1
Leikskrá Ritstjórn: Melkorka Tekla Ólafsdóttir. Hönnun og uppsetning: Jorri. Ljósmyndir: Hörður Sveinsson, Jorri o.fl. Prentun: Prentmet, Oddi. Útgefandi: Þjóðleikhúsið. Myndir í leikskrá eru teknar á æfingu og eru því ekki heimild um endanlegt útlit sýningarinnar. Notuð eru leifturljós í sýningunni.
Þjóðleikhúsið 73. leikár, 2021–2022. Frumsýning á Stóra sviðinu 4. og 5. september 2021. Þjóðleikhússtjóri: Magnús Geir Þórðarson. Miðasölusími: 551 1200 Netfang miðasölu: midasala@leikhusid.is www.leikhusid.is
2
Rómeó og Júlía eftir William Shakespeare
í þýðingu Hörpu Rúnar Kristjánsdóttur og Jóns Magnúsar Arnarssonar
Þjóðleikhúsið 2021 - 2022 3
Leikarar
Listrænir stjórnendur
Júlía Ebba Katrín Finnsdóttir
Leikstjórn og leikgerð Þorleifur Örn Arnarsson
Rómeó Sigurbjartur Sturla Atlason
Dramatúrg Hrafnhildur Hagalín
Gengi Júlíu
Leikmynd Ilmur Stefánsdóttir
Hliðarsjálf Júlíu, tónlist Salka Valsdóttir Hliðarsjálf Júlíu, dans Rebecca Hidalgo
Gengi Rómeós Faðir Merkútsíó Atli Rafn Sigurðarson Benvólíó Hilmar Guðjónsson Mabba Bríet Ísis Elfar Baltasar Ernesto Camilo Aldazábal Valdés
Búningar Anna Rún Tryggvadóttir Urður Hákonardóttir Lýsing Björn Bergsteinn Guðmundsson Myndband Nanna MBS Signý Rós Ólafsdóttir Tónlist og söngtextar Salka Valsdóttir Ebba Katrín Finnsdóttir Sigurbjartur Sturla Atlason Auður Bríet Ísis Elfar Tónlistarstjórn Salka Valsdóttir
Kapúlett, faðir Júlíu Arnar Jónsson Frú Kapúlett, móðir Júlíu Nína Dögg Filippusdóttir Fóstra Ólafía Hrönn Jónsdóttir París Hallgrímur Ólafsson Tíbalt Jónmundur Grétarsson Gregorí Sigurður Sigurjónsson Samson Örn Árnason 4
Hljóðhönnun Kristinn Gauti Einarsson Danshöfundar Ernesto Camilo Aldazábal Valdés Rebecca Hidalgo
Aðrir aðstandendur Sýningarstjórn Elín Smáradóttir Aðstoðarleikstjóri Anna Katrín Einarsdóttir Myndbandsupptaka á sviði Signý Rós Ólafsdóttir Aðstoðarmaður tónlistarstjóra Unnsteinn Manuel Stefánsson Hljóðfæraleikur á upptökum Salka Valsdóttir Auður Indriði Arnar Ingólfsson Tumi Árnason Magnús Jóhann Ragnarsson Hljóðfæraleikur í sýningu Salka Valsdóttir (bassi) Bríet Ísis Elfar (gítar) Indriði Arnar Ingólfsson (gítar) Leikgervadeild Silfá Auðunsdóttir – yfirumsjón sýningar Hildur Ingadóttir Ingibjörg G. Huldarsdóttir Þóra Guðbjörg Benediktsdóttir Leikmunadeild Trygve Jónas Eliassen - yfirumsjón leikmuna Emelía Rafnsdóttir Mathilde Anne Morant Valur Hreggviðsson Búningadeild Berglind Einarsdóttir – yfirumsjón sýningar Ásdís Guðný Guðmundsdóttir Hjördís Sigurbjörnsdóttir Hólmfríður Berglind Birgisdóttir Ingveldur E. Breiðfjörð Leila Arge Sif Erlingsdóttir Þórhildur Sunna Jóhannsdóttir
Hljóðdeild Kristinn Gauti Einarsson – yfirumsjón sýningar Eysteinn Aron Halldórsson Kristín Hrönn Jónsdóttir Þóroddur Ingvarsson Ljósadeild Eglé Sipaviciute Jóhann Bjarni Pálmason Laufey Haraldsdóttir Saga Einarsdóttir Ýmir Ólafsson Leikmyndarframleiðsla Hildur Evlalía Unnarsdóttir - teymisstjóri Arturs Zorgis – smiður Haraldur Levi Jónsson – smiður Michael Bown – smiður Alex John George Hatfield Ásdís Þórhallsdóttir Brynja Kristinsdóttir Elísabet Arna Ingólfsdóttir Helgi Þórsson Hrafnhildur Jóakimsdóttir Indriði Arnar Ingólfsson Jasper Bock Kolbrún Lilja Torfadóttir Lena Birgisdóttir Þórunn Kolbeinsdóttir Valdimar Róbert Fransson Sviðsdeild Ásdís Þórhallsdóttir – sviðsstjóri Alex Hatfield – yfirumsjón sýningar Arturas Mockus Elísa Sif Hermannsdóttir Gylfi F. Sigurðsson Indriði Arnar Ingólfsson Jasper Bock Melkorka Embla Hjartardóttir Sigurður Hólm Lárusson Siobhán Antoinette Henry Þórunn Kolbeinsdóttir Í sýningunni er sungið lagið Nessun dorma eftir Puccini, við texta eftir Hallgrím Ólafsson. Einnig lagið Ég er kominn heim eftir Emmerich Kálmán, texti: Jón Sigurðsson. 5
6
7
William Shakespeare William Shakespeare fæddist árið 1564 í Stratford-upon-Avon í Englandi. Eftir hann liggja um fjórir tugir leikverka, sem talið er að hann hafi skrifað á árunum 1590-1613, auk ljóðmæla. Hans er getið sem leikara og leikritahöfundar í skrám leikflokksins Lord Chamberlain’s Men árið 1594, en flokkurinn var einn fremsti leikflokkur London á sínum tíma. Vitað er að Shakespeare starfaði með leikflokknum allt þar til hann dró sig í hlé um 1613 og flutti heim til Stratford-upon-Avon. Þar dó hann árið 1616, 52ja ára að aldri. Talið er að Shakespeare hafi kvænst Anne Hathaway 18 ára gamall og átt með henni þrjú börn, en hún hafi orðið eftir í Stratford þegar hann hélt til London. Mörg leikrit Shakespeares hafa verið sýnd á sviði íslenskra atvinnuleikhúsa, svo sem Þrettándakvöld, Vetrarævintýri, Kaupmaður í Feneyjum, Hamlet, Sem yður þóknast, Draumur á Jónsmessunótt, Júlíus Sesar, Rómeó og Júlía, Óþelló, Makbeð, Lér konungur, Snegla tamin, Ríkarður þriðji og Ofviðrið. (Sjá nánar á leikhusid.is). Einnig hafa áhugaleikfélög og Ríkisútvarpið flutt verk Shakespeares. Komið hefur út safn þýðinga Helga Hálfdanarsonar á leikritum Shakespeares, en einnig hafa þýtt leikrit skáldsins Þórarinn Eldjárn, Hallgrímur Helgason, Kristján Þórður Hrafnsson, Sölvi Björn Sigurðsson, Matthías Jochumson, Steingrímur Thorsteinsson, Indriði Einarsson, Sverrir Hólmarsson og Sigurður Grímsson. Royal Shakespeare Company í Bretlandi er leikhús sem er staðsett í fæðingarbæ Shakespeares, Stratford-upon-Avon, og leggur megináherslu á uppsetningar á verkum Shakespeares. Á heimasíðu leikhússins, rsc.org.uk, er margt forvitnilegt að finna um skáldið. Einnig er gaman að heimsækja heimasíðu Globeleikhússins í London, shakespearesglobe.com, sem byggt var árið 1997, en fyrirmynd þess er leikhús sem Shakespeare starfaði í.
8
Rómeó og Júlía Rómeó og Júlía er eitt allra vinsælasta leikrit Williams Shakespeares. Verkið var frumflutt í London um 1595 og hefur í gegnum tíðina verið sýnt í ótal ólíkum útgáfum, ekki síst á liðnum áratugum, þar sem leikstjórar hafa gert margvíslegar tilraunir með verkið og dregið fram ólíka þætti þess í uppfærslum sínum. Leikritið hefur jafnframt orðið innblástur að listaverkum af ýmsu tagi, öðrum leikritum, kvikmyndum, dansverkum, bókum, tónlist, teiknimyndum o.s.frv. Má þar nefna kvikmyndirnar West Side Story (1961) og Shakespeare in Love (1998), sem einnig hafa verið lagaðar að sviði, sem og Romeo+Juliet (1996), sombímyndina Warm Bodies (2013) og garðálfamyndina Gnomeo & Juliet (2011). Vísanir til leikritsins í öðrum listaverkum eru fjölmargar og nærtækt er að nefna lög eins og Romeo and Juliet með Dire Straits og Rómeó og Júlíu eftir Bubba Morthens. Leikritið Rómeó og Júlía hefur þrívegis verið sett upp áður í íslensku atvinnuleikhúsi, en verkið hefur einnig verið leikið af áhugaleikfélögum. Vesturport frumsýndi Rómeó og Júlíu í Borgarleikhúsinu árið 2002 í þýðingu Hallgríms Helgasonar og leikstjórn og leikgerð Gísla Arnar Garðarssonar, en sýningin var sýnd víða um heim og enduruppsett í Borgarleikhúsinu árin 2010 og 2012. Þjóðleikhúsið sýndi verkið árið 1991 í þýðingu Helga Hálfdanarsonar og leikstjórn Guðjóns Pedersen, en þýðing Helga hafði verið notuð áður í uppsetningu Leikfélags Reykjavíkur á verkinu árið 1964, í leikstjórn Tomás Mac Anna. Leikritið er einnig til í þýðingu Matthíasar Jochumssonar. 9
Tónlistin gefur Júlíu meiri vídd Viðtal við Ebbu Katrínu Finnsdóttur
„Ég hef lesið leikritið Rómeó og Júlíu nokkrum sinnum í gegnum tíðina en núna þegar fyrir lá að ég væri að fara að leika í því, og ég las það að nýju, fannst mér eins og ég væri að lesa það í fyrsta skipti. „Af hverju sá ég ekki hvað það er líka mikið ofbeldi í verkinu?“ spurði ég sjálfa mig. Ástæðan er kannski að sumu leyti sú að ég hef breyst og er orðin þroskaðri, en fyrst og fremst held ég að þær hræringar sem hafa átt sér stað í samfélaginu á undanförnum árum hafi gert það að verkum að ég las verkið með nýjum hætti. Við erum öll orðin betri í því að koma auga á ofbeldi og kúgun kvenna, eins og hún hefur verið í áraraðir. Rómeó og Júlía er ekki fyrst og fremst ástarsaga, heldur er þetta miklu fremur saga um uppreisn ungra krakka gegn ógeðslegu kerfi. Það skelfilega er að þessir krakkar ákveða að taka heldur sitt eigið líf en að lifa áfram í þessu kerfi. Umfjöllun um sjálfsvíg er afar viðkvæmt málefni, en um leið megum við ekki horfa fram hjá því að það er að gerast að ungt fólk er að taka eigið líf, og við verðum að skoða orsakavaldana. Og hvað varðar sögu Júlíu í þessu verki, þá höfum við verið minnt óþyrmilega á það undanfarið að enn viðgengst það í ákveðnum heimshlutum að börn eru neydd í hjónaband. Ferlið við að búa til þessa leiksýningu hefur verið ólíkt öllu öðru sem ég hef tekið þátt í. Með sínum aðferðum gefur Þorleifur leikurum svakalegt frelsi. Maður verður að hætta að reyna að hafa stjórn á öllu sem er að gerast, og fylgjast í staðinn með fólkinu í rýminu og því skapandi flæði sem er að verða til. Það er ekki rými fyrir það að ætla að úthugsa eitthvað fyrirfram, því að það sem verður til er skapað á æfingu, í rýminu sjálfu, ekki utan þess. Af þessu leiðir að leikritið verður aldrei leikið eins, hver sýning verður ólík annarri, það er svo langt frá einni „vörðu“ leikarans í sýningunni til annarrar. Ég sem listamaður fæ gífurlegt frelsi en frelsinu fylgir líka ábyrgð. Þetta er frelsandi upplifun, þótt hún sé um leið smá ógnvekjandi. Þetta hefur verið einstaklega gefandi og skemmtilegt ferli, allir hafa verið svo tilbúnir að gefa af sér og maður hefur fundið fyrir sérstaklega miklu þakklæti á þessum Covid-tímum að fá að hitta fólk og skapa fyrir áhorfendur, sem nú fá loksins að koma í leikhúsið. Fyrir okkur ungu leikarana hefur líka verið mikil gjöf að fá að fylgjast með þessum kanónum, eldri leikurunum, og upplifa örlæti þeirra og vilja til að hjálpa okkur. 10
Ég lærði að spila á bæði píanó og fiðlu og hef fengist við tónlist, en þetta er í fyrsta skipti sem ég sem tónlist og mér hefur fundist frábært að fá tækifæri til að prófa það. Mér finnst ég hafa opnað á eitthvað nýtt í DNA-inu mínu. Jafnframt finnst mér tónlistin gefa Júlíu meiri vídd, hleypa áhorfendum nær henni, dýpra inn í hugarheiminn, innra lífið, en líka heimspekina sem liggur að baki. Það að ég tæki þátt í að semja tónlistina var ekki fyrirfram ákveðið, heldur leiddi eitt af öðru. Í verkinu er Rómeó með teymi af félögum í kringum sig, en Þorleifi fannst vanta teymi í kringum Júlíu. Við fórum að velta fyrir okkur möguleikum á að skapa nokkurs konar hliðarsjálf Júlíu. Við Salka byrjuðum að hittast og spjalla saman og gerðum það allan tímann sem æfingarnar voru að frestast vegna Covid. Af þessu spjalli okkar um verkið, okkur sjálfar og ungar konur í dag, leiddi að við fórum að byrja að semja tónlist saman. Á sama tíma voru Bjartur og Auðunn að vinna saman að tónlist. Þegar við svo hittumst og spiluðum hvert fyrir annað fannst okkur merkilegt að komast að því hvað nálgun okkar í tónlistinni var ólík. Við stelpurnar vorum í meiri uppreisnarhug, í anda baráttu gegn kerfinu, en strákarnir meira í ástarpælingum. Þetta vakti upp spurningar um hvort konur og karlar sæju kannski ekki það sama, og varð kveikjan að línu í söngtexta: „Ég vildi að ég gæti lánað ykkur augu, svo þið gætuð séð það sem ég sé“.“ 11
Ungt fólk að reyna að skapa sinn eigin heim Viðtal við Sigurbjart Sturlu Atlason
„Þegar ég fór í prufu fyrir hlutverk Rómeós var ég nýbúinn að leikstýra Rómeó og Júlíu ásamt Jóhanni Kristófer á Herranótt í MR, við höfðum frumsýnt tveimur mánuðum áður. Ég var þannig með mjög skýra mynd af verkinu í huganum, en sýn mín á það átti eftir að breytast talsvert á æfingatímanum í Þjóðleikhúsinu. Þegar við settum verkið upp í MR lögðum við megináherslu á að finna leiðir til að flytja verkið nær veruleika krakkanna. Við lögðum upp með þýðingu Hallgríms Helgasonar, en fengum krakkana líka til að spinna og notuðum bundna málið lítið á endanum. Persónurnar fengu á sig svip af íslenskum erkitýpum, og þannig varð t.d. Rómeó strákur í hettupeysu með veip sem vildi vera rappari og Júlía stelpa sem var að leita eftir athygli á instagram o.s.frv. Þannig staðfærðum við verkið og settum það inn í íslenskan samtíma, ólíkt uppfærslunni í Þjóðleikhúsinu þar sem skapaður er sjálfstæður heimur. Það hefur verið mjög áhugavert að fylgjast með vinnu Þorleifs og taka þátt í henni, og uppgötva hvernig er hægt að taka þessa sögu, sem maður sér fyrir sér að sé fremur línulaga og einföld, og fara með hana í ólíkar áttir. Þorleifur sagði okkur strax í upphafi að fyrir honum snerist þessi saga lítið um fjölskylduerjur, heldur fjallaði hún miklu fremur um hvernig eldri kynslóðin, feðraveldið, er búin að ákveða hvernig hlutirnir eigi að vera og vill þröngva sínum hugmyndum upp á unga fólkið. Fólk spyr mig gjarnan að því hvort Rómeó og Júlía sé saga sem eigi heima á Íslandi í dag. Mitt svar er að það sé ekki beinlínis hægt að heimfæra söguna í verkinu upp á Ísland, en að ákveðnir þættir í verkinu, ekki síst barátta unga fólksins, eigi brýnt erindi. Verkið fjallar um ungt fólk sem er að reyna að skapa sitt eigið líf, sinn eigin heim, en það er ekki í boði.
12
Ferlið við uppsetninguna hófst á því að í tvær vikur vorum við að spinna og búa til performansa, sem voru hugsaðir sem framlag okkar leikaranna til þess heims sem við vorum að skapa saman. Þessi vinna reyndist mjög gjöful, og er enn að skila sér inn í mótun sýningarinnar. Svo þegar við byrjuðum að fara í gegnum verkið var hver sena ekki æfð mjög oft, miðað við það sem gengur og gerist, ekki nema svona tvisvar, þrisvar. Þess í stað var mikið spjallað saman, til að komast að sameiginlegum skilningi á því hvað væri í gangi í hverri senu og leggja grunn að henni. Ólíkt mörgum leikstjórum kemur Þorleifur ekki inn á æfingu með mótaða hugmynd um hvað hann ætlar að gera. Þess í stað skapar hann ákveðið rými fyrir sameiginlega sköpun og mjög margt verður til, fæðist, á staðnum, byggt á einhverjum impúls leikara eða hugmynd sem einhver í listræna teyminu fær. Þetta er mjög skemmtileg vinnuaðferð. Sem leikari mætir maður kannski á æfingu með ákveðnar hugmyndir um senuna sem á að fara að vinna við og í dagslok er búið að snúa hugmyndum manns alveg á hvolf.“
13
14
15
Frelsis- og uppreisnarsaga Júlíu Viðtal við Þorleif Örn Arnarsson
Sviðsetning þín á Rómeu og Júlíu í Þjóðleikhúsinu nú er þriðja uppsetning þín á þessu leikriti Williams Shakespeares, en áður leikstýrðir þú verkinu í Theater St. Gallen árið 2009 og í Staatstheater Mainz árið 2013. Hvað kallaði á þig að setja verkið upp núna? Sýningin á Rómeó og Júlíu er tólfta uppsetning mín á leikriti eftir Shakespeare og reynslan hefur kennt mér að sum af verkum hans búa yfir svo mikilli dýpt, þar er verið að segja svo stórar sögur, að maður nær á vissan hátt ekki utan um þær þegar maður setur verkið fyrst á svið. Í þessu samhengi er líka áhugavert að hugsa til þess að í öðrum listgreinum, svo sem dansi, tónlist og myndlist, er viðtekið að listafólk haldi áfram að vinna með svipuð þemu í ólíkum verkum. Varðandi þessa nýju uppsetningu á Rómeó og Júlíu myndi ég segja að nálgunin væri dýpri og víðari en í fyrri sýningum mínum á verkinu, og það er í raun ekkert, hvorki í uppsetningarhugmyndum né umgjörð, sem kallast á við fyrri uppsetningarnar. Við stöndum um þessar mundir á ákveðnum tímamótum í sögu samskipta kynjanna, og það kallar á nýjan lestur á leikritinu. Í sögulegu samhengi hefur Rómeó og Júlía verið túlkað út frá ákveðinni menningarlegri réttlætingarþörf á feðraveldinu, og út frá þeim sjónarhóli er þægilegra að skoða verkið sem sögu um ást fremur en sögu um kúgun. Í miðju verksins eru annars vegar Rómeó, ungur maður sem er algerlega týndur í eigin þörfum og frelsi, því að hann má og getur allt, og hins vegar Júlía, ung kona sem er mjög samkvæm sjálfri sér en býr við algert samfélagslegt ófrelsi. Verkið lýsir tilraunum Júlíu til að brjótast undan ofurvaldi ríkjandi menningar, og því sem er ætlast til af henni. Rómeó heldur líka í ferðalag í verkinu, en í hans tilfelli snýst ferðalagið um það að komast út úr þörfum egósins. Þetta endurspeglar vel þá stöðu sem er uppi núna í samskiptum kynjanna og í samfélagsumræðunni. 16
Eitt af því sem dregur mann að tilteknu verki sem leikstjóri er að maður sér fyrir sér að vera með leikhóp sem getur túlkað það með áhrifaríkum hætti. Í þessari uppsetningu skiptir til dæmis miklu máli að hér er komin fram á sjónarsviðið ung leikkona sem ég var frá upphafi sannfærður um að gæti gert þeirri frelsis- og uppreisnarsögu Júlíu skil sem ég tel að forsendur séu fyrir í verkinu en litið hafi verið framhjá í leiklistarsögunni. Viltu segja okkur aðeins frá vinnuaðferðum þínum. Sem leikstjóri leitast ég við að vinna gegn ofríki leikstjórans og skapa andrúmsloft þar sem allt listafólkið, leikarar og listrænir stjórnendur, verður hluti af sköpuninni. Ég vil búa til rými þar sem hver og einn getur skapað á eigin forsendum, innan ramma sem tekur mið af heildinni. Sem dæmi má nefna að við hófum æfingaferli þessarar sýningar á því að leikararnir komu með listaverk úr eigin ranni inn í vinnuferlið og gátu unnið þau áfram í samtali við alla listræna stjórnendur sýningarinnar. Leikararnir hittu hvern og einn úr listræna teyminu og ræddu hugmyndir sínar, og þróuðu á tveggja vikna tímabili performansa sem þeir sýndu á einu kvöldi fyrir alla í hópnum. Performansarnir voru með ýmsu móti, myndbönd, leiknir textar, tónlist o.s.frv. Með því að hefja ferlið með þessum hætti opnum við fyrir það að allir geti komið með sínar hugmyndir að borðinu. Þannig verður til marglaga sýn á söguna og heim verksins í stað þess að sýningin sé byggð á einum huga og einni sýn. Listafólkið fær aukið frelsi til sköpunar, en tekur líka meiri ábyrgð á sýningunni. Auðvitað kem ég líka með mínar hugmyndir og skoðanir að borðinu, en ég lít fyrst og fremst á það sem mitt hlutverk að skapa andrúmsloft þar sem er mögulegt að stækka, víkka og breikka sköpunarferlið - og tvinna svo allt saman í eina stóra heild. Ímynd leikstjórans í gegnum tíðina, sköpuð af karlmönnum, er enn ein birtingarmyndin á ægivaldi hins miðlæga snillings. Hugmyndin um karlsnillinginn er ein af þeim mýtum sem þarf að brjóta upp. En það er eitt að tala um þetta, annað að viðhafa vinnubrögð sem vinna gegn þessu og skapa vinnuumhverfi sem endurspeglar aðra og opnari nálgun. Og að gera það er auðvitað ákveðin listpólitísk nálgun. Mér hefur fundist erfiðara í leikstjórnarverkefnum mínum erlendis að innleiða þessa vinnuaðferð en hér heima, enda er valdapíramídinn þar óhagganlegri en hér. Í hinum þýskumælandi leikhúsheimi er t.d. gjarnan talað um mig sem femínískan leikstjóra.
17
Það væri áhugavert að heyra meira um það hvernig þér hefur þótt ólíkt að vinna hér á Íslandi og til dæmis í Þýskalandi og Austurríki, þar sem þú hefur á undanförnum árum leikstýrt fjölda sýninga samhliða uppsetningum þínum hér heima. Í sögulegu samhengi er nálgun leikarans í Þýskalandi tæknilegri en hér. Þar eru gerðar miklar kröfur um intellektúal nálgun leikara og leikstjóra, sem er á vissan hátt arfleifð hins brechtíska leikhúss og hugmyndarinnar um leikarann og leikhúsið sem samfélagshreyfiafl. Barátta mín þar sem leikstjóra snýst því oft um að fá meira „hjarta“ í nálgunina, draga úr kaldhæðninni. Í þessum samfélögum er líka almennt miklu meira skrifræði ríkjandi og umhverfið er karllægara. Það tók mig ákveðinn tíma innan hins þýskumælandi leikhúss að finna jafnvægi á milli þess sem við getum kallað „intellektúal, konseptlegan ramma“ og þess frelsis sem ég vil vinna með. Eitt af því sem ég hef tekið sérstaklega eftir hér heima er hvað leikararnir búa almennt yfir miklu tilfinninganæmi, hvað þeir eru hugrakkir og tilbúnir að prófa ólíka hluti. Þetta kemur ef til vill til meðal annars vegna þess að hér er sérhæfing leikara minni, þeir fara auðveldlega á milli ólíkra verkefna, drama og gamanleikja, söngleikja og barnaleikrita o.s.frv. Þessi grunnafstaða leikarans, að vera tilbúinn að prófa áður en hann er búinn að ákveða hvort eitthvað virkar eða ekki, er gífurlega mikilvæg og myndar frjótt andrúmsloft fyrir sköpun. Fyrir mér er áhugaverðast að skapa saman, þannig að enginn viti í raun eftir á hvaðan hugmyndirnar komu. Íslenskt leikhús er tengdara við breiðari áhorfendahóp en gengur og gerist úti, og hér er styttra skref úr leikhúsinu inn í samfélagsumræðu. Sköpun er sérstaklega mikilvæg á þeim tímum sem við lifum nú. Þess vegna kallaði Ísland mikið á mig núna, og ég tók þá ákvörðun að beina kröftum mínum í auknum mæli að því að leikstýra á Íslandi. Þú ert hluti af nýju listrænu teymi Þjóðleikhússins, hvaða þýðingu hefur það fyrir þér? Ég hef gert samning við leikhúsið um að starfa hér a.m.k. næstu þrjú árin í hópi listrænna stjórnenda í teymi Magnúsar Geirs þjóðleikhússtjóra. Þess vegna sé ég vinnu mína nú sem upptakt að langtímaverkefni. Ferðalag mitt með listamönnum hússins er rétt að byrja. Við erum byrjuð að leita að sameiginlegu tungumáli, reka okkur á veggi, tala um það og halda áfram. Því sterkari sem listamennirnir eru í þjónustu sinni við listaverkið, og þar af leiðandi leikhúsgesti og samfélagið allt, því meiri möguleikar verða á að ná að skapa ferli sem stækkar listina. Slíkar aðstæður verða ekki til á einni nóttu. Þetta er því fyrsta skrefið af mörgum.
18
Það er mikil tónlist í sýningunni og meðal þátttakenda er tónlistarfólk sem er ákaflega vinsælt hjá ungu fólki, hvers vegna kaustu að fara þá leið? Rómeó og Júlía er saga um ungt fólk og baráttu á milli skilnings og upplifunar ólíkra kynslóða á veruleikanum. Til þess að fá sanna rödd inn í upplifun ungs fólks í sýningunni urðum við að nota tungumál sem talar beint til þess. Tónlist hefur beinan aðgang að tilfinningalífi okkar, ekki síst ungs fólks. Þess vegna leituðum við til listamanna sem hafa verið að tala beint til ungs fólks. Svo skemmtilega vill til að meðal fremstu popptónlistarmanna landsins er frábær leikari, sem sameinaði þetta tvennt.
19
20
21
Þótti Shakespeare vænna um Rómeó en Júlíu? Viðtal við Sölku Valsdóttur
„Þegar ég var fengin í þessa sýningu í upphafi var það verkefni mitt að semja tónlist fyrir persónu Júlíu sérstaklega, þó svo að á endanum hafi ég samið mikið af annarri tónlist, tekið við tónlistarstjórn og pródúserað mikið af tónlistinni. En þessi nálgun í upphafi gerði það að verkum að ég gat horft á söguna allt öðru vísi en þegar maður fær það verkefni að semja tónlist fyrir heila leiksýningu. Ég gat skoðað söguna út frá einum karakter, líkt og leikari sem vinnur út frá sinni persónu. Venjulega býrð þú, sem höfundur tónlistar, ekki við þann lúxus að geta farið svona djúpt inn í persónu – og víkkað svo sjónsviðið út frá henni. Við það að horfa svona náið á eina persónu held ég að það hafið orðið til ákveðin dýpt í nálguninni. Mér fannst mjög áhugavert að lesa þetta leikrit með Júlíu sérstaklega í huga. Tilfinning mín var sú að þegar Shakespeare skrifaði verkið hefði honum staðið nokkuð á sama um þessa persónu, en þótt mun vænna um Rómeó. Mér fannst vera gert lítið úr stríði Júlíu við umheiminn í samanburði við innra stríð Rómeós við sjálfan sig. Þetta kallaðist að mínu mati sterkt á við ákveðna hluti í samtímanum. Á síðustu árum hefur mikið verið talað um mikilvægi þess að karlmenn geti talað um tilfinningar, sem er auðvitað frábært í sjálfu sér, en þetta hefur orðið til þess að það hefur orðið ákveðin upphafning á því þegar karlmenn geta borið kennsl á tilfinningar, nokkuð sem konur hafa alltaf getað gert. Allt í einu er orðið merkilegt að geta skoðað og fjallað um tilfinningar, þegar karlmenn eru farnir að gera það. Rómeó minnir svolítið á ákveðna rapparatýpu sem við þekkjum vel úr popptónlist á Íslandi í dag, svona original sad boy, sem er að veslast upp í þunglyndi yfir sjálfum sér og kannski stelpum, og notar eiturlyf sem sjálfstortímandi aðferð til auðvelda sér að tala um það. Þetta þykir kúl, en það að vinna raunverulega í sjálfum sér þykir ekki kúl. Á sama hátt virðist kona sem er að reyna að berjast gegn kerfisbundnu ofbeldi, í þessu tilfelli Júlía, vera meira boring en ungur strákur, Rómeó, sem hefur fengið allt upp í hendurnar en er að berjast við sjálfan sig.
22
Ferlið við vinnslu þessarar sýningar hefur verið óvenjulegt og áhugavert að mörgu leyti. Mér fannst til dæmis mjög spennandi að í upphafi var lagt upp með að ég væri að vinna að sérstökum tónlistar-
heimi sem myndi svo mæta öðrum tónlistarheimi. Þessir heimar myndu rekast á, það mætti og ætti að gerast. Upphaflega hugmyndin var semsagt að ég myndi semja tónlist fyrir Júlíu og Auðunn fyrir Rómeó, svo komu Ebba og Bjartur inn í það ferli, við Ebba unnum saman og Auðunn og Bjartur. Þessi sérhæfing varð til þess að ég gat gert sértækari hluti, farið inn í niche tónlistarheim eða tónlistarlega afkima. Júlía er eldklár, en innilokuð og vill brjótast út. Þess vegna fannst mér gaman að lögin hennar væru svolítið eins og hún hefði getað gert þau sjálf inni í svefnherberginu sínu. Mín hugmynd var sú að hún væri að reyna að stækka sig í gegnum þessi lög, leita að leið út, í átt að frelsi sem hún svo finnur í sambandinu við Rómeó. Tónlist Júlíu er svo svolítið glitch, popp og raftónlist í senn, unglingaleg, stelpuleg, enda er hún bara 14 ára í verkinu. Tónlist Rómeós er meira emo, sadboy og trap. Þau eru bæði í einhvers konar stríði, hún meira við ytri heiminn, hann meira við innri heiminn, sem getur af sér einhverja unglingalega gremjutónlist. En svo hefur verið gaman að láta þessa tvo heima mætast, þar sem Rómeó og Júlía eru saman á sviðinu, þá skapast eitthvað nýtt sem hvorugt þeirra hefur eitt og sér, rómantískara og mýkra, það verður minni streita í hljóðheiminum. Vinnan við tónlistina hefur svo þróast þannig að ég er farin að semja meira fyrir báða aðila, og sýninguna í heild. Svo kom Bríet líka inn í ferlið nú í haust, hún hefur verið að semja bæði tónlist og texta, og hún sem listamaður hefur líka mikil áhrif á hvernig tónlistin sem hún flytur virkar.“
23
24
25
Mikilvægi þess að hafa tækifæri til að tjá sig Viðtal við Ernesto Camilo Aldazábal Valdés
„Þegar við Rebecca vorum ráðin sem danshöfundar og dansarar fyrir Rómeó og Júlíu sá ég fyrir mér nokkuð hefðbundna Shakespearesýningu. En svo þegar við byrjuðum að vinna áttaði ég mig á því að þetta stefndi í að verða stórsýning með tónlist, dansi og alls konar nýjum hugmyndum. Ég hugsaði með mér að þetta yrði spennandi ævintýri og fór að hlakka til þess að verða þátttakandi í að skapa flotta sýningu – þótt ég vissi ekkert um hvernig þetta myndi þróast, og hvernig yrði að taka svona frægt verk og setja á svið með öllum þessum hugmyndum. Ég varð strax mjög hrifinn af því hvernig Þorleifur vinnur sem leikstjóri. Svona skapandi samvinnuferli, þar sem allur hópurinn fær að skapa og koma með hugmyndir, er nokkuð óvenjulegt í leikhúsinu. Þegar sýningin byrjaði að fæðast og hugmyndirnar að raðast saman sá ég strax að þessi sýning hefði alla burði til að spegla vel þá tíma sem við erum að lifa, ekki síst fyrir ungt fólk. Hún talar sterkt til þeirra sem eru að takast á við erfiða hluti eins og kvíða, ofbeldi, einelti og lágt sjálfsmat, og geta ekki fengið að vera þeir sjálfir vegna þess í hvernig samfélagi þeir búa. Sjálfur kem ég frá Kúbu, landi þar sem ýmis mikilvæg málefni eru tabú og fólk er oft hrætt við að tjá sig. Þess vegna kannski er mér sérstaklega ofarlega í huga hversu mikilvægt er fyrir einstaklinginn að hafa tækifæri til að tjá sig og geta deilt vandamálum sínum með öðrum, og að við séum almennt opin fyrir því að hlusta og finna lausnir í sameiningu.“
26
Sterk, persónuleg tenging við Júlíu Viðtal við Rebeccu Hidalgo
“Ég hef tengt sterkar við þetta leikrit persónulega en ég átti von á. Fjölskylda mín er frá Dómíníska lýðveldinu, þar sem ríkja mjög afgerandi menningarleg gildi. Gerðar eru skýrar kröfur um hvernig ungar stúlkur og konur eigi að vera, hvernig bera eigi skilyrðislausa virðingu fyrir hinum eldri og að ekki megi draga vald þeirra í efa. Ég sjálf gerði uppreisn mjög ung, ögraði gildum fjölskyldu minnar og hennar menningarheims, og hef fundið fyrir mjög sterkri tengingu við persónu Júlíu, hennar aðstæður og innri átök. Ég held að mesti krafturinn í verkinu búi í því hvernig þar er fjallað um kynslóðabilið, átök kynslóðanna og uppreisn ungs fólks gegn óbreyttu ástandi. Skoða má samfélagsstöðu og væntingar ungra stúlkna og kvenna í gegnum þetta verk, og hvernig karlremba hefur slæm áhrif á líf allra, óháð kyni. Áhrif kynjamisréttis og eitraðrar karlmennsku á geðheilsu fólks er nokkuð sem yngri kynslóðir eru mjög meðvitaðar um en þetta er nokkuð sem allar kynslóðir verða að horfast í augu við. Við sjáum líka hvernig eldri kvenpersónurnar í verkinu eru ófærar um að standa með sjálfum sér og Júlíu, vegna þeirra áfalla sem þær hafa orðið fyrir af völdum feðraveldisins. Mér finnst sýningin okkar fjalla mjög skýrt um þetta. Ég hef upplifað mikið frelsi í vinnunni við sýninguna. Stundum fannst mér allt þetta frelsi hálfógnvekjandi, en svo vandist ég því og mér finnst stórkostlegt að vinna á þennan hátt. Í þessari vinnu, þar sem stöðugt er verið að skiptast á hugmyndum og skapa á staðnum, er ekkert rými til að ofhugsa hlutina, sem mér hættir annars svolítið til. Það er mjög gaman að sjá að þótt hlutirnir gerist svona hratt þá verður til ákveðinn strúktur, og svo vinnst tími síðar til að vinna í smáatriðum.”
27
Ég býð leikurunum upp á leikvöll Viðtal við Ilmi Stefánsdóttur
„Við Þorleifur höfum unnið þrisvar sinnum saman áður, að Njálu og Guð blessi Ísland í Borgarleikhúsinu og Týndu óperunni í Þýskalandi, og höfum þróað ákveðnar vinnuaðferðir sem ég hef ákaflega gaman af. Á undirbúningstímanum tölum við mikið saman um hugmyndafræði verksins og sýningarinnar og hendum á milli okkar hugmyndum. Í stað þess að búa til heila leikmynd fyrir sýninguna, eins og yfirleitt er gert, þróa ég áfram það sem ég kalla element, hluti, skúlptúra eða myndir sem birtast og hverfa í sýningunni, koma og fara. Ég læt útbúa og smíða þessi element áður en æfingaferlið hefst. Ég sé yfirleitt fyrir mér fyrirfram hvar, hvernig og í hvaða samhengi megi nota þau, en það breytist oft mjög mikið á æfingatímanum. Við Þorleifur erum allt æfingaferlið að máta þau við sýninguna, prófa hvernig við nýtum þau, púslum þeim saman. Sem dæmi má nefna að í Njálu lét ég smíða risastórt skip sem var ætlað Gunnari, en endaði á að verða skip Hallgerðar. Sömuleiðis var mikið glimmertjald í sýningunni sem ég hafði séð fyrir mér sem vatn, en það breyttist í eld í Njálsbrennu. Aðgreining er mjög sterkur þáttur í leikritinu Rómeó og Júlíu, þar eru ólík öfl að takast harkalega á. Í sýningunni erum við að vinna með þrjú plön; jörðina, himininn og neðanjarðar, en þau mætti líka skoða sem birtingarmyndir móður náttúru, hins guðlega og helvítis. Eitt stærsta og mikilvægasta elementið í sýningunni er moldin sem hylur leiksviðið, og táknar í senn jörðina og móður náttúru. Moldin er bæði fulltrúi lífsins, þess sem fæðist, og dauðans, þess sem deyr. Allt sem kemur svo inn í þennan heim kemur úr loftinu, svífur niður úr himninum, eins og risastóra diskókúlan hennar Júlíu, hennar heimur, sem hefur fengið mikið pláss í sýningunni. Neðanjarðarheimurinn er svo undir leiksviðinu. Návist hinna neðri og efri afla er þannig stöðug. Í vinnunni með Þorleifi hef ég mikið pláss og sterka rödd, og ég hef mikið frelsi til að koma með tillögur og hugmyndir inn í ferlið á 28
æfingatímanum. Segja má að ég bjóði leikurunum upp á leikvöll með áðurnefndum elementum og allskyns hlutum sem ég hef útvegað áður en æfingaferlið hefst. Það hvernig hlutirnir eru svo notaðir er að þróast allt ferlið. Til dæmis erum við með rauða kaðla í sýningunni, sem voru upphaflega hugsaðir fyrir Nínu í hlutverki móður Júlíu, sem vísun í sýningu Vesturports á verkinu á sínum tíma, þar sem hún lék Júlíu. Þessir kaðlar eru nú farnir að standa fyrir höllina og þjóna og útsendara föður Júlíu. Í leikhúsinu eru gerð mörg plön og áætlanir, og flest er yfirleitt skipulagt vel fram í tímann. Í þessari vinnu er meira rými fyrir hið óvænta. Auðvitað er mikilvægt að ég viti vel fyrirfram hvað ég ætla mér að biðja um og vinna með, en um leið krefst þessi vinnuaðferð mikils sveigjanleika af sviðsfólki og öðrum sem vinna að sýningunni. Leikmyndin er notuð á ófyrirsegjanlegan hátt, og ég veit sjálf ekkert hvernig leikmyndin mun líta endanlega út fyrr en á frumsýningu. Það hvernig ég vinn með Þorleifi á í raun margt skylt við það hvernig ég vinn sem myndlistarmaður. Segja má að í þessum sýningum búi ég til innsetningar, rétt eins og í myndlist minni. Sviðið er mitt rými, ég er stöðugt að rannsaka það og skoða hvernig myndir ég get búið til í þessu rými, í samvinnu við annað listafólk í sýningunni.“ 29
30
31
Að þýða harmleik í heimsfaraldri (með besta vini sínum)
Þýðendur verksins taka viðtal hvor við annan Harpa Rún: Hverjar voru hugmyndir þínar um Rómeó & Júlíu áður en við byrjuðum að þýða og hvað breyttist? Jón Magnús: Mínar hugmyndir um Rómeó og Júlíu voru lausmótaðar. Ég hafði séð verkið í Þýskalandi nokkrum árum fyrr en ekki endilega skilið til hlítar. Lesið það hafði ég ekki. Ætli Bubbi hafi ekki komist næst grunnstefinu, svona í minni menningarvitund, og svo sá ég Baz Luhrmann kvikmyndina og þótti hún frábær á sínum tíma. Það var skemmtilega undarlegt að sama dag og ég fékk tilboðið um þýðinguna átti ég bókað flug og þar var sú kvikmynd sú fyrsta sem poppaði upp og þar með var svarið kýrljóst. Það sem hinsvegar breyttist einna helst við lesturinn og svo köfunarferlið í þýðinguna var skilningurinn á aðstæðum Júlíu og þar af leiðandi forsendum þessarar víðfrægu örlagasögu sem svo er byggð á enn eldri sögu. Það má með sanni segja að tímarnir hafi breyst. Og þó... Jón Magnús: Var löng leið fyrir Shakespeare í sveitina og hvernig voru viðtökurnar? Harpa Rún: Gestrisni til sveita er auðvitað rómuð, en ef þú hefðir sagt mér þegar ég var 14 ára og skotin í Leó Dicaprio að ég ætti eftir að þýða Rómeó og Júlíu hefði ég ekki trúað þér. Þegar Shakespeare bankaði fyrst var ég reyndar ekkert viss um að ég ætti að hleypa honum inn, þetta var texti fyrir fullorðin alvöru skáld, karla sem kunnu að ríma og raða höfuðstöfum. En svo hugsaði ég með mér að ef ég tæki ekki slaginn gerði það kannski bara einhver annar. Eða jafnvel ekki, og það væri alveg kominn tími á að kona tækist á við þessa goðsagnakenndu kvenrödd sem Júlía er. Vissulega af því að ég er bókmenntafræðingur og hef velt mér heilmikið upp úr tilfinningum í texta, hvernig taktur og orðalag kveikir hjá okkur ákveðnar tilfinningar, en kannski ennþá frekar því ég var einu sinni fjórtán ára og ástfangin. Eins og við öll.
32
Jón Magnús: Hvernig var að þýða með öðrum og hvernig gekk það ferli fyrir sig? Harpa Rún: Í upphafi hugsaði ég með mér að þetta yrði annað hvort til þess að gera vináttuna okkar sterkari eða rústa henni, en ég held að það hafi sloppið til. Við erum rosalega ólík, bæði sem manneskjur og skáld og vorum lengi búin að tala um að gera eitthvað saman, þótt Stóra sviðið væri kannski bara fjarlægur draumur. Samstarfið litaðist kannski af heimsfaraldri, við unnum meira á netinu og gegnum síma en við héldum í upphafi. Manstu þegar við vorum að tala saman um hvað ætti að vera í matinn og allar setningar voru óvart í sexliðum? Ég held að þýðingin sé sterkari fyrir vikið, því raddirnar okkar eru ólíkar og það skilar sér til persónanna, sem við skiptum gjarnan á milli okkar - með undantekningum þó. Textinn verður miklu blæbrigðaríkari fyrir bragðið, án þess að heildarmyndin bíði skaða, miðað við að stundum erum við efins um hvort okkar á þessa eða hina línuna. Harpa Rún: Hvernig heldurðu að bakgrunnur þinn úr rappi og ljóðaslammi hafi nýst þér við þýðinguna? Jón Magnús: Vel, að ég tel.
33
34
35
Opið vinnuferli Viðtal við Hilmar Guðjónsson
„Þessi sýning er ekki gamla, góða Rómeó og Júlía, þetta er nýja, góða Rómeó og Júlía. Það sem ég á við er að það þýðir ekki að koma í leikhúsið með fyrirfram gefna hugmynd um hvernig leikritið „eigi að vera“. Handritið er breytt, framvindan er ný. Breytingarnar á handritinu hafa orðið til vegna ákveðins ákalls úti í samfélaginu um samfélagsbreytingar, og vegna þess hvernig við viljum tala til samfélagsins í dag. Þetta verk sem byrjar í Veróna á Ítalíu fetar sig, hægt og rólega, til Reykjavíkur í dag. Það hversu galopin nálgun okkar við vinnslu sýningarinnar hefur verið gerði þessa niðurstöðu mögulega. Ef við hefðum ekki farið inn í vinnuna á þann hátt hefðum við kannski ekki getað breytt handritinu. Nú er vika í frumsýningu, og ég veit ekkert hvernig sýningin verður á endanum. En ég hef unnið með leikstjóranum tvisvar áður, og það veitir mér ákveðið öryggi. Ég veit að ég get treyst honum til þess að klippa og líma og reka smiðshöggið á verkið.“
Nýjar hliðar á leikritinu Viðtal við Atla Rafn Sigurðarson
„Það hefur verið margt óvenjulegt við ferli uppsetningarinnar, einkum samt varðandi rúm og tíma. Hvort tveggja bauð upp á tækifæri til að sjá hliðar á leikritinu sem ég hafði ekki komið auga á áður. Í mínum huga er ástarsagan af Rómeó og Júlíu mesti harmleikur sem hefur verið sagður. Parið er fórnarlamb þess þegar fólk vill ekki hlusta og enn síður tala saman. Þess vegna á leikritið erindi á öllum tímum og alls staðar. Ekki síst í dag.“
37
Anna Rún Tryggvadóttir lauk BA-námi við LHÍ árið 2004
og MA-námi frá Concordia háskóla í Kanada árið 2014, og starfar sem myndlistarmaður á Íslandi og í Berlín. Hún hefur sýnt verk sín víða á alþjóðlegum vettvangi. Hún hlaut verðlaun úr listasjóði Guðmundu S. Kristinsdóttur árið 2021, og hélt einkasýningu samfara vinnustofudvöl við Kunstlerhaus Bethanien í Berlín árið 2020. Hún hefur unnið við búninga- og sviðsmyndagerð í leikhúsum víða í Evrópu, m.a. við leikhúsið í St. Gallen og Klosterspiele Wettingen í Swiss, Theater Trier og Staatstheater Karlsruhe í Þýskalandi, hjá Ultima Oslo Contemporary Music Festival í Noregi, í Borgarleikhúsinu og Þjóðleikhúsinu.
Arnar Jónsson útskrifaðist úr Leiklistarskóla Þjóðleikhússins árið
1964. Hann hefur leikið fjölmörg burðarhlutverk við Þjóðleikhúsið og víðar. Meðal verkefna hans hér eru Útsending, Horft frá brúnni, Dagleiðin langa, Lér konungur, Pétur Gautur, M. Butterfly, Ríta gengur menntaveginn, Abel Snorko býr einn, Sjálfstætt fólk (1999 og 2014), Veislan og Jón Gabríel Borkmann. Meðal kvikmynda sem hann hefur leikið í eru Útlaginn, Atómstöðin og Á hjara veraldar. Hann hefur farið með fjölmörg hlutverk í útvarpi og sjónvarpi. Hann hlaut Grímuverðlaunin fyrir túlkun sína á Lé konungi og var tilnefndur fyrir Veisluna.
Atli Rafn Sigurðarson útskrifaðist úr Leiklistarskóla Íslands árið
1997. Hann hefur farið með fjölda hlutverka í Þjóðleikhúsinu, í Borgarleikhúsinu, hjá leikhópum, í sjónvarpi og kvikmyndum. Í vetur leikur hann hér í Framúrskarandi vinkonu og Án titils. Hann leikstýrði Djöflaeyjunni, Heimkomunni og Frida… viva la vida í Þjóðleikhúsinu og Brák á Söguloftinu. Hann var meðal handritshöfunda í Sjálfstæðu fólki og Djöflaeyjunni. Hann hlaut Edduverðlaunin fyrir Mýrina, Grímuna fyrir Lé konung, Menningarverðlaun DV fyrir Engla alheimsins og var tilnefndur til Grímunnar fyrir Engla alheimsins, Grjótharða, Leg, Halldór í Hollywood og Eilífa óhamingju.
Auður er listamannsnafn tónlistarmannsins Auðuns Lútherssonar
sem hefur m.a. sent frá sér plötuna Afsakanir árið 2018 og verkið „ljós“ árið 2020. Hann hefur komið fram á tónlistarhátíðum víða um heim og skrifað undir plötusamning við SONY DK. Lag hans Enginn eins og þú var mest spilaða lag ársins á RÁS2 og Bylgjunni 2019. Hann hefur nokkrum sinnum hlotið Íslensku tónlistarverðlaunin, árið 2020 sem söngvari ársins og flytjandi ársins, og fyrir lag ársins, árið 2019 sem flytjandi ársins og fyrir lag ársins, og árið 2016 sem bjartasta vonin. Hann samdi tónlist fyrir sýninguna Kópavogskróniku í Þjóðleikhúsinu.
38
Björn Bergsteinn Guðmundsson hefur lýst fjölda sýninga
hjá Þjóðleikhúsinu, Borgarleikhúsinu, Íslenska dansflokknum, Leikfélagi Akureyrar, Hafnarfjarðarleikhúsinu, Íslensku óperunni, Badisches Staatstheater og ýmsum leikhópum. Hann hannaði lýsingu í mörgum sýningum þegar hann var fastráðinn í Þjóðleikhúsinu á árunum 1982-2005 og er nú yfirljósahönnuður Þjóðleikhússins. Meðal nýjustu verkefna hans eru Nashyrningarnir og Vertu úlfur í Þjóðleikhúsinu og Ríkharður III og Níu líf í Borgarleikhúsinu. Hann hefur hlotið fjölda viðurkenninga og margoft hlotið Grímuverðlaun fyrir lýsingu ársins, nú síðast fyrir Vertu úlfur.
Bríet Ísis Elfar hefur vakið mikla athygli í íslensku tónlistarlífi á
undanförnum árum. Hún hlaut tilnefningu í sjö flokkum á Íslensku tónlistarverðlaununum árið 2021 og hlaut þrenn verðlaun, fyrir poppplötu ársins, sem textahöfundur ársins og söngkona ársins. Hún hlaut einnig fern verðlaun á Hlustendaverðlaununum. Meðal vinsælustu laga hennar eru Esjan og Rólegur kúreki, sem hefur fengið um tvær milljónir spilana á streymisveitunni Spotify.
Ebba Katrín Finnsdóttir útskrifaðist af leikarabraut Listaháskóla Íslands vorið 2018. Í vetur leikur hún í Jólaboðinu, Ást og upplýsingum og Án titils í Þjóðleikhúsinu. Í Þjóðleikhúsinu hefur hún áður leikið í Atómstöðinni, Meistaranum og Margarítu og Þitt eigið leikrit II -Tímaferðalag. Í Borgarleikhúsinu lék hún í Dúkkuheimili 2. hluta, NÚNA 2019, Hamlet litla og Matthildi. Hún lék í sjónvarpsmyndinni Mannasiðum á RÚV, kvikmyndinni Agnes Joy, þáttaröðinni Venjulegt fólk og Áramótaskaupi sjónvarpsins árin 2019 og 2020. Hún hlaut Grímuverðlaunin fyrir leik í Atómstöðinni og var tilnefnd fyrir Matthildi.
Ernesto Camilo Aldazábal Valdés hefur starfað sem dansari,
danshöfundur og danskennari á Kúbu, Íslandi, í Mexíkó og víðar. Í vetur leikur hann í Sem á himni, Ég get og Kardemommubænum í Þjóðleikhúsinu, en hann kom hér fyrst fram sem dansari í Slá í gegn. Hann nam danslist við EVA og ISA á Kúbu og hefur dansað í fjölda verkefna, meðal annars hjá Íslenska dansflokknum, Danza Espiral, Borgarleikhúsinu og Íslensku óperunni. Hann hefur m.a. kennt dans við Klassíska listdansskólann, Salsa Iceland og Dans fyrir alla. Hann hlaut tilnefningu sem leikari ársins og dansari ársins fyrir verkið Óður og Flexa á Sögum verðlaunahátíð barnanna og var einnig tilnefndur til Grímuverðlaunanna. 39
Hallgrímur Ólafsson útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands árið
2007 og hefur leikið í fjölda sýninga í Þjóðleikhúsinu, hjá Borgarleikhúsinu og Leikfélagi Akureyrar. Í vetur leikur hann hér í Án titils og Kardemommubænum. Hann lék hér m.a. í Atómstöðinni, Slá í gegn, Einræðisherranum, Súper, Samþykki, Risaeðlunum, Djöflaeyjunni, Álfahöllinni, Móðurharðindunum, Hleyptu þeim rétta inn og Leitinni að jólunum. Hjá LR lék hann m.a. í Gauragangi, Fjölskyldunni, Hótel Volkswagen og Gullregni, og hjá LA m.a. í Óvitum og Ökutímum. Meðal verkefna hans í kvikmyndum og sjónvarpi eru Gullregn, Fangavaktin og Stelpurnar. Hann var tilnefndur til Grímunnar fyrir Hotel Volkswagen og Gullregn.
Harpa Rún Kristjánsdóttir starfar við sauðfjárbúskap og
bókaútgáfu. Hún lauk BA-prófi í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands, og MA-prófi árið 2018, og fékkst í kjölfarið við kennslu þar og víðar. Hún hefur starfað við ritstörf, ritstjórn og útgáfu frá árinu 2015, birt fræðigreinar og skrifað pistla fyrir Rás 1. Hún tók þátt í samskotaverkinu Einangrun með Lakehouse hópnum árið 2021. Fyrsta ljóðabók hennar, Edda, hlaut bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar 2019. Ljóð hennar hafa birst í ljósmyndabókum, tímaritum og á listsýningum. Fyrsta skáldsagnaþýðing hennar kom út árið 2021 og hlaut styrk frá Miðstöð íslenskra bókmennta.
Hilmar Guðjónsson útskrifaðist úr leiklistardeild Listaháskóla
Íslands árið 2010. Hann leikur í Upphafi og Ást og upplýsingum í Þjóðleikhúsinu í vetur og leikstýrir Rauðu kápunni í Hádegisleikhúsinu. Hilmar lék í fjölda verkefna í Borgarleikhúsinu, m.a. Helgi Þór rofnar, Ríkharði III, Sendingu, Mávinum, Sölku Völku, Rauðu, Línu Langsokk, Fanný og Alexander og Ofviðrinu. Hann lék í kvikmyndunum Bjarnfreðarson og Á annan veg og sjónvarpsþáttunum Fólkið í blokkinni, Drekasvæðinu, Stellu Blómkvist og Venjulegu fólki. Hann var valinn í hóp efnilegustu leikara Evrópu, Shooting Stars. Hann hlaut Grímuverðlaunin fyrir Rautt og var tilnefndur til Edduverðlaunanna fyrir Á annan veg.
40
Hrafnhildur Hagalín hefur starfað sem leikskáld, þýðandi og
dramatúrg um árabil. Verk hennar eru m.a. Ég er meistarinn, Hægan, Elektra, Norður, Flóð, Sek, auk útvarpsverka, leikgerða og fjölda þýðinga. Hún hefur verið dramatúrg í mörgum sýningum undanfarin ár, m.a. Dúkkuheimili, Medeu, Ríkharði III, Flóði og Vertu úlfur. Hrafnhildur hefur hlotið margvísleg verðlaun og viðurkenningar, m.a. Leikskáldaverðlaun Norðurlanda, Norrænu útvarpsleikhúsverðlaunin, Menningarverðlaun DV, Grímuverðlaunin og Rithöfundaverðlaun RÚV. Hún var listrænn ráðunautur í Borgarleikhúsinu 2014 -2020 og starfar nú sem listrænn ráðunautur og staðgengill leikhússtjóra í Þjóðleikhúsinu.
Ilmur Stefánsdóttir útskrifaðist úr Myndlista- og handíðaskóla
Íslands árið 1995 og lauk mastersnámi í myndlist við Goldsmiths College árið 2000. Hún hefur haldið fjölda einka- og samsýninga og lagt stund á gjörningalist hérlendis og erlendis. Hún hefur hannað leikmyndir og búninga fyrir fjölda sýninga í Þjóðleikhúsinu, Borgarleikhúsinu og víðar. Hún er hluti af listrænu teymi Þjóðleikhússins og í vetur gerir hún hér leikmynd fyrir Framúrskarandi vinkonu og Sem á himni. Hún er einn stofnenda CommonNonsense hópsins. Hún hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir myndlist og störf í leikhúsi, m.a. Grímuverðlaunin fyrir Ríkharð lll, Bláa hnöttinn, Njálu, Dúkkuheimili og Hreinsun.
Jón Magnús Arnarsson útskrifaðist úr leikaradeild The
Commedia School í Kaupmannahöfn árið 2013. Hann skrifaði og lék tvo einleiki sem fluttir voru á Act Alone einleikjahátíðinni á Suðureyri. Hann er einn af stofnendum hópsins Golden Gang Comedy sem staðið hefur fyrir uppistandi í Reykjavík um fimm ára skeið. Hann var einn af forsvarsmönnum fjöllistahátíðarinnar Reykjavík Fringe Festival. Hann er fyrrum Íslandsmeistari í ljóðaslammi (poetry slam) og tekur þátt í virtum alþjóðakeppnum í þeirri list. Einnig rappaði hann árum saman undir listamannsnafninu Vivid Brain. Fyrsta leikrit hans, Tvískinnungur, var frumsýnt í Borgarleikhúsinu árið 2018.
41
42
43
Jónmundur Grétarsson útskrifaðist úr leiklistardeild Academy
of Art University í San Francisco vorið 2014. Í vetur leikur hann í Án titils í Þjóðleikhúsinu og vinnur bæði að nýrri leikgerð af Íslandsklukkunni með leikhópnum Elefant og leikgerð sem er byggð á sögum nokkurra einstaklinga sem ættleiddir hafa verið til Íslands. Í Þjóðleikhúsinu hefur hann áður leikið í Latabæ, Karitas og Smán, sem sýnt var í samstarfi við Elefant. Hann hefur m.a. leikið í Bugsy Malone, Pétur Pan, Buddy Holly, Þjóni í súpunni og Independent party people. Hann lék í kvikmyndunum The Way of The Wind, Pity the Lovers og Berdreymi og sjónvarpsþáttaröðunum Ófærð II, Rétti III og Systraböndum.
Kristinn Gauti Einarsson lauk slagverksnámi við Tónlistarskóla
FÍH vorið 2012. Hann hefur starfað sem hljóðmaður við Þjóðleikhúsið frá árinu 2007 og var fastráðinn hér sem hljóðhönnuður haustið 2011. Hann er deildarstjóri hljóðdeildar og hefur séð um hljóðhönnun og gert hljóðmynd fyrir fjölda sýninga í Þjóðleikhúsinu. Einnig hefur hann samið tónlist fyrir nokkrar barnasýningar. Hann hlaut Grímuverðlaunin fyrir hljóðmynd í Macbeth ásamt Oren Ambarchi og fyrir hljóðmynd í Litla prinsinum ásamt Völu Gestsdóttur, og var tilnefndur til sömu verðlauna fyrir Tímaþjófinn, Dýrin í Hálsaskógi, Í hjarta Hróa hattar, Um það bil og, ásamt Elvari Geir Sævarssyni, fyrir Þitt eigið leikrit – Goðsaga.
Nanna MBS útskrifaðist frá OCAD University í Toronto í Kanada árið 2018 og hlaut þar heiðursverðlaun Integrated Media-brautarinnar fyrir lokaverkefni sitt. Hún starfar sem margmiðlunarlistamaður í Berlín, Toronto og á Íslandi. Hún hefur unnið við myndbandshönnun í leikhúsum víða um Evrópu, m.a. með Þorleifi Erni Arnarssyni við uppsetningu verka í Þjóðleikhúsinu í Ósló og Volksbühne í Berlín. Hún hefur síðastliðin ár unnið við leikmyndagerð fyrir kvikmyndir auk þess að vera sjálfstætt starfandi listamaður.
Nína Dögg Filippusdóttir útskrifaðist úr leiklistardeild Lista-
háskóla Íslands árið 2001 og hefur leikið fjölda hlutverka á sviði, í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Hún er jafnframt handritshöfundur og kvikmyndaframleiðandi. Hún leikur í Jólaboðinu og Ást og upplýsingum í Þjóðleikhúsinu í vetur. Hér hefur hún m.a. farið með burðarhlutverk í Óþelló, Tímaþjófnum, Sporvagninum Girnd og Fjalla-Eyvindi, og í Borgarleikhúsinu í Fólk staðir hlutir og Fjölskyldunni. Meðal kvikmynda og sjónvarpsþátta sem hún hefur leikið í eru Brot, Hafið, Börn, Foreldrar, Fangar og Ófærð. Hún hlaut Grímuverðlaunin fyrir Fólk staðir hlutir og Edduverðlaunin fyrir Hjartastein. 44
Ólafía Hrönn Jónsdóttir útskrifaðist úr Leiklistarskóla Íslands
árið 1987. Hún hefur leikið fjölda hlutverka á sviði og í kvikmyndum og komið fram sem tónlistarmaður. Í Þjóðleikhúsinu í vetur leikur hún í Jólaboðinu, Sjö ævintýrum um skömm og Kardemommubænum. Af verkefnum hennar hér má nefna Einræðisherrann, Lé konung, Utan gátta, Taktu lagið, Lóa!, Sjálfstætt fólk og Pétur Gaut. Meðal verkefna hennar í Borgarleikhúsinu eru Beðið eftir Godot og Hannes og Smári. Hún hlaut Grímuverðlaunin fyrir Heimsljós og Pétur Gaut og var tilnefnd fyrir Beðið eftir Godot, Lé konung, Utan gátta, Ívanov, Sólarferð, Stórfengleg og Þetta er allt að koma. Hún hlaut Edduverðlaunin fyrir Brúðgumann.
Rebecca Hidalgo er frá New York og starfar sem dansari, dans-
höfundur, tónlistarflytjandi, tónskáld, leikari, sirkuslistamaður, myndbandshöfundur og fæst við fleiri listgreinar. Hún lauk BFA-námi í leiklist við NYU Tisch School of the Arts árið 2015 og hefur tekið þátt í fjölda sýninga í New York og Reykjavík. Hún tekur þátt í Kardemommubænum hér í Þjóðleikhúsinu í vetur. Hún hefur samið og framleitt þrjár margmiðlunar-dansleikhússýningar. Hún var danshöfundur í Fame/Feim og aðstoðardanshöfundur og dansstjóri í We Will Rock You og hefur kennt dans við ýmsa skóla í Reykjavík. Hún er einnig þekkt sem tónlistarmaður undir listamannsnafninu Ondina.
Salka Valsdóttir hefur starfað við tónlistarsköpun og hljóðvinnslu
frá árinu 2013. Hún hefur unnið með Reykjavíkurdætrum sem rappari, taktsmiður, upptökustjóri og hljóðmaður, en hljómsveitin hefur spilað víða um heim og m.a. hlotið MME verðlaunin og verðlaun Jónasar Hallgrímssonar. Í leiksýningu Reykjavíkurdætra í Borgarleikhúsinu kom hún að skrifum og sá um tónlist. Hún starfar með hljómsveitinni Cyber sem hefur m.a. hlotið Kraumsverðlaunin og Íslensku tónlistarverðlaunin. Hún hefur unnið við hljóðblöndun og upptökustjórn í stúdíóum í Berlín og hannað hljóðmynd við leiksýningar í Volksbühne. Hún stýrði tónlist og hannaði hljóðmynd í The Last Kvöldmáltíð í Tjarnarbíói.
45
Signý Rós Ólafsdóttir útskrifaðist úr handrita- og leikstjórnar-
deild Kvikmyndaskóla Íslands vorið 2019. Hún var aðstoðarmaður leikstjóra í Vertu úlfur í Þjóðleikhúsinu. Hún hefur meðal annars unnið fyrir KrakkaRúv, sem tökumaður, klippari og handritshöfundur. Hún hefur skrifað, framleitt og leikstýrt fjölda stuttmynda sem hafa verið sýndar í sjónvarpi og á hátíðum víða um heim og unnið til verðlauna. Sömuleiðis framleitt, skrifað og leikstýrt tónlistarmyndböndum, heimildarmyndum og kynningarmyndböndum, til dæmis fyrir Blátt áfram, ADHD samtökin og Geðhjálp.
Sigurbjartur Sturla Atlason útskrifaðist af leikarabraut LHÍ árið
2016. Í vetur leikur hann í Framúrskarandi vinkonu og Sem á himni í Þjóðleikhúsinu. Meðal kvikmynda og sjónvarpssería sem hann hefur leikið í eru Ófærð 2 og Lof mér að falla. Hann hefur leikið í þremur uppfærslum Íslensku óperunnar. Hann leikstýrði Gíslasögu Súrssonar og Rómeó og Júlíu á Herranótt, og net- og sjónvarpsseríum fyrir Stöð 2 og vefmiðilinn 101.live. Hann hefur getið sér orð sem tónlistarmaður undir listamannsnafninu Sturla Atlas, gefið út plötur og tónlistarmyndbönd og komið fram víðsvegar á tónlistarhátíðum. Hann var útnefndur bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum árið 2016.
Sigurður Sigurjónsson lauk prófi við Leiklistarskóla Íslands
árið 1976. Hann hefur farið með fjöldamörg veigamikil hlutverk í Þjóðleikhúsinu og víðar, kvikmyndum og sjónvarpi. Í vetur leikur hann í Út að borða með Ester og Framúrskarandi vinkonu í Þjóðleikhúsinu. Meðal fyrri verkefna hér eru Einræðisherrann, Maður sem heitir Ove, Amadeus, Bílaverkstæði Badda, Gauragangur, Don Juan og Villiöndin. Meðal leikstjórnarverkefna hans eru Hafið, Gamansami harmleikurinn, Maður í mislitum sokkum, Glanni glæpur, Dýrin í Hálsaskógi og Sitji guðs englar í Þjóðleikhúsinu. Hann hlaut Edduverðlaunin fyrir Undir trénu og Hrúta og var tilnefndur til Grímunnar fyrir Maður sem heitir Ove.
Urður Hákonardóttir á að baki langan feril sem tónlistarkona.
Hún var um árabil söngkona og lagahöfundur hljómsveitarinnar Gus Gus. Hún hefur starfað með mörgum virtum tónlistarmönnum víðsvegar um heim, má þar nefna Darren Emerson, Booka Shade, Khan of Finland, Kasper Bjørke og Aaron Carl. Hún hefur starfað sem stílisti og búningahönnuður fyrir tónlistarmyndbönd, leikhús og sjónvarp. Árið 2014 samdi hún og flutti sviðsverkið Óraunveruleikir ásamt öðrum í Þjóðleikhúsinu og var fyrir það tilnefnd til Grímuverðlaunanna. Undanfarið hefur Urður sinnt tónlistarstörfum, þróun og handritsskrifum fyrir sjónvarp og búningahönnun. 46
Þorleifur Örn Arnarsson útskrifaðist úr leiklistardeild LHÍ árið
2003 og lauk námi í leikstjórn við Ernst Busch leiklistarháskólann í Berlín árið 2009. Hann hefur sett upp fjölda leiksýninga og ópera á Íslandi, í Þýskalandi og víðar. Hann var um hríð yfirmaður leiklistarmála hjá Volksbühne í Berlín. Hann er í listrænu teymi Þjóðleikhússins og leikstýrir tveimur sýningum hér í vetur. Áður leikstýrði hann hér Englum alheimsins, Álfahöllinni og Sjálfstæðu fólki. Í Borgarleikhúsinu leikstýrði hann Njálu og Guð blessi Ísland. Hann hlaut þýsku leiklistarverðlaunin Fástinn fyrir Eddu og Nachtkritik-Theatertreffen verðlaunin fyrir Pétur Gaut. Hann hlaut Grímuverðlaunin fyrir Engla alheimsins og Njála hlaut tíu Grímuverðlaun.
Örn Árnason lauk námi við Leiklistarskóla Íslands árið 1982.
Hann er fastráðinn leikari við Þjóðleikhúsið en var um árabil sjálfstætt starfandi sem leikari, framleiðandi, leikstjóri og höfundur. Í vetur leikur hann í Þjóðleikhúsinu í Sem á himni, Kardemommubænum, Nashyrningunum og einleik sínum Sjitt, ég er sextugur. Örn hefur talsett fjölda teiknimynda og unnið við sjónvarpsþáttagerð. Má þar nefna þættina um Afa, Imbakassann og Spaugstofuna. Hann var meðal höfunda og leikara í verkinu Harry og Heimir, sem byrjaði sem útvarpsþættir, varð leiksýning og loks kvikmynd.
47
Frumsýning 17. september
48
Starfsfólk Þjóðleikhússins Magnús Geir Þórðarson, þjóðleikhússtjóri Steinunn Þórhallsdóttir, framkvæmdastjóri Hrafnhildur Hagalín, listrænn ráðunautur, staðgengill leikhússtjóra Melkorka Tekla Ólafsdóttir, leiklistarráðunautur Tinna Lind Gunnarsdóttir, forstöðumaður skipulags, framleiðslu og ferla Aðalheiður Arna Rafnsdóttir, fjármálastjóri Jón Þorgeir Kristjánsson, forstöðumaður samskipta, markaðsmála og upplifunar Sváfnir Sigurðarson, markaðsfulltrúi Hans Kragh, þjónustustjóri Björn Ingi Hilmarsson, verkefnastjóri nýrra leikhúsgesta Björn Bergsteinn Guðmundsson, yfirljósahönnuður Gréta Kristín Ómarsdóttir, listrænn stjórnandi Kjallarans og Loftsins Ilmur Stefánsdóttir, leikmynda- og búningahöfundur Ólafur Egill Egilsson, leikstjóri og höfundur Unnur Ösp Stefánsdóttir, leikstjóri og höfundur Þorleifur Örn Arnarsson, leikstjóri og höfundur
Leikarar Almar Blær Sigurjónsson Atli Rafn Sigurðarson Baldur Trausti Hreinsson Birgitta Birgisdóttir Bjarni Snæbjörnsson Björn Thors Ebba Katrín Finnsdóttir Edda Arnljótsdóttir Edda Björgvinsdóttir Eggert Þorleifsson Guðjón Davíð Karlsson Guðrún Snæfríður Gísladóttir Gunnar Smári Jóhannesson Hallgrímur Ólafsson Hákon Jóhannesson Hildur Vala Baldursdóttir Hilmar Guðjónsson Hilmir Snær Guðnason Ilmur Kristjánsdóttir Katrín Halldóra Sigurðardóttir Kjartan Darri Kristjánsson Kristín Þóra Haraldsdóttir Nína Dögg Filippusdóttir Oddur Júlíusson Ólafía Hrönn Jónsdóttir Pálmi Gestsson Ragnheiður K. Steindórsdóttir Sigríður Eyrún Friðriksdóttir Sigurbjartur Sturla Atlason Sigurður Sigurjónsson Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir Unnur Ösp Stefánsdóttir Valgerður Guðnadóttir Vigdís Hrefna Pálsdóttir Þröstur Leó Gunnarsson Örn Árnason Sýningarstjórn Elín Smáradóttir Kristín Hauksdóttir María Dís Cilia
Leikgervi Ingibjörg G. Huldarsdóttir, deildarstjóri Hildur Ingadóttir Silfá Auðunsdóttir Valdís Karen Smáradóttir Þóra Guðbjörg Benediktsdóttir Búningar Berglind Einarsdóttir, deildarstjóri Ásdís Guðný Guðmundsdóttir Hjördís Sigurbjörnsdóttir Hólmfríður Berglind Birgisdóttir Ingveldur E. Breiðfjörð Leila Arge Þórhildur Sunna Jóhannsdóttir Hljóð Kristinn Gauti Einarsson, deildarstjóri Aron Þór Arnarsson Elvar Geir Sævarsson Kristján Sigmundur Einarsson Ljós Halldór Örn Óskarsson, deildarstjóri Jóhann Bjarni Pálmason Jóhann Friðrik Ágústsson Ólafur Ágúst Stefánsson Leikmunir Trygve Jónas Eliassen, deildarstjóri Ásta Sigríður Jónsdóttir Halldór Sturluson Mathilde Anne Morant Valur Hreggviðsson Leikmyndarsmíði Hildur Evlalía Unnarsdóttir, teymisstjóri Michael John Bown, yfirsmiður Arturs Zorģis Haraldur Levi Jónsson
Svið Ásdís Þórhallsdóttir, sviðsstjóri Guðmundur Erlingsson, umsjón minni sviða Alexander John George Hatfield Jón Stefán Sigurðsson Jasper Bock Siobhán Antoinette Henry Upplifun, þjónusta, miðasala og móttaka Friðdóra Haukdal Magnúsdóttir, miðasölustjóri Erna María Rafnsdóttir Halla R. H. Kristínardóttir Júlíana Kristín Jóhannsdóttir Kolka Heimisdóttir Ragnheiður Ólafsdóttir Bókhald og laun Guðrún Ingólfsdóttir, bókhaldari Steinunn Þorsteinsdóttir, launafulltrúi Eldhús Óðinn S. Ágústsson, forstöðumaður Ina Selevska, aðstoðarmaður Umsjón fasteigna Eiríkur Böðvarsson, húsvörður Helga Einarsdóttir, ræsting Jurate Zofija Gliaudeliene, ræsting Margarita Albina, ræsting Davíð Gunnarsson, bakdyravörður Gautur A. Guðjónsson, bakdyravörður
Ofangreindir starfsmenn eru fastráðnir við Þjóðleikhúsið eða starfa þar samkvæmt árssamningi á yfirstandandi leikári, en auk þeirra vinna fjölmargir aðrir starfsmenn í leikhúsinu.
Þjóðleikhúsráð Halldór Guðmundsson, formaður Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir Kolbrún Halldórsdóttir Sjón - Sigurjón Birgir Sigurðsson Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir
Þjóðleikhúsið er sameign íslensku þjóðarinnar. Í yfir sjötíu ár hefur leikhúsið skapað ógleymanlega leikhústöfra. Árlega setur leikhúsið upp fjölda nýrra sýninga, stendur fyrir fræðslustarfi, nýsköpun og tilraunastarfsemi, heldur í leikferðir um landið og sinnir höfundastarfi.
49
50
51
Miðasölusími: 551 1200 Netfang miðasölu: midasala@leikhusid.is www.leikhusid.is
52