennta­ málaráðs og styrkur Halldórs er lækkaður niður í 1.800 krónur. Það er alls óvíst um útgáfur verka Halldórs í Evrópu vegna stríðsins og þótt bækur hans seljist vel á Íslandi þá duga ritlaunin ekki til framfærslu. Engu að síður getur Halldór ekki hugsað sér að taka við styrknum, enda sé þessu fé úthlutað honum „til auðmýkingar“, og stofnar fyrir það sjóð til verndar andlegu frelsi íslenskra rithöfunda. 1940 Inga og Halldór slíta samvistum síðla vetrar. 1940 Halldór er á Laugarvatni er Bretar hernema landið 10. maí. Um þetta leyti lýkur hann við Fegurð himinsins. 1940 Fegurð himinsins, fjórða og síðasta bindi Heimsljóss, kemur út 1. ágúst. Heimsljós er síðasta verk Halldórs sem kenna má við hina þjóðfélagslegu skáldsögu. Fegurðarþrá Ólafs Kárasonar nær hámarki í þessum hluta. Bókinni lýkur á þessum orðum: „Barn hafði hann staðið í fjörunni við Ljósuvík og horft á landölduna sogast að og frá, en nú stefndi hann burt frá sjónum. Hugsaðu um mig þegar þú ert í miklu sólskini. Bráðum skín sól upprisudagsins yfir hinar björtu leiðir þar sem hún bíður skálds síns. Og fegurðin mun ríkja ein.“ Samantekt: Melkorka Tekla Ólafsdóttir. Heimild: Halldór Guðmundsson: Halldór Laxness – ævisaga. JPV útgáfa, 2004.



Heimsljós í minniskompum

Halldórs Laxness Í handritasafni Halldórs Laxness á Þjóðarbókhlöðunni eru þó nokkrar minnis­­ kompur, eða nótissubækur, eins og hann kallaði þær, frá ritunartíma Heimsljóss. Þar má fá skemmtilega inn­sýn í vinnustofu skáldsins, hvað hann var að hugleiða og lesa meðan hann skrifaði söguna, þótt þessi atriði ættu síðan eftir að breytast mikið við ritunina. Hér fara á eftir brot úr nokkrum kompum, en eðli málsins samkvæmt eru þessar glósur sundurlausar.

Minnisbók sem er byrjað á 1936, merkt Minnisatriði fyrir Ljós heimsins (strikað yfir Ysta haf): „Fyrsta bókin: Bernskan lamar hann og gerir hann ófæran til að taka nokkurn hlutrænan málstað.“ „Önnur bókin; baráttan milli andans og efnishyggj­ unnar, sem lýkur með því að Okl [Ólafur Kárason Ljósvíkingur] flýr undan báðum, og missir báðar, en hafnar hjá þeirri flogaveiku.“ „Reynir alltaf að flýa undir verndarvæng þess afls, sem hann heldur að sé sigursælt, en afsakar bleyðiskap sinn með ástinni til „andans“ og „fegurðarinnar“.“ Inn á milli má sjá hvernig Halldór skrifar hjá sér tilsvör og frasa sem hann hyggst nota, t.d. úr Vest­f jarðaferð sinni þetta ár: „Það vildi ég að guð almáttugur gæfi, að það fyndist nú einhvers staðar upp eitthvert apparat, sem ekki væri

alltaf í helvítis biliríi.“ „Það má hirða alt til einhvers, sagði t., og hirti þurran hundaskít og geymdi upp á hjall-lofti.“ „„Á Sæbóli í Aðalvík var niðursetningur seldur til beitu í manna minnum. Hann var drepinn um borð og bundinn við masturstolpinn.“ Friðbert Friðbertsson eftir gamalli konu á Suðureyri.“ „Hvað tvær manneskjur eiga erfitt að finna hvor aðra í fjölmenni“ Á stöku stað breytist glósubókin í dagbók, eins og þegar hann skrifar 4. júní í Skálavík: „Landslagið ágætt sem umgerð um ömurlegan kápitula, eða jafnvel heilan bálk.“ Annað dæmi frá Danmörku, sem Halldór heim­sækir þetta ár: „Maður opnar mjög sjaldan danskt blað, þannig að þar sé ekki ein eða fleiri myndir af feitum borgurum sem eru að éta.“ Eða þar sem hann segir um danska leiksýningu sem byggð var á sögunni um litlu stúlkuna með eldspýturnar: „Siðspillt og viðbjóðslegt verk.“ Stundum skrifar skáldið hjá sér hugmyndir að nýjum bókum: „Skrifa sögu heils bygðarlags frá alda öðli til þessa dags.“ Hann er líka að hugleiða stjórnmál þessa tíma og skrifar hjá sér: „…ég er ekki kommúnisti, en ég er hvenær sem er reiðubúinn að viðurkenna hverja þá kenningu í komm­ún­ismanum engu síður en öðrum stefnum, sem sam­r ýmist skynseminni.“ Krítik á R. P. [væntanlega Rauða penna]: „…propa­ganda á frumstigi, - gæti eins hafa staðið í Dagsbrún 1910: þýðingarlaust.“ Samhliða Heimsljósi er Halldór byrjaður að hug­leiða sögu um Jón Hreggviðsson og skrifar: „Mottó fyrir



sögunni um Jón Hreggviðsson: Ég bið að heilsa Bert Brecht með þakklæti fyrir þessar línur: Denn für dieses Leben ist der Mensch nicht schlecht genug. HKL“ Þeirri hugsun að maðurinn sé ekki nógu vondur fyrir þennan heim skýtur reyndar upp á nokkrum stöðum í Heimsljósi. Minnisatriði við samningu skáldsögunnar Fólk til sölu (Höll sumarlandsins): Í annarri kompu, líklega frá 1937, skrifar Halldór: „Gjaldþrota útgerðarmaður (týpa P. B. Kl.) á allt þorpið. Formaður verkalýðsfélags og vísindafélags. ÓK settur niður hjá fólki.“ Þarna nefnir Halldór líka Ólafsvík sem fyrirmynd Sviðinsvíkur og vísar oft í Magnús Hjaltason Magnússon. „Sleitulaust atvinnuleysi og fyllirí gegnum alla bókina“, stendur á öðrum stað. Svo fylgja sundurlausir punktar sem sumir eru nýttir: „Aðalskemmtunin eru kirkjugarðsböllin.“ „Sig. Sigvaldason nokkurs konar Helgi Pjeturss.“ „Vegmey læknar hann af Þórunni í Kömbum.“ „Pétur Þ. herðir á klafanum í hvert skipti sem ÓK gerir minnstu tilraun til sjálfstæðis.“ „Óbreytanl. í gegnum sögu: Menn að bera grjót fyrir stjórnina.“ „Muna að hafa psykológíuna sem stytsta, og alla í „allegórískum“ stíl.“ „Ástandið í Sviðinsvík sambland af samvinnu­ félagsskap, kapítalisma og sósíalisma ... “ Í seinni hluta kompunnar má finna glósur úr Sovétferð Halldórs, eins og þessa, skrifaða í Gorí, Kákasus, gamlárs­k völd 1937: „Dreingurinn á bíla­stöðunni, hin fullkomna fegurð hans, þrátt fyrir þótt hann

væri klæddur í tötra. Hvernig ég skil snögglega sögn Tómas Manns, Der Tod in Venedig. Hrifning af sjálfri fegurðinni, án nokkurrar kyn­ferðis­tilfinningar, aðeins hvöt til þess að gera eitthvað fyrir hið fagra, leggja fram líf sitt fyrir hið fagra. Fegurðin tekur öllu fram.“ Lítil kompa sem geymir minnisatriði varðandi Fegurð himinsins: Þarna hefur Halldór punktað hjá sér eftir að hafa gengið á Eyjafjallajökul: „Á Eyjafjallajögli. Drángshlíð. Nota leiðina þangað upp sem lokamótíf í Ólaf Kárason. Hann hefur mælt sér mót við sólardans páskamorgunsins. Skv. þessum orðum: Hugaðu um mig þegar þú ert í miklu sólskini. Hann svarar: þú ert sólskinið sjálft … Lýsingin af því þegar hann læðist burt klukkan 4 að morgni og túnglið skín við honum í hásuðri. Hann ætlar að vera kominn á jökulinn í sólarupprás. Heldur áfram lengra og lengra, hin smærri fjöll, þau sem mest bar á úr bugðum verða að litlum auvirðilegum þústum, uns þau hverfa inn undir brúnir jökulsins (falljökulsins). Hvernig geislarnir af rísandi morgunsól steypast yfir jökulinn, svo alt stendur í undarlega björtu báli. Útsýni yfir til fjalla hinumegin. Bak við öll þessi ótrúlegu draumalönd býr hún. Það er eins og fjöll heimsins séu hér á samkomu á einhverjum eilífðarfundi að ræða áhugamál sín, – fjöll með öllum formum, strýtumynduð, klettafjöll, pýramíðar, hálfpýramýðar, burstir, þústir, jöklar, drángar, lengra burtu slétta, aðrir stórjöklar, eldfjöll, og fjöll sem sýnast sem hvít létt ský á himninum, fjöll út í óveruleikanum. Yfir þessu hvílir slík goðaheimatign að skáldið þóttist aldrei hafa séð neitt fegurra.“ Og svo skrifar hann: „Lesa mikla lýrík undir hreinritun Fegurðarinnar. Hölderlin, Stephan George, Verlaine, Baudelaire – þýða fagrar myndir og nota þær íslandíseraðar.“


Halldór glósar þarna ýmislegt úr ljóðum þessara skálda, en líka hina fornu íslensku Maríu sögu, en texti hennar hefur heillað hann: „Breytt eftir væntanlegum þörfum. Nú er þetta kallað líkneski fegurðarinnar fyrir því að fegurðin er svo sterk að hún verður til einskis aflvana, því hún er vel máttug, hún er … sjálf og svo langt ofar í öllum hlutum.“ „Sólin hitar og flóar alla veröldina“ „Fögur sem túngl, vakin sem sól“ Lítil kompa þykk frá 1938: Þarna má finna ýmsa punkta sem tengjast Heimsljósi: „Stúlkan í kosningunum, ætlar að ganga inn í lífið með henni“ „Kemur J. af sér, en meðaumkun með Jarþrúði kallar „hann gengur út úr lífinu” eftir þessa einu nótt.“ „Hrifinn af stúlku, „yrkir til hennar kvæðið í R. F. 1935“ [á að vera 36], sama stúlka og í 4. bindinu“, stendur á einum stað, en það bendir til þess að Halldór hafi upphaflega séð Jóu og Beru sem sömu stúlkuna. „Hugsaðu um mig þegar þú ert í miklu sólskini.“ Ennfremur er Halldór stundum að minna sig á hvernig hann hyggst skrifa: „Gefa aldrei definísjónir, það er dílettantismi. Láta efnismeðferðina vera sinn eigin útskýrarara.“ „Að elska himininn, hún og himininn – eitt. Skáldið elskar himininn.“ „Þegar hann fréttir að hún sé dáin, verður hann ruglaður, og seinustu kaflar bókarinnar eru lyrik, sem orkar á lesandann eins og töfrandi brjálsemi.“ „Þegar hann geingur á jökulinn geingur hann inn í himininn – án dauða.“ „Hann neitar að sjá í henni annað en hina eilífu fegurð, fegurðina sem tákn ódauðleikans.“ „Sól upprisudagsins. Og fegurð himinsins mun ríkja ein.“ Halldór Guðmundsson tók saman.




Arnar Jónsson (gamall maður) útskrifaðist úr Leiklistarskóla Þjóðleikhússins 1964 og hefur á nær hálfrar aldar leikferli leikið fjölmörg burðarhlutverk hjá Þjóðleikhúsinu, LR, LA, leikhópum og í kvikmyndum. Meðal nýlegra verkefna hér eru Lér konungur, Íslandsklukkan, Utan gátta, Engisprettur, Þrettándakvöld, Sjálfstætt fólk og Antígóna. Hann leikur James Tyrone í Dagleiðinni löngu í vetur, en hann lék James Tyrone yngri í sama verki árið 1982. Arnar hlaut Grímuverðlaunin fyrir túlkun sína á titilhlutverkinu í Lé konungi og var tilnefndur til sömu verðlauna fyrir Veisluna. Björn Thors (Ljósvíkíngurinn) útskrifaðist úr leiklistardeild LHÍ 2003 og hefur leikið fjölda hlutverka hjá Þjóðleikhúsinu, LR, Vesturporti og víðar, meðal annars víða erlendis. Meðal nýlegra verkefna eru Allir synir mínir, Íslandsklukkan og Gerpla í Þjóðleikhúsinu og Klúbburinn í Borgarleikhúsinu. Hann lék í kvikmyndunum Þetta reddast, Djúpinu og Borgríki. Hann hlaut Grímuverðlaunin fyrir Græna landið, Vestrið eina og Íslandsklukkuna og var tilnefndur fyrir Alla syni mína, Killer Joe og Dínamít. Hann fékk Edduverðlaunin fyrir Fangavaktina. Hann leikur í Afmælisveislunni í vetur. Gretar Reynisson (leikmynd) lauk námi frá Myndlistar- og handíðaskóla Íslands 1978 og var við framhaldsnám í Amsterdam 1978–79. Hann hefur haldið fjölda einkasýninga og samsýninga hér heima og erlendis. Hann hefur gert um sextíu leikmyndir fyrir Þjóðleikhúsið, LR, Nemendaleikhúsið og Frú Emilíu. Nýleg verkefni hér eru Allir synir mínir, Gerpla, Utan gátta og Ívanov. Hann hlaut Grímuna fyrir Þetta er allt að koma, Draumleik, Ófögru veröld og Utan gátta og var tilnefndur fyrir Halta Billa, Græna landið, Pétur Gaut, Ivanov og Gerplu. Hann gerir leikmynd fyrir Afmælisveisluna. Guðrún Snæfríður Gísladóttir (Kamarilla) lauk prófi frá Leiklistarskóla Íslands 1977. Hún hefur farið með fjölda burðarhlutverka hjá Þjóðleikhúsinu, Alþýðuleikhúsinu og LR, en meðal nýlegra verkefna hér eru Allir synir mínir, Íslandsklukkan, Brennuvargarnir, Þrettándakvöld, Engisprettur og Pétur Gautur. Hún lék meðal annars í Fórninni eftir Tarkovskí. Guðrún hlaut Grímuna fyrir Mýrarljós og var tilnefnd fyrir Íslandsklukkuna, Vegurinn brennur og Þrettándakvöld. Hún hlaut Menningarverðlaun DV fyrir Agnesi barn guðs. Hún leikur í Dagleiðinni löngu hér í vetur. Halldór Örn Óskarsson (lýsing) nam ljósahönnun við The Bristol Old Vic Theatre School í Bretlandi. Hann hefur lýst á fimmta tug sýninga, meðal annars fyrir Þjóðleikhúsið, Borgarleikhúsið, Leikfélag Íslands og LA. Meðal nýlegra verkefna hans hér eru Hreinsun, Svartur hundur prestsins, Lér konungur, Hedda Gabler, Bjart með köflum, Íslandsklukkan, Brennuvargarnir, Hænuungarnir, Utan gátta og Þrettándakvöld. Hann hlaut Grímuna fyrir Ófögru veröld og Utan gátta, og var tilnefndur fyrir Jesus Christ Superstar, Héra Hérason, Íslandsklukkuna og Lé konung.


Helga I. Stefánsdóttir (búningar) á að baki á níunda tug verkefna í leikhúsi og kvikmyndum sem leikmynda- og/eða búningahöfundur frá því að hún útskrifaðist úr leikmyndadeild L’Accademia di Belle Arti í Róm 1989. Í Þjóðleikhúsinu gerði hún síðast búninga fyrir Lé konung og Gerplu. Hún hefur starfað við fjöldann allan af kvikmyndum, nú síðast við Djúpið og Mömmu Gógó. Hún hlaut Edduverðlaunin fyrir Brúðgumann og hefur fengið tíu tilnefningar til Grímuverðlauna. Hún gerði búninga við Galdrakarlinn í Oz hjá LR fyrr í vetur og gerir búninga fyrir Afmælisveisluna hér í vetur. Hilmir Snær Guðnason (Ólafur Kárason) útskrifaðist úr Leiklistarskóla Íslands 1994. Hann hefur farið með fjölmörg hlutverk í Þjóðleikhúsinu, Borgarleikhúsinu og víðar og leikið í mörgum kvikmyndum. Hann hefur leikstýrt sýningum í Þjóðleikhúsinu, Borgarleikhúsinu, hjá Nemendaleikhúsinu og í Íslensku óperunni. Hann hefur oft verið tilnefndur til Grímunnar og hlaut verðlaunin fyrir leik sinn í Veislunni og Ég er mín eigin kona og fyrir leikstjórn sína á Fjölskyldunni. Hann hlaut Edduverðlaunin fyrir Mávahlátur. Hann leikur í Listaverkinu og Dagleiðinni löngu hér í vetur. Jóhannes Haukur Jóhannesson (Jens Færeyíngur) útskrifaðist úr Leiklistardeild LHÍ 2005. Hann hefur leikið fjölda hlutverka hjá Þjóðleikhúsinu, LR, LA og sjálfstæðum leikhópum. Nýleg verkefni hans hér eru Ballið á Bessastöðum, Finnski hesturinn, Leitin að jólunum og Gerpla. Hann leikur nú í Alvöru mönnum í Austurbæ og lék meðal annars í Söngvaseið hjá LR og Hellisbúanum í Gamla bíói. Hann lék í kvikmyndinni Svartur á leik. Hann var tilnefndur til Grímunnar fyrir Eilífa hamingju. Nú í vetur leikur hann í Vesalingunum, Leitinni að jólunum og Ballinu á Bessastöðum. Kjartan Sveinsson (tónlist) útskrifaðist árið 2007 frá tónlistardeild LHÍ með BA gráðu í tónsmíðum. Hann hefur komið víða við sem tónskáld og flytjandi tónlistar. Hann hefur verið meðlimur hljómsveitarinnar Sigur Rósar frá árinu 1997. Hann hefur samið tónlist við ýmsar kvikmyndir, má þar nefna Eldfjall og Síðasta bæinn eftir Rúnar Rúnarsson og Plastic Bag eftir Ramin Bahrani. Einnig hefur hann unnið með ýmsum listamönnum, innlendum sem erlendum. Má þar nefna Ragnar Kjartansson, Anne Carson og Merce Cunningham. Lára Sveinsdóttir (Jana) útskrifaðist úr leiklistardeild LHÍ 2001 og hefur leikið í fjölda sýninga hjá Þjóðleikhúsinu, LR og sjálfstæðum leikhópum. Hér í Þjóðleikhúsinu hefur hún leikið í Sitji guðs englar, Fíusól, Finnska hestinum, Ballinu á Bessastöðum og Bjart með köflum. Hjá LR lék hún í Jesus Christ Superstar, Gretti og Söngvaseiði. Hún hefur leikið í sjónvarpsþáttum eins og Stelpunum og Rétti. Hún flytur einleikinn Judy Garland ásamt Jasshljómsveit Úlfs Eldjárns í Leikhúskjallaranum í vetur og leikur hér í Ballinu á Bessastöðum, Bjart með köflum og Leitinni að jólunum.




Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir (gömul kona) lauk námi frá Leiklistarskóla Íslands 1978. Hún hefur starfað við Þjóðleikhúsið í yfir þrjá áratugi, en hún hefur einnig leikið hjá LR, LA og Alþýðuleikhúsinu. Meðal nýlegra verkefna hennar hér eru Óhapp, Oliver, Ballið á Bessastöðum, Sögustund: Búkolla og Sögustund: Karlsson, Lítill, Trítill og fuglarnir. Hún leikur í Glerdýrunum á vegum Fátæka leikhússins í Leikhúskjallaranum í vetur. Hún lék hér í Ballinu á Bessastöðum og Bjart með köflum í haust og lék í Sögustund: Búkollu á Akureyri á vegum Þjóðleikhússins. Ólafía Hrönn Jónsdóttir (Jarþrúður) útskrifaðist úr Leiklistarskóla Íslands 1987. Hún hefur farið með fjölda hlutverka hjá Þjóðleikhúsinu, LR og í kvikmyndum. Meðal nýlegra verkefna hennar hér eru Pétur Gautur, Ívanov, Skilaboðaskjóðan, Utan gátta, Brennuvargarnir, Af ástum manns og hrærivélar, Gerpla, Finnski hesturinn, Lér konungur og Bjart með köflum. Hún hlaut Grímuna fyrir leik sinn í Pétri Gaut og var tilnefnd fyrir Lé konung, Utan gátta, Ívanov, Sólarferð, Stórfengleg og Þetta er allt að koma. Hún hlaut Edduverðlaunin fyrir leik sinn í kvikmyndinni Brúðgumanum. Ólafur Egill Egilsson (Örn Úlfar) útskrifaðist úr leiklistardeild LHÍ 2002 og hefur starfað við fjölda sýninga hjá LR, LA, Þjóðleikhúsinu og Vesturporti. Hann gerði leikgerð af Fólkinu í kjallaranum hjá LR, var meðhöfundur að leikgerð Gerplu og handriti kvikmyndanna Brúðguminn, Brim og Sumarlandið. Hann hlaut Grímuna fyrir leik sinn í Oliver og Svartri mjólk og var tilnefndur fyrir Brim og Fagnað. Hann hlaut Grímuna sem leikskáld ársins ásamt Auði Jónsdóttur fyrir leikgerðina Fólkið í kjallaranum. Í vetur leikur hann hér í Hreinsun, Leitinni að jólunum og Bjart með köflum. Pálmi Gestsson (Pétur Þríhross) lauk námi frá Leiklistarskóla Íslands 1982. Hann hefur leikið fjölda hlutverka hjá Þjóðleikhúsinu, LR, í kvikmyndum og sjónvarpi, meðal annars með Spaugstofunni. Meðal nýjustu verkefna hans hér eru Lér konungur, Hænuungarnir, Engisprettur, Hart í bak og Ríkarður þriðji. Hann lék í Svörtum fugli í Hafnarfjarðarleikhúsinu og Brottnáminu úr kvennabúrinu í Íslensku óperunni. Hann var tilnefndur til Grímunnar fyrir leik sinn í Hænu­ ungunum. Hann leikur hér í vetur í Hreinsun og Bjart með köflum. Stefán Hallur Stefánsson (Just/oddviti) útskrifaðist úr leiklistardeild LHÍ 2006. Hann hefur starfað með Þjóðleikhúsinu, LR, Vesturporti, Vér Morðingjum, Sokkabandinu, ART í Bandaríkjunum og CDN Orleans. Nýjustu verkefni hans hér eru Lér konungur, Hedda Gabler, Íslandsklukkan og Gerpla. Hann leikstýrir Eftir lokin hjá SuðSuðVestur. Hann hefur leikið í kvikmyndum og sjónvarpi, meðal annars í Pressu, Jóhannesi, Desember, Roklandi og Djúpinu. Hann er stundakennari við leiklistardeild LHÍ. Í vetur leikur hann hér í Hreinsun og er aðstoðarleikstjóri í Vesalingunum.


Svandís Dóra Einarsdóttir (Jóa í Veghúsum) útskrifaðist úr leiklistardeild Listaháskóla Íslands 2010. Hún hefur meðal annars leikið í sjónvarpsþáttunum Réttur 2 og Pressa 2 og kvikmyndunum Kurteist fólk, Borgríki og Faust í leikstjórn rússneska leikstjórans Alexander Sukorov. Einnig hefur hún leikið í uppsetningum leikhópsins Vér morðingjar á Bubba kóngi og Hart í bak. Hún hefur kennt börnum leiklist hjá ÍTR og Leynileikhúsinu. Heimsljós er fyrsta verkefni hennar í Þjóðleikhúsinu og býður leikhúsið hana velkomna til starfa. Vigdís Hrefna Pálsdóttir (Þórunn í Kömbum) útskrifaðist úr leiklistardeild LHÍ 2002 og lauk mastersprófi frá Royal Scottish Academy of Music and Drama í Glasgow. Hún hefur farið með fjölmörg hlutverk í Þjóðleikhúsinu, hjá LA og leikhópum. Meðal nýlegra verkefna hennar hér eru Lér konungur, Allir synir mínir, Hænuungarnir, Oliver, Ástin er diskó lífið er pönk, Macbeth, Sumarljós og Sædýrasafnið. Hún lék meðal annars í Litlu hryllingsbúðinni hjá LA og í Höllu og Kára og Grettissögu í Hafnarfjarðarleikhúsinu. Hún leikur hér í vetur í Hreinsun og Vesalingunum. Þorsteinn Bachmann (Nasi/prestur) útskrifaðist úr Leiklistarskóla Íslands 1991. Hann hefur leikið á þriðja tug hlutverka á sviði, meðal annars hjá LA, LR og Alþýðuleikhúsinu, og hátt í tuttugu hlutverk í sjónvarpi og kvikmyndum. Hann hefur einnig leikstýrt, kennt leiklist og var leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar um skeið. Hann lék í Vefaranum mikla frá Kasmír hjá LA, Pressu 1 og 2 á Stöð 2 og í kvikmyndunum Veðramótum og Eldfjalli. Hann fékk Edduverðlaunin fyrir leik sinn í Óróa. Hann leikur í Hreinsun hér í vetur. Þórunn Arna Kristjánsdóttir (Vegmey) útskrifaðist úr leiklistardeild LHÍ 2010. Hún hefur leikið hér í Þjóðleikhúsinu í Bjart með köflum, Ballinu á Bessastöðum, Leitinni að jólunum og Finnska hestinum. Fyrir útskrift lék hún litlu stúlkuna með eldspýturnar í samnefndu verki í Gamla bíói og söng í óperunni Tökin hert. Hún nam við Tónlistarskóla Ísafjarðar og vorið 2006 lauk hún B.Mus gráðu í söng frá tónlistardeild Listaháskóla Íslands. Í vetur leikur hún í Bjart með köflum, Ballinu á Bessastöðum, Sögustund: Ævintýrinu um Hlina kóngsson, Leitinni að jólunum, Vesalingunum og Afmælisveislunni. Ævar Þór Benediktsson (Sigurður Breiðfjörð) útskrifaðist úr leiklistardeild LHÍ 2010. Hann hefur leikið hér í Þjóðleikhúsinu í Bjart með köflum, Ballinu á Bessastöðum og Leitinni að jólunum. Hann lék í Hvað ef? á vegum 540 Gólf og sjónvarpsþáttunum Dagvaktinni, Rétti, Hæ Gosa og Heimsendi. Hann hefur unnið barnaefni fyrir útvarp og sjónvarp og skrifað tvö útvarpsleikrit og tvær bækur, nú síðast Glósubók Ævars vísindamanns. Hann var ásamt öðrum tilnefndur til Grímunnar fyrir barnasýninguna Hvað býr í Pípuhattinum? Í vetur leikur hann í Sögustund: Ævintýrinu um Hlina kóngsson, Bjart með köflum, Ballinu á Bessastöðum og Vesalingunum. Nína Ísafold Daðadóttir

Úlfhildur Ragna Arnardóttir



Söngur: Kristín Erna Blöndal, Hildigunnur Einarsdóttir, Guðmundur Vignir Karlsson, Benedikt Ingólfsson. Kór félaga úr Kammerkór Suðurlands og Söngfjelaginu undir stjórn Hilmars Arnar Agnarssonar. Strengjaleikur: María Huld Markan Sigfúsdóttir, Gyða Valtýsdóttir. Upptaka: Birgir Jón Birgisson. Aðstoð við upptöku: Elisabeth Carlsson.

Sýningin tekur um þrjár og hálfa klukkustund. Tvö hlé. Myndir í leikskrá eru teknar á æfingu og eru því ekki heimild um endanlegt útlit sýningarinnar.

Sérstakar þakkir: Byggðasafn Vestfjarða.

Ritstjórn leikskrár: Melkorka Tekla Ólafsdóttir. Umsjón: Sigurlaug Þorsteinsdóttir. Útlit: PIPAR\TBWA. Ljósmyndir: Eddi. Prentun: Ísafoldarprentsmiðja. Útgefandi: Þjóðleikhúsið.

Í upphafi sýningarinnar er leikin upptaka úr safni Ríkisútvarpsins, brot úr viðtali Péturs Péturssonar við Halldór Laxness vorið 1986. Þjóðleikhúsið þakkar RÚV og aðstandendum fyrir að leyfa notkun upptökunnar.

Miðasölusími: 551 1200. Netfang miðasölu: midasala@leikhusid.is Netfang Þjóðleikhússins: leikhusid@leikhusid.is Heimasíða Þjóðleikhússins: www.leikhusid.is


Þjóðleikhúsið samkvæmt samkomulagi við CAMERON MACKINTOSH kynnir nýja sviðsetningu á söngleik eftir BOUBLIL og SCHÖNBERG

Söngleikur eftir ALAIN BOUBLIL og CLAUDE-MICHEL SCHÖNBERG byggður á skáldsögu eftir VICTOR HUGO

Frumsýning á Vesalingunum á Stóra sviðinu í byrjun mars.

TRYGGÐU ÞÉR SÆTI!



Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.