Framúrskarandi dætur gefur þarfa og mikilvæga innsýn í daglegt líf ungra kvenna í Mið-Austurlöndum á miklum umbreytingatímum. Staða kvenna í heimshlutanum hefur tekið breytingum á undanförnum árum og nýrri kynslóð fylgja sjálfstæðar ungar konur sem sækja menntun og vilja láta til sín taka á vinnumarkaðinum.
Skrásetjari bókarinnar er blaðakonan Katherine Zoepf sem hefur búið og starfað í Mið-Austurlöndum í meira en áratug. Hún lýsir flóknum veruleika ungra kvenna þar á einlægan og hlutlausan hátt. Hún dvelur í Sýrlandi fyrir borgarastyrjöldina og lýsir þjóðfélagi á tímamótum, í Líbanon, sem á yfirborðinu er frjálslyndara en jafnframt mótsagnakenndara, en önnur ríki Mið-Austurlanda, Abú Dabí þar sem konur eru í síauknum mæli á frjálsum vinnumarkaði, í Sádi-Arabíu þar sem konur hafa mótmælt akstursbanninu og storkað forræði karla og loks í Egyptalandi þar sem konur gegndu veigamiklu hlutverki í uppreisninni og arabíska vorinu sem fylgdi í kjölfarið.