2 minute read

Flugvallarslökkvilið

Miklar breytingar hafa orðið síðastliðin 10 ár á Reykjavíkurflugvelli frá því að slökkvilið SHS fór frá vellinum og starfandi slökkviliðsmenn á Keflavíkurflugvelli tóku við. Völlurinn er núna skilgreindur sem millilandaflugvöllur og fylgja slíkri vottun miklar kröfur. Þeim kröfum ber flugvallarstarfsmönnum að fylgja og sjá til þess að aðrir framfylgi þeim. Vegna endurnýjunar á vélum AIC var slökkviflokkur vallarins hækkaður í CAT 6 en AIC innleiddi meðal annars stærri vélar (Q400). Hærri slökkviflokkur kallar á aukinn slökkvimátt og hafa slökkvibílar verið endurnýjaðir í samræmi við þær kröfur. Á vellinum eru núna tveir bílar frá WISS, annar 6 þúsund lítra en hinn 10 þúsund lítra. Báðir bílarnir eru með svokölluðum „pump and roll“ búnaði sem gerir okkur kleift að hefja dælingu á ferð. Í þeim eru þak- og stuðarabyssa, árásarlínur, 250 kg dufttæki, léttvatn, booster-lína ásamt því að hægt er að nota CAVS stillingu en með henni er hægt að veggfóðra lóðrétta fleti með léttvatni. Flugvöllurinn gegnir einnig því hlutverki að vera varaflugvöllur fyrir Keflavíkurflugvöll. Mikið samstarf er á milli flugvallarstarfsmanna og Icelandair vegna þessa fyrirkomulags en völlurinn þarf að vera klár um leið og Ameríkuvélar félagsins koma inn á morgnana. Jákvæð viðhorfsbreyting hefur orðið hjá Isavia varðandi heilsu starfsfólks, þjálfun og kennslu í slökkvifræðum, meðferð flugvélaelda og síþjálfun til að tryggja sem best öryggi flugfarþega. Hefur Isavia m.a. staðið fyrir námskeiðum á Kastrup flugvelli í Danmörku en þar fer fram þjálfun sem er sérsniðin að flugvélaeldum og hafa starfsmenn um land allt sótt það námskeið. Í því samhengi verður að minnast á að flugvallarstarfsmenn hafa miklar áhyggjur af framtíð æfingasvæðis síns á vellinum en Reykjavíkurborg hyggst byggja á því svæði þar sem núverandi æfingasvæði er. Reykjavíkurflugvelli er þröngur stakkur sniðinn og því ekkert annað svæði á vellinum sem hentar undir t.a.m. æfingar með eld. Óttast flugvallarstarfsmenn að þetta muni hafa neikvæð áhrif á tíðni og gæði slökkviæfinga þeirra ásamt öryggi þeirra sem um völlinn fara.

Advertisement

Verkefni flugvallarstarfsmanna á Reykjavíkurflugvelli eru meðal annars:

1. Slökkvistörf 2. Öryggiseftirlit 3. Snjóhreinsanir, hálkuvarnir og bremsumælingar 4. Fuglafæling og dýralífsstjórnun ásamt búsvæðastjórnun 5. Flugvernd þar sem lestarfarangur er skimaður ásamt frakt og handleit á starfsfólki og eftirlit á haftasvæði á millilandafarþegaflugi 6. Þjálfun og viðbrögð á björgunarbát, en í Nauthólsvík er björgunarbáturinn sem er fyrsta viðbragð við flugslysi á sjó 7. Á tímabilinu hafa starfsmenn einnig tekið að sér flugupplýsingaþjónustu (AFIS) á Reykjavíkurflugvelli utan þjónustutíma vallarins 8. Eftirlit með umferð um völlinn, ástand mannvirkja og búnaðar ásamt aðgangsstýringarpunktum 9. Ýmis konar viðhald og garðsláttur Á heildina litið er starf flugvallarstarfsfólks fjölhæft, krefjandi og ábyrgðarfullt starf.

Eggert Karvelsson, Jónas Pétursson

slökkviliðsmenn og flugvallarstarfsmenn hjá Slökkviliðinu á Reykjavíkurflugvelli.

This article is from: