3 minute read

Heillandi að fá að heimsækja Nígeríu

FÓLKIÐ Í SJÁVARÚTVEGI | Heiða Hilmarsdóttir Heillandi að fá að heimsækja Nígeríu

 Heiða Hilmarsdóttir, skrifstofustjóri hjá Sölku Fiskmiðlun hf. á Dalvík, hefur unnið hjá fyrirtækinu frá stofnuð þess árið 1987.

Advertisement

Mitt starf felst aðallega í því að sjá um alla skjalagerð fyrir útflutninginn sem er nokkuð fjölbreyttur, tollskjalagerð og almenn skrifstofustörf. Samskipti við framleiðendur, kaupendur, flutningsaðila og banka eru líka partur af mínu starfi,“ segir Heiða Hilmarsdóttir, skrifstofustjóri hjá Sölku Fiskmiðlun hf. á Dalvík, sem er umboðsölu- og útflutningsfyrirtæki með útflutning á þurrkuðum fiskafurðum til Nígeríu sem sérsvið.

Heiða hefur unnið hjá Sölku frá stofnun fyrirtækisins árið 1987 ef frá eru talin fjögur ár þar sem hún var í barneignarfríi . „Svo þetta eru orðin ansi mörg ár,“ segir Heiða sem hafði þó komið nálægt sjávarútvegi áður en fyrirtækið Salka var stofnað . „Sem unglingur vann ég í frystihúsinu hér á Dalvík og í Vestmannaeyjum við síld,“ segir Heiða .

Hún segir upplifun sína af því að vinna í sjávarútvegi vera góða . „Sjávarútvegur er okkar stærsta atvinnugrein hér á Dalvík og það er bara ljúft og gott að vera ein af þeim sem vinna við þessa atvinnugrein,“ segir Heiða og hrósar aðstöðunni á Dalvík sérstaklega . „Í dag höfum við hér á Dalvík nýtt og tæknilega fullkomnasta fiskvinnsluhús landsins,“ bætir hún við .

Vinna hennar í sjávarútvegi hefur einnig gefið henni margt . „Það sem mér finnst mest heillandi við mitt starf er ég ég hef fengið tækifæri til að heimsækja Nígeríu sem að ég hefði annars aldrei haft tækifæri til og örugglega ekki látið mér detta í hug að heimsækja . Hef kynnst Nígeríubúum, menningu þeirra og eignast góða vini þar,“ segir Heiða sem hefur einnig tekið á móti fólki frá Nígeríu . „Margir af þeim hafa heimsótt okkur á Fiskidaginn mikla á Dalvík og verið þátttakendur á þeim degi með okkur .“

Hafa getað unnið sína vinnu Heiða segir að mesta þróunin í starfi hennar undanfarin ár tengist olíuverði . „Þar sem okkar viðskipti eru við land sem á allar sínar gjaldeyristekjur undir útflutningi á olíu þá hafa viðskiptin tekið mið af hækkun og lækkun á olíu . Í stuttu máli má segja að viðskiptin hafi verið mjög góð og ábatasöm fyrir okkar framleiðendur alla þessa öld, ef frá eru talin árið 2015 og árin þar á eftir meðan olíuverð var lágt . Og svo tíminn frá mars á þessu ári,“ útskýrir Heiða og bætir við . „Það góða er að eftirspurn eftir þurrkuðum fiskafurðum hefur ekki minnkað heldur hefur markaðurinn viðhaldið sér þar suður frá .“

Hún segir núverandi ástand ekki hafa haft afgerandi áhrif á starfsemi Sölku . „Við höfum getað stundað okkar vinnu hingað til . Það sem að ég finn kannski mest fyrir er að verð hefur lækkað og erfiðara er fyrir kaupendur okkar í Nígeríu að verða sér út um gjaldeyri og bankaábyrgðir sem veldur því að greiðslur til okkar berast hægar,“ segir Heiða að lokum .

ÆGIR Í 115 ÁR 1907 – 237 skip fórust á 25 árum

Í Landshagsskýrslunum fyrir árið 1895, er skýrsla um skipströnd við Ísland á tímabilinu frá 1879 til 1903, og er hún að mörgu leyti fróðleg. Þar má sjá, að á þessu tímabili – 25 árum – hafa farist við Ísland 237 skip alls, þar af eru 37 gufuskip og 200 seglskip. Skipbrotsmenn hafa alls verið 2110 og af þeim hafa farist 95 eða 4,5% af tölu skipbrotsmanna. Úr grein eftir Pál Halldórsson skólastjóra, febrúar 1907.

Í gegnum söguna

1908 – Nýr viti á Reykjanesi

Hinn 20. marz 1908 verður hætt að kveikja á hinum gamla vita á Reykjanesi og samtímis verður hinn nýi viti þar tendraður. Hann er hvítur blossaviti, sem sýnir tvíblossa á hverri hálfri mínútu: blossa um 1 s., myrkur um 6 s., blossa um 1. s., myrkur um 22 s. Hæð logans: 232 fet. Sjónarlengd: 22 kml. Ljósmagn: 23 kml. Ljósakróna 4. stigs. Vitinn er sýndur á 82 feta háum sívölum turni úr steini. Fast uppi við land hverfur vitinn fyrir hamarinn, sem gamli vitinn stendur á. Úr auglýsingu stjórnarráðs Íslands, marz 1908.

This article is from: