2 minute read
Endurmat á störfum viðbragðsaðila
Á síðustu misserum hefur LSS markvisst verið að ná til ólíkra markhópa innan félagsins og samræmt aðgerðir þannig að allir upplifi sig velkomna í félagið. Með því er tryggt að félagsmenn LSS sem gegna mismunandi störfum séu með svipaðar væntingar til þjónustu félagsins hvort sem um ræðir kjaramál eða önnur mál því tengd.
Með tilkomu reglugerðar 747/2018 um starfsemi slökkviliða mun 14. kafli kjarasamnings LSS og SNS um hlutastarfandi slökkviliðsmenn, sjúkraflutningamenn og stjórnendur slökkviliða detta út úr kjarasamningum og launaröðun þessara starfsmanna taka mið að útkomu þeirra í sameiginlegu matskerfi á vegum verkefnaskrifstofu sveitarfélaga sem heitir Starfsmat. Þá er starfið metið út frá þeim starfslýsingum sem liggja fyrir um störfin auk þess sem starfsmenn sem sinna þessum störfum eru látnir svara ítarlegum spurningalista þannig að þær skyldur og ábyrgð sem fylgir starfinu eru dregnar fram og metnar til launa.
Advertisement
Um starfsmatið
Starfsmatskerfið er greiningartæki sem er notað til að meta með kerfisbundnum hætti þær kröfur sem störf gera til starfsmanna. Kerfið byggir á hlutlægum viðmiðum sem notuð eru til að bera saman störf í samræmi við þær kröfur sem í störfunum felast, óháð hæfni þeirra sem þau vinna. Starfsmatið er aðferð til að leggja samræmt mat á ólík störf, aðferð til að gera forsendur launaákvarðana sýnilegri, aðferð til þess að gera rökin á bak við launaákvarðanir skýrari og leið til að ákvarða sömu laun fyrir sambærileg eða jafn verðmæt störf. Starfsmatið er hins vegar ekki mat á persónulegri hæfni starfsmanna í starfi, mat á árangri starfsmanna í starfi eða mat á frammistöðu starfsmanna í starfi. Þegar búið er að meta störf einu sinni á að endurmeta þau störf á fimm ára fresti.
Næstu skref
Verkefnaskrifstofa Starfsmats er nú að endurmeta níu störf sem LSS skilaði inn nýverið.
Þau eru:
• slökkviliðsmaður með fornám • slökkviliðsmaður með löggildingu • aðstoðarvarðstjóri slökkviliða • varðstjóri slökkviliða • sjúkraflutningamaður basic • sjúkraflutningamaður advanced • deildarstjóri með mannaforráð • varaslökkviliðsstjóri • slökkviliðsstjóri Mat á þessum störfum mun liggja fyrir á næstunni og koma í staðinn fyrir núverandi launaröðun á ákveðnum tímapunkti. Stjórnendur slökkviliða nýta niðurstöðurnar í sinni kjarabaráttu við gerð nýs kjarasamnings. Stefnt er á að kjarasamningur þeirra liggi fyrir í byrjun september á þessu ári. Síðar á árinu verður farið í að endurmeta þau átta störf sem eftir eru og liggur fyrir að nokkur vinna er framundan hjá LSS í þeim málum. Félagsmenn LSS hafa fram að þessu ekki látið sitt eftir liggja og tekið þátt af fullum þunga þegar eftir því hefur verið óskað og viljum við koma miklu þakklæti á framfæri til þeirra sem leggja sitt af mörkum til að efla og bæta hag félagsmanna LSS. Einn sem allir, allir sem einn!
Kveðja
Hermann Sigurðsson
framkvæmdastjóri LSS