MARGRÉTJÓNSDÓTTIR_listmálari
FORKOSTULEGT OG FAGURT GRAFÍKSALURINN/IPA GALLERY 18.8—1.9. 2019 Tryggvagata 17, 101 Reykjavík. Opið frá 14 -18 alla daga
FORKOSTULEGT OG FAGURT Verið velkomin á sýninguna en að þessu sinni dreg ég upp verk sem ég vann í Kjarvalsstofu, Cité Internationale des Art í París 2008-9 sem er uppistaðan í sýningunni. Verkið er málað með eggtemperu og má búast við að það hafi tekið einhverjum breytingum því ég blandaði pigmentið og málaði með lifandi efni. Verkið var síðast sýnt í Listasal Mosfellsbæjar fyrir 10 árum. Það voru einnig minni og litríkari verk á þeirri sýningu en þau hafa flest glatast á þessum tíma. Dvölin í Kjarvalsstofu var rétt eftir Hrun og er með því hræðilegasta sem ég hef upplifað því evran var himinhá og ekki hægt að nota VISA né að millifæra. Ég var vön að kaupa það efni sem ég þurfti þegar ég dvaldi í París og án þess að þurfa að hugsa um kostnaðinn, að kaupa 500gr. af litardufti á 70 þúsund ísl.(fyrir 11 árum) var eitthvað sem efnahagurinn bauð ekki uppá. Margir græddu á Hruninu en flestir festust í skuldaánauð og hafa þurft að þrauka síðan, skuldir eru víst skuldaranum sjálfum að kenna því hann tók þá ákvörðun að taka lán en óréttlæti, þjófnaður, okur og glæpsamlegt athæfi virðist hafa minna vægi og vera mun saklausara en ákvörðun smælingjans um að reyna að öðlast betra líf. Ég fæ oft þá gagnrýni að ég sé alltaf vælandi, fórnarlömb eru alltaf vælandi meðan ekki er hlustað en fjárhagslegt ofbeldi er talið sjálfsagt á landinu okkar og lítil sem engin viðurlög á gerendur. Það eru 11 ár frá Hruni og ennþá duga ekki útgreidd laun mín sem listgreinakennari fyrir föstum mánaðarlegum gjöldum, það gleymist oft að konur eru á mun lægri launum á vinnumarkaðinum, menntaðar kvennastéttir ná ekki að lifa af dagvinnulaunum. Í dag er meirihlutinn konur í listageiranum og verk seljast ekki nema undir tombóluverði (jólabasar) en um 90% menntaðra listamann vinna aðra vinnu til að geta starfað sem listamenn og leggja því margfalt meira til myndlistarinnar og þjóðfélagsins en þeir fá til baka. Þrátt fyrir frjósamt listalíf þá eru ennþá fordómar til listmenntunar og menntaðra listamanna og lítill munur gerður á áhugamönnum og fagmönnum. Það þarf bæði tíma og peninga til að vinna sem myndlistarmaður sem er helvíti erfitt en ef það tekst ekki þá gerist afskaplega lítið í þróun listamannsins. Það þarf að einangra sig til að geta þróað hugmyndir og einhverja tilfinningar sem ekki eru til orð yfir. Fyrir stuttu síðan átti að henda lífsstarfi mínu á Sorpu en verkin voru í geymslu í húsnæði sem átti að fá annað líf, margt var ónýtt, skemmt eða horfið, týnt og tröllum gefið. Forgengileikinn sem ég hef verið að vinna með er þegar farinn að vinna á mér og verkunum mínum, við eyðumst og verðum að engu. Art is Spiritual segir Anselm Kiefer en það hefur alltaf verið vitað og ástæðan fyrir að listamenn þrauka og halda áfram þrátt fyrir mótlæti. Bestu þakkir fyrir innlitið og að nenna að lesa hugleiðinguna mína.
Margrét er fædd í Reykjavík og hefur starfað sem myndlistarmaður í tæp 50 ár og stundað kennslu í 27 ár bæði við framhaldsskóla, grunnskóla og Myndlistarskóla Kópavogs, unnið við grafíska hönnun og rekið auglýsingastofu. Menntuð við Myndlista- og Handíðaskóla Íslands, diplóma í frjálsri myndlist og síðar diplóma í grafískri hönnun, mastersnám við Central Saint Martins Collage of Art í London og diplóma frá Kennaraháskólanum. Margrét hefur haldið á fimmta tug einkasýninga og tekið þátt í fjölda samsýninga hér á landi og erlendis. Einn af stofnendum Gallery Suðurgötu 7 sem var mikilvæg miðstöð í þróun framlínumyndlistar á Íslandi. Einn af stofnendum Hagsmunafélags Myndlistarmanna sem var undanfari Sambands Íslenskra Myndlistarmanna ásamt stofnun SÍM. Verk eftir Margréti eru í eign helstu listasafna landsins og hefur hún hlotið ferðastyrki og starfslaun listamanna. Sýningar á þessu ári: MYNDBYRTING ÞJÁNINGARINNAR SÍMsalurinn, Reykjavík. Einkasýning FORKOSTULEGT OG FAGURT GRAFÍKsalurinn/IPA Gallery. Einkasýning Nr. 3 Umhverfing´á Snæfellsnesi. Samsýning 22rd ECWS Exhibition Haapsalu vatnslitasýning, Eistlandi. Samsýning NORDIC CONNECTION Royal Watercolour Society of Wales. Samsýning Nánari upplýsingar um Margréti: http://mjons.blogspot.com - margret_jons@hotmail.com - gsm 847 8634