2 minute read

Fjölbreytilegt milli tímabila

 Högni Bergþórsson, tæknilegur framkvæmda- og markaðsstjóri Trefja, er í miklum samskiptum við bæði sjómenn og útgerðirnar.

FÓLKIÐ Í SJÁVARÚTVEGI | Högni Bergþórsson „Fjölbreytilegt milli tímabila“

Högni Bergþórsson hefur starfað hjá bátaframleiðandanum Trefjum í 23 ár en fyrirtækið var stofnað árið 1978. „Við hönnum, seljum og þjónustum fiskibáta.Við erum bæði á innlendum og erlendum mörkuðum, yfirleitt fara 70-90% af okkar bátum á erlenda markaði,“ segir Högni um starfsemi Trefja en hjá fyrirtækinu starfa um 60 manns.

Högni er tæknilegur framkvæmda- og markaðsstjóri fyrirtækisins og er því stór hluti af hans vinnu á skrifstofu fyrirtækisins í Hafnarfirði . „Þetta eru mikið samskipti innanhúss og hefðbundin skrifstofuvinna með fundahöldum og þess háttar . En starfið getur verið fjölbreytilegt milli tímabila,“ segir Högni sem hefur mikla reynslu af bátasmíðum . „Ég vann sjálfur við bátasmíðar fyrir margt löngu, er menntaður tæknifræðingur og hef mikinn áhuga á þessu . “

Þrátt fyrir að hafa ekki unnið á sjó sjálfur hefur hann kynnst sviðinu í heild mjög vel í samskiptum sínum við sjómenn og útgerðirnar . „Samskiptin þar á milli eru mjög mikil og við fáum miklar upplýsingar í gegnum þau,“ segir Högni sem fer þó reglulega út á sjó í sínu starfi . „Ég fer stundum með þegar er verið að prófa bátana fyrir afhendingu . Við göngum auðvitað úr skugga um að allt sé eins og það á að vera . Það er fínt að komast aðeins út af skrifstofunni og prófa þessi tæki .“

Þróunin á sviði bátasmíða hefur verið mikil undanfarin ár . „Aðal þróunin hvað okkur varðar er að bátarnir eru orðnir öflugri, stærri og afkastameiri en áður var . Stærðartakmörkunum var breytt í nokkrum skrefum á síðustu 20 árum og nú mega bátarnir vera 15 metra langir . Bátunum hefur um leið fækkað mikið á þessum tíma og aflaheimildir færst á færri hendur . Það munar mikið um það,“ segir Högni Bergþórsson að lokum .

ÆGIR Í 115 ÁR 1950 – Landhelgismál

„Fiskiþingið lætur í ljós ánægju sina yfir þvi, að ríkisstjórnin skuli hafa sagt upp landhelgissamningnum við Breta frá því 1901. Telur fiskiþingið að stefna beri að því að fá landgrunnið viðurkennt sem íslenzka landhelgi..“ – „Telur fiskiþingið rýmkun landhelginnar lífsnauðsyn til þess að hindra eyðileggingu fiskimiðanna og þann voða, sem af því leiddi fyrir landsmenn.“ Úr ályktun 20. Fiskiþings, janúar 1950.

Í gegnum söguna

1953 – Plastbátar

Fyrsti plastbáturinn, sem gerður hefur verði í Noregi, var sýndur almenningi í Lilleström um miðjan nóvember. Þetta er róðrarbátur, sem er helmingi léttari en bátur af sömu stærð gerður úr tré, og kostar 600 krónur norskar, en viðhaldskostnaður mun verða lítill. Frétt, september 1953.

This article is from: