3 minute read

Fjarvera frá fjölskyldu helsta áskorunin

FÓLKIÐ Í SJÁVARÚTVEGI | Óttar Steingrímsson Fjarvera frá fjölskyldunni helsta áskorunin

Starfið um borð er mjög fjölbreytt og skemmtilegt. Eftir að ég byrjaði hér hefur reyndar ekki verið veidd ein loðna svo maður á alveg eftir að prufa nótaveiðarnar almennilega. Við dælum aflanum að aftan svo við þurfum ekki að taka pokann á síðuna sem mér finnst algjör snilld. Það flýtir fyrir og gerir starfið auðveldara,“ segir Óttar Steingrímsson, háseti og annar stýrimaður á uppsjávarskipinu Sigurði VE 15 frá Vestmannaeyjum.

Óttar, sem er Vestmannaeyingur í húð og hár, hefur unnið sem sjómaður í fjölda ára . Fyrst í sumarvinnu með námi en frá árinu 2012 hefur hann verið í fullri vinnu á sjó . „Ég var á Bergi VE í tæpt ár, bauðst þá pláss á Þórunni Sveinsdóttir VE og var þar til ársins 2018 . Þá frétti ég að staða hafi losnað á Sigurði VE, sótti um og fékk hana . Þá sannreyndist að menntun skilar sér þar sem ég fékk stöðu sem háseti og annar stýrimaður,“ segir Óttar sem sótti stýrimannaskólann í fjarnámi með sjómennsku .

Hann er á báðum áttum þegar hann er spurður um upplifun sína af vinnu í sjávarútvegi á Íslandi . „Mér finnst alltaf ákveðnir hópar í þjóðfélaginu halda að sjávarútvegurinn sé að arðræna þjóðina, sem er að mínu mati mikill misskilningur . Sjávarútvegurinn á Íslandi er fyrirmynd fyrir aðrar þjóðir sem líta upp til okkar og ekki að ástæðulausu . Einnig finnst mér skorta virðingu og traust milli útgerðar og sjómanna og dæmist það á báða aðila að mínu mati,“ segir Óttar . Reynsla til að stíga valdastigann Ýmislegt við starf sjómannsins er mjög heillandi að mati Óttars . „Fyrir mitt leyti t .d . það að geta unnið vel launað starf og búið í minni heimabyggð . Ef ég hefði alist upp á höfuðborgarsvæðinu efast ég hefði um að hafa farið þessa atvinnuleið í lífinu . En einnig heillaði að vera á flottu skipi og fá góð frí inn á milli,“ segir hann .

Óttar segir eina helstu áskorunina í starfinu vera andlegu hliðina og þá helst að vera fjarri fjölskyldu í lengri tíma, en hann á eiginkonu og tvö ung börn í landi . „Hin áskorunin tengt starfinu sjálfu er að standa sig sem best, sjúga í sig alla reynslu sem er fyrir ofan mann í valdastiganum svo maður verði í stakk búinn að ganga upp stigann verði óskað eftir því,“ segir hann ákveðinn .

Óttar segir að þróunin í uppsjávarveiðum hafi verið töluverð á undanförnum árum . „Skipin stækka, mannskapnum um borð fækkar, tækni skipanna þróast og reynt er að auka verðmæti hvers kílós úr sjó með betri kælikerfum um borð . Einnig fást meiri gæði eftir því sem skipin eru stærri þar sem aflinn fer betur i skipi sem veltur minna, ég tala nú ekki um þegar sigla þarf með aflann úr Smugunni . Einnig er hægt að sækja stærri farma með stærri skipum og þar af leiðandi fækkað stímunum,“ segir Óttar að lokum .

ÆGIR Í 115 ÁR Í gegnum söguna 1937 – Ávarp til lesenda Ægis

Með þessu hefti Ægis hefst 30. árgangur þess tímarits, sem á að fjalla um málefni sjómannastéttarinnar íslenzku. Ægir hefir verið svo heppinn, að frá upphafi hafa aðeins tveir menn haft ritstjórn hans með höndum, og er það sennilega meir, en hægt er að segja um nokkurt annað íslenzkt tímarit. Ég geng þess ekki dulinn, að þvi muni fylgja nokkur vandi að setjast í sæti Sveinbjarnar Egilsonar, og það þeim mun heldur, er hann hefir haft ritstjórn blaðsins í tuttugu og þrjú ár og orðinn öllum hnútum gagnkunnur. Ávarpsorð Lúðvíks Kristjánssonar, janúar 1937.

 Óttar Steingrímsson, háseti og annar stýrimaður á uppsjávarskipinu Sigurði VE 15, hefur verið á sjó frá árinu 2012.

This article is from: