8 minute read

eða við inntöku í nám

Hvar sérðu þig eftir fimm ár?

Stöðluð spurning í atvinnuviðtali eða við inntöku í nám

Advertisement

Hvar sérðu þig eftir fimm ár? Hvernig á ég að geta svarað þessu. Ég hef aldrei áður verið meira en þrjú ár í sama starfi. Hvernig á ég mögulega að geta vitað hvar ég verð eftir fimm ár? Eftir þrjá mánuði verð ég samt búinn að vera samfellt fimm ár í sama starfi sem yfirlæknir bráðaþjónustu utan sjúkrahúsa og sérfræðingur í svæfingum og gjörgæslu á Landspítala háskólasjúkrahúsi. Ég hafði gegnt þessu yfirlæknisstarfi í þrjú ár áður samhliða starfi sérfræðilæknis á bráðamóttöku Landspítalans, svo flutti ég mig upp á svæfinga- og gjörgæsludeild LSH til þess að vinna við mína sérgrein og þá var mér gert að hætta í yfirlæknisstarfinu. Ég nýtti þessi tvö ár til að fljúga á sjúkraþyrlu í Noregi samhliða vinnunni á svæfingunni. Svo var ég ráðinn aftur sem yfirlæknir yfir sjúkraflutningunum, fæ að halda áfram að svæfa og er læknir á björgunarþyrlu Landhelgisgæslunnar. Ég get ekki unnið eingöngu við skrifborð, þá fer ég bara að iða í skinninu. Mig grunar að það sama eigi við ykkur flest kæru lesendur, sjúkraflutningar eru ekki beint skrifborðsvinna.

Þegar ég var ráðinn í þetta starf fyrir fimm árum lagði ég upp með ákveðnar forsendur. Ég sagðist myndi gefa starfinu tvö ár og á þeim tíma þyrfti ég að sjá einhver viðbrögð við hugmyndum mínum um að bæta sjúkraflutninga hér á landi með þyrlum, annars myndi ég segja því lausu. Eftir ca. tvö ár voru komnar heilmiklar umræður um sjúkraflug með þyrlum þannig að ég átti erfitt með að bakka út. Rúmu ári seinna bar heilbrigðisráðherra hugmyndina um tilraunaverkefni með sjúkraþyrlu undir ríkisstjórnarfund sem ákvað að farið skyldi í það verkefni. Mánuði seinna skilaði ég ásamt fleirum heilbrigðisráðherra annarri skýrslu um framtíð sjúkraflutninga og hugmynd að miðstöð bráðaþjónustu utan sjúkrahúsa. Miðstöðin skyldi hafa umsjón yfir faglegri ráðgjöf fyrir sjúkraflutningamenn og lækna á vettvangi, sjá um gerð leiðbeininga fyrir bráðaþjónustuna, halda utan um endurmenntun og fleira. Skýrslunni var vel tekið og stóð til að vinna frekar úr þeim hugmyndum sem þar komu fram. Korteri seinna kom Covid, landið lokaðist, túrisminn stöðvaðist og landinn ferðaðist bara innanhúss. Þyrluhugmyndin var sett á ís enda ákveðinn forsendubrestur þegar ekki var lengur á vísan að róa með tryggingagreiðslur ferðamanna sem áttu að standa undir hluta kostnaðar. Á sama tíma var aðalforritari og meginhöfundur verkefnis um rafrænar sjúkraflutningaskýrslur fenginn að láni til þess að skrifa Covid rakningarappið og það verkefni fór einnig á ís. Öll verkefnin sem ég var að vinna að sem tengdust sjúkraflutningunum fóru einhvern veginn bara á ís. En fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Allt í einu gafst mér aukinn tími til að sinna öðrum mikilvægum verkefnum. Endurnýjun á leiðbeiningum og vinnuferlum fyrir bráðaþjónustu utan sjúkrahúsa fór í gang. Þeirri skútu var siglt út á ísilagt Covid hafið. Hún siglir víst áfram en fer hægt í krapanum sem stafar af Covid-19 því enn hefur enginn veitt fjármunum eða mannskap í þá vinnu þó margir sjálfboðaliðar hafi lagt hönd á plóg. En nú er komið vor og ísinn fer vonandi að þiðna, þjóðin er komin í hraðbólusetningarferli og flugfarmar af túristum eru á leið til landsins ef marka má fréttirnar. Vinnan er komin aftur í gang með rafrænar sjúkraflutningaskýrslur og á næstu vikum fáum við að sjá svokallaða „alfa“ útgáfu af appinu sem gefur okkur hugmynd um það sem er í vændum þó það verði ekki að fullu nothæft. Endanleg útgáfa er væntanleg innan árs. Vonandi fáum við svo fjármagn til þess að vinna frekar í leiðbeiningum og vinnuferlum, því þar vantar okkur sárlega verkefnisstjóra (og fullt af flinku fólki til að vinna vinnuna). Við verðum að fá ráðgefandi lækni í góðu fjarskiptasambandi, fyrir allt landið. Einhvern sem veit ALLT um bráðalækningar utan sjúkrahúsa. Ekki bara fyrir sjúkraflutningamenn heldur einnig fyrir lækna og aðra heilbrigðisstarfsmenn í dreifðari byggðum sem þurfa að geta hringt í vin þegar þeir lenda í erfiðum aðstæðum og vita ekki

Viðar Magnússon

svarið í viltu vinna milljón. Til þess að geta hjálpað og bjargað þeim sem á þurfa að halda, hvar sem þeir kunna að vera staddir á landinu. Og það þarf endurmenntun. Fyrir alla. Núna. Takk. Ég var ráðinn til fimm ára sem yfirlæknir bráðaþjónustu utan sjúkrahúsa. Sú staða rennur út eftir tæpa þrjá mánuði. Við það losna ég við skýrsluskrif og áhyggjur, vinnu um kvöld og helgar þegar ég er ekki á vakt. Þetta augnaráð konunnar minnar þegar hún sér að ég er andlega í vinnunni þó ég sé líkamlega heima. Sitjandi við tölvuna að vinna eitthvað tengt sjúkraflutningum. Þegar ég á að vera að sinna fjölskyldunni. Fara í sund með börnin eða háþrýstiþvo pallinn. Eða hvað það nú er sem fólk gerir á sunnudögum. Þarf ég að sækja aftur um? Fá þessa spurningu aftur. Hvar sérðu þig eftir fimm ár? Mig langar ekkert sérstaklega mikið til þess. Ég kann að meta frelsi og frítíma. Ég vil ekkert sérstaklega vera að skrifa skýrslur um kvöld og helgar. Konan mín verður dauðfegin ef ég vel að sækja ekki aftur um. En fyrir fimm árum sá ég ekki fyrir mér að ég yrði þar sem ég er núna. Nú hillir undir það að innan árs verðum við komin með samræmdar rafrænar sjúkraflutningaskýrslur um allt land. Mig langar að sjá það. Ég sé fyrir mér að innan 2-3ja ára verði komin sjúkraþyrla á suðvesturhornið og við farin að skoða hvernig hægt sé að tryggja þyrluviðbragð á fleiri stöðum og hvernig sé best hægt að láta það vinna saman með Landhelgisgæslunni og sjúkrafluginu á Akureyri. Ég sé fyrir mér að innan 4-5 ára verðum við komin með endurnýjaðar heildarleiðbeiningar fyrir bráðaþjónustu og sjúkraflutninga. Og innan fimm ára verður vonandi hægt að hringja í vin til þess að fá ráðgjöf í bráðum aðstæðum þegar virkilega á reynir, jafnvel 24/7. Allt þetta finnst mér ótrúlega spennandi. Allt þetta finnst mér vera eitthvað sem ég er búinn að lofa ykkur. Það er svolítið erfið tilhugsun að fylgja þessu ekki eftir. Að standa ekki við það loforð. Í vor á ég 22ja ára starfsafmæli í sjúkraflutningum. Ég komst fyrst í kynni við þessi störf vorið 1999 sem ungur læknir á neyðarbíl Borgarspítalans og Slökkviliðs Reykjavíkur og flest sem ég hef valið mér að gera faglega síðan þá hefur markast af þeim viðkynnum. Ég hef kynnst ótrúlega mörgum skemmtilegum einstaklingum og flottu fagfólki í gegnum þessa vinnu og eignast marga góða vini. Þannig að eins mikið og ég væri til í að eiga bara frí þegar ég er heima um helgar þá er mér svo annt um þennan málaflokk að mig langar að sjá þessi mál í höfn áður en ég sleppi af honum hendinni. Reynslan og þekkingin sem ég hef safnað á síðastliðnum 22 árum leggur grunn að því sem ég vonast til þess að geta gert fyrir málaflokkinn á næstu fimm árum. Fyrir málaflokkinn og fyrir ykkur, kæru sjúkraflutningamenn og bráðatæknar, hjúkrunarfræðingar og læknar, björgunarsveitarfólk og vettvangsliðar. Þið sem vinnið úti á götu og ofan í skurði, uppi á fjalli eða inni á baðherbergisgólfi til þess að hjálpa þeim sem er í vanda staddur á versta degi lífs síns. Þið sem linið þjáningar, verndið sómakennd, bjargið, lífgið við. Mest langar mig til þess að vera þarna með ykkur. Á vettvangi eða aftur í sjúkrabílnum. Mér finnst fátt meira gefandi en að vinna við þær aðstæður til að reyna að hjálpa þeim sem þurfa á hjálp að halda. En til þess að hægt sé að sinna þessu starfi á sem bestan hátt þarf einhver að „vera hann“. Einhver þarf að taka að sér að leiðbeina stjórnvöldum með það hvernig eigi að veita fjármunum til þess að bæta málaflokkinn. Einhver þarf að skrifa leiðbeiningarnar. Einhver þarf að vinna úr erfiðu málunum, atvikunum, kærunum. Pant ekki ég. Einhver þarf að tjá sig í ræðu eða riti, í blaðagreinum eða útvarpsviðtölum, um málefni sem tengjast sjúkraflutningum. Greinar og viðtöl sem oft skapa umræðu og jafnvel togstreitu. Einhverjum finnst gengið of langt og öðrum ekki nóg. Einhverjum finnst á sig hallað. Einhver skammast í mér eins og svo oft áður. Pant ekki ég. En mig langar samt að sjá þetta allt í höfn eftir fimm ár. Heillega starfsemi með samræmdum rafrænum skýrslum og leiðbeiningum, auðfengna ráðgjöf og skjóta hjálp á vettvangi (t.d. með þyrlu). Heilsteypt kerfi. Öfluga sjúkraflutninga, ekki bara á höfuðborgarsvæðinu, heldur á landinu öllu. Ég vona svolítið að einhver annar rétti upp hönd og segi „pant ég“, en kannski þarf ég að vera hann áfram. Ég á afmæli í dag. Sunnudag. Ég er 51 árs. Ég fór út að hjóla í morgun með góðum vini mínum. Hann er sjúkraflutningamaður. Við ræddum heilmikið um málaflokkinn á milli þess sem við þeystumst um stígana uppi á heiði. Svo horfði ég á dóttur mína spila fótboltaleik. Eftir það fór ég 12 km á róðravélinni minni því áramótaheitið var að róa 2021 km árið 2021. Það er gott að setja sér markmið. Ég er búinn með 694 km. Nú sit ég hér og skrifa um sjúkraflutninga og borða rjómatertu. Á afmælisdaginn minn. Sá sem segir að ég sinni þessu ekki af lífi og sál getur hoppað upp í r4$$*!ð á sér. Hvað á ég þá að gera þegar starfið verður auglýst aftur nú innan skamms? Þarf ég áfram að vera hann? Hverju á ég að svara? Hvar sé ég mig eftir fimm ár? Viðar Magnússon MD MBA yfirlæknir bráðaþjónustu utan sjúkrahúsa og sérfræðingur í svæfinga- og gjörgæslulækningum

This article is from: