3 minute read

Nýjar slökkvibifreiðar fyrir jarðgöng

Slökkvilið Akureyrar og Brunavarnir Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar hafa nýverið fengið afhentar sitt hvora slökkvibifreiðina, sérhannaðar fyrir jarðgöng. Hér eru nokkrir punktar um ferlið og búnaðinn. Eftir nokkuð langan undirbúning slökkviliðanna og viðræður við Vegagerðina og Vaðlaheiðargöng var niðurstaðan sú að bæta þyrfti búnað slökkviliðanna til að hægt yrði að senda slökkviliðsmenn með öruggum hætti inn í göngin ef eldur kæmi þar upp. Markmið vinnunnar var að kaupa slökkvibifreiðar útbúnar með öflugum slökkvibúnaði fyrir eld í bifreiðum, tryggu öndunarlofti fyrir áhöfn og innrauða hitamyndavél með skjá til að geta ekið með öruggum hætti í reykfylltu rými. Bifreiðarnar þyrftu einnig að geta tekið fimm menn í áhöfn en vera samt sem áður það liprar að hægt væri með góðu móti að snúa við hvar sem er á tveimur akreinum í jarðgöngum. Dælubúnaður skyldi vera knúinn af aflvél bílsins sem þyrfti að vera með drif á öllum hjólum, sídrifinn, læsanlegur og sjálfskiptur.

Ferlið

Advertisement

Leitað var til nokkurra söluaðila eftir tilboðum í bíla sem uppfylltu þarfirnar, en að lokum var einungis einn framleiðandi sem kom til greina. Því var gengið til samninga við BMT í Hollandi um smíði bílanna. Daníel Halldórsson Apeland hjá „DAGA Fire & Rescue ehf.“ hafði svo umsjón með verkinu í umboði BMT. Við val á undirvagni komu helst til greina Iveco og Bens. Iveco Daily varð fyrir valinu þar sem þeir gátu boðið bíl sem uppfyllti öll skilyrðin án breytinga. BMT smíðuðu yfirbygginguna og settu bílinn saman og gerðu það með miklum ágætum. Allur frágangur er til fyrirmyndar og allt hannað með það fyrir augum að bílarnir séu sem notendavænstir og öruggir í akstri.

Helstu upplýsingar um bílana

Undirvagn: Iveco Daily 180 4x4 sjálfskiptur með aflúrtaki á millikassa, sídrifi, 100% læsingum að aftan og framan, lágu drifi, 8 gíra alsjálfskiptan kassa. Bílarnir eru afgreiddir á einföldum burðardekkjum af sömu stærð að aftan og framan. Bílarnir eru yfirbyggðir með fimm skápum með rúlluhurðum, 800 lítra vatnstanki, 40 lítra froðutanki, One Seven 1300B kerfi með eitt úttak fyrir slöngu og 60 metra handlínu á kefli auk skynjara á stuðara með fjarstýringu fyrir ökumann, IR vél á stuðara og skjá fyrir ökumann, mannskapshús fyrir þrjá reykkafara og 11 þúsund lítra loftbanka sem allir í áhöfn geta tengt sig við á meðan

setið er í bílnum. Ljósamastur og 9 metra stigi er á þaki. Þá er bíllinn búinn klippum, glennum og tjakk með rafhlöðum og hleðslutækjum, rafhlöðuknúnum handverkfærum og öðrum björgunarbúnaði. Í bílnum er handljós með hleðslutengi og hleðslutæki fyrir allar talstöðvar. Í bílnum eru líka IR handvélar í hleðsludokku og glæsileg tölva með snertiskjá í statífi milli framsæta. Engin fyrirmynd var til af slíkum bílum sem vitað er um og því er í raun um nýjung að ræða. Töluverður áhugi hefur verið hjá slökkviliðum á Norðurlöndunum, sérstaklega í Noregi, á bílunum og hvernig þeir muni koma út í vinnu í jarðgöngum. Það er mín trú að svona tæki geti verið gott verkfæri fyrir marga sem hafa umsjón með jarðgöngum en einnig til að takast á við umferðaslys og íbúðabruna, sérstaklega þar sem fáir eru á vakt hverju sinni. Það má ekki gleymast að ekki er nóg að koma með öll tækin og tólin á staðinn í fyrsta viðbragði ef ekki er til staðar mannskapur til að nota þau. Hugsunin á bak við þessa léttbyggðu bíla er að hefja fyrstu aðgerðir sem allra fyrst.

Síðan komi stærri tæki með meiri mannskap þegar kallað hefur verið út. Eins og með margar nýjungar þá er eitt að sjá fyrir sér hvernig nálgast megi verkefni með nýjum hætti en svo veltur það á okkur notendunum hvort vel tekst til með að innleiða breytinguna. Því verður spennandi að sjá á næstu misserum hvernig bílarnir reynast þegar þeir verða notaðir í fyrstu verkefnin.

Ólafur Stefánsson

slökkviliðsstjóri slökkviliðs Akureyrar

This article is from: