3 minute read

Það þarf að berjast fyrir öllu

FÓLKIÐ Í SJÁVARÚTVEGI | Kolbeinn Agnarsson „Það þarf að berjast fyrir öllu“

Skyldur mínar eru að reka mál fyrir sjómenn sem koma upp og annast allt í kringum mál sem koma inn á borð. Svo snýst starfið um daglegan rekstur á félaginu, að leigja út íbúðir, greiða út íþróttastyrki, endurgreiða tannlæknakostnað og allt annað sem félagið gerir,“ segir Kolbeinn Agnarsson, formaður sjómannafélagsins Jötuns í Vestmannaeyjum en hann tók við því starfi í september árið 2019 eftir að hafa verið varaformaður í átta ár.

Hann hrósar samstarfinu við útgerðirnar í Vestmannaeyjum . „Við höfum verið heppin með samstarf við útgerðirnar hérna í Eyjum . Það er afar lítið sem bjátar á og ef það er eitthvað þá tekur maður bara upp símann eða skreppur niður eftir og þá er það bara græjað,“ segir Kolbeinn .

Kolbeinn hefur verið á sjó í nær 30 ár á skipum eins og Bylgju, Huginn, Ísleifi, Vestmannaey og er núna á Breka . Hann er frá Selfossi en fór á sjó eftir að hafa kynnst konunni sinni sem er frá Vestmannaeyjum . „Það var prufað að fara með prinsinn, sem hafði aldrei farið á sjó, til Eyja og á sjó eitt sumar hjá ættarútgerðinni . Við erum búin að vera hérna síðan,“ segir Kolbeinn og bætir við að hann hafi verið meira og minna sjóveikur fyrsta árið .

Boltinn hjá þeim Hann kann vel við sig í sjávarútvegi þótt ýmislegt megi að hans sögn betur fara . „Það besta við sjómennskuna eru fríin . En almennt finnst mér sjávarútvegur í góðu standi . Það er búið að byggja þetta mikið upp . En það er alltaf sama klúðrið að reyna að ná einhverjum kjörum út úr Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi . Menn þar á bæ eru ekkert að gera meira en þeir þurfa . Það þarf að berjast fyrir öllu,“ útskýrir Kolbeinn .

Hann var í samninganefnd í verkfallinu árið 2017 og er einnig í núverandi samninganefnd sem semur við SFS fyrir hönd sjómanna . „Boltinn er hjá þeim með næstu fundahöld en næstu skref hjá okkur, sem aðilum að ASÍ og Sjómannafélagi Íslands, er að vísa þessu til Ríkissáttasemjara ef þeir ætla ekki að ræða við okkur . Það er bara svo leiðinlegt að þurfa að gera þetta svona . Við erum nokkrir karlar í þessum félögum sem vildum semja um eitthvað lítið út 2021 út af ástandinu í heiminum en það fékk ekki sérstakan hljómgrunn heldur,“ segir Kolbeinn .

Hann segir að auk þess að hafa haft áhrif á samningaviðræður hafi núverandi ástand haft áhrif á störf sjómanna . „Bæði hefur ekki verið róið eins stíft og verðin farið niður að hluta,“ segir Kolbeinn sem hefur sjálfur tvisvar sinnum þurft að fara í 14 daga sóttkví . „Um leið og það fréttist að einhver tengdur mér hafi umgengist einhvern smitaðan þá var hringt í Landhelgisgæsluna og ég fór í land . Þegar ég var svo búinn í sóttkví fór ég einn túr en í þeim næsta eftir það fór ég út um miðjan dag og um kvöldið var farið með okkur þrjá í land á nýjan leik,“ segir Kolbeinn .

 Kolbeinn Agnarsson hefur verið formaður sjómannafélagsins Jötuns í Vestmannaeyjum síðan í september árið 2019.

ÆGIR Í 115 ÁR 1966 – Fiskafli heimsins

Nýlega er komin út á vegum Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna ársskýrsla um fiskaíla allra landa heims árið 1965, nema meginlands Kína. Samkvæmt skýrslunni var alLs landað í heiminum 52,4 millj. lesta. Er það einungis 0,4 millj. lesta meira en á árinu 1964. Frétt, desember 1966.

Í gegnum söguna

1968 – Ægir - hið nýja varðskip

Varðskipið ÆGIR er smíðað af skipasmíðastöðinni Álborg Værft A/S samkvæmt fyllstu kröfum flokkunar félagsins Lloyd’s, skipaskoðunar ríkisins og sérstökum óskum Landhelgisgæzlunnar, með tilliti til notkunar þess sem alhliða varð- og björgunarskips við strendur Islands, mikils gangs í vondum veðrum og sérstakrar styrkingar fyrir siglingu í ís. Frétt, júlí 1968.

This article is from: